Showing 69 results

Authority record
Akureyri

Anna Cathrine Schiöth (1846-1921)

 • S01231
 • Person
 • 10. apríl 1846 - 27. apríl 1921

Fædd í Kaupmannahöfn 10. apríl 1846. Anna fluttist til Íslands 1868. Hún lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn veturinn 1877-1878. Rak ljósmyndastofu í nafni eiginmanns síns (H. Schiöth) á Akureyri á sumrin 1878-1899. Arnór Egilsson keypti ljósmyndastofuna 1899.
Maki: Peter Frederik Hendrik Schiöth bakarameistari, síðar póstmeistari (1841-1923), þau eignuðust fimm börn.

Anna Helgadóttir (1905-1974)

 • S00885
 • Person
 • 2. júní 1905 - 28. júní 1974

Dóttir Helga Guðnasonar á Kirkjuhóli og f.k.h. Sigurbjargar Jónsdóttur. Búsett á Akureyri.

Anna Helgadóttir (1936-

 • S01708
 • Person
 • 13. jan. 1936

Dóttir Helga Ólafssonar kennara á Sauðárkróki og Akureyri og k.h. Valýar Þorbjargar Ágústsdóttur. Búsett á Akranesi, gift Pétri Baldurssyni, fyrrv. flutningastjóra.

Anna Sveinsdóttir (1894-1990)

 • S01541
 • Person
 • 28. apríl 1894 - 4. okt. 1990

Foreldrar: Sveinn Eiríksson b. á Skatastöðum og k.h. Þorbjörg Bjarnadóttir. Anna fór fimm ára gömul í fóstur að Bústöðum í Austurdal. Ung stúlka fór hún í kaupavinnu austur að Eiríksstöðum á Jökuldal þar sem hún kynntist mannsefni sínu, Sigurjóni Jónssyni presti. Þau bjuggu að Barði í Fljótum 1917-1920 og í Kirkjubæ í Hróarstungu 1920-1945 er þau slitu samvistum. Það sama ár flutti Anna til Akureyrar ásamt yngstu börnum sínum. Síðast búsett í Reykjavík. Anna og Sigurjón eignuðust sex börn.

Aðalbjörg Friðvinsdóttir (1887-1967)

 • S01605
 • Person
 • 27. okt. 1887 - 29. sept. 1967

Dóttir Friðvins Ásgrímssonar b. á Reykjum á Reykjaströnd og k.h. Margrétar Jóhannsdóttur. Verkakona á Siglufirði og Akureyri.

Bjarni Jónsson (1872-1948)

 • S01175
 • Person
 • 24. maí 1872 - 13. nóv. 1948

,,Lögfræðingur og bankastjóri á Akureyri. Útibúsbankastjóri á Akureyri 1930. Var í Reykjavík 1945. Sigldi til Kaupmannahafnar 1898 til náms við Kaupmannahafnarháskóla. Lauk embættisprófi í lögfræði 1906 og kom þá heim. Bjarni helgaði sig fræðistörfum á efri árum og vann að æviskrám íslenskra Hafnarstúdenta."

Björn Björnsson (1912-1981)

 • S01371
 • Person
 • 07.05.1912-09.10.1981

Foreldrar: Björn Guðmundsson og Sigríður Ágústa Jónsdóttir. Björn ólst upp hjá foreldrum sínum í Fremri-Gufudal en eftir að móðir hans dó fluttist faðir hans til Hnífsdals og þaðan til Siglufjarðar. Björn varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1936 og lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1940. Prestur í Viðvíkurprestakalli sama ár. Sat á Vatnsleysu sem var prestsetur til 1952 en síðar á Hólum í Hjaltadal. Var prófastur í Skagafirði frá 1959-1976. Sinnti einnig aukaþjónustu í ýmsum sóknum í héraðinu austanverðu. Fékkst einnig við kennslu og var prófdómari. Sinnti ýmsum trúnaðarstörfum í héraðinu. Lét af prestskap árið 1976 sökum heilsuleysis. Bjó á Reykjavík síðustu æviárin.
Maki: Emma Ásta Sigurlaug Friðriksdóttir Hansen frá Sauðárkróki, þau eignuðust þrjú börn.

Björn Guðmundsson (1911-1979)

 • S01350
 • Person
 • 28.05.1911-20.06.1979

Foreldrar: Guðmundur Guðmundsson b. og smiður á Reykjarhóli í Seyluhreppi og k.h. Stefanía Guðrún Guðmundsdóttir. Bifreiðastjóri á Sauðárkróki, lögregluþjónn á Akureyri og síðar framfærslu- og heilbrigðisfulltrúi þar. Fyrri kona: Ingibjörg Þorvaldsdóttir frá Sauðárkróki, þau skildu. Seinni kona: Ragnheiður Brynjólfsdóttir.

Björn Símonarson (1853-1914)

 • S01699
 • Person
 • 26. apríl 1853 - 27. des. 1914

Gullsmiður og úrsmiður á Akureyri og Sauðárkróki 1890. Húsbóndi í Reykjavík 1910. Átti Björnsbakarí við Vallarstræti sem eftir honum er nefnt.

Emilie Antonette Popp (1845-1931)

 • S01160
 • Person
 • 6. apríl 1845 - 1931

Fædd í Kaupmannahöfn. Kvæntist Ludvig Popp kaupmanni. Þau bjuggu á Akureyri fyrstu ár sín í hjónabandi, fluttu svo til Kaupmannahafnar og svo aftur til Íslands og bjuggu á Sauðárkróki 1885-1893, þau eignuðust þrjú börn.

Frederik Ludvig Popp (1831-1893)

 • S01161
 • Person
 • 28. feb. 1831 - 10. mars 1893

Fæddur í Kaupmannahöfn. Mun fyrst hafa komið hingað sem verslunarþjónn og verið við verslanir á Vestdalseyri við Seyðisfjörð og á Eskifirði á árunum 1858-1859. Árið 1866 hóf hann eigin verslun á Akureyri. Fljótlega hóf hann sumarverslun við Skagafjörð, fyrst á Hofsósi og einkum með hesta. Árið 1874 keypti hann verslunarhús Halls Ásgrímssonar Grænlandsfara á Sauðárkróki og hóf verslun þar en bjó þó í Kaupmannahöfn. Hann hafði verslunarstjóra á Sauðárkróki uns hann flutti þangað sjálfur með fjölskylduna árið 1885 og tók við verslunarstjórn. Varð verslun hans brátt önnur stærsta verslunin við Skagafjörð næst Gránufélagsversluninni og voru útibú á Hofsósi og Kolkuósi. Heimili þeirra hjóna á Sauðárkróki varð fljótlega helsta miðstöð alls menningarlífs á Sauðárkróki. Popp var mjög listelskur maður og lagði nokkra stunda á málarlist og málaði t.d. leiktjöld fyrir leiksýningar og studdi ásamt konu sinni mjög að allri leikstarfsemi á Sauðárkróki. Eitt helsta áhugamál hans var bygging Sauðárkrókskirkju en hann gaf 200 kr. til byggingarinnar og tvær töflur fyrir sálmanúmer, er hann útbjó sjálfur að nokkru. Eftir lát hans gaf ekkjan fagra altaristöflu til kirkjunnar í minningu hans.
Kvæntist Emilie Antonette Popp, þau eignuðust þrjú börn.

Gissur Ísleifur Helgason (1942-

 • S01710
 • Person
 • 23. mars 1942

Foreldrar Ólafs Hauks voru Helgi Ólafsson kennari á Sauðárkróki og Akureyri, síðar búsettur í Reykjavík, og k.h. Valý Þ.Á. Ágústsdóttir. Framkvæmdastjóri í Kaupmannahöfn, kvæntur Benediktu Atterdag Helgason.

Gunnsteinn Sigurður Steinsson (1915-2000)

 • S01673
 • Person
 • 10. jan. 1915 - 19. des. 2000

Gunnsteinn Sigurður Steinsson fæddist á Hrauni á Skaga 10. janúar 1915. Foreldrar hans voru hjónin Steinn Leó Sveinsson bóndi og hreppstjóri á Hrauni á Skaga k.h. og Guðrún Sigríður Kristmundsdóttir. ,,Gunnsteinn lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1936. Hann var búsettur á Hrauni til 1953 og stundaði á þeim tíma aðallega sjómennsku og smíðar. Gunnsteinn var bóndi í Ketu á Skaga 1953-1974 en fluttist þá ásamt konu sinni til Sauðárkróks. Stundaði hann þar störf í skinnaverkuninni Loðskinni hf. auk þess sem hann var um árabil umboðsmaður skattstjóra á Sauðárkróki. Gunnsteinn starfaði mikið að félagsmálum og var m.a. hreppstjóri og sýslunefndarmaður fyrir Skefilsstaðahrepp um árabil auk þess að gegna fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína." Gunnsteinn kvæntist árið 1945 Guðbjörgu Hólmfríði Guðmundsdóttur, þau eignuðust tvær dætur.

Guðlaugur Helgason (1934-

 • S01707
 • Person
 • 24.01.1934-

Foreldrar: Helgi Ólafsson kennari á Sauðárkróki og Akureyri, síðar búsettur í Reykjavík, og k.h. Valý Þ.Á. Ágústsdóttir. Flugstjóri. Kvæntist Ernu Kristinsdóttur sjúkraliða.

Guðmundur Stefánsson (1919-2005)

 • S01727
 • Person
 • 16. mars 1919 - 31. okt. 2005

Foreldrar: Stefán Guðmundsson, bóndi á Hrafnhóli í Hjaltadal og Sigurlína Þórðardóttir húsmóðir á Hrafnhóli. ,,Guðmundur fæddist í Hjaltadal og ólst upp á Hrafnhóli. Hann tók við búi foreldra sinna. Auk bústarfa gegndi hann fjölmörgum störfum, var m.a. oddviti Hólahrepps, meðhjálpari í Hóladómkirkju, sláturhússtjóri á Sauðárkróki. Eftir að hann hætti búskap og flutti til Akureyrar starfaði hann m.a. sem verkstjóri og gjaldkeri fyrir Félag eldriborgara, auk margra annarra nefnda- og trúnaðarstarfa. Hann starfaði mikið fyrir Lionshreyfinguna og Sjálfstæðisflokkinn. Á yngri árum keppti Guðmundur í mörgum íþróttagreinum og vann til margra verðlauna. Talsvert hefur verið birt af ljóðum og vísum eftir hann í blöðum og tímaritum. Kvæntist Fjólu Ísfeld Kristjánsdóttur, þau eignuðust sex börn.

Guðrún Stefánsdóttir (1917-1995)

 • S01525
 • Person
 • 14. des. 1917 - 28. ágúst 1995

Foreldrar hennar voru Sigrún Haraldsdóttir húsmóðir frá Hjalteyri og Stefán Stefánsson frá Sauðárkróki, kaupmaður á Akureyri. Guðrún lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri, og var einnig við nám í dönskum kvennaskóla. Kvæntist Jörundi Pálssyni arkitekt frá Hrísey, þau eignuðust tvö börn.

Guðrún Ólöf Guðmundsdóttir (1926-2015)

 • S01504
 • Person
 • 28. sept. 1926 - 6. jan. 2015

Foreldrar Guðrúnar voru Jóna Kristín Guðmundsdóttir og Guðmundur Benediktsson. Eiginmaður Guðrúnar var Kristinn Jónasson, þau eignuðust tvö börn. Guðrún og Kristinn bjuggu í Tungu og á Knappsstöðum í Stíflu til ársins 1974 að þau fluttu til Akureyrar, þar unnu bæði í verksmiðjum Sambandsins á Gleráreyrum.

Gísli Halldórsson Kolbeins (1926-2017)

 • S01526
 • Person
 • 30. maí 1926 - 10. júní 2017

Gísli fæddist í Flatey á Breiðafirði 30. maí 1926. ,,Hann stundaði nám í foreldrahúsum, tók stúdentspróf frá MA 1947, lauk guðfræðinámi frá HÍ 1950, stundaði framhaldsnám í guðfræði við Háskólann í Göttingen í Þýskalandi 1959-60, stundaði rannsóknir í kirkjusögu í Lundúnum, Lúxemborg, Bremen og Kaupmannahöfn 1981-82 og var í endurmenntun og guðfræðitengdu rannsóknarnámi í York í níu mánaða leyfi 1981-82. Gísli varð sóknarprestur í Sauðlauksdal 1950. Hann starfaði þar 1950-54 og gegndi aukaþjónustu í Eyraprestakalli og í Vestmannaeyjum. Hann var sóknarprestur á Melstað í Vestur-Húnavatnssýslu 1954-77 og í Stykkishólmi 1977-92. Auk þess gegndi hann aukaþjónustu á Melstað og í Setbergsprestakalli. Eftir að hann lauk skipaðri prestþjónustu sinnti hann prestþjónustu á Kolfreyjustað 1992, á Sauðárkróki, í Bolungarvík, í Staðastaðaprestakalli 1995-96, í Skagastrandarprestakalli 1998, Bólstaðahlíðarprestakalli 1998, í Vestmannaeyjum 1998, á Hrafnistu í Hafnarfirði 1998-99, á Kolfreyjustað 2000-2001, í Hofsóss- og Hólaprestakalli 2001-2003 og í Skagastrandarprestakalli 2004. Gísli starfaði í góðtemplarareglunni um árabil, sat í stjórn Ungmennafélagsins Grettis í Miðfirði, var formaður Ungmennasambands Vestur-Húnavatnssýslu 1956-60, sat í barnaverndarnefnd Ytri-Torfustaðahrepps 1954-76, í stjórn Veiðifélags Miðfjarðarár í 20 ár, í skólanefnd Reykjaskóla, í stjórn Byggðasafnsins á Reykjum í 20 ár, var prófdómari í barnaskólum í Vestur-Húnavatnssýslu í 23 ár, formaður og ritari Lionsklúbbsins Bjarma á Hvammstanga, sat í barnaverndarnefnd Stykkishólms, í stjórn Byggðasafns Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, var ritari Lionsklúbbs Stykkishólms, sat í fulltrúaráði Prestafélags Íslands og var formaður Hallgrímsdeildar Prestafélags Íslands. Gísli þýddi ritið Könnuður í fimm heimsálfum, var ritstjóri ýmissa tímarita og ársrita og samdi Skáld-Rósu og síðan Skáldung, um námsár Nóbelsskáldsins hjá sr. Halldóri, föður Gísla."
Gísli kvæntist Sigríði Ingibjörgu Bjarnadóttur Kolbeins frá Brekkubæ í Nesjum, þau eignuðust fimm börn.

Halldór Gottskálk Jóhannsson (1871-1942)

 • S03037
 • Person
 • 25.11.1871-09.06.1942

Halldór Gottskálk Jóhannsson, f. að Rein í Hegranesi 25.11.1871, d. 09.06.1942 á Akureyri. Foreldrar: Jóhann Þorvaldsson, bóndi að Rein og víðar og kona hans Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Finnstungu. Þau slitu samvistir þegar hann var ársgamall.
Halldór var um árabil vinnumaður hjá Agli bónda á Merkigili. Hann var bóndi á hluta Gilsbakka 1896-1897, Egilsá 1899-1901, Löngumýri 1901-1904, Vöglum 1904-1912 (eignaðist þá jörð), Vaglagerði 1912-1920. Þaðan fluttist hann að Bakkaseli í Öxnadal og bjó þar í 6 ár. Þar stunduðu þau hjónin m.a. greiðasölu. Þá hættu þau hjónin búskap og dvöldust eftir þar á Akureyri í skjóli barna sinna til æviloka.
Maki: Jónína Jónsdóttir (1880-1958) frá Krókssstöðum.
Þau eignðust níu börn. Fyrir átti Halldór soninn Jóhann Skagfjörð. Barnsmóðir hans var Björg Steinsdóttir, þá vinnukona á Stóru-Seylu.

Halldóra Helgadóttir (1932-2005)

 • S01706
 • Person
 • 15. apríl 1932 - 7. feb. 2005

Halldóra Helgadóttir fæddist á Akureyri 15. apríl 1932, dóttir Helga Ólafssonar kennara á Sauðárkróki og Akureyri og k.h. Valýar Þorbjargar Ágústsdóttur. ,,Halldóra var gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri, hjúkrunarnemi, síðar sjúkraliði á Landakoti um árabil." Halldóra giftist Friðrik Sigurbjörnssyni lögfræðingi, þau eignuðust þrjú börn.

Hallur Pálsson (1898-1979)

 • S01781
 • Person
 • 18. mars 1898 - 23. ágúst 1979

Foreldrar: Páll Pálsson lengst af b. í Garði í Hegranesi og k.h. Steinunn Hallsdóttir. Hallur fluttist með foreldrum sínum í Framnes vorið 1920 þar sem hann kynntist konuefni sínu, Kristínu Sigtryggsdóttur. Þau hófu búskap á hluta Framness 1922 og bjuggu þar í tvö ár. Þaðan fóru þau í Brimnes þar sem þau virðast hafa dvalið í tvö ár. Árið 1926 festu þau kaup á hluta Garðs í Hegranesi þar sem þau bjuggu til 1937 er þau fluttu til Akureyrar. Á Akureyri starfaði Hallur í Skinnaverksmiðjunni. Vorið 1946 fluttu þau suður til Reykjavíkur þar sem Hallur fékk starf sem fangavörður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Árið 1955 hóf hann störf sem verkstjóri hjá Trésmiðjunni Víði og starfaði þar í tíu ár. Hallur og Kristín eignuðust ekki börn en tóku tvö fósturbörn.

Haraldur Ingvar Jónsson (1904-1969)

 • S01361
 • Person
 • 21. jan. 1904 - 13. okt. 1969

Foreldrar: Jón Þorsteinsson verkstjóri á Sauðárkróki og k.h. Jóhanna Gísladóttir frá Hvammi í Laxárdal.
Smiður á Akureyri, kvæntist Helgu Magnúsdóttur.

Helgi Rafn Traustason (1937-1981)

 • S01655
 • Person
 • 18. apríl 1937 - 21. des. 1981

Helgi Rafn Traustason fæddist á Patreksfirði 18. apríl 1937. Foreldrar hans voru Trausti Jóelsson og kona hans Rannveig Jónsdóttir.
Helgi Rafn stundaði nám í gagnfræðaskólanum í Reykjavík, á Laugarvatni og Akureyri. Hann lauk gagnfræðaprófi með ágætum frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Veturinn 1954-1955 nam hann við Samvinnuskólann í Reykjavík og lauk hann prófi úr þeim skóla árið 1955. Sama ár flutti skólinn að Bifröst í Borgarfirði. Hann vann við hreingerningar í Samvinnuskólanum er hann var við nám þar og hóf störf hjá Samvinnutryggingum mánuði áður en hann lauk þar námi. Þá vann hann nokkur sumur hjá Kaupfélagi Patreksfjarðar og í fjármáladeild Sambandsins sumarið 1954. Hann var aðalbókari hjá Samvinnutryggingum 1955-1960, kaupfélagsstjóri Samvinnufélags Fljótamanna 1960-1963, fulltrúi kaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga 1963-1972 og kaupfélagsstjóri KS 1972-1981. Búsettur á Sauðárkróki.
Kona hans: Inga Valdís Tómasdóttir (1937-). Þau kvæntust árið 1957.

Hulda Vilhjálmsdóttir (1943-

 • S01523
 • Person
 • 20.12.1943-

Dóttir Vilhjálms Hallgrímssonar trésmíðameistara á Sauðárkróki og k.h. Heiðbjartar Óskarsdóttur. Gagnfræðingur frá Akureyri 1960. Fór eftir það í húsmæðraskóla í Vejle í Danmörku og lauk prófi þaðan vorið 1962. Stundaði síðan skrifstofustörf í Kaupmannahöfn í níu mánuði. Var við símavörslu á Sauðárkróki um tíma en flutti til Akureyrar árið 1964 og vann þar á Landsímastöðinni um tíma. Kvæntist Þórarni Blómkvist Jónssyni.

Hálfdan Helgason (1937-

 • S01709
 • Person
 • 24. nóv. 1937

Foreldrar Hálfdánar voru Helgi Ólafsson kennari á Sauðárkróki og Akureyri, síðar búsettur í Reykjavík, og k.h. Valý Þ.Á. Ágústsdóttir. Kennari, búsettur í Reykjavík, kvæntist Hjördísi Magnúsdóttur kennara.

Ingibjörg Alda Bjarnadóttir (1929-2009)

 • S01807
 • Person
 • 2. maí 1929 - 1. ágúst 2009

Ingibjörg Alda Bjarnadóttir fæddist á Sauðárkróki 2. maí 1929. Hún var dóttir hjónanna Helgu Pétursdóttur saumakonu og Bjarna Antons Sigurðssonar sjómanns. ,,Eftir að Alda missti föður sinn ung að árum, fluttist móðir hennar frá Sauðárkróki til Akureyrar. Alda þurfti að hætta skólagöngu í Menntaskólanum á Akureyri sökum þess að hún fékk berkla. Árið 1954 fór hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og kláraði próf þaðan árið 1955. Árið 1952 giftist Alda Stefáni Skaftasyni lækni frá Siglufirði, þau skildu, þau eignuðust eina dóttur. Alda og Stefán bjuggu bæði í Þýskalandi og Svíþjóð en eftir að þau skildu fluttist hún aftur til Akureyrar. Á Akureyri kynntist hún síðari manni sínum, Magnúsi, þar sem hann starfaði sem bæjarstjóri, þau eignuðust tvær dætur. Bjuggu þau hjónin á Akureyri til ársins 1967 en fluttu þá suður. Alda og Magnús fluttu í Kópavoginn og bjuggu þar allt fram á dánardag Magnúsar. Síðast búsett í Keflavík.

Ingibjörg Björnsdóttir (1896-1997)

 • S01701
 • Person
 • 21. okt. 1896 - 2. sept. 1997

Foreldrar: Björn Benónýsson b. á Illugastöðum í Laxárdal og k.h. Ingibjörg Stefánsdóttir. Tveggja ára gömul fór Ingibjörg í fóstur til Sigríðar föðursystur sinnar og manns hennar Magnúsar Hjálmarssonar að Bjarnastöðum í Blönduhlíð. Árið 1907 fluttust þau hjón með Ingibjörgu að Illugastöðum í Laxárdal til Björns föður hennar. Þar voru þau eitt ár, en fluttust síðan til árs búskapar að Ingveldarstöðum ytri á Reykjaströnd og árið 1909 fóru þau til Sauðárkróks og settust að í húsinu Brimgarði. Ingibjörg fermdist árið 1911, og sama árið fór hún vinnukona að Hólkoti á Reykjaströnd. Árið 1912 fór hún frá Hólkoti að Bakka í Vallhólmi, þar sem kynntist mannsefni sínu, Agli Gottskálkssyni. Þau bjuggu á Hvammkoti á Skaga 1917-1921, á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd 1921-1926, í Hjaltastaðakoti 1926-1935, á Mið-Grund 1935-1968. Síðast búsett á Akureyri. Ingibjörg lést 101 árs gömul.
Ingibjörg og Egill eignuðust átta börn.

Ingibjörg Jónsdóttir (1908-2001)

 • S01489
 • Person
 • 5. apríl 1908 - 11. ágúst 2001

Ingibjörg er fædd á Bólu í Blönduhlíð, dóttir Jóns Ingimars Jónassonar og k.h. Oddnýjar Stefánsdóttur. Ingibjörg ólst upp í Bólu en fór til Akureyrar 1922 þar sem hún var m.a. í vistum. Hún fór í Kvennaskólann í R.vík og lauk þar námi. Árið 1930 flutti hún til Siglufjarðar þar sem hún setti upp matsölu og rak hana að sumrinu. Þá rak hún einnig saumastofu á Siglufirði og saumaði skinnhúfur, skinnhanska, lúffur og vinnuvettlinga. Þessa framleiðslu seldi hún víða um land. Ingibjörg tók mikinn þátt í félagslífi á Siglufirði. Auk þess að syngja með Kirkjukór Siglufjarðar starfaði hún með kvenfélaginu þar og eitthvað með leikfélagi Siglufjarðar. Árið 1945 flutti hún ásamt manni sínum, Pétri Helgasyni, til Sauðárkróks, þar sem þau tóku fyrst við rekstri Hótel Tindastóls og síðar Villa Nova. Eftir að þau hættu rekstri Hótel Tindastóls, setti Ingibjörg þar upp hannyrðaverslun í félagi við Sigríði Önnu Stefánsdóttur og ráku þær hana þar til 1970, að Ingibjörg opnaði verslun að Hólavegi 16 sem hún rak meðan heilsa leyfði. Vefnaðarvöruverslun hennar var vinsæl og þekkt fyrir góða og vandaða vöru. Hún gekk til liðs við Kirkjukór Sauðárkróks og söng þar meðan heilsa leyfði. Einnig var hún virk í starfi Kvenfélags Sauðárkróks og var gerð að heiðursfélaga á 90 ára afmæli félagsins árið 1985.
Ingibjörg og Pétur eignuðust einn son saman og tóku einn fósturson, fyrir hjónaband hafði Pétur eignast dóttur.

Jóhanna Freyja Jónsdóttir (1922-2016)

 • S01769
 • Person
 • 26. júní 1922 - 30. sept. 2016

Jóhanna Freyja Jónsdóttir fæddist 26. júní 1922 í Réttarholti, Skagafirði. Foreldrar hennar voru Sigríður Rögnvaldsdóttir og Jón Sigurðsson. ,,Jóhanna lauk barna- og gagnfræðaskólanámi í Skagafirði og stundaði nám við Húsmæðraskólann að Staðarfelli veturinn 1941 til 1942. Jóhanna var húsmóðir í Réttarholti og stundaði þar bústörf með fjölskyldu sinni. Seinna starfaði hún í nokkra vetur í mötuneyti Þelamerkurskóla. Árið 2006 fluttist hún til Akureyrar og var síðast búsett þar." Jóhanna giftist Gísla Sigurjóni Kristjánssyni, þau eignuðust þrjú börn.

Jóhanna Álfheiður Bergsdóttir (1883-1963)

 • S01757
 • Person
 • 10. okt. 1883 - 7. júlí 1967

Foreldrar: Bergur Hallsson b. á Skálafelli í Suðursveit og k.h. Sigríðar Jónsdóttur. Kvæntist Haraldi Sigurðssyni ættuðum úr Öxnadal, þau hófu búskap á Bessahlöðum í Öxnadal en fluttu að Tyrfingsstöðum á Kjálka 1911. Jóhanna var vinnukona á Silfrastöðum 1912-1913, sennilega með manni sínum í vinnumennsku í Flatatungu á Kjálka 1913-1922, bjó á Fossi í Blönduhlíð 1922-1923, vinnukona á Vöglum í Blönduhlíð 1924-1925 og húskona í Flatatungu 1925-1926. Líklega í Flatatungu 1926-1930, í Gloppu í Öxnadal 1931-1935. Fóru þaðan að Fagranesi í Öxnadal til 1939 er þau fluttu til Akureyrar þar sem þau bjuggu til 1943. Það sama ár fluttu þau til Sauðárkróks og bjuggu þar síðan. Á efri árum sínum á Sauðárkróki hafði hún þann starfa að gæta kúa bæjarbúa. Jóhanna var römm að afli, verkhög, nærfærin við sjúka og lagin við að taka á móti börnum. Jóhanna og Haraldur eignuðust fjögur börn saman, fyrir átti Jóhanna dóttur.

Jón Hafsteinn Jónsson (1928-2018)

 • S01639
 • Person
 • 22. mars 1928 - 17. okt. 2018

Dóttir Jóns Jónssonar b. á Gýgjarhóli og k.h. Sigurbjargar Jónsdóttur. Menntaskólakennari á Akureyri 1953-1986, eftir það búsettur í Reykjavík. Stúdent frá MA 1948. Cand. mag. frá Kaupmannahafnarháskóla 1953 með stærðfræði sem aðalnámsgrein. Hann hlaut sérstaka viðurkenningu frá Hafnarháskóla fyrir prófritgerð sína. Kvæntist Soffíu Emilíu Guðmundsdóttir tónlistarkennara.

Jón Pétursson (1867-1946)

 • S02820
 • Person
 • 03.07.1867-07.02.1946

Jón Pétursson, f. í Valadal 03.07.1867, d. 07.02.1946 á Hofi á Höfðaströnd. Foreldrar: Pétur Pálmason bóndi í Valadal og síðar á Álfgeirsvöllum og kona hans Jórunn Hannesdóttir frá Hömrum.
Jón var bóndi í Sölvanesi 1889-1890, á Löngumýri 1890-1891, í Valadal 1891-1897, á Nautabúi 1897-1912, í Eyhildarholti 1912-1923, Neðri Haganesvík og Dæli í Fljótum 1926-1930 en fluttist þá til Akureyrar.
Jón var landskunnur hagyrðingur og einn af þekktustu hestamönnum í Skagafirði á sínum tíma.
Maki: Sólveig Eggertsdóttir (1869-19446).
Þau eignuðustu 13 börn og dó eitt þeirra ungt.

Jón Þorsteinsson (1924-1994)

 • S01550
 • Person
 • 21. feb. 1924 - 18. sept. 1994

Var á Akureyri 1930. Lögfræðingur og alþingismaður, síðast búsettur á Seltjarnarnesi.

Jóna Kristín Guðmundsdóttir (1899-2003)

 • S01507
 • Person
 • 29. des. 1899 - 19. des. 2003

Jóna Kristín Guðmundsdóttir fæddist í Minni-Brekku í Fljótum, dóttir Guðmundar Stefánssonar b. og skálds í Minni-Brekku og k.h. Ólafar Pétursdóttur. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum á Minni-Brekku og vann á búi þeirra til fullorðinsára. Hún lærði fatasaum á Sauðárkróki. Maður hennar var Guðmundur Benediktsson (1893-1970) bóndi og sjómaður, þau bjuggu lengst af á Berghyl í Fljótum (frá 1927). Hún var hagleikskona, saumaði í dúka og vann ýmsa handavinnu. Hún var hagorð og hafði yndi af skáldskap. Er Guðmundur lést árið 1970, bjó Jóna áfram á Berghyl með nokkrar kindur. Árið 1979 fluttist hún Akureyrar til Guðrúnar dóttur sinnar. Hún var hjá henni á veturna en á Berghyl á sumrin. Árið 1990 flutti hún á öldrunarheimilið á Sauðárkróki og bjó þar til æviloka. Jóna náði 104 ára aldri. Jóna og Guðmundur eignuðust þrjú börn og tóku einn fósturson.

Jónas Bjarnason (1926-2003)

 • S01804
 • Person
 • 26. mars 1926 - 19. okt. 2003

Jónas Bjarnason fæddist á Uppsölum í Blönduhlíð í Skagafirði 26. mars 1926. Foreldrar hans voru hjónin á Uppsölum, Sigurlaug Jónasdóttir og Bjarni Halldórsson. ,,Jónas ólst upp á Uppsölum við hefðbundin sveitastörf og stundaði vegavinnu á sumrin. Fór síðan til Akureyrar og nam rennismíði í Vélsmiðjunni Atla, lauk sveinsprófi 1949 og hlaut meistararéttindi 1952. Jónas starfaði við rennismíðar allan sinn starfsferil og um rúmlega hálfrar aldar skeið átti hann og rak Járnsmiðjuna Varma á Akureyri, lengst af í félagi við Ívar Ólafsson. Jónas var frá unga aldri stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og á tímabili virkur í starfi flokksins á Akureyri. Þá var hann lengi félagi í Karlakór Akureyrar. Hin síðari ár var hann ötull félagsmaður Oddfellowreglunnar." Jónas kvæntist 25. desember 1954 Rakel Grímsdóttur sjúkraliða, f. í Örlygshöfn við Patreksfjörð, þau eignuðust þrjú börn.

Jónas Sveinsson (1873-1954)

 • S01630
 • Person
 • 4. des. 1873 - 29. mars 1954

Foreldrar: Sveinn Kristjánsson b. í Litladal og k.h. Hallgerður Magnúsdóttir. Jónas ólst upp í Litladal með foreldrum sínum fram til tólf ára aldurs en þá voru þau bæði látin. Var í vist að Eyjólfsstöðum í Vatnsdal, á Grenjaðarstað, að Öndólfsstöðum í Reykjadal og Múla í Aðaldal. Lauk námi frá Möðruvallaskóla árið 1893. Veturinn 1894-1895 var hann í Höfnum á Skaga og kynntist þar konuefni sínu. Ári síðar kvæntist hann fyrri konu sinni, Björg Björnsdóttir frá Harrastaðakoti á Skagaströnd, fyrsta hjúskaparár sitt bjuggu þau þar. 1897-1898 bjuggu þau í Háagerði á Skagaströnd. Sumarið 1898 fluttu þau til Sauðárkróks þar sem þau bjuggu til 1911. Þegar þau bjuggu á Sauðárkróki sat Jónas í hreppsnefnd Sauðárhrepps frá 1904-1911, þar af oddviti 1904-1907. Jónas var einnig deildarstjóri í Sauðárkróksdeild kaupfélagsins og fékk umsjón með uppskipun og útskipun á vörum kaupfélagsins. Árið 1911 fluttu þau vestur í Þverárdal í Laxárdal þar sem þau bjuggu í eitt ár. Árið 1912 fluttu þau að Uppsölum í Blönduhlíð þar sem þau bjuggu til 1919 er þau fluttu til Akureyrar. Á Akureyri stundaði Jónas ýmsa vinnu, starfaði hjá klæðaverksmiðjunni Gefjunni, seldi bækur og fór í hrossasöluferðir. 1920-1925 var hann bókavörður við Amtbókasafnið á Akureyri. Jónas og Björg Björnsdóttir fyrri kona hans eignuðust eina dóttur og tóku tvö fósturbörn. Björg lést árið 1934. Seinni kona Jónasar var Ingibjörg Valgerður Hallgrímsdóttir frá Úlfsstaðakoti, þau eignuðust fjögur börn saman.

Jórunn Einarsdóttir Norðmann (1871-1961)

 • S01297
 • Person
 • 16.05.1871-11.09.1961

Foreldrar: Einar Guðmundsson hreppstjóri og alþingismaður að Hraunum í Fljótum og 1.k.h. Kristín Pálsdóttir frá Viðvík. Hún missti móður sína átta ára gömul en þremur árum síðar gifist faðir hennar Jóhönnu Jónsdóttur sem annaðist uppeldi barnanna síðan.
Maki: Jón Norðmann Jónsson frá Barði í Fljótum.
Árið 1908 missti hún eiginmann sinn og áttu þau þá sjö ung börn. Vorið 1909 flutti hún með barnahópinn sinn til Reykjavíkur. Tvö barnanna létust ung, en þó komin á fullorðinsaldur. Eftir að börnin stofnuðu heimili var hún hjá þeim til skiptis. Síðustu árin var hún mest hjá Katrínu dóttur sinni og Jóni Sigurðssyni, eiginmanni hennar. Jórunn var söngelsk mjög og mikil tónlist á heimili hennar.

Kolbeinn Kristinsson (1895-1983)

 • S01737
 • Person
 • 7. júlí 1895 - 15. ágúst 1983

Kolbeinn Kristinsson, f. á Þúfum í Óslandshlíð en fluttist ásamt foreldrum sínum að Skriðulandi í Kolbeinsdal 1897. Foreldrar: Kristinn Sigurðsson (1863-1943) og Hallfríður Jónsdóttir (1858-1951). Kolbeinn tók fyrst við parti af búinu á Skriðulandi en svo allri jörðinni þegar faðir hans lést 1943. Kolbein bjó í 3 ár á Hofi en fluttist aftur að Skriðulandi. Hann fór þaðan alfarinn árið 1955. Þá flutti hann til Akureyrar og vann á fjórðungssjúkrahúsinu við skrifstofustörf og sem gjaldkeri. Frá Akureyri flutti hann til Sauðárkróks og bjó í tvö ár þar og vann við skipaafgreiðslu hjá Kaupfélaginu. Loks flutti hann til Reykjavíkur þar sem hann fékk ígripavinnu hjá Finni Sigmundssyni á Þjóðskjalasafninu.
Maki: Kristín Guðmundsdóttir (1898-1981). Þau eignuðust tvær dætur.

Kristján Eiríksson (1945-

 • S02428
 • Person
 • 19. nóv. 1945-

Kristján fæddist á Fagranesi á Reykjaströnd í Skagafirði árið 1945. Hann lauk stúndentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri, BA - prófi og cand. mag.prófi í íslenskum bókmenntum frá H.Í. Kristján kenndi lengi við Menntaskólann á Laugarvatni. Var lektor í íslenskum bókmenntum í Björgvin í Noregi, einnig kenndi hann við KHÍ. Kristján hefur starfað við Árnastofnun frá árinu 1999. Eiginkona hans er Sigurborg Hilmarsdóttir. Þau eiga þrjú börn.

Kristján Kristjánsson (1806-1882)

 • S01748
 • Person
 • 21. sept. 1806 - 13. maí 1882

Fæddur á Þórðarstöðum í Fnjóskadal 21. september 1806, dáinn 13. maí 1882. Kristján var með stúdentspróf frá Bessastöðum 1826. Lauk lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1838.
,,Hann starfaði sem skrifari á tímabilinu 1826–1830 á Möðruvöllum hjá Grími Jónssyni amtmanni. Var starfsmaður í rentukammerinu 1833–1840. Skrifari embættismannanefndarinnar í Reykjavík 1841. Málaflutningsmaður í Reykjavík 1841–1843. Settur land- og bæjarfógeti í Reykjavík 1843–1844. Sýslumaður í Skaftafellssýslu 1844–1848, sat á Höfðabrekku. Varð 1847 jafnframt umboðsmaður Kirkjubæjar- og Þykkvabæjarklaustursjarða. Skipaður 1848 dómsmálaritari og 2. yfirdómari í landsyfirréttinum, en tók ekki við því embætti fyrr en næsta sumar. Skipaður 10. júlí 1849 land- og bæjarfógeti í Reykjavík, en gegndi jafnframt áfram embætti yfirdómara þangað til Jón Pétursson tók við því sumarið 1850. Vikið frá embætti 28. september 1851 vegna framkomu sinnar á Þjóðfundinum, en gegndi því þó fram í marsmánuð 1852. Fór þá utan og varð fulltrúi í hinni íslensku stjórnardeild í Kaupmannahöfn. Skipaður 1854 sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, sat í Hofstaðaseli. Skipaður 1860 sýslumaður í Húnavatnssýslu, sat á Geitaskarði. Skipaður 1871 amtmaður í norður- og austuramtinu, lausn 1881, sat á Möðruvöllum í Hörgárdal til 1874, er amtmannsstofan þar brann, en síðan á Akureyri."
Eiginkona: (giftust 05.06.1845): Ragnheiður Jónsdóttir Thorstensen (1824-1897) húsfreyja.

Kristmundur Bjarnason (1919-2019)

 • S01611
 • Person
 • 10. jan. 1919 - 4. des. 2019

Krist­mund­ur fædd­ist á Reykj­um í Tungu­sveit 10. janú­ar 1919. For­eldr­ar hans voru Krist­ín Sveins­dótt­ir og Bjarni Krist­munds­son en fóst­ur­for­eldr­ar voru sr. Tryggvi H. Kvar­an á Mæli­felli og Anna Gr. Kvar­an. ,,Krist­mund­ur gekk hefðbundna skóla­göngu í heima­héraði en lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um á Ak­ur­eyri árið 1940. Frá ár­inu 1949 var Krist­mund­ur bóndi á Sjáv­ar­borg og stundaði fræðimennsku og ritstörf meðfram bú­störf­um. Hann varð fyrsti héraðsskjala­vörður Skag­f­irðinga og sinnti því starfi allt til árs­ins 1990. Kristmundur skilur eft­ir sig fjölda rit­verka. Þegar á náms­ár­um sín­um fékkst hann við þýðing­ar á barna- og ung­linga­bók­um og má þar nefna bóka­flokka eft­ir Enid Blyt­on og sög­una af Stik­ils­berja-Finni eft­ir Mark Twain. Um­fangs­mesti hluti rit­starf­anna var helgaður sagn­fræði og þjóðleg­um fróðleik. Af viðamikl­um verk­um Krist­mund­ar má nefna, án upp­röðunar: Saga Þor­steins frá Skipalóni, Jón Ósmann ferjumaður, Saga Sauðár­króks til árs­ins 1947, Saga Dal­vík­ur, Sýslu­nefnda­saga Skaga­fjarðar, Svip­mynd­ir úr sögu Gríms Thomsen, Sauðár­króks­kirkja og for­mæður henn­ar, auk ótölu­legs fjölda greina í blöðum og tíma­rit­um. Síðasta stór­virki Krist­mund­ar var rit­verkið Amt­maður­inn á ein­búa­setr­inu, ævi­saga Gríms Jóns­son­ar, amt­manns á Möðru­völl­um, sem kom út á 90 ára af­mæli hans. Í til­efni 100 ára af­mæl­is Krist­mund­ar gaf Sögu­fé­lag Skag­f­irðinga út bernskuminn­ing­ar hans, Í barn­sminni - minn­ingaslit­ur frá bernsku­ár­um. Krist­mund­ur var heiðurs­fé­lagi Sögu­fé­lags Skag­f­irðinga og hlaut marg­ar viður­kenn­ing­ar fyr­ir sín störf, m.a. Viður­kenn­ingu Hagþenk­is og Sam­fé­lags­verðlaun Skaga­fjarðar." Eig­in­kona Krist­mund­ar var Hlíf Ragn­heiður Árna­dótt­ir frá Sjávarborg, þau eignuðust þrjú börn.

Kristín Albertsdóttir (1930-2009)

 • S01418
 • Person
 • 5. ágúst 1930 - 31. maí 2009

Kristín Albertsdóttir fæddist á Sauðárkróki 5. ágúst 1930. Foreldrar hennar voru hjónin Karólína Guðmann og Albert Sölvason. Kristín fluttist á Akureyri 1940 og bjó lengst af á Eiðsvallagötu 28. Hún starfaði lengi sem tannsmiður, en síðustu starfsárin við verksmiðjustörf. Sonur Kristínar og Karls Hólm Helgasonar var Albert Sölvi Karlsson.

Lárus Erlendsson (1896-1981)

 • S00389
 • Person
 • 7. október 1896 - 10. september 1981

Sonur Erlendar Eysteinssonar og Ástríðar Helgu Sigurðardóttur á Beinkeldu í Reykjabraut. Erlendur ólst upp með foreldrum sínum, fyrst á Beinkeldu og síðar á Stóru-Giljá. Fór til Vesturheims um tvítugt. Vitað er að hann lauk gagnfræðiprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1919. Lengst af búsettur í San Francisco.

Lárus Jónsson (1828-óvíst)

 • S01732
 • Person
 • 1829-óvíst

Lárus fæddist 1829. Faðir: Jón Höskuldsson (1770-1831). Móðir: Ingibjörg Einarsdóttir (1788-1872). Lárus virðist vera skráð sem tökubarn hjá Jóni Jónssyni (1776-1841) á Keldulandi, og í manntalinu 1840 er hann skráður sem fósturbarn hjá sama manni en nú á Frostastöðum. Í Skagfirskum æviskrám 1850-1890 II. bindi, bls. 167 segir að Lárust hafi verið smiður á Akureyri, ókvæntur og barnlaus. Ekki er vitað hvenær hann dó.

Margrét Marta Jóhannesdóttir (1928-2016)

 • S01775
 • Person
 • 22. ágúst 1928 - 3. feb. 2016

Margrét Marta Jóhannesdóttir fæddist á Merkigili í Skagafirði 22. ágúst 1928. Foreldrar hennar voru Monika Sigurlaug Helgadóttir frá Ánastöðum, húsfreyja á Merkigili og Jóhannes Bjarnason bóndi á Merkigili, frá Þorsteinsstöðum í Tungusveit í Skagafirði. Barnsfaðir Margrétar Mörtu var Baldur Árnason, þau eignuðust eina dóttur.
Margrét vann á nokkrum bæjum í Skagafirði við almenn heimilis- og bústörf þegar hún hafði aldur til. Hún var í Húsmæðraskólanum á Akureyri veturinn 1950-1951 og í framhaldinu vann hún hjá Gefjunni á Akureyri þar til hún eignaðist Moniku. Fyrstu árin eftir það hélt hún saumanámskeið í Skagafirði og víða um Norðurland. Hún tók einnig að sér að sauma fyrir einstaklinga. Hún kom síðan aftur í Merkigil þegar heimilisfólkinu fór að fækka og vann að búinu í nokkur ár eða til ársins 1974. Þá fluttist hún til Akureyrar ásamt dótturinni og vann þar við að sauma og við fiskvinnslu. Bjó hún þar til haustsins 1982 en þá fluttist hún suður yfir heiðar og settist að á Seltjarnarnesi og bjó þar alla tíð síðan.

Margrét Sigurðardóttir (1905-1991)

 • S01597
 • Person
 • 9. nóv. 1905 - 28. apríl 1991

Foreldrar: Sigurður Helgason, bóndi þar í Torfgarði í Seyluhreppi og Helga Magnúsdóttir, eiginkona hans. Margrét dvaldi æskuár sín í Torfgarði. Á fullorðinsárum lá leið hennar fyrst til Sauðárkróks og síðan til Akureyrar 1927. Margrét gerðist forstöðukona þvottahúss á Kristneshæli og gegndi því starfi í mörg ár. Síðan starfaði Margrét á saumastofum á Akureyri. Helga móðir hennar flutti til hennar og bjuggu þær mæðgur saman þar til Margrét giftist Birni Guðmundssyni í nóvember 1943. Eftir það dvaldi Helga á heimili þeirra allt til dauðadags. Björn starfaði við byggingarvörudeild Kaupfélags Eyfirðinga um árabil. Þau fluttu til Reykjavíkur árið 1963. Björn lést árið 1965.
Margrét og Björn eignuðust einn son, fyrir átti Björn tvö börn.

María Hólm Jóelsdóttir (1921-2018)

 • S01864
 • Person
 • 11. mars 1921 - 10. mars 2018

Frá Stóru Ökrum í Blönduhlíð, dóttir Jóels Guðmundar Jónssonar bónda á Stóru-Ökrum og k.h. Ingibjargar Sigurðardóttur. Búsett á Akureyri.

Páll Ingi Svanur Jónsson (1925-2002)

 • S01853
 • Person
 • 20. mars 1925 - 2. mars 2002

Foreldrar: Jón Jónsson b. á Steini á Reykjaströnd og k.h. Sigfríður Jóhannsdóttir. Fæddist á Daðastöðum á Reykjaströnd þar sem foreldrar hans bjuggu til 1946 er þau fluttu að Steini á Reykjaströnd. Rafvirki á Akureyri. Kvæntist Þórveigu Hallgrímsdóttur.

Páll Jakob Eggertsson Briem (1856-1904)

 • S01458
 • Person
 • 19. okt. 1856 - 17. des. 1904

Foreldrar: Eggert Briem sýslumaður á Reynistað og k.h. Ingibjörg Eiríksdóttir. Amtmaður og alþingismaður á Akureyri. Bankastjóri við Íslandsbanka.

Páll Jóhannsson (1888-1981)

 • S01033
 • Person
 • 20.08.1888-02.06.1981

Foreldrar: Ingibjörg Guðjónsdóttir vk. á Skíðastöðum, síðar búsett á Herjólfsstöðum og Jóhann Eyjólfsson vinnumaður á Skíðastöðum. Var ráðsmaður hjá móður sinni á Herjólfsstöðum en þar stóð hún fyrir búi 1902-1914. Páll giftist Ágústu Runólfsdóttur frá Sauðárkróki árið 1914. Þau bjuggu á Herjólfsstöðum 1914-1915, á Sauðárkróki 1915-1924 og á Hrafnagili í Laxárdal 1924-1925. Voru um tíma í Brennigerði áður en þau fluttu aftur til Sauðárkróks þar sem þau bjuggu þar til þau fluttu til Akureyrar árið 1940. Páll veiktist af taugaveiki nokkru fyrir miðjan þriðja áratuginn og átti lengi í þeim veikindum. Þessu fylgdu miklir erfiðleikar og þurftu þau að láta þrjú af börnum sínum frá sér á sveit og elsta dóttirin fór til ömmu sinnar á Herjólfsstöðum. Páll og Ágústa eignuðust níu börn saman en fyrir hafði Ágústa eignast tvo syni.

Páll Sigurðsson (1904-1992)

 • S01729
 • Person
 • 3. júní 1904 - 25. des. 1992

Foreldrar: María Guðmundsdóttir og Sigurður Kristjánsson. Fæddist í Háakoti í Stíflu þar sem foreldrar hans bjuggu fyrstu æviár hans, síðar fluttust þau að Lundi í Stíflu. Páll fór í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur 1927. Stundaði nám hjá Sigurði Greipssyni í Haukadal 1929­-1930 og var í glímuflokki sem sýndi á Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930. Árið 1934 gerðist hann kennari við Hólaskóla og kenndi þar íþróttir allt til ársins 1963, að vetrinum 1936­-1937 undanskildum, er hann var við nám í Íþróttaskólanum á Laugarvatni. Bóndi á Hofi í Hjaltadal 1945-1963. Formaður Ungmennasambands Skagafjarðar 1939-­1942, kenndi sund víðsvegar um Skagafjörð um langt árabil, sat í hreppsnefnd Hólahrepps og var oddviti um skeið. Flutti ásamt konu sinni til Akureyrar árið 1963 þar sem þau unnu til ársins 1983, árið 1985 lá leið þeirra aftur heim í Skagafjörðinn og settust þau þá að á Sauðárkróki. Páll vann að mikilli heimildasöfnum fyrir Sögufélag Skagfirðinga og ritaði auk þess margt á eigin vegum. Páll kvæntist Önnu Aðalbjörgu Gunnlaugsdóttur frá Víðinesi í Hjaltadal, þau eignuðust þrjú börn.

Pálína Sigurveig Jónsdóttir (1904-1968)

 • S01665
 • Person
 • 26. des. 1904 - 18. sept. 1968

Dóttir Jóns Péturssonar b. á Nautabúi í Neðribyggð og k.h. Sólveigar Eggertsdóttur. Kaupakona, fyrst á Akureyri, síðar í Reykjavík. Ókvænt.

Runólfur Jónsson (1864-1943)

 • S02082
 • Person
 • 23.07.1864-04.06.1943

Runólfur ólst upp hjá foreldrum sínum, en hóf sjósókn ungur að aldri og reri í ýmsum verstöðvum. Kom frá Akureyri til Sauðárkróks 1903 og dvaldist þar síðan til æviloka. Fyrstu árin á Sauðárkróki átti hann dálítinn bústofn og stundaði garðyrkju með góðum árangri jafnframt sjósókninni. Árið 1915 eignaðist hann einn eigin bát, fjögurra manna far, og sótti þá sjóinn fast, var oftast einn á bátnum og aflaði vel. Árið 1918 taldi hann sig hafa aflað 950 stórþorska, 2000 þyrsklinga og 7050 ýsur af ýmslum stærðum. Veiddi einnig hafsíld í net með góðum árangri. Oft herti hann mikið að afla sínum og seldi bændum fyrir landbúnaðarafurðir eða peningagreiðslur. Gaf einnig oft nágrönnum sínum sínum á staðnum og kunningjum af afla sínum. Varð fyrir trúaráhrifum frá Lárusi farandpredikara Jóhannessyni og tók eftir það að predika úti á götum Sauðárkróksbæjar og kenndi þá í anda hinnar gömlu bókstafstrúar á Biblíuna. Kvæntist Soffíu Ólafsdóttur, þau eignuðust þrjú börn.

Rögnvaldur Finnbogason (1925-2010)

 • S01377
 • Person
 • 13.05.1925-01.02.2010

Rögnvaldur Elfar Finnbogason fæddist á Eskifirði, sonur Finnboga Þorleifssonar, útgerðarmanns og skipstj. á Eskifirði og Dórótheu Kristjánsdóttur. ,,Rögnvaldur ólst upp á Eskifirði. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1944 og stundaði nám við Háskóla Íslands veturinn 1945-46. Hann vann við skrifstofustörf á Siglufirði árin 1947-1948 eða uns þau hjónin fluttust til Sauðárkróks, þar sem hann var gjaldkeri bæjarsjóðs á árunum 1948-1958. Hann gegndi starfi bæjarstjóra á Sauðárkróki árin 1958-1966. Rögnvaldur var skrifstofustjóri síldarútvegsnefndar fyrir Austurland á árunum 1966-1970 og bjó fjölskyldan þá á Seyðisfirði. Árið 1971 lá leiðin til Reykjavíkur og hóf Rögnvaldur þá störf á skattstofunni. Þar starfaði hann til 1976. Hann gegndi starfi bæjarritara í Garðabæ frá 1976-1983 og var forstjóri Sjúkrasamlags Garðabæjar á árunum 1983-1990. Rögnvaldur starfaði lengi fyrir Brunabótafélagið, síðar VÍS, og gegndi fjölda opinberra trúnaðarstarfa bæði á Sauðárkróki og víðar." Rögnvaldur kvæntist árið 1947 Huldu Ingvarsdóttur, þau eignuðust þrjú börn.

Sigurlaug Magnúsdóttir (1886-1960)

 • S01195
 • Person
 • 11. okt. 1886 - 14. jan. 1960

Dóttir Helgu Indriðadóttur ljósmóður og Magnúsar Jónssonar frá Gilhaga. Sigurlaug ólst upp hjá foreldrum sínum í Gilhaga. Kvæntist Steingrími Guðmundssyni árið 1912 þau bjuggu á Írafelli í Svartárdal, Þverá í Hallárdal A-Hún, í Gilhaga í Fremribyggð, í Þorsteinsstaðakoti í Tungusveit, á Akureyri og síðast í Breiðargerði (1947-1960). Lærði karlmannafatasaum og starfaði við sauma þau ár sem hún bjó á Akureyri. Sigurlaug og Steingrímur eignuðust tvö börn og áttu einn fósturson.

Sigurlaug Sigurgeirsdóttir (1876-1929)

 • S01310
 • Person
 • 7. maí 1876 - 6. apríl 1929

Með foreldrum og í vistum í Fnjóskadal og á Svalbarðsströnd til 1893, flutti þá til Akureyrar.

Sveinn Stefánsson (1881-1974)

 • S00545
 • Person
 • 4. apríl 1881 - 6. febrúar 1974

Sonur Stefáns Guðmundssonar og Sigurlaugar Ólafsdóttur. Þau bjuggu fyrst um sinn að Giljum í Vesturdal en fluttu svo fyrst að Daufá en síðan í Litluhlíð. Þegar Sveinn var sex ára gamall lést faðir hans, vegna mikillar fátæktar var hann tekinn frá móður sinni níu ára gamall og þurfti að vinna fyrir sér á ýmsum bæjum eftir það. Árið 1908 fór hann sem vinnumaður í Tunguháls og kvæntist þar Guðrúnu Soffíu Þorleifsdóttur sem var þá búandi þar. Sveinn varð fljótt umsvifamestur í framförum og framkvæmdum bænda í Lýtingsstaðahreppi, bústofn hans var stór og ætíð fóðraður til mikilla afurða. Sveinn sinnti einnig ábyrgðar- og trúnaðarstörfum í sinni sveit , sat í hreppsnefnd, í stjórn búnaðarfélagsins, var forðagæslumaður og fjallskilastjóri. Árið 1938 fluttu þau hjónin til Akureyrar þar sem Sveinn vann fyrst við landbúnaðarstörf en síðar við skipaafgreiðslu Eimskips. Sveinn var stofnandi Landgræðslusjóðs Hofsafréttar og var slíkt einstakt framtak í þeirri tíð. Einnig stofnaði Sveinn sjóð til minningar um móður sína, Sigurlaugu Ólafsdóttur en tilgangur sjóðsins var ,,að styrkja fátækar, heilsulitlar eða barnamargar ekkjur í hreppnum". Sveinn og Guðrún eignuðust ekki börn en áttu einn fósturson.

Sveinn Þorsteinsson (1903-1980)

 • S01572
 • Person
 • 1. des. 1903 - 19. júlí 1980

Alinn upp hjá Birni Gunnarssyni og Þóru Jónsdóttur á Kljáströnd við Grenivík. Verkamaður á Neskaupstað 1930. Síðar sjómaður og bankaritari á Akureyri.

Tobías Jóhannesson (1914-1998)

 • S01803
 • Person
 • 25. mars 1914 - 5. júní 1998

Sonur Jóhannesar G. Guðmundssonar b. á Hellu í Blönduhlíð og k.h. Sigþrúðar Konráðsdóttur. Bifreiðastjóri um skeið á BSA, síðar bílamálarameistari og keypti af Kristjáni Kristjánssyni bílasprautunarverkstæði á Akureyri, sem hann rak til ársins 1993 undir nafninu Bílasprautun Tóbíasar. Kvæntist Guðrúnu Björnsdóttur frá Sauðárkróki.

Tryggvi Baldur Líndal (1918-1997)

 • S01669
 • Person
 • 17. ágúst 1918 - 17. júní 1997

Baldur Líndal fæddist á Lækjamóti í Víðidal 17. ágúst 1918. Foreldrar hans voru hjónin Jónína Steinvör Sigurðardóttir Líndal, húsmóðir og kennari og Jakob Hansson Líndal, bóndi, hreppstjóri og kennari. ,,Baldur varð stúdent frá MA 1939 og lauk B.Sc. prófi í efnaverkfræði frá MIT í Boston 1949 og var við framhaldsnám í sama skóla 1955. Hann var verkfræðingur hjá raforkumálastjóra frá 1949 og sjálfstætt starfandi ráðgjafarverkfræðingur frá 1961. Baldur hannaði og ók fyrstur Íslendinga á vetnisbíl árið 1945, hafði frumkvæði að kísilúrvinnslu í Mývatni og sjóefnavinnslu á Reykjanesi. Vann á 8. áratugnum ítarlega úttekt á möguleikum á magnesíumframleiðslu á Reykjanesi. Starfaði við fjölda verkefna á sviði efnavinnslu í Bandaríkjunum og Mið-Austurlöndum og fyrir Virki hf. í Mið- og Suður-Ameríku og Afríku. Baldur Líndal hlaut Hina íslensku fálkaorðu 1968, Verðlaun Ásu Guðmundsdóttur Wright 1972 og gullmerki Verkfræðingafélags Íslands 1985."
Baldur var þríkvæntur:
Fyrsta kona hans var Kristín R.F. Búadóttir, þau slitu samvistir eftir stutta sambúð og áttu ekki börn.
Önnur kona Baldurs var Amalía Líndal, f. Gourdin, rithöfundur, frá Cambridge, Massachusetts, Bandaríkjunum, þau eignuðust fimm börn. Slitu samvistir.
Þriðja kona Baldurs var Ásdís Hafliðadóttir, hún átti þrjú börn fyrir.

Ágúst Hörður Helgason (1927-2010)

 • S01703
 • Person
 • 13. feb. 1927 - 6. ágúst 2010

Ágúst Hörður Helgason fæddist á Sauðárkróki 13. febrúar 1927. Foreldrar Harðar voru Helgi Ólafsson kennari á Sauðárkróki og Akureyri, síðar búsettur í Reykjavík, og Valý Þ.Á. Ágústsdóttir. ,,Hörður útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1946. Nám í læknisfræði við Háskóla Íslands 1946-1953, cand. Med. þaðan 1953. Námskandidat á Herrick Memorial Hospital í Berkeley í Kaliforníu 1954-1955; aðstoðarlæknir á John Hopkins Hospital í Baltimore 1955-1956 og á Baltimore City Hospital 1956-1959. Sérnám á meinafræðideild sama sjúkrahúss 1959-1961 og á Union Memorial Hospital í Baltimore 1961-1963. Almennt lækningaleyfi og viðurkenning sem sérfræðingur í fæðingarhjálp og kvensjúkdómum 1959. Amerískt læknapróf í Maryland 1961 og í Texas 1967. Viðurkenndur sérfræðingur í meinafræði í Bandaríkjunum 1963. Lauk sérfræðiprófi í húðsjúkdómameinafræði (dermatopathology) 1981, viðurkennt af American Board of Dermatology og American Board of Pathology. Námskeið í kjarnlæknisfræði við U.S. Naval Medical School í Bethesda í Maryland 1964. Starfsferill: Héraðslæknir í Súðavíkurhéraði 1953, aðstoðarlæknir við Union Memorial Hospital 1963-1965. Fyrsti aðstoðarlæknir við Veterans Administration Hospital í Houston, Texas við rannsóknir á lungnasjúkdómum 1965-1969. Sérfræðingur í meinafræði við Memorial Hospital System frá 1969. Aðstoðarprófessor í meinafræði við Baylor University College of Medicine í Houston 1965-1969 og aðstoðarprófessor í klínískri meinafræði við sama skóla frá 1969. Forstöðumaður School of Medical Technology við Memorial Hospital System 1973-1977 og forstöðumaður líffærameinafræðideildar sömu stofnunar frá 1977."
Maki I: 1957, Kristín Björnsdóttir Axfjörð, þau skildu.
Maki II: 1959, Marjorie Joyce ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, þau eignuðust þrjár dætur.

Árni Eiríksson (1857-1929)

 • S01071
 • Person
 • 3. september 1857 - 23. desember 1929

Foreldrar: Eiríkur Eiríksson og Hólmfríður Guðmundsdóttir á Skatastöðum. Árni ólst upp í Sölvanesi hjá móðurbróður sínum Sveini Guðmundssyni og k.h. Guðrúnu Jónsdóttur. Árni var bóndi í Hamarsgerði 1883-1885 og á Starrastöðum 1885-1887, bjó á Akureyri 1887-1888, bóndi á Nautabúi 1889-1897 og á Reykjum í Tungusveit 1897-1907. Fluttist eftir það til Akureyrar þar sem hann starfaði sem gjaldkeri í Íslandsbanka til æviloka. Á sínum yngri árum var Árni einn fremsti glímumaður sinnar sveitar. Árni lærði ungur að leika á orgel og var forsöngvari í Mælifells- og Reykjakirkjum meðan hann bjó á því svæði. Jafnframt var Árni hreppsnefndaroddviti í Lýtingsstaðahreppi í hálfan annan áratug og deildarstjóri KS í þeirri sveit. Árni kvæntist Steinunni Jónsdóttur frá Mælifelli, þau eignuðust fjögur börn en ólu einnig upp nokkur fósturbörn.

Ólafur Haukur Helgason (1930-2006)

 • S01705
 • Person
 • 11. apríl 1930 - 31. okt. 2006

Foreldrar Ólafs Hauks voru Helgi Ólafsson kennari á Sauðárkróki og Akureyri, síðar búsettur í Reykjavík, og k.h. Valý Þ.Á. Ágústsdóttir. ,,Ólafur varð stúdent frá MA 1952. Nám í læknisfræði við HÍ 1952-53, cand. phil. þaðan og með próf í efnafræði. Nám í tannlækningum við háskólana í Kiel og Heidelberg í V-Þýskalandi en lauk ekki prófi. Kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1963. Vann við kennslustörf um árabil og ýmis önnur störf. Sendi frá sér frumsamin kvæði sem birt voru í Morgunblaðinu og víðar."

Þorsteinn Magnússon (1885-1961)

 • S01191
 • Person
 • 18. júní 1885 - 13. feb. 1961

Sonur Helgu Indriðadóttur ljósmóður og Magnúsar Jónssonar í Gilhaga. Bóndi í Gilhaga 1911-1912, á Írafelli í Svartárdal 1916-1917, í Ölduhrygg í Svartárdal 1921-1922, í Sölvanesi 1928-1929, í Efra-Lýtingsstaðakoti 1929-1930, í Jaðri á Langholti 1931-1934, á Varmalandi í Sæmundarhlíð 1934-1935, á Grófargili 1935-1937, í Varmahlíð 1937-1938 og á Steinsstöðum 1938-1939 er hann fluttist til Akureyrar þar sem hann bjó í fimm ár og fluttist svo til Reykjavíkur árið 1944 þar sem hann bjó til æviloka. Meðfram búskap vann hann m.a. við mæðiveikivarnir á Vatnsskarði. Í Reykjavík starfaði Þorsteinn lengst af sem verkamaður hjá rafmagnsveitunum í Elliðaárdal. Þorsteinn var vel hagmæltur og eftir hann er til þónokkuð af lausavísum. Einnig skrifaði hann nokkuð í óbundu máli, m.a. gaf hann út bókina Dalaskáld árið 1955 sem fjallaði um ævi Símonar Dalaskálds en hann var viðloða Gilhaga í mörg ár. Þorsteinn kvæntist Önnu Jósepsdóttur frá Áshildarholti, þau eignuðust þrjú börn saman, eitt þeirra var Indriði Þorsteinsson rithöfundur. Jafnframt áttu þau bæði einn son frá fyrri samböndum.

Þórey Sigurðardóttir (1924-2009)

 • S01728
 • Person
 • 12. mars 1924 - 30. nóv. 2009

Þórey Sigurðardóttir fæddist á Skúfsstöðum í Hjaltadal, Skagafirði, 12. mars 1924. Faðir: Sigurður Jónsson (1882-1965) bóndi á Skúfsstöðum. Móðir: Anna Sigurðardóttir (1885-1943), húsmóðir á Skúfsstöðum. ,,Þórey ólst upp á Skúfsstöðum í Hjaltadal. Nítján ára gömul, við lát móður sinnar, gekk hún í störf hennar og sinnti húsfreyjustörfum á Skúfsstöðum meðan faðir hennar lifði. Þórey var ráðskona við Barnaskóla Rípurhrepps frá 1965 þar sem Lilja Sigurðardóttir vinkona hennar var skólastjóri og styrktist þá ævilöng vinátta Þóreyjar við fjölskylduna. Með þeim Lilju og Sigurði Jónassyni og börnum flutti Þórey til Akureyrar og saman keyptu þau Möðruvallastræti 1 sem varð heimili Þóreyjar eftir það nema síðasta eina og hálfa árið sem hún bjó á Hlíð. Þórey var einn af stofnendum Kristniboðsfélagsins Frækornsins í Skagafirði. Á Akureyri gekk hún til liðs við Kristniboðsfélag kvenna, var þar gjaldkeri í rúm 20 ár, og KFUK þar sem hún var í stjórn í 25 ár og þar af formaður í 19 ár. Þórey vann alla tíð við þjónustustörf, á FSA, Sólborg og hjá Akureyrarbæ í heimaþjónustu. Sérstaka unun hafði Þórey af því að vinna í kristilegu starfi með börnum og unglingum. Þórey var matráðskona og umsjónarkona með stúlknastarfi í Sumarbúðum á Hólavatni í 30 ár, frá 1966-1996. Bar hún alla tíð hag Hólavatns fyrir brjósti og var það Þóreyju mikil gleði þegar hún var sæmd heiðursviðurkenningu KFUM og KFUK á Íslandi í febrúar á þessu ári."
Þórey var ógift og barnlaus.