Showing 2 results

Authority record
Prestur Ísland

Árni Björnsson (1863-1932)

  • S00812
  • Person
  • 1. ágúst 1863 - 26. mars 1932

Fæddur og uppalinn á Höfnum á Skagaströnd. Stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1885, cand. theol. frá Prestaskólanum í Reykjavík 1887 og vígðist Reynistaðarklaustursprestakalls það sama ár. Gegndi hann því prestakalli um 26 ára skeið. Hann hóf búskap á prestssetrinu Fagranesi árið 1889 og nytjaði það að meira eða minna leyti flest prestskaparár sín, en flutti til Sauðárkróks árið 1894, enda hafði prestsetrið verið flutt þangað með lögum frá 1891og kirkja reist þar 1892. Hann var prófastur Skagfirðinga 1908-1913, sýslunefndarmaður í Skagafjarðarsýslu fyrir Sauðárkrók 1906-1913. Tók einnig mikinn þátt í starfi Góðtemplarareglunnar. Sumarið 1913 fékk hann Garða á Álftanesi, þar þjónaði hann í 19 ár. Var einnig prófastur Kjalarnessprófastsdæmis frá 1916 til dauðadags og sýslunefndarmaður í Gullbringusýslu. Bjó síðustu þrjú árin í Hafnarfirði.
Maki: Líney Sigurjónsdóttir frá Laxamýri í Aðaldal, þau eignuðust 12 börn.

Stanley Guðmundsson Melax (1893-1969)

  • S03171
  • Person
  • 07.12.1893-11.12.1969

Stanley Guðmundsson, síðar Melax, f. að Laugalandi á Þelamörk 07.12.1893 (að eigin sögn, 11.12. skv. kirkjubók), d. 20.06.1969 í Reykjavík. Foreldrar: Guðmundur Jónsson á Laugalandi og unnusta hans Guðný Oddný Guðjónsdóttir. Er Stanley var á þriðja ári andaðist faðir hans snögglega áður en þau móðir hans hugðust ganga í hjónaband. Hann ólst upp hjá móður sinni, á Akureyri og þar í grennd. Hún fylgdi honum og hélt heimili fyrir hann á námsárunum í Reykjavík. Hann gekk í Gagnfræðaskólann á Akureyri og var við barnakennslu á Akureyri næstu vetur. Haustið 1913 fór hann í fjórða bekk Menntaskólans í Reykjavík og lauk stúdentsprófi þaðan vorið 1916. Þá um haustið fór hann í guðfræðideild Háskólans og lauk þaðan prófi 1920. Skömmu síðar tók hann upp ættarnefnið Melax fyrir sig og fjölskyldu sína. Var vígður til Barðsprestakalls 1920 og skipaður í embætti vorið eftir. Var þar prestur í ellefu ár eða til vors 1931 er honum var veittur Breiðabólsstaður í Vesturhópi og þjónaði hann þar til 1960, er hann fluttist til Reykjavíkur eftir hartnær 40 ára prestsskap. Fyrstu árin var móðir hans ráðskona hjá honum. Stanley var í hreppsnefnd Haganeshrepps og oddviti hennar 1928-1931, sóknarnefndarformaður í 36 ár, stöðvarstjóri og bréfhirðingarmaður á Breiðabólsstað 1931-1960. Prófdómari í nálægum skólahverfum mestalla sína prestskapartíð.
Maki (g. 18.11.1928): Guðrún Ólafsdóttir Melax (15.09.1904-26.07.1999) frá Haganesi í Fljótum. Þau eignuðust fimm börn. Einnig tóku þau tvö börn í fóstur eftir að faðir þeirra, Björn Jónsson, drukknaði af þilskipinu Maríönnu í maí 1922. Þau voru Jónína Guðrún Björnsdóttir(1916-1966) og Sigurbjörn Halldór Björnsson (1919-1986). Móðir þeirra var Rósa Jóakimsdóttir.