Showing 177 results

Authority record
Organization

Ungmennafélagið Tindastóll (1907- )

  • S02634
  • Organization
  • 1907-

Ungmennafélagið Tindastóll (U.M.F.T.) er íþróttafélag á Sauðárkróki stofnað 23. október 1907 í kjölfar þess að auglýst var á Sauðárkróki að fyrirhugað væri að stofna ungmennafélag er tæki yfir Skarðs- og Sauðárkrókshrepp. Auglýsing þessi var undirrituð af fjórum búfræðingum frá Hólaskóla, þeim Sigurði Á. Björnssyni og Þorbirni Björnssyni frá Veðramóti, Pétri Jakobssyni frá Skollatungu og Kristjáni Sigurðssyni á Sauðárkróki. Í kjölfar auglýsingarinnar var haldinn fundur á Sauðárkróki þann 26. október 1907. Á fundinum var rætt um þessa nýju félagshreyfingu og lýst starfstefnum ungmannafélaga hér á landi og gildi þeirra fyrir komandi kynslóð. Á fyrsta fundinum voru sambandslög fyrir ungmennafélög Íslands lesin upp ásamt skuldbindingaskrá, skrá þessi var lögð fram til undirritunar þeirra er vildu stofna hér ungmennafélag. Fjórtán manns rituðu nafn sitt undir skuldbindingaskrána þar með var Ungmennafélagið Tindastóll myndað. Ákveðið var að fresta fundinum um nokkra daga til að hægt væri að kjósa stjórn í félagið þar að eru svo fáir félagar höfðu skráð sig, en þeir sem þegar gengu í félagið höfðu tíma til að safna sem flestum stofnendum fyrir næsta fund. Tillagan var svo greidd með öllum greiddum atkvæðum. Fundarstjóra var síðan falið á fundinum að hafa samband við sambandsstjórnar ungmennafélaga á Akureyri að fá upplýsingar um atriði er félagið varðaði.
Í fyrstu lögum félagsins segir að tilgangur þess sé a) Að reyna að alefli vekja löngun hjá æskulýðnum, að starfa ötullega fyrir sjálft sig, land sitt og þjóð. b) Temja sér að beita starfskröftum sínum í félagi og utan félags. c) Allir félagar kappkostist við að efla andlegt trúarlíf meðal þjóðarinnar, einnig styðja og viðhalda öllu því sem þjóðlegt og rammíslenskt er viðhalda og halda móðurmálinu hreinu.

Ungmennafélagið Hegri (1908-1978)

  • S03669
  • Organization
  • 1908 - 1978

Sunnudaginn 30. maí 1908 var stofnfundur Ungmennafélagsins Hegri haldin að Ási í Hegrannesi.
Málshefjandi var Ólafur Sigurðsson á Hellulandi er vakið hafði fyrst máls á stofnun slíks félags nokkru áður við messu á Ríp. Eftir nokkrar umræður var félagið stofnað með tólf meðlimum. Lög voru samin og samþykkt og allir meðlimir skrifuðu undir skuldbindingar félagsins. Í stjórn félagsins var kosið og hlutu þessir kosningu, Magnús Gunnarsson Utanverðunesi, gjaldkeri. Ólafur Sigurðsson Hellulandi, formaður. Stefanía Guðmundsdóttir Ási, skrifari. Stofnendur félagsins voru þessir: Einar Guðmundsson Ási, Hróbjartur Jónasson Keldudal, Jósteinn Jónasson Vatnsskarði, Magnús Gunnarsson Utanverðunesi, Ólafur Sigurðsson Hellulandi, Páll Magnússon HEllulandi, Sigurlaug Hannesdóttir Ríp, Sigurlau Guðmundsdóttir Ási, Stefanía Guðmundsdóttir Ási, Skúli Guðjónsson Vatnskoti, Valdimar Guðmundsson Ási, Þórarinn Jóhannsson Ríp.
Á fundinum kom fram athugasemd frá Ólafi Sigurðssyni: Nú var félagið stofnað, allir stofnendur voru sammála um þða að hér væri slæmur félagsskapur og s´tor þörf að bæta úr slíku, að vísu væri ekki svo erfitt að stofna félag en það væri verra aða halda þeim saman eða að minnsta kosti vissu allir það að svo hafði það gengið með áður stofnuð félög. Nú vildu allir stofnendur þessa félags halda í orustu, allir fyrir einn og einn fyrir alla móti þessum sundrungar anda og ófélagslyndi sem væri svo mjög ríkjandi í þessari litlu sveit. Með þetta fyrir augum fór hver heim til sín.

Karlakór Sauðárkróks (1963-2012)

  • S01237
  • Organization
  • 1963 - 2012

Karlakór Sauðárkróks var upprunalega stofnaður 20. nóvember 1935 og starfaði til ársloka 1942. Í janúar 1943 var stofnaður annar kór er hlaut nafnið Ásbirningar. Hann starfaði fram á mitt ár 1944. Karlakór Sauðárkróks var svo endurstofnaður 25. október 1963 og starfaði fram til ársins 1982. Hann var formlega lagður niður árið 2012.
Tilgangur félagsins er fyrst og fremst sá að halda uppi og efla karlakórsöng og sönglífi á Sauðárkróki og í Skagafjarðarsýslu.

Ungmennafélagið Vaka

  • S03631
  • Organization
  • 1930 - 1945

Ungmennafélagið Vaka í Viðvíkursveit. Óvíst um stofndag.

Kemur fram í Gjörðabók ungmennafélagsins Vöku í Viðvíkursveit að mánudaginn 10 mars 1930 var haldin stofnfundur í þinghúsi Viðvíkurhrepps til þess að ræða stofnun Ungmennafélags í Viðvíkurhreppi, fundinn setti Jóhann Björnsson hreppstjóri á Hofstöðum.Rædd voru lög og borin undir atkvæði og samþykkt í heild. Mánudaginn 9. júní 1930 var svo haldin aðalfundur í þinghúsi Viðvíkurhrepps þar sem ákveðið var nafn félagsins. Kosið var um nöfnin Vaka, Sunna og Eining. Uppfært14.11. 2023 LVJ

Skátafélagið Andvarar (1929-)

  • S01213
  • Organization
  • 1929-

Skátafélagið Andvarar var stofnað á Sauðárkróki þann 22. mars árið 1929 og var það aðallega fyrir drengi. Félagið var stofnað „að tilhlutan Jónasar Kristjánssonar læknis". Kristján C. Magnússon bókari kom fótum undir félagið að beiðni læknisins; var sveitarforingi fyrsta árið. Við tók Frank Michelsen.“ (Kristmundur Bjarnason, Skagfirzkur annáll 1847-1947 II, bls. 447).
Árið 1972 voru félögin Andvarar og Ásynjur (stofnað 1935) sameinuð undir nafninu Skátafélagið Eilífsbúar.
Árið 1989 voru í Skátafélaginu Eilífsbúum 90 skátar á aldrinum 10-16 ára, bæði stelpur og strákar en stelpur voru í miklum meirihluta. Flokkarnir voru 7 talsins auk dróttskátasveitar. Flokksforingjar voru á þessum tíma 15 talsins, en engir sveitar- eða deildarforingjar voru í félaginu.
Skátafélagið hélt veglegt afmælishóf í apríl 1989, í hófinu var Franch Michelsen gerður að fyrsta heiðursfélaga Eilífsbúa fyrir brautryðjendastarf hans í þágu skátahreyfingarinnar á Sauðárkróki. Hann var einn af stofnendum Skátafélagsins Andvarar og var félagsforingi á árunum 1931-1935 og 1940-43.
Fyrsti félagsforingi Skátafélagsins Andvara og sem síðar fékk nafnið Skátafélagið Eilífsbúar var Kristján C. Magnússon, auk hans hafa eftirtaldir aðilar verið félagsforingjar skátastarfsins á Sauðárkróki; Franch Michelsen, sr. Helgi Konráðsson, Lúðvig Halldórsson, Sigmundur Pálsson, Sigurður Helgi Guðmundsson, Valur Ingólfsson, Sigurður Jónsson, Gunnar Guðjónsson, Hreinn Hreinsson og Inga H. Andreassen. Núverandi (2024) félagsforingi Eilífsbúa er Hildur Haraldsdóttir.

Verkakvennafélagið Aldan (1930-2001)

  • S01866
  • Organization
  • 1930-

Verkakvennafélagið Aldan var stofnað þann 9. janúar 1930 á Sauðárkróki. Stofnendur voru 21 talsins. Ástríður Stefánsdóttir ljósmóðir átti frumkvæði að stofnun félagsins. Í félagslögum segir m.a.: „Tilgangur félagsins er sá að styðja og efla hag félagskvenna og menningu á þann hátt, sem kostur er, meðal annars með því að ákveða vinnutíma og kaupgjald og stuðla að því, að verkalýðurinn taki sjálfstæðan þátt í stjórnmálum lands og bæjarfélags.“
Fyrstu stjórn skipuðu: Ástríður Stefánsdóttir, formaður, Sigríður A.N. Eiriksen, ritari og Pálína Bergsdóttir.
Varastjórn skipuðu: Sigurrós J. Sigurðardóttir, Helga Jóhannsdóttir og Ingunn Magnúsdóttir.
Tvo meðráðamenn kaus félagið sér til halds og trausts úr Verkamannafélaginu Fram: Friðrik Hansen og Pétur Sigurðsson.
Verkakonur á Sauðárkróki töldu rétt að bindast samtökum um kaup og kjör, en fiskvinna, einkum síldarvinna, var nokkur og fór vaxandi.
Hver sú kona sem var orðin 16 ára að aldri og var fær til algengrar vinnu gat fengið inntöku í félagið. Varð hún að senda formanni skriflega inntökubeiðni en formaður bar umsóknina undir atkvæði á félagsfundi.
Aðalstörf félagsins snérust um að bæta kjör vinnandi kvenna, sérstaklega á meðan mikið atvinnuleysi var í landinu. Árið 1931 voru t.d. konurnar neyddar til að lækka þágildandi taxta félagsins til að hægt væri meðal annars að láta verka saltfisk á Sauðárkróki. En konurnar settu fram nokkur skilyrði gegn lækkun taxtans og meðal þeirra skilyrða var að félagar Öldunnar sætu fyrir vinnu, að konur við fiskþvott hefðu skýli og að þeim yrði lögð til áhöld.
Þeim konum sem mest beittu sér fyrir síldarsöltun á Sauðárkróki sumarið 1934 var neitað um vinnu á staðnum.
Aldan stéttarfélag, varð síðar til við sameiningu Verkalýðsfélagsins Fram og Verkakvennafélagsins Öldunnar. Sameinað félag tók til starfa í ársbyrjun 2001. Stofnfélagar voru um 820 manns, félagið á sér merkilega fortíð í sögu þessara félaga og forvera þeirra.

Results 171 to 177 of 177