Sýnir 4 niðurstöður

Nafnspjöld
Bóndi Molastaðir í Fljótum

Jón Sigmundsson (1890-1962)

  • S03377
  • Person
  • 30.06.1890-27.11.1962

Jón Sigmundsson, f. á vestara-Hóli í Flókadal 30.06.1890, d. 27.11.1962 í Kópavogi. Foreldrar: Sigmundur Jónsson bóndi á Vestara-Hóli og fyrri kona hans Anna Helga Jónsdóttir. Jón missti móður sína fimm ára gamall og var þá komið í fóstur til Guðmundar Jónssonar og Ingunnar Guðvarðardóttur á Laugalandi á Bökkum. Með þeim fluttist hann að Skuggabjörgum í Deildardal, þá 10 ára gamall. Hann var í vinnumennsku á Miklabæ og Tumabrekku í Óslandshlíð. Árið 1919 var hann vinnumaður í Tungu í Stíflu og var sonur hans með honum þar. Árið 1921 var hann vinnumaður á Delpum og giftist um haustið sienni konu sinni. Þau hófu sambúð í húsmennsku en hófu svo búskap á Hamri í Stíflu 1922-1924. Voru á Molastöðum 1924-1939, Hraunum 1939-1944, Lambanes-Reykjum 1944-1954 og Illugastöðum 1955-1962.
Maki 1: Margrét Arndís Guðbrandsdóttir (1895-1975). Þa uskildu eftir stutta sambúð. Þau eignuðust einn son.
Maki 2: Sigríður Guðmundsdóttir (1895-1985). Þau eignuðust fimm börn.

Zóphonías Magnús Jónasson (1896-1983)

  • S03176
  • Person
  • 12.09.1896-02.04.1983

Zóphonías Magnús Jónasson, f. í Ökrum í Fljótum 12.09.1896, d. 02.04.1983. Foreldrar: Solveig Guðbjörg Ásmundsdóttir (1853-1921) og Jónas Jónasson (1853-1921). Þau bjuggu í Ökrum, Stóraholti og Molastöðum. Fluttu til Siglufjarðar er þau brugðu búi. Zóphonías var yngstur tíu systkina. Zophónías ólst upp á Ökrum til fjórtán ára aldurs en þá fluttist fjölskyldan að Stóraholti og tveimur árum síðar að Molastöðum. en gerðist bóndi á Molastöðum 1921-1923, flutti þá til Akureyrar. Vann þar við smíði laxastiga, að sprengja grjót og hlaða grjótkanta. Virku í starfi Framsóknarmanna.
Maki: Guðbjörg Jónsdóttir, húsfreyja (1901-1983). Þau eignuðust fimm börn.

Filippus Guðmundur Halldórsson (1875-1949)

  • S03183
  • Person
  • 27.10.1875-05.07.1949

Filuppus Guðmundur Halldórsson, f. að Stóra-Grindli í Fljótum 27.10.1875, d. 05.07.1949 á Molastöðum í Fljótum.
Foreldrar: Halldór Guðmundsson bóndi á Stóra-Grindli og kona hans Kristín Anna Filuppusdóttir frá Illugastöðum.
Guðmundur fór ungur að heiman og var fyrst í vinnumennsku að Efra-Haganesi. Síðan eitt ár á Uppsölum í Blönduhlíð. Vann að öllum hefðbundnum landbúnaðarstörfum en stundaði jafnframt sjóróðra haust og vor og fór einnig í hákarlalegur á vetrarskipum. Vann einnig mikið við vegghleðslur yrir aðra.
Guðmundur og Anna giftu sig 1899 og voru þá tvö ár í húsmennsku í Efra-Haganesi, til 1901, er þau hófu búskap í Neðra-Haganesi og bjuggu þar til 1905. Voru í Neskoti 1905-1916, á Mið-Mói 1916-1919 og í Neðra-Haganesi 1919-1931 er þau bruggðu búi og voru í húsmennsku í Efra-Haganesi í nokkur ár. Fluttu svo til Jóns sonar síns og Helgu konu hans að Molastöðum í Austur-Fljótum. Síðari búskaparár sín í Neðra-Haganesi vann Guðmundur mikið hjá Samvinnufélagi Fljótamanna við margvísleg störf sem til féllu. Hann sat í hreppsnefnd Haganeshrepps í nokkur ár og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum.
Maki: Aðalbjörg Anna Pétursdóttir (26.06.1875-25.06.1947).
Þau eignuðust fjögur börn. Einnig ólu þau upp að miklu leyti Sigríði Benediktsdóttur (f. 1896).

Hermann Jónsson (1938-2019)

  • S03526
  • Person
  • 13.11.1938-01.01.2019

Hermann Jónsson, f. í Móskógum í Fljótum 13.11.1938, d. 01.01.2019 á Sauðárkróki. Foreldrar: Jón Guðmundsson (1900-1988) og Helga Guðrún Jósefsdóttir (1901-1971). Hermann ólst upp í foreldrahúsum í Fljótum, fyrstu árin í Móskógum en fluttist vorið 1940 að Molastöðum með fjölskyldu sinni. Hann vann ýmis störf til sjós og lands, var bóndi á Merkigili í Eyjafirði 1960-1965 og bóndi í Lambanesi í Fljótum 1965-2001. Hann var hreppsstjóri í Holtshreppi frá 1982 og síðan í Fljótahreppi til ársins 1998. Þau hjónin fluttu til Sauðárkróks haustið 2003 þar sem Hermann tók virkan þátt í félagsstarfi eldri borgara.
Maki: Auður Ketilsdóttir frá Finnastöðum (f. 1937). Þau eignuðust einn sön. Fyrir átti Hermann einn son, Hólmkel Hreinsson.