Sýnir 6401 niðurstöður

Nafnspjöld

Arnarneshreppur (1000-2010)

  • S03423
  • Félag/samtök
  • 1000-2010

Arnarneshreppur (hét áður Hvammshreppur) ar hreppur vestan megin í Eyjafirði sem sameinaðist Hörgárbyggð undir nafninu Hörgársveit árið 2010. Hreppurinn var kenndur við bæinn Arnarnes á Gálmaströnd. Fyrr á öldum var hann víðlendari en árið 1911 var honum skipti í tvennt og varð nyrðri hlutinn að Árskógshreppi. Hjalteyri tilheyrði hreppnum. Þann 20. mars 2010 var sameining Arnarneshrepps og Hörgárhrepps samþykkt í kosningum.

Fellshreppur (874-1990)

  • S02935
  • Félag/samtök
  • 874-1990

Fellshreppur sameinaðist Hofshreppi og Hofsóshreppi árið 1990 undir nafninu Hofshreppur. Í jarðabók Árna og Páls heitir hreppurinn Sléttuhlíðarhreppur og virðist hafa heitið svo fram á fyrri hluta 19. aldar sbr. dómabækur Skagafjarðarsýslu.

Kaupfélag Eyfirðinga (1886-)

  • S02800
  • Félag/samtök
  • 1886-

Kaupfélag Eyfirðinga var stofnað á Grund í Eyjafirði 19. júní 1886 af nokkrum bændum úr innsveitum Eyjafjarðar. Upphaflega hét félagið Pöntunarfélag Eyfirðinga en 1887 var það nefnt Kaupfélag, síðan aftur Pöntunarfélag frá 1894 uns nafnið Kaupfélag Eyfirðinga var skráð 1906 og hefur það haldist síðan. Fyrirmynd félagsins var sótt í Þingeyjarsýslur því
Kaupfélag Þingeyinga hafði starfað í 4 ár og bændur þar skorað á Eyfirðinga að gjöra slíkt hið sama sem þeir og gerðu sumarið 1886. Í fyrstu var KEA smátt í sniðum, enda stofnað til að ákvarða stefnu varðandi verslun og vörupantanir, sérstaklega hvað snerti sölu á sauðum í fremstu hreppum Eyjafjarðar. Árið 1906 var fyrsta sölubúð KEA opnuð á Akureyri og markaði sá atburður tímamót í sögu félagsins og raunar samvinnuhreyfingarinnar allrar. Með lögum félagsins sem samþykkt voru á aðalfundi þetta ár var félaginu breytt úr pöntunarfélagi í sölufélag. Fyrsta hús KEA var reist á sunnanverðu Torfunefi 1898 og í framkvæmdastjóratíð Hallgríms Kristinssonar, 1902-1918, keypti félagið lóðina austan við verslunarhús sitt allt til sjávar, auk þess sem það festi kaup á mestöllum sérdeildum, lyfjabúð, byggingavörudeild og raflagnadeild. Félagið átti mjólkurvinnslustöð, sláturhús og kjötiðnaðarstöð. Sjávarútvegur var einnig býsna snar þáttur í starfsemi félagsins, sérstaklega á Dalvík og í Hrísey. KEA var hluthafi í mörgum stórum atvinnufyrirtækjum og má í því sambandi nefna Vélsmiðjuna Odda, Þórshamar, Slippstöðina, ÚA og ístess. í samvinnu við SÍS rak félagið Kaffibrennslu Akureyrar, Efnaverksmiðjuna Sjöfn og Plasteinangrun hf. Af eigin iðnfyrirtækjum má nefna Brauðgerð KEA, Smjörlíkisgerð KEA og Efnagerðina Flóru.

Björg Baldursdóttir (1952

  • S0
  • Person
  • 1952

Björg fæddist á Ísafirði 10.september 1952. Uppalin í Vigur í Ísafjarðardjúpi. Foreldrar hennar voru Sigríður Salvarsdóttir og Baldur Bjarnason. Björg er kennari að mennt.

Björn Már Ólafsson (1947

  • S0
  • Person
  • 1947

Björn fæddist í Reykjavík. Hann er augnlæknir. Foreldrar hans voru Ólafur Guðmundsson lyfjafræðingur og Þórey Vigdís Ólafsdóttir.

Hávar Sigurjónsson (1958-

  • S02664
  • Person
  • 3. sept. 1958-

Hávar Sigurjónsson er kunnur fyrir störf sín við leikhús og fjölmiðla. Hann lauk meistaranámi í leikstjórn og leikhúsfræðum í Bretlandi og hefur verið mikilvirkur leikstjóri á sviði, í útvarpi og sjónvarpi.

Sigurjón Bergvinsson (1848-1934)

  • S02661
  • Person
  • 28. feb. 1848 - 19. apríl 1934

Sigurjón fæddist á Halldórsstöðum í Bárðardal sonur Bergvins Einarssonar og Friðbjargar Ingjaldsdóttur. Hann var bóndi í Fnjóskadal, en síðar Skagafirði; í Flatatungu á Kjálka 1889-1892 og í Glæsibæ í Staðarhreppi 1892-1900. Sigurjón sat í hreppsnefnd Staðarhrepps og var oddviti hennar 1896-1899. Fór til Vesturheims árið 1900.
Sigurjón var tvíkvæntur; fyrri kona hans var Júlíana Margrét Jónsdóttir frá Sörlastöðum, þau eignuðust eina dóttur. Júlíana lést úr tæringu árið 1885. Seinni kona Sigurjóns var Anna Þorkelsdóttir frá Flatatungu, þau eignuðust þrjú börn er upp komust og ólu einnig upp systurdóttur Sigurjóns.

A. Solvason, Calvalier (1890-1907)

  • S02659
  • Einkafyrirtæki
  • 1890-1907

Ljósmyndastofa í Calvalier í Kanada sem Ásgeir Sölvason starfrækti á árinum 1890-1907.

Bifreiðaeftirlit ríkisins (1932-1989)

  • S02660
  • Opinber aðili
  • 1932-1989

Bifreiðaeftirlit ríkisins var sérstök stofnun á vegum ríkisins sem starfaði samkvæmt umferðarlögum og annaðist skoðun og eftirlit ökutækja ásamt því að sinna framkvæmd og prófdómgæslu við ökukennslu. Stofnunin var lögð niður árið 1988-1989 og Bifreiðaskoðun Íslands hf stofnað.

Magnús Jónsson Fjalli (1851-1942)

  • S03647
  • Person
  • 17.07.1851-31.03.1942

Magnús fæddist árið 17. júlí árið 1851 að Hóli í Sæmundarhlíð. Foreldrar: Jón Jónsson, hreppstjóri og bóndi að Hóli og Sigríður Magnúsdóttir, húsfreyja að Hóli. "Magnús ólst upp hjá foreldrum sínum og vann búi þeirra á Hóli til 1874, var í húsmennsku hjá tengdamóður sinni á Fjalli 1874-77, en tók þá við ábúð á jörðunni. Bjó á Fjalli 1877-87. Brá þá búi og fór vestur um haf. Nam land í Víðirnesbyggð í Nýja Íslandi, byggði þar nýbýlið Hjarðarholt og bjó þar 1887-91, en nam þá land í Hólabyggð í Assinibonedal í Manitoba, um tólf mílu norðaustur af Glenboro, og bjóð þar 1891-1902. Þaðan fluttist hann til Blaine og bjó þar 1902-17, var hjá Jóni sýni sínm í New Westminster í Bresku Columbiu 1917-27, en fór þá aftur til Blaine og átti þar heima til æviloka." (Skagf. æviskrár V, 245).
Kvæntist Margréti Unu Grímsdóttur (1848-1934) árið 1874 en Margrét var frá Fjalli í Sæmundarhlíð.
Saman áttu þau fimm börn, tvö þeirra komust á legg.

Björn Jónsson (1848-1924)

  • S03303
  • Person
  • 14.06.1848-23.01.1924

Björn Jónsson f. 14.06.1848 í Háagerði á Skagaströnd, d. 23.01.1924 á Sauðárkróki. Foreldrar: Jón Jónsson bóndi og hreppstjóri í Hágerði (1798-1865) og kona hans, Guðríður Ólafsdóttir (1817-1885) frá Harrastöðum.
Björn ólst upp hjá foreldrum sínum og vandist strax í æsku öllum algengum störfum, bæði til lands og sjávar. Naut auk þess nokkurrar kennslu umfram það sem þá var algengt. Var hann m.a. tvo vetrarparta við nám hjá sóknarprestinum á Höskuldsstöðum.
Maki: Þorbjörg Stefánsdóttir, f. 17.07.1877 á Ríp í Hegranesi, d. 18.05.1903 á Veðrarmóti.
Björn og Þorbjörg hafa líklega kynnst er hún var við nám á Skagaströnd hjá danskri konu sem þar bjó. Þau reistu bú í Háagerði árið 1877 en þá hafði Björn um nokkurra ára skeið verið fyrirvinna fyrir búi móður sinnar eftir að hún varð ekkja. Vorið 1884 fluttust þau að Heiði í Gönguskörðum en foreldrar Þorbjargar að Veðramóti. Árið 1888 fluttust Björn og Þorbjörg að Veðramóti en foreldrar Þorbjargar fluttust til dóttur sinnar. Björn bjó á Veðramóti til ársins 1914. Hann var kjörinn til ýmissa trúnaðarstarfa fyrir sveit sína og hérað. Var m.a. hreppstjóri Sauðárhrepps hins forna 1892-1907, Skarðshrepps

Sigmundur Andrésson (1854-1926)

  • S02925
  • Family
  • 15. okt. 1854 - 24. apríl 1926

Sigmundur Andrésson, f. í Syðra-Langholti í Árnessýslu. Foreldrar: Andrés Magnússon og Katrín Eyjólfsdóttir í Syðra-Langholti. Sigmundur ólst að miklu leyti upp á Brunnastöðum hjá Katrínu systur sinni og Guðmundi manni hennar. Á unglingsárum sínum naut hann fræðslu einn vetur hjá sr. Magnúsi bróður sínum. Hann stundaði sjómennsku í uppvextinum og komst í mikinn lífsháska 17 ára gamall þegar bátinn steytti á skeri og tveir drukknuðu en þrír björguðust. Einnig fór hann í kaupavinnu á sumrin, m.a. norður í land. Þar kynntist hann konuefni sínu, Moniku Sigurlaugu Indriðadóttur (1862-1939), þau eignuðust tvö börn. Þau bjuggu á Írafelli 1889-1900, á Lýtingsstöðum 1900-1902 og á Vindheimum 1902-1920. Bjó hann þar til dánardags. Um alllangt skeið stundaði hann meðalalækningar og var tíðum leitað til hans í framsveitunum.

Jórunn Andrésdóttir (1853-1933)

  • S03243
  • Person
  • 03.07.1853-21.06.1933

Jórunn Andrésdóttir, f. í Stokkhólma 03.07.1853, d. 21.06.1933. Foreldrar: Andrés Björnsson bóndi í Stokkhólma og kona hans, Herdís Pálmadóttir.
Maki: Þorsteinn Hannesson, bóndi á Hjaltastöðum í Blönduhlíð og víðar. Þau eignuðustu sjö börn.
Þau bjuggu á Ytri-Hofdölum 1888-1899, Hjaltastöðum 1899-1910 er Þorsteinn lést. Jórunn var áfram búandi þar til 1917 og aftur á hluta jarðarinnar 1919-1923 er hún brá búi og fór til Margrétar dóttur sinnar í Stokkhólma og var þar til dánardags.

Gísli Björnsson (1877-1966)

  • S02393
  • Person
  • 18.01.1877-03.03.1966

Gísli Björnsson, f. í Kolgröf í Lýtingsstaðahreppi 18.01.1877, d. 03.03.1966 í Reykjavík. Foreldrar: Björn Gottskálksson síðast bóndi í Kolgröf og kona hans Jóhanna Jóhannsdóttir.
Gísli aflaði sér talsverðrar menntunar af sjálfsdáðum. Hann var ráðsmaður á Skíðastöðum 1901-1904 og bóndi þar 1904-1915. Reisti hann steinsteypt íbúðarhús á jörðinni árin 1909-1910, hið fyrsta sinnar tegundar í hreppnum.
Maki: Ingibjörg Jónsdóttir (var áður gift Hannesi Péturssyni bónda á Skíðastöðum). Þau voru barnlaus og slitu samvistir 1915. Fór Gísli þá til Reykjavíkur og stundaði ýmis kaupsýslustörf og fasteignasölu. Mörg síðustu árin dvaldi hann á Hrafnistu í Reykjavíku.

Jón Konráðsson (1876-1957)

  • S02757
  • Person
  • 03.11.1876-06.06.1957

Jón Konráðsson, f. 03.11.1876 að Miðhúsum í Óslandshlíð, d. 06.06.1957 á Sauðárkróki. Foreldrar: Konráð Jónsson bóndi, f. 1835 og hreppstjóri í Miðhúsum og kona hans Ingibjörg Gunnlaugsdóttir f. 1840. Jón var eina barn foreldra sinna er náði fullorðinsaldri. Hann naut góðrar heimanfræðslu undir fermingu og fékk ágætan vitnisburð sóknarprestsins. Vann að búi foreldra sinna bæði til lands og sjávar og varð aðstoðarbústjóri föður síns síðustu búskaparár hans. Tók við búi í Bæ 1900 og bjó þar til 1930 er Björn sonur hans tók við en aðstoðaði hann þó áfram meðan heilsa leyfði. Jón gengdi margvíslegum trúnaðarstörfum. Var m.a. hreppstjóri Hofshrepps 1905-1952, sat í hreppsnefnd Hofshrepps í 12 ár og var oddviti hennar 1904-1907 og 1919-1921 og sýslunefndarmaður 1930-1938. Hann hlaut riddarakross fálkaorðunnar 1938.
Maki: Jófríður Björnsdóttir, f. 1845, frá Gröf á Höfðaströnd. Þau eignuðust fjögur börn og komust þrjú þeirra upp.

Árni Jónsson (1839-1888)

  • S003618
  • Person
  • 12.11.1839-02.03.1888

Árni Jónsson, f. á Hauksstöðum í Vopnafirði 12.11.1839, d. 02.03.1888 í Borgarey. Foreldrar: Jón Sigurðsson bóndi og smiður á Hauksstöðum. og Arnjbörg Arngrímsdóttir. Er Árni var fullorðinn fór hann utan til Kaupmannahfanar til trésmíðanáms og vann þar að loknu námi. Flutti svo til Vopnafjarðar og vann þar að smíðum. Árið 1878 ætlaði hann til Vesturheims. Þegar hann kom á Sauðárkrók hitti hann séra Jakob Benediktsson, er þá var að byggja stofu á Miklabæ, og fékk Árna til að fresta för og taka að sér bygginguna. Varð það til þess að Árni ílengdist í Skagafirði. Byggði hann m.a. bæinn í Glæsibæ, kirkju í Goðdölum og bæinn á Flugumýri. Þar taldist hann til heimilis um hríð og þar næst á Hólum í Hjaltadal og Syðra-Vallholti. Hann keypti Borgarey í Vallhólmi og var bóndi þar 1886-1888 og andaðist þar.
Maki: Guðrún Þorvaldsdóttir frá Framnesi (1854-1924). Þau eignuðust 3 börn. Guðrún giftist síðar Pétri Gunnarssyni, bónda á Stóra-Vatnsskarði.

Hjörtur Hjálmarsson (1840-1893)

  • S03004
  • Person
  • 30. jan. 1840 - 19. maí 1893

Fæddur á Skíðastöðum. Foreldrar: Hjálmar Árnason bóndi og kona hans Guðrún Stefánsdóttir. Hjörtur ólst upp hjá foreldrum sínum. Bóndi á Bústöðum í Austurdal 1864-1883, Skíðastöðum 1883-1893. Byggði eitt af fyrstu timburhúsunum í sveitum Skagafjarðar er hann bjó á Skíðastöðum og setti einnig brú á Grímsá til að létta beitarhúsamönnum leiðina yfir þessa mannskæðu á.
Hjörtur sat í hreppsnefnd Skefilstaðahrepps og var sýslunefndarmaður 1889-1892 og hreppstjóri frá 1886 til æviloka.
Maki 1: María Jóhannesdóttir (1839-1871). Ekkert barna þeirra komst upp.
Maki 2: María Þorláksdóttir (f. um 1846, d. 1874). Þau eignuðust ekki börn.
Maki 3: Ingibjörg Gunnarsdóttir. Ekkert barna þeirra komst upp.
Maki 4: Þórunn Gunnarsdóttir. Þau ólu upp nokkur fósturbörn.
Einnig átti Hjörtur launbarn á milli kvenna. Lundfríði (1877-1912) sem var skólastýra Kvennaskólans á Akureyri.

Björn Pétursson (1834-1922)

  • S02205
  • Person
  • 22. júní 1834 - 9. maí 1922

Foreldrar: Pétur Jónsson b. og hreppstjóri á Syðri-Brekkum og síðast á Hofsstöðum og k.h. Sigríður Björnsdóttir frá Refsstöðum í Laxárdal. Kvæntist árið 1859 Margréti Sigríði Pálsdóttur frá Syðri-Brekkum, þau bjuggu á Hofsstöðum og eignuðust fjögur börn sem upp komust. Fyrir hjónaband hafði Björn eignast dóttur. Margrét lést árið 1880. Seinni kona Björns var Una Jóhannesdóttir frá Dýrfinnustöðum, þau eignuðust tvö börn sem upp komust. Björn var hreppstjóri Viðvíkurhrepps 1862-1866, 1869-1872 og 1875-1879. Sýslunefndarmaður 1874-1886, oddviti hreppsnefndar 1892-1904. Björn varð einn af ríkustu bændum héraðsins.

Friðbjörg Jóhanna Halldórsdóttir (1882-1961)

  • S02828
  • Person
  • 20. maí 1882 - 18. ágúst 1961

Foreldrar: Halldór Stefánsson bóndi í Stóra-Dunhaga og kona hans Lilja Daníelsdóttir. Friðbjörg missti ung foreldra sína og ólst upp hjá Sæunni, hálfsystur sinni og hennar manni. Fluttist með þeim að Sólheimum í Blönduhlíð 1898 frá Sörlatungu. Maki: Gunnlaugur Guðmundsson frá Bási í Hörgárdal. Þau eignuðust 5 börn. Þau hófu búskap í Djúpadal 1909. Á Ytri-Kotum 1910-1924, Uppsölum 1924-1925, Sólheimagerði 1925-1926, Grófargili 1926-1928, Íbishóli 1928-1933 og síðast á Bakka í Vallhólmi 1933.

Hallfríður Sigríður Jónsdóttir (1893-1965)

  • S03059
  • Person
  • 20. maí 1893 - 24. okt. 1965

Foreldrar: Jón Pálmason b. á Auðnum í Sæmundarhlíð og k.h. Guðbjörg Sölvadóttir. Árið 1912 kvæntist hún Þórarni Sigurjónssyni frá Bessastöðum í Sæmundarhlíð. Þau bjuggu á Sæunnarstöðum í Hallárdal 1912-1914, á Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð 1914-1915, á Auðnum í sömu sveit 1915-1920, í Vík í Staðarhreppi 1920-1922. Þau eru sögð hafa skilið árið 1923 en fjölskyldan átti þó lögheimili að Varmalandi hjá foreldrum Þórarins til 1928, jafnframt er yngsti sonur þeirra fæddur 1926. Hallfríður hóf störf á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki árið 1923, fyrst sem þvottakona. Í framhaldinu nam hún undirstöðuatriði hjúkrunarfræði hjá Jónasi lækni og varð síðar yfirhjúkrunarkona við sjúkrahúsið og hélt því starfi til ársloka 1962. Eftir það veitti hún ellideild sjúkrahússins forstöðu til 1964. Hallfríður bjó á spítalanum og var þar vakin og sofin öllum stundum. Árið 1948, eftir 25 ára starf á sjúkrahúsinu, sæmdi sýslufélagið hana í heiðursskyni 1000 krónum, sem þótti töluverð upphæð í þá daga. Á síðari árum sæmdi bæjarstjórn Sauðárkróks hana heiðursskjali og peningagjöf.
Hallfríður og Þórarinn eignuðust fimm börn. Hallfríður eignaðist einnig son með Árna Hafstað frá Vík.

Niðurstöður 4336 to 4420 of 6401