Showing 550 results

Authority record
Reykjavík

Hákon Bjarnason (1907-1989)

  • S02930
  • Person
  • 13. júlí 1907 - 16. apríl 1989

Foreldrar: Ágúst H. Bjarnason, prófessor í heimspeki við HÍ og Sigríður Jónsdóttir kennari við Kvennaskólann. Hákon lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1926 og hélt að því loknu til náms í skógræktarfræðum við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Þaðan brautskráðist hann 1932 fyrstur Íslendinga í þessum fræðum. Vann einn vetur sem aðstoðarmaður á Plantefysiologisk Laboratorium við sama háskóla. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands frá 1933 til loka 7. áratugarins. Kjörinn heiðursfélagi þess 1977. Hákon var skipaður skógræktarstjóri 1935 og gegndi því starfi í 42 ár, til 1977. Hákon dvaldist erlendis veturinn 1936—37 til þess að kynna sér vinnubrögð við tilraunastarfsemi í jarðannsóknum. Forstöðu Mæðiveikivarna gegndi Hákon til 1941. Beitti sér mjög fyrir innflutningi trjátegunda til Íslands í störfum sínum sem og notkun lúpínu við landgræðslu. Hákon var kjörinn heiðursfélagi Norska skógræktarfélagsins.
Maki 1: Guðrún Magnúsdóttir Þau eignuðust eina dóttur. Þau slitu samvistum.
Maki 2: Guðrún Bjarnason. Þau eignuðust fjögur börn.

Hákon G. Torfason (1929-2020)

  • S03102
  • Person
  • 1. mars 1929 - 13. sept. 2020

Verkfræðingur í Reykjavík. Bæjarstjóri á Sauðárkróki 1966-1974. Maki: Ásta Kristjánsdóttir, þau eignuðust þrjú börn saman, fyrir átti Ásta tvær dætur sem Hákon gekk í föðurstað.

Hálfdan Helgason (1937-

  • S01709
  • Person
  • 24. nóv. 1937

Foreldrar Hálfdánar voru Helgi Ólafsson kennari á Sauðárkróki og Akureyri, síðar búsettur í Reykjavík, og k.h. Valý Þ.Á. Ágústsdóttir. Kennari, búsettur í Reykjavík, kvæntist Hjördísi Magnúsdóttur kennara.

Hálfdán Steingrímsson (1920-2012)

  • S01675
  • Person
  • 26. sept. 1920 - 15. ágúst 2012

Fæddur á Flateyri. Foreldrar hans voru Steingrímur Árnason, útgerðarmaður á Flateyri, í Keflavík og víðar og f.k.h. Kristín Hálfdánardóttir frá Meiri-Hlíð í Bolungarvík. ,,Þegar hann var sjö ára gamall missti hann móður sína og var sendur í fóstur um skeið í Hegranes í Skagafirði. Síðan fór hann til föður síns og seinni konu hans, Grétu Þorsteinsdóttur, sem höfðu þá sest að á Sauðárkróki. Þar ólst hann upp ásamt bræðrum sínum fram á unglingsár. Fjölskyldan flutti síðar til Reykjavíkur og átti Hálfdán þar heimili æ síðan eða þar til árið 2009 er hann og flutti ásamt konu sinni til Mosfellsbæjar. Hálfdán stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og gerðist að því loknu vörubílstjóri í Reykjavík. Árið 1951 tók hann við sem prentsmiðjustjóri í Steindórsprenti hf. sem síðar varð Steindórsprent-Gutenberg ehf. Þessu starfi gegndi hann til starfsloka árið 2000, eða í tæp 50 ár. Hálfdán var virkur félagi í Oddfellowreglunni og gegndi þar fjölmörgum trúnaðarstörfum."
Árið 1943 kvæntist Hálfdán Ingibjörgu Steindórsdóttur frá Reykjavík, þau eignuðust þrjú börn.

Halldór Briem (1852-1929)

  • S01300
  • Person
  • 5. sept. 1852 - 29. júní 1929

Foreldrar: Eggert Briem sýslumaður á Reynistað og k.h. Ingibjörg Eiríksdóttir. Prestur og kennari, síðast bókavörður í Reykjavík.

Halldór Eyþórsson (1924-2007)

  • S02356
  • Person
  • 12. mars 1924 - 21. sept. 2007

Halldór var fæddur 12. mars 1924 í Fremri - Hnífsdal við Djúp. Foreldrar hans voru Jón Eyþór Guðmundsson og Pálína Salóme Jónsdóttir. Halldór ólst upp í Fremri-Hnífsdal til 12 ára aldurs, en flutti þá með foreldrum sínum í Húnavatnssýsluna. Árið 1947 keyptu þau hjón Syðri - Löngumýri í Blöndudal. Allan sinn starfsaldur var Halldór bóndi þar, en um nokkurra ára skeið vann hann sem hirðir hjá Fáki í Reykjavík á veturna. Á sumrin var hann vörður við sauðfjárvarnargirðingu á Kili.

Halldór Jónas Jónsson (1920-2010)

  • S02539
  • Person
  • 17. okt. 1920 - 21. maí 2010

Halldór var fæddur í Reykjavík. Foreldrar hans voru Jón Jónsson kennari og Ingibjörg Snorradóttir. Að mestu leyti ólst Halldór upp hjá móðurfólki sínu að Laxfossi í Norðurárdal. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1940. Halldór nam íslensk fræði við Háskóla Íslands og stundaði kennslu við Gagnfræðaskólann við Lindargötu í Reykjavík. Árið 1961 varð hann safnvörður Þjóðminjasafns Íslands og hélt þeirri stöðu þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Halldór var vinsæll prófarkalesari enda afburða íslenskumaður og liggja eftir hann ýmsar þýðingar og rit. Fyrri eiginkona Halldórs var Bodil Margarethe Shan Smidt, þau skildu, en áttu saman einn son. Seinni kona hans var Gyða Thorsteinsson.

Halldóra Helgadóttir (1932-2005)

  • S01706
  • Person
  • 15. apríl 1932 - 7. feb. 2005

Halldóra Helgadóttir fæddist á Akureyri 15. apríl 1932, dóttir Helga Ólafssonar kennara á Sauðárkróki og Akureyri og k.h. Valýar Þorbjargar Ágústsdóttur. ,,Halldóra var gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri, hjúkrunarnemi, síðar sjúkraliði á Landakoti um árabil." Halldóra giftist Friðrik Sigurbjörnssyni lögfræðingi, þau eignuðust þrjú börn.

Hallgrímur Bogason (1898-1985)

  • S03027
  • Person
  • 17. ágúst 1898 - 12. júní 1985

Fæddur í Stóra-Holti í Fljótum. Foreldrar: Bogi Guðbrandur Jóhannesson og Kristrún Hallgrímsdóttir, bændur á Minni-Þverá í Fljótum og víðar. Hallgrímur ólst upp hjá foreldrum sínum sem bjuggu á ýmsum jörðum í Austur-Fljótum. Hann hóf ungur störf til sjós. Er þau bjuggu á Skeiði kynntist hann verðandi eiginkonu sinni. Hófu þau búskap í sambýli við foreldra Hallgríms og fluttust með þeim að Sléttu ári síðar. Árið 1925 hófu þau sjálfstæðan búskap á Minna-Grindli en fóru tveimur árum síðar að Knappstöðum í Stíflu og voru þar fyrstu tvö árin í sambýli með foreldrum Kristrúnar. Árið 1929 tóku þau við jörðinni allri og bjuggu til ársins 1960 er þau brugðu búi og fluttu til Reykjavíkur. Í Reykjavík hóf Hallgrímur störf við útkeyrslu hjá ÁTVR en lenti í vinnuslysi sem hann jafnaði sig ekki af. Hallgrímur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í sínu byggðarlagi, var um áraraðir meðhjálpari við Knappstaðakirkju og lengi kjötmatsmaður hjá Samvinnufélagi Fljótamanna.
Maki: Kristrún Aronía Jónasdóttir (1903-1989) frá Knappstöðum. Þau eignuðust átta börn.

Hallgrímur Helgason (1959-

  • S02631
  • Person
  • 18. feb. 1959-

Hallgrímur Helgason er íslenskur rithöfundur, málari, þýðandi, skopteiknari og greinahöfundur. Hann nam við Myndlista- og Handíðaskólann veturinn 1979-1980 og Listaakademíuna í München 1981-1982. Hallgrímur hefur starfað sjálfstætt sem myndlistarmaður og rithöfundur frá árinu 1982. Tónskáld.

Hallgrímur Marinósson (1944-2012)

  • S02574
  • Person
  • 16. júlí 1944 - 25. sept. 2012

Hallgrímur var fæddur í Reykjavík og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Katrín Kristín Hallgrímsdóttir húsfreyja og Marinó Kristinn Jónsson bifreiðastjóri. Hallgrímur kvæntist Arndísi Kristínu Sigurbjörnsdóttur hannyrðakonu og leiðbeinanda. Þau eignuðust fjögur börn.

Hallgrímur Þorsteinsson (1864-1952)

  • S01628
  • Person
  • 10. apríl 1864 - 9. nóv. 1952

Hallgrímur fæddist í Götu í Hrunamannahreppi 1864, en ólst upp að mestu hjá séra Jóhanni Briem í Hruna. Hann nam orgelleik hjá Einari orgelleikara og trésmið Einarssyni. Hallgrímur tók organistapróf hjá séra Sæmundi Jónssyni í Hraungerði. Hallgrímur var organisti, tónskáld, söngkennari og stjórnandi lúðrasveitar og kóra. Flutti til Sauðárkróks árið 1893 til að starfa við barnaskólann þar og hjá Sauðárkrókssöfnuði. Ári síðar stofnaði hann Söngfélagið Svölu og tók Svalan m.a. að sér kirkjusöng. Söngkennari í Reykjavík á þriðja og fjórða áratug 20. aldar, einn af fyrstu hvatamönnum af stofnun Lúðrasveitar Reykjavíkur. Kvæntist Margréti Sigríði Björnsdóttur frá Hjaltastaðahvammi, þau eignuðust þrjú börn.

Hallur Pálsson (1898-1979)

  • S01781
  • Person
  • 18. mars 1898 - 23. ágúst 1979

Foreldrar: Páll Pálsson lengst af b. í Garði í Hegranesi og k.h. Steinunn Hallsdóttir. Hallur fluttist með foreldrum sínum í Framnes vorið 1920 þar sem hann kynntist konuefni sínu, Kristínu Sigtryggsdóttur. Þau hófu búskap á hluta Framness 1922 og bjuggu þar í tvö ár. Þaðan fóru þau í Brimnes þar sem þau virðast hafa dvalið í tvö ár. Árið 1926 festu þau kaup á hluta Garðs í Hegranesi þar sem þau bjuggu til 1937 er þau fluttu til Akureyrar. Á Akureyri starfaði Hallur í Skinnaverksmiðjunni. Vorið 1946 fluttu þau suður til Reykjavíkur þar sem Hallur fékk starf sem fangavörður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Árið 1955 hóf hann störf sem verkstjóri hjá Trésmiðjunni Víði og starfaði þar í tíu ár. Hallur og Kristín eignuðust ekki börn en tóku tvö fósturbörn.

Hannes Hannesson (1888–1963)

  • S02956
  • Person
  • 25. mars 1888 - 20. júlí 1963

Hannes Hannesson var fæddur á Hafsteinsstöðum í Staðarhreppi. Foreldrar hans voru Hannes Gottskálksson húsmaður í Kjartansstaðakoti á Langholti og barnsmóðir hans Steinunn Jónsdóttir vinnukona á Hraunum í Fljótum. Hannes fór í fóstur til Guðfinnu Guðlaugsdóttur og Jóns Sigurðssonar hreppsstjóra á Molastöðum, síðar Illugastöðum í Holtshreppi og ólst upp hjá þeim. Hannes lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands vorið 1917 og fékkst við kennslu nánast óslitið næstu fjóra áratugina. Bóndi á Melbreið í Stíflu 1921-1963. Hannes tók fullan þátt í flestum menningar- og hagsældarmálum sveitarinnar, var einn af stofnendum Málfundarfélagsins Vonar í Stíflu og Ungmennafélags Holtshrepps. Jafnframt sat hann í sveitarstjórn Holtshrepps í 30 ár, ásamt því að sitja í skattanefnd, sóknarnefnd og í stjórn Samvinnufélags Fljóta. Hannes ritaði mikið af þjóðlegum fróðleik, skrifaði annála úr Fljótum, safnaði kveðskap, þjóðsögum og margskonar persónufróðleik. Hannes var giftur Sigríði Jónsdóttur (1900-1995) frá Melbreið og eignuðust þau átta börn.

Haraldur Bessason (1931-2009)

  • S02546
  • Person
  • 14. apríl 1931 - 8. apríl 2009

Haraldur var fæddur í Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði. Foreldrar hans voru Elínborg Björnsdóttir kennari og Bessi Gíslason b. og hreppsstjóri í Kýrholti. ,,Haraldur varð stúdent frá MA 1951 og cand. mag. frá HÍ 1956. Hann var prófessor og deildarformaður íslenskudeildar Manitobaháskóla 1956-1987, forstöðumaður og síðan fyrsti rektor Háskólans á Akureyri 1988-1994; fluttist 2003 til Toronto og stundaði kennslu og ritstörf uns yfir lauk. Haraldur gegndi ótal trúnaðarstörfum í þágu Vestur-Íslendinga, kom að ritstjórn fjölda tímarita (The Icelandic Canadian Magazine 1958-1976; Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi 1959-1969; Scandinavian Studies 1967-1981; Mosaic 1971-1974; Lögberg-Heimskringla 1979-1981) og var upphafsmaður að The University of Manitoba Icelandic Studies Series árið 1972, þar sem birtust m.a. þýðingar á Grágás og Landnámu og greinasafn um eddukvæði. Hann gegndi formennsku í félögum málfræðinga vestra og hélt fjölda fyrirlestra á fræðasviði sínu. Haraldur vann að og stóð fyrir grunnrannsóknum á máli og menningu Vestur-Íslendinga, skrifaði greinar og bókarkafla, m.a. um verk Halldórs Laxness í European Writers. The Twentieth Century (1990), þýddi A History of the Old Icelandic Commonwealth (1974) eftir Jón Jóhannesson, og ritstýrði (ásamt Baldri Hafstað) geinasöfnunum Heiðin minni (1999), og Úr manna minnum (2002). Sagnalist Haralds birtist í Bréfum til Brands (1999), og Dagstund á Fort Garry (2007). Væntanlegt er safn greina eftir Harald sem félagar við HA standa fyrir. Haraldur Bessason hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu og varð heiðursfélagi Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi 1972; heiðursfélagi Íslendingadagsnefndar í Manitoba og heiðursborgari Winnipeg 1987; heiðursdoktor við Manitobaháskóla 1990 og við HA 1999." Fyrri kona Haralds var Ásgerður, þau skildu, þau eignuðust þrjár dætur. Seinni kona Haralds er Margrét Björgvinsdóttir kennari, þau eignuðust eina dóttur.

Haraldur Þórðarson (1943-2019)

  • S02564
  • Person
  • 13. maí 1943 - 21. nóv. 2019

Haraldur var vinnumaður á Sjávarborg í Skagafirði nokkur sumur, síðast 1958. Hann starfaði lengi í lögreglunni í Reykjavík. Síðar tækjafræðingur við Háskóla Íslands. Haraldur kvæntist Málfríði Haraldsdóttur. Þau eignuðust tvo syni.

Haraldur Valdimar Ólafsson (1901-1984)

  • S02689
  • Person
  • 3. júní 1901 - 18. sept. 1984

Lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1920. Var við nám í Danmörku og Þýskalandi 1922-1923. Var aðstoðarmaður föður síns, Ólafs Magnússonar kaupmanns við versluna Fálkann árin 1921-1948. Framkvæmdastjóri Fálkans frá 1948-1955. Framkvæmdastjóri þar ásamt bræðrum sínum þar til hann lét af störfum vegna aldurs 1975. Gegndi ýmsum félagsstörfum á vettvangi hljómplötuframleiðenda og var aðalræðismaður lýðveldisins Kóreu frá 1970. Gerður heiðursfélagi í deild Íslendingafélagsins í Winnipeg árið 1968. Heiðursfélagi Karlakórsins Vísis og Lúðrasveitarinnar Svans árið 1969. Maki: Þóra Finnbogadóttir frá Skarfanesi. Þau eignuðust tvö börn en fyrir átti Haraldur einn son.

Hauður Sigrún Haraldsdóttir (1932-)

  • S03607
  • Person
  • 10.03.1932-

Hauður Sigrún Haraldsdóttir, f. 10.03.1932. Forldrar: Haraldur Sigurðsson verslunarmaður á Sauðárkróki (1882-1963) og Ólöf Sesselja Bjarnadóttir (1904-1984).
Búsett í Reykjavík, starfaði við veirurannsóknir. Ógift.

Haukur Hannesson (1959-

  • S02533
  • Person
  • 31. okt. 1959-

Haukur er sonur hjónanna Hannesar Pálma Péturssonar og Ingibjargar Hauksdóttur. Haukur er íslenskufræðingur/bókmenntafræðingur.

Haukur Jósef Jósefsson (1915-1999)

  • S01500
  • Person
  • 11. nóv. 1915 - 3. sept. 1999

Haukur Jósefsson fæddist 11. nóvember 1915 á Vatnsleysu í Viðvíkurhreppi í Skagafirði. Hann var alinn upp á Vatnsleysu og á Hólum í Hjaltadal. Foreldrar hans voru Jósef Jón Björnsson skólastjóri og bóndi og 3.k.h. Hildur Björnsdóttir. ,,Haukur varð búfræðingur frá Búnaðarskólanum á Hólum árið 1932. Stundaði nám við Héraðsskólann í Reykholti 1933-­34. Sat í Samvinnuskólanum 1936-­38. Sótti námskeið í hagfræði og viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Var við nám og störf í Svíþjóð á vegum Samvinnuhreyfingarinnar frá 1945 til 1946. Haukur hóf störf hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga 1.10. 1939. Hann var deildarstjóri byggingarvörudeildar Sambandsins frá 1947 þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Samvinnuhugsjónin var Hauki alla tíð hjartfólgin og tók hann virkan þátt í störfum starfsmannafélags SÍS, var m.a. formaður, stóð að stofnun Sambands starfsmannafélaga samvinnumanna og vildi í hvívetna auka veg samvinnuhreyfingarinnar. Rætur Hauks voru alla tíð í Skagafirðinum og því ekki að undra að meðal áhugamála hans voru hestamennska og kórsöngur." Haukur kvæntist 24.5. 1947 Svövu Jensen Brand, þau eignuðust þrjú börn.

Haukur Pálsson (1931-2011)

  • S01479
  • Person
  • 20. jan. 1931 - 13. júní 2011

Foreldrar hans voru Páll Sveinbjörnsson frá Kjalarlandi í Austur-Húnavatnssýslu, og Sigrún Fannland frá Ingveldarstöðum á Reykjaströnd í Skagafirði. ,,Haukur var fæddur og uppalinn á Sauðárkróki. Hann nam mjólkurfræði í Statens Meieriskole í Þrándheimi, Noregi og útskrifaðist þaðan 1955. Eftir útskrift fluttist hann heim til Sauðárkróks og hóf störf hjá Mjólkursamlagi KS. Hinn 2. ágúst 1958 kvæntist Haukur Sigurlaugu Valdísi Steingrímsdóttur frá Hvammi í Vatnsdal. Á árunum 1972 til 1978 starfaði hann sem verkstjóri í sælgætisgerðinni Víkingi í Reykjavík. Þaðan flutti hann sig svo aftur til mjólkursamlagsins á Sauðárkróki og sérhæfði sig í ostagerð. Hann vann til margra verðlauna í þeirri grein. Eftir starfslok 1998 fluttu þau hjón til Garðabæjar og bjó hann þar til æviloka."

Haukur Snorrason (1916-1958)

  • S03080
  • Person
  • 1. júlí 1916 - 10. maí 1958

Fæddur á Flateyri. Búsettur á Akureyri 1930-1956, síðustu tvö árin í Reykjavík. Lauk gagnfræðaprófi á Akureyri og fór síðan til náms í Englandi. Starfaði sem gjaldkeri hjá Kaupfélagi Eyfirðinga um tíma og var einnig fræðslufulltrúi þess. Tók við ritstjórn blaðsins Dags á Akureyri árið 1944 og hélt því starfi til 1956. Þá varð hann annar af tveimur ritstjórum Tímans í Reykjavík. Á árunum 1947-1950 var hann einnig ritstjóri Samvinnunnar.
Maki: Else Friðfinnsson, þau eignuðust þrjú börn.

Hávarður Friðriksson (1891-1985)

  • S02931
  • Person
  • 7. nóv. 1891 - 31. des. 1985

Bóndi á Hallsstöðum í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp. Síðast búsettur í Reykjavík.

Helga Dýrleif Jónsdóttir (1895-1995)

  • S02107
  • Person
  • 8. des. 1895 - 7. júní 1995

Helga Dýrleif Jónsdóttir fæddist á Gunnfríðarstöðum í Langadal í A-Hún. Foreldrar hennar voru Anna Einarsdóttir, f. á Hring í Blönduhlíð og Jón Hróbjartsson, f. á Reykjarhóli í Biskupstungum. Hinn 14. júlí 1918 giftist Helga Steingrími Á. B. Davíðssyni, þau eignuðust tólf börn sem upp komust, þau bjuggu á Blönduósi, síðar í Reykjavík. Helga var síðast búsett á Blönduósi.

Helga Halldórsdóttir (1907-1980)

  • S02147
  • Person
  • 23. okt. 1907 - 19. júlí 1980

Barnfóstra á Húsavík hjá Birni Jósefssyni lækni frá Hólum í Hjaltadal. Síðar búsett í Reykjavík.

Helga Helgadóttir (1889-1970)

  • S02034
  • Person
  • 01.01.1889-15.10.1970

Foreldrar: Helgi Björnsson b. á Ánastöðum og f.k.h. Steinunn Jónsdóttir. Móður sína missti Helga, þá er hún var aðeins á þriðja ári, og fór hún þá í fóstur til móðurbróður síns, Magnúsar í Gilhaga og k.h. Helgu Indriðadóttur. Þar ólst hún upp til fullorðinsára. Helga Helgadóttir fluttist til Reykjavíkur fullþroska og var þar við margvísleg störf, m.a. lengi í fiskvinnu. Þá lærði hún karlmannafatasaum og stundaði saumaskap alla tíð meðfram búskap. Kvæntist Bjarna Björnssyni frá Óspaksstöðum í Hrútafirði. Þau bjuggu fyrst á Mýrum í Hrútafirði þar sem Bjarni hafði búið með fyrri konu sinni. Árið 1933 festu þau kaup á Skíðastöðum á Neðribyggð í Lýtingsstaðahreppi og bjuggu þar til 1944 er þau slitu samvistir. Helga var síðast búsett í Reykjavík og starfaði þar lengst af á Elliheimilinu Grund. Helga og Bjarni eignuðust eina dóttur saman, fyrir átti Bjarni þrjú börn.

Helga Hinriksdóttir (1923-2011)

  • S02537
  • Person
  • 9. sept. 1923 - 19. ágúst 2011

Helga var fædd í Úlfstaðakoti í Blönduhlíð í Skagafirði. Foreldrar hennar voru Jóhanna Hallgrímsdóttir og Hinrik Sigurður Kristjánsson. Fjölskyldan flutti í Bakkasel um vorið 1927, en um haustið missti Helga föður sinn. Móðir Helgu flutti þaðan vorið eftir og fór þá sem ráðskona í Silfrastaði í Blönduhlíð. Helga fylgdi móður sinni og ólst upp hjá henni. Vorið sem Helga fermdist voru þær mæðgur á Víðivöllum en þar voru þær í eitt ár en fóru svo aftur í Silfrastaði. Eftir 15 ára aldur fór hún að vinna fyrir sér og upp úr 1940 flutti hún til Reykjavíkur. Í Reykjavík vann hún fyrst á Langholtsbúinu en þar var Gígja systir hennar líka. Eitt ár starfaði hún á Reykjalundi, einnig vann hún á saumastofum. Í Langholti kynntist hún Sveini verðandi eiginmanni sínum. 1949 fluttust þau hjónin norður í Skagafjörð og settust að á Hafragili í Laxárdal þar sem þau bjuggu til 1968 er þau fluttu til Sauðárkróks. Fyrsta sumarið á Króknum vann hún á Hótel Mælifelli en fór svo að vinna í fiski. Lengst af starfaði Helga þó í þvottahúsi Sjúkrahúss Skagfirðinga eða þar til hún lét af störfum sökum aldurs. Síðustu æviár Sveins bjuggu þau í Grenihlíð 9, Sauðárkróki og bjó Helga þar síðan ein til ársins 2007 er hún flutti á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki.Hún flutti til Reykjavíkur um 1940, en þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, Sveini Bjarnasyni. Árið 1949 fluttu þau til Skagafjarðar og bjuggu á Hafragili í Laxárdal, en fluttu á Sauðárkrók 1968. Helga og Sveinn eignuðust fimm börn.

Helga Pálmey Benediktsdóttir (1902-1970)

  • S01205
  • Person
  • 6. apríl 1902 - 18. september 1970

Dóttir Benedikts Þorsteinssonar b. í Birkihlíð, Kimbastöðum og Gili og s.k.h. Sigurborgar Jóhannesdóttur. Húsfreyja í Godthaab, Vestmannaeyjum 1930. Síðast búsett í Reykjavík. Kvæntist Hermanni Benediktssyni.

Helga Pálsdóttir Biering (1926-)

  • S01532
  • Person
  • 5. nóv. 1926-

Foreldrar hennar voru Páll Friðriksson múrari á Sauðárkróki og s.k.h. Sólveig Danivalsdóttir. Húsmóðir í Reykjavík. Kvæntist Hilmari Biering, þau eignuðust tvö börn.

Helgi Rafn Traustason (1937-1981)

  • S01655
  • Person
  • 18. apríl 1937 - 21. des. 1981

Helgi Rafn Traustason fæddist á Patreksfirði 18. apríl 1937. Foreldrar hans voru Trausti Jóelsson og kona hans Rannveig Jónsdóttir.
Helgi Rafn stundaði nám í gagnfræðaskólanum í Reykjavík, á Laugarvatni og Akureyri. Hann lauk gagnfræðaprófi með ágætum frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Veturinn 1954-1955 nam hann við Samvinnuskólann í Reykjavík og lauk hann prófi úr þeim skóla árið 1955. Sama ár flutti skólinn að Bifröst í Borgarfirði. Hann vann við hreingerningar í Samvinnuskólanum er hann var við nám þar og hóf störf hjá Samvinnutryggingum mánuði áður en hann lauk þar námi. Þá vann hann nokkur sumur hjá Kaupfélagi Patreksfjarðar og í fjármáladeild Sambandsins sumarið 1954. Hann var aðalbókari hjá Samvinnutryggingum 1955-1960, kaupfélagsstjóri Samvinnufélags Fljótamanna 1960-1963, fulltrúi kaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga 1963-1972 og kaupfélagsstjóri KS 1972-1981. Helgi Rafn var frumkvöðull körfuboltans á Sauðárkróki.
Kona hans: Inga Valdís Tómasdóttir (1937-). Þau kvæntust árið 1957.

Helgi Skúlason (1892-1983)

  • S02992
  • Person
  • 22. júní 1892 - 7. nóv. 1983

Fæddur í Odda á Rangárvöllum. Foreldrar: Skúli Skúlason, stjórnarráðsritari og Sigríður Helgadóttir. Helgi var stúdent árið 1910 og lagði síðan stund á læknisfræði og lauk prófi árið 1915. Árið 1923 varð Helgi sérfræðingur í augnsjúkdómum, en þá hafði hann um hríð starfað að þeirri sérgrein. Hann varð héraðslæknir í Síðuhéraði frá 1. ágúst árið 1915, en því starfi gegndi hann til ársins 1919. Hann sinnti læknisstörfum í Reykjavík frá árinu 1921 til ársins 1927, en síðan á Akureyri. Hann var aukakennari í augnsjúkdómafræði við læknadeild Háskóla íslands á tímabilinu 1923 til 1927. Maki: Kara Sigurðardóttir Briem (1900-1982)

Helgi Þorgils Friðjónsson (1953-

  • S02581
  • Person
  • 7. mars 1953-

Helgi ólst upp í Búðardal, en fluttist til Reykjavíkur fimmtán ára gamall. Hann stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskólann 1971-1976. Hann stundaði einnig nám í Hollandi sem hann lauk árið 1979. Hann er myndlistarmaður.

Henrik Adólf Kristjánsson Linnet (1919-2014)

  • S01264
  • Person
  • 21. júní 1919 - 6. júní 2014

Sonur Kristjáns Linnet sýslumanns Skagafjarðarsýslu 1918-1924 og k.h. Jóhönnu Eyjólfu Ólafíu Júlíusdóttur Linnet. Héraðslæknir í Bolungarvík, síðar læknir í Reykjavík.

Herbert Sölvi Ásgrímsson (1915-1963)

  • S02760
  • Person
  • 20. jan. 1915 - 31. júlí 1963

Foreldrar: Ólöf Konráðsdóttir og Ásgrímur Halldórsson, búsett á Tjörnum í Sléttuhlíð og víðar. Herbert var bifreiðastjóri í Reykjavík. Reisti sér hús í landi Tjarna og kallaði Þrastarlund. Maki: Kristín Anna Jóhannsdóttir, f. 1911 á Lónkoti í Sléttuhlíð. Þau eignuðust sex börn.

Herdís Helgadóttir (1928-2017)

  • S01704
  • Person
  • 10. júlí 1928 - 19. jan. 2017

Fæddist á Sauðárkróki 10. júlí 1928, dóttir Helga Ólafssonar kennara og Valýar Þorbjargar Ágústsdóttur. ,,Herdís lauk prófi frá Hjúkrunarskóla Íslands 1951 og var skólahjúkrunarfræðingur á Siglufirði frá 1955 til 1968. Hún hóf störf á lungnadeild Landspítalans árið 1968 og var deildarstjóri taugadeildar frá 1970 til 1984. Herdís var deildarstjóri á Droplaugarstöðum frá 1986 til 1991. Hún var varaformaður Kvenfélags Hallgrímskirkju frá 1968 til 1985 og varaformaður Prestakvennafélags Íslands frá 1972 til 1975." Herdís giftist sr. Ragnari Fjalari Lárussyni, prófasti frá Miklabæ, þau eignuðust sex börn.

Herselía Sveinsdóttir (1900-1983)

  • S02553
  • Person
  • 30. nóv. 1900 - 2. mars 1983

Foreldrar: Sveinn Gunnarsson b. á Mælifellsá og k.h. Margrét Þórunn Árnadóttir. Útskrifaðist frá Kvennaskólanum á Blönduósi árið 1921 og hóf sama ár barnakennslu í Lýtingsstaðahreppi. Árið 1929 eignaðist hún hluta í jörðinni Ytri-Mælifellsá og hóf þar búskap ásamt Steinunni systur sinni og Sveini manni hennar. Árið 1936 útskrifaðist Herselía frá Kennaraskóla Íslands, stundaði forfallakennslu í Reykjavík til ársins 1941, er hún var settur kennari í Ásahreppi í Holtum. Árið 1942 kom hún aftur í Skagafjörð og var skipuð skólastjóri í Lýtingsstaðahreppi og gegndi því starfi til 1965. Hún var til heimilis í Steinsstaðaskóla 1948-1965. Herselía lagði lið öllum þeim framfara-, framkvæmda-, og félagsmálum sem í umræðunni voru á þessum tíma. Hún stofnaði barnastúku og stjórnaði henni í 23 ár, var virkur félagi í kvenfélagi hreppsins og sömuleiðis í ungmennafélaginu. Árið 1972 var gefin út eftir hana smásagnasafnið Varasöm er veröldin. Síðar gaf hún út barnabókina Dagný og Doddi. Herselía var síðast búsett í Reykjavík.

Hildur Biering (1949-)

  • S01533
  • Person
  • 19.09.1949

Dóttir Helgu Pálsdóttur Biering og Hilmars Biering.

Hildur Björnsdóttir (1881-1965)

  • S01499
  • Person
  • 2. júlí 1881 - 19. nóv. 1965

Dóttir Björns Pálmasonar b. í Ásgeirsbrekku og Þuríðar Kristjánsdóttur frá Viðvík (þau voru ekki kvænt, hún fór til Vesturheims). Hildur kvæntist Jósefi Jóni Björnssyni skólastjóra á Hólum og alþm. á Vatnsleysu, þau eignuðust fimm börn saman. Fyrir hafði Jósef verið tvíkvæntur og eignast börn með fyrri konum sínum, sex þeirra höfðu komist á legg, þau átti hann með Hólmfríði Björnsdóttur, systur Hildar. Hildur og Jósef bjuggu á Hólum, á Vatnsleysu og síðast í Reykjavík.

Hilmar Hilmarsson (1949-)

  • S02900
  • Person
  • 20. maí 1949-

Foreldrar: Hulda Gísladóttir og Hilmari Jónssyni frá Tungu í Fljótum. Alinn upp á Sauðárkróki. Kjötiðnaðarmaður. Maki: Kristbjörg Óladóttir. Þau eiga þrjú börn og eru nú búsett í Reykjavík.

Hilmar Skagfield (1923-2011)

  • S00295
  • Person
  • 24.7.1923-14.8.2011

Hilm­ar fædd­ist á Páfa­stöðum 25. júlí 1923, son­ur hjón­anna Lovísu Al­berts­dótt­ur og Sig­urðar Skag­field. Bókhaldari í Reykjavík 1945. ,,Hann kvænt­ist Krist­ínu Guðmunds­dótt­ur og fluttu þau til Talla­hassee í Flórída, þar sem Hilm­ar stundaði nám. Þau bjuggu þar síðan. Hilm­ar var ræðismaður Íslands frá 1980 og aðalræðismaður frá 1985 þar til hann lét af störf­um 2007. Hilm­ar hafði alla tíð mik­il sam­skipti við Ísland og Íslend­inga. Hann var m.a. hvatamaður að stofn­un Kiw­an­is-hreyf­ing­ar­inn­ar á Íslandi. Þá var hann einnig hvatamaður að því að lög­regl­an í Reykja­vík og lög­regl­an í Talla­hassee tóku upp sam­starf á sviði mennt­un­ar lög­reglu­manna." Hilmar og Kristín eignuðust þrjú börn.

Hjálmar Rögnvaldur Bárðarson (1918-2009)

  • S02552
  • Person
  • 8. júní 1918 - 7. apríl 2009

Hjálmar var fæddur á Ísafirði 8. júní 1918. Foreldrar hans voru Filippía Hjálmarsdóttir húsfreyja og Bárður G. Tómasson skipaverkfræðingur. Hjálmar varð stúdent frá MR 1939 og lauk prófi í skipaverkfræði 1947 frá DtH í Kaupmannahöfn. Hann starfaði hjá skipasmíðastöðvum í Danmörku og Englandi eftir námslok, en síðan hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík. Hann hannaði og stóð fyrir smíði á fyrsta íslenska stálskipinu, Magna. Einnig hannaði hann fjölda fiskiskipa. Árið 1954 var Hjálmar skipaður skipaskoðunarstjóri og síðar siglingamálastjóri, en því embætti gengdi hann til starfsloka 1985. Hann var forseti Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) 1969-1971. Hjálmar var áhugaljósmyndari af lífi og sál og gaf út 12 ljósmyndabækur um Ísland og íslenska náttúru. Einnig gaf hann út tvær bækur um íslensk fiskiskip. Bárður kvæntist Else Sörensen frá Danmörku árið 1946. Þau voru barnlaus.

Hjálmar Þorsteinsson (1886-1982)

  • S02104
  • Person
  • 5. sept. 1886 - 20. maí 1982

Fæddur að Reykjum í Hrútafirði. Hóf búskap í Mánaskál í Laxárdal með konu sinni Önnu Guðmundsdóttur frá Holti á Ásum. Fluttu síðan að Hofi á Kjalarnesi og við þann bæ var Hjálmar jafnan kenndur. Fluttu síðan að Jörva og síðast til Reykjavíkur. Hjálmar var skáld og gaf út nokkrar bækur.

Hjalti Pálsson (1922-2002)

  • S01183
  • Person
  • 1. nóvember 1922 - 24. október 2002

Hjalti Pálsson fæddist á Hólum í Hjaltadal 1. nóvember 1922. Foreldrar hans voru hjónin Páll Zópóníasson skólastjóri á Hólum, síðar alþm. og búnaðarmálastjóri, og Guðrún Hannesdóttir. Þau bjuggu á Hvanneyri, Kletti í Reykholtsdal, Hólum í Hjaltadal og í Reykjavík. ,,Hjalti varð gagnfræðingur í Reykjavík 1938, búfræðingur frá Hólum 1941, stundaði nám í landbúnaðarverkfræði við háskóla í Fargo í Norður-Dakota í Bandaríkjunum árin 1943-1945 og eftir það við háskóla í Ames í Iowa 1945-1947 og lauk þaðan BSc.-prófi. Hjalti hóf störf í véladeild SÍS árið 1948 og varð framkvæmdastjóri Dráttarvéla hf. frá 1949 til 1960. Frá 1952 var hann framkvæmdastjóri véladeidar SÍS og innflutningsdeildar SÍS frá 1967 þar til hann lét af störfum árið 1987 fyrir aldurs sakir. Hjalti sat í framkvæmdastjórn SÍS í nærri fjóra áratugi, var varaformaður stjórnar frá 1977 og um nokkurt skeið stjórnarformaður Dráttarvéla. Hann sat einnig í stjórn Osta- og smjörsölunnar um árabil og var þar endurskoðandi. Hjalti stofnaði fyrir hönd SÍS með öðrum innflytjendum sameignarfélagið Desa til innflutnings á skipum frá A-Þýskalandi, m.a. fyrir ríkisstjórnina. Hann sat í stjórn þess fyrirtækis þar til því var slitið 1975. Hann vann að stofnun Kornhlöðunnar til innflutnings á lausu korni til fóðurblöndunar, var fyrsti stjórnarformaður hennar og sat í stjórn hennar um árabil. Þá var hann um langt skeið í stjórn Jötuns, var formaður byggingarnefndar Holtagarða, í samninganefnd um viðskipti milli Þýskalands og Íslands árið 1954, í samninganefnd milli Íslands og A-Þýskalands 1958-1960 og var skipaður í fleiri nefndir á vegum hins opinbera, m.a. Hólanefnd sem gerði tillögur um uppbyggingu Hólastaðar. Eftir að Hjalti lét af störfum hjá SÍS vann hann ýmis verkefni fyrir Landssamband hestamanna og var gerður að heiðursfélaga. Sat hann um árabil í stjórn landssambandsins og var ævifélagi í Hestamannafélaginu Fáki. Hann var einnig heiðursfélagi Samtaka sykursjúkra sem hann tók þátt í að stofna árið 1971."
Hinn 21. febrúar 1951 kvæntist Hjalti Ingigerði Karlsdóttur flugfreyju, þau eignuðust þrjú börn.

Hjörtína Ingunn Jóelsdóttir (1925-1991)

  • S01865
  • Person
  • 07.06.1925-29.08.1991

Frá Stóru Ökrum í Blönduhlíð, dóttir Jóels Guðmundar Jónssonar bónda á Stóru-Ökrum og k.h. Ingibjargar Sigurðardóttur. Búsett í Reykjavík. Ógift og barnlaus.

Hólmar Magnússon (1914-1995)

  • S02550
  • Person
  • 14. okt. 1914 - 8. júlí 1995

Hólmar var fæddur á Sauðárkróki. Hann ólst upp hjá ömmu sinni, Málfríði Friðgeirsdóttur og manni hennar Þorkeli Jónssyni. Hólmar var stýrimaður frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík og vann sem slíkur í mörg ár. Hann var einnig húsasmiður að mennt og starfaði lengi á verkstæði Leikfélags Reykjavíkur.

Hólmfríður Björg Björnsdóttir (1916-1992)

  • S02143
  • Person
  • 12. sept. 1916 - 16. mars 1992

Foreldrar hennar voru hjónin Björn Jósefsson, læknir á Húsavík, f. á Hólum í Hjaltadal og Sigríður Lovísa Sigurðardóttir, f. á Hofsstöðum í Viðvíkursveit. Veiktist af berklum á unga aldri og náði aldrei fullri heilsu eftir það. Dvaldi í Danmörku árið 1939. ,,Díva gekk í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og kenndi síðan við skólann. Díva giftist ekki og átti engin börn en hélt heimili með foreldrum sínum meðan þau lifðu. Síðast búsett í Reykjavík."

Hólmfríður Pálmadóttir (1897-1969)

  • S01503
  • Person
  • 9. júní 1897 - 11. okt. 1969

Foreldrar: Pálmi Björnsson og k.h. Ingibjörg Málfríður Grímsdóttir. Þegar hún var sex ára gömul settust foreldrar hennar að á Ytri-Húsabakka í Seyluhreppi og ólst hún upp þar. Hólmfríður lærði karlafatasaum á Sauðárkróki. Árið 1921 kvæntist hún Sigvalda Pálssyni frá Langhúsum í Viðvíkursveit. Fyrstu hjúskaparár sín bjuggu þau á Ytri-Húsabakka og Syðri-Húsabakka. Bjuggu á Unastöðum í Kolbeinsdal 1923-1926 og í Langhúsum (nú Ásgarði) 1929-1936 er þau fluttu til Ólafsfjarðar og bjuggu þar í 28 ár. Á Ólafsfirði varð prjónaskapur aðal atvinna þeirra hjóna á veturna. Síðast búsett í Reykjavík.
Hólmfríður og Sigvaldi eignuðust þrjú börn.

Hólmfríður Sigurðardóttir (1913-2001)

  • S01962
  • Person
  • 12. apríl 1913 - 19. sept. 2001

Hólmfríður Sigurðardóttir fæddist á Hugljótsstöðum í Skagafirði 12. apríl 1913. Foreldrar Hólmfríðar voru Margrét Jakobína Baldvinsdóttir og Sigurður Stefán Ólafsson. Níu ára gömul fór Hólmfríður í fóstur að Undhóli í Óslandshlíð, til Hólmfríðar Jóhannesdóttur og Páls Gíslasonar. ,,Hólmfríður lauk barnaskóla og var einn vetur að Hólum í unglingaskóla. Hún fór til starfa á Siglufirði að loknu námi á Hólum, þá sautján ára gömul. Síðan lá leiðin til Reykjavíkur 1932 þar sem hún starfaði á saumastofu og víðar, hún var búsett þar síðan. Hólmfríður var einn af stofnendum Kvenfélags Bústaðasóknar og virkur félagi. Jafnframt lagði hún fram krafta sína í þágu aldraðra á Norðurbrún til margra ára." Hólmfríður giftist Bessa Guðlaugssyni frá Þverá í Norðurárdal í A-Húnavatnssýslu, 6. mars 1943, þau eignuðust fimm börn saman, fyrir átti Hólmfríður dóttur.

Hrafnhildur Ester Pétursdóttir (1939-

  • S02705
  • Person
  • 3. maí 1939-

Foreldrar: Pétur Jónsson verkstjóri á Sauðárkróki og kona hans Ólafía Sigurðardóttir. Flugfreyja hjá Loftleiðum um tíma. Tannfræðingur og starfsmaður á tannlæknastofu og hjá Reykjavíkurborg. Lærði tannfræði í Árósum í Danmörku. Búsett á Akureyri, síðar í Reykjavík. Maki: Pétur Pálmason byggingarverkfræðingur, þau eignuðust fimm börn.

Hrefna Róbertsdóttir (1961-

  • S02339
  • Person
  • 6. sept. 1961-

Hrefna er með doktorspróf í sagnfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hún var formaður sagnfræðistofnunar 1994-1996. Hrefna var skipuð þjóðskjalavörður árið 2019.

Hreiðar Ásmundsson (1929-2001)

  • S01478
  • Person
  • 18. feb. 1929 - 28. jan. 2001

Hreiðar Ásmundsson fæddist á Stóru-Reykjum (tvíburi). Foreldrar hans voru Ásmundur Jósefsson og Arnbjörg Eiríksdóttir. Hann var pípulagningarmeistari, búsettur í Reykjavík. Kvæntist Gyðu Arndal Svavarsdóttur.

Hróðmar Margeirsson (1925-2012)

  • S02809
  • Person
  • 5. sept. 1925 - 13. des. 2012

Hróðmar Margeirsson, f. 05.09.1925 á Ögmundarstöðum í Staðarhreppi. Foreldrar: Helga Óskarsdóttir, f. 1901, frá Hamarsgerði í Lýtingsstaðahreppi og Margeir Jónsson, f. 1889, bóndi, kennari og fræðimaður á Ögmundarstöðum. Hróðmar ólst upp á Ögmundarstöðum og tók snemma þátt í bústörfum þar. Hróðmar tók kennarapróf vorið 1947 og kenndi við Melaskólann í Reykjavík 1947-1956. Samhliða náminu og kennslu vann hann að búinu á sumrin. Maki: Ásdís Björnsdóttir frá Ölduhrygg í Svarfaðardal. Vorið 1956 tóku þau við búinu á Ögmundarstöðum og bjuggu þar síðan. Hróðmar var jafnframt skólastjóri barnaskóla Staðarhrepps frá 1956-1993. Síðasta æviárið dvaldi hann á Heilbrigðisstofuninni á Sauðárkróki. Hróðmar og Ásdís eignuðust 4 börn.

Hrönn Guðrún Jóhannsdóttir (1947-

  • S02557
  • Person
  • 30. des. 1947-

Foreldrar: Elín Baldvina Bjarnadóttir frá Reykjum í Tungusveit og maður hennar Jóhann Hólm Jónsson. Hrönn er fædd í Reykjavík. Hún er hjúkrunarfræðingur.

Hulda Árdís Stefánsdóttir (1897-1989)

  • S00415
  • Person
  • 01.01.1897 - 25.03.1989

Hulda var fædd á Möðruvöllum í Hörgárdal. Foreldrar hennar voru Stefán Stefánsson kennari og Steinunn Frímannsdóttir húsfreyja. Hulda lauk gagnfræðaprófi árðið 1912 á Akureyri; einnig nam hún tungumál og handavinnu þar. Árið 1916 lauk Hulda námi í húsmæðraskólanum í Vordingborg í Danmörku. Á árunum 1916 -1917 stundaði hún nám í píanóleik og tónfræði við Tónlistarskóla Matthisson Hansen í Kaupmannahöfn og var í framhaldsnámi þar 1919-1921. Hulda var organleikari í Þingeyrarkirkju í fimmtán ár. Hún var einn stofnanda kvenfélags Sveinsstaðahrepps árið 1928 og átti sæti í stjórn þess í fimmán ár. Einnig var Hulda í stjórn Sambands norðlenskra kvenna og formaður 1960 - 1964. Hulda var skólastjóri Kvennaskólans á Blönduósi 1932 - 1937 og aftur árabilið 1953 - 1967. Hún var skólastjóri Húsmæðraskólans í Reykjavík frá upphafi, árið 1941 og til ársins 1953. Endurminningar sínar gaf Hulda út í fjórum bindum. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1954 og síðar stórriddarakrossi orðunnar 1969. Eiginmaður Huldu var Jón Sigurðsson bóndi á Þingeyrum. Þau áttu eina dóttur.

Hulda Ester Michelsen (1912-1985)

  • S00079
  • Person
  • 26. nóv. 1912 - 29. ágúst 1985

Dóttir Frank Michelsen úrsmíðameistara á Sauðárkróki og Guðrúar Pálsdóttur. Starfaði sem ljósmyndari í Reykjavík.

Hulda Snæland Sigtryggsdóttir (1906-1978)

  • S02990
  • Person
  • 12. ágúst 1906 - 9. des. 1978

Foreldrar: Margrét Pálsdóttir (alin upp á Merkigili) og Sigtryggur Friðfinnsson b. á Giljum. Þau voru ekki í sambúð. Hulda stundaði verslunarstörf í Reykjavík.

Indriði Indriðason (1908-2008)

  • S02566
  • Person
  • 17. apríl 1908 - 4. júlí 2008

Indriði fæddist á Ytra-Fjalli í Aðaldal. Foreldrar hans voru Indriði Þórkelsson bóndi og oddviti og Kristín Sigurlaug Friðlaugsdóttir húsfreyja. Indriði stundaði nám í ensku og enskum bókmenntum í San Francisco og starfaði þar um tíma við múrverk og trésmíðar. Hann var bóndi á Grenjaðarstað í Aðaldal og einnig að hálfu í Aðalbóli í Aðaldal. Indriði var m.a. formaður Ættfræðifélags Íslands og í stjórn Félags Vestur - Íslendinga. Eftir hann liggja ýmis ritverk og eru þar kunnust Ættir Þingeyinga. Indriði var kvæntur Sólveigu Jónsdóttur húsfreyju. Þau eignuðust þrjú börn.

Inga Dóra Bjarnadóttir (1923-2012)

  • S01620
  • Person
  • 5. júní 1923 - 1. apríl 2012

Inga Dóra Bjarnadóttir, f. 05.06.1923 í Reykjavík, d. 01.04.2012 á Selfossi. Foreldrar: Guðrún Snorradóttir, f. 1896 og Bjarni Sigmundsson, f. 1898. Inga fæddist á Tungu við Laugaveg í Reykjavík þar sem foreldrar hennar höfðu aðsetur meðan þau reistu sér nýbýlið Hlíðarhvamm við Sogamýri en þangað fluttu þau 1925. Inga átti þrjá bræður. Árið 1930 fluttist fjölskyldan að Reykjavíkurvegi 6. Árið 1939 fór hún sem kaupakona að Miðengi í Grímsnesi.
Maki: Guðmundur Benediktsson, f. 24.07.1918, d. 20.09.2009. Þau eignuðust hálfa jörðina Miðengi og bjuggu á henni til 1952 en fluttu þá á Selfoss. Þau skildu árið 1957. Þau eignuðust þrjú börn.
Maki 2: Kjartan Ögmundsson, f. 10.05.1919, d. 1999, frá Kaldárhöfða í Grímsnesi. Þau eignuðust einn son.
Inga var virk í leiklistarstarfsemi, hjálparstarfi Rauða krossins og ýmsum félagsmálum.

Ingi Gests Sveinsson (1919-2000)

  • S03587
  • Person
  • 04.11.1919-12.5.2000

Ingi Gests Sveinsson, f. í Reykjavík 04.11.1919, d. 12.05.2000 í Hafnarfirði. Foreldrar: Sveinn Helgason frá Ketilsstöðum á Kjalarnesi og kona hans Björg Sigríður Þórðardóttir frá Sperlahlíð í Arnarfirði. Ingi ólst upp hjá foreldrum sínum i Reykjavík. Hann vann sem sendill, m.a. hjá O. Johnson og Kaaber. Árið 1941 lauk hann sveinsprófi í rennismíði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Síðan lærði hann vélvirkjun og bifvélarvirkjun. Árið 1945 flutti hann í Neskuapsstað og sáum byggingu slippsins þar. Árið 1948 kom hann á Sauðárkrók og tók við formennsku á Bifreiða- og vélaverkstæði KS. Þar vann hann til 1958, að hann byggði eigið verkstæði, Vélaverkstæði Inga Sveinssonar. Sumrin 1958 og 1959 vann hann á skurðgröfu hjá Ræktunarsambandi Skagfirðinga. Verkstæði rak hann til 1963 en þáfluttist hann til Reykjavíkur. Gerðist hann vélstjóri á olíuflutningaskipinu Hamrafelli og 1964-1966 vann hann við Búrfellsvirkjun. Árið 1967 hóf hannstörf hjá Íslenska álfélaginu þear það hóf göngu sína. Ingi var mikill sundmaður og tók átt í ýmsum keppnum og átti mörg Íslandsmet. Ingi var radíóamatör og á Sauðárkróki byggði hann fyrstur manna loftnetsturn með snúanlegu stefnuvirku loftneti. Hann var eini Íslendingurinn og einn örfárra manna á heimsvísu sem hafði komið á staðfestu radíósambandi í öll lönd veraldar. Hann var heiðursfélagi í íslenska radíóamatörafélaginu. Á Sauðárkróki kenndi Ingi eðlis- og efnafræði við Iðnskólann um tíma og tók virkan þátt í starfi Rótarýklúbbsins.
Maki 1: Guðrún Sigríður Gísladóttir (1941-1988). Þau eignuðust fjögur börn. Þau slitu samvistir 1968.
Maki 2: Lilja Eygló Karlsdóttir (191-2010). Lilja átti fimm börn af fyrra hjónabandi.

Ingi Tómas Lárusson (1892-1946)

  • S01649
  • Person
  • 26. ágúst 1892 - 24. mars 1946

Ingi T. Lárusson tónskáld fæddist á Seyðisfirði 26. ágúst 1892. Hann var sonur hjónanna Lárusar Tómassonar, skólastjóra, bókavarðar og sparisjóðsgjaldkera á Seyðisfirði, og k.h., Þórunnar H. Gísladóttur Wium. Ingi kvæntist 1921 Kristinu Ágústu Blöndal frá Seyðisfirði en þau skildu árið 1935, þau eignuðust eina dóttur. Ingi stundaði nám við VÍ 1911-13, starfaði við Hinar sameinuðu íslensku verslanir á Vestdalseyri, var símstöðvarstjóri á Norðfirði og á Vopnafirði og starfaði við Kaupfélag Héraðsbúa á Reyðarfirði. Ingi var eitt ástsælasta tónskáld þjóðarinnar á síðustu öld og bjó yfir snilligáfu á því sviði. Öll sín frægustu lög, svo sem Í svanalíki, Ég bið að heilsa, Litla skáld á grænni grein og Til fánans, samdi hann sem barn og unglingur. Lagið Ó, blessuð vertu sumarsól, samdi hann sjö ára að aldri.

Ingibjörg Árnadóttir (1883-1979)

  • S02703
  • Person
  • 17. sept. 1883 - 1. ágúst 1979

Foreldrar: Guðrún Þorvaldsdóttir frá Framnesi og Árni Jónsson b. og snikkari í Borgarey í Vallhólmi. Árni lést þegar Ingibjörg var aðeins fimm ára gömul. Móðir hennar kvæntist aftur, Pétri Gunnarssyni á Stóra-Vatnsskarði. Um tvítugsaldur settist Ingibjörg í kvennaskóla á Akureyri og lauk þar námi. Eftir það stóð hún fyrir búi hjá Árna bróður sínum á Stóra-Vatnsskarði þar til hann kvæntist. Hún tók í fóstur frænku sína, Guðrúnu Þorvaldsdóttur, þær fluttu til Reykjavíkur árið 1945 og bjó Ingibjörg þar til æviloka.

Ingibjörg Bjarnadóttir (1915-1990)

  • S02380
  • Person
  • 26. júní 1914 - 3. júní 1990

Ingibjörg fæddist á Reykjum í Lýtingsstaðarhreppi í Skagafirði. Dóttir hjónanna Kristínar Sveinsdóttur og Bjarna Kristmundssonar. Ingibjörg var ung tekin í fóstur af Kristjönu Ingibjörgu Jóhannsdóttur. Var húsfreyja í Reykjavík. Maki 1: Peder Jacobsen 1905-1950, þau eignuðust tvö börn. Maki 2: Gunnar Björnsson 1910 - 1990, þau eignuðust einn son.

Ingibjörg Hauksdóttir (1939-

  • S02375
  • Person
  • 19. júní 1939-

Ingibjörg er eiginkona Hannesar Péturssonar skálds, þau eiga einn son.

Ingibjörg Jónsdóttir (1908-2001)

  • S01489
  • Person
  • 5. apríl 1908 - 11. ágúst 2001

Ingibjörg er fædd á Bólu í Blönduhlíð, dóttir Jóns Ingimars Jónassonar og k.h. Oddnýjar Stefánsdóttur. Ingibjörg ólst upp í Bólu en fór til Akureyrar 1922 þar sem hún var m.a. í vistum. Hún fór í Kvennaskólann í R.vík og lauk þar námi. Árið 1930 flutti hún til Siglufjarðar þar sem hún setti upp matsölu og rak hana að sumrinu. Þá rak hún einnig saumastofu á Siglufirði og saumaði skinnhúfur, skinnhanska, lúffur og vinnuvettlinga. Þessa framleiðslu seldi hún víða um land. Ingibjörg tók mikinn þátt í félagslífi á Siglufirði. Auk þess að syngja með Kirkjukór Siglufjarðar starfaði hún með kvenfélaginu þar og eitthvað með leikfélagi Siglufjarðar. Árið 1945 flutti hún ásamt manni sínum, Pétri Helgasyni, til Sauðárkróks, þar sem þau tóku fyrst við rekstri Hótel Tindastóls og síðar Villa Nova. Eftir að þau hættu rekstri Hótel Tindastóls, setti Ingibjörg þar upp hannyrðaverslun í félagi við Sigríði Önnu Stefánsdóttur og ráku þær hana þar til 1970, að Ingibjörg opnaði verslun að Hólavegi 16 sem hún rak meðan heilsa leyfði. Vefnaðarvöruverslun hennar var vinsæl og þekkt fyrir góða og vandaða vöru. Hún gekk til liðs við Kirkjukór Sauðárkróks og söng þar meðan heilsa leyfði. Einnig var hún virk í starfi Kvenfélags Sauðárkróks og var gerð að heiðursfélaga á 90 ára afmæli félagsins árið 1985.
Ingibjörg og Pétur eignuðust einn son saman og tóku einn fósturson, fyrir hjónaband hafði Pétur eignast dóttur.

Ingimar Ástvaldur Magnússon (1907-2004)

  • S02057
  • Person
  • 13. okt. 1907 - 24. júní 2004

Ingimar Ástvaldur Magnússon fæddist á Ytri-Hofdölum í Viðvíkursveit í Skagafirði 13. október 1907. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Gunnlaugsson og Guðrún Bergsdóttir. Ingimar kvæntist 1934 Guðrúnu Guðmundsdóttur, þau eignuðust tvö börn. ,,Ingimar fluttist til Reykjavíkur 1930 og hóf skömmu síðar húsasmíðanám hjá Zóphoníasi Snorrasyni, húsasmíðameistara. Hann lauk prófi við Iðnskólann í Reykjavík 1933, sveinsprófi 1935 og fékk húsasmíðaréttindi í Reykjavík 1939. Ingimar starfaði um árabil við húsasmíðar í þjónustu ýmissa aðila, lengst af hjá Ingólfi B. Guðmundssyni, sem í marga áratugi rak Sögina hf. í Reykjavík. Á sjötta áratugnum stofnaði Ingimar ásamt öðrum byggingarfélagið Afl sf., sem rak öfluga byggingarstarfsemi í Reykjavík í hartnær tvo áratugi."

Ingimundur Þorsteinsson (1924-1997)

  • S01890
  • Person
  • 24. sept. 1924 - 25. júlí 1997

Ingimundur Þorsteinsson fæddist 24. september 1924 í Reykjavík. ,,Foreldrar hans voru Þorsteinn J. Jóhannsson frá Ólafsey í Hvammsfirði og Katrín Guðmundsdóttir frá Hellissandi. Ingimundur giftist 17. júní 1956 Laufeyju Stefánsdóttur frá Framtíð í Vestmannaeyjum, þau eignuðust þrjú börn, Ingimundur átti einn son fyrir." Flugmaður, Var á Laugavegi 68, Reykjavík 1930. Nemi í Reykjavík 1945. Flugstjóri, síðast bús. í Reykjavík.

Ingólfur Kristjánsson (1940-2001)

  • S01911
  • Person
  • 13. mars 1940 - 28. nóv. 2001

Ingólfur Kristjánsson fæddist á Hólum í Hjaltadal 13. mars 1940. Foreldrar hans voru hjónin Kristján Karlsson, skólastjóri Bændaskólans á Hólum, síðar erindreki hjá Stéttarsambandi bænda, og Sigrún Ingólfsdóttir, vefnaðarkennari. ,,Ingólfur lauk landsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1957 og stundaði nám við Bændaskólann á Hólum 1958-1959. Hann útskrifaðist sem búfræðingur þaðan vorið 1959 og hélt það sama haust til Bandaríkjanna. Þar var hann til 1963 við nám í landbúnaðarvélaverkfræði við háskólann í Fargo í Norður-Dakota. Að námi loknu vann Ingólfur hjá Flugmálastjórn Íslands 1963-1964, var verslunarstjóri í varahlutaverslun Heklu hf. 1964-1979 og hjá Blossa hf. 1980-1982. Frá 1982 rak Ingólfur eigið innflutningsfyrirtæki, Spyrnuna sf., og starfaði við það til dauðadags." Ingólfur kvæntist 20. apríl 1968 Hildi Eyjólfsdóttur frá Krossnesi í Norðurfirði í Strandasýslu, þau eignuðust tvö börn.

Ingólfur Siggeir Andrésson (1912-1957)

  • S00164
  • Person
  • 26.04.1912-26.04.1957

Fæddur í Reykjavík 26. apríl 1912. Foreldrar hans voru Andrés Folmer Nilsen frá Leiðarhöfn við Vopnafjörð og Guðný Jósefsdóttir frá Uppsölum í Flóa. Ingólfur ólst upp með foreldrum sínum Reykjavík. Þegar hann var þriggja ára fékk hann lömunarveiki uppúr kíghósta og var fatlaður á fæti alla tíð síðan. Árið 1936 flutti hann til Sauðárkróks og vann þar við bílaviðgerðir. Í kringum 1943 fór hann aftur suður til þess að nema bifvélavirkjun og útskrifaðist með meistararéttindi í þeirri grein árið 1946. Sneri hann þá aftur til Sauðárkróks og byggði eigið verkstæði norðan við íbúðarhús sitt við Knarrarstíg. Ingólfur giftist Ingibjörgu Ágústsdóttur frá Ósi á Borgarfirði eystra, þau eignuðust eina dóttur.

Ingunn Árnadóttir (1922-2010)

  • S02216
  • Person
  • 19. mars 1922 - 11. maí 2010

Ingunn Árnadóttir fæddist 19. mars 1922 í Hólkoti á Reykjaströnd, Skagafirði. Foreldrar hennar voru Árni Þorvaldsson og Sigurbjörg Hálfdanardóttir. Ingunn giftist árið 1947 Sverri Finnbogasyni rafvirkja, og áttu þau þrjár dætur. Ingunn lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1946 og kenndi við Skóla Ísaks Jónssonar 1946-1956 og svo aftur frá 1965 þar til hún lét af störfum vegna aldurs.

Ingveldur Vilborg Óskarsdóttir Thorsteinson (1923-2010)

  • S02135
  • Person
  • 4. júlí 1923 - 20. júní 2010

Ingveldur Vilborg Óskarsdóttir Thorsteinson fæddist í Reykjavík 4. júlí 1923. Foreldrar hennar voru Óskar Jónasson, kafari og kona hans Margrét Björnsdóttir frá Brekku í Seyluhreppi í Skagafirði. Inga giftist 15.10. 1942 Steingrími Harry Thorsteinson prentara, þau eignuðust sex börn.

Jakob Benediktsson (1907-1999)

  • S02195
  • Person
  • 20. júlí 1907 - 23. jan. 1999

Jakob Benediktsson var fæddur þann 20. júlí 1907 og lést 23. janúar 1999. Jakob var frá Fjalli í Seyluhreppi, sonar hjónanna Benedikts Sigurðssonar, bónda þar, og konu hans Sigurlaugar Sigurðardóttur. Jakob tók stúdentspróf utan skóla vorið 1926 með svo góðum árangri að hann hlaut fjögurra ára námsstyrk sem gerði honum kleift að sigla utan til framhaldsnáms. Með námsstyrk upp á vasann hélt Jakob til Kaupmannahafnar til frekara náms. Jakob lauk cand. mag. prófi í latínu og þýsku árið 1932 og síðar dr. phil. prófi frá Hafnarháskóla. Kvæntist Grethe Khyl fornleifafræðingi, þau voru barnlaus. ,,Jakob var forstöðumaður Orðabókar Háskólans, ritstjóri Tímarits Máls og menningar og meðritstjóri af Íslands hálfu fyrir Kulturhistorisk Leksikon. Hann gaf einnig út fjölda rita, þeirra á meðal Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, VII, X og XI bindi. Hann skrifaði einnig mikið sjálfur og munu titlar rita hans vera á sjöunda hundrað. Jakob þýddi einnig fjölmörg verka Halldórs Laxness á dönsku og naut við það verk aðstoðar konu sinnar Grethe Benediktsson (fædd Kyhl) sem var dönsk."

Jakob Frímann Brynjólfsson (1840-1907)

  • S01308
  • Person
  • 1840 - 31. janúar 1907

Frá Glaumbæ í Langadal. Jakob nam múrsmíði í Reykjavík og dvaldi eftir það á ýmsum stöðum og starfaði mikið við steinsmíði. Kom að byggingu Þingeyrarkirkju, byggði Reykjahlíðarkirkju við Mývatn, byggði kjallara skólahússins á Hólum og reisti alla legsteina í Sauðárkrókskirkju til 1907. Kvæntist árið 1878 Sigríði Davíðsdóttur frá Tómasarhúsum í Aðaldal. Þau fluttu að Tungu í Gönguskörðum 1887 og bjuggu þar til æviloka, þau eignuðust fjögur börn.

Jakob Jóhannesson Smári (1889-1972)

  • S02933
  • Person
  • 9. okt. 1889 - 10. ágúst 1972

Fæddur á Sauðafelli í Dölum. Foreldrar: Jóhannes Lárus Lynge Jóhannsson, prestur á Kvennabrekku, og f.k.h., Steinunn Jakobína Jakobsdóttir. Jakob lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1908, stundaði nám í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan meistaraprófi árið 1914. Jakob var kennari við ýmsa skóla í Reykjavík á árunum 1914-20 og við Menntaskólann í Reykjavík 1920-36 og yfirkennari þar. Hann sat lengi í stjórn Sálarrannsóknafélags Íslands. Jakob sendi frá sér ljóðabækurnar Kaldavermsl, 1920, Handan storms og strauma, 1936, Undir sól að sjá, 1939, og Við djúpar lindir, 1957. Þá samdi hann kennslubækur, s.s. Íslenska setningafræði og Íslenska málfræði og tók saman Íslensk-danska orðabók. Jakob þýddi m.a. sum verka Gunnars Gunnarssonar, leikrit eftir Ibsen og Strindberg og óperettur, að ógleymdri Bókinni um veginn, eftir Lao-Tse, ásamt Yngva Jóhannessyni. Jakob var nýrómantískt skáld. Skáldskapurinn var ljóðrænn og átakalítill, sonnettan var hans aðalljóðform en yrkisefnið gjarnan sótt í kyrrð og fegurð íslenskrar náttúru. Hann var því ekki beint barn síns tíma þegar leið á ferilinn. Samt urðu ýmis ljóða hans vel þekkt og oft sungin.
Maki: Helga Þorkelsdóttir kjólameistari, þau eignuðust tvö börn.

Jakob Óskar Lárusson (1887-1937)

  • S02934
  • Person
  • 7. júlí 1887 - 17. sept. 1937

Var í Reykjavík 1910. Hóf ungur nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Á þeim árum var Ungmennafélag Reykjavíkur stofnað og gerðist hann einn helsti áhrifamaður. Að loknu guðfræðinámi 1910 hélt séra Jakob vestur um haf til að vera prestur meðal landa vestra um stund. Árið 1913 kom hann heim aftur, og varði þá aleigu sinni til að kaupa og flytja heim fyrstu nothæfu bifreiðina, er hingað kom til lands. Gerðist hann nú prestur að Holti undir Eyjafjöllum og kvæntist Sigríði Kjartansdóttur. Varð þeim margra barna auðið. Vafalaust var séra Jakob meðal áhrifaríkustu og vinsælustu presta sinnar tíðar. Þegar Laugarvatnsskólinn tók til starfa haustið 1928, varð séra Jakob skólastjóri þar. Hann stýrði skólanum þó aðeins einn vetur, því að um þetta leyti tók hann að kenna alvarlegs sjúkdóms, er svipti hann starfsgetu skömmu síðar og þjáði hann til æviloka.

Jakobína Ingibjörg Flóventsdóttir (1903-1977)

  • S01602
  • Person
  • 3. sept. 1903 - 4. feb. 1977

Dóttir Flóvents Jóhannssonar bústjóra á Hólum og b. á Sjávarborg og k.h. Margrétar Jósefsdóttur. Kvæntist Steinþóri Hallgrímssyni. Þau skildu. Húsfreyja á Siglufirði og í Reykjavík.

Jean Valgard Claessen (1850-1918)

  • S00808
  • Person
  • 09.10.1850-27.12.1918

Ólst upp með foreldrum sínum í Khöfn. Rak verslun í Hofsósi, kom þangað á vegum Chr. Thaae stórkaupmanns. Hann tók við stjórn Hofsósverslunar 1871, 21 árs gamall. Nokkrum árum síðar tók hann svo við stjórn verslunar í Grafarósi. En 1879 fluttist hann til Sauðárkróks og tók við stjórn verzlunar Lud. Popps. Gegndi hann því starfi uns Popp flutti sjálfur til Sauðárkróks árið 1885. Árið eftir stofnaði Claessen sjálfstæða verslun sem hann rak til haustsins 1904, er hann flutti til Reykjavíkur, nýskipaður landsféhirðir. Gegndi því starfi til vorsins 1918 þá veiktist hann og lést í árslok. Starf hans að félagsmálum á Sauðárkróki var bæði mikið og farsælt. Hann var einn af stofnendum Sparisjóðs Sauðárkróks og formaður hans um skeið. Fyrsti formaður og leiðbeinandi leikfélags Sauðárkróks. Einn af aðal hvatamönnum að byggingu Sauðárkrókskirkju og fyrsti formaður sóknarnefndar þar.
Kvæntist Kristínu Eggertsdóttur Briem 1876 og eignuðust þau saman fjögur börn, Kristín lést aðeins viku eftir að yngsta barnið fæddist. Seinni kona Jean Valgard var Anna Margrét Þuríður Kristjánsdóttir Möller, þau kvæntust árið 1885 og eignuðust fjögur börn saman, tvö þeirra komust á legg, fyrir átti Anna tvo syni.

Jens Pétur Eriksen (1903-1971)

  • S01294
  • Person
  • 16. október 1903 - 25. júlí 1971

Foreldrar: Pétur Eriksen skósmiður á Sauðárkróki og k.h. Ingibjörg Ólafsdóttir (Eriksen).
Verkamaður á Sauðárkróki 1930. Síðar kaupmaður í Reykjavík.
Maki: Sigríður Amalía Njálsdóttir, þau eignuðust eina dóttur.

Jes Einar Þorsteinsson (1934-

  • S03097
  • Person
  • 5. sept. 1934-

,,Jes fæddist í Vestmannaeyjum árið 1934. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík stundaði hann nám í myndlist og arkitektúr í París og útskrifaðist sem arkitekt frá Ecole Nationale Supérieure des Beaux-Arts árið 1967. Á námsárunum vann hann í tvö sumur hjá Gísla Halldórsssyni arkitekt og með námi hjá Högnu Sigurðardóttur arkitekt og á ýmsum teiknistofum í París. Strax að námi loknu hóf Jes rekstur eigin teiknistofu sem hann hefur rekið í eigin nafni alla tíð. Jes Einar er án vafa kunnastur fyrir hönnun mannvirkja á sviði íþrótta og heilsugæslu. Allan sinn starfsaldur hefur Jes Einar verið áberandi og leiðandi í félagsstarfi Arkitektafélagsins og lagt sitt af mörkum í hagsmunamálum arkitekta. Hann var formaður félagsins 1984-85, ritari 1971-72 og meðstjórnandi 1983 og 1986. Þá hefur hann setið í gjaldskrár-, samkeppnis- og siðanefndum félagsins og verið fulltrúi þess í stjórn Bandalags Íslenskra Listamanna. Mest er þó arfleifð hans í menntamálum stéttarinnar. Þar ber hæst vinna hans við ÍSARK og síðar við að stuðla að varanlegri kennslu í arkitektúr á háskólastigi á Íslandi."

Jófríður Björnsdóttir (1927-2000)

  • S01327
  • Person
  • 27. september 1927 - 20. desember 2000

Jófríður Björnsdóttir fæddist að Bæ á Höfðaströnd 27. september 1927. Hún var dóttir hjónanna Kristínar Ingibjargar Kristinsdóttur og Björns Jónssonar hreppstjóra frá Bæ á Höfðaströnd. ,,Jófríður stundaði nám við Húsmæðraskólann að Laugalandi í Eyjafirði veturinn 1945-1946. Áður en hún stofnaði heimili starfaði hún sem hótelstýra á Hofsósi, ráðskona á hótelinu Blönduósi og í Fornahvammi en sem ráðskona fyrir vegavinnuflokk og á Hólum í Hjaltadal fyrstu sumur eftir giftingu. Síðari hluta vetrar 1964 dvaldist hún í Reykjavík og lærði sniðagerð og saumaskap. Eftir það stundaði hún saumaskap á heimili sínu allt til þess er hún gerðist verkstjóri í verksmiðjunni Ylrúnu á Sauðárkróki um miðjan áttunda áratuginn þar sem hún starfaði allt til ársins 1992. Jófríður tók virkan þátt í félagsmálum, var m.a. formaður Kvenfélags Sauðárkróks, söng með Kirkjukór Sauðárkróks um árabil og í kór eldri borgara í Skagafirði síðustu árin. Jófríður giftist hinn 31. ágúst 1950 Gunnari Þórðarsyni bifreiðastjóra, síðar yfirlögregluþjóni og bifreiðaeftirlitsmanni, frá Lóni, Viðvíkursveit, þau eignuðust tvær dætur."

Jóhann Bernhard (1918-1963)

  • S03078
  • Person
  • 8. okt. 1918 - 16. ágúst 1963

Ritstjóri, teiknari og skrifstofumaður í Reykjavík, hann var áberandi innan íþróttahreyfingarinnar. Kvæntist Svövu Þorbjarnardóttur söngkonu, þau eignuðust þrjú börn.

Jóhann Pétur Guðmundsson (1924-2020)

  • S02682
  • Person
  • 22. jan. 1924 - 20. okt. 2020

Foreldrar: Guðmundur Jónsson b. í Stapa í Tungusveit, síðast bæjarpóstur á Sauðárkróki og k.h. Ingibjörg Jónsdóttir. Jóhann fæddist í Grundargerði í Blönduhlíð. Ólst upp í Blönduhlíð og Lýtingsstaðahreppi en keypti jörðina Stapa um tvítugt. Gekk í Bændaskólann á Hvanneyri. Vann við smíðar meðfram búskap og kenndi um skeið teikningu við Steinsstaðaskóla. Eftir að Jóhann brá búi bjó hann um skeið í Reykjavík og vann við smíðar þar og austur í sveitum en fluttist aftur norður um áttrætt og var síðast búsettur í Varmahlíð. Jóhann var landsþekktur hagyrðingur og hefur gefið út ljóðabækurnar Axarsköft og Fleiri axarsköft.
Kvæntist Erlu Stefánsdóttur. Þau skildu.

Jóhanna Björnsdóttir (1929-2012)

  • S02382
  • Person
  • 20. sept. 1929 - 8. okt. 2012

Jóhanna fæddist 20. september 1929 í Reykjavík. Dóttir hjónanna Salbjargar Níelsdóttur og Björns Ástráðs Erlendssonar. Jóhanna fluttist með foreldrum sínum í Kópavog árið 1938. Hún lauk námi við Kvennaskólann árið 1948. Fór eftir það að vinna hjá Hagstofu Íslands. Giftist Óskari Hannibalssyni vagnstjóra hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, þau eignuðust fimm börn. Hún skrifaði mikið síðustu árin og tók m.a. saman ferðadagbók Salbjargar dóttur sinnar og gaf út í nokkrum eintökum. Síðasta verk hennar var að ljúka yfirgripsmiklu riti með ýmsum fróðleik um presta, sem hún nefndi Prestlu.

Results 171 to 255 of 550