Showing 9 results

Authority record
Hraun á Skaga

Sveinn Mikael Sveinsson (1890-1932)

  • S00760
  • Person
  • 29.09.1890-06.04.1932

Fæddur og uppalinn á Hrauni á Skaga, sonur Sveins Jónatanssonar og Guðbjargar Jónsdóttur. Kvæntist Guðbjörgu Kristmundsdóttur frá Selá á Skaga, þau bjuggu í Kelduvík á Skaga 1914-1923 og á Tjörn á Skaga (A-Hún) 1923-1932. Sveinn stundaði sjómennsku meðfram búskapnum og sat um tíma í hreppsnefnd Vindhælishrepps. Sveinn og Guðbjörg eignuðust tíu börn.

Sveinn Jónatansson (1851-1936)

  • S00758
  • Person
  • 04.02.1851-14.06.1936

Foreldrar: Jónatan Jónatansson b. í Kelduvík og Þangskála á Skaga og k.h. María Magnúsdóttir. Sveinn ólst upp með foreldrum sínum og var í húsmennsku þar fyrst eftir að hann kvæntist Guðbjörgu Jónsdóttur frá Hóli á Skaga. Þau bjuggu svo í Efranesi 1876-1878 en fóru þá aftur að Þangskála og bjuggu þar til 1883. Fluttu að Hrauni á Skaga 1883-1919. Sveinn stundaði sjómennsku meðfram búskap og var m.a. hákarlaskipsformaður. Sveinn og Guðbjörg eignuðust fimm börn.

Steinn Leó Sveinsson (1886-1957)

  • S00762
  • Person
  • 17.01.1886-27.11.1957

Sonur Sveins Jónatanssonar og Guðbjargar Jónsdóttur á Hrauni á Skaga. Var við nám hjá sr. Birni Blöndal í Hvammi í Laxárdal veturinn 1904-1905. Kvæntist árið 1914 Guðrúnu Kristmundsdóttur frá Selá á Skaga, það sama ár hófu þau búskap á Hrauni á Skaga þar sem þau bjuggu til 1957. Meðfram búskapnum stundaði Steinn sjómennsku og reri flestar haustvertíðir frá Hrauni eða Kelduvík fram um 1930, jafnframt var Steinn síðasti hákarlaformaður á Skaga. Einnig kom Steinn upp töluverðu æðarvarpi, hlóð upp hreiðurskýli og setti upp skrautleg flögg á vorin til þess að laða fuglinn að, æðarvarpið á Hrauni er enn þann dag í dag með þeim arðsömustu í Skagafirði. Steinn var fyrst kosinn í hreppsnefnd Skefilstaðahrepps 1916 og átti þar sæti óslitið til ársins 1954, var oddviti hreppsnefndar 1928-1954 og hreppstjóri 1934-1946. Árið 1915 varð hann vitavörður Skagatáarvitans og veðurathugunarmaður fyrir Veðurstofu Íslands 1943, báðum þessum störfum gegndi hann á meðan hans naut við. Steinn og Guðrún eignuðust 11 börn.

Rögnvaldur Steinsson (1918-2013)

  • S02004
  • Person
  • 3. okt. 1918 - 16. okt. 2013

Rögnvaldur Steinsson fæddist á Hrauni á Skaga 3. október 1918. Foreldrar hans voru hjónin Steinn Leó Sveinsson útvegsbóndi á Hrauni á Skaga og k.h. Guðrún Sigríður Kristmundsdóttir. ,,Rögnvaldur ólst upp hjá foreldrum sínum á Hrauni en þar var stundaður jöfnum höndum landbúnaður og sjósókn á uppvaxtarárum hans, en á Hrauni átti hann heimili sitt allt til æviloka. Ungur hóf hann að vinna að búi foreldra sinna og varð búskapur hans starfsvettvangur að stærstum hluta utan veturinn 1949 er hann var til sjós á báti frá Reykjavík. Einnig stundaði hann grásleppuveiðar í allmörg ár ásamt öðrum, en sjómennska og veiðiskapur áttu ávallt sterk ítök í honum samfara búskaparáhuga. Árið 1958 tóku Rögnvaldur og Guðlaug við búi á Hrauni sem og veðurathugun og vitavörslu allt til 1991 er synir þeirra og tengdadóttir tóku að mestu við hefðbundnum búskap. Snéri hann sér þá alfarið að umhirðu æðarvarps og dúntekju á jörðinni og sinnti því af alúð til hinstu stundar." Rögnvaldur giftist 25. desember 1956 Guðlaugu Jóhannsdóttur frá Sólheimum í Sæmundarhlíð, þau eignuðust fjóra syni.

Gunnsteinn Sigurður Steinsson (1915-2000)

  • S01673
  • Person
  • 10. jan. 1915 - 19. des. 2000

Gunnsteinn Sigurður Steinsson fæddist á Hrauni á Skaga 10. janúar 1915. Foreldrar hans voru hjónin Steinn Leó Sveinsson bóndi og hreppstjóri á Hrauni á Skaga k.h. og Guðrún Sigríður Kristmundsdóttir. ,,Gunnsteinn lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1936. Hann var búsettur á Hrauni til 1953 og stundaði á þeim tíma aðallega sjómennsku og smíðar. Gunnsteinn var bóndi í Ketu á Skaga 1953-1974 en fluttist þá ásamt konu sinni til Sauðárkróks. Stundaði hann þar störf í skinnaverkuninni Loðskinni hf. auk þess sem hann var um árabil umboðsmaður skattstjóra á Sauðárkróki. Gunnsteinn starfaði mikið að félagsmálum og var m.a. hreppstjóri og sýslunefndarmaður fyrir Skefilsstaðahrepp um árabil auk þess að gegna fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína." Gunnsteinn kvæntist árið 1945 Guðbjörgu Hólmfríði Guðmundsdóttur, þau eignuðust tvær dætur.

Guðrún Sveinsdóttir (1892-1967)

  • S00761
  • Person
  • 1. mars 1892 - 18. ágúst 1967

Dóttir Sveins Jónatanssonar og Guðbjargar Jónsdóttur á Hrauni á Skaga. Kvæntist Óskari Þórðarsyni lækni í Reykjavík, síðast búsett í Reykjavík.

Guðrún Steinsdóttir (1916-1999)

  • S00819
  • Person
  • 4. september 1916 - 7. mars 1999

Dóttir Steins Leó Sveinssonar og Guðrúnar Kristmundsdóttur á Hrauni á Skaga. Fædd og uppalin á Hrauni. Sextán ára gömul fór Guðrún til Reykjavíkur og var þar í tvo vetur. Árin 1937-1938 stundaði hún nám við Kvennaskólann á Blönduósi. Veturinn eftir var hún ráðskona við Reykjaskóla í Hrútafirði í eitt ár. Stundaði síðan verslunarstörf í Reykjavík í sjö ár, síðan húsfreyja á Reynistað frá 1947. Guðrún starfaði í ungmennafélaginu Æskunni og var gjaldkeri félagsins 1947-1960, í stjórn Kvenfélags Staðarhrepps og ritari þess 1951-1967, síðan formaður 1969-1978. Formaður sóknarnefndar Reynistaðarsóknar 1965-1987. Guðrún kvæntist Sigurði Jónssyni frá Reynistað árið 1947, þau eignuðust fjóra syni.

Guðbjörg Jónsdóttir (1849-1933)

  • S00759
  • Person
  • 08.09.1849-01.07.1933

Foreldrar: Jón Rögnvaldsson hreppstjóri á Hóli á Skaga og s.k.h. Una Guðbrandsdóttir. Guðbjörg kvæntist Sveini Jónatanssyni frá Kelduvík, þau bjuggu lengst af á Hrauni á Skaga, þau eignuðust fimm börn.

Árni Sigurður Kristmundsson (1889-1976)

  • S00614
  • Person
  • 14. nóvember 1889 - 15. október 1976

Árni Sigurður Kristmundsson f. á Höfnum á Skaga 14.11.1889, d. 15.10.1976. Foreldrar: Kristmundur Guðmundsson bóndi á Selá og kona hans Guðrún Guðmundsdóttir. Árni ólst upp hjá foreldrum sínum og vann að búi þeirra þar til þau létu af búskap árið 1908. Eftir það fór hann í vistir, fyrst hjá sr. Arnóri Árnasyni og Ragnheiði Eggertsdóttur í Hvammi í Laxárdal. Hjá þeim var hann í fimm ár. Næstu árin stundaði hann vinnu á ýmsum stöðum í Skefilstaðahreppi, ýmist vistráðinn eða sem kaupmaður við heyskap á sumrin eða vetrarmaður við hirðingu búfjár á vetrum eins og það var nefnt. Einnig stundaði hann sjóróðra á haustin, en þá var róið frá Selvík og víðar af Skaga. Árið 1920 réðist Árni að Hóli á Skaga sem ráðsmaður til Ingibjargar Sigurðardóttur. Árið 1924 tók Árni við búi en Ingibjörg varð ráðskona hans. Eftir að Árni lét af búskap á Hóli árið 1948 var hann í tvö ár til heimilis á Hrauni hjá Guðrúnu systur sinnum og manni hennar, Steini L. Sveinssyni. Vann hann þá við brúarvinnu o.fl. Síðar hóf hann búskap á ný, í Hvammnkoti á Skaga. Fyrstu búskaparárin á Hóli hélt Árni út báti í Selvík á haustin og var sjálfur formaður.
Erin gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Hann sat í hreppsnefnd Skefilsstaðahrepps frá 1946-1962, var í allmörg ár í skattanefnd, varamaður í sýslunefnd í mörg ár og sat a.m.k. tvo aðalfundi Sýslunefndar Skagafjarðarsýslu. Hann var mörg ár formaður Búnaðarfélags Skefilsstaðahrepps og einnig formaður lestrarfélagsins í hreppnum og bókavörður um alllangt skeið. Þá hafði hann með höndum afgreiðslu á vörum fyrir Kaupfélag Skagfirðinga, en félagið hafði um árabil vöruskýli við Selvík.
Framan af búksaparárum sínum fékkst Árni við vefnað á vetrum og óf vaðmál úr heimaunnum þræði. Mun hann hafa verið síðasti maðurinn í hreppnum sem stundaði þá iðn.
Haustið 1964 brá Árni bvúi og fluttist til Önnu Leósdóttur og Agnars Hermannssonar að Hólavegi 28 á Sauðárkróki. Næstu 2-3 sumur var hann um 2-3 mánaða skeið heima hjá sér í Hvammkoti en hætti því eftir að sjón hans hrakaði. Um 1970 hafði hann alveg tapað sjón. Hann naut umönnunar á heimili Önnu í sjö ár en fór árið 1971 á Sjúkrahúsið á Sauðárkróki og dvaldist þar til æviloka. Árni var ókvæntur og barnlaus.