Showing 27 results

Authority record
Þýskaland

Albert Volker Lindemann (1899-1969)

  • S00168
  • Person
  • 17.08.1899-24.03.1969

Albert Volker Lindemann var fæddur í Þýskalandi þann 17. ágúst 1899.
Hann var veitinga- og forstöðumaður í Varmahlíð.
Fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1945.
Hann lést 24. mars 1969.

Árni G. Eylands (1895-1980)

  • S02210
  • Person
  • 8. maí 1895 - 26. júlí 1980

Árni G. Eylands, ráðnautur, var fæddur á Þúfum í Óslandshlíð, 8. maí 1895. Foreldrar hans voru Þóra Friðbjörnsdóttir og Guðmundur Guðmundsson. Kona Árna var Margit Larsson frá Fosstveit í Noregi. Árni varð búfræðingur frá Hólaskóla en nam síðan búfræði í Noregi og Þýskalandi; kynntist þar ýmsum nýmælum í búskap svo sem vélum og verkfærum. Árið 1921 réðist Árni til starfa hjá Búnaðarfélagi Íslands, m.a. sem þúfnabanastjóri. Síðar varð Árni verkfæraráðunautur Búnaðarfélagsins, framkvæmdastjóri búnaðardeildar SÍS, Áburðarsölu ríkisins og Grænmetisverslunar ríkisins. Þá var hann í forystu Verkfæranefndar og Vélasjóðs þar sem í hlut hans kom það að vinna að innflutningi búvéla og verkfæra, svo og prófun þeirra. Hann leiðbeindi einnig um notkun búvéla og tækni. Má segja að Árni hafi hafi komið að flestu því er varðaði þá miklu verktæknibyltingu landbúnaðarins er hófst á þriðja áratug 20. aldar. Árni skrifaði bókina Búvélar og ræktun, sem út kom árið 1950. Bókin er mikið og einstakt heimildarrit um tæknivæðingu íslensks landbúnaðar á fyrri helmingi 20. aldar, auk þess að vera kennslubók síns tíma í mótor- og búvélafræðum. Árni og Margit eignuðust tvö börn.

Ásmundur Jónsson (1899-1963)

  • S02213
  • Person
  • 6. júlí 1899 - 18. sept. 1963

Foreldrar: Jón Sigurðsson bóndi, oddviti og sýslunefndarmaður á Skúfsstöðum og barnsmóðir hans Guðrún Þorsteinsdóttir. Ásmundur ólst upp á Skúfsstöðum. Hann fór ungur til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður danska sendiráðsins þar, en fékkst einnig af og til við verslunarstörf og fleira. Ásmundur dvaldist síðan lengi erlendis, mest í Danmörku og Þýskalandi og kvæntist þar 1938 vel menntaðri danskri söngkonu af pólskum og þýskum ættum, Irmu Weile. Eftir seinna stríðið fluttust þau heim til Reykjavíkur og bjuggu þar síðan. Ásmundur gaf út þrjár ljóðabækur og starfaði einnig við blaðamennsku.

Björn Halldór Kristjánsson (1897-1980)

  • S00739
  • Person
  • 14. nóv. 1897 - 28. jan. 1980

Sonur Kristjáns Gíslasonar kaupmanns á Sauðárkróki og Bjargar Eiríksdóttur. Stórkaupmaður í Hamborg í Þýskalandi og síðar í Reykjavík.

Bragi Ólafsson (1903-1983)

  • S01290
  • Person
  • 18. nóv. 1903 - 19. des. 1983

Foreldrar: Ólafur Vilborgarson verslunarstjóri í Keflavík og s.k.h. Þórdís Einarsdóttir frá Kletti í Geiradal. Bragi ólst upp á heimili foreldra sinna í Keflavík. Hann stundaði nám í Menntaskólanum í R.vík og lauk stúdentsprófi vorið 1923. Um haustið réðst hann síðan til náms í Háskólanum og lauk þar kandidatsprófi í heimspeki ári síðar. Að því loknu innritaðist hann í læknadeild og lauk kandidatsprófi frá HÍ1929. Hann stundaði framhaldsnám í Þýskalandi á árunum 1930-1931 og einnig í Bandaríkjunum árið 1947. Hann starfaði sem læknir í Hafnarfirði frá júní 19 frá júní 1930 til maí 1931 og í Reykjavík frá október 1931-1934, skipaður héraðslæknir í Hofsósslæknishéraði frá 1.6.1934 og starfaði þar til ársloka 1944. Skipaður héraðslæknir í Eyrarbakkahéraði 1945, jafnframt settur læknir í Laugarásshéraði frá 1.5.1947 og til að þjóna læknisstörfum á Vinnuhælinu að Litla-Hrauni 1950. Sinnti þeim störfum til ársins 1967, er hann var skipaður aðstoðarborgarlæknir og starfaði við það embæti fram til 1976.
Kvæntist Amalíu Sigríði Jónsdóttur frá Hafnarfirði, þau eignuðust eina dóttur. Bragi átti einnig dóttur utan hjónabands.

Einar Benediktsson (1864-1940)

  • S02440
  • Person
  • 31. okt. 1864 - 12. jan. 1940

,,Faðir Einars var Benedikt Sveinsson, alþingismaður og sýslumaður og móðir hans hét Katrín Einarsdóttir, húsmóðir. Einar gekk í Lærða Skólann í Reykjavík þaðan sem hann varð stúdent 1884. Hann fór því næst til Kaupmannahafnar og útskrifaðist sem lögfræðingur úr Hafnarháskóla 1892. Einar stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, sem studdi Heimastjórnarflokkinn, og var sjálfur ritstjóri þess í tvö ár. Hann átti þátt í stofnun Landvarnarflokksins árið 1902 og gaf út blaðið Landvörn samhliða því. Einar átti þátt í því að koma á laggirnar fyrstu loftskeytastöð landsins árið 1905. Hann kom einnig að útgáfu blaðanna Þjóðin (1914–15), Þjóðstefna (1916–17) og Höfuðstaðurinn (1916–17). Einar var mikill áhugamaður um virkjun fallvatna og stofnaði ásamt öðrum Fossafélagið Títan 1914 til athugunar á því hvort arðbært væri að byggja virkjanir við Þjórsá. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum fyrr en um hálfri öld seinna þegar Búrfellsvirkjun var byggð. Á árunum 1907–21 ferðaðist Einar mikið. Hann fór til Noregs, Edinborgar í Skotlandi, sneri aftur til Kaupmannahafnar (1908-10) en eyddi svo sjö árum í London (1910–17) áður en hann fór enn aftur til Kaupmannahafnar (1917–21), þess í milli hafði hann stuttar viðkomur á Íslandi. Hann sneri endanlega aftur heim til Íslands 1921 og bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, meðal annars í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Þá lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, til þess að skoða möguleikana á málmvinnslu og sementsframleiðslu. Síðustu átta árum ævi sinnar eyddi Einar í Herdísarvík á Reykjanesskaga, þar sem hann lést 1940."
Helstu verk:
Sögur og kvæði (1897)
Pétur Gautur (1901) (Þýðing á leikriti Henrik Ibsen)
Hafblik (1906) (Kvæði)
Hrannir (1913) (Kvæði)
Vogar (1921) (Kvæði)
Hvammar (1930) (Kvæði)

Erlingur Pálsson (1895-1966)

  • S03088
  • Person
  • 3. nóv. 1895 - 22. okt. 1966

Erlingur Pálsson var fæddur 3. nóvember 1895 að Árhrauni á Skeiðum. ,,Á fermingaraldri gerðist hann aðstoðarmaður föður síns við sundkennslu í Reykjavík, en 19 ára gamall tók hann sig upp og fór til Lundúna til þess að nema nýjustu sundkennsluaðferðir. Lauk hann þar sundkennaraprófi með prýði, en kenndi eftir það um nokkurt árabil skólanemendum í Reykjavík, sjómönn um og sundkennurum björgunar sund og lífgunaraðferðir. Á árinu 1919 var ákveðið að stofna embætti yfirlögregluþjóns í Reykjavík. Erlingi var boðið starfið, sem hann þáði, með því skilyrði að hann fengi tækifæri til þess að nema lögreglufræði í erlendum skólum. Var það auðsótt mál. Hélt Erlingur nú til Danmerkur og Þýskalands, þar sem hann sótti lögregluskóla og kynnti sér skipulagningu og dagleg störf lögregluliða. Eftir ársdvöl ytra kom hann heim til þess að taka við embætti, en æ síðar leitaðist hann við að bæta við þekkingu sína á sviði lögreglumála með kynnisferðun til útlanda og lestri fræðibóka og tímarita. Þannig hófst giftusamlegur starfsferill Erlings Pálssonar í lögregluliði Reykjavíkur, sem stóð yfir í hátt á fimmta áratug. Á því sama ári sem Erlingur tók við yfirlögregluþjónsembætti kvæntist hann Sigríði Sigurðardóttur frá Ámanesi í Hornafirði, þau eignuðust tíu börn.
Erlingur var mikill íþróttafrömuður, einkum á sviði sundíþróttarinnar. Sjálfur vann hann glæsileg afrek í þeirri grein; synti fyrstur nútímamanna hið fræga Drangeyjarsund og varð sigurvegari í fjöldamörgum sundkeppnum. Hann var lengi í forystuliði íþróttamanna, formaður Sundfélags Reykjavíkur árin 1926-1931, Sundráðs Reykjavíkur frá stofnun þess árið 1951 og varaforseti Í.S.Í. árin 1933-1951."

Eyþór Stefánsson (1901-1999)

  • S00435
  • Person
  • 23. jan. 1901 - 3. nóv. 1999

Eyþór Stefánsson fæddist á Sauðárkróki 23. janúar 1901. Foreldrar hans voru Stefán Sigurðsson, sjómaður og k.h. Guðrún Jónasdóttir. Hann gekk í barna- og unglingaskólann á Sauðárkróki, en 1928 fór hann suður í tónlistarnám hjá Emil Thoroddsen og Páli Ísólfssyni og leiklistarnám hjá Indriða Waage. Hann var síðan við framhaldsnám í þessum greinum í Hamborg 1934. Hann var aðeins 11 ára gamall er hann byrjaði að syngja með kirkjukór Sauðárkróks en kórinn var ekki formlega stofnaður fyrr en 1942 að hans tilstuðlan og var hann fyrsti stjórnandi hans. Hafði hann þá verið organisti og söngstjóri við Sauðárkrókskirkju frá árinu 1929 og gegndi hann þeim störfum allt til ársins 1972. 19 ára gamall byrjaði Eyþór að vinna að söng- og leiklistarstörfum fyrir Ungmennafélagið Tindastól, eins var hann einn af þeim sem endurreistu Leikfélag Sauðárkróks 1941 og starfaði þar sem leikstjóri og leikari allt til ársins 1976 er hann steig síðast á svið, var það hans 118. hlutverk. Hann vann við verslunar- og skrifstofustörf á Sauðárkróki 1923-1948, og var söngkennari við Barna- og gagnfræðaskóla Sauðárkróks 1948-1972. Skólastjóri Tónlistarskóla Sauðárkróks 1964-1974. Formaður framkvæmdanefndar um byggingu minnisvarða Stephans G. Stephanssonar á Arnarstapa 1953. Hann var á tímabili formaður Kirkjukórasambands Skagafjarðarprófastsdæmis, sat í stjórn Kirkjukórasambands Íslands og var sendikennari þess til kirkjukóra á Norður-, Austur- og Vesturlandi 1952-1961. Hann var einn af stofnendum Rotaryklúbbs Sauðárkróks 1948 og fræðslustúkunnar Mælifells, innan frímúrarareglunnar á Íslandi 1970. Hann var heiðursfélagi í mörgum félögum, þar á meðal: Kirkjukór Sauðárkróks, Leikfélagi Sauðárkróks, Ungmennafélaginu Tindastól, Rotaryklúbbi Sauðárkróks, Tónskáldafélaginu, var sæmdur heiðursmerki úr silfri frá Karlakórasambandinu Heklu á Akureyri, gullmerki frá Félagi íslenskra leikara og var heiðursborgari Sauðárkróks frá árinu 1971. Eins var hann sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að menningarmálum á Sauðárkróki. Eyþór kvæntist 13. desember 1936 Sigríði Önnu Stefánsdóttur frá Skógum í Þelamörk, f. 29. september 1905, d. 20. júní 1992. Sigríður tók virkan þátt í störfum Eyþórs bæði í leiklist og tónlist. Þau eignuðust eina dóttur.

Fríða Emma Eðvarðsdóttir (1927-2009)

  • S02852
  • Person
  • 31. maí 1927 - 30. maí 2009

Fríða Emma Eðvarðsdóttir, f. 31.05.1927 í Lossa í Mið-Þýskalandi. Foreldrar: Berta Emma Karlsdóttir og Edmund Ulrich. Fríða flutti frá Þýskalandi með foreldrum sínum til Íslands þriggja ára gömul. Hún gekk í barnaskóla á Akureyri, en byrjaði ung að vinna fyrir sér. Í janúar 1949 fór hún að Þorsteinsstöðum í Tungusveit. Þar bjó Finnbogi Stefánsson sem varð síðar eiginmaður hennar, þau eignuðust fjögur börn en fyrir átti Fríða eina dóttur. Fríða bjó á Þorsteinsstöðum til ársins 1994, en flutti þá á Sauðárkrók.

Gísli Halldórsson Kolbeins (1926-2017)

  • S01526
  • Person
  • 30. maí 1926 - 10. júní 2017

Gísli fæddist í Flatey á Breiðafirði 30. maí 1926. ,,Hann stundaði nám í foreldrahúsum, tók stúdentspróf frá MA 1947, lauk guðfræðinámi frá HÍ 1950, stundaði framhaldsnám í guðfræði við Háskólann í Göttingen í Þýskalandi 1959-60, stundaði rannsóknir í kirkjusögu í Lundúnum, Lúxemborg, Bremen og Kaupmannahöfn 1981-82 og var í endurmenntun og guðfræðitengdu rannsóknarnámi í York í níu mánaða leyfi 1981-82. Gísli varð sóknarprestur í Sauðlauksdal 1950. Hann starfaði þar 1950-54 og gegndi aukaþjónustu í Eyraprestakalli og í Vestmannaeyjum. Hann var sóknarprestur á Melstað í Vestur-Húnavatnssýslu 1954-77 og í Stykkishólmi 1977-92. Auk þess gegndi hann aukaþjónustu á Melstað og í Setbergsprestakalli. Eftir að hann lauk skipaðri prestþjónustu sinnti hann prestþjónustu á Kolfreyjustað 1992, á Sauðárkróki, í Bolungarvík, í Staðastaðaprestakalli 1995-96, í Skagastrandarprestakalli 1998, Bólstaðahlíðarprestakalli 1998, í Vestmannaeyjum 1998, á Hrafnistu í Hafnarfirði 1998-99, á Kolfreyjustað 2000-2001, í Hofsóss- og Hólaprestakalli 2001-2003 og í Skagastrandarprestakalli 2004. Gísli starfaði í góðtemplarareglunni um árabil, sat í stjórn Ungmennafélagsins Grettis í Miðfirði, var formaður Ungmennasambands Vestur-Húnavatnssýslu 1956-60, sat í barnaverndarnefnd Ytri-Torfustaðahrepps 1954-76, í stjórn Veiðifélags Miðfjarðarár í 20 ár, í skólanefnd Reykjaskóla, í stjórn Byggðasafnsins á Reykjum í 20 ár, var prófdómari í barnaskólum í Vestur-Húnavatnssýslu í 23 ár, formaður og ritari Lionsklúbbsins Bjarma á Hvammstanga, sat í barnaverndarnefnd Stykkishólms, í stjórn Byggðasafns Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, var ritari Lionsklúbbs Stykkishólms, sat í fulltrúaráði Prestafélags Íslands og var formaður Hallgrímsdeildar Prestafélags Íslands. Gísli þýddi ritið Könnuður í fimm heimsálfum, var ritstjóri ýmissa tímarita og ársrita og samdi Skáld-Rósu og síðan Skáldung, um námsár Nóbelsskáldsins hjá sr. Halldóri, föður Gísla."
Gísli kvæntist Sigríði Ingibjörgu Bjarnadóttur Kolbeins frá Brekkubæ í Nesjum, þau eignuðust fimm börn.

Guðmundur Einarsson (1865-1907)

  • S00781
  • Person
  • 15.06.1865-25.09.1907

Foreldrar: Einar Baldvin Guðmundsson b. og alþingismaður á Hraunum og 1. k. h. Kristín Pálsdóttir frá Viðvík. Guðmundur ólst upp hjá foreldrum sínum á Hraunum og vann þar að bústörfum til lands og sjávar. Hann stundaði nám á Möðruvallaskóla líklega veturnar 1881-1883. Að lokinni þeirri skólagöngu fór hann utan til námsdvalar í Þýskalandi og Noregi. Nokkru eftir að hann kom úr utanförinni gekk hann í þjónustu Gránufélagsins á Sauðárkróki og lagði þar stund á verslunarstörf. Um 1890 varð hann bókhaldari Poppsverslunar á Sauðárkróki og gengdi því starfi til 1898, er hann varð verslunarstjóri Poppsverslunar á Hofsósi. Árið 1904 varð Guðmundur verslunarstjóri Gránufélagsins á Siglufirði og gegndi því starfi til æviloka. Guðmundur kvæntist Jóhönnu Stefánsdóttur frá Reynistað, þau eignuðust fjögur börn.

Guðmundur Ernir Sigvaldason (1932-2004)

  • S02988
  • Person
  • 24. júlí 1932 - 15. des. 2004

Guðmundur Ernir Sigvaldason fæddist í Reykjavík 24. júlí 1932. Guðmundur var sonur Birgittu Guðmundsdóttur, verkakonu og Sigvalda Jónassonar, bónda. Guðmundur var þrígiftur og átti sjö börn. ,,Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1952 og doktorsprófi í bergfræði og jarðfræði frá Georg-August Universität í Göttingen í Þýskalandi árið 1959. Hann hlaut styrk til rannsókna við US Geological Survey í Washington í Bandaríkjunum og Melno Park 1959–1961. Guðmundur starfaði sem sérfræðingur við iðnaðardeild atvinnudeildar Háskóla Íslands 1961–1967 og var sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og kenndi við jarðfræðiskor 1968–1972. Hann vann tvívegis að jarðhitaverkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna í Rómönsku Ameríku, fyrst í El Salvador 1967–1968 og síðan í Níkaragva 1972–1973. Guðmundur var forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar frá stofnun hennar árið 1973 og til 1998. Guðmundur sat í úthlutunarnefnd Vísindasjóðs 1968–1982 og varð formaður nefndarinnar 1999–2001. Hann var fulltrúi Íslands í vísindasiðanefnd NATO 1970–1982, formaður Alþjóðasambands eldfjallastöðva 1981–1991 og sat í stjórn European Laboratory Volcanos Project 1986–1996. Guðmundur var í stjórnum og starfaði sem aðalráðgjafi í fjölmörgum alþjóðlegum vísinda- og fræðiverkefnum, m.a. á vegum Evrópubandalagsins og einstakra Evrópuríkja. Guðmundur hefur ritað fjöldann allan af fræðigreinum í blöð og fagtímarit, gert sjónvarpsþætti fyrir almenning og hlotið viðurkenningar fyrir vísindastörf sín. Hann varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 2000."

Hallgrímur Helgason (1959-

  • S02631
  • Person
  • 18. feb. 1959-

Hallgrímur Helgason er íslenskur rithöfundur, málari, þýðandi, skopteiknari og greinahöfundur. Hann nam við Myndlista- og Handíðaskólann veturinn 1979-1980 og Listaakademíuna í München 1981-1982. Hallgrímur hefur starfað sjálfstætt sem myndlistarmaður og rithöfundur frá árinu 1982. Tónskáld.

Haraldur Valdimar Ólafsson (1901-1984)

  • S02689
  • Person
  • 3. júní 1901 - 18. sept. 1984

Lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1920. Var við nám í Danmörku og Þýskalandi 1922-1923. Var aðstoðarmaður föður síns, Ólafs Magnússonar kaupmanns við versluna Fálkann árin 1921-1948. Framkvæmdastjóri Fálkans frá 1948-1955. Framkvæmdastjóri þar ásamt bræðrum sínum þar til hann lét af störfum vegna aldurs 1975. Gegndi ýmsum félagsstörfum á vettvangi hljómplötuframleiðenda og var aðalræðismaður lýðveldisins Kóreu frá 1970. Gerður heiðursfélagi í deild Íslendingafélagsins í Winnipeg árið 1968. Heiðursfélagi Karlakórsins Vísis og Lúðrasveitarinnar Svans árið 1969. Maki: Þóra Finnbogadóttir frá Skarfanesi. Þau eignuðust tvö börn en fyrir átti Haraldur einn son.

Ingibjörg Alda Bjarnadóttir (1929-2009)

  • S01807
  • Person
  • 2. maí 1929 - 1. ágúst 2009

Ingibjörg Alda Bjarnadóttir fæddist á Sauðárkróki 2. maí 1929. Hún var dóttir hjónanna Helgu Pétursdóttur saumakonu og Bjarna Antons Sigurðssonar sjómanns. ,,Eftir að Alda missti föður sinn ung að árum, fluttist móðir hennar frá Sauðárkróki til Akureyrar. Alda þurfti að hætta skólagöngu í Menntaskólanum á Akureyri sökum þess að hún fékk berkla. Árið 1954 fór hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og kláraði próf þaðan árið 1955. Árið 1952 giftist Alda Stefáni Skaftasyni lækni frá Siglufirði, þau skildu, þau eignuðust eina dóttur. Alda og Stefán bjuggu bæði í Þýskalandi og Svíþjóð en eftir að þau skildu fluttist hún aftur til Akureyrar. Á Akureyri kynntist hún síðari manni sínum, Magnúsi, þar sem hann starfaði sem bæjarstjóri, þau eignuðust tvær dætur. Bjuggu þau hjónin á Akureyri til ársins 1967 en fluttu þá suður. Alda og Magnús fluttu í Kópavoginn og bjuggu þar allt fram á dánardag Magnúsar. Síðast búsett í Keflavík.

Jón Jóhann Jónsson Auðuns (1905-1981)

  • S02995
  • Person
  • 5. feb. 1905 - 10. júlí 1981

Foreldrar: Jón Auðuns framkvæmdastjóri og alþingismaður á Ísafirði og Margrét Guðrún Jónsdóttir frá Stað á Reykjanesi. ,,Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1924 og guðfræðiprófi frá Háskóla íslands 1929. Hann stundaði síðan nám í samanburðarguðfræði og helgisiðafræði í Marburg og París og ferðaðist auk þess víða um Vestur-Evrópu. Árið 1930 var hann vígður forstöðumaður fríkirkjusafnaðarins í Hafnarfirði og 1941 var hann jafnframt ráðinn forstöðumaður fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík og var búsettur þar síðan. Jón var skipaður prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík 1. desember 1945 og dómprófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi 1951. Árið 1971 var honum veitt lausn frá starfi að hálfu vegna heilsubrests og að fullu 1973. Jón var ráðinn forstöðumaður Listasafns Einars Jónssonar 1970, sat kirkjuþing á árunum 1958 til 1962 og var prófdómari í guðfræði við Háskóla Íslands frá 1950, formaður Safnaðarráðs Reykjavíkur frá 1953 til 1973 og formaður Ekknasjóðs Reykjavíkur sama tímabil. Þá var hann formaður stjórnar kirkjubyggingarsjóðs Reykjavíkur frá 1954. Jón var skipaður í Skálholtsnefnd 1955 til 1956 og í dómnefnd um leikritasamkeppni fyrir Skálholtshátíðina 1955. Þá var hann forseti Sálarrannsóknarfélags íslands frá 1939 til 1963, í stjórn Barnaverndarfélags Reykjavíkur í mörg ár og formaður Reykjavíkurdeildar Rauða kross íslands frá 1951 til 1967. Jón ritaði einnig mikið í þágu kristinnar trúar og ritaði einnig talsvert um sálarrannsóknir og spírtisma. Eftir hann liggja mörg rit, bæði frumsamin og þýdd auk fjölda blaða- og tímaritsgreina. Maki: Dagný Einarsdóttir. Þau eignuðust ekki börn."

Jón Þórarinsson (1917-2012)

  • S02443
  • Person
  • 13. sept. 1917 - 12. feb. 2012

Jón Þórarinsson fæddist í Gilsárteigi í Eiðaþinghá, S-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Þórarinn Benediktsson, hreppstjóri og alþingismaður, f. í Keldhólum á Völlum og k.h. Anna María Jónsdóttir. Árið 1920 flutti fjölskyldan til Seyðisfjarðar. ,,Jón varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1937 og stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann lauk Mus.B-prófi í tónfræði 1946 og Mus.M-prófi í tónsmíði 1947 við Yale-háskólann í Bandaríkjunum. Sumarið 1945 stundaði hann nám við Juilliard-tónlistarháskólann í New York og fór til námsdvalar í Austurríki og Þýskalandi 1954-1955. Jón var yfirkennari í tónfræði og tónsmíði við Tónlistarskólann í Reykjavík 1947-1968, stundakennari við sama skóla frá 1979 og kennari við Söngskólann í Reykjavík 1983-1987. Hann starfaði við Ríkisútvarpið að mestu óslitið 1938-1956, var dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Ríkissjónvarpsins 1968-1979 og sat í Útvarpsráði 1983-1987. Hann var einn af stofnendum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fyrsti stjórnarformaður 1950-1953 og framkvæmdastjóri hennar 1956-1961. Þá sat hann aftur í stjórn hljómsveitarinnar frá 1988-2002. Jón var söngstjóri Fóstbræðra 1950-1954, Gamalla Fóstbræðra frá stofnun 1959-1997 og Stúdentakórsins 1964-1967. Hann var forseti Bandalags íslenskra listamanna 1951-1952 og 1963-1966, var formaður úthlutunarnefndar Kvikmyndasjóðs 1985-1986 og framkvæmdastjóri Listahátíðar 1988. Jón sat í undirbúningsnefnd Samtaka um byggingu tónlistarhúss (1987) og í stjórn samtakanna um skeið. Auk þess að gegna ýmsum öðrum stjórnar- og trúnaðarstörfum hjá samtökum listamanna. Jón var meðlimur í Rótarýklúbbi Reykjavíkur frá 1975 til dauðadags. Eftir Jón liggur fjöldi tónverka. Meðal þekktra sönglaga Jóns eru Fuglinn í fjörunni, Íslenskt vögguljóð á Hörpu og Sex gamlir húsgangar. Jón samdi auk þess tónlist við mörg leikrit og kvikmyndir og gerði fjölda útsetninga á verkum annarra höfunda, meðal annars hljómsveitarútsetningu þjóðsöngsins. Megnið af frumsaminni tónlist Jóns kom út á geisladiskasafninu Fuglinn í fjörunni 1998. Meðal ritverka Jóns eru Stafróf tónfræðinnar (1962) Páll Ísólfsson (1963) Sveinbjörn Sveinbjörnsson ævisaga (1969) og óútgefin Tónlistarsaga Íslands frá landnámsöld til miðbiks tuttugustu aldar sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni. Hann skrifaði tónlistargagnrýni og um tónlist og tónlistarmenn í Alþýðublaðið (1948-1950), Morgunblaðið (1962-1968) og Vísi á árum áður. Eftir Jón liggur auk þess mikill fjöldi greina um tónlist og tónlistarmálefni frá ýmsum tímum. Jón var riddari íslensku fálkaorðunnar frá 1978 og stórriddari hennar frá 1999." Fyrri kona Jóns var Þórdís Edda Kvaran, þau eignuðust þrjá syni. Þau skildu. Seinni kona Jóns var Sigurjóna Jakobsdóttir, þau eignuðust fjögur börn.

Jónas Jónsson (1885-1968)

  • S02945
  • Person
  • 1. maí 1885 - 19. júlí 1968

Fæddur í Hriflu í Bárðardal. Foreldrar: Jón Kristjánsson bóndi þar og kona hans Rannveig Jónsdóttir. ,,Gagnfræðapróf Akureyri 1905. Nám í lýðháskólanum í Askov á Jótlandi 1906–1907, í kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn 1907–1908. Kynnti sér skólamál í Þýskalandi, Frakklandi og Englandi 1908–1909 með styrk úr landssjóði, dvaldist þá m. a. eitt missiri á Ruskin College í Oxford. Kennari við unglingaskólann á Ljósavatni 1905–1906. Kennari við Kennaraskólann í Reykjavík 1909–1918. Skólastjóri Samvinnuskólans frá stofnun hans haustið 1919–1927 og 1932–1955. Skipaður 28. ágúst 1927 dóms- og kirkjumálaráðherra, lausn 20. apríl 1931, skipaður 20. ágúst 1931 dóms- og kirkjumálaráðherra að nýju, lausn 28. maí 1932, en gegndi störfum til 3. júní. Kosinn 1925 í bankamálanefnd, 1926 í alþingishátíðarnefnd. Í dansk-íslensku ráðgjafarnefndinni 1926–1939. Í Þingvallanefnd 1928–1946. Í menntamálaráði 1934–1946. Tók sæti í bankaráði Landsbankans 1927 og 1936, í orðunefnd 1935–1944. Forseti Þjóðvinafélagsins 1940–1941. Í skipulagsnefnd atvinnumála 1934. Formaður Framsóknarflokksins 1934–1944. Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1938–1942. Í skipulagsnefnd bygginga við Lækjargötu 1943."

,,Landskjörinn alþingismaður 1922–1934, alþingismaður Suður-Þingeyinga 1934–1949 (Framsóknarflokkur).
Dóms- og kirkjumálaráðherra 1927–1931 og 1931–1932.
Milliþingaforseti efri deildar 1932 og 1933."

,,Afkastamikill rithöfundur, skrifaði bækur, bókarkafla og greinar í blöð og tímarit. Samdi kennslubækur, oft endurprentaðar, og skrifaði greinar um menn og málefni: skólamál, samvinnumál, þjóðfélagsmál o. fl. — Jónas Kristjánsson annaðist útgáfu bókarinnar: Jónas Jónsson frá Hriflu. Ævi hans og störf (1965). Indriði G. Þorsteinsson skrifaði: Samtöl við Jónas (1977). Guðjón Friðriksson skrifaði ævisögu Jónasar Jónssonar í þremur bindum: Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni. Dómsmálaráðherrann. Ljónið öskrar (1991–1993).
Ritstjóri: Skinfaxi (1911–1917). Tímarit íslenskra samvinnufélaga (1917–1925). Samvinnan (1926– 1928 og 1931–1946). Ófeigur (1944–1956). Landvörn (1946). Landvörn (1948–1953)."

Karl Ottó Runólfsson (1900-1970)

  • S02632
  • Person
  • 24. okt. 1900 - 29. nóv. 1970

,,Karl Ottó Runólfsson tónskáld fæddist í Reykjavík 24.10. árið 1900. Hann var sonur Runólfs Guðmundssonar, sjómanns og verkamanns í Reykjavík, og k.h., Guðlaugar M. Guðmundsdóttur. Fyrri kona Karls var Margrét Kristjana Sigurðardóttir sem lést kornung, 23 ára, eftir skamma sambúð þeirra hjóna. Seinni kona Karls var Helga Kristjánsdóttir. Karl lærði prentiðn í Gutenberg, lauk sveinprófi 1918 og starfaði við prentverk til 1925. Hann fór þá til Kaupmannahafnar, lærði þar á trompet hjá Lauritz Sörensen, lærði á fiðlu hjá Axel Jörgensen og lærði að útsetja lög fyrir lúðrasveitir hjá Dyring. Þá stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1934-39, lærði þar tónsmíðar hjá Frans Mixa og að útsetja lög fyrir hljómsveitir hjá Victor Urbancic. Karl kenndi og stjórnaði Lúðrasveit Ísafjarðar 1920 og 1922-23, Lúðrasveit Hafnarfjarðar 1924-25 og 1928-29, Lúðrasveit og Hljómsveit Akureyrar 1929-34, var hljómsveitarstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1934-35 og meðlimur Lúðrasveitar Reykjavíkur frá stofnun og stjórnandi hennar 1941-42. Lengst af stjórnaði Karl þó Lúðrasveitinni Svani eða í 21 ár, auk þess sem hann stjórnaði Lúðrasveit barna- og unglingaskóla Reykjavíkur. Þá lék hann með danshljómsveitum, víða um land, á sínum yngri árum. Karl kenndi hljómfræði og trompetleik við Tónlistarskólann í Reykjavík 1939-64, stundaði einkakennslu á fiðlu og trompet og lék sjálfur á trompet í Útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Íslands 1950-55. Karl var stofnandi og síðar formaður Lúðrasveitar Reykjavíkur í mörg ár og formaður Landssambands íslenskra lúðrasveita í tíu ár. Hann var mikilsvirt tónskáld sem samdi flestar tegundir tónsmíða, þ.á m. nokkur ástsæl sönglög og raddsetti mikinn fjölda þjóðlaga."

Kristján Árnason (1934-2018)

  • S02624
  • Person
  • 26. sept. 1934 - 28. júlí 2018

,,Kristján var skáld, þýðandi og dósent í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Kristján er einna þekktastur fyrir þýðingar sínar, og þýddi m.a. Ummyndanir eftir Óvidíus, Ilminn eftir Patrick Süskind, Raunir Werthers unga eftir Goethe, Hinsta heim eftir Christoph Ransmayr og Felix Krull; játningar glæframanns eftir Thomas Mann. For­eldr­ar Kristjáns voru Árni Kristjánsson píanóleikari og tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins og Anna Guðrún Steingrímsdóttir. Kristján lauk stúd­ents­prófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1953. Hann lauk BA-próf í grísku og lat­ínu frá Háskóla Íslands árið 1962 og nam heim­speki, bók­mennt­ir og forn­mál­ við há­skóla í Þýskalandi og Sviss á ár­un­um 1953-1958 og 1963-1965. Hann starfaði m.a. sem kenn­ari við Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri og Kenn­ara­skóla Íslands á sjö­unda ára­tugn­um og Mennta­skól­an­um að Laug­ar­vatni frá 1967-1990. Frá 1973 var hann kennari við Háskóla Íslands. Fyrri eiginkona Kristjáns var Kristín Anna Þórarinsdóttir leikkona en hún lést árið 1988. Þau eignuðust þrjú börn. Seinni kona Kristjáns var Inga Huld Hákonardóttir sagnfræðingur. Árið 2010 hlaut Kristján Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á Ummyndunum eftir Óvid."

Ólafur Haukur Helgason (1930-2006)

  • S01705
  • Person
  • 11. apríl 1930 - 31. okt. 2006

Foreldrar Ólafs Hauks voru Helgi Ólafsson kennari á Sauðárkróki og Akureyri, síðar búsettur í Reykjavík, og k.h. Valý Þ.Á. Ágústsdóttir. ,,Ólafur varð stúdent frá MA 1952. Nám í læknisfræði við HÍ 1952-53, cand. phil. þaðan og með próf í efnafræði. Nám í tannlækningum við háskólana í Kiel og Heidelberg í V-Þýskalandi en lauk ekki prófi. Kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1963. Vann við kennslustörf um árabil og ýmis önnur störf. Sendi frá sér frumsamin kvæði sem birt voru í Morgunblaðinu og víðar."

Örn Guido Bernhöft (1930-2007)

  • S03123
  • Person
  • 23. apríl 1930 - 22. okt. 2007

Örn Guido Bernhöft fæddist í Reykjavík 23. apríl 1930. Foreldrar hans voru hjónin Óskar Guido Bernhöft stórkaupmaður og Jóhanna María Möller frá Sauðárkróki. ,,Örn ólst upp í foreldrahúsum í Reykjavík, lengst af í Garðastræti, Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951 hélt hann utan til náms í Technische Hochschule í München 1952-1956, fyrst í efnaverkfræði og síðar í rafmagnsverkfræði. 1957 hóf Örn störf hjá Reykjavíkurborg, fyrst hjá Teiknistofu Rafmagnsveitunnar, þar sem hann gegndi um hríð starfi forstöðumanns, síðar sem fulltrúi skipulagsstjóra og svo á skrifstofu borgarstjóra. Í byrjun áttunda áratugarins hóf Örn störf hjá innflutningsfyrirtæki fjölskyldu sinnar, H.Ólafsson & Bernhöft, og starfaði þar meðan heilsan leyfði. Örn var meðal þeirra fyrstu hér á landi sem gerðu við sjónvarpstæki og settu upp sjónvarpsloftnet enda var hann alla tíð áhugasamur um rafmagnstækni. Hann var mikill hestamaður og gefinn fyrir útilegur og ferðalög. Örn gegndi trúnaðarstörfum fyrir FR, Félag farstöðvaeigenda á Íslandi, og var um tíma formaður þess. Hann var félagi í Frímúrarareglunni." Örn kvæntist 20. janúar 1961 Svövu Jóhönnu Pétursdóttur, þau eignuðust tvo syni.

Ottó Michelsen (1920-2000)

  • S00093
  • Person
  • 10. júní 1920 - 11. júní 2000

Ottó fæddist á Sauðárkróki, sonur hjónanna Guðrúnar Pálsdóttur húsfreyju og Jörgen Frank Michelsen úrsmiðs og kaupmanns á Sauðárkróki. Hann lærði skriftvélatækni í Þýskalandi og stofnaði fyrirtækið Skrifstofuvélar árið 1946. Hann var forstjóri IBM á Íslandi 1967-1982. Hann gengdi trúnaðarstörfum á sviði menningar - og félagsmála og einnig fyrir þjóðkirkjuna.
Ottó kvæntist Gyðu Jónsdóttur og eignaðist með henni fjögur börn.

Sigurður Nordal (1886-1974)

  • S02517
  • Person
  • 14. sept. 1886 - 21. sept. 1974

Sigurður var fæddur á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal. Foreldrar hans voru Björg Sigurðardóttir húsfreyja og Jóhannes Nordal íshússtjóri. Sigurður ólst upp hjá föðurbróður sínum Jónasi Guðmundssyni og Steinunni Steinsdóttur konu hans. Hann varð stúdent frá MR árið 1906 og lauk meistaraprófi frá Hafnarháskóla í norrænum fræðum 1912 og Dr. phil.-prófi 1914 frá sama skóla. Einnig stundaði hann heimspekinám í Berlín og Oxford 1917 - 1918. Sigurður var prófessor í íslenskum fræðum og íslenskum skáldskap og menningarsögu. Hann var sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn frá 1951 til 1957. Eftir Sigurð liggur fjöldi merkra ritverka, einnig greinar, ljóð og leikrit.
,,Sigurður Nordal var útgáfustjóri Íslenskra fornrita 1933-1951, ritstjóri Studia Islandica 1937-1953 og Monumenta typographica 1-5, en meðritstjóri Nelson's Icelandic Texts og meðútgefandi tímaritsins Vöku 1927-1929. Hann var þjóðernishyggjumaður og lagði rækt við íslenskt mál og íslenska hugsun. Þótt íslensk fræði hafi verið stunduð hér á landi á undan Sigurði Nordal af mönnum eins og Sveinbirni Egilssyni og Birni M. Ólsen var það fyrst með honum að verulega fór að kveða að rannsóknum í íslenskum fræðum við æðri menntastofnanir og áhrifa þeirra að gæta út fyrir landsteinana. Ritskýringar hans og lýsing á þróun íslenskra bókmennta voru um eitt skeið viðteknar þar sem þessi fræði eru stunduð.
Sigurður aðhylltist svokallaða bókfestukenningu um uppruna Íslendinga sagna. Sigurður setti saman Íslenska lestrarbók 1400 - 1900 árið 1924. Þar birti hann ritgerð sína um samhengið í íslenskum bókmenntum sem er stórsaga íslenskra bókmennta um aldir. Þetta bókmenntasöguyfirlit hafði mikil áhrif og ekki síður val hans á bókmenntaverkum til lestrar því bókin var notuð í skólum í áratugi." Fyrri kona Sigurðar var Nanna Henriksson. Seinni konan hans var Ólöf Nordal, þau eignuðust tvo syni.

Stefán Skaftason (1928-2015)

  • S02518
  • Person
  • 18. feb. 1928 - 9. apríl 2015

Stefán fæddist á Siglufirði og ólst þar upp. Hann var sonur hjónanna Skafta Stefánssonar útgerðarmanns, skipstjóra og síldarsaltanda á Siglufirði og Helgu S. Jónsdóttur húsfreyju.
,,Stefán varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1948. Hann útskrifaðist frá læknadeild HÍ 1956 og stundaði framhaldsnám í háls-, nef- og eyrnalækningum í Þýskalandi, Svíþjóð og Danmörku. Stefán starfaði sem læknir í Þýskalandi, Svíþjóð og Danmörku á árunum 1956 til 1969, er hann tók við nýstofnaðri háls-, nef- og eyrnadeild á Borgarspítalanum sem yfirlæknir og starfaði þar til loka starfsferils síns árið 1996. Samhliða starfrækti Stefán ásamt konu sinni, Maj, lækningastofu og heyrnarrannsóknarstöð í Kópavogi. Þá tók hann þátt í stofnun Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Stefán stundaði kennslu í háls-, nef- og eyrnalækningum í Kalmar í Svíþjóð á árunum 1963-1967 og við Háskóla Íslands 1976-1997. Árið 1993 var hann skipaður prófessor við læknadeild. Doktorsritgerð hans fjallaði um 1.001 eyrnaaðgerð (skurðaðgerðir í smásjá) sem hann framkvæmdi á árunum 1970 til 1980 og varði ritgerðina við Háskóla Íslands 1987. Hann gegndi fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum fyrir lækna og Lions á Íslandi, var m.a. formaður í norrænum samtökum háls-, nef- og eyrnalækna og fékk æðstu viðurkenningu Lionshreyfingarinnar. Eftir Stefán liggur fjöldi greina í erlendum og innlendum læknaritum, ásamt blaðagreinum, um málefni heyrnarskertra." Fyrri kona Stefáns var Ingibjörg Alda Bjarnadóttir, þau skildu, þau eignuðust eina dóttur. 1961 kvæntist Stefán Maj Vivi-Anne Skaftason skurðhjúkrunarfræðingi, þau eignuðust tvö börn.

Þórarinn Guðmundsson (1896-1979)

  • S02445
  • Person
  • 27. mars 1896 - 25. júlí 1979

,,Þórarinn Guðmundsson var fiðluleikari og tónskáld. Þórarinn var fyrsti Íslendingurinn til að ljúka prófi í fiðluleik við erlendan skóla, en árið 1913 lauk hann prófi frá Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn og stundaði síðar framhaldsnám í Þýskalandi. Þórarinn kenndi fiðluleik um langt skeið en hann var fyrsti formaður og stjórnandi Hljómsveitar Reykjavíkur 1921. Árið 1930 varð hann starfsmaður Ríkisútvarpsins og var lengi stjórnandi hljómsveitar þess. Hann stofnaði Félag Íslenskra tónlistarmanna árið 1939 og var formaður þess fyrstu árin. Síðustu starfsár sín lék Þórarinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands eða þar til hann náði eftirlaunaaldri."

Þorsteinn Jósepsson (1907-1967)

  • S02974
  • Person
  • 18. júlí 1907 - 29. jan. 1967

Fæddur á Signýjarstöðum í Borgarfirði. Foreldrar: Jósep G. Einarson bóndi þar og Ástríður Þorsteinsdóttir. Æskuárin dvaldist hann í foreldrahúsum en hleypti heimdraganum skömmu eftir tvítugsaldur. Fór fyrst til Reykjavíkur en síðan erlendis, þar sem hann ferðaðist víða um Evrópu og dvaldist m.a. í Þýskalandi og Sviss. Árið 1939 réðst hann blaðamaður að Vísi og starfaði þar óslitið til æviloka. Maki: Jósefína Gísladóttir. Þau eignuðust eina dóttur. Maki 2: Edith Wischatta frá Austurríki.
Þorsteinn gaf út bækurnar Ævintýri förusveins (1934), Undir suðrænni sól (1937), Tindar (1934), Týrur (1946), Í djörfum leik (1946). Einnig hið mikla staðfræðilrit, Landið þitt Ísland, sem kom út 1966. Var mikilvirkur bókasafnari og átti eitt stærsta og glæsilegasta bókasafn landsins í einkaeigu.