Showing 3 results

Authority record
Skáld

Gísli Ólafsson (1885-1967)

  • S00398
  • Person
  • 02.01.1885-14.01.1967

Fæddur á Eiríksstöðum í Svartárdal, foreldrar hans voru Ólafur Gíslason og Helga Sölvadóttir. Gísli bjó lengi vel á Eiríksstöðum með foreldrum sínum. Hann vann ýmis störf utan heimilis og sótti einn vetur nám í unglingaskóla hjá Árna Hafstað í Vík. Gísli kvæntist árið 1914 Jakobínu G. Þorleifsdóttur og voru þau hjón í húsmennsku á bæjum í Svartárdal fyrstu hjúskaparár sín. Árið 1924 fluttust það til Blönduóss þar sem Gísli stundaði daglaunavinnu. 1928 fluttu þau til Sauðárkróks þar sem þau bjuggu til æviloka, húsið sem þau bjuggu í við Suðurgötu 11b nefndu þau Eiríksstaði. Gísla var í blóð borin rík hagmælska og hann byrjaði snemma að yrkja. Fyrsta bók hans, Ljóð, kom út 1917, Nokkrar stökur kom út 1924. Samantekt fyrri ljóða ásamt nýjum viðauka, Á brotnandi bárum, kom út 1944. Síðasta bók hans, Í landvari, kom út árið 1960. Nokkur þekkt sönglög hafa verið samin við texta hans, t.d. Myndin þín eftir Eyþór Stefánsson. Gísli hlaut listamannalaun ríkisins frá 1945. Gísli lék einnig á orgel og var góður kvæðamaður.
Gísli og Jakobína eignuðust þrjú börn og ólu einnig upp dótturson sinn.

Jón Jónsson Skagfirðingur (1886-1965)

  • S00010
  • Person
  • 08.01.1886-21.01.1965

Jón Jónsson, síðar nefndur Jón Skagfirðingur, var fæddur í janúar 1886 á Valabjörgum í Skörðum. Foreldrar hans voru Jón Guðvarðarson og Oddný Sæmundsdóttir og áttu þau tvö önnur börn, þau Moniku og Nikódemus. Jón ólst upp að Valabjörgum til 15 ára aldurs en þá flutti hann með foreldrum sínum að Holtskoti í Seyluhreppi. Árið 1915 kvæntist Jón Soffíu Jósafatsdóttur frá Krossanesi og eignuðust þau þrjú börn; Sæmund, Hansínu og Valtý. Jón og Soffía bjuggu fyrst í Holtskoti, síðan í Glaumbæ og svo á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd. Árið 1941 fluttu þau til Sæmundar sonar síns að Bessastöðum í Sæmundarhlíð. Soffía lést árið 1960 og eftir dauða hennar orti Jón kvæðið um Ekkilinn í Urtuvík.
Jóni er lýst svo: ,,Jón er prýðilega greindur maður, gjörhugull og víðlesinn. Hann er algjörlega sjálfmenntaður. Lítið hefur farið fyrir honum á veraldar-vettvangi, því að hann er maður hlédrægur og óhlutdeilinn og flíkar ógjarnan sínum innra manni. Fíngert og ljóðrænt eðli hans birtist einkanlega fáum og völdum vinum, - og í stökum hans og kvæðum, sem orðið hafa til á stopulum tómstundum fátæks bónda."

Jón virðist hafa byrjað ungur að yrkja en það virðist hafa verið honum mikil hvatning að hitta Stephan G. Stephansson árið 1917 og fá tækifæri til þess að yrkja til hans. Stephan heillaðist mjög að kveðskapi Jóns og heimsótti hann í Holtskot þar sem þeir ræddu lengi um kveðskap. Jafnframt var Jóni vel til vina við Stefán frá Hvítadal og Friðrik Hansen og hvöttu þeir hann mjög til að virkja skáldskapargáfu sína. Jón lést árið 1965 þá 79 ára gamall.

Stefán Vagnsson (1889-1963)

  • S00027
  • Person
  • 26.05.1889-01.11.1963

Stefán Vagnsson var fæddur í Miðhúsum í Akrahreppi, Skagafirði þann 26. maí 1889. Hann var bóndi, skáld og kennari á Flugumýri, Sólheimum og Hjaltastöðum í Akrahreppi. Hann var síðast búsettur á Sauðárkróki og starfaði þar sem skrifstofumaður. Kona hans var Helga Jónsdóttir (1895-1988). Hann lést á Sauðárkróki 1. nóvember 1963.