Showing 60 results

Authority record
Kaupmannahöfn

Þorsteinn Þorsteinsson (1948-

  • S03099
  • Person
  • 27. mars 1948-

Foreldrar: Pála Pálsdóttir kennari á Hofsósi og Þorsteinn Hjálmarsson póst- og símstöðvarstjóri á Hofsósi. Fæddur og uppalinn á Hofsósi. Menntun: Samvinnuskólapróf 1966, BS í viðskiptafræði við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn 1970, MS-próf í rekstrarhagfræði við sama skóla 1972. Kostnaðareftirlit og markaðsrannsóknir hjá Minnesota Mining and Manufacturing Co. í Kaupmannahöfn 1972-1975. Ráðgjafi hjá Hagvangi í Reykjavík 1975. Bæjarstjóri á Sauðárkróki 1978-1982. Framkvæmdastjóri steinullarverksmiðjunnar 1982-1986. Starfaði hjá Norræna frjárfestingarbankanum 1986-1996. Framkvæmdastjóri Verðbréfasviðs Búnaðarbankans í Reykjavík 1996-2001. Bankastjóri Búnaðarbankans Int. í Lúxemborg 2001-2003. Sjálfstætt starfandi ráðgjafi 2003-2005. Ráðinn framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga 2005-2009. Starfaði síðast í fjármálaráðuneytinu.
Maki 1: Kristín Hildur Jónsdóttir Sætran, þau eignuðus þrjá syni.
Maki 2: Þórdís Victorsdóttir, hún átti einn son fyrir, hún lést árið 2000.
Maki 3: Jónína Helga Jónsdóttir, hún átti þrjú börn fyrir.

Þorsteinn Gíslason (1867-1938)

  • S02441
  • Person
  • 26. jan. 1867 - 20. okt. 1938

Þorsteinn fæddist á Stærra-Árskógi við Eyjafjörð, en ólst upp á Austurlandi, lengst af á Kirkjubæ í Hróarstungu. ,,Skáld, ritstjóri og þýðandi. Þorsteinn vakti máls á stofnun íslensks háskóla. Hann var fylgjandi aðskilnaði við Danmörku og fylgdi Valtý Guðmundssyni að málum gegn heimastjórnarmönnum en síðar breyttist það. Þorsteinn las norræna tungu og bókmenntir við Kaupmannahafnarháskóla en var meinað að þreyta próf því skólinn viðurkenndi ekki íslenskar bókmenntir eftir 1500. Þorsteinn var ritstjóri Sunnanfara (með Einari Benediktssyni), Bjarka (með Þorsteini Erlingssyni), Skírnis, Óðins, Lögréttu og Morgunblaðsins. Þorsteinn þýddi sálma, þar á meðal sálm 19 og 524 fyrir íslenska sálmabók. Hann þýddi einnig verk eftir Björnstjerne Björnson, Fjodor Dostojevskí, Émile Zola, Rudyard Kipling, Guy de Maupassant, Walter Scott, Gunnar Gunnarsson og Henrik Ibsen."

Þórhallur Vilmundarson (1924-2013)

  • S02639
  • Person
  • 29. mars 1924 - 27. nóv. 2013

Þórhallur var fæddur á Ísafirði 1924. Foreldrar hans voru Kristín Ólafsdóttir læknir og Vilmundur Jónsson landlæknir. Árið 1941 lauk Þórhallur stúdentsprófi frá menntaskólanum í Reykjavík og cand.mag. gráðu í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1950, því næst stundaði hann nám háskóla í Danmörku og Noregi (Kaupmannahöfn og Osló). Þórhallur var kennari við Menntaskólann í Reykjavík árabilið 1951 til 1960. Þar kenndi hann íslenska bókmenntasögu við heimspekideild HÍ og var skipaður prófessor í sögu Íslands 1961 og var hann forseti heimspekideildar 1969-1971. Þá var hann forstöðumaður Örnafnastofnunar frá stofnun hennar eða frá 1969-1998 og var formaður örnefnanefndar. Einnig átti hann sæti í nýyrðanefnd árabilið 1961-1964 og íslenskri málnefnd 1964-2001.

Þórarinn Guðmundsson (1896-1979)

  • S02445
  • Person
  • 27. mars 1896 - 25. júlí 1979

,,Þórarinn Guðmundsson var fiðluleikari og tónskáld. Þórarinn var fyrsti Íslendingurinn til að ljúka prófi í fiðluleik við erlendan skóla, en árið 1913 lauk hann prófi frá Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn og stundaði síðar framhaldsnám í Þýskalandi. Þórarinn kenndi fiðluleik um langt skeið en hann var fyrsti formaður og stjórnandi Hljómsveitar Reykjavíkur 1921. Árið 1930 varð hann starfsmaður Ríkisútvarpsins og var lengi stjórnandi hljómsveitar þess. Hann stofnaði Félag Íslenskra tónlistarmanna árið 1939 og var formaður þess fyrstu árin. Síðustu starfsár sín lék Þórarinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands eða þar til hann náði eftirlaunaaldri."

Sveinn Björnsson (1881-1952)

  • S02971
  • Person
  • 27. feb. 1881 - 25. jan. 1952

Fæddur í Kaupmannahöfn. Foreldrar: Björn Jónsson (1846-1912) ritstjóri, alþingismaður og ráðherra og kona hans Elísabet Guðný Sveinsdóttir (1839-1922). Sveinn giftist Georgiu Björnsson, fædd Hansen (1884-1957), þau eignuðust 6 börn.
,,Stúdentspróf Lsk. 1900. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1907. Yfirréttarmálaflutningsmaður 1907. Hrl. 1920. Rak málaflutningsskrifstofu í Reykjavík 1907–1920 og 1924–1926. Settur 29. september 1919 málaflutningsmaður við landsyfirréttinn til 31. desember. Skipaður 1920 sendiherra í Danmörku, lausn 1924. Skipaður 1926 að nýju sendiherra í Danmörku, lausn 1941. Ráðunautur ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum 1940–1941. Kjörinn af Alþingi ríkisstjóri Íslands 17. júní 1941 til jafnlengdar 1942, endurkjörinn 9. maí 1942 og 17. apríl 1943. Kjörinn af Alþingi fyrsti forseti Íslands að Lögbergi á Þingvöllum 17. júní 1944. Þjóðkjörinn án atkvæðagreiðslu frá 1945 og aftur frá 1949. Sat á Bessastöðum.
Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1912–1920, forseti bæjarstjórnar 1918–1920. Einn af stofnendum Eimskipafélags Íslands 1914 og formaður þess 1914–1920 og 1924–1926. Stofnandi Brunabótafélags Íslands og forstjóri þess frá stofnun 1916–1920. Einn af stofnendum Sjóvátryggingarfélags Íslands haustið 1918, formaður þess 1918–1920 og 1924–1926. Einn af stofnendum Rauða kross Íslands 10. desember 1924 og fyrsti formaður hans til 1926. Einn af stofnendum Málflutningsmannafélags Íslands 1911 og formaður þess 1918–1920. Skipaður 1910 í peningamálanefnd. Var á vegum ríkisstjórnarinnar í nefnd til vörukaupa í Bandaríkjunum í júlí–október 1914. Kosinn í velferðarnefnd 1914 og 1915 og 1925 í milliþinganefnd í bankamálum. Fulltrúi Íslands á ráðstefnu í Genúa 1922, á alþjóðaráðstefnu í Haag 1930 um lögskipan (codification) á þjóðarétti, á ráðstefnu í Genf 1930–1931 til athugunar á stofnun Evrópubandalags, á fjármálaráðstefnu í London 1933, á ráðstefnu í London 1937 til að ákveða reglur um möskvastærð og fiskstærð með tilliti til veiða. Formaður viðskiptasamninganefnda er gert hafa tolla- og verslunarsamninga við Norðurlöndin, Bretland, Þýskaland og Miðjarðarhafslöndin. Alþingismaður Reykvíkinga 1914–1915 (Sjálfstæðisflokkurinn eldri) og 1919–1920 (utan flokka, (Heimastjórnarflokkurinn), Utanflokkabandalagið)."
Skrifaði Endurminningar, gefnar út 1957. Um hann samdi Gylfi Gröndal bókina: Sveinn Björnsson — ævisaga.

Steingrímur Þorsteinsson (1913-2008)

  • S02417
  • Person
  • 22. okt. 1913 - 19. nóv. 2008

Steingrímur fæddist á Dalvík 13. október 1913, sonur hjónanna Maríu Eðvaldsdóttur húsfreyju og Þorsteins Jónssonar verkamanns. Steingrímur missti móður sína ungur og var tekinn í fóstur af móðursystur sinni Petrínu Þórunni Jónsdóttur og manni hennar Sigurði Þorgilssyni. Eftir hefðbundna skólagöngu á Dalvík var Steingrímur við nám að Héraðsskólanum á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu. Árið 1930 hélt hann til Kaupmannahafnar og lauk þar prófi í húsamálun ári síðar. Seinna nam hann þar ytra leiktjaldamálun og leiklist við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Steingrímur var ráðinn kennari við Dalvíkurskóla og sinnti hann því starfi um þriggja áratuga skeið. Hann var mikill náttúruunnandi og mjög listfengur. Eftir hann liggur mikið safn málverka og uppstoppaðra dýra. Steingrímur sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir samfélag sitt, átti m.a. sæti í ýmsum nefndum og ráðum. Steingrímur kvæntist Steinunni Sveinbjörnsdóttur og eignuðust þau þrjú börn.

Stefán Jónsson (1856-1910)

  • S00908
  • Person
  • 27. okt. 1856 - 5. maí 1910

Sonur Jóhönnu Hallsdóttur og sr. Jóns Hallssonar prófasts í Glaumbæ. Ólst upp hjá foreldrum sínum. Stefán var við verslunarstörf á Skagaströnd og síðar á Sauðárkróki. Fór utan til Kaupmannahafnar 1876. Var þar í verslunarskóla veturnar 1876-1878 er hann útskrifaðist. Að loknu námi varð hann verslunarstjóri við verslun Sveinbjörns Jacobsen á Sauðárkróki. Í ársbyrjun 1884 keypti hann ásamt föður sínum verslunarhúsin á Sauðárkróki og alla aðstöðu þar, það sama ár stofnsetti Gránufélagið verslun á Sauðárkróki og leigði Stefán félaginu verslunarhúsin og alla aðstöðu og gerðist verslunarstjóri hjá félaginu. Gránufélagsverslunin blómstraði undir stjórn Stefáns og árið 1900 var hún orðin stærsta verslunin við Skagafjörð. Stefán var einn helsti frumkvöðullinn að stofnun Sparisjóðs Sauðárkróks 1886 og fyrsti gjaldkeri hans og síðar formaður til æviloka. Hann átti einnig mikinn þátt í að koma upp sjúkrahúsi á Sauðárkróki.
Kona 1: Ólöf Hallgrímsdóttir frá Akureyri, þau eignuðust tvö börn saman. Ólöf lést árið 1901.
Kona 2: Elín Briem frá Reynistað, þau eignuðust ekki börn saman.
Stefán ól upp systurdóttur sína.

Stefán Jóhann Stefánsson (1863-1921)

  • S02979
  • Person
  • 1. ágúst 1863 - 20. jan. 1921

Fæddur á Heiði í Gönguskörðum. Foreldrar: Stefán Stefánsson (1828-1910) og Guðrún Sigurðardóttir (1831-1903). Maki: Steinunn Frímannsdóttir (1863-1947). Þau eignuðust 2 börn.
Stefán tók stúdentspróf frá Lærða skólanum 1884 og nam náttúrufræði við Hafnarháskóla með grasafræði sem sérgrein en lauk ekki prófi. Kennari við Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum, síðar á Akureyri 1887–1908, skólameistari frá 1908 til æviloka. Átti heima í Stórubrekku 1889–1891. Bóndi á Möðruvöllum 1891–1910, en fluttist með skólanum til Akureyrar 1902. Oddviti Arnarneshrepps um skeið. Í amtsráði 1894–1905, er amtsráðin voru lögð niður. Ferðaðist um landið til jurtarannsókna með styrk úr landssjóði flest sumur á árunum 1883–1900. Frumkvöðull að stofnun Náttúrufræðifélags Íslands 1889 og að stofnun Náttúrugripasafnsins. Átti sæti í millilandanefndinni 1907. Í bankaráði Íslandsbanka 1913–1919. Alþingismaður Skagfirðinga 1900–1908, konungkjörinn alþingismaður 1908–1915 (Framfaraflokkurinn, Framsóknarflokkurinn eldri, Þjóðræðisflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn eldri, utan flokka, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn). Samdi rit og greinar um grasafræði, skólamál og sjálfstæðismál Íslands.

Stefán Guðmundsson Íslandi (1907-1994)

  • S02633
  • Person
  • 6. okt. 1907 - 1. jan. 1994

Stefán Íslandi eða Stefano Islandi (Stefán Guðmundsson) var íslenskur söngvari. Foreldrar: Guðmundur Jónsson frá Nesi í Flókadal og k.h. Guðrún Stefánsdóttir frá Halldórsstöðum. Þau bjuggu í Krossanesi 1906-1911 en síðan á Sauðárkróki. ,,Faðir Stefáns drukknaði í Gönguskarðsá þegar Stefán var tíu ára en þá fór hann í fóstur til hjónanna í Syðra-Vallholti í Skagafirði. Stefán þótti snemma mjög efnilegur tenórsöngvari. Fyrstu tónleika sína hélt hann á Siglufirði 17 ára að aldri. Haustið 1926 hélt hann til Reykjavíkur og starfaði þar fyrst í Málaranum en hóf síðar nám í rakaraiðn. Hann söng jafnframt í Karlakór Reykjavíkur og stundaði söngnám hjá Sigurði Birkis. Hann hélt tónleika og söng við ýmis tækifæri, meðal annars á kvikmyndasýningum, og vakti mikla athygli fyrir sönghæfileika sína. Úr varð að Richard Thors, forstjóri útgerðarfélagsins Kveldúlfs, styrkti hann til náms á Ítalíu. Stefán hóf söngnám í Mílanó á Ítalíu árið 1930 og lærði lengst af hjá barítónsöngvaranum Ernesto Caronna. Árið 1933 söng Stefán fyrst á sviði á Ítalíu og tók skömmu síðar upp listamannsnafnið Stefano Islandi. Hann söng á Ítalíu um tíma en var síðan á faraldsfæti um skeið, söng bæði heima á Íslandi og á Norðurlöndum og tók upp fyrstu tvær hljómplötur sínar. Árið 1938 söng hann svo hlutverk Pinkertons í óperunni Madame Butterfly við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn við þvílíkar vinsældir að hann settist að í Danmörku, fékk fastráðningu við leikhúsið 1940 og varð það aðalstarfsvettvangur hans allt þar til hann fluttist heim til Íslands. Hann naut mikilla vinsælda í Danmörku og söng fjölda þekktra óperuhlutverka. Hann var útnefndur konunglegur hirðsöngvari 1949. Hann var einnig söngkennari við óperuna og prófdómari við Konunglega tónlistarskólann um skeið. Stefán flutti til Íslands árið 1966 og sneri sér að söngkennslu. Á Kaupmannahafnarárunum kom hann oft heim og hélt tónleika eða söng sem gestur, söng meðal annars Rigoletto í fyrstu íslensku óperuuppfærslunni í Þjóðleikhúsinu 1951."
Maki 1: Else Brems, dönsk óperusöngkona. Þau skildu.
Maki 2: Kristjana Sigurz frá Reykjavík.
Stefán eignaðist fimm börn.

Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946)

  • S02437
  • Person
  • 13. jan. 1881 - 23. júlí 1946

Sigvaldi Kaldalóns fæddist í Vaktarabænum í Grjótaþorpinu í Reykjavík 13. janúar 1881, sonur Stefáns Egilssonar múrara og k.h., Sesselju Sigvaldadóttur ljósmóður Reykjavíkur um árabil. ,, Sigvaldi lauk stúdentsprófum frá Lærða skólanum 1902, embættisprófi í læknisfræði frá Læknaskólanum í Reykjavík 1908 og hélt að því loknu í framhaldsnám til Kaupmannahafnar. Þar kynnti hann sér danska og erlenda tónlist. Í Kaupmannahöfn kynntist hann einnig verðandi eiginkonu sinni, Karen Margrethe Mengel Thomsen. Þegar heim kom starfaði hann vetrarlangt sem læknir á Hólmavík en fékk síðan veitingu fyrir læknishéraði við Inn-Djúpið og bústað á Ármúla í Nauteyrarhreppi nálægt Kaldalóni vorið 1911. Hann hreifst mjög af náttúrunni þar í kring og tók síðar upp ættarnafnið Kaldalóns árið 1916. Frostaveturinn mikla 1917-18 veiktist Sigvaldi af taugaveiki og náði sér aldrei fyllilega eftir það. Hann fluttist frá Ármúla 1921. Hann dvaldist á Vífilstaðahæli og fór síðan utan til Kaupmannahafnar á heilsuhæli. Þegar honum hafði batnað sótti hann um Flateyjarhérað árið 1926 og var veitt það. Þar samdi hann lagið við ljóð Eggerts Ólafssonar, Ísland ögrum skorið og þar söng Eggert Stefánsson óperusöngvari, bróðir hans það fyrst opinberlega. Í Flatey var hann þar til hann fluttist í Keflavíkurhéraðið. Sigvaldi var læknir við héraðslæknisembættið í Keflavík árin 1929-45, búsettur í Grindavík. Dvöl hans þar hefur verið líkt við "menningarlega vígslu" í héraðinu. Þar dvöldu löngum hjá honum eða í návist hans þjóðkunnir listamenn eins og Gunnlaugur Scheving, Halldór Laxness, Ríkharður Jónsson, Steinn Steinarr o.fl." Sigvaldi Kaldalóns var yfirleitt mjög hógvær í garð laga sinna en um Ísland ögrum skorið, sem er eitt þekktasta lag hans, sagði hann þó að það ætti e.t.v. eftir að verða þjóðsöngur Íslands. Meðal þekktustu laga hans má nefna: Ave maria, Erla góða Erla, Draumur hjarðsveinsins, Þú eina hjartans yndið mitt, Ég lít í anda liðna tíð, Fjallið eina, Hamraborgin, Kirkjan ómar öll, Nóttin var sú ágæt ein, Á Sprengisandi, Suðurnesjamenn, Svanasöngur á heiði."

Sigurður Nordal (1886-1974)

  • S02517
  • Person
  • 14. sept. 1886 - 21. sept. 1974

Sigurður var fæddur á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal. Foreldrar hans voru Björg Sigurðardóttir húsfreyja og Jóhannes Nordal íshússtjóri. Sigurður ólst upp hjá föðurbróður sínum Jónasi Guðmundssyni og Steinunni Steinsdóttur konu hans. Hann varð stúdent frá MR árið 1906 og lauk meistaraprófi frá Hafnarháskóla í norrænum fræðum 1912 og Dr. phil.-prófi 1914 frá sama skóla. Einnig stundaði hann heimspekinám í Berlín og Oxford 1917 - 1918. Sigurður var prófessor í íslenskum fræðum og íslenskum skáldskap og menningarsögu. Hann var sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn frá 1951 til 1957. Eftir Sigurð liggur fjöldi merkra ritverka, einnig greinar, ljóð og leikrit.
,,Sigurður Nordal var útgáfustjóri Íslenskra fornrita 1933-1951, ritstjóri Studia Islandica 1937-1953 og Monumenta typographica 1-5, en meðritstjóri Nelson's Icelandic Texts og meðútgefandi tímaritsins Vöku 1927-1929. Hann var þjóðernishyggjumaður og lagði rækt við íslenskt mál og íslenska hugsun. Þótt íslensk fræði hafi verið stunduð hér á landi á undan Sigurði Nordal af mönnum eins og Sveinbirni Egilssyni og Birni M. Ólsen var það fyrst með honum að verulega fór að kveða að rannsóknum í íslenskum fræðum við æðri menntastofnanir og áhrifa þeirra að gæta út fyrir landsteinana. Ritskýringar hans og lýsing á þróun íslenskra bókmennta voru um eitt skeið viðteknar þar sem þessi fræði eru stunduð.
Sigurður aðhylltist svokallaða bókfestukenningu um uppruna Íslendinga sagna. Sigurður setti saman Íslenska lestrarbók 1400 - 1900 árið 1924. Þar birti hann ritgerð sína um samhengið í íslenskum bókmenntum sem er stórsaga íslenskra bókmennta um aldir. Þetta bókmenntasöguyfirlit hafði mikil áhrif og ekki síður val hans á bókmenntaverkum til lestrar því bókin var notuð í skólum í áratugi." Fyrri kona Sigurðar var Nanna Henriksson. Seinni konan hans var Ólöf Nordal, þau eignuðust tvo syni.

Sigurður Guðmundsson (1878-1949)

  • S02857
  • Person
  • 3. sept. 1878 - 10. nóv. 1949

Sigurður Guðmundsson, f. 03.09.1878 á Æsustöðum í Langadal. Foreldrar hans voru Guðmundur, hreppstjóri á Æsustöðum og í Mjóadal, og k.h. Ingibjörg Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja. Maki: Halldóra Ólafsdóttir, frá Kálfholti. Þau eignuðust sex börn. Sigurður tók stúdentspróf í Reykjavík 1902 og meistarapróf í norrænum fræðum við háskólann í
Kaupmannahöfn 1910. Hann var stundakennari við MR 1911-20, kenndi við Kennaraskólann 1912-21, gerðist þá skólameistari Gagnfræðaskóla Akureyrar sem síðar varð Menntaskóli Akureyrar, 1930. Sigurður var því fyrsti skólameistari MA og gegndi því starfi til 1947. Rit eftir Sigurð eru Ágrip af forníslenskri bókmenntasögu, 1915; Heiðnar hugvekjur og mannaminni, 1946 og Á sal, 1948.

Sigrún Jóhannesdóttir (1889-1934)

  • S00638
  • Person
  • 1. ágúst 1889 - 28. mars 1934

Foreldrar: Jóhannes Davíð Ólafsson sýslumaður á Sauðárkróki 1884-1897 og k.h. Margrét Guðmundsdóttir Johnsen. Var í Hafnarstræti 92 á Akureyri, Eyj. 1910. Kvæntist Sigvalda Bendy gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn.

Sigríður Jónsdóttir (1858-1928)

  • S00331
  • Person
  • 22.04.1858-11.12.1928

Dóttir Jóns Jónssonar og Valgerðar Eiríksdóttur í Djúpadal. ,,Sigríður naut kennslu í kvennaskóla Skagfirðinga að Ási og Hjaltastöðum. Fór utan 1881 til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn og gekk þar í kvennaskóla Natalie Zahle. Lærði einnig smjör- og ostagerð í mjólkurbúi á Sjálandi. Kom heim 1883 og var þá ráðin kennslukona við hinn nýstofnaða kvennaskóla að Ytri-Ey við Skagaströnd ásamt Elínu Briem. Hún gegndi því starfi þar til hún giftist Sigurði Jónssyni, seinna b. og oddvita á Reynistað, 1887. Á árunum 1894-1904 hélt Sigríður uppi kennslu fyrir ungar stúlkur á heimili sínu. Hún var mörg ár formaður sóknarnefndar Reynistaðarsóknar og tók talsverðan þátt í félagsmálum kvenna." Þau Sigurður eignuðust einn son, Jón Sigurðsson alþingismann og fræðimann á Reynistað.

Ríkharður Jónsson (1888-1972)

  • S02589
  • Person
  • 20. sept. 1888 - 17. jan. 1977

Ríkarður Jónsson fæddist 20. september árið 1888 að Tunguhóli í Fáskrúðsfirði. Hann var sonur Jóns Þórarinssonar, sem var frægur þjóðhagasmiður og bóndi að Núpi á Berufjarðarströnd og síðan að Strýtu við Hamarsfjörð, og síðari konu hans, Ólafar Finnsdóttur húsfreyju. Ríkharður ólst upp að Strýtu, en fór sautján ára til Reykjavíkur í trésmíðanám til Stefáns Eiríkssonar og lauk prófi í þeirri grein tvítugur að aldri. Hann stundaði síðan nám hjá Einari Jónssyni myndhöggvara í Kaupmannahöfn og í Teknisk Selskabs Skole og stundaði nám í Listaháskólanum í Kaupmannahöfn í fimm og hálft ár. Ríkharður gerði mannamyndir og minnisvarða en einnig rismyndir og tréskurðarverk í kirkjur og aðrar opinberar byggingar. Meðal þekktra verka Ríkarðs má nefna biskupsstól í Kristskirkju í Landakoti, krossmark þar með Kristslíkneski og hurðina á Arnarhvoli. Hann gerði auk þess fjölda brjóstmynda og lágmynda af samtíðarmönnum, skírnarfonta og predikunarstóla.

Ólafur Jónsson (1895-1980)

  • S02801
  • Person
  • 23. mars 1895 - 16. des. 1980

Ólafur Björgvin Jónsson, f. 23.03.1895 að Freyshólum á Fljótsdalshéraði. Foreldrar: Jón Ólafsson og Hólmfríður Guðmundsdóttir. Fór til náms við Búnaðarskólann á Hvanneyri og síðan í Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hann prófi 1924. Sama ár var hann ráðinn framkvæmdastjóri Ræktunarfélags Norðurlands og settist að í Gróðrarstöðinni á Akureyri. Árið 1949 lét hann þar af störfum og gerðist jarðræktarráðunautur hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og síðar hjá sambandi nautgripartæktarfélaganna þar. Þar vann hann til 1965 er hann varð sjötugur. Auk þessara starfa stundaði hann jafnan rannsóknir og sinnti skáldskap. Hann hóf útgáfu á Handbók bænda og ritstýrði henni frá 1950-1960. Ritaði margt um jarðfræði Íslands og bar þar hæst rit hans Ódáðahraun í þremur bindum, Skriðuföll og snjóflóð í tveimur bindum og ritin Dyngjufjöll, Askja og Berghlaup. Einnig sendi hann frá sér skáldsöguna Öræfaglettur og ljóðabókina Fjöllin blá. Loks komu út nokkkrar frásagnir og smásögur í bókinni Strípl. Æviminningar hans komu út á árunum 1971-1972 og bera heitið Á tveimur jafnfljótum.

Ólafur Halldórsson (1920-2013)

  • S02464
  • Person
  • 18. apríl 1920 - 4. apríl 2013

Ólafur fæddist að Króki í Gaulverjarbæjarhreppi. Foreldrar hans voru Halldór Bjarnason bóndi og Lilja Ólafsdóttir húsfreyja. Ólafur lauk stúdentsprófi frá MA árið 1946 og cand. mag. prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1952. Hann sérmenntaði sig í handritalestri hjá Jóni Helgasyni prófessor í Kaupmannahöfn og starfaði einnig sem lektor við Kaupmannahafnarháskóla. Ólafur fluttist heim til Íslands með fjölskyldu sína árið 1963 og hóf þá störf við Handritastofnun Íslands, sem síðar fékk heitið Stofnun Árna Magnússonar og starfaði hann þar til starfsloka. Eftir það vann Ólafur sjálfstætt. Ólafur vann um áratugaskeið að rannsóknum á handritum, textum og útgáfum á fornsögum. Var kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslands1975 og árið 2010 var hann heiðraður á færeyskri menningarhátíð í Reykjavík fyrir starf sitt í þágu menningartengsla Færeyinga og Íslendinga. Sama ár hélt Stofnun Árna Magnússonar málþing honum til heiðurs. Ólafur kvæntist Aðalbjörgu Vilfríði Karlsdóttur og eignuðust þau þrjú börn.

Margrét Jónsdóttir (1877-1965)

  • S02718
  • Person
  • 15. júlí 1877 - 31. maí 1965

Foreldrar: Jón Antonsson og Guðlaug Sveinsdóttir á Arnarnesi í Eyjafirði. Ólst upp í foreldrahúsum. Fór um tvítugt til Kaupmannahafnar til að leita sér menntunar og dvaldi þar hjá frænkum sínum. Kom heim 1898. Maki: Sigtryggur Benediktsson. Þau eignuðust einn son. Ráku Hótel Hvanneyri á Siglufirði og Hótel Akureyri um tíma. Komu upp matsölu og gistihúsi á Hjalteyri og ráku það. Margrét var einnig um tíma ráðskona á heimavist Gagnfræðaskólans á Akureyri. Dvöldu á heimilis sonar síns í Reykjavík en síðustu árin dvaldist Margrét á Ási í Hveragerði og Elliheimilinu Grund í Reykjavík.

Magnús Einar Jóhannsson (1874-1923)

  • S01565
  • Person
  • 27. júlí 1874 - 23. des. 1923

Magnús ólst upp í Arabæ hjá foreldrum sínum. Hann gekk í Latínuskólann í Rvík og lauk þaðan stúdentsprófi þaðan vorið 1898 og frá Læknaskólanum í Rvík í júní 1898. Sumarið 1897 var hann aðstoðarmaður hjá Fr. Zeuten héraðslækni á Eskifirði. Haustið 1898 var hann settur héraðslæknir í Sauðárkrókshérði til næsta vors og sat á S.króki. Árið 1899-1900 var hann skipaður héraðslæknir í Hofsóshéraði, sem þá var ný stofnað og gegndi því embætti til æviloka. Allt frá æskuárum hafði hann mikinn áhuga á leiklist, tók sjálfur þátt í leiksýningum skólapilta öll sín skólaár, og stjórnaði leiksýningum á S.króki veturinn, sem hann dvaldist þar. Lét hann sér einnig mjög annt um Lestrarfélag Hofshrepps, var í stjórn þess og annaðist bókakaup þess og bókavörslu á heimili sínu um langt árabil. Einnig annaðist hann um tíma útgáfu á handskrifuðu sveitarblaði, Höfðstrendingi, á vegum Málfundafélags staðarins og skrifaði það að miklu leyti einn. Kom hann þar á framfæri ýmsum áhugamálum sínum, sem vörðuðu hag byggðarlagsins. Árið 1916 festi hann kaup á jörðinni Hugljótsstöðum á Höfðaströnd sem hann nytjaði síðan. Magnús kvæntist Rannveigu Tómasdóttur frá Völlum í Svarfaðardal, þau eignuðust sjö börn.

Ludvig Knudsen (1867-1930)

  • S02939
  • Person
  • 9. feb. 1867 - 30. apríl 1930

Foreldrar: Jens A. Knudsen verslunarstjóri í Hólanesi og kona hans Elísabet Sigurðardóttir. Stúdent frá Reykjavíkurskóla 1888. Tók heimspekipróf frá háskólanum í Kaupmannahöfn og lagði stund á guðfræði. Tók próf úr prestaskóla 1892. Fékk Stað í Kinn 1892 en missti prestskap vegna barneignarbrots. Var um hríð bókhaldari á Húsavík. Fékk Bergstaði 1904 og Breiðabólstað í Vesturhópi í V-Húnavatnssýslu árið 1914 og þjónaði þar til æviloka.
Maki: Sigurlaug Björg Árnadóttir frá Höfnum. Eignuðust tvö börn en aðeins annað þeirra komst upp.

Lárus Stefánsson Thorarensen (1799-1864)

  • S01490
  • Person
  • 14. júní 1799 - 19. apríl 1864

Lárus Stefánsson Thorarensen sýslumaður og bóndi að Enni á Höfðaströnd. Faðir: Stefán Þórarinsson konfersráð, amtmaður. Móðir: Ragnheiður Vigfúsdóttir Scheving.
Lárus fæddist að Möðruvallaklaustri 1799. Hann ólst upp hjá Vigfúsi sýslumanni Scheving, afa sínum, á Víðivöllum og síðar í Viðey. Lárus fór utan og nam lög við háskólann (líklega Kaupmannaháskóla). Hann lauk embættisprófi 1821. Var svo í rentukammerinu (sem "volonteur") þar til honum var veitt Skagafjarðarsýsla 13. maí 1826. Kom til landsins það sama sumar og settist til að byrja með að á Hofsósi. Ári síðar (1827) giftist hann Elínu [Elín Christine Jakobsdóttir Havsteen (um 1800-24.08.1873)] en hún var dóttir Jakobs Havsteen, kaupmanns á Hofsósi. Lárus reisti svo bú á Enni á Höfðaströnd.

Kristján Kristjánsson (1806-1882)

  • S01748
  • Person
  • 21. sept. 1806 - 13. maí 1882

Fæddur á Þórðarstöðum í Fnjóskadal 21. september 1806, dáinn 13. maí 1882. Kristján var með stúdentspróf frá Bessastöðum 1826. Lauk lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1838.
,,Hann starfaði sem skrifari á tímabilinu 1826–1830 á Möðruvöllum hjá Grími Jónssyni amtmanni. Var starfsmaður í rentukammerinu 1833–1840. Skrifari embættismannanefndarinnar í Reykjavík 1841. Málaflutningsmaður í Reykjavík 1841–1843. Settur land- og bæjarfógeti í Reykjavík 1843–1844. Sýslumaður í Skaftafellssýslu 1844–1848, sat á Höfðabrekku. Varð 1847 jafnframt umboðsmaður Kirkjubæjar- og Þykkvabæjarklaustursjarða. Skipaður 1848 dómsmálaritari og 2. yfirdómari í landsyfirréttinum, en tók ekki við því embætti fyrr en næsta sumar. Skipaður 10. júlí 1849 land- og bæjarfógeti í Reykjavík, en gegndi jafnframt áfram embætti yfirdómara þangað til Jón Pétursson tók við því sumarið 1850. Vikið frá embætti 28. september 1851 vegna framkomu sinnar á Þjóðfundinum, en gegndi því þó fram í marsmánuð 1852. Fór þá utan og varð fulltrúi í hinni íslensku stjórnardeild í Kaupmannahöfn. Skipaður 1854 sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, sat í Hofstaðaseli. Skipaður 1860 sýslumaður í Húnavatnssýslu, sat á Geitaskarði. Skipaður 1871 amtmaður í norður- og austuramtinu, lausn 1881, sat á Möðruvöllum í Hörgárdal til 1874, er amtmannsstofan þar brann, en síðan á Akureyri."
Eiginkona: (giftust 05.06.1845): Ragnheiður Jónsdóttir Thorstensen (1824-1897) húsfreyja.

Karl Ottó Runólfsson (1900-1970)

  • S02632
  • Person
  • 24. okt. 1900 - 29. nóv. 1970

,,Karl Ottó Runólfsson tónskáld fæddist í Reykjavík 24.10. árið 1900. Hann var sonur Runólfs Guðmundssonar, sjómanns og verkamanns í Reykjavík, og k.h., Guðlaugar M. Guðmundsdóttur. Fyrri kona Karls var Margrét Kristjana Sigurðardóttir sem lést kornung, 23 ára, eftir skamma sambúð þeirra hjóna. Seinni kona Karls var Helga Kristjánsdóttir. Karl lærði prentiðn í Gutenberg, lauk sveinprófi 1918 og starfaði við prentverk til 1925. Hann fór þá til Kaupmannahafnar, lærði þar á trompet hjá Lauritz Sörensen, lærði á fiðlu hjá Axel Jörgensen og lærði að útsetja lög fyrir lúðrasveitir hjá Dyring. Þá stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1934-39, lærði þar tónsmíðar hjá Frans Mixa og að útsetja lög fyrir hljómsveitir hjá Victor Urbancic. Karl kenndi og stjórnaði Lúðrasveit Ísafjarðar 1920 og 1922-23, Lúðrasveit Hafnarfjarðar 1924-25 og 1928-29, Lúðrasveit og Hljómsveit Akureyrar 1929-34, var hljómsveitarstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1934-35 og meðlimur Lúðrasveitar Reykjavíkur frá stofnun og stjórnandi hennar 1941-42. Lengst af stjórnaði Karl þó Lúðrasveitinni Svani eða í 21 ár, auk þess sem hann stjórnaði Lúðrasveit barna- og unglingaskóla Reykjavíkur. Þá lék hann með danshljómsveitum, víða um land, á sínum yngri árum. Karl kenndi hljómfræði og trompetleik við Tónlistarskólann í Reykjavík 1939-64, stundaði einkakennslu á fiðlu og trompet og lék sjálfur á trompet í Útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Íslands 1950-55. Karl var stofnandi og síðar formaður Lúðrasveitar Reykjavíkur í mörg ár og formaður Landssambands íslenskra lúðrasveita í tíu ár. Hann var mikilsvirt tónskáld sem samdi flestar tegundir tónsmíða, þ.á m. nokkur ástsæl sönglög og raddsetti mikinn fjölda þjóðlaga."

Jónína Sigurðardóttir (1887-óvíst)

  • S03040
  • Person
  • 11. des. 1887-óvíst

Foreldrar: Sigurður Jónsson (1853-1940) og Jóhanna Steinsdóttir (1854-1942) í Brautarholti (þá Litlu-Seylu). Fór til Kaupmannahafnar og giftist þar. Dánardagur ekki þekktur.

Jónas Kristjánsson (1870-1960)

  • S00532
  • Person
  • 20. sept. 1870 - 3. apríl 1960

Jónas Kristjánsson fæddist að Snæringsstöðum í Svínadal 20. september 1870. Jónas var stúdent frá Lærða skólanum í júní 1896. Cand. med. frá Læknaskólanum 11. febrúar 1901. Á árunum 1908-1938 fór hann utan í námsferðir og á seinni árum til að kynna sér matarræði og náttúrulækningar. Hann starfaði á sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn 1901, var héraðslæknir í Fljótdalshéraði 1901-1911. Hann þjónaði einnig á Hróarstunguhéraði 1905-1906 og 1908-1910. Hann sat á Arnheiðarstöðum 1901-1902 og síðan á Brekku í Fljótsdal.
Jónas var héraðslæknir í Sauðárkrókshéraði 1911-1938 og þjónaði jafnframt í Hofsóshéraði frá 1924, að hluta á móti héraðslækninum í Siglufjarðarhéraði. Er hann fékk lausn frá embætti árið 1938, fluttist hann til Reykjavíkur og var starfandi læknir þar, uns hann gerðist læknir við heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði frá stofnun þess 1955 og til ársins 1958. Jónas sat á Alþingi 1927-1930. Hann átti frumkvæði að stofnun skátafélags á Sauðárkróki, var forseti Framfarafélags Skagfirðinga 1914-1938 og formaður Tóbaksbindindisfélags Sauðárkróks. Sat í stjórn Náttúrulækningafélagsins á Sauðárkróki 1937-1938 og Náttúrulækningafélags Íslands í Reykjavík frá stofnun þess 1939 til æviloka.
Kona hans var Hansína Benediktsdóttir (1874-1948) frá Grenjaðarstað.

Jón Laxdal (1865-1928)

  • S02446
  • Person
  • 13. okt. 1865 - 7. júlí 1928

Jón Laxdal er fæddur á Akureyri 13. október 1865. Foreldrar hans voru Jón Guðmundsson hafnsögumaður og kona hans Friðbjörg Guðrún Grímsdóttir. ,,Ólst hann upp í foreldrahúsum til 12 ára aldurs, en fór þá til Eggerts Laxdals, móðurbróður síns, og starfaði við verzlun hans á Akureyri til 18 ára aldurs. Árlangt var hann bókhaldari við Höpfnersverzlun á Blönduósi í forföllum annars manns (1883-84). Tvítugur að aldri (1885) gerðist hann bókhaldari við Knudtsonsverzlunina í Keflavík og var þar í sex ár, en fór þá um haustið 1891 utan og dvaldi vetrarlangt í Kaupmannahöfn (1891-92). Vorið eftir kom hann heim og gerðist bókhaldari í Reykjavík við sömu verzlun (Knudtson-verzlunina). Um veturinn 1895 varð hann forstjóri Tangsverzlunar á Ísafirði og gegndi því starfi í 13 ár (1895-1909). Árin 1909-1910 var hann erlendis í þeim erindum að kynna sér bankastörf í Danmörku og Skotlandi. Eftir það settist hann að í Reykjavík og gerðist brátt umsvifamikill kaupsýslumaður. Nokkrum árum fyrir andlát sitt varð hann ræðismaður Tjekkoslóvakíu hér á landi." Jón samdi fjölda sönglaga, má þar nefna „Syngið, syngið, svanir mínir“ og „Vorvísur“. Jón Laxdal var þríkvæntur. Fyrsta konan var Kristín Egilsdóttir, þau voru barnlaus og slitu samvistum. Önnur konan var Elín Matthíasdóttir, þau eignuðust eina dóttur. Þriðja konan var Inger, fædd Leimeier, ættuð frá Jótlandi, þau eignuðust ekki börn.

Jón Hallgrímur Stefánsson (1881-1962)

  • S01344
  • Person
  • 22.02.1881-19.11.1962

Jón Stefánsson var fæddur og uppalinn á Sauðárkróki, sonur Stefáns Jónssonar kaupmanns þar og f.k.h. Ólafar Hallgrímsdóttur. Jón lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1900, hóf verkfræðinám við Háskólann í Kaupmannahöfn, lauk cand.phil. prófi þar 1901 og las verkfræði í þrjú ár en sneri þá við blaðinu og gerði listmálun að ævistarfi sínu. Hann stundaði myndlistarnám við Teknisk Selskabs Skole 1903-1905, við einkaskóla Kristians Zahrtmann til 1908 og fór síðan til Parísar þar sem hann stundaði nám við einkaskóla Henri Matisse 1908-1910. Jón var tvíkvæntur en átti börn með hvorugri konu sinni en eignaðist dóttur með Sigríði Zoëga. Jón var lengi búsettur erlendis, lengst af í Kaupmannahöfn, en flutti alkominn heim 1946. Meginviðfangsefni Jóns var íslenskt landslag en hann málaði auk þess portrettmyndir og uppstillingar. Hann var undir sterkum áhrifum frá Cézanne og Matisse en stíll hans einkennist af strangri, rökrænni formfestu og samræmdri, hófsamri litameðferð. Jón var í hópi brautryðjenda íslenskrar myndlistar á 20. öld og helsti frumkvöðull módernismans í myndlist hér á landi.

Jón Hafsteinn Jónsson (1928-2018)

  • S01639
  • Person
  • 22. mars 1928 - 17. okt. 2018

Dóttir Jóns Jónssonar b. á Gýgjarhóli og k.h. Sigurbjargar Jónsdóttur. Menntaskólakennari á Akureyri 1953-1986, eftir það búsettur í Reykjavík. Stúdent frá MA 1948. Cand. mag. frá Kaupmannahafnarháskóla 1953 með stærðfræði sem aðalnámsgrein. Hann hlaut sérstaka viðurkenningu frá Hafnarháskóla fyrir prófritgerð sína. Kvæntist Soffíu Emilíu Guðmundsdóttir tónlistarkennara.

Jean Valgard Claessen (1850-1918)

  • S00808
  • Person
  • 09.10.1850-27.12.1918

Ólst upp með foreldrum sínum í Khöfn. Rak verslun í Hofsósi, kom þangað á vegum Chr. Thaae stórkaupmanns. Hann tók við stjórn Hofsósverslunar 1871, 21 árs gamall. Nokkrum árum síðar tók hann svo við stjórn verslunar í Grafarósi. En 1879 fluttist hann til Sauðárkróks og tók við stjórn verzlunar Lud. Popps. Gegndi hann því starfi uns Popp flutti sjálfur til Sauðárkróks árið 1885. Árið eftir stofnaði Claessen sjálfstæða verslun sem hann rak til haustsins 1904, er hann flutti til Reykjavíkur, nýskipaður landsféhirðir. Gegndi því starfi til vorsins 1918 þá veiktist hann og lést í árslok. Starf hans að félagsmálum á Sauðárkróki var bæði mikið og farsælt. Hann var einn af stofnendum Sparisjóðs Sauðárkróks og formaður hans um skeið. Fyrsti formaður og leiðbeinandi leikfélags Sauðárkróks. Einn af aðal hvatamönnum að byggingu Sauðárkrókskirkju og fyrsti formaður sóknarnefndar þar.
Kvæntist Kristínu Eggertsdóttur Briem 1876 og eignuðust þau saman fjögur börn, Kristín lést aðeins viku eftir að yngsta barnið fæddist. Seinni kona Jean Valgard var Anna Margrét Þuríður Kristjánsdóttir Möller, þau kvæntust árið 1885 og eignuðust fjögur börn saman, tvö þeirra komust á legg, fyrir átti Anna tvo syni.

Jakob Jóhannesson Smári (1889-1972)

  • S02933
  • Person
  • 9. okt. 1889 - 10. ágúst 1972

Fæddur á Sauðafelli í Dölum. Foreldrar: Jóhannes Lárus Lynge Jóhannsson, prestur á Kvennabrekku, og f.k.h., Steinunn Jakobína Jakobsdóttir. Jakob lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1908, stundaði nám í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan meistaraprófi árið 1914. Jakob var kennari við ýmsa skóla í Reykjavík á árunum 1914-20 og við Menntaskólann í Reykjavík 1920-36 og yfirkennari þar. Hann sat lengi í stjórn Sálarrannsóknafélags Íslands. Jakob sendi frá sér ljóðabækurnar Kaldavermsl, 1920, Handan storms og strauma, 1936, Undir sól að sjá, 1939, og Við djúpar lindir, 1957. Þá samdi hann kennslubækur, s.s. Íslenska setningafræði og Íslenska málfræði og tók saman Íslensk-danska orðabók. Jakob þýddi m.a. sum verka Gunnars Gunnarssonar, leikrit eftir Ibsen og Strindberg og óperettur, að ógleymdri Bókinni um veginn, eftir Lao-Tse, ásamt Yngva Jóhannessyni. Jakob var nýrómantískt skáld. Skáldskapurinn var ljóðrænn og átakalítill, sonnettan var hans aðalljóðform en yrkisefnið gjarnan sótt í kyrrð og fegurð íslenskrar náttúru. Hann var því ekki beint barn síns tíma þegar leið á ferilinn. Samt urðu ýmis ljóða hans vel þekkt og oft sungin.
Maki: Helga Þorkelsdóttir kjólameistari, þau eignuðust tvö börn.

Jakob Benediktsson (1907-1999)

  • S02195
  • Person
  • 20. júlí 1907 - 23. jan. 1999

Jakob Benediktsson var fæddur þann 20. júlí 1907 og lést 23. janúar 1999. Jakob var frá Fjalli í Seyluhreppi, sonar hjónanna Benedikts Sigurðssonar, bónda þar, og konu hans Sigurlaugar Sigurðardóttur. Jakob tók stúdentspróf utan skóla vorið 1926 með svo góðum árangri að hann hlaut fjögurra ára námsstyrk sem gerði honum kleift að sigla utan til framhaldsnáms. Með námsstyrk upp á vasann hélt Jakob til Kaupmannahafnar til frekara náms. Jakob lauk cand. mag. prófi í latínu og þýsku árið 1932 og síðar dr. phil. prófi frá Hafnarháskóla. Kvæntist Grethe Khyl fornleifafræðingi, þau voru barnlaus. ,,Jakob var forstöðumaður Orðabókar Háskólans, ritstjóri Tímarits Máls og menningar og meðritstjóri af Íslands hálfu fyrir Kulturhistorisk Leksikon. Hann gaf einnig út fjölda rita, þeirra á meðal Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, VII, X og XI bindi. Hann skrifaði einnig mikið sjálfur og munu titlar rita hans vera á sjöunda hundrað. Jakob þýddi einnig fjölmörg verka Halldórs Laxness á dönsku og naut við það verk aðstoðar konu sinnar Grethe Benediktsson (fædd Kyhl) sem var dönsk."

Hjálmar Rögnvaldur Bárðarson (1918-2009)

  • S02552
  • Person
  • 8. júní 1918 - 7. apríl 2009

Hjálmar var fæddur á Ísafirði 8. júní 1918. Foreldrar hans voru Filippía Hjálmarsdóttir húsfreyja og Bárður G. Tómasson skipaverkfræðingur. Hjálmar varð stúdent frá MR 1939 og lauk prófi í skipaverkfræði 1947 frá DtH í Kaupmannahöfn. Hann starfaði hjá skipasmíðastöðvum í Danmörku og Englandi eftir námslok, en síðan hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík. Hann hannaði og stóð fyrir smíði á fyrsta íslenska stálskipinu, Magna. Einnig hannaði hann fjölda fiskiskipa. Árið 1954 var Hjálmar skipaður skipaskoðunarstjóri og síðar siglingamálastjóri, en því embætti gengdi hann til starfsloka 1985. Hann var forseti Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) 1969-1971. Hjálmar var áhugaljósmyndari af lífi og sál og gaf út 12 ljósmyndabækur um Ísland og íslenska náttúru. Einnig gaf hann út tvær bækur um íslensk fiskiskip. Bárður kvæntist Else Sörensen frá Danmörku árið 1946. Þau voru barnlaus.

Hákon Bjarnason (1907-1989)

  • S02930
  • Person
  • 13. júlí 1907 - 16. apríl 1989

Foreldrar: Ágúst H. Bjarnason, prófessor í heimspeki við HÍ og Sigríður Jónsdóttir kennari við Kvennaskólann. Hákon lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1926 og hélt að því loknu til náms í skógræktarfræðum við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Þaðan brautskráðist hann 1932 fyrstur Íslendinga í þessum fræðum. Vann einn vetur sem aðstoðarmaður á Plantefysiologisk Laboratorium við sama háskóla. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands frá 1933 til loka 7. áratugarins. Kjörinn heiðursfélagi þess 1977. Hákon var skipaður skógræktarstjóri 1935 og gegndi því starfi í 42 ár, til 1977. Hákon dvaldist erlendis veturinn 1936—37 til þess að kynna sér vinnubrögð við tilraunastarfsemi í jarðannsóknum. Forstöðu Mæðiveikivarna gegndi Hákon til 1941. Beitti sér mjög fyrir innflutningi trjátegunda til Íslands í störfum sínum sem og notkun lúpínu við landgræðslu. Hákon var kjörinn heiðursfélagi Norska skógræktarfélagsins.
Maki 1: Guðrún Magnúsdóttir Þau eignuðust eina dóttur. Þau slitu samvistum.
Maki 2: Guðrún Bjarnason. Þau eignuðust fjögur börn.

Guttormur Vigfússon (1850-1928)

  • S02300
  • Person
  • 8. ágúst 1850 - 26. des. 1928

Guttormur Vigfússon var fæddur í Geitagerði í Fljótsdal 8. ágúst 1850. Faðir: Vigfús Guttormsson (1828-1867) bóndi Geitagerði. Móðir: Margrét Þorkelsdóttir (1824-1895) húsmóðir í Geitagerði. ,,Guttormur nam búfræði í Stend í Noregi 1875–1877. Stundaði nám við landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn 1881–1882. Ferðaðist um Norður-Múlasýslu 1878–1880 og leiðbeindi í búnaði. Kennari við Möðruvallaskóla 1880–1881. Skólastjóri búnaðarskólans að Eiðum 1883–1888. Bóndi á Strönd á Völlum 1888–1894, í Geitagerði frá 1894-1928. Guttormur var oddviti Fljótsdalshrepps um langt skeið. 1892-1908 sat hann á þingi fyrir Heimastjórnarflokkinn, Suður-Múlasýslu. Guttormur kvæntist Sigríði Guðbjörgu Önnu Sigmundsdóttur (1892-1922) en hún var ættuð frá Ljótsstöðum í Skagafirði, þau eignuðust átta börn."

Gunnar Þorsteinn Þorsteinsson (1903-1978)

  • S02929
  • Person
  • 28. sept. 1903 - 18. nóv. 1978

Foreldrar: Þorsteinn Þorsteinsson og Guðrún Brynjólfsdóttir. Starfaði sem lögmaður og hæstaréttarlögmaður í Reykjavík og í Kaupmannahöfn, um tíma bæjarfógeti í Vestmannaeyjum.
Maki 1: Jóna Marta Guðmundsdóttir húsfreyja. Þau skildu. Þau eignuðust 2 börn.
Maki 2: Guðrún Ágústa Þórðardóttir húsfreyja. Þau skildu.
Maki 3: Þóra Emilía María Júlíusdóttir Havsteen húsfreyja. Þau skildu.

Gunnar Björnsson (1905-1980)

  • S01816
  • Person
  • 15. ágúst 1905 - 2. júlí 1980

Sonur Björn Ólafssonar á Skefilsstöðum og k.h. Guðrúnar Björnsdóttur. Forstjóri í Kaupmannahöfn, síðar ræðismaður Íslands þar og sendiherra. Síðast bús. í Reykjavík. K: Margrethe D. K. A. Simmelkjær.

Guðrún Ólafía Jónsdóttir (1935-2016)

  • S02411
  • Person
  • 20. mars 1935 - 2. sept. 2016

Guðrún fæddist á Blönduósi 20. mars 1935. Dóttir hjónanna Huldu Á. Stefánsdóttur skólastjóra og Jóns S. Pálmasonar bónda á Þingeyrum. ,,Guðrún ólst upp á Þingeyrum í Húnaþingi til sjö ára aldurs er hún flutti til Reykjavíkur. Hún útskrifaðist frá MR 1955 og hélt til náms til Kaupmannahafnar. Hún lauk prófi í arkitektúr frá Konunglegu akademíunni 1963 og vann eftir útskrift á teiknistofu prófessors Viggo Möller Jensen og Tyge Arnfred til 1966. Eftir búferlaflutninga til Íslands rak hún teiknistofuna Höfða ásamt Stefáni Jónssyni og Knúti Jeppesen til 1979. Hún var forstöðumaður Þróunarstofnunar Reykjavíkur, síðar Borgarskipulags Reykjavíkur 1979-1984. Frá 1984 rak hún TGJ Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur allt til dauðadags. Á sínum ferli lét Guðrún til sín taka á sviði skipulagsmála og vann að mörgum verkefnum í Reykjavík og á landsbyggðinni. Hún hannaði fjölmargar byggingar víða um land, t.a.m. Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi, Vörðuna – ráðhús Sandgerðisbæjar og Klausturstofuna við Þingeyrakirkju. Guðrún var ákafur talsmaður verndunar byggingararfsins og kom að uppteikningu og endurgerð eldri húsa, auk gerðar byggða- og húsakannana. Guðrún kom víða við á ferlinum, hún sat í stjórn Arkitektafélags Íslands 1969-1973 og var formaður 1970-1972. Hún var formaður Torfusamtakanna 1972-1979, sat í ráðgjafanefnd um menningarmál á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar 1972-1984, í framkvæmdastjórn Listahátíðar 1974-1976, í Skipulagsstjórn ríkisins 1985-1990, í Náttúruverndarráði 1993-1996 og í faghópi vegna Rammaáætlunar 1999-2003. Hún var varaborgarfulltrúi Nýs vettvangs 1990-1994 og Reykjavíkurlista 1994-2002, sat í Skipulagsnefnd Reykjavíkur 1990-1998, var formaður Menningarmálanefndar Reykjavíkur 1994-2002, formaður byggingarnefndar Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi og formaður stjórnar Búmanna hsf. frá 1998-2015. Þá var hún virkur félagi í Zonta-klúbbi Reykjavíkur frá 1971 til dauðadags. Guðrún var kjörin heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands 2015."
Guðrún var þrígift, fyrst Ómari Árnasyni tryggingastærðfræðingi, þá Knúti Jeppesen arkitekt og síðast Páli Líndal, fv. borgarlögmanni og ráðuneytisstjóra, Guðrún eignaðist fjögur börn.

Guðmundur Þorláksson (1852-1910)

  • S02240
  • Person
  • 22. apríl 1852 - 2. apríl 1910

Guðmundur Þorláksson. ,,Magister í norrænum fræðum frá Háskólanum í Khöfn. Sinnti kennslu og ritstörfum. Vegna heilsuleysis fluttist hann að Frostastöðum 1906 og andaðist þar 1910 hjá Magnúsi bróðursyni sínum. Hann var ókv. og bl."

Guðmundur Ingvi Sigurðsson (1922-2011)

  • S02432
  • Person
  • 16. júní 1922 - 21. feb. 2011

Guðmundur fæddist á Akureyri og ólst þar upp. Sonur hjónanna Halldóru Ólafsdóttur húsmóður og Sigurðar Guðmundssonar skólameistara Menntaskólans á Akureyri.
Guðmundur lauk stúdentsprófi 1941 og cand. mag.juris frá HÍ. Árið 1947 -1948 var Guðmundur við nám í afbrotafræðum í Kaupmannahöfn, en hann nam einnig sömu fræði í Bandaríkjunum 1954 -1955. Hann var sakadómarafulltrúi 1947 - 1959. Guðmundur stofnaði lögfræðistofuna LEX ásamt Sveini Snorrasyni 1959 og stundað lögmannsstörf til ársins 2001. Hann kenndi við Fósturskóla Sumargjafar, var prófdómari við lagadeild HÍ og í stjórn Lögfæðingafélags Íslands 1958 - 1963. Guðmundur sat í stjórn Íslandsdeildar norrænu lögfræðingaþinganna 1972 - 1984 og var formaður Námssjóðs Lögmannafélagsins 1974- 1984.

Guðmundur Björnsson (1864-1937)

  • S02927
  • Person
  • 12. okt. 1864 - 7. maí 1937

Guðmundur Björnsson, f. 12.10.1864 í Gröf í Víðidal í V-Hún. Foreldrar: Björn Leví Guðmundsson bóndi í Gröf í Víðidal og kona hans Þorbjörg Helgadóttir húsfreyja. Guðmundur tók stúdentspróf frá Lærða skólanum í júní 1887 með 1. einkunn. Lauk cand. med. prófi frá Hafnarháskóla í janúar 1894 með 1. einkunn. Dvaldi um skeið í Noregi með styrk úr landssjóði til að kynna sér ráðstafanir varðandi holdsveiki. Fór einnig í kynnisferðir um Evrópu á árunum 1905-6 og síðar. Starfaði í Kaupmannahöfn og Reykjavík. Kenndi við Læknaskólann um skeið. Var jafnframt ljósmæðrakennari. Landlæknir og forstöðumaður Læknaskólans frá 1906-1931. Settur prófessor við Háskóla Íslands 1911. Var einnig alþingismaður og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Eftir hann liggur mikið af rituðu máli um heilbrigðismál auk þess sem hann gaf út ljóðabókina Undir ljúfum lögum árið 1918 (undir höfundarnafninu Gestur).
Maki 1: Guðrún Sigurðardóttir, f. 31.12.1864, d. 29.01.1904. Þau eignuðust sjö börn.
Maki 2: Margrét Magnúsdóttir Björnsson, f. Stephensen. F. 05.08.1879, d. 15.08.1946. Þau eignuðust sjö börn.

Gissur Ísleifur Helgason (1942-

  • S01710
  • Person
  • 23. mars 1942

Foreldrar Ólafs Hauks voru Helgi Ólafsson kennari á Sauðárkróki og Akureyri, síðar búsettur í Reykjavík, og k.h. Valý Þ.Á. Ágústsdóttir. Framkvæmdastjóri í Kaupmannahöfn, kvæntur Benediktu Atterdag Helgason.

Gísli Halldórsson Kolbeins (1926-2017)

  • S01526
  • Person
  • 30. maí 1926 - 10. júní 2017

Gísli fæddist í Flatey á Breiðafirði 30. maí 1926. ,,Hann stundaði nám í foreldrahúsum, tók stúdentspróf frá MA 1947, lauk guðfræðinámi frá HÍ 1950, stundaði framhaldsnám í guðfræði við Háskólann í Göttingen í Þýskalandi 1959-60, stundaði rannsóknir í kirkjusögu í Lundúnum, Lúxemborg, Bremen og Kaupmannahöfn 1981-82 og var í endurmenntun og guðfræðitengdu rannsóknarnámi í York í níu mánaða leyfi 1981-82. Gísli varð sóknarprestur í Sauðlauksdal 1950. Hann starfaði þar 1950-54 og gegndi aukaþjónustu í Eyraprestakalli og í Vestmannaeyjum. Hann var sóknarprestur á Melstað í Vestur-Húnavatnssýslu 1954-77 og í Stykkishólmi 1977-92. Auk þess gegndi hann aukaþjónustu á Melstað og í Setbergsprestakalli. Eftir að hann lauk skipaðri prestþjónustu sinnti hann prestþjónustu á Kolfreyjustað 1992, á Sauðárkróki, í Bolungarvík, í Staðastaðaprestakalli 1995-96, í Skagastrandarprestakalli 1998, Bólstaðahlíðarprestakalli 1998, í Vestmannaeyjum 1998, á Hrafnistu í Hafnarfirði 1998-99, á Kolfreyjustað 2000-2001, í Hofsóss- og Hólaprestakalli 2001-2003 og í Skagastrandarprestakalli 2004. Gísli starfaði í góðtemplarareglunni um árabil, sat í stjórn Ungmennafélagsins Grettis í Miðfirði, var formaður Ungmennasambands Vestur-Húnavatnssýslu 1956-60, sat í barnaverndarnefnd Ytri-Torfustaðahrepps 1954-76, í stjórn Veiðifélags Miðfjarðarár í 20 ár, í skólanefnd Reykjaskóla, í stjórn Byggðasafnsins á Reykjum í 20 ár, var prófdómari í barnaskólum í Vestur-Húnavatnssýslu í 23 ár, formaður og ritari Lionsklúbbsins Bjarma á Hvammstanga, sat í barnaverndarnefnd Stykkishólms, í stjórn Byggðasafns Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, var ritari Lionsklúbbs Stykkishólms, sat í fulltrúaráði Prestafélags Íslands og var formaður Hallgrímsdeildar Prestafélags Íslands. Gísli þýddi ritið Könnuður í fimm heimsálfum, var ritstjóri ýmissa tímarita og ársrita og samdi Skáld-Rósu og síðan Skáldung, um námsár Nóbelsskáldsins hjá sr. Halldóri, föður Gísla."
Gísli kvæntist Sigríði Ingibjörgu Bjarnadóttur Kolbeins frá Brekkubæ í Nesjum, þau eignuðust fimm börn.

Gísli Halldórsson (1914-2012)

  • S03104
  • Person
  • 12. ágúst 1914 - 8. okt. 2012

Gísli fædd­ist 12. ág­úst 1914 á Jörfa á Kjal­ar­nesi. ,,Gísli lauk prófi frá Iðnskól­an­um í Reykja­vík 1933 og sveins­prófi í húsa­smíði árið 1935. Að því loknu lá leið hans til Kaup­manna­hafn­ar þar sem hann lauk prófi sem bygg­ing­ar­fræðing­ur frá Det Tekn­iske Selska­bs Skole árið 1938. Síðan stundaði hann nám í Det Kong­elige Aka­demi for de Skønne Kun­ster 1938-1940 en kom þá heim vegna seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar. Hann lauk brott­farar­prófi sem arki­tekt 1947. Gísli setti á fót eig­in teikni­stofu í Reykja­vík ásamt Sig­valda Thor­d­ar­son arki­tekt sem þeir starf­ræktu sam­eig­in­lega til árs­ins 1948. Hann rak stof­una síðan einn til 1957 en eft­ir það sem sam­eign­ar­fé­lag með nokkr­um sam­starfs­mönn­um. Gísli hef­ur teiknað fjöl­mörg mann­virki, þar á meðal mörg fé­lags­heim­ili og íþrótta­mann­virki. Gísli sat sem varamaður í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur 1954-1958 og borg­ar­full­trúi 1958-1974. Var vara­for­seti borg­ar­stjórn­ar 1958 og for­seti borg­ar­stjórn­ar 1970-1974. Í borg­ar­ráði 1962-1970. Sat í bygg­ing­ar­nefnd Reykja­vík­ur 1954-1958. Skipu­lags­nefnd Reykja­vík­ur 1958-1974 og um­ferðar­nefnd 1962-1966. Formaður í stjórn íþrótta­vall­anna 1958-1961. Formaður íþróttaráðs 1961-1974. Gísli starfaði um ára­bil fyr­ir KR og íþrótta­hreyf­ing­una." Eig­in­kona Gísla var Mar­grét Hall­dórs­son, fædd í Kaupmannahöfn, þau eignuðust einn son.

Georg Bernharð Michelsen (1916-2001)

  • S00080
  • Person
  • 20. maí 1916 - 3. nóv. 2001

Sonur Frank Michelsen úrsmíðameistara á Sauðárkróki og Guðrúnar Pálsdóttur. ,,Georg nam bakaraiðn á Sauðárkróki og hjá Jóni Símonarsyni í Reykjavík. Sautján ára lá leið hans til Kaupmannahafnar þar sem hann dvaldist næstu ellefu árin við frekara nám og störf í bakaraiðn. Í stríðslok, 1945, fluttist hann, með fjölskyldu sína, heim til Íslands og lá leið þeirra fyrst til Sauðárkróks. Síðan stofnaði hann bakarí í Hveragerði og bjó þar og starfaði allt til ársins 1979, er hann seldi reksturinn. Þá hóf hann störf hjá Brauði hf. - Myllunni, þar sem hann starfaði þar til hann var 78 ára."

Geir Tómasson Zoëga (1857-1928)

  • S03022
  • Person
  • 28. mars 1857 - 15. apríl 1928

Fæddur á Bræðraparti á Akranesi. Foreldrar: Tómas Jóhannesson Zoëga og kona hans Sigríður Kaprasíusdóttir. Geir missti föður sinn 1862 og tók þá föðurbróðir hans, Geir Zoëga kaupmaður, hann til fósturs og kostaði síðar til náms. Hann útskrifaðist úr Lærða skólanum í Reykjavík 1878, tók næsta ár heimspekipróf við Hafnarháskóla og embættispróf í málfræði og sögu 1883. Varð stundakennari við Lærða skólann á námi loknu, settur kennari 1884 og yfirkennari 1905. Rektor skólans frá 1914.
Maki: Bryndís Sigurðardóttir frá Flatey, þau eignuðust sex börn.

Frederik Ludvig Popp (1831-1893)

  • S01161
  • Person
  • 28. feb. 1831 - 10. mars 1893

Fæddur í Kaupmannahöfn. Mun fyrst hafa komið hingað sem verslunarþjónn og verið við verslanir á Vestdalseyri við Seyðisfjörð og á Eskifirði á árunum 1858-1859. Árið 1866 hóf hann eigin verslun á Akureyri. Fljótlega hóf hann sumarverslun við Skagafjörð, fyrst á Hofsósi og einkum með hesta. Árið 1874 keypti hann verslunarhús Halls Ásgrímssonar Grænlandsfara á Sauðárkróki og hóf verslun þar en bjó þó í Kaupmannahöfn. Hann hafði verslunarstjóra á Sauðárkróki uns hann flutti þangað sjálfur með fjölskylduna árið 1885 og tók við verslunarstjórn. Varð verslun hans brátt önnur stærsta verslunin við Skagafjörð næst Gránufélagsversluninni og voru útibú á Hofsósi og Kolkuósi. Heimili þeirra hjóna á Sauðárkróki varð fljótlega helsta miðstöð alls menningarlífs á Sauðárkróki. Popp var mjög listelskur maður og lagði nokkra stunda á málarlist og málaði t.d. leiktjöld fyrir leiksýningar og studdi ásamt konu sinni mjög að allri leikstarfsemi á Sauðárkróki. Eitt helsta áhugamál hans var bygging Sauðárkrókskirkju en hann gaf 200 kr. til byggingarinnar og tvær töflur fyrir sálmanúmer, er hann útbjó sjálfur að nokkru. Eftir lát hans gaf ekkjan fagra altaristöflu til kirkjunnar í minningu hans.
Kvæntist Emilie Antonette Popp, þau eignuðust þrjú börn.

Erling Edwald (1921-2011)

  • S02576
  • Person
  • 16. jan. 1921 - 13. maí 2011

Erling fæddist á Ísafirði. Foreldrar hans voru Jón St. Samúelsson Edwald, kaupmaður og vararæðismaður og kona hans Sigrún Edwald. Erling kvæntist Jóhönnu Hjálmfríði Jónsdóttur húsfreyju. Þau eignuðust fjögur börn. Eftir stúdentspróf frá MA hóf Erling nám í lyfjafæði í Lyfjafræðingaskóla Íslands árið 1940. Hann var aðstoðarlyfjafræðingur í Reykjavíkurapóteki 1943 -1944 og í Lyfjaverslun ríkisins 1944 -1945. Erling hélt til Danmerkur að loknu seinna stríði og hóf þar nám við Danmarks farmaceutiske Höjskole í Kaupmannahöfn og lauk þaðan prófi í cand. Pharm. 1947. Að því laoknu starfaði hann sem lyjafræðingur í Lyfjaverslun ríkisins 1947 til 1967, en varð þá lyfsölustjóri ríkisins og gegndi því starfi til 1986. Erling var fyrsti lyfjafræðingur lyfjabúrs Landspítalans; var þar í hlutastarfi árabilið 1954 til 1958. Hann var prófdómari í lyfjafræði lyfsala við Háskóla Íslands 1957 til 1970. Hann sat einnig í lyfjaverðlagsnefnd og í eiturefnanefnd um árabil og gegndi stjórnarstörfum í Lyfjafræðingafélagi Íslands frá 1991. Árið 1987 tók hann próf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík með 30 rúmlestaréttindi.

Elísabet Elín Arnórsdóttir (1892-1980)

  • S02981
  • Person
  • 23. jan. 1892 - 19. maí 1980

Fædd á Felli í Kollafirði í Strandasýslu. Foreldrar: Arnór Árnason prestur í Hvammi í Laxárdal (1860-1938) og fyrri kona hans, Stefanía Sigríður (1857-1893). Maki: Martin Bartels bankafulltrúi í Kaupmannahöfn. Þau eignuðust eina dóttur. Hún ólst upp í Bæ í Króksfirði hjá þeim Ólafi Sigvaldasyni, héraðslækni þar, og konu hans, Elísabetu Jónsdóttur. Elísabet Arnórsdóttir fluttist eftir lát Ólafs læknis með fósturmóður sinni til Reykjavíkur og bjuggu þær á Bókhlöðustíg 7. Hún fluttist síðar til Kaupmannahafnar.

Einar Benediktsson (1864-1940)

  • S02440
  • Person
  • 31. okt. 1864 - 12. jan. 1940

,,Faðir Einars var Benedikt Sveinsson, alþingismaður og sýslumaður og móðir hans hét Katrín Einarsdóttir, húsmóðir. Einar gekk í Lærða Skólann í Reykjavík þaðan sem hann varð stúdent 1884. Hann fór því næst til Kaupmannahafnar og útskrifaðist sem lögfræðingur úr Hafnarháskóla 1892. Einar stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, sem studdi Heimastjórnarflokkinn, og var sjálfur ritstjóri þess í tvö ár. Hann átti þátt í stofnun Landvarnarflokksins árið 1902 og gaf út blaðið Landvörn samhliða því. Einar átti þátt í því að koma á laggirnar fyrstu loftskeytastöð landsins árið 1905. Hann kom einnig að útgáfu blaðanna Þjóðin (1914–15), Þjóðstefna (1916–17) og Höfuðstaðurinn (1916–17). Einar var mikill áhugamaður um virkjun fallvatna og stofnaði ásamt öðrum Fossafélagið Títan 1914 til athugunar á því hvort arðbært væri að byggja virkjanir við Þjórsá. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum fyrr en um hálfri öld seinna þegar Búrfellsvirkjun var byggð. Á árunum 1907–21 ferðaðist Einar mikið. Hann fór til Noregs, Edinborgar í Skotlandi, sneri aftur til Kaupmannahafnar (1908-10) en eyddi svo sjö árum í London (1910–17) áður en hann fór enn aftur til Kaupmannahafnar (1917–21), þess í milli hafði hann stuttar viðkomur á Íslandi. Hann sneri endanlega aftur heim til Íslands 1921 og bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, meðal annars í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Þá lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, til þess að skoða möguleikana á málmvinnslu og sementsframleiðslu. Síðustu átta árum ævi sinnar eyddi Einar í Herdísarvík á Reykjanesskaga, þar sem hann lést 1940."
Helstu verk:
Sögur og kvæði (1897)
Pétur Gautur (1901) (Þýðing á leikriti Henrik Ibsen)
Hafblik (1906) (Kvæði)
Hrannir (1913) (Kvæði)
Vogar (1921) (Kvæði)
Hvammar (1930) (Kvæði)

Einar Baldvin Guðmundsson (1894-1977)

  • S02507
  • Person
  • 25. okt. 1894 - 7. des. 1977

Foreldrar: Guðmundur Davíðsson b. og hreppstjóri á Hraunum og k.h. Ólöf Einarsdóttir frá Hraunum. Lauk gagnfræðaprófi á Akureyri 1910, stúdentsprófi frá MR 1913 og cand. phil. frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1915. Stundaði jafnframt nám í landbúnaðarhagfræði við danska Landbúnaðarháskólann til 1916. Sneri aftur heim til Íslands árið 1917 og tók við búskap á Hraunum 1918 og bjó þar til 1945. Nokkur síðustu búskaparár sín hafði Einar ekki kvikfénað og vann þá á ýmsum stöðum á vetrum. Var hann m.a. nokkra vetrarparta bókavörður á Amtbókasafninu á Akureyri. Einar sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína og samfélag. Sat í hreppsnefnd í 12 ár, þar af oddviti í þrjú, mörg ár í stjórn Samvinnufélags Fljótamanna og um tíma formaður þess. Eftir að hann brá búi og seldi jörðina flutti hann til Reykjavíkur og bjó þar eftir það. Starfaði þar við skrifstofustörf til 73 ára aldurs og eftir það í nokkur ár hjá Orðabók Háskólans. Einar skrifaði talsvert um hugðarefni sín, m.a. langa grein um þróun fæðuöflunar og atvinnuhátta og áhrif hennar á siðferðislega þróun mannsins og hamingju hans. Grein þessi var birt 1954. Um svipað efni fjallaði hann í bók sinni Þungir straumar sem kom út árið 1951. Hann fékkst einnig töluvert við þýðingar, veigamest af því er bókin Of Human Bondage sem fékk íslenska nafnið Fjötrar. Einar kvæntist ekki en eignaðist dóttur með Þrúði Ólafsdóttur Briem.

Eggrún Arnórsdóttir (1895-1975)

  • S02980
  • Person
  • 22. apríl 1895 - 10. apríl 1975

Foreldrar: Arnór Árnason (1860-1938) prestur í Hvammi í Laxárdal og seinni kona hans, Ragnheiður Eggertsdóttir (1862-1937). Maki: Steingrímur Guðmundsson frá Gufudal í A-Barð, prentsmiðjustjóri hjá Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg. Þau eignuðust tvær dætur. Bjuggu m.a. í Kaupmannahöfn og síðar á Grettisgötu 46 í Reykjavík.

Bjarni Jónsson (1872-1948)

  • S01175
  • Person
  • 24. maí 1872 - 13. nóv. 1948

,,Lögfræðingur og bankastjóri á Akureyri. Útibúsbankastjóri á Akureyri 1930. Var í Reykjavík 1945. Sigldi til Kaupmannahafnar 1898 til náms við Kaupmannahafnarháskóla. Lauk embættisprófi í lögfræði 1906 og kom þá heim. Bjarni helgaði sig fræðistörfum á efri árum og vann að æviskrám íslenskra Hafnarstúdenta."

Bjarni Bjarnason (1889-1970)

  • S03081
  • Person
  • 23. okt. 1889 - 2. ágúst 1970

Fæddur að Búðarhóli í Landeyjum. Gagnfræðapróf Flensborg 1909. Kennarapróf KÍ 1912. Kennarapróf í íþróttum og sundi við Statens Gymnastikinstitut í Kaupmannahöfn 1914. Námsför til Stokkhólms 1929. Kennari við barnaskólann í Hafnarfirði 1912–1915, skólastjóri 1915–1929. Jafnframt leikfimikennari við Flensborgarskóla 1912–1927 og íþróttakennari í ýmsum íþróttafélögum í Hafnarfirði. Keypti Straum í Hafnarfirði og rak þar búskap 1918–1930. Skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni 1929–1959. Jafnframt stundakennari við skóla Björns Jakobssonar, síðar Íþróttakennaraskóla Íslands 1932–1946 og Húsmæðraskóla Suðurlands 1942–1952. Ráðsmaður við skólabúið að Laugarvatni 1935–1953, sjálfur bóndi þar 1953–1962 og átti þar heima til 1967, er hann fluttist til Reykjavíkur. Formaður Sambands íslenskra barnakennara frá stofnun 1921–1927, í stjórn til 1931. Í miðstjórn Framsóknarflokksins 1933–1956. Gæslustjóri Búnaðarbanka Íslands 1938. Kosinn í landsbankanefnd 10. mars 1938. Í stjórn Íþróttakennaraskóla Íslands 1942–1960. Fulltrúi á aðalfundum Stéttarsambands bænda 1945–1960 og fulltrúi á Búnaðarþingi 1946–1962. Í stjórn Stéttarsambands bænda 1953–1960. Átti sæti í tryggingaráði 1953–1956 og 1959–1967.
Alþingismaður Árnesinga 1934–1942, alþingismaður Snæfellinga 1942 (Framsóknarflokkur). Gaf út 1969–1970 Suðra, bók í þrem bindum um sunnlensk málefni.
Maki 1: Þorbjörg Þorkelsdóttir (fædd 9. október 1896, dáin 21. apríl 1946), þau voru barnlaus.
Maki 2: Anna Jónsdóttir (fædd 22. apríl 1906, dáin 24. júlí 1977), þau eignuðust tvö börn.

Ásgeir Ásgeirsson (1894-1972)

  • S02709
  • Person
  • 13. maí 1894 - 15. sept. 1972

Ásgeir Ásgeirsson fæddist árið 1894 í Kóranesi á Mýrum. Ásgeir lauk stúdentsprófi 1912 og guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1915. Hann stundaði framhaldsnám við háskólana í Kaupmannahöfn og Uppsölum 1916-1917. Kjörinn heiðursdoktor við Manitobaháskóla 1961 og við Edinborgarháskóla 1967. Hann var alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn 1923-1934, utanflokka 1934-1937 og fyrir Alþýðuflokkinn 1937-1952. Forseti Sameinaðs þings 1930-1931 og varaforseti þess 1928-1929. Fjármálaráðherra 1931-1932 er hann varð forsætis- og fjármálaráðherra og gegndi hann því starfi til 1934. Ásgeir var biskupsritari 1915-1916, bankaritari við Landsbankann í Reykjavík 1917-1918 og kennari við Kennaraskólann 1918-1927. Fræðslumálastjóri 1926-1931 og 1934-1938. Bankastjóri Útvegsbankans í Reykjavík. Kjörinn forseti Íslands 29. júní 1952 og endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 1956, 1960 og 1964 og lét af embætti 1968. Maki: Dóra Þórhallsdóttir, f. 23.02.1893. Þau eignuðust þrjú börn.

Árni Thorsteinson (1870-1962)

  • S02696
  • Person
  • 15. okt. 1870 - 16. okt. 1962

Foreldrar: Árni Bjarnason Thorsteinson landfógeti í Reykjavík, f. 1839 og Soffía Kristjana Hannesdóttir Thorsteinson húsfreyja, f. 1839. Árni varð stúdent frá Lærða skólanum 1890 og Cand.phil. 1891. Las lög um hríð en lauk ekki prófi. Lærði ljósmyndum á ljósmyndastofu Charles Petersen í Kaupmannahöfn árið 1897. Rak ljósmyndastofu í Reykjavík árin 1897-1918. Var bókhaldari hjá Sjóvártryggingafélagi Íslands 1918-1929 og starfsmaður Landsbankans frá 1930. Maki: Helga Einarsdóttir Thorsteinson húsfreyja, f. 22.10.1875. Þau eignuðust 4 börn.

Árni Jónsson (1851-1897)

  • S03620
  • Person
  • 1851-1897

Árni Jónsson, f. í Vatnsdalshólum 1851, d. 1897 á Ásbrandsstöðum í Vopnafirði. Forledrar: Jón Jónsson bóndi og trésmiður í Vatnsdalshólum og kona hans Björg Þórðardóttir.
Árni ólst upp hjá foreldrum sínum og var fermdur frá þeim. Sama ár fór hann til Magnúsar föðurbróður síns, sem kenndi honum undir skóla og var hjá honum á Hofi á Skagaströnd 1866-1868 og á Skorrastað í Norðfirði 1868-1869. Árni var við nám í Reykjavík næstu ár og lauk þar stúdentsprófi 1875. Hann varð cand. phil. í Reykjavík 1876 og cand. med. frá Læknaskólanum 1878. Hann starfaði á fæðingarstofnun í Kaupmannahöfn 18788-187 en var skipaður héraðslæknir 1879. Sat hann á Sauðárkróki 1879-1880, á Sauðá 1880-1881, í Glæsibæ 1881-1892 og hafði jafnframt búrekstur þar 1881-1883 og 1887-1892. Árið 1892 var hann skipaður héraðslæknir í Vopnafirði.
Maki: Sigríður Jóhannesdóttir (1851-1890) Þau eignuðust 4 börn. Tvö þeirra dóu á fyrsta ári.
Maki 2: Sigurveig Ósk Friðfinnsdóttir (1865-1946). Þau eignuðust fjögur börn. Seinni maður Sigurveigar var Jón Benediktsson (1873-1946). Þau eignuðust tvö börn.

Árni Guðmundur Pétursson (1924-2010)

  • S01734
  • Person
  • 4. júní 1924 - 1. júní 2010

Árni Guðmundur Pétursson fæddist 4. júní 1924 á Oddsstöðum á Melrakkasléttu. Foreldrar hans voru Þorbjörg Jónsdóttir frá Ásmundarstöðum á Sléttu og Pétur Siggeirsson á Oddsstöðum. Árni varð búfræðingur frá Hólum árið 1944 og búfræðikandídat frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1950. Hann var ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Austurlands 1950-1952, kennari við Bændaskólann á Hólum 1952-1962 og skólastjóri þar 1962-63. Árni var ráðunautur í sauðfjárrækt hjá Búnaðarfélagi Íslands 1963-1980, ráðunautur í æðarrækt í hlutastarfi 1970-1980 og hlunnindaráðunautur BÍ 1980-1984. Kunnastur var hann fyrir brautryðjendastarf sitt við heimauppeldi æðarunga. Árni kvæntist 6. janúar 1950 Guðnýju Ágústsdóttur frá Raufarhöfn, þau eignuðust fjórar dætur.

Ari Arason (1813-1881)

  • S01722
  • Person
  • 1. jan. 1813 - 12. sept. 1881

Ari var fæddur á Flugumýri 1813. Faðir: Ari Arason (1763-1840) fjórðungslæknir. Móðir: Sesselja Vigfúsdóttir húsfreyja.
Ari ólst upp hjá foreldrum sínum og hlaut "betri manna" menntun fyrir fermingu. Eftir fermingu var honum komið til náms hjá Pétri prófasti Péturssyni á Víðivöllum. Útskrifaðist stúdent úr heimaskóla sumarið 1831 hjá Gunnlaugi Oddssyni dómkirkjupresti í Reykjavík. Fór til Kaupmannahafnar sama sumar til náms í Háskólanum. Hóf þar nám í tannlækningum. Kom heim aftur 1833 en fór aftur utan sama ár og tók þá að lesa læknisfræði. Lauk þar ekki fullnaðarprófum til embættis. Faðir hans aldraður og heilsuveill kallaði hann heim til að aðstoða sig við búreksturinn. Faðir hans lést 1840 og veitti Ari búi móður sinnar forstöðu þar til hún andaðist árið 1843. Það haust fór Ari til Reykjavíkur og dvaldi þar við ýmis störf um veturinn, meðal annars lagði hann stund á orgelleik og söng hjá Pétri Guðjónsen orgelleikara. Ari er skráður húsmaður á Flugumýri 1844 en tók jörðina til ábúðar 1845 og bjó þar til æviloka. Rak þar stórbú.
Eiginkona: Helga Þorvaldsdóttir (1816-1894).
Saman áttu þau 11 börn. Fjögur þeirra komust á legg.

Anna Cathrine Schiöth (1846-1921)

  • S01231
  • Person
  • 10. apríl 1846 - 27. apríl 1921

Fædd í Kaupmannahöfn 10. apríl 1846. Anna fluttist til Íslands 1868. Hún lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn veturinn 1877-1878. Rak ljósmyndastofu í nafni eiginmanns síns (H. Schiöth) á Akureyri á sumrin 1878-1899. Arnór Egilsson keypti ljósmyndastofuna 1899.
Maki: Peter Frederik Hendrik Schiöth bakarameistari, síðar póstmeistari (1841-1923), þau eignuðust fimm börn.