Showing 2 results

Authority record
Skáld Skagafjörður

Hjálmar Jónsson (1796-1875)

  • S03424
  • Person
  • 29.09.1796-25.07.1875

Hjálmar Jónsson skáld betur þekktur sem Bólu-Hjálmar fæddist á Hallandi í Eyjafirði 1796. Hann lést 25. júlí 1875 í Brekkuhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði. Hjálmar var bóndi og ljóskáld og bjó lengst af í Skagafirði. Foreldrar hans voru Marsibil Semingsdóttir fædd 1769 og Jón Benediktsson fæddur 1763. Heimildum ber ekki saman um það að Jón Benediktsson hafi raunverulega verið faðir Hjálmars. Snemma var grunur um að séra Sigfús Jónsson prófastur á Höfða í Höfðahverfi hafi verið faðir hans. Hjálmar daðraði við þá hugmynd sjálfur.

Í ævisögum um Hjálmar er sagan um fæðingu hans sögð þannig að móðir hans hafi verið gestkomandi að Hallandi er hún ól son sinn. Þegar hann var einungis næturgamall lagði vinnukona á Hallandi af stað með hann til Hreppsstjórans í poka til þess að hægt væri að ráðstafa drengnum. Á leið sinni sóttist hún eftir næturgistingu hjá Sigríði á Dálksstöðum. Morgunin eftir var illviðri og þvertók Sigríður fyrir að lengra væri farið með barnið og sagðist fara með hann sjálf þegar veðrið batnaði. Af því varð aldrei, heldur tók hún hann til fósturs og gekk honum í móðurstað fyrstu árin. Á sjötta aldursári dvaldi hann einn vetur (1800-1801) hjá Oddi Gunnarssyni bónda á Dagverðareyri. Hjálmar ólst upp við algeng sveitastörf og reyndist þar liðtækur. Hann fór að stunda sjóróðra og segir hann sjálfur frá að hafa róið út frá Dagverðareyri. Þegar Hjálmar var 14 ára lést fósturmóðir hans. Talið er að Jóhann sonur Sigríðar á Dálksstöðum hafi kennt Hjálmari að lesa en fátt er vitað um menntun hans í æsku. Hann gekk ekki í skóla en af kveðskap sem er til eftir hann frá þessum árum má sjá að hann hafi snemma verið lesgjarn og fróðleiksfús. Í nokkrum vitnisburðum séra Jóns Þorvarðarsonar kemur meðal annars fram að Hjálmar er efnilegur og vel skarpur í gáfum. Eftir lát fósturmóður sinnar fór hann að Blómsturvöllum þar sem Jón faðir hans og Valgerður dóttir Sigríðar voru farin að búa.

Vorið 1820 fór Hjálmar vestur í Blönduhlíð í Skagafirði og gerðist vinnumaður á Silfrastöðum til vorsins 1821. Á næsta bæ bjó móðursystir hans, Guðbjörg Semingsdóttir fjölskylda hennar. Dóttir hennar Guðný og Hjálmar fóru að vera saman og eignuðust barn sumarið 1821 sem lést mánuði síðar. Ári síðar giftu þau sig. Þau bjuggu á ýmsum bæjum í Skagafirði næstu árin og var mjög þröngt í búi. Þau áttu sjö börn, fimm af þeim komust á fullorðins aldur.
Hann var kenndur við Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð þar sem hann bjó í rúm 15 ár. Hjálmar átti í deilum við sveitunga sína og kvað gjarnan vísur um þá og ávirðingar þeirra. Hann varð einangraður frá öðrum, menn hræddust hann og var illa við hann. 1838 var hann sakaður um sauðaþjófnað en var sýknaður af þeim ákærum. Hann hraktist frá Bólu ári seinna. Þaðan fór hann að Minni-Ökrum. Þar missti hann konu sína sem dó 24. júní 1845. Hann var á Minni-Ökrum í 28 ár. Með árunum varð hann nær ófær til allra verka en gat áfram skrifað. Hann háði ævilanga baráttu við fátækt og strit. Frá Minni-Ökrum fór hann að Grundargerði í Akrahreppi og þaðan að Starrastöðum í Tungusveit og var þar í 2 ár í húsamennsku með Guðrúnu, yngstu dóttur sinni. Þaðan fóru þau að Brekku nálægt Víðimýri. Eftir 5 vikna dvöl þar í beitarhúsum dó hann 5. ágúst 1875, á 80. aldursári.

Í kveðskap Hjálmars fjallar hann gjarnan um slæm kjör og samferðamenn sína. Hjálmar þótti óvæginn og illskeyttur. Þrátt fyrir að eiga sér marga óvildarmenn átti hann líka marga vini og var hann fenginn til að skemmta í veislum. Honum var margt til lista lagt. Hann var þjóðfræðisafnari, listaskrifari, góður kvæðamaður og þótti hafa merkilega frásagnargáfu og var því eftirsóttur til ræðuhalda á mannamótum.
Kveðskapur eftir Hjálmar Jónsson er mikill að vöxtum, rímur, ljóð og lausavísur. Eftir hann hafa einnig varðveist fagurlega útskornir gripir.

Jón Jónsson Skagfirðingur (1886-1965)

  • S00010
  • Person
  • 08.01.1886-21.01.1965

Jón Jónsson, síðar nefndur Jón Skagfirðingur, var fæddur í janúar 1886 á Valabjörgum í Skörðum. Foreldrar hans voru Jón Guðvarðarson og Oddný Sæmundsdóttir og áttu þau tvö önnur börn, þau Moniku og Nikódemus. Jón ólst upp að Valabjörgum til 15 ára aldurs en þá flutti hann með foreldrum sínum að Holtskoti í Seyluhreppi. Árið 1915 kvæntist Jón Soffíu Jósafatsdóttur frá Krossanesi og eignuðust þau þrjú börn; Sæmund, Hansínu og Valtý. Jón og Soffía bjuggu fyrst í Holtskoti, síðan í Glaumbæ og svo á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd. Árið 1941 fluttu þau til Sæmundar sonar síns að Bessastöðum í Sæmundarhlíð. Soffía lést árið 1960 og eftir dauða hennar orti Jón kvæðið um Ekkilinn í Urtuvík.
Jóni er lýst svo: ,,Jón er prýðilega greindur maður, gjörhugull og víðlesinn. Hann er algjörlega sjálfmenntaður. Lítið hefur farið fyrir honum á veraldar-vettvangi, því að hann er maður hlédrægur og óhlutdeilinn og flíkar ógjarnan sínum innra manni. Fíngert og ljóðrænt eðli hans birtist einkanlega fáum og völdum vinum, - og í stökum hans og kvæðum, sem orðið hafa til á stopulum tómstundum fátæks bónda."

Jón virðist hafa byrjað ungur að yrkja en það virðist hafa verið honum mikil hvatning að hitta Stephan G. Stephansson árið 1917 og fá tækifæri til þess að yrkja til hans. Stephan heillaðist mjög að kveðskapi Jóns og heimsótti hann í Holtskot þar sem þeir ræddu lengi um kveðskap. Jafnframt var Jóni vel til vina við Stefán frá Hvítadal og Friðrik Hansen og hvöttu þeir hann mjög til að virkja skáldskapargáfu sína. Jón lést árið 1965 þá 79 ára gamall.