Showing 1 results

Authority record
Skáld Ísland

Jón Þórarinsson (1917-2012)

  • S02443
  • Person
  • 13. sept. 1917 - 12. feb. 2012

Jón Þórarinsson fæddist í Gilsárteigi í Eiðaþinghá, S-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Þórarinn Benediktsson, hreppstjóri og alþingismaður, f. í Keldhólum á Völlum og k.h. Anna María Jónsdóttir. Árið 1920 flutti fjölskyldan til Seyðisfjarðar. ,,Jón varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1937 og stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann lauk Mus.B-prófi í tónfræði 1946 og Mus.M-prófi í tónsmíði 1947 við Yale-háskólann í Bandaríkjunum. Sumarið 1945 stundaði hann nám við Juilliard-tónlistarháskólann í New York og fór til námsdvalar í Austurríki og Þýskalandi 1954-1955. Jón var yfirkennari í tónfræði og tónsmíði við Tónlistarskólann í Reykjavík 1947-1968, stundakennari við sama skóla frá 1979 og kennari við Söngskólann í Reykjavík 1983-1987. Hann starfaði við Ríkisútvarpið að mestu óslitið 1938-1956, var dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Ríkissjónvarpsins 1968-1979 og sat í Útvarpsráði 1983-1987. Hann var einn af stofnendum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fyrsti stjórnarformaður 1950-1953 og framkvæmdastjóri hennar 1956-1961. Þá sat hann aftur í stjórn hljómsveitarinnar frá 1988-2002. Jón var söngstjóri Fóstbræðra 1950-1954, Gamalla Fóstbræðra frá stofnun 1959-1997 og Stúdentakórsins 1964-1967. Hann var forseti Bandalags íslenskra listamanna 1951-1952 og 1963-1966, var formaður úthlutunarnefndar Kvikmyndasjóðs 1985-1986 og framkvæmdastjóri Listahátíðar 1988. Jón sat í undirbúningsnefnd Samtaka um byggingu tónlistarhúss (1987) og í stjórn samtakanna um skeið. Auk þess að gegna ýmsum öðrum stjórnar- og trúnaðarstörfum hjá samtökum listamanna. Jón var meðlimur í Rótarýklúbbi Reykjavíkur frá 1975 til dauðadags. Eftir Jón liggur fjöldi tónverka. Meðal þekktra sönglaga Jóns eru Fuglinn í fjörunni, Íslenskt vögguljóð á Hörpu og Sex gamlir húsgangar. Jón samdi auk þess tónlist við mörg leikrit og kvikmyndir og gerði fjölda útsetninga á verkum annarra höfunda, meðal annars hljómsveitarútsetningu þjóðsöngsins. Megnið af frumsaminni tónlist Jóns kom út á geisladiskasafninu Fuglinn í fjörunni 1998. Meðal ritverka Jóns eru Stafróf tónfræðinnar (1962) Páll Ísólfsson (1963) Sveinbjörn Sveinbjörnsson ævisaga (1969) og óútgefin Tónlistarsaga Íslands frá landnámsöld til miðbiks tuttugustu aldar sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni. Hann skrifaði tónlistargagnrýni og um tónlist og tónlistarmenn í Alþýðublaðið (1948-1950), Morgunblaðið (1962-1968) og Vísi á árum áður. Eftir Jón liggur auk þess mikill fjöldi greina um tónlist og tónlistarmálefni frá ýmsum tímum. Jón var riddari íslensku fálkaorðunnar frá 1978 og stórriddari hennar frá 1999." Fyrri kona Jóns var Þórdís Edda Kvaran, þau eignuðust þrjá syni. Þau skildu. Seinni kona Jóns var Sigurjóna Jakobsdóttir, þau eignuðust fjögur börn.