Showing 8 results

Authority record
Skáld

Einar Benediktsson (1864-1940)

 • S02440
 • Person
 • 31. okt. 1864 - 12. jan. 1940

,,Faðir Einars var Benedikt Sveinsson, alþingismaður og sýslumaður og móðir hans hét Katrín Einarsdóttir, húsmóðir. Einar gekk í Lærða Skólann í Reykjavík þaðan sem hann varð stúdent 1884. Hann fór því næst til Kaupmannahafnar og útskrifaðist sem lögfræðingur úr Hafnarháskóla 1892. Einar stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, sem studdi Heimastjórnarflokkinn, og var sjálfur ritstjóri þess í tvö ár. Hann átti þátt í stofnun Landvarnarflokksins árið 1902 og gaf út blaðið Landvörn samhliða því. Einar átti þátt í því að koma á laggirnar fyrstu loftskeytastöð landsins árið 1905. Hann kom einnig að útgáfu blaðanna Þjóðin (1914–15), Þjóðstefna (1916–17) og Höfuðstaðurinn (1916–17). Einar var mikill áhugamaður um virkjun fallvatna og stofnaði ásamt öðrum Fossafélagið Títan 1914 til athugunar á því hvort arðbært væri að byggja virkjanir við Þjórsá. Ekkert varð úr þeim fyrirætlunum fyrr en um hálfri öld seinna þegar Búrfellsvirkjun var byggð. Á árunum 1907–21 ferðaðist Einar mikið. Hann fór til Noregs, Edinborgar í Skotlandi, sneri aftur til Kaupmannahafnar (1908-10) en eyddi svo sjö árum í London (1910–17) áður en hann fór enn aftur til Kaupmannahafnar (1917–21), þess í milli hafði hann stuttar viðkomur á Íslandi. Hann sneri endanlega aftur heim til Íslands 1921 og bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, meðal annars í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Þá lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, til þess að skoða möguleikana á málmvinnslu og sementsframleiðslu. Síðustu átta árum ævi sinnar eyddi Einar í Herdísarvík á Reykjanesskaga, þar sem hann lést 1940."
Helstu verk:
Sögur og kvæði (1897)
Pétur Gautur (1901) (Þýðing á leikriti Henrik Ibsen)
Hafblik (1906) (Kvæði)
Hrannir (1913) (Kvæði)
Vogar (1921) (Kvæði)
Hvammar (1930) (Kvæði)

Gísli Ólafsson (1885-1967)

 • S00398
 • Person
 • 02.01.1885-14.01.1967

Fæddur á Eiríksstöðum í Svartárdal, foreldrar hans voru Ólafur Gíslason og Helga Sölvadóttir. Gísli bjó lengi vel á Eiríksstöðum með foreldrum sínum. Hann vann ýmis störf utan heimilis og sótti einn vetur nám í unglingaskóla hjá Árna Hafstað í Vík. Gísli kvæntist árið 1914 Jakobínu G. Þorleifsdóttur og voru þau hjón í húsmennsku á bæjum í Svartárdal fyrstu hjúskaparár sín. Árið 1924 fluttust það til Blönduóss þar sem Gísli stundaði daglaunavinnu. 1928 fluttu þau til Sauðárkróks þar sem þau bjuggu til æviloka, húsið sem þau bjuggu í við Suðurgötu 11b nefndu þau Eiríksstaði. Gísla var í blóð borin rík hagmælska og hann byrjaði snemma að yrkja. Fyrsta bók hans, Ljóð, kom út 1917, Nokkrar stökur kom út 1924. Samantekt fyrri ljóða ásamt nýjum viðauka, Á brotnandi bárum, kom út 1944. Síðasta bók hans, Í landvari, kom út árið 1960. Nokkur þekkt sönglög hafa verið samin við texta hans, t.d. Myndin þín eftir Eyþór Stefánsson. Gísli hlaut listamannalaun ríkisins frá 1945. Gísli lék einnig á orgel og var góður kvæðamaður.
Gísli og Jakobína eignuðust þrjú börn og ólu einnig upp dótturson sinn.

Hjálmar Jónsson (1796-1875)

 • S03424
 • Person
 • 29.09.1796-25.07.1875

Hjálmar Jónsson skáld betur þekktur sem Bólu-Hjálmar fæddist á Hallandi í Eyjafirði 1796. Hann lést 25. júlí 1875 í Brekkuhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði. Hjálmar var bóndi og ljóskáld og bjó lengst af í Skagafirði. Foreldrar hans voru Marsibil Semingsdóttir fædd 1769 og Jón Benediktsson fæddur 1763. Heimildum ber ekki saman um það að Jón Benediktsson hafi raunverulega verið faðir Hjálmars. Snemma var grunur um að séra Sigfús Jónsson prófastur á Höfða í Höfðahverfi hafi verið faðir hans. Hjálmar daðraði við þá hugmynd sjálfur.

Í ævisögum um Hjálmar er sagan um fæðingu hans sögð þannig að móðir hans hafi verið gestkomandi að Hallandi er hún ól son sinn. Þegar hann var einungis næturgamall lagði vinnukona á Hallandi af stað með hann til Hreppsstjórans í poka til þess að hægt væri að ráðstafa drengnum. Á leið sinni sóttist hún eftir næturgistingu hjá Sigríði á Dálksstöðum. Morgunin eftir var illviðri og þvertók Sigríður fyrir að lengra væri farið með barnið og sagðist fara með hann sjálf þegar veðrið batnaði. Af því varð aldrei, heldur tók hún hann til fósturs og gekk honum í móðurstað fyrstu árin. Á sjötta aldursári dvaldi hann einn vetur (1800-1801) hjá Oddi Gunnarssyni bónda á Dagverðareyri. Hjálmar ólst upp við algeng sveitastörf og reyndist þar liðtækur. Hann fór að stunda sjóróðra og segir hann sjálfur frá að hafa róið út frá Dagverðareyri. Þegar Hjálmar var 14 ára lést fósturmóðir hans. Talið er að Jóhann sonur Sigríðar á Dálksstöðum hafi kennt Hjálmari að lesa en fátt er vitað um menntun hans í æsku. Hann gekk ekki í skóla en af kveðskap sem er til eftir hann frá þessum árum má sjá að hann hafi snemma verið lesgjarn og fróðleiksfús. Í nokkrum vitnisburðum séra Jóns Þorvarðarsonar kemur meðal annars fram að Hjálmar er efnilegur og vel skarpur í gáfum. Eftir lát fósturmóður sinnar fór hann að Blómsturvöllum þar sem Jón faðir hans og Valgerður dóttir Sigríðar voru farin að búa.

Vorið 1820 fór Hjálmar vestur í Blönduhlíð í Skagafirði og gerðist vinnumaður á Silfrastöðum til vorsins 1821. Á næsta bæ bjó móðursystir hans, Guðbjörg Semingsdóttir fjölskylda hennar. Dóttir hennar Guðný og Hjálmar fóru að vera saman og eignuðust barn sumarið 1821 sem lést mánuði síðar. Ári síðar giftu þau sig. Þau bjuggu á ýmsum bæjum í Skagafirði næstu árin og var mjög þröngt í búi. Þau áttu sjö börn, fimm af þeim komust á fullorðins aldur.
Hann var kenndur við Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð þar sem hann bjó í rúm 15 ár. Hjálmar átti í deilum við sveitunga sína og kvað gjarnan vísur um þá og ávirðingar þeirra. Hann varð einangraður frá öðrum, menn hræddust hann og var illa við hann. 1838 var hann sakaður um sauðaþjófnað en var sýknaður af þeim ákærum. Hann hraktist frá Bólu ári seinna. Þaðan fór hann að Minni-Ökrum. Þar missti hann konu sína sem dó 24. júní 1845. Hann var á Minni-Ökrum í 28 ár. Með árunum varð hann nær ófær til allra verka en gat áfram skrifað. Hann háði ævilanga baráttu við fátækt og strit. Frá Minni-Ökrum fór hann að Grundargerði í Akrahreppi og þaðan að Starrastöðum í Tungusveit og var þar í 2 ár í húsamennsku með Guðrúnu, yngstu dóttur sinni. Þaðan fóru þau að Brekku nálægt Víðimýri. Eftir 5 vikna dvöl þar í beitarhúsum dó hann 5. ágúst 1875, á 80. aldursári.

Í kveðskap Hjálmars fjallar hann gjarnan um slæm kjör og samferðamenn sína. Hjálmar þótti óvæginn og illskeyttur. Þrátt fyrir að eiga sér marga óvildarmenn átti hann líka marga vini og var hann fenginn til að skemmta í veislum. Honum var margt til lista lagt. Hann var þjóðfræðisafnari, listaskrifari, góður kvæðamaður og þótti hafa merkilega frásagnargáfu og var því eftirsóttur til ræðuhalda á mannamótum.
Kveðskapur eftir Hjálmar Jónsson er mikill að vöxtum, rímur, ljóð og lausavísur. Eftir hann hafa einnig varðveist fagurlega útskornir gripir.

Hjálmar Þorsteinsson (1886-1982)

 • S02104
 • Person
 • 5. sept. 1886 - 20. maí 1982

Fæddur að Reykjum í Hrútafirði. Hóf búskap í Mánaskál í Laxárdal með konu sinni Önnu Guðmundsdóttur frá Holti á Ásum. Fluttu síðan að Hofi á Kjalarnesi og við þann bæ var Hjálmar jafnan kenndur. Fluttu síðan að Jörva og síðast til Reykjavíkur. Hjálmar var skáld og gaf út nokkrar bækur.

Jón Jónsson Skagfirðingur (1886-1965)

 • S00010
 • Person
 • 08.01.1886-21.01.1965

Jón Jónsson, síðar nefndur Jón Skagfirðingur, var fæddur í janúar 1886 á Valabjörgum í Skörðum. Foreldrar hans voru Jón Guðvarðarson og Oddný Sæmundsdóttir og áttu þau tvö önnur börn, þau Moniku og Nikódemus. Jón ólst upp að Valabjörgum til 15 ára aldurs en þá flutti hann með foreldrum sínum að Holtskoti í Seyluhreppi. Árið 1915 kvæntist Jón Soffíu Jósafatsdóttur frá Krossanesi og eignuðust þau þrjú börn; Sæmund, Hansínu og Valtý. Jón og Soffía bjuggu fyrst í Holtskoti, síðan í Glaumbæ og svo á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd. Árið 1941 fluttu þau til Sæmundar sonar síns að Bessastöðum í Sæmundarhlíð. Soffía lést árið 1960 og eftir dauða hennar orti Jón kvæðið um Ekkilinn í Urtuvík.
Jóni er lýst svo: ,,Jón er prýðilega greindur maður, gjörhugull og víðlesinn. Hann er algjörlega sjálfmenntaður. Lítið hefur farið fyrir honum á veraldar-vettvangi, því að hann er maður hlédrægur og óhlutdeilinn og flíkar ógjarnan sínum innra manni. Fíngert og ljóðrænt eðli hans birtist einkanlega fáum og völdum vinum, - og í stökum hans og kvæðum, sem orðið hafa til á stopulum tómstundum fátæks bónda."

Jón virðist hafa byrjað ungur að yrkja en það virðist hafa verið honum mikil hvatning að hitta Stephan G. Stephansson árið 1917 og fá tækifæri til þess að yrkja til hans. Stephan heillaðist mjög að kveðskapi Jóns og heimsótti hann í Holtskot þar sem þeir ræddu lengi um kveðskap. Jafnframt var Jóni vel til vina við Stefán frá Hvítadal og Friðrik Hansen og hvöttu þeir hann mjög til að virkja skáldskapargáfu sína. Jón lést árið 1965 þá 79 ára gamall.

Jón Þórarinsson (1917-2012)

 • S02443
 • Person
 • 13. sept. 1917 - 12. feb. 2012

Jón Þórarinsson fæddist í Gilsárteigi í Eiðaþinghá, S-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Þórarinn Benediktsson, hreppstjóri og alþingismaður, f. í Keldhólum á Völlum og k.h. Anna María Jónsdóttir. Árið 1920 flutti fjölskyldan til Seyðisfjarðar. ,,Jón varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1937 og stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann lauk Mus.B-prófi í tónfræði 1946 og Mus.M-prófi í tónsmíði 1947 við Yale-háskólann í Bandaríkjunum. Sumarið 1945 stundaði hann nám við Juilliard-tónlistarháskólann í New York og fór til námsdvalar í Austurríki og Þýskalandi 1954-1955. Jón var yfirkennari í tónfræði og tónsmíði við Tónlistarskólann í Reykjavík 1947-1968, stundakennari við sama skóla frá 1979 og kennari við Söngskólann í Reykjavík 1983-1987. Hann starfaði við Ríkisútvarpið að mestu óslitið 1938-1956, var dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Ríkissjónvarpsins 1968-1979 og sat í Útvarpsráði 1983-1987. Hann var einn af stofnendum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fyrsti stjórnarformaður 1950-1953 og framkvæmdastjóri hennar 1956-1961. Þá sat hann aftur í stjórn hljómsveitarinnar frá 1988-2002. Jón var söngstjóri Fóstbræðra 1950-1954, Gamalla Fóstbræðra frá stofnun 1959-1997 og Stúdentakórsins 1964-1967. Hann var forseti Bandalags íslenskra listamanna 1951-1952 og 1963-1966, var formaður úthlutunarnefndar Kvikmyndasjóðs 1985-1986 og framkvæmdastjóri Listahátíðar 1988. Jón sat í undirbúningsnefnd Samtaka um byggingu tónlistarhúss (1987) og í stjórn samtakanna um skeið. Auk þess að gegna ýmsum öðrum stjórnar- og trúnaðarstörfum hjá samtökum listamanna. Jón var meðlimur í Rótarýklúbbi Reykjavíkur frá 1975 til dauðadags. Eftir Jón liggur fjöldi tónverka. Meðal þekktra sönglaga Jóns eru Fuglinn í fjörunni, Íslenskt vögguljóð á Hörpu og Sex gamlir húsgangar. Jón samdi auk þess tónlist við mörg leikrit og kvikmyndir og gerði fjölda útsetninga á verkum annarra höfunda, meðal annars hljómsveitarútsetningu þjóðsöngsins. Megnið af frumsaminni tónlist Jóns kom út á geisladiskasafninu Fuglinn í fjörunni 1998. Meðal ritverka Jóns eru Stafróf tónfræðinnar (1962) Páll Ísólfsson (1963) Sveinbjörn Sveinbjörnsson ævisaga (1969) og óútgefin Tónlistarsaga Íslands frá landnámsöld til miðbiks tuttugustu aldar sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni. Hann skrifaði tónlistargagnrýni og um tónlist og tónlistarmenn í Alþýðublaðið (1948-1950), Morgunblaðið (1962-1968) og Vísi á árum áður. Eftir Jón liggur auk þess mikill fjöldi greina um tónlist og tónlistarmálefni frá ýmsum tímum. Jón var riddari íslensku fálkaorðunnar frá 1978 og stórriddari hennar frá 1999." Fyrri kona Jóns var Þórdís Edda Kvaran, þau eignuðust þrjá syni. Þau skildu. Seinni kona Jóns var Sigurjóna Jakobsdóttir, þau eignuðust fjögur börn.

Kolbeinn Högnason (1889-1949)

 • S03459
 • Person
 • 25.06.1889-14.05.1949

Kolbeinn Högnason, f. í Kollafirði á Kjalarnesi 25.06.1889, d. 14.05.1949. Foreldrar: Högni Finnsson frá Meðalfelli og Katrín Kolbeinsdóttir. Kolbeinn tók við búi í Kollafirði af afa sínum, Kolbeini Eyjólfssyni. Bjó hann þar til 1943, er hann flutti til Reykjavíkur. Kolbeinn varð þjóðkunnur fyrir kveðskap sinn. Hann gaf út nokkrar smá sögur og einnig ljóðabækurnar Kræklur, Olnbogabörn, Hnoðnaglar, Kurl og Kröfs.
Maki 1: Guðrún Jóhannsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn. Þau skildu.
Maki 2: Málfríður Jónsdóttir frá Bíldsfelli. Þau eignuðust tvö börn.

Stefán Vagnsson (1889-1963)

 • S00027
 • Person
 • 26.05.1889-01.11.1963

Stefán Vagnsson var fæddur í Miðhúsum í Akrahreppi, Skagafirði þann 26. maí 1889. Hann var bóndi, skáld og kennari á Flugumýri, Sólheimum og Hjaltastöðum í Akrahreppi. Hann var síðast búsettur á Sauðárkróki og starfaði þar sem skrifstofumaður. Kona hans var Helga Jónsdóttir (1895-1988). Hann lést á Sauðárkróki 1. nóvember 1963.