Showing 6395 results

Authority record

Jón Sigfússon (1892-1957)

  • S00693
  • Person
  • 15.11.1892-28.08.1957

Foreldrar: Sigfús Jónsson prestur á Mælifelli og k.h. Petrea Þorsteinsdóttir. Jón ólst upp hjá foreldrum sínum og fluttist með þeim að Mælifelli aldamótaárið 1900. Eftir fermingu fór hann til Akureyrar í Gagnfræðaskólann og stundaði þar nám í tvo vetur. Aðra tvo vetur var hann í Hólaskóla og lauk þaðan búfræðiprófi árið 1912. Að því loknu starfaði hann hjá Einari Helgasyni garðyrkjumanni í Reykjavík og kynnti sér uppeldi trjáplantna. Vann hann á búi foreldra sinna næstu tvö ár. Hann kvæntist árið Jórunni Hannesdóttur og fluttist þá aftur heim að Mælifelli og og hóf þar búskap í félagi við foreldra sína. Vorið 1915 fluttust þau hjón að Glaumbæ og bjuggu þar í tvö ár, en fluttust þá aftur heim að Mælifelli og bjuggu þar í tvö ár, en þá brugðu þau búi og fluttust til Sauðárkróks, þar sem heimili þeirra stóð upp frá því, meðan bæði lifðu. Jón hóf störf hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og er deildaskipting var tekin upp, varð hann deildarstjóri í vefnaðarvörudeild og sinnti því starfi til lokadags. Var hann mikill samvinnumaður og um langt árabil fulltrúi á aðalfundum KS. Er ævi hans lauk, átti hann að baki lengstan starfsaldur þeirra sem hjá félaginu höfðu unnið allt frá stofnun þess árið 1889. Jón var sönghneigður, söng lengi í Karlakór Sauðárkróks og lék um skeið með Lúðrasveit Sauðárkróks, enda einn af stofnendum hennar.

Eggert Einar Jónsson (1890-1951)

  • S00694
  • Person
  • 16. mars 1890 - 28. sept. 1951

Fæddur í Sölvanesi, sonur Jóns Péturssonar og Solveigar Eggertsdóttur á Nautabúi, þar sem Eggert ólst upp frá sjö ára aldri. ,,Eftir fermingu dvaldist Eggert á Breiðabólsstað í Vesturhópi og stundaði nám hjá Hálfdáni presti Guðjónssuni, síðar vígslubiskupi. 17 ára gamall tók Eggert að sér að safna hestum í Skagafirði til afnota við konungskomuna og þjóðhátíðina á Þingvöllum árið 1907. Var hann í konungsfylgdinni allan tímann og rak hestana norður að því loknu. Hjá Duus vann hann um sumarið og tókst að afla sér námseyris til dvalar í Verslunarskóla Íslands. Útskrifaðist þaðan vorið 1910 og hóf störf hjá föðurbróður sínum, Pálma Péturssyni, sem þá var kaupfélagsstjóri. Árið 1912 réðst Eggert í það nýkvongaður að kaupa allar eigur Poppsverslunar á Hofsósi og alla Hofstorfuna. Um var að ræða verslunarhús, íbúðarhús með sölubúð, kornvöruhús, vörugeymslu, sláturhús, þurrfiskhús, fjórar sjóðbúðir, fiskverkunarhús og svonefnt Ásgrímshús, ásamt öllum lóðarréttindum og hlunnindum, sem þessu fylgdu. Einnig keypti hann stórbýlið Hof á Höfðaströnd ásamt Hofsgerði, Háagerði, Ártúni, Hvammkoti, Naustum og Svínavöllum að viðbættu Garðshorni. Á Hofi dvaldist Eggert til ársins 1914 er hann fluttist til Reykjavíkur. Á þessum árum gerðist hann umboðsmaður fyrir breskan hestakaupmann og hélt því til ársins 1917, er ríkið tók í sínar hendur alla slíka sölu. Árið 1916 keypti Eggert Tungu við Suðurlandsbraut og rak þar kúabú. Ári síðar hafði hann einnig keypt Gufunes, Knútskot, Eiði og Geldinganes í Mosfellssveit ásamt því að reka einnig bú á Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Einnig hafði hann á leigu jörðina Ósagerði í Ölfusi og stundaði heyskap í Borgarfirði. Árið 1919 keypti hann Reykhóla á Barðaströnd þar sem hann ætlaði að koma upp stóru hrossaræktarbúi. Sama ár hófst hann handa við að byggja 50 kúa fjós í Gufunesi. En um þetta leyti skall kreppan mikla á svo Eggert neyddist til að selja Reykhóla og Gufunes og var nú komin í töluverðar fjárhagskröggur. Árið 1922 hóf hann þó útgerð og rekstur íshúss í Innri-Njarðvík og keypti jörðina hálfa 1924. Á árunum 1922-1948 rak hann umfangsmikla útgerð og fiskverkun í Innri-Njarðvík og reisti þar hraðfrystihús, eitt það stærsta hér á landi á þessum tíma. Árin 1924-1931 var Eggert búsettur í Reykjavík en umsvif hans áttu sér engin hreppamörk. 1932 fluttist hann til Vestmannaeyja þar sem hann gerðist umboðsmaður Shell og stundaði þar eigin útgerð og stofnsetti m.a. eigin lifrarbræðslu. Rak síldarsöltun á Sauðárkróki árin 1930-1934, kom upp skipasmíðastöð í Innri-Njarðvík og var einn af stofnendum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Með tilkomu hersins seldi Eggert töluvert land undir flugvöll og vænkaðist fjárhagur hans þá nokkuð. Um þetta leyti keypti hann Kirkjubæina á Rangárvöllum og stofnaði þar hrossaræktarbú. Jafnframt var hann einn forvígismanna að stofnun Landssambands hestamanna 1949." Eggerti var jafnan lýst svo: ,,engum líkur að hvatleik sínum og áræði".
Eggert kvæntist Elínu Sigmundsdóttur frá Vindheimum, þau eignuðust tvær dætur.

Jóhannes Hallgrímsson (1886-1975)

  • S00695
  • Person
  • 17.09.1886-16.12.1975

Jóhannes Hallgrímsson fæddist í Hofstaðaseli 17. september 1886.
Faðir: Hallgrímur Sigurðsson (1865-1911) bóndi á Þröm. Móðir: Hólmfríður Eldjárnsdóttir (1849-1907). Foreldrar hans voru bæði í vinnufólk hjá Hofstaðaseli en ógift þegar Jóhannes fæddist. Mögulega hefur Jóhannes verið settur í fóstur hjá Sigurði Sigurðarsyni og Sigurbjörgu Jónsdóttur á Sauðárkróki, alltént er Jóhannes nokkur Hallgrímsson 4 ára skráður þar sem fóstursonur. Jóhannes varð búfræðingur frá Hólum, vann við verslunarstörf við Hoephnersverzlun á Sauðárkróki, var bóndi á Brimnesi um tíma og flutti síðan í Austur-Húnavatnssýslu ásamt konu sinni Ingibjörgu Hallgrímsdóttur frá Tungunesi. Þar virðast þau hafa búið á Botnastöðum, Tungunesi og Þverárdal.
Jóhannes og Ingibjörg eignuðust þrjú börn.

Gunnar Sigurðsson (1885-1956)

  • S00696
  • Person
  • 02.02.1885-02.02.1956

Faðir: Sigurður Gunnarsson (1833-1909) bóndi og hreppstjóri á Fossi á Skaga. Móðir: Sigríður Gísladóttir (1853-1936) húsfreyja á Fossi. Gunnar keypti Aðalgötu 9 (Miklibær/Dýrfinnuhús) og hafði þar greiðasölu og gistingu í húsinu. Gunnar stækkaði húsið í suður og var sú viðbygging nefnd Salurinn, veitingastofa en þessi viðbygging var rifin 1959. Gunnar var viðriðinn peningafölsunarmáli sem kom upp haustið 1914 og ritað hefur verið um í Skagfirðingabók 22 (1993). Gunnar var kvæntur Dýrfinnu Jónasdóttur frá Keldudal en hún var ekkja eftir Þórð Jónsson bónda á Auðólfsstöðum, þau skildu. Gunnar flutti til Reykjavíkur og opnaði þar verslunina Von (Laugavegur 55), 3. maí 1919 og var kallaður Gunnar í Von. Seinni kona hans var Margrét Gunnarsdóttir frá Ysta - Gili í Langadal. Þau eignuðust fimm dætur sem allar tóku drjúgan þátt í rekstri búðarinnar og einnig við rekstur búsins á Gunnarshólma. En þau Gunnar og Margrét reistu sér sumarbústað rétt utan við borgina 1928. En bústaðurinn varð að stórbýlinu Gunnarshólma sem blasir við þegar er ekið um Suðurlandsveg."

Gísli Guðmundsson (1870-1948)

  • S00697
  • Person
  • 1870-1948

Gísli Guðmundsson fluttist til Sauðárkróks 1904 og hóf hótelrekstur þar, fyrst í gamla barnaskólahúsinu, sem kallaðist þá Gistihúsið Baldur (við Aðalgötu 24/22) en keypti Hótel Tindastól laust fyrir 1920 og starfrækti þar greiðasölu til 1936. Ingibjörg systir hans stóð fyrir hótelinu með honum. Faðir þeirra voru Guðmundur Gunnarsson (1830-1888), siðast bóndi á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd. Móðir var Valgerður Ólafsdóttir (1830-1910).
Gísli var ókvæntur og barnlaus.

Jón Jónsson (1894-1966)

  • S00699
  • Person
  • 29.04.1894-30.05.1966

Jón Jónsson var bóndi á Hofi á Höfðaströnd árin 1921-1966, kvæntur Sigurlínu Björnsdóttur og átti með henni 3 börn auk þess sem þau ólu upp 3 fóstursyni. Jón ólst upp hjá foreldrum sínum og fluttist með þeim þriggja ára gamall að Nautabúi en síðan í Eyhildarholt árið 1912. Jón var við nám í Hólaskóla veturinn 1912-1913 og á Hvanneyri 1914-1915 og lauk þaðan búfræðiprófi vorið 1915. Veturinn 1918-1919 var hann í Samvinnuskólanum, sem þá var að hefja starfsemi sína, og næstu tvö árin við ýmis störf, .m.a. á vegum Eggerts bróður sins. Jón á Hofi þótti með efnilegustu ungu mönnum í Skagafirði á yngri árum, vel íþróttum búinn, glíminn og sundmaður góður.

Eymundur Jóhannsson (1892-1942)

  • S00700
  • Person
  • 08.08.1892-25.01.1942

Foreldrar: Jóhann Jóhannsson b. í Saurbæ og Þuríður Símonardóttir. Eymundur ólst upp í Saurbæ og tók við búi foreldra sinna árið 1915. Eymundur varð brátt þátttakandi í hinni hægfara framþróun til bættrar afkomu bændastéttarinnar. Árið 1921 kvæntist hann Ástríði Jónsdóttur frá Krithóli, þau eignuðust fjögur börn og tóku einn fósturson.

Trausti Friðriksson (1872-1962)

  • S00701
  • Person
  • 21.10.1872-20.09.1962

Fæddur að Hléskógum í Höfðahverfi í S-Þing. ,,Ungur þurfti Trausti að treysta á mátt sinn og megin, því að móður sína missir hann átta ára og föður sinn 19. ára. Hann stundar sjómennsku frá Akureyri og Látraströnd á yngri árum, en fluttist svo til Skagafjarðar árið 1908. Var húsmennsku á Framnesi í 2 ár. Árið 1910 hóf hann búskap í Eyhildarholti í félagi við Jónas Sigurðsson frá Felli í Sæmundarhlíð. Bóndi á Ingveldarstöðum syðri á Reykjaströnd 1911-1914 og á Ingveldarstöðum ytri 1914-1921. Í janúar 1922 fór hann til Ameríku með Goðafossi. Bjó í Baldur, Man. 1922-1949. Vann á járnbrautum. Fluttist til Winnipeg 1949 og átti þar heima til lokadægurs."
Trausti kvæntist Ásu Nýbjörgu Ásgrímsdóttur frá Þóroddsstöðum í Ólafsfirði, þau eignuðust þrjú börn.

Ása Nýbjörg Ásgrímsdóttir (1877-1969)

  • S00702
  • Person
  • 03.01.1877-1969

Frá Þóroddsstöðum í Ólafsfirði. Ása var góð saumakona enda lærð til þeirra hluta á Akureyri. Kvæntist Tryggva Friðrikssyni frá Hléskógum í Höfðahverfi í S-Þing., þau bjuggu m.a. í Eyhildarholti og á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd, fóru til Vesturheims 1922, bjuggu lengst af í Winnipeg. Þau eignuðust þrjú börn.

Sigtryggur Traustason (1903-1980)

  • S00703
  • Person
  • 10. nóv. 1903 - 24. mars 1980

Sonur Trausta Friðrikssonar og Ásu Nýbjargar Ásgrímsdóttur. Fór til Vesturheims árið 1922 með foreldrum sínum. Starfaði sem málari í Vancouver.

Sigurlaug Traustadóttir (1907-1945)

  • S00704
  • Person
  • 21. okt. 1907 - 20. mars 1945

Dóttir Trausta Friðrikssonar og Ásu Nýbjargar Ásgrímsdóttur. Flutti til Vesturheims með foreldrum sínum árið 1922. Húsfreyja í Winnipeg.

Þorbjörg Traustadóttir (1917-2007)

  • S00705
  • Person
  • 8. nóv. 1917 - 20. júlí 2007

Dóttir Trausta Friðrikssonar og Ásu Nýbjargar Ásgrímsdóttur. Flutti til Vesturheims með foreldrum sínum árið 1922. Húsfreyja í Winnipeg.

Eggert Ólafur Briem (1867-1936)

  • S00706
  • Person
  • 25.07.1867-07.07.1936

Fæddur á Hjaltastöðum í Blönduhlíð, sonur Eggerts Briem sýslumanns á Reynistað og Ingibjargar Eiríksdóttur. Eggert varð stúdent frá Reykjavíkurskóla 1887 með 1. eink., cand. júris. Kaupmannahöfn 1893 með 1. eink. Sama ár settur málafl.maður við landsyfirréttinn. Settur sýslumaður í Norður-Múlasýslu 1896, fékk Skagafjarðarsýslu 1897 og var sýslumaður þar til 1904. Skrifstofustjóri í Stjórnarráðinu í Reykjavík 1904-1915. Dómari í landsyfirréttinum 1915-1919. Skipaður hæstaréttardómari 1919-1935. Sat í stjórn Búnaðarfélags Íslands 1909-1919 og í landskjörstjórn 1916-1926. Kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur frá Auðkúlu, þau eignuðust tvö börn.

Guðrún Jónsdóttir Briem (1869-1943)

  • S00707
  • Person
  • 11. maí 1869 - 10. jan. 1943

Dóttir Jóns Þórðarsonar prófasts í Auðkúlu og k.h. Sigríðar Eiríksdóttur. Kvæntist Eggerti Briem yngri, sýslumanni í Skagafirði 1897-1904, þau eignuðust tvö börn.

Sigríður Eggertsdóttir Briem Thorsteinsson (1901-1998)

  • S00708
  • Person
  • 9. júlí 1901 - 2. júlí 1998

Sigríður Briem Thorsteinsson fæddist á Sauðárkróki 9. júlí 1901, dóttir Eggerts Briem þáverandi sýslumanns á Sauðárkróki og Guðrúnar Jónsdóttur frá Auðkúlu. ,,Sigríður stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík 1915-1918. Þá stundaði hún teikninám og handavinnunám í Kaupmannahöfn 1922, enskunám í London 1927 og nam við snið- og handavinnuskóla í Frankfurt am Main 1933. Hún var handavinnukennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1919­-1953. Sigríður sat í stjórn Hjúkrunarfélagsins Líknar og Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur 1943­-1955, var í nefnd til að gera tillögu um handavinnunám í skólum árið 1947, sat í skólanefnd Húsmæðraskóla Reykjavíkur frá 1950 og var formaður skólanefndar Kvennaskólans í Reykjavík 1955­-1983. Sigríður gerðist félagi í Hringnum árið 1921 og í Oddfellowreglunni árið 1939 og starfaði í Rb. stúkunni nr. 1, Bergþóru, meðan heilsan leyfði. Sigríður var sæmd fálkaorðunni fyrir störf sín að líknar- og menningarmálum." Sigríður giftist 6. júní 1953, Magnúsi Sch. Thorsteinsson, forstjóra í Reykjavík.

Gunnlaugur Eggertsson Briem (1903-1999)

  • S00709
  • Person
  • 05.02.1903-28.07.1999

Gunnlaugur Eggertsson Briem var fæddur á Sauðárkróki 5. febrúar 1903, sonur Eggerts Briem yngri, þáverandi sýslumanns á Sauðárkróki og Guðrúnar Jónsdóttur frá Auðkúlu. ,,Gunnlaugur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1922 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1927. Gunnlaugur hóf störf í atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu 1927, var skipaður fulltrúi þar 1930 og skrifstofustjóri 1944. 1947 var hann skipaður skrifstofustjóri og síðar ráðuneytisstjóri í atvinnumálaráðuneytinu og síðar landbúnaðarráðuneytinu og veitt lausn frá störfum vegna aldurs 1973. Gunnlaugur var dómari í Félagsdómi frá 1938 til 1974, skrifstofustjóri Útflutningsnefndar 1939 til 1943, sat í viðskiptaráði 1943 til 1945 og allan sinn starfsferil sat hann í fjölda veigamikilla nefnda á sviði innanríkis- og utanríkismála. Árið 1965 var Gunnlaugur kjörinn heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands, hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 1946, stórriddarakross 1952 og stórriddarakross með stjörnu 1963. 1946 hlaut hann frelsisorðu Kristjáns tíunda og kommandörkross sænsku Vasaorðunnar, riddarakross norsku st. Olavsorðunnar 1947, annars stigs kommandörkross Dannebrogsorðunnar 1948 og fyrsta stigs kommandörkross Dannebrogsorðunnar 1956." Hinn 5. júlí 1930 kvæntist Gunnlaugur Þóru Garðarsdóttur, þau eignuðust þrjú börn.

Jósef Jón Björnsson (1858-1946)

  • S00710
  • Person
  • 26.11.1858-07.10.1946

Fæddur að Torfastöðum í Núpsdal. ,,Eftir glæsilegan námferil við Búnaðarskólann á Stend í Noregi 1877-1879, ársdvöl í verklegu búnaðarnámi í Danmörku og leiðbeiningastörf við búnaðarframkvæmdir í Skagafirði, réðst hann skólastjóri og bústjóri að Hólum í Hjaltadal 1882 og hélt svo til 1887. Stundaði hann á því tímabili (1885-1886) nám við Landbúnaðarháskólann í K.höfn og lauk þar prófi með miklu lofi. Árið 1887 keypti hann Bjarnastaði í Kolbeinsdal og gerði þar bú. 1892 fluttist hann í Ásgeirsbrekku. Varð aftur skólastj. og bústj. á Hólum 1896-1902. Þá lét hann af skólastjórn, en var samtímis skipaður fyrsti kennari skólans og gegndi því embætti til 1934. Eftir það reisti hann bú að Vatnsleysu 1934 og bjó þar til 1940. Brá hann þá búi og fluttist til Reykjavíkur 1941. Alþingismaður Skagfirðinga á árunum 1908-1916."
Jósef var þríkvæntur;

  1. Kristrún Friðbjarnardóttir, þau áttu einn son, sem lést um svipað leyti og móðir hans (1882).
  2. Hólmfríður Björnsdóttir frá Brimnesi, þau eignuðust sex börn sem komust á legg, Hólmfríður lést eftir aðeins tíu ár í hjónabandi, yngsta barnið þá tæpra tveggja ára gamalt (1894).
  3. Hildur Björnsdóttir, hálfsystir Hólmfríðar, þau Jósef eignuðust fimm börn.

Hólmfríður Björnsdóttir (1860-1894)

  • S00711
  • Person
  • 02.02.1860-22.05.1894

Fædd á Brimnesi, dóttir Björns Pálmasonar og Sigríðar Eldjárnsdóttur. Hún var önnur eiginkona Jósefs Björnssonar skólastjóra á Hólum, þau eignuðust sex börn sem komust á legg, Hólmfríður lést þegar yngsta barnið var aðeins tæpra tveggja ára gamalt. Hún var mikil hannyrðakona og skörungur í allri gerð.

Björn Jósefsson (1885-1963)

  • S00712
  • Person
  • 02.02.1885-25.06.1963

Sonur Jósefs Björnssonar skólastjóra á Hólum og Hólmfríðar Björnsdóttur frá Brimnesi. Var í Reykjavík 1910. Læknir á Húsavík 1930. Lauk læknisprófi 1912. Starfaði víða á næstu árum, m. a. í Árósum og Kaupmannahöfn í Danmörku, Berlín í Þýskalandi, Reykjavík og á Sauðárkróki. Læknir á Kópaskeri 1914-18. Héraðslæknir á Húsavík 1918-50 og starfandi læknir þar til dauðadags. Kvæntist Sigríði Lovísu Sigurðardóttur frá Hofsstöðum.

Sigríður Jósefsdóttir (1886-1901)

  • S00713
  • Person
  • 26.02.1886-02.09.1901

Dóttir Jósefs Björnssonar skólastjóra á Hólum og Hólmfríðar Björnsdóttur frá Brimnesi. Lést 15 ára gömul.

Kristrún Jósefsdóttir (1887-1978)

  • S00714
  • Person
  • 14.10.1887-23.08.1978

Dóttir Jósefs Björnssonar skólastjóra á Hólum og Hólmfríðar Björnsdóttur frá Brimnesi. Móðir Kristrúnar lést þegar hún var sex ára gömul og fór hún þá í fóstur til frænku sinnar Margrétar Símonardóttur og Einars Jónssonar á Brimnesi. Á Brimnesi naut hún allrar þeirrar menntunar sem völ var á og dvaldist auk þess einn vetur á Hólum hjá föður sínum og sótti kennslustundir með bændaskólanemum. Þá hélt hún utan til náms í Danmörku; var í hannyrða- hússtjórnar- og lýðháskólum í tvö ár. Eftir Danmerkurdvölina starfaði hún um tíma hjá Búnaðarfélagi Íslands við námskeiðahald í hússtjórnarfræðum víða um land. Fluttist síðan norður í átthagana og kvæntist Jóhannesi Björnssyni frá Hofsstöðum, þau bjuggu á Hofsstöðum 1912-1932, þau eignuðust sjö börn. Síðast búsett í Reykjavík.

Ingibjörg Jósefsdóttir (1889-1979)

  • S00715
  • Person
  • 17.05.1889-09.11.1979

Dóttir Jósefs Björnssonar skólastjóra á Hólum og Hólmfríðar Björnsdóttur frá Brimnesi. Móðir Ingibjargar lést þegar hún var fimm ára gömul og þá fór hún ásamt Kristrúnu systur sinni í fóstur til Margrétar Símonardóttur og Einars Jónssonar á Brimnesi. 13 ára gömul flutti hún í Kolkuós með Kristínu Símonardóttur. 18 ára gömul sigldi hún til Danmerkur þar sem hún stundaði nám og störf næstu tvö árin, m.a. í húsmæðraskóla í Kaupmannahöfn, í Lýðháskóla í Uberup og í hjúkrunarskóla í Vallekilde. Árið 1914 kvæntist Kristín Halldóri Gunnlaugssyni frá Stafshóli, þau bjuggu í Garðakoti 1916-1931 en þá fluttust þau norður að Kristnesi. Þau skildu í kringum 1933. Ingibjörg starfaði sem hjúkrunarkona á Kristnesi frá 1931-1948 en flutti þá suður og starfaði á dvalarheimilinu Grund í 18 ár, síðustu starfsár sín vann hún á sjúkrahúsinu Sólheimum. Ingibjörg og Halldór eignuðust sex börn.

Björn Guðmundsson (1865-1947)

  • S00716
  • Person
  • 13.07.1865-07.11.1947

Foreldrar: Guðmundur Gunnarsson og Valgerður Ólafsdóttir á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd. Björn var bóndi að Ingveldarstöðum 1889-1994, Borgarey í Vallhólma 1894-1996, Brekkukoti í Blönduhlíð 186-1898. Á tímabilinu frá 1898-1906 var hann ráðsmaður á Bakka í Viðvíkursveit hjá þremur öldruðum systkinum, Jóni, Margréti og Maríu Bjarnabarna en Stefanía k.h. var þar í húsmennsku ásamt börnum þeirra. Þá fluttust hjónin að Á í Unadal og með þeim María Bjarnadóttir er þá lifði ein þeirra systkina og bjuggu þau þar til ársins 1915 er þau brugðu búi og fluttu til Siglufjarðar. Björn kvæntist Stefaníu Margréti Jóhannesdóttur, þau eignuðust þrjú börn.

Stefanía Jóhannesdóttir (1873-1953)

  • S00717
  • Person
  • 05.08.1873-30.01.1953

Foreldrar: Jóhannes Jóhannesson og Jónanna Guðrún Jónsdóttir á Hornbrekku í Ólafsfirði. Stefanía lærði karlfatasaum og stundaði þá iðn alla tíð. Hún var laglega hagmælt, góður skrifari og fékkst við barnakennslu um skeið. Stefanía kvæntist Birni Guðmundssyni frá Ingveldarstöðum á Reykjaströnd, þau eignuðust þrjú börn.

Jón Jónsson (1858-1936)

  • S00718
  • Person
  • 10.03.1858-09.09.1936

Foreldrar: Jón Jónsson b. í Merkigarði og k.h. Ingiríður Pétursdóttir. Var hjá foreldrum sínum í Merkigarði fram yfir fermingaraldur. Fór þá vinnumaður til Péturs Sigurðssonar b. á Sjávarborg og var hjá honum að mestu, þar til hann reisti bú. Hann gekk í 13 vetur í beitarhúsin á Borgarsel. Bóndi á Kimbastöðum 1884-1909, Borgargerði 1911-1916 brá þá búi og fluttist til Sauðárkróks. Jón kvæntist Guðrúnu Eggertsdóttur frá Skefilsstöðum, þau eignuðust tvö börn. Guðrún lést 1898. Sambýliskona Jóns frá 1902 var Björg Sigurðardóttir, þau eignuðust saman tvær dætur.

Eiríkur Jónsson (1863-1948)

  • S00719
  • Person
  • 4. júní 1863 - 15. sept. 1948

Sonur Jóns Jónssonar og Valgerðar Eiríksdóttur í Djúpadal. Bóndi og trésmiður í Djúpadal 1897-1923. Kvæntist Sigríði Hannesdóttur (1875-1958), þau eignuðust átta börn.

Stefán Ásgrímsson (1848-1930)

  • S00720
  • Person
  • 20.07.1848-09.03.1930

Foreldrar: Ásgrímur Steinsson og Guðrún Kjartansdóttir á Gautastöðum í Stíflu. Stefán ólst upp hjá foreldrum sínum. Bóndi í Tungu 1870-1975, Stóru Brekku 1875-1883 og í Efra Ási 1883-1930. Hann gróðursetti trjálund við bæ sinn og ræktaði garðjurtir í stórum stíl, sem var afar sjaldgæft á þeim tíma. Kvæntist Helgu Jónsdóttur (1845-1923), þau eignuðust fjögur börn sem upp komust.

Helga Jónsdóttir (1845-1923)

  • S00721
  • Person
  • 25.09.1845-02.02.1923

Foreldrar: Jón Guðmundsson b. á Ysta-Hóli, Hofi, Hvammkoti og víðar og k.h. Guðrún Jónsdóttir. Helga kvæntist Stefáni Ásgrímssyni frá Gautastöðum í Stíflu, þau bjuggu lengst af í Efra-Ási í Hjaltadal. Þau eignuðust fjögur börn sem upp komust.

Ásgrímur Stefánsson (1873-1926)

  • S00722
  • Person
  • 11.08.1873-28.04.1926

Sonur Stefáns Ásgrímssonar og Helgu Jónsdóttur í Efra-Ási í Hjaltadal. Ásgrímur ólst upp með foreldrum sínum og sótti námskeið í búnaðarfræðslu við Hólaskóla. Hann dvaldist með foreldrum sínum þar til hann hóf sjálfur búskap að Efra Ási, bóndi þar á árunum 1905-1926 en sum árin á hluta jarðarinnar á móti föður sínum. Kvæntist Sigmundu Skúladóttur frá Ysta-Mói í Flókadal, þau eignuðust þrjár dætur.

Guðrún Stefánsdóttir (1878-1917)

  • S00723
  • Person
  • 11.04.1878-18.08.1917

Dóttir Stefáns Ásgrímssonar og Helgu Jónsdóttur í Efra-Ási. Kvæntist Sigurði Ásgrímssyni (1876-1939), þau bjuggu fyrst að Efra-Ási, svo að Unastöðum í Kolbeinsdal, í Ólafsfirði, í Ketu í Hegranesi og síðast á Ási í Hegranesi. Guðrún og Sigurður eignuðust tvö börn.

Steinn Stefánsson (1882-1954)

  • S00724
  • Person
  • 30.11.1882-19.05.1954

Sonur Stefáns Ásgrímssonar og Helgu Jónsdóttur í Efra-Ási. Var í námi á Möðruvöllum 1900 og lauk búfræðiprófi frá Hólum 1905. Næstu árin var hann við kennslu á vetrum í austanverðum Skagafirði. En á sumrin ýmist í kaupavinnu ellegar heima í Efra Ási. Hóf búskap í Neðra-Ási 1911-1913, bjó að Stóra-Holti í Fljótum 1913-1915 og flutti svo aftur að Neðra-Ási og var bóndi þar til 1942, fluttist til Sauðárkróks 1952. Mörg haust sá hann um bólusetningu lamba gegn bráðapest í Hólahreppi og víðar. Eftir að Steinn hóf búskap, hætti hann að mestu kennslu. Þó tók hann löngum börn er á einhvern hátt áttu í örðugleikum með námið og leiðbeindi þeim, þótti hann laginn kennari á þeim vettvangi. Félagsmálastörfum gegndi Steinn talsvert, var í hreppsnefnd í 12 ár, þar af oddviti í 6 ár. Þá var hann í sóknarnefnd, skattanefnd og fjallskilastjóri til fjölda ára. Kvæntist Soffíu Jónsdóttur frá Neðra-Ási, þau eignuðust sjö börn.

Svanhildur Guðrún Loftsdóttir (1844-1930)

  • S00726
  • Person
  • 23.04.1844-02.11.1930

Frá Sauðanesi á Upsaströnd. Var mjög vel að sér í hannyrðum og kenndi mörgum konum að koma sér upp íslenska skautbúningnum. Kvæntist Daníel Ólafssyni (1837-1894) söðlasmiði, þau bjuggu m.a. á Hofsósi, í Viðvík, í Efra-Ási, í Reykjavík, á Oddeyri við Eyjafjörð, í Hofstaðaseli og á Framnesi. Svanhildur og Daníel eignuðust fjögur börn sem upp komust.

Ólafur Dan Daníelsson (1877-1957)

  • S00727
  • Person
  • 31.10.1877-10.12.1957

Sonur Daníels Ólafssonar og Svanhildar Loftsdóttur, síðast á Framnesi. Yfirkennari í Reykjavík.

Jón Daníelsson (1885-1944)

  • S00728
  • Person
  • 15.11.1885-21.03.1944

Sonur Daníels Ólafssonar og Svanhildar Loftsdóttur, síðast á Framnesi. Verslunarmaður í R.vík og á Akureyri, ókvæntur og barnlaus.

Dorothea Kristín Daníelsdóttir (1882-1963)

  • S00729
  • Person
  • 16.03.1882-06.06.1963

Dóttir Daníels Ólafssonar og Svanhildar Loftsdóttur, síðast á Framnesi. Verslunarkona í R.vík, ókvænt og barnlaus.

Sæunn Steinsdóttir (1876-1960)

  • S00730
  • Person
  • 26.05.1876-06.08.1960

Frá Hryggjum í Staðarfjöllum, dóttir Steins Steinssonar og Bjargar Pétursdóttur. Sæunn missti föður sinn í bernsku og ólst upp á Hafsteinsstöðum hjá Jóni hreppstjóra Jónssyni og k.h. Steinunni Árnadóttur. Hún lærði fatasaum og rak sauma verkstæði, áður en hún giftist. Kvæntist Jóhannesi Jóhannessyni smiði, þau bjuggu lengst af í Glæsibæ, þau eignuðust fjögur börn.

Jón Júlíus Árnason (1853-1927)

  • S00732
  • Person
  • 01.10.1853-01.11.1927

Jón Júlíus Árnason, f. 01.10.1853 á Krossastöðum á Þelamörk, d. 01.11.1927 á Þórshöfn á Langanesi. Foreldrar: Árni Kristjánsson bóndi á Krossastöðum og kona hans Margrét Halldórsdóttir húsfreyja. Jón lærði trésmíðar í Kaupmannahöfn 1878-1879 hja Steenstrup og Petersen og einnig eitthvað í úrsmíðum. Mun hafa lært ljósmyndun í Kaupmannahöfn 1878-1879. Bjó með móður sinni að Skútum í Glæsibæjarhreppi til 1875. Í húsmennsku á Laugalandi í Glæsibæjarhreppi 1876. Stundaði ljósmyndun samhliða búskap og smíðum á Laugalandi 1879-1899 og síðan á Þórshöfn 1899-1904. Smiður og úrsmiður á Seyðisfirði 1905, úrsmiður á Húsavík 1906-1907 og smiður og úrsmiður á Þórshöfn 1908-1927. Ferðaðist jafnframt um nágrannabyggðarlög og tók myndir af fólki og bæjum. Maki: Sigurbjörg Jónsdóttir, f. 1857. Þau skildu. Þau eignuðust níu börn. Bústýra Jóns var Elísabet Jóhannesdóttir, f. 1876. Þau eignuðust tvær dætur, önnur dó á fyrsta ári.

Valgerður Eiríksdóttir (1835-1903)

  • S00733
  • Person
  • 1835-19.03.1903

Fædd og uppalin í Djúpadal, dóttir Eiríks hreppstjóra í Djúpadal og k.h. Hólmfríðar Jónsdóttur. Kvæntist Jóni Jónssyni (1832-1897), þau hófu búskap í Djúpadal 1856, fluttu að Saurbæ í Hörgárdal 1861 og bjuggu þar í eitt ár, fluttu aftur að Djúpadal vorið 1862 þar sem Valgerður hélt búi til 1898. Valgerður og Jón eignuðust 11 börn, þrjú þeirra náðu fullorðinsaldri.

Stefán Eiríksson (1896-1975)

  • S00734
  • Person
  • 12.06.1896-24.01.1975

Sonur Eiríks Jónssonar og Sigríðar Hannesdóttur í Djúpadal. Fór í nám austur að Eiðum í tvo vetur og útskrifaðist hann þaðan vorið 1921. Að Eiðadvölinni lokinni hélt hann kyrru fyrir í Djúpadal og tók þar við búi ári 1923. En árið 1925 breytti hann til og brá sér við fjórða mann til Kanada. Ameríkuárin urðu rúm 30, og ævintýrin, sem Stefán sagðist hafa farið til þess að leita, sniðgengu hann svo sannarlega ekki. Þar vestra starfaði hann m.a. við ýmiskonar byggingastörf og í gullnámu. Hann kom heim fyrir fullt og allt árið 1957. Stefán kvæntist ekki en eignaðist dóttur með Kristínu Sigfúsdóttur (1893-1941).

Kristján Gíslason (1863-1954)

  • S00735
  • Person
  • 15.06.1863-03.04.1954

Kristján ólst upp á Eyvindarstöðum í Blöndudal og bjó þar til 25 ára aldurs. Eyvindarstaðasystkinin voru alls 23, og komust 11 til fullorðinsaldurs. Frá Eyvindarstöðum fluttist Kristján með föður sínum að Sjávarborg í Skagafirði árið 1888. Þar dvaldist hann í tvö ár, en fór þaðan til Sauðárkróks 1890 og keypti sér borgarabréf. Hann náði verslunarsambandi við útlönd og hófst nú verslun hans, þótt í smáum stíl væri, í húsi Bjarna Jónassonar, svokölluðu "Græna húsi". Kaupsýsluhæfileikar Kristjáns komu fljótt í ljós, enda byggði hann nú stórt og miðlungs íveru- og verslunarhús á Sauðárkróki ásamt vörugeymslu og síðar mjög myndarlegu sláturhúsi. Verslun hans jókst jafnt og þétt, svo að á fyrri stríðsárunum 1914-1918 var hann orðinn með stærstu kaupmönnum á Sauðárkróki. Útibú rak hann frá aðalverslun sinni, er hann nefndi Bræðrabúð og mun þar aðallega hafa verið um staðgreiðsluverslun að ræða. Fyrir þessari búð stóð í mörg ár dóttir hans, Þórunn. Samhliða verslunarrekstrinum fór Kristján að yrkja jörðina. Hann mun manna fyrstur hafa byrjað ræktun á svokölluðum "móum" fyrir ofan kauptúnið. Síðar keypti hann Áshildarholt og hófst handa við stórfellda ræktun þar, byggði myndarlegt steinhús og pengingshús og girti af alla jörðina. Þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað gerðist Kristján afgreiðslumaður þess á Sauðárkróki og var það til ársins 1942. Árið 1952 seldi Kristján eigur sínar á Sauðárkróki og fluttist alfarinn til R.víkur ásamt dóttur sinni Sigríði, er veitt hafði heimili hans forstöðu síðustu ár hans á Sauðárkróki. Hann hafði mikið yndi af söng og hljóðfæraslætti og var fyrsti organisti í Sauðárkrókskirkju um 1892, er hún var reist. Kristján kvæntist Björgu Eiríksdóttur frá Blöndudalshólum, þau eignuðust fimm börn.

Björg Sigríður Anna Eiríksdóttir (1865-1928)

  • S00736
  • Person
  • 01.07.1865-31.07.1928

Björg ólst upp hjá foreldrum sínum í Blöndudalshólum fram yfir tvítugsaldur. Þó mun hún hafa verið öðru hvoru á Auðkúlu hjá föðursystur sinni, maddömu Þorbjörgu og manni hennar. Í félagsmálum, tók hún nokkurn þátt, var félagi í "Hinu skagfizka kvenfélagi" og formaður þess í mörg ár. Starfaði einnig þar að líknarmálum. Kvæntist Kristjáni Gíslasyni frá Eyvindarstöðum í Blöndudal, síðar kaupmanni á Sauðárkróki, þau eignuðust fimm börn.

Axel Kristjánsson (1892-1942)

  • S00737
  • Person
  • 17.08.1892-16.04.1942

Sonur Kristjáns Gíslasonar kaupmanns á Sauðárkróki og Bjargar Eiríksdóttur. Var í Reykjavík 1910. Kaupmaður á Akureyri 1930.

Þórunn Kristjánsdóttir Elfar (1895-1943)

  • S00738
  • Person
  • 18. apríl 1895 - 3. september 1943

Dóttir Kristjáns Gíslasonar kaupmanns á Sauðárkróki og Bjargar Eiríksdóttur. Verslunarkona á Sauðárkróki og í Reykjavík. Síðast búsett í Reykjavík. Kvæntist Benedikt Elfar.

Björn Halldór Kristjánsson (1897-1980)

  • S00739
  • Person
  • 14. nóv. 1897 - 28. jan. 1980

Sonur Kristjáns Gíslasonar kaupmanns á Sauðárkróki og Bjargar Eiríksdóttur. Stórkaupmaður í Hamborg í Þýskalandi og síðar í Reykjavík.

Eiríkur Kristjánsson (1893-1965)

  • S00741
  • Person
  • 26. ágúst 1893 - 5. apríl 1965

Sonur Kristjáns Gíslasonar kaupmanns á Sauðárkróki og Bjargar Eiríksdóttur. Kaupmaður og iðnrekandi á Akureyri, síðast í Reykjavík. Kvæntur Maríu Þorvarðardóttur.

Lárus Jón Stefánsson (1854-1929)

  • S00742
  • Person
  • 17.09.1854-28.04.1929

Lárus Jón Stefánsson, f. í Vík í Staðarhreppi 17.09.1854, d. í Skarði 28.04.1929. Sonur Stefáns Einarssonar og Lilju Kristínar Jónsdóttur, síðast búsett í Vatnshlíð á Skörðum.
Lárus ólst upp með foreldrum sínum. Bóndi í Vatnshlíð 1883-1888 og í Skarði 1888-1929.
Maki 1: Guðrún Sigurðardóttir, þau eignuðust fimm börn, þrjú þeirra komust á legg. Guðrún lést 1886.
Maki 2: Sigríður B. Sveinsdóttir, þau eignuðust 12 börn, 11 þeirra komust á legg. Auk þess átti Lárus tvo syni með Margréti Jónsdóttur (1862-1896), þeir dóu báðir ungir.

Stefanía Emelía Guðrún Lárusdóttir (1896-1993)

  • S00743
  • Person
  • 26. mars 1896 - 8. ágúst 1993

Dóttir Lárusar Stefánssonar b. í Skarði og s.k.h. Sigríðar B. Sveinsdóttur. Ólst upp hjá Sveini Sigvaldasyni f. 1842 og sambýliskonu hans Stefaníu Stefánsdóttur f. 1861. Kvæntist Brynjólfi Danivalssyni, þau bjuggu á Suðurgötu 24 (Árbæ) á Sauðárkróki, þau eignuðust fimm börn.

Pétur Lárusson (1892-1986)

  • S00745
  • Person
  • 23. mars 1892 - 4. maí 1986

Sonur Lárusar Stefánssonar b. í Skarði og s.k.h. Sigríðar B. Sveinsdóttur. Pétur hóf ungur búskap í Kálfárdal. 1923-1926 stundaði hann ýmsa daglaunavinnu, m.a. á Sauðárkróki, Siglufirði og víðar. Árið 1926 keypti hann jörðina Ytri-Ingveldarstaði og bjó þar í eitt ár. Það ár kvæntist hann Kristínu Danivalsdóttur frá Litla-Vatnsskarði. Árið 1927 keypti hann jörðina Stein á Reykjaströnd þar sem hann bjó þar til hann brá búi árið 1946 og fluttist til Keflavíkur. Eftir að þangað kom vann Pétur mest við skipasmíðar en gerðist síðar húsvörður við barnaskólann í Keflavík. Pétur og Kristín eignuðust fimm börn.

Jóhann Sigurberg Lárusson (1908-1979)

  • S00746
  • Person
  • 16. febrúar 1908 - 4. mars 1979

Sonur Lárusar Stefánssonar b. í Skarði og s.k.h. Sigríðar B. Sveinsdóttur. Verkamaður í Reykjavík 1945. Síðast bús. í Reykjavík.

Sigríður Björg Sveinsdóttir (1865-1957)

  • S00747
  • Person
  • 15. júní 1865 - 5. ágúst 1957

Foreldrar: Sveinn Sigvaldason og Ingibjörg Hannesdóttir á Steini á Reykjaströnd, síðar á Árbæ á Sauðárkróki. Húsfreyja á Skarði í Gönguskörðum, seinni kona Lárusar Stefánssonar, þau eignuðust saman 12 börn. Með fyrri konu sinni átti Lárus þrjú börn og tvö utan hjónabands.

Sveinn Lárusson (1887-1972)

  • S00748
  • Person
  • 14. apríl 1887 - 29. mars 1972

Sonur Lárusar Stefánssonar b. á Skarði og s.k.h. Sigríðar B. Sveinsdóttur. Bóndi á Ingveldarstöðum, seinna á Flateyri. F.k. Lilja Sveinsdóttir, s.k. Una Friðriksdóttir.

Guðný Klara Lárusdóttir (1906-2002)

  • S00749
  • Person
  • 25.08.1906-28.05.2002

Guðný Klara Lárusdóttir fæddist í Skarði í Gönguskörðum í Skagafjarðarsýslu 25. ágúst 1906. Foreldrar hennar voru hjónin Lárus Jón Stefánsson b. á Skarði og s.k.h. Sigríður Björg Sveinsdóttir. ,,Klara ólst upp hjá foreldrum sínum í Skarði. Hún var búsett á Sauðárkróki og í Skarði á árunum 1929-1938, í Ytri-Njarðvík 1938-1939, í Keflavík 1939-1983 og á Sauðárkróki 1983 til æviloka." Hinn 16. desember 1933 giftist Klara Guðmundi Halldórssyni, f. 18. ágúst 1904 á Eldjárnsstöðum í Blöndudal, þau eignuðust einn son.

Vilhelm Lárusson (1902-1963)

  • S00750
  • Person
  • 15.02.1902-22.11.1963

Sonur Lárusar Stefánssonar b. á Skarði og s.k.h. Sigríðar B. Sveinsdóttur. Daglaunamaður á Sauðárkróki 1930. Fór tíu ára gamall í fóstur að Veðramóti. Kvæntist Baldeyju Reginbaldsdóttur frá Látrum í Aðalvík, þau bjuggu á Dalsá í Gönguskörðum (1924-1929), í Tungu í Gönguskörðum (1931-1935) og á Sævarlandi 1935-1963. Vilhelm og Baldey eignuðust fimm börn.

Ólafur Lárusson (1899-1989)

  • S00751
  • Person
  • 15.06.1899-01.11.1989

Sonur Lárusar Stefánssonar b. á Skarði og Sigríðar B. Sveinsdóttur. Ólst upp í Skarði hjá foreldrum sínum og tók þar við búi 1936 og bjó þar til æviloka. Ólafur bjó um tíma stórbúi og var fyrsti mjólkurinnleggjandi í Mjólkursamlag K.S. Ólafur var hreppstjóri Skarðshrepps um nær fjögurra áratuga skeið 1947-1984, jafnframt hreppsnefndaroddviti 1948-1950, átti lengi sæti í skólanefnd. Réttarstjóri var hann um áratugi í Skarðarétt. Ólafur kvæntist Jórunni Sigurðardóttur frá Akureyri, þau eignuðust saman einn son en fyrir átti Jórunn dóttur sem Ólafur gekk í föðurstað.

Fanný Lárusdóttir (1898-1993)

  • S00752
  • Person
  • 03.01.1898-18.01.1993

Hún fæddist í Skarði í Gönguskörðum 3. janúar 1898, dóttir Lárusar Jóns Stefánssonar og seinni konu hans Sigríðar Bjargar Sveinsdóttur, sem bjuggu í Skarði. Var á Skarði í Gönguskörðum, Skag. 1930. Síðast bús. í Gerðahreppi. ,, Eftir að Ólafur bróðir hennar tók við búinu í Skarði, var hún ráðskona hjá honum 1936-1947, en fluttist þá um vorið suður í Keflavík til Klöru systur sinnar þar sem hún átti heimili 1947 til 1979 þegar hún fluttist á öldrunarheimilið Garðvang og var þar síðan til æviloka." Fanný var ógift og barnlaus.

Friðrik Friðriksson Hansen (1947-2004)

  • S00753
  • Person
  • 2. júní 1947 - 30. des. 2004

Sonur Friðriks Hansen og Sigríðar Eiríksdóttur. ,,Friðrik ólst upp á Sauðárkróki og lauk námi frá Gagnfræðaskólanum á Sauðárkróki og Iðnskólanum á Sauðárkróki. Hann stundaði ýmis verkamannastörf og vann á vinnuvélum um árabil á heimaslóðum. Hann vann einnig um tveggja ára skeið í Svíþjóð. Vegna heilsubrests dvaldist hann síðustu 13 árin á sambýlum, fyrst á Gauksmýri og síðan á Hvammstanga þar sem hann lést. Friðrik var hagur og vann við útskurð og hafa nokkur verk hans verið á sýningum á Safnasafninu á Svalbarðsströnd."

H.Einarsson Akureyri*

  • S00753
  • Person
  • 20.02.1878-26.09.1948

Faðir Einar Hallgrímsson Thorlacius, verslunarstjóri á Vestaldeyri við Seyðisfjörð. N- Múl., síðar kaupmaður á Vopnafirði, f. 04.09.1846 látin 12.03.1926. Móðir Vilhelmína Pálsdóttir húfreyja á Vestdalseyri, síðar á Vopnafirði f.21.03.1847-29.10.1921.
Hallgrímur lærði ljósmyndun hjá Christian Christiansen í Kaupmannahöfn 1894-1895. Rak ljósmyndastofu í þar til gerðu húsi á Vestdalseyri. Björnúlfur Thorlacius rak stofuna fyrir Hallgrím árið 1902. Ljósmyndari á Akureyri sumrin 1901-1902 í myndastofu rAnn Sciöth og fleiri höfðu haft aðsetyr í . Rak ljósmyndastofu í þar til gerðu húsi að Hafnarstræti 41 á Akureyri 1903 með svokallaða Multifoto-vél sem tók 12-48 myndir á eitt spjald. Umboðskmaður m.a. fyrir dönsk blöð 1900-1904, fyrir lífsábygðarfélagið Standard og fyrir Kolding- ullarverksmiðjuna 1902-1904. Rak verslun samhluða ljósmyndsastofunni 1918-1921. Seldi amatör myndavélar og öll efni til ljósmyndunar 1904. Umboðsmaður fyrir Lumiére-verksmiðjurnar sem framleiddu öll efni til ljósmyndar frá 1929. Stundaði kvikmyndun, tók m..a. myndir við konungskomuna 1907.

Sigþrúður Friðriksdóttir (1903-2002)

  • S00754
  • Person
  • 28.11.1903-16.06.2002

Sigþrúður Friðriksdóttir fæddist að Valadal í Skörðum 28. nóvember 1903. Foreldrar hennar voru Friðrik Stefánsson, bóndi í Valadal og kona hans Guðríður Pétursdóttir. ,,Sigþrúður ólst upp hjá foreldrum sínum í Valadal. Hún stundaði nám í saumaskap á Sauðárkróki og stundaði saumaskap með búskapnum alla tíð. Sigþrúður giftist 1927 Birni Jónssyni, þau bjuggu á Valabjörgum á Skörðum frá 1927 til 1941, Brún í Svartárdal 1941 til 1945 og fluttu þá að Gili í Svartárdal og áttu þar heima til dauðadags."

Helga Friðriksdóttir (1906-2005)

  • S00755
  • Person
  • 28.09.1906-12.11.1985)

Helga Friðriksdóttir fæddist í Valadal í Skagafirði 28. september 1906. Foreldrar hennar voru Friðrik Stefánsson bóndi, Valadal og k.h. Guðríður Pétursdóttir. Eiginmaður Helgu var Björn Ólafsson frá Álftagerði í Skagafirði, f. 9. ágúst 1908, d. 12. nóvember 1985. Hófu þau búskap á Krithóli í Skagafirði 1929 og bjuggu þau þar allan sinn búskap, þau eignuðust fjögur börn.

Guðríður Pétursdóttir (1867-1955)

  • S00756
  • Family
  • 04.01.1867-23.11.1955

Foreldrar: Pétur Brandsson b. á Lundi í Þverárhlíð og Sigþrúður Sigurðardóttir. Guðríður kvæntist Friðriki Stefánssyni b. í Valadal þar sem þau bjuggu 1900-1925, þau eignuðust þrjú börn.

Stefán Friðriksson (1902-1980)

  • S00757
  • Person
  • 03.02.1902-20.06.1980

Sonur Guðríðar Pétursdóttur og Friðriks Stefánssonar í Valadal. Kvæntist Ingibjörgu Jónsdóttur (1915-2012) frá Reynistað, þau eignuðust sex börn.

Sveinn Jónatansson (1851-1936)

  • S00758
  • Person
  • 04.02.1851-14.06.1936

Foreldrar: Jónatan Jónatansson b. í Kelduvík og Þangskála á Skaga og k.h. María Magnúsdóttir. Sveinn ólst upp með foreldrum sínum og var í húsmennsku þar fyrst eftir að hann kvæntist Guðbjörgu Jónsdóttur frá Hóli á Skaga. Þau bjuggu svo í Efranesi 1876-1878 en fóru þá aftur að Þangskála og bjuggu þar til 1883. Fluttu að Hrauni á Skaga 1883-1919. Sveinn stundaði sjómennsku meðfram búskap og var m.a. hákarlaskipsformaður. Sveinn og Guðbjörg eignuðust fimm börn.

Guðbjörg Jónsdóttir (1849-1933)

  • S00759
  • Person
  • 08.09.1849-01.07.1933

Foreldrar: Jón Rögnvaldsson hreppstjóri á Hóli á Skaga og s.k.h. Una Guðbrandsdóttir. Guðbjörg kvæntist Sveini Jónatanssyni frá Kelduvík, þau bjuggu lengst af á Hrauni á Skaga, þau eignuðust fimm börn.

Sveinn Mikael Sveinsson (1890-1932)

  • S00760
  • Person
  • 29.09.1890-06.04.1932

Fæddur og uppalinn á Hrauni á Skaga, sonur Sveins Jónatanssonar og Guðbjargar Jónsdóttur. Kvæntist Guðbjörgu Kristmundsdóttur frá Selá á Skaga, þau bjuggu í Kelduvík á Skaga 1914-1923 og á Tjörn á Skaga (A-Hún) 1923-1932. Sveinn stundaði sjómennsku meðfram búskapnum og sat um tíma í hreppsnefnd Vindhælishrepps. Sveinn og Guðbjörg eignuðust tíu börn.

Guðrún Sveinsdóttir (1892-1967)

  • S00761
  • Person
  • 1. mars 1892 - 18. ágúst 1967

Dóttir Sveins Jónatanssonar og Guðbjargar Jónsdóttur á Hrauni á Skaga. Kvæntist Óskari Þórðarsyni lækni í Reykjavík, síðast búsett í Reykjavík.

Steinn Leó Sveinsson (1886-1957)

  • S00762
  • Person
  • 17.01.1886-27.11.1957

Sonur Sveins Jónatanssonar og Guðbjargar Jónsdóttur á Hrauni á Skaga. Var við nám hjá sr. Birni Blöndal í Hvammi í Laxárdal veturinn 1904-1905. Kvæntist árið 1914 Guðrúnu Kristmundsdóttur frá Selá á Skaga, það sama ár hófu þau búskap á Hrauni á Skaga þar sem þau bjuggu til 1957. Meðfram búskapnum stundaði Steinn sjómennsku og reri flestar haustvertíðir frá Hrauni eða Kelduvík fram um 1930, jafnframt var Steinn síðasti hákarlaformaður á Skaga. Einnig kom Steinn upp töluverðu æðarvarpi, hlóð upp hreiðurskýli og setti upp skrautleg flögg á vorin til þess að laða fuglinn að, æðarvarpið á Hrauni er enn þann dag í dag með þeim arðsömustu í Skagafirði. Steinn var fyrst kosinn í hreppsnefnd Skefilstaðahrepps 1916 og átti þar sæti óslitið til ársins 1954, var oddviti hreppsnefndar 1928-1954 og hreppstjóri 1934-1946. Árið 1915 varð hann vitavörður Skagatáarvitans og veðurathugunarmaður fyrir Veðurstofu Íslands 1943, báðum þessum störfum gegndi hann á meðan hans naut við. Steinn og Guðrún eignuðust 11 börn.

Guðmundur Sigurðsson (1838-1922)

  • S00763
  • Person
  • 15.02.1838-24.04.1922

Foreldrar: Sigurður Gíslason b. á Mið-Grund og k.h. Sigríður Þorláksdóttir. Guðmundur reisti bú á Miðsitju 1868-1869, brá þá búi og fór austur á Vopnafjörð til náms í söðlasmíði og lauk þar námi sem fullærður söðlasmiður og stundaði þá iðn samhliða búskap. Bóndi á Mið-Grund 1874-1883 og í Ytra-Vallholti 1883-1919. Kvæntist Guðrúnu Eiríksdóttur frá Djúpadal, þau eignuðust sex börn.

Eiríkur Guðmundsson (1880-1927)

  • S00764
  • Person
  • 08.10.1880-23.07.1927

Sonur Guðmundar Sigurðssonar og Guðrúnar Eiríksdóttur. Fæddur og uppalinn í Ytra-Vallholti. Foreldrar hans brugðu búi 1919 og tók Eiríkur þá við búi þar ásamt Jóhannesi bróður sínum og bjó þar stórbúi til 1927. Á dánardegi gerði Eiríkur arfleiðsluskrá þar sem hann m.a. kvað á um stofnun sjóðs af hluta eigna sinna en tilgangur sjóðsins ,,...var að verðlauna bændur í þáverandi Seyluhreppi sem sérstaklega sköruðu framúr í búfjárrækt og hirðingu á skepnum, og þá jafnframt gætt fyllstu hagsýni í meðferð fóðurbirgða, þeim sem mestum árangri ná í kynbótum og ræktun fénaðarins og ennfremur þeim sem verða hreppsbúum sínum að miklu liði með fóðurhjálp í harðindum." Eiríkur kvæntist ekki en átti eina dóttur með Guðnýju Stefánsdóttur sem þá bjó í Holtskoti á Langholti.

Júlíus Kemp (1913-1969)

  • S00765
  • Public party
  • 05.02.1913-19.02.1969

Sonur Lúðvíks Kemp og Elísabetar Stefánsdóttur. Skipstjóri, síðast búsettur í Reykjavík, kvæntist Þórunni Kristjönu Sigurðardóttur frá Hafnarnesi við Reyðarfjörð.

Stefán Kemp (1915-2018)

  • S00766
  • Person
  • 08.08.1915-04.09.2018

Sonur Lúðvíks Kemp og Elísabetar Stefánsdóttur. Verkstjóri á Sauðárkróki. Stefán gift­ist Áslaugu Björns­dótt­ur, f. 22. júni 1922, d. 20. októ­ber 1995, frá Fagra­nesi á Reykja­strönd í Skagafirði þann 4. nóv­em­ber 1944 og hófu þau bú­skap á Sauðár­króki stuttu síðar. Stefán og Áslaug eignuðust fjór­ar dæt­ur.

Friðgeir Kemp (1917-2007)

  • S00767
  • Person
  • 29.04.1917-02.09.2007

Sonur Lúðvíks Kemp og Elísabetar Stefánsdóttur. Bóndi í Lækjardal í Engihlíðarhreppi A-Hún., síðast búsettur á Sauðárkróki. Kvæntist Elísabetu Geirlaugsdóttur frá Holti í Svínadal.

Ragna Kemp (1914-2013)

  • S00768
  • Person
  • 21. sept. 1914 - 4. okt. 2013

Dóttir Lúðvíks Kemp og Elísabetar Stefánsdóttur. Húsmóðir og saumakona á Akureyri. Kvæntist Guðmundi Tómassyni (1908-1966) iðnrekanda, forstjóra og eiganda kexverksmiðjunnar Lorelei á Akureyri. Síðast búsett í Reykjavík.

Elísabet Stefánsdóttir Kemp (1888-1984)

  • S00769
  • Person
  • 5. júní 1888 - 1. ágúst 1984

Elísabet fæddist í Jórvík í Breiðdal. Hún ólst upp með föður sínum, Stefáni Jóhannessyni og seinni konu hans Bergþóru Jónsdóttur. Hún lærði karlafatasaum í Reykjavík hjá klæðskera og starfaði um skeið á Hótel Íslandi við framreiðslustörf og matargerð. Elísabet starfaði mikið í Kvenfélagi Skefilsstaðahrepps og var formaður þess um skeið. Elísabet var kvænt Lúðvíki Kemp vegaverkstjóra, þau bjuggu lengst af á Illugastöðum í Laxárdal. Þau eignuðust níu börn og ólu einnig upp hálfbróður Lúðvíks.

Guðrún Ingibjörg Bjarnadóttir (1897-1971)

  • S00770
  • Person
  • 19.01.1897-08.09.1971

Fædd í Eyhildarholti í Hegranesi. Foreldrar hennar voru Bjarni Magnússon járnsmiður á Sauðárkróki og Kristín Jósefsdóttir. Guðrún lærði ung á orgel hjá Gísla organista á Króknum og bjó um níu ára skeið í Reykjavík þar sem hún vann í verslun Gunnþórunnar Halldórsdóttur leikkonu. Árið 1928 giftist Guðrún Haraldi Júlíussyni frá Barði við Akureyri en hann hafði stofnað eigin verslun á Sauðárkróki árið 1919 - Verslun Haraldar Júlíussonar. Guðrún starfaði í versluninni ásamt því að taka virkan þátt í félagsmálum, var t.d. mjög virkur félagi í Kvenfélagi Sauðárkróks. Guðrún og Haraldur eignuðust tvö börn, Bjarna Har og Maríu Kristínu.

Rannveig Hansdóttir Líndal (1883-1955)

  • S00771
  • Person
  • 29. janúar 1883 - 15. júlí 1955

Matreiðslukennari og forstöðukona, síðast við Tóvinnuskólann á Svalbarði, S-þing. Ógift og barnlaus.

Kristín Bjarnadóttir (1925-2020)

  • S00772
  • Person
  • 5. jan. 1925 - 24. maí 2020

Foreldrar hennar voru hjónin Sigurlaug Jónasdóttir og Bjarni Halldórsson á Uppsölum. Kristín giftist hinn 7. ágúst 1948 Maroni Péturssyni frá Brekkukoti í Svarfaðardal. Kristín og Maron bjuggu í Ásgeirsbrekku frá 1951 til 1966 er þau fluttu til Sauðárkróks og áttu þar heima upp frá því, þau eignuðust tvö börn.

Hansína Benediktsdóttir (1874-1948)

  • S00773
  • Person
  • 17.05.1874-21.07.1948

Hansína Benediktsdóttir, f. 17.05.1874, d. 21.07.1948. Foreldrar: Regína Magdalena Hansdóttir Sívertsen og Benedikt Kristjánsson.
Maki: Jónas Kristjánsson læknir, f. 20.09.1870, d. 03.04.1960. Þau eignuðust 5 börn.
Þau bjuggu á Fljótsdalshéraði 1901-1911, fyrst á Arnheiðarstöðum 1901-1902, þá á Hrafnkelsstöðum 1902-1903, síðan á Brekku í Fljótsdal. Bjuggu á Sauðárkróki 1911-1938 en eftir það í Reykjavík.

Stefanía Arnórsdóttir (1889-1948)

  • S00774
  • Person
  • 15.04.1889-14.07.1948

Stefanía Arnórsdóttir, f. 15.04.1889 á Felli í Kollafirði í Strandasýslu, d. 14.07.1948 í Danmörku. Foreldrar: Arnór Árnason prestur í Hvammi í Laxárdal ytri og fyrri kona hans, Stefanía Sigríður Stefánsdóttir. Stefanía ólst upp hjá föður sínum og seinni konu hans, Ragnheiði Eggertsdóttur, en móður sína hafði hún misst er hún var fjögurra ára gömul. Sem ung stúlka var hún um skeið í Reykjavík og vann þar m.a. við afgreiðslustörf í verslun. Í Skagafirði starfaði Stefanía mikið í félagsmálum, lét félags- og menningarmál kvenna til sín taka. Hún gerðist félagi í Hinu skagfirska kvenfélagi og var virkur félagi til dauðadags. Hún var forstöðukona félagsins frá 1935-1942. Þegar kvenfélögin í sýslunni stofnuðu Samband skagfirskra kvenna, var hún kosin í stjórn sambandsins og átti þar sæti og var gjaldkeri til dauðadags. Á árunum 1945 og 1946 starfaði hún í nefnd ásamt annarri konu í sambandinu og þremur fulltrúum sýslunefndarinnar, sem gera skyldu tillögur um skólasetur fyrir væntanlegan húsmæðraskóla Skagafjarðarsýslu og fleira viðkomandi þeirri skólastofnun. Veturinn 1946 sat Stefanía kvennafund í Kaupmannahöfn ásamt frú Sigríði Magnússon, formanni Kvenfélagasambands Íslands. Stefanía veiktist skyndilega sumarið 1947 og leitaði sér lækninga bæði til Reykjavíkur og Norðurlanda, en án árangurs.
Maki: Sigurður Sigurðsson frá Vigur, sem m.a. var sýslumaður Skagfirðinga. Þau eignuðust níu börn.

Anna Kristín Jónsdóttir (1865-1941)

  • S00775
  • Person
  • 29. mars 1864 - 18. okt. 1941

Foreldrar: Jón Stefánsson og Kristín Sölvadóttir, síðast búsett í Vallanesi. Kvæntist Jónasi Egilssyni, þau bjuggu lengst af á Völlum í Vallhólmi og eignuðust þrjú börn saman, fyrir átti Anna einn son með fyrri manni sínum Jóni Magnússyni (1859-1916).

Guðbjörg Ágústa Jóhannsdóttir (1882-1970)

  • S00776
  • Person
  • 28.09.1882-17.08.1970

Foreldrar: Jóhann Jóhannsson og k.h. Þuríður Símonardóttir. Guðbjörg var alin upp hjá foreldrum sínum, fyrst í Þorsteinsstaðakoti en síðan í Sauðbæ. Árið 1920 var hún ráðskona á Steinsstöðum og sama ár giftist hún Helga Daníelssyni, þá bónda á Uppsölum. Búferlaflutningar hjá þeim voru tíðir og afkoma búsins misjöfn. Lengst bjuggu þau á Sléttu í Fljótum, eða í 9 ár. Guðbjörg mun oft á tíðum hafa verið bæði bóndinn og húsfreyjan þar sem Helgi var oft fjarverandi við vinnu utan heimilis. Árið 1938 fluttust þau til Siglufjarðar.
Guðbjörg og Helgi eignuðust ekki börn en sonur Helga sem hann hafði átt fyrir hjónaband ólst upp hjá þeim frá 11 ára aldri.

Results 766 to 850 of 6395