Showing 12 results

Authority record
Organization Sauðárkrókur

Bifröst hf. (1947-

  • S02584
  • Organization
  • 23.02.1947-

Hlutafélagið Bifröst var stofnað á Sauðárkróki 23.02.1947. Heimili þess og varnarþing var á Sauðárkróki. Tilgangur þess var að reka samkomuhús á Sauðárkróki. Samkomuhúsið hafði þó verið tekið í notkun árið 1925 og hýsti m.a. dansleiki og leiksýningar. Stofnendur hlutafélagsins voru UMF Tindastóll með 12 hluti, Verkamannafélagið Fram með 6 hluti og Verkakvennafélagið Aldan, Hið skagfirska kvenfélag og Leikfélag Sauðárkróks með 3 hluti hvert. Í fyrstu stjórn hlutafélagsins voru Ole Bang (formaður) Friðvin Þorsteinsson, Árni Jóhannsson, Jórunn Hannesdóttir og Ingibjörg Ágústsdóttir. Á áttunda áratugnum er til fyrirtæki með sama nafni og virðist því búið að leggja hlutafélagið niður.

Byggingarnefnd Sauðárhrepps (1907-1947)

  • S02292
  • Organization
  • 1907-1947

Byggingarnefnd Sauðárhrepps tók til starfa þegar Sauðárhreppur var stofnaður og starfaði fram til ársins 1947, en þá fékk Sauðárkrókur kaupstaðarréttindi og í kjölfar nýrrar bæjarstjórnar var stofnuð byggingarnefnd Sauðárkróks.

Heimilisiðnaðarfjelag Sauðárkróks (1919-1959)

  • S03432
  • Organization
  • 1919-1959

Heimilisiðnaðarfjelag Sauðárkróks var stofnað 23. mars 1919 á vegum kvenna úr Kvenfélagi Sauðárkróks með því markmiði að glæða hjá almenningi áhuga fyrir heimilisiðnaði. Félagið starfaði til ársins 1959. Á fyrstu árum félagsins var blómleg starfssemi í kennslu og margskonar leiðbeiningum í heimiliðsiðnaði, en varð með árunum einhæfari og að lokum hætti starfssemin.

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga (1947-)

  • S02219
  • Organization
  • 1947-

,,Héraðsskjalasafn Skagfirðinga var formlega stofnað í apríl 1947 og var það fyrst um sinn varðveitt í húsakynnum Bóksafns Skagafjarðarsýslu. Árið 1946 mælti Jón Sigurðsson alþingismaður á Reynistað fyrir frumvarpi þess efnis að heimila skyldi stofnun skjalasafna í einstökum héruðum, sem myndu þó heyra undir yfirstjórn Þjóðskjalasafns Íslands. Lög um héraðsskjalasöfn voru samþykkt í byrjun árs 1947 og í kjölfar þess var Héraðsskjalasafn Skagfirðinga stofnað og var það hið fyrsta sinnar tegundar. Hlutverk héraðsskjalasafnsins var, og er enn, meðal annars að innheimta og varðveita opinber gögn innan Skagafjarðarsýslu. Árið 1965 var hafist handa við byggingu nýs safnahúss og flutt í hluta hússins í lok árs 1969, opnun safnsins dróst þó á langinn og var það ekki opnað almenningi fyrr en í byrjun árs 1972. Fyrsti formlegi skjalavörður við safnið var Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg og gegndi hann því embætti til 1990 er Hjalti Pálsson tók við sem héraðsskjalavörður. Unnar Ingvarsson var héraðsskjalavörður frá 2000 til 2014. Núverandi héraðsskjalavörður er Sólborg Una Pálsdóttir og tók hún við því starfi árið 2014."

Karlakór Sauðárkróks (1963-2012)

  • S01237
  • Organization
  • 1963 - 2012

Karlakór Sauðárkróks var upprunalega stofnaður 20. nóvember 1935 og starfaði til ársloka 1942. Í janúar 1943 var stofnaður annar kór er hlaut nafnið Ásbirningar. Hann starfaði fram á mitt ár 1944. Karlakór Sauðárkróks var svo endurstofnaður 25. október 1963 og starfaði fram til ársins 1982. Hann var formlega lagður niður árið 2012.
Tilgangur félagsins er fyrst og fremst sá að halda uppi og efla karlakórsöng og sönglífi á Sauðárkróki og í Skagafjarðarsýslu.

Rótarýklúbbur Sauðárkróks (1948-

  • S02816
  • Organization
  • 26.09.1948-

Rótarýklúbbur Sauðárkróks var stofnaður 26.09.1948 í Hótel Villa Nóva á Sauðárkróki, að undangegnum þremur stofnfundum fyrr í sama mánuði.
Í fyrstu stjórn klúbbsins voru kosnir sr Helgi Konráðsson, forseti, Torfi Bjarnason héraðslæknir, varaforseti, Kristinn P. Briem kaupmaður, Ole Bang lyfsali, gjaldkeri og Valgarð Blöndal stallari. Fullgildingarhátíð klúbbsins var haldin 3. september árið 1949, að viðstöddu fjölmenni. Klúbburinn hefur unnið að ýmsum samfélagsverkefnum, svo sem uppsetningu útsýnisskífu, hljóðfærakaupum fyrir lúðrasveit, aðstoð við undirbúning þjóðhátíðar á Hólum. Einnig hefur klúbburinn staðið í ýmsum fjáröflunum og veitt verðlaun fyrir námsárangur.

Sauðárhreppur hinn forni

  • S02201
  • Organization
  • 1000-1907

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Sauðárhreppur verður til en það gerist líklega mjög snemma, jafnvel fyrir kristnitöku. Sauðárhreppur hinn forni dró nafn sitt af þingstað hreppsins að Sauðá. ,,Auk bænda í hreppnum máttu bændur frá Hryggjum og Gvendarstöðum í Staðarhreppi sækja þangað þing ef þeir kusu það frekar en sækja þing að Seylu, sem var mun lengra. Síðasta manntalsþing að Sauðá var 23. júní 1881. Næsta ár var þingið flutt til Sauðárkróks og hefur verið haldið þar síðan." Árið 1907 var hreppnum skipt upp í Skarðshrepp og Sauðárkrókshrepp.

Sparisjóður Sauðárkróks

  • IS-HSk
  • Organization
  • 1886-

Ekki er hægt að segja með fullri vissu um tildrög þess að sparisjóðurinn var stofnaður, stofnfundagerðin er ekki til og hefur jafnvel aldrei verið rituð. Ekkert finnst í skjölum sjóðsins sem getur gefið upplýsingar um stofnun hans en fyrstu lögin sem stofnendur sjóðsins undirrituðu, það var 10. júní 1886. Þá komu stofnendur sjóðsins saman til að samþykkja og skrifa undir samþykkt fyrir sjóðinn, en samkvæmt 1. gr. samþykktarinnar var ákveðið frá og með 1. ágúst 1886 væri Sparisjóður Sauðárkróks stofnaður. Stofnendurnir voru 16, úr 9 hreppum sýslunnar. Þeir ábyrgðust alls 2100 krónur til tryggingar að sjóðurinn stæði í skilum. Árið 1918 fjölgaði ábyrgðarmönnum úr 16 í 30.
Með bréfi frá landshöfðingjanum sem dagsett var 12. ágúst 1886 var sjóðnum veitt starfsréttindi.
Líklegt er að sýslumaðurinn Jóhannes Ólafsson hafi átt mikinn þátt í stofnun sjóðsins þar sem stofnendurnir kusu hann fyrir formann og var hann það til dauðadags. Jóhannes var þar að auki fyrsti viðskiptavinurinn, sjóðurinn hóf starfsemi sína með því að taka við innleggi frá honum.
Tilgangur sjóðsins er lýst í 2. gr. samþykktarinnar sem svo: "að koma í veg fyrir óþarfa kaup og eyðslusemi, en geyma og ávaxta fjé efnalítilla manna, sem þeir kynnu að hafa afgangs".
Allir höfðu jafnan aðgang að sjóðnum og stofnendur hans máttu ekki njót neins ágóða af honum. Átti sá arður, er fengist af starfsemi hans að ganga til almennra þarfa.
Árið 1917 var gerð lagabreyting og breyttist 2. gr. sem svo: "er að ávaxta fjé manna með því að lána það út aftur gegn fullnægjandi tryggingu".
Eitt aðalhlutverk Sparisjóðs Sauðárkróks var að efla sparsemi og fjársöfnun með því að ávaxta sparifé almennings sem síður safnar því ef sækja þarf slík viðskipti til banka í fjarlægum héruðum. Innistæðu eigendur virtust bera fyllsta traust til sparisjóðsins og því trausti brást hann ekki. Það fé sem sjóðurinn ávaxtaði lánaði hann eingöngu Skagfirðingum, til eflingar atvinnulífs og framfara í héraðinu.

Ungmennafélagið Tindastóll (1907- )

  • S02634
  • Organization
  • 1907-

Ungmennafélagið Tindastóll (U.M.F.T.) er íþróttafélag á Sauðárkróki stofnað 23. október 1907 í kjölfar þess að auglýst var á Sauðárkróki að fyrirhugað væri að stofna ungmennafélag er tæki yfir Skarðs- og Sauðárkrókshrepp. Auglýsing þessi var undirrituð af fjórum búfræðingum frá Hólaskóla, þeim Sigurði Á. Björnssyni og Þorbirni Björnssyni frá Veðramóti, Pétri Jakobssyni frá Skollatungu og Kristjáni Sigurðssyni á Sauðárkróki. Í kjölfar auglýsingarinnar var haldinn fundur á Sauðárkróki þann 26. október 1907. Á fundinum var rætt um þessa nýju félagshreyfingu og lýst starfstefnum ungmannafélaga hér á landi og gildi þeirra fyrir komandi kynslóð. Á fyrsta fundinum voru sambandslög fyrir ungmennafélög Íslands lesin upp ásamt skuldbindingaskrá, skrá þessi var lögð fram til undirritunar þeirra er vildu stofna hér ungmennafélag. Fjórtán manns rituðu nafn sitt undir skuldbindingaskrána þar með var Ungmennafélagið Tindastóll myndað. Ákveðið var að fresta fundinum um nokkra daga til að hægt væri að kjósa stjórn í félagið þar að eru svo fáir félagar höfðu skráð sig, en þeir sem þegar gengu í félagið höfðu tíma til að safna sem flestum stofnendum fyrir næsta fund. Tillagan var svo greidd með öllum greiddum atkvæðum. Fundarstjóra var síðan falið á fundinum að hafa samband við sambandsstjórnar ungmennafélaga á Akureyri að fá upplýsingar um atriði er félagið varðaði.
Í fyrstu lögum félagsins segir að tilgangur þess sé a) Að reyna að alefli vekja löngun hjá æskulýðnum, að starfa ötullega fyrir sjálft sig, land sitt og þjóð. b) Temja sér að beita starfskröftum sínum í félagi og utan félags. c) Allir félagar kappkostist við að efla andlegt trúarlíf meðal þjóðarinnar, einnig styðja og viðhalda öllu því sem þjóðlegt og rammíslenskt er viðhalda og halda móðurmálinu hreinu.

Verkakvennafélagið Aldan (1930-2001)

  • S01866
  • Organization
  • 1930-

Verkakvennafélagið Aldan var stofnað þann 9. janúar 1930 á Sauðárkróki. Stofnendur voru 21 talsins. Ástríður Stefánsdóttir ljósmóðir átti frumkvæði að stofnun félagsins. Í félagslögum segir m.a.: „Tilgangur félagsins er sá að styðja og efla hag félagskvenna og menningu á þann hátt, sem kostur er, meðal annars með því að ákveða vinnutíma og kaupgjald og stuðla að því, að verkalýðurinn taki sjálfstæðan þátt í stjórnmálum lands og bæjarfélags.“
Fyrstu stjórn skipuðu: Ástríður Stefánsdóttir, formaður, Sigríður A.N. Eiriksen, ritari og Pálína Bergsdóttir.
Varastjórn skipuðu: Sigurrós J. Sigurðardóttir, Helga Jóhannsdóttir og Ingunn Magnúsdóttir.
Tvo meðráðamenn kaus félagið sér til halds og trausts úr Verkamannafélaginu Fram: Friðrik Hansen og Pétur Sigurðsson.
Verkakonur á Sauðárkróki töldu rétt að bindast samtökum um kaup og kjör, en fiskvinna, einkum síldarvinna, var nokkur og fór vaxandi.
Hver sú kona sem var orðin 16 ára að aldri og var fær til algengrar vinnu gat fengið inntöku í félagið. Varð hún að senda formanni skriflega inntökubeiðni en formaður bar umsóknina undir atkvæði á félagsfundi.
Aðalstörf félagsins snérust um að bæta kjör vinnandi kvenna, sérstaklega á meðan mikið atvinnuleysi var í landinu. Árið 1931 voru t.d. konurnar neyddar til að lækka þágildandi taxta félagsins til að hægt væri meðal annars að láta verka saltfisk á Sauðárkróki. En konurnar settu fram nokkur skilyrði gegn lækkun taxtans og meðal þeirra skilyrða var að félagar Öldunnar sætu fyrir vinnu, að konur við fiskþvott hefðu skýli og að þeim yrði lögð til áhöld.
Þeim konum sem mest beittu sér fyrir síldarsöltun á Sauðárkróki sumarið 1934 var neitað um vinnu á staðnum.
Aldan stéttarfélag, varð síðar til við sameiningu Verkalýðsfélagsins Fram og Verkakvennafélagsins Öldunnar. Sameinað félag tók til starfa í ársbyrjun 2001. Stofnfélagar voru um 820 manns, félagið á sér merkilega fortíð í sögu þessara félaga og forvera þeirra.