Showing 9 results

Authority record
Skálá

Anna Jónsdóttir (1798-1881)

  • S03053
  • Person
  • 1798 - 5. okt. 1881

Anna Jónsdóttir fæddist að Hamri í Hegranesi árið 1798. Faðir: Jón Þorkelsson (1765-1843), síðast bóndi á Ljótsstöðum. Móðir: Guðrún Bjarnadóttir, húsfreyja.
Kvæntist árið 1830, Birni Þórðarsyni (1801-1890). Húsfreyja á Ysta-Hóli og Skálá. Þau voru barnlaus.

Björn Sölvason (1863-1942)

  • S01990
  • Person
  • 17.10.1863-08.07.1942

Björn Sölvason, f. á Skálá í Sléttuhlíð 17.10.1863, d. 08.07.1942 á Siglufirði. Foreldrar: Sölvi Kristjánsson, síðast bóndi í Hornbrekku og Björg Þorsgteinsdóttir frá Syðsta-Hóli í Sléttuhlíð. Björn var óskilgetinn og féll það í hlut móður hans ða annast uppeldið. Um 12 ára aldur fór hann til vandalausra. Var m.a. lengi hjá Sæmundi bónda í Haganesi og síðar ekkju hans Björgu. Hann vann jöfnum höndum til sjós og lands, var lengst af á hákarlaskipum á vorin, oftast sem stýrimaður.
Bóndi á Minni-Reykjum 1891-1892, Stóra-Grindli 1892-1893, Karlsstöðum 1893-1898, Sléttu 1898-1903 og Hamri 1903-1918. Keypti Björn Hamar og byggði þar annað timburhúsið sem byggt var í Austur-Fljótum. Árið 1918 hættu þau hjónin búskap, seldu jörðina og fluttust til Siglufjarðar og áttu þar heima síðan.
Maki: Guðrún Margrét Símonardóttir (1869-1956) frá Fyrirbarði. Þau eignuðust fjögur börn sem létust öll í æsku. Þau ólu upp fjóra drengi, suma að öllu leyti, en þeir voru:
Hafliði Jónsson (1894-1967), Bergur Guðmundsson (1900), Kristinn Ásgrímsson (1894) og Björn Guðmundur Sigurbjörnsson (1913).

Björn Þórðarson (1801-1890)

  • S03052
  • Person
  • í feb. 1801 - 6. ágúst 1890

Björn Þórðarson, bóndi, hreppstjóri og dannebrogsmaður, á Ysta-Hóli og Skálá í Sléttuhlíð. Fæddist í febrúar 1801 á Illugastöðum í Flókadal. Faðir: Þórður Pétursson (1764-1810), bóndi á Ysta-Hóli. Móðir: Hallfríður Björnsdóttir (1769-1851), húsfreyja á Ysta-Hóli. Björn ólst upp með foreldrum sínum á meðan föður hans naut við en síðan með móður sinni og stjúpföður, Guðmundi Jónssyni bónda á Ysta-Hóli. Stundaði veiðiskap með búrekstrinum og átti hluta í hákarlaskipum með Fljótamönnum. Þá stundaði hann einnig fuglaveiðar við Drangey. Var hluthafi í versluninni í Grafarósi. Bóndi á Ysta-Hóli 1826-1848, Skálá 1848-1885. Fluttist að Þverá í Hrollleifsdal og bjó þar 1885-1887 og á Klóni 1887-1888 en brá þá búi vegna heilsubrests og flutti til dóttur sinnar og tengdasonar á Skálá. Bjó þar til æviloka.
Kvæntist árið 1830, Önnu Jónsdóttur (1798-1881). Þau áttu ekki börn saman.
Barnsmóðir: Anna Bjarnadóttir (1835-1915), áttu eina dóttur saman, Hallfríði fædda 1858.
Barnsmóðir: María Skúladóttir (1834-1903), áttu eina dóttur saman, Guðbjörgu fædda 1866.
Björn er talinn vera fyrirmynd Trausta hreppstjóra á Skálá í sögu Davíðs Stefánsson, Sólon Islandus.

Eiður Sigurjónsson (1893-1964)

  • S02641
  • Person
  • 10. sept. 1893 - 15. okt. 1964

Eiður Sigurjónsson f. 10.09.1893 á Þorleifsstöðum í Blönduhlíð. Foreldrar: Sigurjón Jónsson Ósland og Sigurjóna Magnúsdóttir. Ólst upp á Óslandi í Óslandshlíð. Gekk í Gagnfræðaskóla Akureyrar og Hólaskóla. Vann við verslun Ólafs Jenssonar á Hofsósi við afgreiðslu og skrifstofustörf. Bóndi á Skálá 1918-1954. Kennari í Fellshreppi í 35 ár. Í hreppsnefnd frá 1923 og oddviti frá 1928, sýslunefndarmaður 1925-1942 og 1946-1954. Hreppstjóri 1935-1954. Í stjórn Kaupfélags Skagfirðinga í 24 ár. Fluttist til Reykjavíkur 1964 og gerðist þingvörður og stundaði það starf fram til síðasta árs. Kvæntist árið 1918 Guðlaugu Veróniku Franzdóttur f. 1896 á Vatni á Höfðaströnd. Foreldrar: Franz Jónatansson bóndi og kennari í Málmey á Skagafirði og Jóhanna Gunnarsdóttir. Eiður og Verónika eignuðust fjögur börn.

Friðbjörn Jónasson (1876-1970)

  • S02675
  • Person
  • 25. ágúst 1876 - 12. maí 1970

Foreldrar: Jónas Ásgrímsson og kona hans Jórunn Guðmundsdóttir. Friðbjörn ólst upp hjá foreldrum sínum og naut almennrar barnafræðslu í æsku. Hann þótti m.a. góður skrifari. Sem unglingur stundaði hann sjó ásamt almennri sveitavinnu. Friðbjörn tók við búi af föður sínum að Skálá í Sléttuhlíð og bjó þar ókvæntur með móður sinni og ráðskonu 1902-1905. Flutti að Keldum í sömu sveit og bjó þar 1905-1913, Ysta-Hóli 1913-1922, Syðsta-hóli 1922-1925, Mið-Hóli 1925-1940 og Þrastarstöðum 1940-1949, er hann brá búi. Meðfram búskapnum stundaði hann sjó ásamt almennri sveitavinnu og lagði einnig stund á smíðar, smíðaði hús, báta, líkkistur og fleira. Friðbjörn gegndi mörgum trúnaðarstörfum í sveit sinni. Var oddviti Fellshrepps 1906-1914 og sat auk þess lengi síðan í hreppsnefnd. Sat í skattanefnd, var úttektarmaður og formaður sóknar- og skólanefnda. Var einn af forystumönnum um byggingu nýs skólahúss í Fellshreppi og vann að stofnun bókasafns hreppsins. Friðbjörn mun hafa lært fjárkláðalækningar hjá norskum manni og kom síðan að slíkum störfum í Fellshreppi og víðar. Friðbjörn komst af úr sjávarháska þegar bátur Þórðar Baldvinssonar hvolfdi vestur af Málmey. Björguðust þrír menn en fimm drukknuðu.
Maki: Sigríður Halldórsdóttir. Foreldrar hennar bjuggu á Húnstöðum í Stíflu í Fljótum. Friðbjörn og Sigríður eignuðust þrjú börn. Auk þess fóstruðu þau hjón meira og minna upp fjórar stúlkur.

Guðbjörg Björnsdóttir (1866-1957)

  • S00261
  • Person
  • 04.07.1866-27.04.1957

Fædd á Skálá í Sléttuhlíð. Foreldrar hennar voru Björn Þórðarson hreppstjóri á Skálá og María Skúladóttir. Guðbjörg kvæntist Jóhannesi Jóhannessyni frá Heiði í Sléttuhlíð, hann fór til Vesturheims og sneri ekki aftur. Talinn hafa látist þar vestra eða á sjó. Þau eignuðust fimm börn sem upp komust. Guðbjörg bjó lengst af á Dýrfinnustöðum hjá Maríu dóttur sinni.

Kristján Árnason (1929-2008)

  • S02422
  • Person
  • 14. mars 1929 - 4. feb. 2008

Kristján fæddist á Skarði í Lundareykjardal 14. mars 1929 og ólst upp á Stálpastöðum í Skorradal. Hann var elstur níu barna hjónanna Elínar Sigríðar Kristjánsdóttur og Árna Kristjánssonar. Lengst af bjó fölskyldan á Kistufelli í Lundareykjardal. Kristján var í Ingimarsskóla og lauk þaðan landsprófi. Hann var einn vetur í M.R. og einn vetur í trésmíðanámi á Hólum í Landbroti. Árið 1975 fór hann í smíðavinnu í Sléttuhlíð í Skagafirði. Kristján bjó í Skagfirði upp frá því. Hann byggði sér íbúðarhús og smíðaverkstæði á Skálá. Kristján þótti handlaginn og góður smiður. Hann gaf út tvær ljóðabækur.

Lestrarfélag Fellshrepps

  • S03716
  • Organization
  • 1918 - 1974

Árið 1918, 24.nóv komu menn saman í Þinghúsi Fellshrepps í því tilefni að reyna að stofna lestrarfélag í sveitinni. Til fundarins hafði boðað Friðrik Guðmundsson á Bræðraá. Fyrstu starfsmenn Friðrik Guðmundsson Bræðraá, Jóhann Jónsson Glæsibæ, Eiður Sigurjónsson Skálá. Tilgangur félagsins er að auka fróðleik og lestrarfýsn í sveitinni. Fram kemur í gjörðabók að 22. des.1956 brann íbúðarhúsið á Skálá en þar voru bækur félagssins geymdar. Alls brunnu 670 bindi og tveir bókaskápar. Safnið var brunatryggt.

Verónika Franzdóttir (1896-1988)

  • S02588
  • Person
  • 14. mars 1896 - 14. maí 1988

Foreldrar: Franz Jónatansson b. og kennari í Málmey og k.h. Jóhanna Gunnarsdóttir. Verónika ólst upp hjá foreldrum sínum, fyrst á Höfðaströnd og síðan í Málmey. Árið 1914 fóru þau að Skálá og varð það heimili hennar næstu fjóra áratugina. Einn vetur var hún í skóla á Sauðárkróki og veturinn 1916 á húsmæðraskóla í Reykjavík. Hún kunni bæði söngstjórn og orgelleik. Kvæntist árið 1918 Eiði Sigurjónssyni frá Óslandi og tóku þau við búsforráðum á Skálá af foreldrum hennar það sama ár og bjuggu til 1954 er þau fluttu til Reykjavíkur. Í Reykjavík starfaði Verónika á Elliheimilinu Grund. Verónika og Eiður eignuðust fjögur börn.