Showing 657 results

Authority record
Ísland

Jón Pálmi Jónsson (1888-1962)

  • S00011
  • Person
  • 27.01.1888-06.08.1962

Jón Pálmi Jónsson er fæddur í Sauðanesi, Torfalækjarhreppi, A.-Hún. árið 1888. Faðir hans var Jón Hróbjartsson (1849-1928), bóndi á Gunnfríðarstöðum, A.-Hún. Móðir hans var Anna Einarsdóttir (1850-1910), húsfreyja á Gunnfríðarstöðum, frá Hring í Blönduhlíð. Jón Pálmi stundaði nám við Gagnfræðiskólann á Akureyri 1906-1907. Lærði ljósmyndun hjá Hallgrími Einarssyni á Akureyri 1909-1911. Var íþróttakennari á Blönduósi 1907-1908 og barnakennari í Svínavatnshreppi 1907-1909. Mun hafa unnið hjá Þórarni Stefánssyni ljósmyndara á Húsavík á tímabilinu 1910-1912. Rak ljósmyndastofu á Sauðárkróki 1912 til vors 1915, seldi Pétri Hannessyni stofuna í desember 1914. Bendlaður við peningafölsunarmál og flúði land. Var starfsmaður á ljósmyndastofu í Noregi 1915-1916. Fluttist til Bandaríkjanna 1916 og rak þar ljósmyndastofu með hléum frá 1919 til 1962.

Bjarni Haraldsson (1930-2022)

  • S00054
  • Person
  • 14.03.1930-17.01.2022

Bjarni Haraldsson fæddist 14.03.1930 á Sauðárkróki og var annað tveggja barna Haraldar Júlíussonar verslunarmanns og Guðrúnar Ingibjargar Bjarnadóttur. Bjarni giftist Ásdísi Kristjánsdóttur og eiga þau saman einn son, fyrir átti Bjarni tvær dætur og Dísa þrjú börn. Bjarni starfaði við akstur stóran hluta ævi sinnar, frá 1950-1954 ók hann norðurleiðarrútu fyrir Norðurleið. hf á leiðinni Akureyri – Reykjavík. Árið 1954 stofnaði hann fyrirtækið Vöruflutningar Bjarna Haraldssonar og tók að sér flutninga á milli Sauðárkróks og Reykjavíkur á Bens bifreið. Eftir því sem árin liðu stækkuðu bílarnir og útgerðin jókst. Bjarni seldi flutningafyrirtækið árið 2001 eftir farsælan rekstur. Bjarni tók við rekstri verslunar Haraldar Júlíussonar árið 1973 en hann tók fyrir alvöru að vinna innanbúðar með föður sínum árið 1959. En verslunin hefur starfað óslitið frá 1919 og að mestu óbreytt frá 1930 þegar húsið sem hún er í nú var reist. Það ár hóf Olíuverslun Íslands BP samvinnu um eldsneytissölu við verslunina. Verslun Haralds Júlíussonar, sem í daglegu tali er nú oft kölluð verslun Bjarna Har. er fyrir löngu orðin mikilvægur þáttur í menningarlífi Sauðárkróks og í ímynd allra Skagfirðinga sem dregur ferðamenn að, enda fáar ef nokkrar búðir sem hans eftir á Íslandi. Alkunnur er húmor Bjarna og tilsvör hans orðin landsþekkt, en Bjarni er með ríka þjónustulund og hefur gaman af því að spjalla við fólk og greiða götur þess.
Bjarni var sæmdur heiðursborgara titli af Sveitarfélaginu Skagafirði sumarið 2019 fyrir framlag hans til verslunar- og þjónustureksturs til íbúa sveitarfélagsins og gesta í um 70 ár og fyrir að gera skagfirskt samfélag enn betra.

Frank Michelsen (1882-1954)

  • S00073
  • Person
  • 25. jan. 1882 - 16. júlí 1954

Jörgen Frank Michelsen var fæddur í Horsens á Jótlandi 25. janúar 1882. Foreldrar hans voru hjónin Karen og Jens Michelsen. Frank fór í úrsmíðanám og lauk sveinsprófi í þeirri grein árið 1902. Árið 1907 kom Frank til Íslands með skipinu Sterling en hann hafði haft spurnir að því að á Íslandi vantaði úrsmiði. Hann stundaði úrsmíðar og verslun á Sauðárkróki til ársins 1945 þegar hann fluttist til Hveragerðis. Jafnframt starfaði hann sem slökkviliðsstjóri á Sauðárkróki 25 ár og var lengi ábyrgðarmaður Sparisjóðs Sauðárkróks. Frank giftist Guðrúnu Pálsdóttur frá Draflastöðum í Eyjafirði og varð þeim tólf barna auðið.

Franch Bertholt Michelsen (1913-2009)

  • S00074
  • Person
  • 31. des. 1913 - 7. júní 2009

Sonur Frank Michelsen úrsmíðameistara á Sauðárkróki og Guðrúnar Pálsdóttur. Starfaði sem úrsmíðameistari í Reykjavík.

Aage V. Michelsen (1928-2018)

  • S00075
  • Person
  • 14. okt. 1928 - 7. jan. 2018

Sonur Frank Michelsen úrsmíðameistara og Guðrúnar Pálsdóttur. Bifvélavirki í Hveragerði.

Karen Edith Michelsen (1910-1965)

  • S00077
  • Person
  • 2. ágúst 1910 - 20. feb. 1965

Dóttir Frank Michelsen úrsmíðameistara á Sauðárkróki og Guðrúnar Pálsdóttur. Starfaði sem prjónakona á Sauðárkróki, bjó síðar í Reykjavík.

Pála Elínborg Michelsen (1911-2005)

  • S00078
  • Person
  • 24. ágúst 1911 - 18. júní 2005

Dóttir Frank Michelsen úrsmíðameistara á Sauðárkróki og Guðrúnar Pálsdóttur. ,,Fyrst bjó hún á Sauðárkróki, síðan í Hveragerði í eitt ár, en eftir 1945 alfarið í Reykjavík. Hún starfaði á prjónastofunni Hlín í 19 ár, síðan hjá Nóa Síríusi til 72 ára aldurs."

Hulda Ester Michelsen (1912-1985)

  • S00079
  • Person
  • 26. nóv. 1912 - 29. ágúst 1985

Dóttir Frank Michelsen úrsmíðameistara á Sauðárkróki og Guðrúar Pálsdóttur. Starfaði sem ljósmyndari í Reykjavík.

Georg Bernharð Michelsen (1916-2001)

  • S00080
  • Person
  • 20. maí 1916 - 3. nóv. 2001

Sonur Frank Michelsen úrsmíðameistara á Sauðárkróki og Guðrúnar Pálsdóttur. ,,Georg nam bakaraiðn á Sauðárkróki og hjá Jóni Símonarsyni í Reykjavík. Sautján ára lá leið hans til Kaupmannahafnar þar sem hann dvaldist næstu ellefu árin við frekara nám og störf í bakaraiðn. Í stríðslok, 1945, fluttist hann, með fjölskyldu sína, heim til Íslands og lá leið þeirra fyrst til Sauðárkróks. Síðan stofnaði hann bakarí í Hveragerði og bjó þar og starfaði allt til ársins 1979, er hann seldi reksturinn. Þá hóf hann störf hjá Brauði hf. - Myllunni, þar sem hann starfaði þar til hann var 78 ára."

Paul Valdimar Michelsen (1917-1995)

  • S00081
  • Person
  • 17. júlí 1917 - 26. maí 1995

Sonur Frank Michelsen úrsmíðameistara á Sauðárkróki og Guðrúnar Pálsdóttur. Starfaði sem garðyrkjumaður í Hveragerði.

Alda Alvilda Möller (1912-1948)

  • S00082
  • Person
  • 23. sept. 1912 - 1. okt. 1948

Foreldrar: Þorbjörg Pálmadóttir Möller og Jóhann Georg Möller, kaupmaður á Hvammstanga, síðar verslunarstjóri á Sauðárkróki. Leikkona í Reykjavík. Maki: Þórarinn Kristjánsson.

Stefanía Ólöf Möller Andrésson (1910-1976)

  • S00090
  • Person
  • 14. mars 1910 - 19. okt. 1976

Foreldrar: Þorbjörg Pálmadóttir Möller og Jóhann Georg Möller, kaupmaður á Hvammstanga, síðar verslunarstjóri á Sauðárkróki. Húsfreyja í Reykjavík. Maki: Magnús Andrésson forstjóri í Reykjavík, þau áttu eina kjördóttur.

Aðalsteinn Gottfreð Michelsen (1918-1994)

  • S00092
  • Person
  • 28. okt. 1918 - 9. des. 1994

Sonur Frank Michelsen úrsmíðameistara á Sauðárkróki og Guðrúnar Pálsdóttur. Starfaði sem bifvélameistari, síðast búsettur í Reykjavík.

Ottó Michelsen (1920-2000)

  • S00093
  • Person
  • 10. júní 1920 - 11. júní 2000

Ottó fæddist á Sauðárkróki, sonur hjónanna Guðrúnar Pálsdóttur húsfreyju og Jörgen Frank Michelsen úrsmiðs og kaupmanns á Sauðárkróki. Hann lærði skriftvélatækni í Þýskalandi og stofnaði fyrirtækið Skrifstofuvélar árið 1946. Hann var forstjóri IBM á Íslandi 1967-1982. Hann gengdi trúnaðarstörfum á sviði menningar - og félagsmála og einnig fyrir þjóðkirkjuna.
Ottó kvæntist Gyðu Jónsdóttur og eignaðist með henni fjögur börn.

Elsa María Michelsen (1922-1976)

  • S00094
  • Person
  • 12. maí 1922 - 6. feb. 1976

Dóttir Frank Michelsen úrsmíðameistara á Sauðárkróki og Guðrúnar Pálsdóttur. Var nemandi í Málleysingjaskólanum í Reykjavík, síðast búsett í Reykjavík.

Kristinn Pálmi Michelsen (1926-2008)

  • S00095
  • Person
  • 5. mars 1926 - 29. maí 2008

Sonur Frank Michelsen úrsmíðameistara á Sauðárkróki og Guðrúnar Pálsdóttur. Skrifvélavirki og verslunarstjóri á Seltjarnarnesi.

María Guðlaug Pétursdóttir (1927-2001)

  • S00106
  • Person
  • 11. nóv. 1927 - 10. ágúst 2001

María Guðlaug Pétursdóttir fæddist á Löngumýri í Skagafirði 11. nóvember 1927. Foreldrar hennar voru Pétur Þorgrímsson frá Hofstaðaseli og k.h. Engilráð Guðmundsdóttir. Þegar María var þriggja vikna, fór hún í fóstur til Elísabetar Jónsdóttur, f. 1885, d. 1967, og ólst upp hjá henni. Árið 1952 giftist María Ögmundi Eyþóri Svavarssyni mjólkurfræðingi, þau eignuðust þrjár dætur. ,,María var alla tíð útivinnandi, jafnhliða húsmóðurstörfum, og vann næstum allan sinn starfsaldur við fiskvinnslu, eða hart nær hálfa öld. María var virkur félagsmaður í Verkakvennafélaginu Öldunni á Sauðárkróki og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum."

Magnea Baldvinsdóttir (1897-1950)

  • S001108
  • Person
  • 1897-1950

Foreldrar: Baldvin Ólafur Friðriksson og Margrét Magnúsdóttir í Héraðsdal. Saumakona á Sauðárkróki, ógift og barnlaus.

Sigurður Sigurðsson (1887-1963)

  • S00160
  • Person
  • 19.09.1887-20.06.1963

Sigurður Sigurðsson, f. í Vigur, Ögurhreppi í Ísafjarðardjúpi 19.09.1887, d. í Hafnarfirði 20.06.1963. Foreldrar: Sigurður Stefánsson prestur og alþingismaður í Vigur og kona hans Þórunn Bjarnadóttir húsfreyja í Vigur. Sigurður ólst upp hjá foreldrum sínum í Vigur. Hann varð stúdent frá MR 1908. Cand. juris frá HÍ 1914. Yfirdómslögmaður á Ísafirði frá 1914-1921, jafnframt gjaldkeri í útibúi Íslandsbanka á Ísafirði og síðar gæslustjóri Landsbanka Íslands þar á meðan hann bjó á Ísafirði. Skipaður fulltrúi í fjármáladeild Stjórnarráðs Íslands 1921 og settur bæjarfógeti í Vestmannaeyjum frá 26. febrúar til 4. ágúst 1924. Skipaður sýslumaður Skagfirðinga 1. desember 1924 og gegndi því embætti til ársloka 1957. Frá 24.05.1947 var Sigurður jafnframt bæjarfógeti á Sauðárkróki. Sigurður gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var m.a. bæjarfulltrúi á Ísafirði 1917-1920. Gekkst fyrir stofnun Búnaðarsambands Skagfirðinga í árslok 1930 og sat í stjórn þess frá upphafi. Gekkst einnig fyrir stofnun Sögufélags Skagfirðinga 6. febrúar 1937 og sat í stjórn þess frá upphafi og var forseti félagsins 1937-1948. Maki: Guðríður Stefanía Arnórsdóttir (jafnan kölluð Stefanía). Þau eignuðust níu börn.

Ingólfur Siggeir Andrésson (1912-1957)

  • S00164
  • Person
  • 26.04.1912-26.04.1957

Fæddur í Reykjavík 26. apríl 1912. Foreldrar hans voru Andrés Folmer Nilsen frá Leiðarhöfn við Vopnafjörð og Guðný Jósefsdóttir frá Uppsölum í Flóa. Ingólfur ólst upp með foreldrum sínum Reykjavík. Þegar hann var þriggja ára fékk hann lömunarveiki uppúr kíghósta og var fatlaður á fæti alla tíð síðan. Árið 1936 flutti hann til Sauðárkróks og vann þar við bílaviðgerðir. Í kringum 1943 fór hann aftur suður til þess að nema bifvélavirkjun og útskrifaðist með meistararéttindi í þeirri grein árið 1946. Sneri hann þá aftur til Sauðárkróks og byggði eigið verkstæði norðan við íbúðarhús sitt við Knarrarstíg. Ingólfur giftist Ingibjörgu Ágústsdóttur frá Ósi á Borgarfirði eystra, þau eignuðust eina dóttur.

Herdís Pétursdóttir (1871-1928)

  • S00199
  • Person
  • 04.12.1871-25.01.1928

Herdís var fædd í Valadal. Foreldrar hennar voru Pétur Pálmason og Jórunn Hannesdóttir. Hún var gift Sr. Hálfdáni Gunnarssyni presti í Goðdölum, síðar vígslubiskupi á Sauðárkróki. Þau eignuðust fimm börn, þrjú þeirra misstu þau í æsku.

Kristján Blöndal (1864-1931)

  • S00205
  • Person
  • 18. júlí 1864 - 21. okt. 1931

Fæddist að Grafarósi í Skagafirði. Sonur Jósefs Gottfreð Blöndal verslunarstjóra Grafarósi og Önnu Margrétar Þuríðar Kristjánsdóttur Möller. Hóf síðar verslunarstörf hjá Valgard Classen kaupmanni og stjúpa sínum. Starfaði sem bóksali og umboðsmaður bóksalafélags Íslands á Sauðárkróki. Kvæntist Álfheiði Guðjónsdóttur og eignuðust þau tvö börn, aðeins annað þeirra komst upp.

Guðrún Ragnheiður Sigurðardóttir Urup (1925-2012)

  • S00205
  • Person
  • 25.07.1925-28.06.2012

,,Guðrún Sigurðardóttir Urup, f. 25.07.1925 á Sauðárkróki, d. 28.06.2012 í Holte í Danmörku. Foreldrar hennar voru Stefanía Arnórsdóttir og Sigurður Sigurðsson, sýslumaður Skagfirðinga og bæjarfógeti á Sauðárkróki. Hinn 25.7. 1947 giftist Guðrún Jens Urup listmálara, f. 25.9. 1920, d. 21.11. 2010. Guðrún ólst upp á Sauðárkróki. Hún gekk í Myndlista- og handíðaskólann frá 1941-43 og kenndi í framhaldi af því teikningu í Reykjavík. Hún hóf nám á Kunstakademiet í Kaupmannahöfn 1945 og útskrifaðist 1950. Þar kynntist hún eiginmanni sínum og eignuðust þau 4 börn. Eftir að börnin fæddust sinnti Guðrún barnauppeldi og húsfreyjustörfum og studdi mann sinn á listabrautinni. Á síðari hluta ævinnar tók hún aftur til við listsköpun. Þau hjón unnu ýmis verk sem eru á Íslandi og unnu saman að gerð glermósaikglugga í Sauðárkrókskirkju 1974 og 1985. Guðrún hélt einkasýningu í Reykjavík í Galleríi Gangskör 1987 og hélt margar sýningar í gegnum tíðina í Kaupmannahöfn, m.a. í Jónshúsi. Síðasta stóra sýningin var í Birkerød Kunstforening í desember 2011, þar sem henni var boðið að sýna í minningarsýningu um Jens Urup í tengslum við fráfall hans."

Guðjón Ingimundarson (1915-2004)

  • S00240
  • Person
  • 12. janúar 1915 - 15. mars 2004

Guðjón Ingimundarson kennari fæddist á Svanshóli í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu 12. janúar 1915. Foreldrar Guðjóns voru Ingimundur Jónsson og Ólöf Ingimundardóttir bændur á Svanshóli. Guðjón kvæntist 27.5. 1944 Ingibjörgu Kristjánsdóttur frá Nautabúi, f. 11.9. 1922, þau eignuðust sjö börn
,,Guðjón lauk prófi frá Héraðsskólanum í Reykholti 1934, íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni 1937 og smíðakennaraprófi frá Handíðaskólanum í Reykjavík 1944. Hann stundaði nám í teiknikennaradeild seinni hluta vetrar 1948 og sótti ýmis endurmenntunarnámskeið varðandi sund-, handavinnu- og íþróttakennslu. Guðjón var kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni 1937-1941. Hann flutti til Sauðárkróks 1941 og bjó þar til dauðadags. Guðjón var kennari við skólana á Sauðárkróki 1941-1974 og sundkennari á vornámskeiðum í Varmahlíð 1940-1956. Guðjón var forstjóri Sundlaugar Sauðárkróks og sundkennari 1957-1986. Hann hafði umsjón með Námsflokkum Sauðárkróks 1974-1979 og kenndi á ýmsum námskeiðum. Alla sína ævi tók Guðjón mikinn þátt í félagsmálum, m.a. var hann bæjarfulltrúi á Sauðárkróki fyrir Framsóknarflokkinn 1950-1974 og forseti bæjarstjórnar 1966-1970. Hann var formaður íþróttanefndar Sauðárkróks 1946-1978, í skólanefnd um árabil og formaður hennar 1974-1978, í fræðsluráði Norðurlands vestra 1974-1978, í stjórn Fiskivers Sauðárkróks hf. frá stofnun 1957 og Skagfirðings hf. frá 1959 þar til þau félög hættu störfum. Guðjón sat í stjórn Framsóknarfélags Sauðárkróks um langt árabil, var endurskoðandi Kaupfélags Skagfirðinga til fjölda ára, í stjórn Menningarsjóðs KS í mörg ár og formaður fræðuslunefndar þess um skeið. Íþrótta- og ungmennafélagsmál áttu hug hans allan og beitti hann sér mjög fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja og skóla á Sauðárkróki. Hann var í stjórn Ungmennasambands Skagafjarðar 1942-1973 og þar af formaður í 29 ár. Formaður Ungmennafélagsins Tindastóls í fimm ár og í stjórn alls níu ár. Hann var varaformaður Ungmennafélags Íslands 1965-1983 og í sambandsráði Íþróttasambands Íslands um árabil. Guðjón hlaut riddarakross fálkaorðunnar fyrir störf að félagsmálum 1984. Hann var heiðursfélagi Sundfélagsins Grettis á Ströndum, Ungmennasambands Skagafjarðar, Ungmennafélagsins Tindastóls, Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Rotaryklúbbs Sauðárkróks."

Árni Sigurðsson (1927-2020)

  • S00242
  • Person
  • 13. nóv. 1927 - 26. okt. 2020

Árni fæddist á Sauðárkróki árið 1927. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson sýslumaður Skagfirðinga og Stefanía Arnórsdóttir kona hans. Árni lærði til prests, var á Neskaupstað og síðast sóknarprestur á Blönduósi. Eginkona hans var Eyrún Gísladóttir. Þau eignuðust tvö börn, Arnór og Hildi.

Kristján Linnet (1881-1958)

  • S00266
  • Person
  • 1. feb. 1881 - 11. sept. 1958

Kristján var fæddur 1. febrúar 1881. Foreldrar hans voru Hans Dithlev Linnet bókhaldari í Hafnarfirði og Gróa Jónsdóttir frá Vallarhúsi í Grindavík. Kristján varð stúdent í Reykjavík árið 1899 og cand. juris frá Kaupmannahafnarháskóla 1907. Hann var settur lögreglustjóri á Siglufirði sumrin 1909 og 1910 og síðar settur sýslumaður í Dalasýslu 1915 og seinna meir í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu frá 1917 til ársins 1918. Kristján var skipaður sýslumaður í Skagafjarðarsýslu 1918. Var síðan settur bæjarfógeti í Vestmannaeyjum 1924. Kona hans var Jóhanna Eyjólfa Ólafía Seymour Júlíusdóttir og áttu þau sex börn.

Margrét Björney Guðvinsdóttir (1935-2018)

  • S002684
  • Person
  • 4. maí 1935 - 10. ágúst 2018

Margrét Björney Guðvinsdóttir fæddist á Stóru-Seylu í Skagafirði. Foreldrar: Guðvin Óskar Jónsson verkamaður og Lovísa S. Björnsdóttir matselja. Maki 1: Björn Guðnason byggingameistari, þau eignuðust 4 börn. Sambýlismaður frá 1994 var Haukur Björnsson frá Bæ. Hann átti þrjú börn með fyrri konu sinni, Áróru H. Sigursteinsdóttur.
Margrét ólst upp á Stóru-Seylu, að miklu leyti hjá móðurforeldrum sínum, Birni Lárusi Jónssyni hreppstjóra og Margréti Björnsdóttur húsmóður. Að loknu gagnfræðaprófi á Sauðárkróki vann hún hótelstörf um tíma á Villa Nova. Ung stofnaði hún heimili á Króknum með Birni og varð framtíðarheimili þeirra á Hólavegi 22. Ásamt húsmóðurstörfum vann Margrét ýmis önnur störf á Sauðárkróki, m.a. í fiskvinnslu og á saumastofu og síðar réðst hún til vinnu í Bókabúð Kr. Blöndal. Opnaði Blóma- og gjafabúðina í nóvember 1982 á neðri hæðinni á Hólaveginum. Þar var verslunin rekin til 2003, þegar hún var flutt að Aðalgötu 6. Margrét var mjög virk í starfi Kvenfélags Sauðárkróks um árabil, átti sæti í sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju í nokkur ár og sat í stjórn Félags eldri borgara í Skagafirði.

Friðrik Hansen (1891-1952)

  • S00284
  • Person
  • 17. jan. 1891 - 27. mars 1952

Friðrik Hansen var fæddur að Sauðá í Skagafirði 17.jan. 1891. Foreldrar hans voru Christian Hansen (danskur) og Björg Jóhannesdóttir frá Garði í Hegranesi. Friðrik ólst upp með foreldrum sínum á Sauðá. Haustið 1911 hélt hann austur í Fljótsdalshérað þar sem hann gerðist heimiliskennari á Sleðbrjót í Jökulsárhlíð og fleiri bæjum þar eystra. Friðrik lauk kennaraprófi 1915. Haustið 1916 gerðist hann kennari í Torfalækjarhreppi og starfaði þar í eitt ár, var kennari í Staðarhreppi 1917-1920 og síðan á Sauðárkróki til dauðadags. Bóndi í Garði í Hegranesi 1920-1921. Ungur hóf Friðrik störf við vegagerð, árið 1928 varð hann vegaverkstjóri í Vestur-Húnavatnssýslum og gegndi því starfi til æviloka, hann var mjög vinsæll verkstjóri. Friðrik tók virkan þátt í félagsmálum á Sauðárkróki, sat lengi í stjórn UMFT, tók virkan þátt í starfsemi verkamannafélagsins Fram og var oddviti hreppsnefndar Sauðárkróks um 12 ára skeið. Þó að störf Friðriks Hansens við kennslu, verkstjórn og bæjarstjórnarmál væru umfangsmikil varð hann þó hvað þekktastur fyrir ljóðagerð sína. Tvisvar hafa ljóð hans verið gefin út, Ljómar heimur árið 1957 og Ætti ég hörpu árið 1982.
Friðrik Hansen var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Jósefína Erlendsdóttir, þau eignuðust átta börn saman, fyrir hefði Jósefína eignast dóttur með fyrri manni sínum. Jósefína lést árið 1937. Seinni kona Friðriks var Sigríður Eiríksdóttir frá Djúpadal, þau eignuðust fjögur börn. Friðrik eignaðist einnig dóttur með Sigurlaugu Björnsdóttur frá Veðramóti.

Björn Daníelsson (1920-1974)

  • S00326
  • Person
  • 16. feb. 1920 - 22. júní 1974

,,Fæddur á Stóru-Ásgeirsá í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru Daníel Daníelsson lengst b. í Valdarási í Víðidal og k.h. Þórdís Pétursdóttir frá Stökkum á Rauðasandi. Björn lauk kennaraprófi árið 1940 og hóf þegar kennslu. Fyrst í Laxárdal í S.-Þing., þar næst í Þorkelshólsskólahveri í V-Hún., þá á Akureyri og síðan á Dalvík frá 1943-1952, er hann tók við skólastjórn barnaskólans á Sauðárkróki. Því starfi hélt hann til dauðadags eða í 22 ár. Björn var bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn um nokkurra ára skeið og átti þá sæti í bæjarráði og ýmsum nefndum bæjarins. Einnig tók hann þátt í störfum ýmissa félaga. Björn sat jafnframt í stjórn sögufélags Skagfirðinga, í sóknarnefnd Sauðárkróks í áraraðir og var ritstjóri tímarits Umf. Tindastóls. Björn kvæntist árið 1943, Margréti Ólafsdóttur (1916-2015) frá Stóru-Ásgeirsá í Víðidal, þau eignuðust þrjá syni.

Bjarni Jónsson (1945-

  • S00377
  • Person
  • 29. sept. 1945

Bjarni Jónsson fæddist á Sauðárkróki 29. september 1945. Sonur Jóns Nikódemussonar og Önnu Friðriksdóttur.
Hann er rafvirki, búsettur í Reykjavík.
Kona hans er Gyða Blöndal Flóventsdóttir (1946-).

Pétur Sigurðsson (1899-1931)

  • S00396
  • Person
  • 14.04.1899-25.08.1931

Fæddur og uppalinn á Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson og Ingibjörg Halldórsdóttir. Pétur sótti kennslu í orgelleik 11-12 ára gamall hjá Benedikt Sigurðssyni á Fjalli. Árið 1915 hóf hann nám í tónmenntafræðum hjá Sigurgeir Jónssyni organista á Akureyri. Innan við tvítugt var Pétur orðin kraftmesta driffjöðrin í tónlistarlífi Skagfirðinga. Um fermingaraldur hafði hann tekið við hlutverki organista við Víðimýrarkirkju. Jafnframt var hann einn af stofnendum Bændakórsins. Árið 1919 kvæntist hann Kristjönu Sigfúsdóttur ættaðri úr Svarfaðardal. Þau bjuggu fyrst að Mel en flutti síðan á Sauðárkrók. Á Sauðárkróki tók Pétur við starfi kirkjuorganista, vann við söngkennslu í skólanum og sinnti smíðavinnu. Pétur tók einnig virkan þátt í starfi verkalýðsfélagsins Fram, var kosinn í hreppsnefnd Sauðárkróks 1928 ásamt því að taka þátt í ýmsum fleiri félagsmálum. Pétur samdi töluvert af sönglögum, d. um lögu eftir Pétur eru: Vor, Ætti ég hörpu og Erla.
Pétur og Kristjana eignuðust fjögur börn.

Gísli Ólafsson (1885-1967)

  • S00398
  • Person
  • 02.01.1885-14.01.1967

Fæddur á Eiríksstöðum í Svartárdal, foreldrar hans voru Ólafur Gíslason og Helga Sölvadóttir. Gísli bjó lengi vel á Eiríksstöðum með foreldrum sínum. Hann vann ýmis störf utan heimilis og sótti einn vetur nám í unglingaskóla hjá Árna Hafstað í Vík. Gísli kvæntist árið 1914 Jakobínu G. Þorleifsdóttur og voru þau hjón í húsmennsku á bæjum í Svartárdal fyrstu hjúskaparár sín. Árið 1924 fluttust það til Blönduóss þar sem Gísli stundaði daglaunavinnu. 1928 fluttu þau til Sauðárkróks þar sem þau bjuggu til æviloka, húsið sem þau bjuggu í við Suðurgötu 11b nefndu þau Eiríksstaði. Gísla var í blóð borin rík hagmælska og hann byrjaði snemma að yrkja. Fyrsta bók hans, Ljóð, kom út 1917, Nokkrar stökur kom út 1924. Samantekt fyrri ljóða ásamt nýjum viðauka, Á brotnandi bárum, kom út 1944. Síðasta bók hans, Í landvari, kom út árið 1960. Nokkur þekkt sönglög hafa verið samin við texta hans, t.d. Myndin þín eftir Eyþór Stefánsson. Gísli hlaut listamannalaun ríkisins frá 1945. Gísli lék einnig á orgel og var góður kvæðamaður.
Gísli og Jakobína eignuðust þrjú börn og ólu einnig upp dótturson sinn.

Sigurlaug Pálsdóttir (1934-2020)

  • S00406
  • Person
  • 10.06.1934-22.11.2020

Sigurlaug Pálsdóttir frá Laufskálum/Brekkukoti í Hjaltadal, foreldrar hennar voru Páll Jónsson og Guðrún Gunnlaugsdóttir. Maður hennar var Sighvatur Fanndal Torfason (1936-2004), þau eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu í Hvítadal og á Neðri Brekku í Saurbæ í Dalasýslu til ársins 1966 er þau fluttust til Sauðárkróks.

Herbert Alfreð Jónsson (1922-2000)

  • S00433
  • Person
  • 2. mars 1922 - 24. júlí 2000

Fæddur á Sauðárkróki, sonur Jóns Jónssonar, bónda og verkamanns og Tryggvínu Sigríðar Sigurðardóttur. Bjó á Neskaupstað.

Eyþór Stefánsson (1901-1999)

  • S00435
  • Person
  • 23. jan. 1901 - 3. nóv. 1999

Eyþór Stefánsson fæddist á Sauðárkróki 23. janúar 1901. Foreldrar hans voru Stefán Sigurðsson, sjómaður og k.h. Guðrún Jónasdóttir. Hann gekk í barna- og unglingaskólann á Sauðárkróki, en 1928 fór hann suður í tónlistarnám hjá Emil Thoroddsen og Páli Ísólfssyni og leiklistarnám hjá Indriða Waage. Hann var síðan við framhaldsnám í þessum greinum í Hamborg 1934. Hann var aðeins 11 ára gamall er hann byrjaði að syngja með kirkjukór Sauðárkróks en kórinn var ekki formlega stofnaður fyrr en 1942 að hans tilstuðlan og var hann fyrsti stjórnandi hans. Hafði hann þá verið organisti og söngstjóri við Sauðárkrókskirkju frá árinu 1929 og gegndi hann þeim störfum allt til ársins 1972. 19 ára gamall byrjaði Eyþór að vinna að söng- og leiklistarstörfum fyrir Ungmennafélagið Tindastól, eins var hann einn af þeim sem endurreistu Leikfélag Sauðárkróks 1941 og starfaði þar sem leikstjóri og leikari allt til ársins 1976 er hann steig síðast á svið, var það hans 118. hlutverk. Hann vann við verslunar- og skrifstofustörf á Sauðárkróki 1923-1948, og var söngkennari við Barna- og gagnfræðaskóla Sauðárkróks 1948-1972. Skólastjóri Tónlistarskóla Sauðárkróks 1964-1974. Formaður framkvæmdanefndar um byggingu minnisvarða Stephans G. Stephanssonar á Arnarstapa 1953. Hann var á tímabili formaður Kirkjukórasambands Skagafjarðarprófastsdæmis, sat í stjórn Kirkjukórasambands Íslands og var sendikennari þess til kirkjukóra á Norður-, Austur- og Vesturlandi 1952-1961. Hann var einn af stofnendum Rotaryklúbbs Sauðárkróks 1948 og fræðslustúkunnar Mælifells, innan frímúrarareglunnar á Íslandi 1970. Hann var heiðursfélagi í mörgum félögum, þar á meðal: Kirkjukór Sauðárkróks, Leikfélagi Sauðárkróks, Ungmennafélaginu Tindastól, Rotaryklúbbi Sauðárkróks, Tónskáldafélaginu, var sæmdur heiðursmerki úr silfri frá Karlakórasambandinu Heklu á Akureyri, gullmerki frá Félagi íslenskra leikara og var heiðursborgari Sauðárkróks frá árinu 1971. Eins var hann sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að menningarmálum á Sauðárkróki. Eyþór kvæntist 13. desember 1936 Sigríði Önnu Stefánsdóttur frá Skógum í Þelamörk, f. 29. september 1905, d. 20. júní 1992. Sigríður tók virkan þátt í störfum Eyþórs bæði í leiklist og tónlist. Þau eignuðust eina dóttur.

Svava Sigurbjörg Hjaltadóttir (1952-2012)

  • S00492
  • Person
  • 1. feb. 1952 - 24. feb. 2012

Dóttir Hjalta Jósafats Guðmundssonar smiðs á Sauðárkróki og k.h. Kristínar Bjargar Svavarsdóttir. Kvæntist Jónasi Björnssyni hljóðfæraleikara, þau eignuðust þrjú börn saman, fyrir átti Svava dóttur.

María Magnúsdóttir (1909-2005)

  • S00502
  • Person
  • 22. nóv. 1909 - 10. feb. 2005

María Karólína Magnúsdóttir fæddist á Njálsstöðum í Vindhælishreppi 22. nóvember 1909. Foreldrar hennar voru Magnús Steingrímsson, frá Njálsstöðum í Vindhælishreppi og Guðrún Einarsdóttir, frá Hafurstaðakoti í Vindhælishreppi. María ólst upp hjá foreldrum sínum sem lengst af bjuggu á Bergstöðum, Þverá og Sæunnarstöðum í Hallárdal á Skagaströnd. ,,María stundaði nám í unglingaskólanum á Hólum í Hjaltadal 1930 og Kvennaskólanum Blönduósi 1933-1934. Hún lauk ljósmæðranámi frá Ljósmæðraskóla Íslands 1931. Hún var ljósmóðir í Engihlíðarumdæmi 1931-1936, í Bólstaðarhlíðarumdæmi 1933-1935, í Sauðárkróks- og Skarðshreppsumdæmi og á Sjúkrahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki 1936-1979. Þá vann María við mæðra- og ungbarnaeftirlit á Sauðárkróki. En 1939 fór hún í sex mánaða náms- og starfsdvöl til Danmerkur til að kynna sér meðferð ungbarna. María var stofnfélagi Rauðakrossdeildar Sauðárkróks og var í fyrstu stjórn hennar. Hún sat í barnaverndarnefnd um árabil og var virk í Kvenfélagi Sauðárkróks og var þar heiðursfélagi. Árið 1979 flutti María til Hafnarfjarðar og starfaði við heimilishjálp þar yfir veturinn til 1989. En á sumrin á sama tíma starfaði hún á Löngumýri í Skagafirði sem þá var rekið sem sumarorlofsstaður aldraðra á vegum þjóðkirkjunnar." María giftist 10.5. 1942 Pétri Jónassyni frá Syðri-Brekkum, síðar hreppstjóra á Sauðárkróki, þau eignuðust eina dóttur.

Alda Vilhjálmsdóttir (1928-)

  • S00511
  • Person
  • 20.11.1928-

Foreldrar Öldu voru hjónin á Hvalnesi á Skaga, Vilhjálmur Árnason og Ásta Kristmundsdóttir. Alda kvæntist 30. maí 1953 Agli Bjarnasyni frá Uppsölum í Blönduhlíð, þau eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu á Bárustíg á Sauðárkróki.

María Hermannsdóttir (1936-1985)

  • S00512
  • Person
  • 01.06.1936-31.05.1985

Foreldrar hennar voru Hermann Sigurjónsson og Rósa Júlíusdóttir. Fyrri maður Maríu var Kjartan Haraldsson frá Unastöðum í Kolbeinsdal, þau bjuggu bæði í Gröf á Höfðaströnd og á Miklabæ í Óslandshlíð en síðast á Sauðárkróki, þau eignuðust einn son. Seinni maður Maríu var Ingimundur Árnason frá Ketu í Hegranesi, þau bjuggu lengst af á Sauðárkróki en keyptu árið 1982 jörðina Laufskála í Hjaltadal. Ingimundur átti tvö börn af fyrra hjónabandi.

Haukur Haraldsson (1927-2013)

  • S00521
  • Person
  • 05.07.1927 - 09.09.2013

Haukur fæddist í Brautarholti 5. júlí 1927. Hann var sonur Haraldar Bjarna Stefánssonar og Jóhönnu Gunnarsdóttur.
Hann var búsettur á Sauðárkróki. Bifreiðastjóri hjá K.S. og síðar starfsmaður hjá Loðskinni.
Kona hans var Erla Maggý Guðjónsdóttir frá Sauðárkróki.
Haukur lést 9. september 2013.

Jónas Kristjánsson (1870-1960)

  • S00532
  • Person
  • 20. sept. 1870 - 3. apríl 1960

Jónas Kristjánsson fæddist að Snæringsstöðum í Svínadal 20. september 1870. Jónas var stúdent frá Lærða skólanum í júní 1896. Cand. med. frá Læknaskólanum 11. febrúar 1901. Á árunum 1908-1938 fór hann utan í námsferðir og á seinni árum til að kynna sér matarræði og náttúrulækningar. Hann starfaði á sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn 1901, var héraðslæknir í Fljótdalshéraði 1901-1911. Hann þjónaði einnig á Hróarstunguhéraði 1905-1906 og 1908-1910. Hann sat á Arnheiðarstöðum 1901-1902 og síðan á Brekku í Fljótsdal.
Jónas var héraðslæknir í Sauðárkrókshéraði 1911-1938 og þjónaði jafnframt í Hofsóshéraði frá 1924, að hluta á móti héraðslækninum í Siglufjarðarhéraði. Er hann fékk lausn frá embætti árið 1938, fluttist hann til Reykjavíkur og var starfandi læknir þar, uns hann gerðist læknir við heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði frá stofnun þess 1955 og til ársins 1958. Jónas sat á Alþingi 1927-1930. Hann átti frumkvæði að stofnun skátafélags á Sauðárkróki, var forseti Framfarafélags Skagfirðinga 1914-1938 og formaður Tóbaksbindindisfélags Sauðárkróks. Sat í stjórn Náttúrulækningafélagsins á Sauðárkróki 1937-1938 og Náttúrulækningafélags Íslands í Reykjavík frá stofnun þess 1939 til æviloka.
Kona hans var Hansína Benediktsdóttir (1874-1948) frá Grenjaðarstað.

María Rögnvaldsdóttir (1885-1968)

  • S00541
  • Person
  • 4. maí 1885 - 27. október 1968

María var fædd í Réttarholti í Blönduhlíð, dóttir Rögnvaldar Björnssonar og Freyju Jónsdóttur. Hún ólst upp í Réttarholti, utan þriggja ára sem þau bjuggu á Bjarnastöðum. María veiktist af berklum sem barn og var lengi vel vart hugað líf. María var vel skáldmælt og eftir hana birtust ljóð og stökur í blöðum og tímaritum. Hún orti mikið af eftirmælum og er til eftir hana töluvert ljóðasafn. María kvæntist Gamalíel Sigurjónssyni frá Staðartungu í Hörgárdal, þau eignuðust þrjú börn. Þau reistu sér bú í Grundargerði í Blönduhlíð og bjuggu þar í sex ár, síðast búsett á Sauðárkróki.

Sólveig Kristjánsdóttir (1923-2012)

  • S00542
  • Person
  • 21. júní 1923 - 1. ágúst 2012

Sólveig Kristjánsdóttir fæddist á Sauðárkróki hinn 21. júní 1923. Hún var dóttir hjónanna Sigríðar Daníelsdóttur frá Steinsstöðum í Tungusveit og Kristjáns Inga Sveinssonar frá Stekkjarflötum í Austurdal. ,,Sólveig var í foreldrahúsum á Sauðárkróki til tvítugs, en flutti þá með þeim til Hríseyjar og seinna til Siglufjarðar. Hún flutti til Reykjavíkur 1951 og bjó þar með manni sínum til 1996 er hann andaðist. Hún bjó áfram í Reykjavík til 2004, en flutti þá til Sauðárkróks fyrst í eigin íbúð, en síðar á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks." Sólveig giftist Gunnari Guðmundssyni frá Hóli á Langanesi, þau eignuðust saman þrjá syni, fyrir áttu þau bæði einn son.

Guðjón Jónsson (1902-1972)

  • S00546
  • Person
  • 27. janúar 1902 - 30. júlí 1972

Sonur Jóns Einarssonar í Héraðsdal og Sigríðar Margrétar Sigurðardóttur. Guðjón var fæddur og uppalin á Tunguhálsi en móðir hans var vinnukona þar er hann fæddist. Hann var fljótlega tekinn í fóstur af hjónunum á Tunguhálsi, þeim Guðrúnu Þorleifsdóttur og þáverandi manni hennar Guðmundi Ólafssyni. Guðmundur lést árið 1908 og ári síðar kvæntist Guðrún Sveini Stefánssyni sem þá gekk Guðjóni í föðurstað. Guðjón útskrifaðist sem búfræðingur frá Hólum vorið 1922 og tók að hluta við búsforráðum af stjúpa sínum á Tunguhálsi árið 1929 en alfarið árið 1938. Guðjón valdist til margvíslegra ábyrgðar- og trúnaðarstarfa fyrir sveitarfélagið, sat m.a. í hreppsnefnd 1944-1958 og var oddviti mestallan tímann. Guðjón var jafnframt einn af stofnendum og framkvæmdastjóri Landþurrkunarfélags Lýtingsstaðahrepps árið 1945 en starf þess félags markaði tímamót í samgöngumálum sveitarinnar. Guðjón kvæntist Valborgu Hjálmarsdóttur, þau eignuðust sex börn. Árið 1964 létu Guðjón og Valborg af búskap á Tunguhálsi og fluttu til Sauðárkróks þar sem Guðjón starfaði um skeið sem framkvæmdastjóri Verslunarfélags Skagfirðinga.

Árni Magnússon (1872-1936)

  • S00562
  • Person
  • 19.05.1872 - 18.04.1936

Árni Magnússon fæddist að Utanverðunesi í Rípurhreppi í Skagafirði 19. maí 1872, sonur Magnúsar Árnasonar og Sigurbjargar Guðmundsdóttur. Eftir uppvaxtarárin að Utanverðunesi, fór Árni til náms í Reykjavík. Þar nam hann klæðskeraiðn og vann við það um skeið. Árið 1899 hóf hann búskap að Utanverðunesi. Þaðan fluttist hann búferlum í Óslandshlíð ári seinna, en fór svo aftur að Utanverðunesi árið 1901. Hann stundaði ferjustörf á vesturósi Héraðsvatna og veiðiskap með búrekstrinum. Árið 1907 flutti hann til Sauðárkróks. Þar byggði hann sér hús við Suðurgötu 6 sem hann nefndi Nes. Þar hafði hann nokkurn búrekstur með annarri atvinnu. Þá var hann símaaðgjörðarmaður í 18 ár. Kona hans var Anna Rósa Pálsdóttir (1880-1923), þau eignuðust tvö börn. Þau voru ein af stofnendum Góðtemplara reglunnar á Sauðárkróki.

Stefán Guðmundsson (1932-2011)

  • S00611
  • Person
  • 24. maí 1932 - 10. september 2011

Fæddur og uppalinn á Sauðárkróki. Foreldrar hans voru Guðmundur Sveinsson, f. 11.3. 1893, d. 19.10. 1967, frá Hóli í Sæmundarhlíð, skrifstofustjóri og fulltrúi hjá KS, og Dýrleif Árnadóttir, f. 4.7. 1899, d. 8.3. 1993, frá Utanverðunesi í Hegranesi. Hinn 16.2. 1957 kvæntist Stefán Sigríði Hrafnhildi Stefánsdóttur, (Lillu), þau eignuðust þrjú börn og bjuggu alla sína búskapartíð á Sauðárkróki. ,,Stefán lauk gagnfræðaprófi á Sauðárkróki 1949 og prófi frá Iðnskólanum á Sauðárkróki 1951. Árið 1956 lauk hann sveinsprófi í húsasmíði og árið 1959 öðlaðist hann meistararéttindi. Árið 1963 stofnaði hann ásamt fleiri Trésmiðjuna Borg hf. á Sauðárkróki og var framkvæmdastjóri hennar 1963-1971. Hann tók þátt í stofnun Útgerðarfélags Skagfirðinga hf. árið 1968 og var framkvæmdastjóri þess 1971-1981. Stefán sat í bæjarstjórn Sauðárkróks 1966-1982 og í sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar 1998-2002. Stefán var alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra 1979-1999. Hann sat í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, síðar Byggðastofnunar, 1980-1987 og árið 1995 og var formaður stjórnar 1983-1987. Þá sat Stefán í stjórn Steinullarverksmiðjunnar hf. 1982-2011 og í stjórn Fiskiðju Sauðárkróks, nú Fisk Seafood hf., frá 1983 til dauðadags. Þá sat Stefán í stjórn Kaupfélags Skagfirðinga frá 1982 og var formaður stjórnar frá 1999 til dauðadags. Auk þessa átti Stefán sæti í fjölmörgum nefndum og ráðum og sinnti margs konar trúnaðarstörfum bæði heima í héraði og á landsvísu. Stefán var félagi í Lionsklúbbi Sauðárkróks um langt árabil til dauðadags. Á yngri árum tók Stefán virkan þátt í íþróttalífi og átti fjölmörg héraðsmet í frjálsum íþróttum auk þess að leika knattspyrnu með ungmennafélaginu Tindastóli. Stefán var mikill áhugamaður um skógrækt og var um árabil formaður stjórnar Norðurlandsskóga."

Stefán Magnússon (1906-1981)

  • S00619
  • Person
  • 6. mars 1906 - 9. maí 1981

Stefán var fæddur og uppalinn í Torfmýri í Blönduhlíð, sonur Magnúsar Hannessonar og Jakobínu Gísladóttur. Árið 1923 réðst hann sem vinnumaður að Reynistað til Jóns Sigurðssonar, þar sem hann dvaldist til 1937 er hann fluttist til Sauðárkróks. Stefán starfaði mikið fyrir Sögufélag Skagfirðinga og var einn af hvatamönnum að stofnun Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Aðalstarf Stefáns var þó bókband en það vann hann við í rúm 40 ár og talið er að hann hafi árlega bundið 2000-3000 bækur.
Stefán var ókvæntur og barnlaus.

Sigrún Jóhannesdóttir (1889-1934)

  • S00638
  • Person
  • 1. ágúst 1889 - 28. mars 1934

Foreldrar: Jóhannes Davíð Ólafsson sýslumaður á Sauðárkróki 1884-1897 og k.h. Margrét Guðmundsdóttir Johnsen. Var í Hafnarstræti 92 á Akureyri, Eyj. 1910. Kvæntist Sigvalda Bendy gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn.

Elenóra Lovísa Jónsdóttir (1903-1992)

  • S00688
  • Person
  • 15. apríl 1903 - 20. des. 1992

Foreldrar: Elísabet Gísladóttir frá Æsustöðum og Jón Jónsson b. á Eyvindarstöðum, þau voru ekki kvænt. Elenóra ólst upp á Sauðárkróki með móður sinni. Kvæntist Steindóri Benediktssyni frá Kimbastöðum, þau bjuggu alla sína búskapartíð í Birkihlíð í Staðarhrepp, árið 1968 fengu þau viðurkenningu úr Fegrunarsjóði Sparisjóðs Sauðárkróks fyrir góða umgengni og þrifnað. Elenóra og Steindór eignuðust einn son.

Jón Sigfússon (1892-1957)

  • S00693
  • Person
  • 15.11.1892-28.08.1957

Foreldrar: Sigfús Jónsson prestur á Mælifelli og k.h. Petrea Þorsteinsdóttir. Jón ólst upp hjá foreldrum sínum og fluttist með þeim að Mælifelli aldamótaárið 1900. Eftir fermingu fór hann til Akureyrar í Gagnfræðaskólann og stundaði þar nám í tvo vetur. Aðra tvo vetur var hann í Hólaskóla og lauk þaðan búfræðiprófi árið 1912. Að því loknu starfaði hann hjá Einari Helgasyni garðyrkjumanni í Reykjavík og kynnti sér uppeldi trjáplantna. Vann hann á búi foreldra sinna næstu tvö ár. Hann kvæntist árið Jórunni Hannesdóttur og fluttist þá aftur heim að Mælifelli og og hóf þar búskap í félagi við foreldra sína. Vorið 1915 fluttust þau hjón að Glaumbæ og bjuggu þar í tvö ár, en fluttust þá aftur heim að Mælifelli og bjuggu þar í tvö ár, en þá brugðu þau búi og fluttust til Sauðárkróks, þar sem heimili þeirra stóð upp frá því, meðan bæði lifðu. Jón hóf störf hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og er deildaskipting var tekin upp, varð hann deildarstjóri í vefnaðarvörudeild og sinnti því starfi til lokadags. Var hann mikill samvinnumaður og um langt árabil fulltrúi á aðalfundum KS. Er ævi hans lauk, átti hann að baki lengstan starfsaldur þeirra sem hjá félaginu höfðu unnið allt frá stofnun þess árið 1889. Jón var sönghneigður, söng lengi í Karlakór Sauðárkróks og lék um skeið með Lúðrasveit Sauðárkróks, enda einn af stofnendum hennar.

Eggert Ólafur Briem (1867-1936)

  • S00706
  • Person
  • 25.07.1867-07.07.1936

Fæddur á Hjaltastöðum í Blönduhlíð, sonur Eggerts Briem sýslumanns á Reynistað og Ingibjargar Eiríksdóttur. Eggert varð stúdent frá Reykjavíkurskóla 1887 með 1. eink., cand. júris. Kaupmannahöfn 1893 með 1. eink. Sama ár settur málafl.maður við landsyfirréttinn. Settur sýslumaður í Norður-Múlasýslu 1896, fékk Skagafjarðarsýslu 1897 og var sýslumaður þar til 1904. Skrifstofustjóri í Stjórnarráðinu í Reykjavík 1904-1915. Dómari í landsyfirréttinum 1915-1919. Skipaður hæstaréttardómari 1919-1935. Sat í stjórn Búnaðarfélags Íslands 1909-1919 og í landskjörstjórn 1916-1926. Kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur frá Auðkúlu, þau eignuðust tvö börn.

Sigríður Eggertsdóttir Briem Thorsteinsson (1901-1998)

  • S00708
  • Person
  • 9. júlí 1901 - 2. júlí 1998

Sigríður Briem Thorsteinsson fæddist á Sauðárkróki 9. júlí 1901, dóttir Eggerts Briem þáverandi sýslumanns á Sauðárkróki og Guðrúnar Jónsdóttur frá Auðkúlu. ,,Sigríður stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík 1915-1918. Þá stundaði hún teikninám og handavinnunám í Kaupmannahöfn 1922, enskunám í London 1927 og nam við snið- og handavinnuskóla í Frankfurt am Main 1933. Hún var handavinnukennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1919­-1953. Sigríður sat í stjórn Hjúkrunarfélagsins Líknar og Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur 1943­-1955, var í nefnd til að gera tillögu um handavinnunám í skólum árið 1947, sat í skólanefnd Húsmæðraskóla Reykjavíkur frá 1950 og var formaður skólanefndar Kvennaskólans í Reykjavík 1955­-1983. Sigríður gerðist félagi í Hringnum árið 1921 og í Oddfellowreglunni árið 1939 og starfaði í Rb. stúkunni nr. 1, Bergþóru, meðan heilsan leyfði. Sigríður var sæmd fálkaorðunni fyrir störf sín að líknar- og menningarmálum." Sigríður giftist 6. júní 1953, Magnúsi Sch. Thorsteinsson, forstjóra í Reykjavík.

Kristján Gíslason (1863-1954)

  • S00735
  • Person
  • 15.06.1863-03.04.1954

Kristján ólst upp á Eyvindarstöðum í Blöndudal og bjó þar til 25 ára aldurs. Eyvindarstaðasystkinin voru alls 23, og komust 11 til fullorðinsaldurs. Frá Eyvindarstöðum fluttist Kristján með föður sínum að Sjávarborg í Skagafirði árið 1888. Þar dvaldist hann í tvö ár, en fór þaðan til Sauðárkróks 1890 og keypti sér borgarabréf. Hann náði verslunarsambandi við útlönd og hófst nú verslun hans, þótt í smáum stíl væri, í húsi Bjarna Jónassonar, svokölluðu "Græna húsi". Kaupsýsluhæfileikar Kristjáns komu fljótt í ljós, enda byggði hann nú stórt og miðlungs íveru- og verslunarhús á Sauðárkróki ásamt vörugeymslu og síðar mjög myndarlegu sláturhúsi. Verslun hans jókst jafnt og þétt, svo að á fyrri stríðsárunum 1914-1918 var hann orðinn með stærstu kaupmönnum á Sauðárkróki. Útibú rak hann frá aðalverslun sinni, er hann nefndi Bræðrabúð og mun þar aðallega hafa verið um staðgreiðsluverslun að ræða. Fyrir þessari búð stóð í mörg ár dóttir hans, Þórunn. Samhliða verslunarrekstrinum fór Kristján að yrkja jörðina. Hann mun manna fyrstur hafa byrjað ræktun á svokölluðum "móum" fyrir ofan kauptúnið. Síðar keypti hann Áshildarholt og hófst handa við stórfellda ræktun þar, byggði myndarlegt steinhús og pengingshús og girti af alla jörðina. Þegar Eimskipafélag Íslands var stofnað gerðist Kristján afgreiðslumaður þess á Sauðárkróki og var það til ársins 1942. Árið 1952 seldi Kristján eigur sínar á Sauðárkróki og fluttist alfarinn til R.víkur ásamt dóttur sinni Sigríði, er veitt hafði heimili hans forstöðu síðustu ár hans á Sauðárkróki. Hann hafði mikið yndi af söng og hljóðfæraslætti og var fyrsti organisti í Sauðárkrókskirkju um 1892, er hún var reist. Kristján kvæntist Björgu Eiríksdóttur frá Blöndudalshólum, þau eignuðust fimm börn.

Björn Halldór Kristjánsson (1897-1980)

  • S00739
  • Person
  • 14. nóv. 1897 - 28. jan. 1980

Sonur Kristjáns Gíslasonar kaupmanns á Sauðárkróki og Bjargar Eiríksdóttur. Stórkaupmaður í Hamborg í Þýskalandi og síðar í Reykjavík.

Björg Sigurðardóttir (1876-1954)

  • S00777
  • Person
  • 10. desember 1876 - 1. apríl 1954

Foreldrar: Sigurður Stefánsson og Þorbjörg Guðmundsdóttir í Vatnskoti. Sambýliskona Jóns Jónssonar á Kimbastöðum, þau bjuggu lengst af á Kimbastöðum, síðan í Borgargerði, á Sauðárkróki og síðustu árin á Hafsteinsstöðum. Björg og Jón eignuðust tvær dætur saman, fyrir átti Jón tvö börn.

Pétur Jónsson (1891-1951)

  • S00778
  • Person
  • 20.06.1891-19.06.1951

Sonur Jóns Jónssonar á Kimbastöðum og f.k.h. Guðrúnar Eggertsdóttur. Pétur var rétt sjö ára gamall þegar móðir hann lést en seinni kona föður hans, Björg Sigurðardóttir gekk honum í móðurstað örfáum árum síðar. Árið 1917 kvæntist hann Ólafíu Sigurðardóttur frá Eyri í Önundarfirði. Þau fluttu til Reykjavíkur 1920 þar sem Pétur starfaði við ræktunarstörf hjá mági sínum sem þá var héraðsráðunautur Kjalarnesþings. Árið 1925 fluttu þau aftur norður og settust að á Sauðárkróki þar sem Pétur stundaði ýmsa verkamannavinnu, m.a. brúarsmíði. Frá árinu 1933 starfaði hann sem verkstjóri og ráðningarmaður Uppskipunarfélagsins. Árið 1937 var hann kjörinn í hreppsnefnd þar sem hann sat eitt kjörtímabil. Starfaði svo frá árinu 1940-1950 sem frysti- og sláturhússtjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, einnig sá hann um hafnargarð og skipaafgreiðslu. Árið 1950 flutti fjölskyldan til Reykjavíkur vegna veikinda sem hrjáð höfðu Pétur um nokkurt skeið. Pétur og Ólafía eignuðust þrettán börn, tólf þeirra komust á legg.

Guðmundur Einarsson (1865-1907)

  • S00781
  • Person
  • 15.06.1865-25.09.1907

Foreldrar: Einar Baldvin Guðmundsson b. og alþingismaður á Hraunum og 1. k. h. Kristín Pálsdóttir frá Viðvík. Guðmundur ólst upp hjá foreldrum sínum á Hraunum og vann þar að bústörfum til lands og sjávar. Hann stundaði nám á Möðruvallaskóla líklega veturnar 1881-1883. Að lokinni þeirri skólagöngu fór hann utan til námsdvalar í Þýskalandi og Noregi. Nokkru eftir að hann kom úr utanförinni gekk hann í þjónustu Gránufélagsins á Sauðárkróki og lagði þar stund á verslunarstörf. Um 1890 varð hann bókhaldari Poppsverslunar á Sauðárkróki og gengdi því starfi til 1898, er hann varð verslunarstjóri Poppsverslunar á Hofsósi. Árið 1904 varð Guðmundur verslunarstjóri Gránufélagsins á Siglufirði og gegndi því starfi til æviloka. Guðmundur kvæntist Jóhönnu Stefánsdóttur frá Reynistað, þau eignuðust fjögur börn.

Kristín Eggertsdóttir Briem (1849-1881)

  • S00788
  • Person
  • 14. okt. 1849 - 10. des. 1881

Dóttir Eggerts Briem eldri, sýslumanns á Reynistað og Ingibjargar Eiríksdóttur. Kristín var vel menntuð og vann mikið að ýmsum félags-og framfaramálum. Var einn af stofnendum kvennaskólans í Ási í Hegranesi. Hún unni mjög tónlist og fyrir hennar forgöngu var fyrsta kirkjuorgelið í Skagafirði keypt í Reynistaðarkirkju. Kristín kvæntist Jean Valgard Claessen kaupmanni á Sauðárkróki, þau eignuðust fjögur börn, Kristín lést aðeins viku eftir fæðingu yngsta barnsins.

Jean Valgard Claessen (1850-1918)

  • S00808
  • Person
  • 09.10.1850-27.12.1918

Ólst upp með foreldrum sínum í Khöfn. Rak verslun í Hofsósi, kom þangað á vegum Chr. Thaae stórkaupmanns. Hann tók við stjórn Hofsósverslunar 1871, 21 árs gamall. Nokkrum árum síðar tók hann svo við stjórn verslunar í Grafarósi. En 1879 fluttist hann til Sauðárkróks og tók við stjórn verzlunar Lud. Popps. Gegndi hann því starfi uns Popp flutti sjálfur til Sauðárkróks árið 1885. Árið eftir stofnaði Claessen sjálfstæða verslun sem hann rak til haustsins 1904, er hann flutti til Reykjavíkur, nýskipaður landsféhirðir. Gegndi því starfi til vorsins 1918 þá veiktist hann og lést í árslok. Starf hans að félagsmálum á Sauðárkróki var bæði mikið og farsælt. Hann var einn af stofnendum Sparisjóðs Sauðárkróks og formaður hans um skeið. Fyrsti formaður og leiðbeinandi leikfélags Sauðárkróks. Einn af aðal hvatamönnum að byggingu Sauðárkrókskirkju og fyrsti formaður sóknarnefndar þar.
Kvæntist Kristínu Eggertsdóttur Briem 1876 og eignuðust þau saman fjögur börn, Kristín lést aðeins viku eftir að yngsta barnið fæddist. Seinni kona Jean Valgard var Anna Margrét Þuríður Kristjánsdóttir Möller, þau kvæntust árið 1885 og eignuðust fjögur börn saman, tvö þeirra komust á legg, fyrir átti Anna tvo syni.

Anna Margrét Þuríður Kristjánsdóttir Möller (1846-1918)

  • S00809
  • Person
  • 28.08.1846-20.02.1918

Dóttir Kristjáns Möller veitingamanns í Reykjavík og Sigríðar Magnúsdóttur. Fyrri maður Önnu var Jósef Gottfreð Blöndal verslunarstjóri í Grafarósi og áttu þau saman þrjú börn. Jósef Blöndal lést 1880. Í september 1885 giftist Anna Jean Valgard Claessen kaupmanni á Sauðárkróki. Saman eignuðust þau fjögur börn, tvö þeirra komust á legg. Fyrir átti Jean Valgard fjögur börn með Kristínu Eggertsdóttur Briem, Anna gekk þeim í móðurstað.

Árni Björnsson (1863-1932)

  • S00812
  • Person
  • 1. ágúst 1863 - 26. mars 1932

Fæddur og uppalinn á Höfnum á Skagaströnd. Stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1885, cand. theol. frá Prestaskólanum í Reykjavík 1887 og vígðist Reynistaðarklaustursprestakalls það sama ár. Gegndi hann því prestakalli um 26 ára skeið. Hann hóf búskap á prestssetrinu Fagranesi árið 1889 og nytjaði það að meira eða minna leyti flest prestskaparár sín, en flutti til Sauðárkróks árið 1894, enda hafði prestsetrið verið flutt þangað með lögum frá 1891og kirkja reist þar 1892. Hann var prófastur Skagfirðinga 1908-1913, sýslunefndarmaður í Skagafjarðarsýslu fyrir Sauðárkrók 1906-1913. Tók einnig mikinn þátt í starfi Góðtemplarareglunnar. Sumarið 1913 fékk hann Garða á Álftanesi, þar þjónaði hann í 19 ár. Var einnig prófastur Kjalarnessprófastsdæmis frá 1916 til dauðadags og sýslunefndarmaður í Gullbringusýslu. Bjó síðustu þrjú árin í Hafnarfirði.
Maki: Líney Sigurjónsdóttir frá Laxamýri í Aðaldal, þau eignuðust 12 börn.

Hálfdán Guðjónsson (1863-1937)

  • S00813
  • Person
  • 23.05.1863-07.03.1937

Fæddur í Flatey á Breiðafirði þar sem faðir hans var prestur, foreldrar: sr. Guðjón Hálfdánarson og Sigríður Stefánsdóttir. Hálfdán útskrifaðist úr Prestaskólanum 1886 og var vígður sama ár til Goðdala. Fékk Breiðabólstað í Vesturhópi 1894 og Reynistaðarprestakall 1914, búsettur á Sauðárkróki, þjónaði því til 1934. Prófastur í Húnavatnssýslu 1907-1914 og í Skagafjarðarsýslu 1919-1934. Vígslubiskup í Hólabiskupsdæmi 1928 til æviloka 1937. Jafnframt gegndi Hálfdán hinum ýmsu trúnaðarstörfum, var alþingismaður Húnvetninga 1909-1911, sýslunefndarmaður í Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu um tíma. Sat í stjórn Sparisjóðs Sauðárkróks í 20 ár. Hálfdán kvæntist Herdísi Pétursdóttur frá Valadal, þau eignuðust fimm börn, tvö þeirra komust á legg.

Ingibjörg Guðmundsdóttir (1876-1936)

  • S00889
  • Person
  • 18.08.1876-13.09.1936

Fædd í Vatnahverfi í Refasveit. Kvæntist Þorleifi Þorbergssyni frá Selá á Skaga, þau bjuggu á Sauðárkróki. Eftir að Þorleifur lést úr holdsveiki 1906 flutti Ingibjörg til Gísla bróður síns sem þá rak Hótel Tindastól. Ingibjörg og Þorleifur eignuðust eina dóttur.

Guðrún Erlendsdóttir (1887-1938)

  • S00904
  • Person
  • 16.12.1887-11.04.1938

Foreldrar: Erlendur Pálsson bókhaldari á Sauðárkróki, síðar verslunarstjóri í Grafarósi og Hofsósi og k.h. Guðbjörg Stefánsdóttir. Guðrún ólst upp á Sauðárkróki, lauk þar barnaskólanámi og mun einnig hafa lært orgelleik. Fjölskyldan fluttist til Grafaróss 1903 þar sem þau bjuggu til 1915. Guðrún var organisti í kirkjunni á Hofi um skeið og kenndi lítillega orgelleik í Hofsósi og á Siglufirði. Hún flutti til Patreksfjarðar 1913 þar sem hún bjó til 1918 er hún sneri aftur til Hofsóss. Kvæntist árið 1921 Árna Jóhannssyni verslunarmanni á Hofsósi og á Sauðárkróki. Árið 1928 fluttu þau til Siglufjarðar. Þau eignuðust einn son.

Stefán Jónsson (1856-1910)

  • S00908
  • Person
  • 27. okt. 1856 - 5. maí 1910

Sonur Jóhönnu Hallsdóttur og sr. Jóns Hallssonar prófasts í Glaumbæ. Ólst upp hjá foreldrum sínum. Stefán var við verslunarstörf á Skagaströnd og síðar á Sauðárkróki. Fór utan til Kaupmannahafnar 1876. Var þar í verslunarskóla veturnar 1876-1878 er hann útskrifaðist. Að loknu námi varð hann verslunarstjóri við verslun Sveinbjörns Jacobsen á Sauðárkróki. Í ársbyrjun 1884 keypti hann ásamt föður sínum verslunarhúsin á Sauðárkróki og alla aðstöðu þar, það sama ár stofnsetti Gránufélagið verslun á Sauðárkróki og leigði Stefán félaginu verslunarhúsin og alla aðstöðu og gerðist verslunarstjóri hjá félaginu. Gránufélagsverslunin blómstraði undir stjórn Stefáns og árið 1900 var hún orðin stærsta verslunin við Skagafjörð. Stefán var einn helsti frumkvöðullinn að stofnun Sparisjóðs Sauðárkróks 1886 og fyrsti gjaldkeri hans og síðar formaður til æviloka. Hann átti einnig mikinn þátt í að koma upp sjúkrahúsi á Sauðárkróki.
Kona 1: Ólöf Hallgrímsdóttir frá Akureyri, þau eignuðust tvö börn saman. Ólöf lést árið 1901.
Kona 2: Elín Briem frá Reynistað, þau eignuðust ekki börn saman.
Stefán ól upp systurdóttur sína.

Jósefína Erlendsdóttir (1894-1937)

  • S00911
  • Person
  • 2. nóv. 1894 - 19. nóv. 1937

Dóttir Erlendar Eysteinssonar og Ástríðar Helgu Sigurðardóttur á Beinkeldu í Reykjabraut. Jósefína ólst upp með foreldrum sínum, fyrst á Beinkeldu og síðar á Stóru-Giljá. Jósefína fór ung til Reykjavíkur þar sem hún lærði m.a. að sauma karlmannsföt. Síðar stundaði hún nám í Kvennaskólanum á Blönduósi. Hún giftist árið 1913, þá 19 ára gömul, Guðmundi Frímannssyni kennara frá Hvammi í Laxárdal, þau eignuðust eina dóttur, þau slitu samvistum. Árið 1919 kvæntist hún Friðriki Hansen frá Sauðá í Borgarsveit, þau eignuðust átta börn saman.

Arnór Sigurðsson (1919-1998)

  • S00920
  • Person
  • 01.03.1919-14.11-1998

Arnór Sigurðsson fæddist á Ísafirði 1. mars 1919. Foreldrar Arnórs voru Sigurður Sigurðsson, sýslumaður í Skagafirði, f. í Vigur í Ísafjarðardjúpi og kona hans Guðríður Stefanía Arnórsdóttir. Arnór kvæntist árið 1943 Guðrúnu Sveinsdóttur, f. 30.3. 1922, d. 24.7. 1981. Arnór og Guðrún eignuðust tvö börn. Sýsluskrifari og verslunarmaður á Sauðárkróki. Var á Sauðárkróki 1930. Síðast bús. í Kópavogi. ,,Arnór flutti barnungur frá Reykjavík til Sauðárkróks þar sem hann bjó til ársins 1996. Hann starfaði sem sýsluskrifari á Sauðárkróki frá árinu 1941 en síðar sem yfirmaður í afgreiðslu skipadeildar hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Arnór var verðlagseftirlitsmaður á Norðurlandi vestra til ársins 1990. Síðustu tvö æviárin bjó hann í Fögrubrekku í Kópavogi."

Stefán Sigurðsson (1920-1993)

  • S00926
  • Person
  • 19.03.1920-08.02.1993

Fæddur á Ísafirði. Foreldrar: Sigurður Sigurðsson, sýslumaður Skagfirðinga og Stefanía Arnórsdóttir. Stefán stundaði ýmis störf til lands og sjós á yngri árum. Varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1942 og cand. Juris frá Háskóla Íslands árið 1951. Að námi loknu gegndi hann stöðu fulltrúa sýslumanns Skagfirðinga og bæjarfógetans á Sauðárkróki, eða frá 1952-1961. Hann varð héraðsdómslögmaður árið 1958. Maki: Erla Gísladóttir. Þau eignuðust ekki börn. Þau fluttust á Akranes árið 1961 og starfaði Stefán um skeið sem fulltrúi bæjarfógeta þar. Stofnaði síðan lögmannsstofu sem hann rak til dánardags.

Halldóra Sigurlaug Jónsdóttir (1921-2009)

  • S00935
  • Person
  • 11.03.1921-25.09.2009

Halldóra Sigurlaug Jónsdóttir fæddist í Þverárdal í Bólstaðarhlíðarhreppi, Austur-Húnavatnssýslu, 11. mars 1921. Foreldrar Halldóru voru Jón Björnsson bóndi á Heiði og Finney Reginbaldsdóttir. ,,Halldóra ólst upp í Skagafirði. Fram til 5 ára aldurs bjó hún á Sjávarborg í Borgarsveit og til 15 ára aldurs á Heiði í Gönguskörðum er hún flutti til Sauðárkróks. Hún hóf skólagöngu sína í farskólum til skiptis á bæjunum Heiði og Veðramóti og útskrifaðist gagnfræðingur frá Sauðárkróki. Hún stundaði síðan nám í húsmæðradeild Kvennaskólans í Reykjavík. Halldóra fór þá til starfa á Sjúkrahúsi Siglufjarðar. Á Siglufirði kynntist hún eiginmanni sínum Jóhannesi Þórðarsyni og bjuggu þau þar eftir það. Halldóra vann meðal annars við verslunarstörf, síldarsöltun og ræstingar. Halldóra starfaði mikið að félagsmálum og lét til sín taka í mörgum félagasamtökum, meðal annars í Slysavarnafélaginu, Rauða krossinum, Krabbameinsfélaginu, Hjartavernd og Framsóknarflokknum. Í mörgum félögunum á Siglufirði var hún formaður um langt skeið. Hún starfaði jafnframt í nefndum á vegum Siglufjarðarbæjar." Halldóra og Jóhannes eignuðust tvö börn.

Ingvar Jónsson (1917-2003)

  • S00939
  • Person
  • 8. janúar 1917 - 18. janúar 2003

Ingvar Jónsson fæddist í Steinholti í Staðarhreppi í Skagafirði 8. janúar 1917. Foreldrar hans voru Áslaug Egilsdóttir og Jón Guðmundsson. ,,Ingvar ólst upp á Sauðarkróki. Hann stundaði nám í Íþróttaskólanum í Haukadal 1937-38. Hinn 19. apríl 1942 kvæntist Ingvar Elínborgu Ásdísi Árnadóttur frá Kringlu í Torfalækjarhreppi. Bjuggu þau fyrstu árin á Sauðárkróki en fluttu til Akranes 1945 og svo til Skagastrandar 1950 og bjuggu þar allt til enda, þau eignuðust þrjú börn."

Árni Halldórsson (1916-1995)

  • S00940
  • Person
  • 12.04.1916-01.01.1995

Sonur Karólínu Sigurrósar Konráðsdóttur og Halldórs Stefánssonar smiðs á Sauðárkróki. Kaupmaður í Hafnarfirði, kvæntist Guðrúnu Valdimarsdóttur.

Jón Björnsson (1891-1983)

  • S00956
  • Person
  • 17. júlí 1891 - 27. júlí 1983

Sonur Björns Sveinssonar og Guðbjargar Jónsdóttur. Ólst upp með foreldrum sínum í Húnaþingi til 11 ára aldurs. Árið 1915 keypti Jón jörðina Þverárdal í Laxárdal fremri ásamt föður sínum. Sumarið 1919 kvæntist hann Finneyju Reginbaldsdóttur frá Látrum í Aðalvík. Árið 1921 keyptu ungu hjónin og faðir hans jörðina Sjávarborg í Borgarsveit og bjuggu þar til 1926 er Jón keypti Heiði í Gönguskörðum þar sem þau bjuggu í tíu ár. Árið 1936 fluttu þau til Sauðárkróks og keyptu fljótlega Hótel Tindastól þar sem þau ráku veitinga- og gistiþjónustu fram á árið 1941 er breska setuliðið krafðist afnota af húsinu. Í Skarðshreppi gegndi Jón ýmsum trúnaðarstörfum, sat í hreppsnefnd og sýslunefnd, var formaður búnaðarfélags og virðingarmaður fasteigna. Á Sauðárkróki starfaði Jón sem sláturhússtjóri hjá Sláturfélagi Skagfirðinga í 11 ár, sá um gæðamat og vigtun á ull og gærum hjá K.S., var stöðvarstjóri hjá Vörubílastöð Skagafjarðar í 18 ár, umboðsmaður fyrir Ölgerð Egils Skallagrímssonar í 34 ár og Líftryggingafélagið Andvöku í allmörg ár. Jón var einn af stofnendum Byggingarsamvinnufélags Sauðárkróks og Stangveiðifélags Sauðárkróks og formaður beggja félaga um tíma.
Jón og Finney eignuðust tvær dætur.

Þorvaldur Einarsson (1851-1921)

  • S00968
  • Person
  • 21.01.1851-01.01.1921

Frá Nýjabæ á Álftanesi, þar sem hann ólst upp með foreldrum sínum til fermingaraldurs. 23 ára gamall réðst hann sem kaupamaður að Veðramóti í Gönguskörðum. Þaðan fluttist hann til Sauðárkróks og var þar búsettur upp frá því og stundaði sjómennsku og aðra verkamannavinnu. Árið 1875 kvæntist hann Láru Sigfúsdóttur frá Gilsárvallahjáleigu í N.-Múlasýslu, þau eignuðust tvær dætur.

Ingibjörg Jónsdóttir (1890-1985)

  • S00977
  • Person
  • 14. júní 1890 - 3. okt. 1985

Dóttir Jóns Guðmundssonar hreppstjóra á Sauðárkróki (1907-1920) og Guðbjargar Sölvadóttur frá Skarði. Kvæntist Birni Magnússyni frá Garðakoti. Þau bjuggu á Borðeyri og Ísafirði.

Unnur Magnúsdóttir (1894-1985)

  • S00990
  • Person
  • 29.06.1894-17.11.1985

Foreldrar: Magnús Benediktsson formaður á Sauðárkróki og k.h. Guðný Jónasdóttir. Þegar hún var 13 ára gömul missti hún föður sinn og ömmu úr taugaveiki. Unnur var næstelst systkina sinna og þurfti fljótlega eftir þetta að fara að vinna fyrir sér. Árið 1918 réðst hún vinnukona hjá Kristínu og Kristni Briem. Þar kynntist hún Jóni Björnssyni og kvæntust þau árið 1919. Árið 1920 keyptu þau sér eigið hús á Sauðárkróki og bjuggu þar næstu 60 árin, þau eignuðust fimm börn.

Guðný Jónasdóttir (1866-1943)

  • S01003
  • Person
  • 11.08.1866-16.06.1943

Fædd á Skottastöðum í Svartárdal, Au-Hún. Guðný vann mikið og merkilegt starf fyrir Góðtemplararegluna á Sauðárkróki. Kvæntist Magnúsi Benediktssyni, þau bjuggu á Sauðárkróki og eignuðust sex börn.

Sigurður Guðmundsson (1855-1951)

  • S01005
  • Person
  • 18. ágúst 1855 - 7. apríl 1951

Foreldrar: Guðmundur Ólafsson og k.h. Sigríður Símonardóttir. Sigurður ólst upp hjá foreldrum sínum fyrstu árin og fór með þeim frá Hvammkoti á Höfðaströnd að Bæ í sömu sveit 1863, ári seinna missti hann föður sinn og var eftir því í vinnumennsku víða í Sléttuhlíð, b. í Ártúni á Höfðaströnd 1888-1890 og vinnumaður á Bæ á Höfðaströnd 1893-1898. Fluttist það sama ár til Sauðárkróks og var tómthúsmaður þar til 1916 er hann fluttist til Reykjavíkur þar sem hann bjó til æviloka. Sigurður var allajafna nefndur Siggi „bæjar“ af Sauðárkróksbúum enda kenndur við Bæ á Höfðströnd. „Hann var fjörmaður mikill... glaðlyndur og greiðugur og með afbrigðum barngóður“. Kvæntist Jónínu Magnúsdóttur frá Hamri í Fljótum, þau eignuðust eina dóttur.

Jón Björnsson (1891-1982)

  • S01011
  • Person
  • 17. nóvember 1891 - 17. september 1982

Foreldrar: Björn Björnsson og Guðbjörg Guðjónsdóttir. Jón ólst upp með foreldrum sínum, sem komu úr Svarfaðardal til Skagafjarðar árið 1903 og settust að á Hrappstöðum (nú Hlíð) í Hjaltadal. Árið 1908 fluttu þau búferlum að Unastöðum í Kolbeinsdal og bjuggu þar til 1915. Vorið 1910 réðst Jón til vinnu á Hólum við fjós- og hlöðubyggingu og komst um haustið í skólann, þar sem hann lauk búfræðiprófi vorið 1912. Sumarið milli námsvetranna vann hann í gróðrastöðinni á Hólum. Árið 1915 hóf Jón störf hjá Kristni Briem kaupmanni á Sauðárkróki og starfaði þar í 23 ár eða til 1938. Eftir það tók hann að sér deildarstjórastöðu í Ytribúðinni / Gránu þar sem hann starfaði samfleytt í 32 ár eða til ársins 1970.
Jón kvæntist Unni Magnúsdóttur, þau eignuðust fimm börn.

Hólmfríður Friðriksdóttir (1937-2013)

  • S01013
  • Person
  • 03.07.1937-02.02.2013

Hólmfríður Friðriksdóttir fæddist á Sauðárkróki 3. júlí 1937. Foreldrar hennar voru Friðrik Guðmann Sigurðsson bifvélavirki og Brynhildur Jónasdóttir, húsmóðir og verkakona. Hólmfríður giftist 26.9.1959 Jóni Karli Karlssyni frá Mýri Bárðardal, þau eignuðust þrjú börn. ,,Starfsferill Hólmfríðar einkenndist í upphafi af hefðbundnum verkakvennastörfum og verslunar- og þjónustustörfum. Þannig vann hún við verslanir Kaupfélags Skafirðinga, um tíma við fiskvinnslu og verksmiðjustörf, en lengst af á umboðsskrifstofu Brunabótafélags Íslands á Sauðárkróki og seinna VÍS, þar af lengi sem umboðsmaður ásamt eiginmanni sínum. Hún tók þátt í ýmsum félagsstörfum og lengst af í Lionshreyfingunni þar sem hún var mjög virk, bæði í sínum klúbbi og með eiginmanni sínum."

Marta Sigríður Sigtryggsdóttir (1931-

  • S01014
  • Person
  • 30.11.1931

Foreldrar hennar voru Ágústa Jónasdóttir og Sigtryggur Einarsson. Kvæntist Jóni Ósmanni Magnússyni frá Héraðsdal. Búsett á Sauðárkróki.

Tómas Hallgrímsson (1925-1978)

  • S01016
  • Person
  • 22.02.1925-20.11.1978

Foreldrar: Hallgrímur Tómasson kaupmaður í Reykjavík og k.h. Guðrún Einarsdóttir. Tómas ólst upp í Reykjavík. Ungur að árum fór Tómas að vinna við nýlenduverslun Jóns Hjartarsonar. Árið 1946 fluttist hann til Sauðárkróks og réðist til Kaupfélags Skagfirðinga þar sem hann starfaði óslitið í 32 ár. Tómas starfaði um skeið allmikið með Leikfélagi Sauðárkróks og var einn af stofnendum Lionsklúbbs Sauðárkróks. Árið 1952 kvæntist Tómas Rósu Þorsteinsdóttur frá Sauðárkróki, þau eignuðust níu börn, fyrir átti Tómas einn son.

Páll Jóhannsson (1888-1981)

  • S01033
  • Person
  • 20.08.1888-02.06.1981

Foreldrar: Ingibjörg Guðjónsdóttir vk. á Skíðastöðum, síðar búsett á Herjólfsstöðum og Jóhann Eyjólfsson vinnumaður á Skíðastöðum. Var ráðsmaður hjá móður sinni á Herjólfsstöðum en þar stóð hún fyrir búi 1902-1914. Páll giftist Ágústu Runólfsdóttur frá Sauðárkróki árið 1914. Þau bjuggu á Herjólfsstöðum 1914-1915, á Sauðárkróki 1915-1924 og á Hrafnagili í Laxárdal 1924-1925. Voru um tíma í Brennigerði áður en þau fluttu aftur til Sauðárkróks þar sem þau bjuggu þar til þau fluttu til Akureyrar árið 1940. Páll veiktist af taugaveiki nokkru fyrir miðjan þriðja áratuginn og átti lengi í þeim veikindum. Þessu fylgdu miklir erfiðleikar og þurftu þau að láta þrjú af börnum sínum frá sér á sveit og elsta dóttirin fór til ömmu sinnar á Herjólfsstöðum. Páll og Ágústa eignuðust níu börn saman en fyrir hafði Ágústa eignast tvo syni.

Results 1 to 85 of 657