Sýnir 181 niðurstöður

Nafnspjöld
Bóndi

Sigmar Þorleifsson (1890-1968)

  • S03370
  • Person
  • 15.10.1890-27.02.1968

Sigmar Þorleifsson, f. á Ljótsstöðum á Höfðaströnd 15.10.1890, d. 27.02.1968 á Sauðárkróki. Foreldrar: Þorleifur Pálsson bóndi á Hrauni í Unadal og kona hans Margrét Ingólfsdóttir. Sigmar ólst upp hjá foreldrum sínum og vann að búi þeirra þar til hann giftist. Hann bjó í Svínavallakoti 1913-1920, á Þverá í Hrolleifsdal 1920-1928 og á Bjarnastöðum í Unadal 1928-1930. Þegar hann hætti búskap flutti hann með konu sinni í Nöf á Hofsósi. Þar vrou þau til vorsins 1936 og fluttu þá í Bræðraborg, sem synir þeirra höfðu byggt. Eftir að Sigmar varð ekkil fluttist hann til Hjálmars sonar síns á Hofsósi og bjó þar þangað til hann keypti Gilsbakka á Hofósis 1957. Þar bjó hann svo til æviloka.
Maki: Kristjana Sigríður Guðmundsdóttir (1889-1945). Þau eignuðust átta börn.

Guðlaug Arngrímsdóttir (1929-2017)

  • S03319
  • Person
  • 14.01.1929-31.03.2017

Guðlaug Arngrímsdóttir fæddist í Litlu-Gröf, Skagafirði 14. Janúar 1929. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Sauðárkróki 31. mars, 2017.
Foreldrar hennar voru Arngrímur Sigurðsson (f. 31. desember 1890 og d. 5 desember 1968) og Sigríður Benediktsdóttir (f. 9 júní 1886 og d. 4 ágúst 1948). Bróðir Guðlaugar var Þórir Angantýr (f. 2 janúar 1923 og d. 30 desember 2000). Uppeldisbróðir Guðlaugar var Ragnar Magnús Auðunn Blöndal (f. 29 júní 1918 og d. 15 september 2010).
Guðlaug gekk í barnaskóla í Hátúni einn vetur og í Varmahlíð svo fór hún í gagnfræðaskólann á Sauðárkróki. Hún vann á Akureyri um tíma í verslun en snéri aftur í Skagafjörð þegar móðir hennar lést. Síðar fór hún í Húsmæðraskólann í Reykjavík. Guðlaug var bóndi og húsmóðir í Litlu-Gröf en starfaði einnig utan heimilis. Meðal annars í félagsheimilinu Miðgarði frá því að það var opnað 1967, á haustin í sláturhúsinum, hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, í Kjöthöllinni og sem leiðbeinandi hjá dagvistun aldraðra. Guðlaug tók til sín börn í sumardvöl í sveit. Hún bjó með föður sínum Arngrími og Þóri Angantýr bróður sínum. Guðlaug var ógift og barnlaus.

Hjálmar Jónsson (1796-1875)

  • S03424
  • Person
  • 29.09.1796-25.07.1875

Hjálmar Jónsson skáld betur þekktur sem Bólu-Hjálmar fæddist á Hallandi í Eyjafirði 1796. Hann lést 25. júlí 1875 í Brekkuhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði. Hjálmar var bóndi og ljóskáld og bjó lengst af í Skagafirði. Foreldrar hans voru Marsibil Semingsdóttir fædd 1769 og Jón Benediktsson fæddur 1763. Heimildum ber ekki saman um það að Jón Benediktsson hafi raunverulega verið faðir Hjálmars. Snemma var grunur um að séra Sigfús Jónsson prófastur á Höfða í Höfðahverfi hafi verið faðir hans. Hjálmar daðraði við þá hugmynd sjálfur.

Í ævisögum um Hjálmar er sagan um fæðingu hans sögð þannig að móðir hans hafi verið gestkomandi að Hallandi er hún ól son sinn. Þegar hann var einungis næturgamall lagði vinnukona á Hallandi af stað með hann til Hreppsstjórans í poka til þess að hægt væri að ráðstafa drengnum. Á leið sinni sóttist hún eftir næturgistingu hjá Sigríði á Dálksstöðum. Morgunin eftir var illviðri og þvertók Sigríður fyrir að lengra væri farið með barnið og sagðist fara með hann sjálf þegar veðrið batnaði. Af því varð aldrei, heldur tók hún hann til fósturs og gekk honum í móðurstað fyrstu árin. Á sjötta aldursári dvaldi hann einn vetur (1800-1801) hjá Oddi Gunnarssyni bónda á Dagverðareyri. Hjálmar ólst upp við algeng sveitastörf og reyndist þar liðtækur. Hann fór að stunda sjóróðra og segir hann sjálfur frá að hafa róið út frá Dagverðareyri. Þegar Hjálmar var 14 ára lést fósturmóðir hans. Talið er að Jóhann sonur Sigríðar á Dálksstöðum hafi kennt Hjálmari að lesa en fátt er vitað um menntun hans í æsku. Hann gekk ekki í skóla en af kveðskap sem er til eftir hann frá þessum árum má sjá að hann hafi snemma verið lesgjarn og fróðleiksfús. Í nokkrum vitnisburðum séra Jóns Þorvarðarsonar kemur meðal annars fram að Hjálmar er efnilegur og vel skarpur í gáfum. Eftir lát fósturmóður sinnar fór hann að Blómsturvöllum þar sem Jón faðir hans og Valgerður dóttir Sigríðar voru farin að búa.

Vorið 1820 fór Hjálmar vestur í Blönduhlíð í Skagafirði og gerðist vinnumaður á Silfrastöðum til vorsins 1821. Á næsta bæ bjó móðursystir hans, Guðbjörg Semingsdóttir fjölskylda hennar. Dóttir hennar Guðný og Hjálmar fóru að vera saman og eignuðust barn sumarið 1821 sem lést mánuði síðar. Ári síðar giftu þau sig. Þau bjuggu á ýmsum bæjum í Skagafirði næstu árin og var mjög þröngt í búi. Þau áttu sjö börn, fimm af þeim komust á fullorðins aldur.
Hann var kenndur við Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð þar sem hann bjó í rúm 15 ár. Hjálmar átti í deilum við sveitunga sína og kvað gjarnan vísur um þá og ávirðingar þeirra. Hann varð einangraður frá öðrum, menn hræddust hann og var illa við hann. 1838 var hann sakaður um sauðaþjófnað en var sýknaður af þeim ákærum. Hann hraktist frá Bólu ári seinna. Þaðan fór hann að Minni-Ökrum. Þar missti hann konu sína sem dó 24. júní 1845. Hann var á Minni-Ökrum í 28 ár. Með árunum varð hann nær ófær til allra verka en gat áfram skrifað. Hann háði ævilanga baráttu við fátækt og strit. Frá Minni-Ökrum fór hann að Grundargerði í Akrahreppi og þaðan að Starrastöðum í Tungusveit og var þar í 2 ár í húsamennsku með Guðrúnu, yngstu dóttur sinni. Þaðan fóru þau að Brekku nálægt Víðimýri. Eftir 5 vikna dvöl þar í beitarhúsum dó hann 5. ágúst 1875, á 80. aldursári.

Í kveðskap Hjálmars fjallar hann gjarnan um slæm kjör og samferðamenn sína. Hjálmar þótti óvæginn og illskeyttur. Þrátt fyrir að eiga sér marga óvildarmenn átti hann líka marga vini og var hann fenginn til að skemmta í veislum. Honum var margt til lista lagt. Hann var þjóðfræðisafnari, listaskrifari, góður kvæðamaður og þótti hafa merkilega frásagnargáfu og var því eftirsóttur til ræðuhalda á mannamótum.
Kveðskapur eftir Hjálmar Jónsson er mikill að vöxtum, rímur, ljóð og lausavísur. Eftir hann hafa einnig varðveist fagurlega útskornir gripir.

Eysteinn Steingrímsson (1965-)

  • S03449
  • Person
  • 11.08.1965-

Eysteinn Steingrímsson, f. 11.08.1965. Foreldrar: Steingrímur Vilhjálmsson (1924-2014) og Anna M. Jónsdóttir, sem bjuggu á Laufhóli í Viðvíkursveit.
Búsettur á Laufhóli.
Maki: Aldís Axelsdóttir.

Kolbeinn Högnason (1889-1949)

  • S03459
  • Person
  • 25.06.1889-14.05.1949

Kolbeinn Högnason, f. í Kollafirði á Kjalarnesi 25.06.1889, d. 14.05.1949. Foreldrar: Högni Finnsson frá Meðalfelli og Katrín Kolbeinsdóttir. Kolbeinn tók við búi í Kollafirði af afa sínum, Kolbeini Eyjólfssyni. Bjó hann þar til 1943, er hann flutti til Reykjavíkur. Kolbeinn varð þjóðkunnur fyrir kveðskap sinn. Hann gaf út nokkrar smá sögur og einnig ljóðabækurnar Kræklur, Olnbogabörn, Hnoðnaglar, Kurl og Kröfs.
Maki 1: Guðrún Jóhannsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn. Þau skildu.
Maki 2: Málfríður Jónsdóttir frá Bíldsfelli. Þau eignuðust tvö börn.

Sigurður Guðbjartur Helgason (1893-1975)

  • S03482
  • Person
  • 09.11.1893-18.01.1975

Sigurður Guðbjartur Helgason, f. í Garðshorni á Höfðaströnd 09.11.1893, d. 18.01.1975. Foreldrar: Helgi Pétursson bóndi á Kappastöðum í Sléttuhlíð og kona hans Margrét Sigurðardóttir. Sigurður var í fyrstu hjá afa sínum og ömmu á Kappastöðum en fór með foreldrum sínum að Geirmundarhóli í Hrollleifsdal 1902 og var þar í átta ár. Haustið 1911 fór hann vetrarmaður að Framnesi í Blönduhlíð og var þar síðan vinnumaður næsta ár. Um sumarið var hann sendur í vegavinnu á Sauðárkrók þar sem byrjað var að leggja Skagfirðingabrautina. Síðan tók við skepnuhirðing um veturinn og síldarvinna í Siglufirði sumarið 1912. Hann fór þá heimtil foreldra sinna um haustið og var um veturinn 1912-1913 við hirðingu hjá Sveini Árnasyni í Felli. Þar var hann síðan samfleytt til ársins 1919 að hann fór í vinnumennsku að Ási í Hegranesi til eins árs. Þaðan fór hann að Ríp og var þar til 1924, að hann fluttist um tíma að Hellulandi sem lausamaður og tók að sér umsjón með dragferjunni á Vesturósnum fyrir Hróbjart Jónasson mág sinn. Síðan fór hann aftur að Ríp og var þar til 1929 að hann fór að Hamri til Vilhelmínu systur sinnar og var þar til 1935. Þar ko hann sér upp nokkrum bústofni sem hann færði með sér um Utanverðunes þar sem hann var í húsmennsku til 1947 en þáflutti hann með skepnur sínar til Sauðárkróks og átti þar heimili til dauðadags. Bjó hann þá hjá Ármanni bróður sínum og Sigurbjörgu Pétursdóttur konu hans að Ránarstíg 2. Þar rak hann talsverðan fjárbúskap og fékk land á erfðafestu úr Sauðárkrjörð, túnbletti norðan í Sauðárhæðinni og út í Sauðárgilið. Byggði hann fjárhús og hlöðu.
Sigurður var ókvæntur og barnlaus.

Jón Trausti Pálsson (1931-2019)

  • S03533
  • Person
  • 05.01.1931-20.09.2019

Jón Trausti Pálsson, f. í Nýjabæ á Hólum 05.01.1931, d. 20.09.2019. Foreldrar: Páll Jónsson og Guðrún Gunnlaugsdóttir í Brekkukoti í Hjaltadal, síðar búsett á Laufskálum.
Trausti fluttist ungur með foreldrum sínum í Brekkukot og ólst þar upp. Hann byggði Laufskála með foreldrum sínum og þar var félagsbú þar til þau Alda tóku alfarið við búrekstrinum árið 1965. Trausti gekk í Bændaskólann á Hólum og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur 1952. Hann fór einnig suður til vinnu, var á Vellinum og á vertíð frá Akranesi. Meðfram búskapnum vann hann ýmis önnur störf, svo em akstur á vörubíl og skólabíl og við ökukennslu.
Trausti og Alda brugðu búi 1982 og fluttu þá á Sauðárkrók. Þaðan fluttu þau í Hóla 1984 og þar starfaði Trausti sem fjósameistari ríkisins og síðar sem umsjónarmaður fasteigna Hólaskóla. Á Hólum bjuggu þau til 1999 er þau fluttu aftur á Sauðárkrók.
Trausti sinnti ýmsum félags- og trúnaðarstörfum. Hann sat um árabil í hreppsnefnd Hólahrepps og var oddviti rá 1980-1982 og 1990-1994. Hann var einnig virkur í starfi UMF Hjalta. Þá var hann um ellefu ára skeið sparisjóðsstjóri í Sparisjóði Hólahrepps. Einnig átti hann sæti í sóknarnefnd Hólakirkju. Þá átti hann sæti í stjórn byggingasamvinnufélagsins Búhölda sem byggði m.a. íbúðir við Hásæti og Forsæti á Sauðárkróki, en þau voru meðan fyrstu íbúa í Hásæti.
Maki: Alda Björk Konráðsdóttir (1942-2007). Þau eignuðust þrjú börn.

Einar Baldvin Guðmundsson (1841-1910)

  • S02187
  • Person
  • 04.09.1841-28.01.1910

Einar Baldvin Guðmundsson, f. á Hraunum í Fljótum 04.09.1841, d. 28.01.1910 í Haganesvík. Foreldrar: Guðmundur Einarsson (1811-1841) bóndi, hreppstjóri og umboðsmaður á Hraunum og kona hans Helga Gunnlaugsdóttir (1822-1880) frá Neðra-Ási í Hjaltadal. Guðmundur lést rúmum mánuði eftir að Einar fæddist en hann ólst upp á Hraunum með móður sinni og síðari manni hennar, Sveini Sveinssyni frá Haganesi. Hann lærði undir skóla hjá sr. Daníel Halldórsyni í Glæsibæ við Eyjafjörð en sótti ekki um skólavist í latínuskólanum eins og til stóð heldur lagði fyrir sig trésmíði, járnsmíði og skipasmíði. Bóndi á Hraunum 1866-1893 en brá búi er hann missti aðra konu sína. Var þó áfram á Hraunum næstu árin en börn hans tóku við jörðinni. Auk búsins rak Einar útgerð og gerði út á þorsk og hákarl. Einnig stundaði hann skipasmíðar og aðrar smíðar. Hann reisti stórt timburhús á Hraunum 1874-75 sem var annað í röð timburhúsa til íbúðar í sýslunni. Einnig jók hann æðarvarp á jörðinni til muna. Árið 1878 sigldi Einar til Noregs að kynna sér veiðiaðferðir Norðmanna, fiskverkun, bátasmíði og ýmsar tæknilegar nýjungar. Eftir heimkomuna hóf hann tilraunir með síldveiðar ásamt mági sínum, Snorra Pálssyni verslunarstjóra á Siglufirði. Einar stóð fyrir miklum brúarbyggingum í Skagafirði framundir 1890 en einnig fór hann í Borgarfjörð og byggði fyrstu stórbrúna þar, yfir Hvítá á Barnafossi. Hann smíðaði fyrstu dragferjuna hér á landi á Vesturós Héraðsvatna. Nokkru eftir að hann brá búi stofnsetti hann verslun í Haganesvík, um 1898 og rak hana í samlagi við Gránufélagið til æviloka. Einar var hreppstjóri Holtshrepps 1866-1872 og 1890-1898, oddviti 1882-1884 og 1886-1892. Sýslunefndarmaður 1874-1877 og 1889-1895. Alþingismaður Skagfirðinga 1874-1878 er hann sagði af sér þingmennsku og hélt utan til Noregs. Hann var sæmdur heiðursmerki dannebrogsmanna og veitt verðlaun úr sjóði Kristjáns konungs IX.
Eftir Einar liggja ýmsar greinar í blöðum, m.a. grein um bátasmíði sem birtist í Andvara.
Maki 1: Kristín Pálsdóttir (1842-1879) frá Viðvík. Þau eignuðust átta börn sem upp komust.
Maki 2: Jóhanna Jónsdóttir(1839-1893) frá Glaumbæ. Þau eignuðust eitt barn sem dó í æsku.
Maki 3: Dagbjört Magnúsdóttir (1865-1937). Þau eignuðust þrjú börn.

Guðrún Bergsdóttir (1867-1956)

  • S02918
  • Person
  • 14. okt. 1867 - 29. feb. 1956

Guðrún Bergsdóttir, f. á Mjóafelli í Stíflu. Foreldrar: Bergur Jónsson bóndi á Þrasastöðum í Stíflu og kona hans Katrín Þorfinnsdóttir húsfreyja. Maki 1: Magnús Gunnlaugsson (1845-1912) frá Garði í Hegranesi. Guðrún var seinni kona hans. Þau eignuðust níu börn sem upp komust. Með Magnúsi bjó Guðrún fyrst að Hamri í Stíflu, árið 1886, en ári síðar fluttu þau að Tungu í Stíflu og bjuggu þar næstu þrjú árin. Þaðan að Saurbæ í Kolbeinsdal og voru þar í ellefu ár. Árið 1901 keyptu þau Ytri-Hofdali. Magnús lést árið 1912 en Guðrún kvæntist aftur árið 1916 Sigtryggi Jóhanni Guðjónssyni sem áður hafði verið ráðsmaður á Hofdölum. Þess er getið að Guðrún hafi gengið í öll störf, svo sem vefnað, vegghleðslu, trésmíði og tóvinnu. Hún átti sæti í hreppsnefnd Viðvíkurhrepps 1910-1914, líklega fyrst kvenna í Skagafirði til að gegna slíku trúnaðarstarfi. Sigtryggur og Guðrún eignuðust ekki börn saman en ólu upp tvo dóttursyni Guðrúnar.

Jóhann Oddsson (1864-1949)

  • S03169
  • Person
  • 07.07.1864-14.04.1949

Jóhann Oddsson, f. á Krossi í Óslandshlíð 07.07.1864, d. 14.04.1949 á Siglufirði. Foreldrar: Oddur Hermannsson (1822-1894) bóndi á Krossi og víðar og kona hans Sigríður Bjarnadóttir (1833-1920). Jóhann fór ungur til sjávar og var mörg ár á Siglunesi við hákarla- og þorskveiðar. Jóhann missti konu sína og fluttist eftir það til Skagafjarðar með börn þeirra. Fyrst að Rein til Guðmundar bróður síns árið 1899, þaðan að Glæsibæ þar sem hann var í húsmennsku. Bóndi á parti af Vík (syðri-Vík) 1901-1908, Grænhóli 1908-1920, Ásgrímsstöðum í Hegranesi 1920-1925, er hann flutti búferlum að Staðarhóli í Siglufirði og þaðan til Siglufjarðar. Eftir að Jóhann hóf búskap í Skagafirði reisti hann sér sjóbúð á Sauðárkróki og hélt þaðan úti bát sem hann átti, vor og haust. Einnig stundaði hann silungsveiði í Miklavatni og Héraðsvötnum.
Maki 1 (G. 1889): Jóhanna Friðbjarnardóttir (26.08.1863-10.09.1897). Þau eignuðust fjögur börn og tvö þeirra komust til fullorðinsára.
Maki 2: Eftir að Jóhann flutti frá Siglufirði bjó hann með Önnu Sveinsdóttur (f. 18.07.1866). Þau eignuðust ekki börn saman, en ólu upp Kristján Árnason, son Árna Frímanns Árnasonar og Þorbjargar Jóhannesdóttur.

Hermann Jónsson (1938-2019)

  • S03526
  • Person
  • 13.11.1938-01.01.2019

Hermann Jónsson, f. í Móskógum í Fljótum 13.11.1938, d. 01.01.2019 á Sauðárkróki. Foreldrar: Jón Guðmundsson (1900-1988) og Helga Guðrún Jósefsdóttir (1901-1971). Hermann ólst upp í foreldrahúsum í Fljótum, fyrstu árin í Móskógum en fluttist vorið 1940 að Molastöðum með fjölskyldu sinni. Hann vann ýmis störf til sjós og lands, var bóndi á Merkigili í Eyjafirði 1960-1965 og bóndi í Lambanesi í Fljótum 1965-2001. Hann var hreppsstjóri í Holtshreppi frá 1982 og síðan í Fljótahreppi til ársins 1998. Þau hjónin fluttu til Sauðárkróks haustið 2003 þar sem Hermann tók virkan þátt í félagsstarfi eldri borgara.
Maki: Auður Ketilsdóttir frá Finnastöðum (f. 1937). Þau eignuðust einn sön. Fyrir átti Hermann einn son, Hólmkel Hreinsson.

Niðurstöður 171 to 181 of 181