Showing 52 results

Authority record
Danmörk

Ágúst Sigurðsson (1938-2010)

  • S02569
  • Person
  • 15. mars 1938 - 22. ágúst 2010

Ágúst fæddist á Akureyri 1938. Foreldrar hans voru Sigurður Stefánsson prestur, síðar vígslubiskup og María Ásgeirsdóttir húsfreyja. Ágúst lauk stúdentsprófi frá MA árið 1959 og cand. theol. frá Háskóla Íslands 1965. Hann var vígður til prests á Hólum í Hjaltadal 1965. Var prestur í Möðruvallaprestakalli, í Vallanesi á Völlum, Ólafsvík og á Mælifelli í Skagafirði. Ágúst var sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn og síðast sóknarprestur á Prestbakka í Hrútafirði, eða þar til hann lét af störfum. Hann stundaði fræða - og ritstörf, m.a. komu út fjórar bækur, Forn frægðarsetur. Einnig skrifaði hann fjölda greina í blöð og tímarit. Árið 1981 lauk Ágúst réttindanámi í dönsku kirkjunni.

Árni Björn Árnason (1902-1979)

  • S03140
  • Person
  • 18. okt. 1902 - 15. ágúst 1979

Foreldrar: Sr. Árni Björnsson prófastur á Sauðárkróki og k.h. Líney Sigurjónsdóttir. Nam lækningar hér heima og í Danmörku. Héraðslæknir á Grenivík frá 1937. Stundaði einnig búskap á gömlu Grenivíkurjörðinni um tíma. Kvæntist Kristínu Loftsdóttur.

Ásmundur Jónsson (1899-1963)

  • S02213
  • Person
  • 6. júlí 1899 - 18. sept. 1963

Foreldrar: Jón Sigurðsson bóndi, oddviti og sýslunefndarmaður á Skúfsstöðum og barnsmóðir hans Guðrún Þorsteinsdóttir. Ásmundur ólst upp á Skúfsstöðum. Hann fór ungur til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður danska sendiráðsins þar, en fékkst einnig af og til við verslunarstörf og fleira. Ásmundur dvaldist síðan lengi erlendis, mest í Danmörku og Þýskalandi og kvæntist þar 1938 vel menntaðri danskri söngkonu af pólskum og þýskum ættum, Irmu Weile. Eftir seinna stríðið fluttust þau heim til Reykjavíkur og bjuggu þar síðan. Ásmundur gaf út þrjár ljóðabækur og starfaði einnig við blaðamennsku.

Birgit Bang (1936-2014)

  • S01702
  • Person
  • 13. maí 1936 - 19. júní 2014

Birgit Bang fæddist í Árósum í Danmörku 13. maí 1936. Foreldrar hennar voru Ole Bang apótekari á Sauðárkróki og k.h. Minna Elísa Bang. ,,Birgit ólst upp á Sauðárkróki. Hún starfaði framan af við afgreiðslustörf í apóteki föður síns en drýgstan hluta starfsævinnar vann hún á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Eftir að hún lét af störfum fluttist hún aftur til Sauðárkróks og bjó þar síðustu árin." Birgit eignaðist einn son með Ásmundi Jónssyni.

Brynja Björg Bragadóttir (1956-2013)

  • S01763
  • Person
  • 24. des. 1956 - 10. júlí 2013

Brynja Björg Bragadóttir fæddist á Sauðárkróki 24. desember 1956. Foreldrar hennar eru Sigurlaug Sveinsdóttir og Bragi Þ. Sigurðsson, Sauðárkróki. Brynja giftist 1976 Ómari Imsland rafmagnsverkfræðingi. Þau skildu 2005. Þau eignuðust fjóra syni. ,,Brynja ólst upp á Sauðárkróki og gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla, lauk síðan námi frá Eiðaskóla og tók síðar sjúkraliðapróf og vann um skeið sem sjúkraliði á Landakotsspítala. Hún bjó tæpan áratug í Danmörku á meðan Ómar stundaði þar nám og vinnu. Eftir að synir hennar uxu úr grasi varð hún skólaliði í Mýrarhúsaskóla fram á þetta ár. Hún bjó lengst af á Seltjarnarnesi."

Christian Carl Frederik Albert Alexander Vilhelm (1870-1947)

  • S01888
  • Person
  • 26.09.1870-20.04.1947

Kristján 10. (Christian Carl Frederik Albert Alexander Vilhelm af Glücksborg) var sonur Friðriks 8. og Lovísu drottningar. Hann var konungur Danmerkur frá 1912 til 1947. Eftir að Ísland varð fullvalda ríki þann 1. desember 1918 var hann einnig konungur konungsríkisins Íslands. Eftir stofnun lýðveldis á Íslandi 1944 var hann einungis konungur Danmerkur. Hann var bróðir Karls Danaprins, sem varð Hákon 7. Noregskonungur 1905. Kristján var hávaxinn og þótti mynduglegur, alvörugefinn og skyldurækinn. Hann lauk stúdentsprófi 1889 og var fyrstur Danakonunga til að hafa slíkt próf. Því næst þjónaði hann í hernum, í ýmsum herdeildum. Hann varð krónprins 1906 þegar faðir hans, Friðrik 8., varð konungur, og var sjálfur krýndur konungur að föður sínum látnum, árið 1912.

Eggert Jónsson (1853-1877)

  • S02706
  • Person
  • 18. júní 1853 - 6. nóv. 1877

Foreldrar: Jón Sveinsson, f. 1815, prestur á Mælifelli í Skagafirði og víðar og kona hans Hólmfríður Jónsdóttir, f. 1821. Drukknaði á Gefjunni á leið til náms í Danmörku. Sagður eiga unnustu og í einni heimild er getið um konu, Sigurbjörgu Ingimundardóttur f. 1827 og barn þeirra Sólveigu, f. 1869.

Einar Eylert Gíslason (1933-2019)

  • S03110
  • Person
  • 5. apríl 1933 - 5. sept. 2019

For­eldr­ar hans voru Gísli Eylert Eðvalds­son hár­skera­meist­ari og Hulda Ein­ars­dótt­ir. ,,Ein­ar lauk bú­fræðiprófi frá Hvann­eyri vorið 1951, var í verk­legu bú­fræðinámi í Dan­mörku og Svíþjóð næstu tvö árin og út­skrifaðist bú­fræðikandí­dat frá Hvann­eyri 1955. Ráðunaut­ur í naut­griparækt fyr­ir Naut­griparækt­ar­sam­band Borg­ar­fjarðar 1955-58, bóndi á Stóra-Hrauni í Kol­beinsstaðahreppi 1958-60, bú­stjóri og til­rauna­stjóri fjár­rækt­ar­bús­ins á Hesti í Borg­ar­f­irði 1960-74, héraðsráðunaut­ur hjá Búnaðarsam­bandi Skag­f­irðinga 1974-84 og bóndi á Syðra-Skörðugili 1974-2000 og stundaði sauðfjár­rækt, hross­a­rækt og loðdýra­rækt. Ein­ar var mik­ill frum­kvöðull í fé­lags­starfi bænda. Hann sat í stjórn Fé­lags hrossa­bænda frá stofn­un 1975, var formaður þess 1984-93, sat í stjórn Sam­bands ís­lenskra loðdýra­rækt­enda í 13 ár og var formaður þess 1984-93. Hann var fram­kvæmda­stjóri Hross­a­rækt­ar­sam­bands Skag­f­irðinga 1974-84 og síðan formaður til 1993, vann að stofn­un Loðdýra­rækt­ar­fé­lags Skag­f­irðinga og var formaður þess fyrstu níu árin. Var stofn­andi og formaður Fé­lags hrossa­bænda í Skagaf­irði 1975-94, aðal­hvatamaður að stofn­un fóður­stöðvar­inn­ar Mel­rakka hf. á Sauðár­króki og stjórn­ar­formaður henn­ar fyrstu fimm árin, vann að stofn­un Fé­lags sauðfjár­bænda í Skagaf­irði og sat í stjórn fyrstu sex árin. Ein­ar var jafn­framt aðal­hvatamaður að stofn­un Lands­sam­taka sauðfjár­bænda og sat í stjórn fyrstu árin."
Maki: Ásdís Sigurjónsdóttir (1949-, þau eignuðust fjóra syni. Fyrir átti Einar kjördóttur.

Emilie Antonette Popp (1845-1931)

  • S01160
  • Person
  • 6. apríl 1845 - 1931

Fædd í Kaupmannahöfn. Kvæntist Ludvig Popp kaupmanni. Þau bjuggu á Akureyri fyrstu ár sín í hjónabandi, fluttu svo til Kaupmannahafnar og svo aftur til Íslands og bjuggu á Sauðárkróki 1885-1893, þau eignuðust þrjú börn.

Erlingur Pálsson (1895-1966)

  • S03088
  • Person
  • 3. nóv. 1895 - 22. okt. 1966

Erlingur Pálsson var fæddur 3. nóvember 1895 að Árhrauni á Skeiðum. ,,Á fermingaraldri gerðist hann aðstoðarmaður föður síns við sundkennslu í Reykjavík, en 19 ára gamall tók hann sig upp og fór til Lundúna til þess að nema nýjustu sundkennsluaðferðir. Lauk hann þar sundkennaraprófi með prýði, en kenndi eftir það um nokkurt árabil skólanemendum í Reykjavík, sjómönn um og sundkennurum björgunar sund og lífgunaraðferðir. Á árinu 1919 var ákveðið að stofna embætti yfirlögregluþjóns í Reykjavík. Erlingi var boðið starfið, sem hann þáði, með því skilyrði að hann fengi tækifæri til þess að nema lögreglufræði í erlendum skólum. Var það auðsótt mál. Hélt Erlingur nú til Danmerkur og Þýskalands, þar sem hann sótti lögregluskóla og kynnti sér skipulagningu og dagleg störf lögregluliða. Eftir ársdvöl ytra kom hann heim til þess að taka við embætti, en æ síðar leitaðist hann við að bæta við þekkingu sína á sviði lögreglumála með kynnisferðun til útlanda og lestri fræðibóka og tímarita. Þannig hófst giftusamlegur starfsferill Erlings Pálssonar í lögregluliði Reykjavíkur, sem stóð yfir í hátt á fimmta áratug. Á því sama ári sem Erlingur tók við yfirlögregluþjónsembætti kvæntist hann Sigríði Sigurðardóttur frá Ámanesi í Hornafirði, þau eignuðust tíu börn.
Erlingur var mikill íþróttafrömuður, einkum á sviði sundíþróttarinnar. Sjálfur vann hann glæsileg afrek í þeirri grein; synti fyrstur nútímamanna hið fræga Drangeyjarsund og varð sigurvegari í fjöldamörgum sundkeppnum. Hann var lengi í forystuliði íþróttamanna, formaður Sundfélags Reykjavíkur árin 1926-1931, Sundráðs Reykjavíkur frá stofnun þess árið 1951 og varaforseti Í.S.Í. árin 1933-1951."

Frank Michelsen (1882-1954)

  • S00073
  • Person
  • 25. jan. 1882 - 16. júlí 1954

Jörgen Frank Michelsen var fæddur í Horsens á Jótlandi 25. janúar 1882. Foreldrar hans voru hjónin Karen og Jens Michelsen. Frank fór í úrsmíðanám og lauk sveinsprófi í þeirri grein árið 1902. Árið 1907 kom Frank til Íslands með skipinu Sterling en hann hafði haft spurnir að því að á Íslandi vantaði úrsmiði. Hann stundaði úrsmíðar og verslun á Sauðárkróki til ársins 1945 þegar hann fluttist til Hveragerðis. Jafnframt starfaði hann sem slökkviliðsstjóri á Sauðárkróki 25 ár og var lengi ábyrgðarmaður Sparisjóðs Sauðárkróks. Frank giftist Guðrúnu Pálsdóttur frá Draflastöðum í Eyjafirði og varð þeim tólf barna auðið.

Franzisca Antonia Josephine Jörgensen (1891-1976)

  • S02412
  • Person
  • 1891-1976

Franziska Antonia Josephine Jörgensen var frá Frederica á Jótlandi. Faðir hennar var járnsmiður, en móðir hennar af bæheimskum aðalsættum. Franziska giftist Gunnari Gunnarssyni skáldi í ágúst 1912. Þau eignuðust tvo syni, Gunnar og Úlf.

Gísli Ólafsson (1888-1931)

  • S02738
  • Person
  • 9. sept. 1888 - 15. ágúst 1931

Foreldrar: Jón Ólafsson og Helga Eiríksdóttir. Byrjaði á námi í Latínuskólanum, fór 1904 til Danmerkur og nam símritun. Var síðan í þjónustu Landsímans í Reykjavík frá 1927. Maki: Polly Grönvold frá Siglufirði, f. 1889. Þau eignuðust tvær dætur.

Gísli Páll Sigmundsson (1851-1927)

  • S02302
  • Person
  • 23. júlí 1852 - 31. mars 1927

Gísli Páll Sigmundsson fæddist 23. júlí 1851 á Ljótsstöðum í Skagafirði. Faðir: Sigmundur Pálsson, verslunarstjóri á Hofsósi og bóndi á Ljótsstöðum. Móðir: Margrét Þorláksdóttir, húsmóðir á Ljótsstöðum. Gísli ólst upp hjá foreldrum sínum á Ljótsstöðum. ,,Hann sigldi til Danmerkur og nam trésmíði, hann smíðaði meðal annars fyrstu taðkvörnina og plóg. Bóndi á Ljótsstöðum 1890-1914. Á búskaparárum sínum á Ljótsstöðum gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum fyrir hrepp sinn." Gísli kvæntist árið 1889 Friðriku Guðrúnu Friðriksdóttur (1854-1939) frá Miklabæ. Hún hafði áður verið gift Páli, bróður Gísla, en hann dó árið 1884. Gísli og Friðrika áttu eina dóttur saman en Friðrika hafði eignast aðra dóttur með Páli.

Guðrún Ragnheiður Sigurðardóttir Urup (1925-2012)

  • S00205
  • Person
  • 25.07.1925-28.06.2012

,,Guðrún Sigurðardóttir Urup, f. 25.07.1925 á Sauðárkróki, d. 28.06.2012 í Holte í Danmörku. Foreldrar hennar voru Stefanía Arnórsdóttir og Sigurður Sigurðsson, sýslumaður Skagfirðinga og bæjarfógeti á Sauðárkróki. Hinn 25.7. 1947 giftist Guðrún Jens Urup listmálara, f. 25.9. 1920, d. 21.11. 2010. Guðrún ólst upp á Sauðárkróki. Hún gekk í Myndlista- og handíðaskólann frá 1941-43 og kenndi í framhaldi af því teikningu í Reykjavík. Hún hóf nám á Kunstakademiet í Kaupmannahöfn 1945 og útskrifaðist 1950. Þar kynntist hún eiginmanni sínum og eignuðust þau 4 börn. Eftir að börnin fæddust sinnti Guðrún barnauppeldi og húsfreyjustörfum og studdi mann sinn á listabrautinni. Á síðari hluta ævinnar tók hún aftur til við listsköpun. Þau hjón unnu ýmis verk sem eru á Íslandi og unnu saman að gerð glermósaikglugga í Sauðárkrókskirkju 1974 og 1985. Guðrún hélt einkasýningu í Reykjavík í Galleríi Gangskör 1987 og hélt margar sýningar í gegnum tíðina í Kaupmannahöfn, m.a. í Jónshúsi. Síðasta stóra sýningin var í Birkerød Kunstforening í desember 2011, þar sem henni var boðið að sýna í minningarsýningu um Jens Urup í tengslum við fráfall hans."

Gunnar Ólafsson (1858-1900)

  • S01241
  • Person
  • 16. júlí 1858 - 20. okt. 1900

Foreldrar: Ólafur Sigurðsson bóndi og alþingismaður að Ási í Hegranesi og k.h. Sigurlaug Gunnarsdóttir. Gunnar ólst upp með foreldrum sínum í Ási. Fór til Danmerkur haustið 1879 að læra nýtísku vefnað og annan heimilisiðnað. Sneri aftur til Íslands 1880 og hafði þá meðferðis ýmis iðnaðartæki, svo sem hraðskyttuvefstól, lóskurðarvél, vaðmálapressur og fleira. Vann næstu ár við iðnaðarstörf hjá foreldrum sínum og tók til kennslu nemendur innan héraðs og utan, er lærðu meðferð ýmissa iðnaðartækja. Hann flutti frá Ási 1883 og bjó að Keldudal í Hegranesi 1883-1888, stundaði einnig iðnaðarstörf sín, var og 1883-1888 oddviti í Rípurhreppi. Fór búferlum að Lóni í Viðvíkursveit 1888 og bjó þar til 1897, en flutti þá aftur á hálfan Ás á móti bróður sínum og bjó þar til æviloka. Gunnar kvæntist Guðnýju Jónsdóttur frá Reykholti í Borgarfirði, þau eignuðust átta börn.

Hafþór Guðmundsson (1918-2006)

  • S02560
  • Person
  • 6. jan. 1918 - 8. júní 2006

Hafþór fæddist á Hrafnhóli í Hjaltadal í Skagafirði. Foreldrar hans voru Guðmundur Benjamínsson, bóndi í Smiðsgerði og Sviðningi í Kolbeinsdal í Skagafirði og kona hans Anna Jónsdóttir. ,,Hafþór ólst upp í Smiðsgerði í Kolbeinsdal í Skagafirði. Hann var stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1941, cand. juris frá Háskóla Íslands 1946, fór haustið 1946 til framhaldsnáms í stjórnarfarsrétti og þjóðarétti, fyrst til Danmerkur, 1946-1947, og síðan til Frakklands, 1947-1949. Hann lauk prófi í þjóðarétti frá Lögfræðideild Parísarháskóla og varði þar doktorsritgerð 1. desember 1951, var tímabundið bæjarfógeti í Neskaupstað og á Siglufirði, hæstaréttarlögmaður 5. febrúar 1952. Ásamt því að reka innflutningsfyrirtæki í Reykjavík rak hann lögfræðiskrifstofu í Reykjavík frá 1952 til 1973, er hann gerðist fulltrúi borgarfógetaembættisins til starfsloka." Hafþór kvæntist Sólveigu Kolbeinsdóttur frá Skriðulandi í Kolbeinsdal og eignuðust þau þrjú börn.

Haraldur Valdimar Ólafsson (1901-1984)

  • S02689
  • Person
  • 3. júní 1901 - 18. sept. 1984

Lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1920. Var við nám í Danmörku og Þýskalandi 1922-1923. Var aðstoðarmaður föður síns, Ólafs Magnússonar kaupmanns við versluna Fálkann árin 1921-1948. Framkvæmdastjóri Fálkans frá 1948-1955. Framkvæmdastjóri þar ásamt bræðrum sínum þar til hann lét af störfum vegna aldurs 1975. Gegndi ýmsum félagsstörfum á vettvangi hljómplötuframleiðenda og var aðalræðismaður lýðveldisins Kóreu frá 1970. Gerður heiðursfélagi í deild Íslendingafélagsins í Winnipeg árið 1968. Heiðursfélagi Karlakórsins Vísis og Lúðrasveitarinnar Svans árið 1969. Maki: Þóra Finnbogadóttir frá Skarfanesi. Þau eignuðust tvö börn en fyrir átti Haraldur einn son.

Helga Sigtryggsdóttir (1887-1978)

  • S00357
  • Person
  • 02.10.1887-01.03.1978

Helga Sigtryggsdóttir fæddist á Syðri-Brekkum í Akrahreppi þann 2. október 1887. Húsfreyja á Víðivöllum. Maður hennar var Gísli Sigurðsson (1884-1948).

,,Helga ólst upp hjá foreldrum sínum, fyrst á Syðri Brekkum og síðan á Framnesi. Hún sigldi til Danmerkur til mennta og settist í kvennaskóla á Jótlandi. Hún útskrifaðist þaðan árið 1919 og kom heim um vorið. Helga átti heimili á Framnesi þar til hún gifti sig. Frá árinu 1924 bjó hún með bróður sínum honum Birni. Saman tóku þau að sér og ólu upp Brodda Jóhannesson síðar rektor Kennaraskólans. Hann kom þangað 8 ára gamall og átti þar heimili þar til hann fór utan til náms árið 1938. Helga giftist Gísla á Víðivöllum árið 1935 og tók þá við húsmóðurhlutverkinu á bænum. Helga og Gísli voru barnlaus en eftir lát Gísla 1950 bauðst Helga til að gefa jörðina Elliheimilissjóði Skagfirðinga. Hennar helstu skilyrði voru m.a. þau að reist yrði á allra næstu árum fyrsta elliheimili sýslunnar á Víðivöllum. Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en dagaði að lokum uppi hjá sýslunefnd."
Helga og Gísli áttu tvær fósturdætur.

Hjalti Pálsson (1922-2002)

  • S01183
  • Person
  • 1. nóvember 1922 - 24. október 2002

Hjalti Pálsson fæddist á Hólum í Hjaltadal 1. nóvember 1922. Foreldrar hans voru hjónin Páll Zópóníasson skólastjóri á Hólum, síðar alþm. og búnaðarmálastjóri, og Guðrún Hannesdóttir. Þau bjuggu á Hvanneyri, Kletti í Reykholtsdal, Hólum í Hjaltadal og í Reykjavík. ,,Hjalti varð gagnfræðingur í Reykjavík 1938, búfræðingur frá Hólum 1941, stundaði nám í landbúnaðarverkfræði við háskóla í Fargo í Norður-Dakota í Bandaríkjunum árin 1943-1945 og eftir það við háskóla í Ames í Iowa 1945-1947 og lauk þaðan BSc.-prófi. Hjalti hóf störf í véladeild SÍS árið 1948 og varð framkvæmdastjóri Dráttarvéla hf. frá 1949 til 1960. Frá 1952 var hann framkvæmdastjóri véladeidar SÍS og innflutningsdeildar SÍS frá 1967 þar til hann lét af störfum árið 1987 fyrir aldurs sakir. Hjalti sat í framkvæmdastjórn SÍS í nærri fjóra áratugi, var varaformaður stjórnar frá 1977 og um nokkurt skeið stjórnarformaður Dráttarvéla. Hann sat einnig í stjórn Osta- og smjörsölunnar um árabil og var þar endurskoðandi. Hjalti stofnaði fyrir hönd SÍS með öðrum innflytjendum sameignarfélagið Desa til innflutnings á skipum frá A-Þýskalandi, m.a. fyrir ríkisstjórnina. Hann sat í stjórn þess fyrirtækis þar til því var slitið 1975. Hann vann að stofnun Kornhlöðunnar til innflutnings á lausu korni til fóðurblöndunar, var fyrsti stjórnarformaður hennar og sat í stjórn hennar um árabil. Þá var hann um langt skeið í stjórn Jötuns, var formaður byggingarnefndar Holtagarða, í samninganefnd um viðskipti milli Þýskalands og Íslands árið 1954, í samninganefnd milli Íslands og A-Þýskalands 1958-1960 og var skipaður í fleiri nefndir á vegum hins opinbera, m.a. Hólanefnd sem gerði tillögur um uppbyggingu Hólastaðar. Eftir að Hjalti lét af störfum hjá SÍS vann hann ýmis verkefni fyrir Landssamband hestamanna og var gerður að heiðursfélaga. Sat hann um árabil í stjórn landssambandsins og var ævifélagi í Hestamannafélaginu Fáki. Hann var einnig heiðursfélagi Samtaka sykursjúkra sem hann tók þátt í að stofna árið 1971."
Hinn 21. febrúar 1951 kvæntist Hjalti Ingigerði Karlsdóttur flugfreyju, þau eignuðust þrjú börn.

Hólmfríður Björg Björnsdóttir (1916-1992)

  • S02143
  • Person
  • 12. sept. 1916 - 16. mars 1992

Foreldrar hennar voru hjónin Björn Jósefsson, læknir á Húsavík, f. á Hólum í Hjaltadal og Sigríður Lovísa Sigurðardóttir, f. á Hofsstöðum í Viðvíkursveit. Veiktist af berklum á unga aldri og náði aldrei fullri heilsu eftir það. Dvaldi í Danmörku árið 1939. ,,Díva gekk í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og kenndi síðan við skólann. Díva giftist ekki og átti engin börn en hélt heimili með foreldrum sínum meðan þau lifðu. Síðast búsett í Reykjavík."

Hulda Árdís Stefánsdóttir (1897-1989)

  • S00415
  • Person
  • 01.01.1897 - 25.03.1989

Hulda var fædd á Möðruvöllum í Hörgárdal. Foreldrar hennar voru Stefán Stefánsson kennari og Steinunn Frímannsdóttir húsfreyja. Hulda lauk gagnfræðaprófi árðið 1912 á Akureyri; einnig nam hún tungumál og handavinnu þar. Árið 1916 lauk Hulda námi í húsmæðraskólanum í Vordingborg í Danmörku. Á árunum 1916 -1917 stundaði hún nám í píanóleik og tónfræði við Tónlistarskóla Matthisson Hansen í Kaupmannahöfn og var í framhaldsnámi þar 1919-1921. Hulda var organleikari í Þingeyrarkirkju í fimmtán ár. Hún var einn stofnanda kvenfélags Sveinsstaðahrepps árið 1928 og átti sæti í stjórn þess í fimmán ár. Einnig var Hulda í stjórn Sambands norðlenskra kvenna og formaður 1960 - 1964. Hulda var skólastjóri Kvennaskólans á Blönduósi 1932 - 1937 og aftur árabilið 1953 - 1967. Hún var skólastjóri Húsmæðraskólans í Reykjavík frá upphafi, árið 1941 og til ársins 1953. Endurminningar sínar gaf Hulda út í fjórum bindum. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1954 og síðar stórriddarakrossi orðunnar 1969. Eiginmaður Huldu var Jón Sigurðsson bóndi á Þingeyrum. Þau áttu eina dóttur.

Hulda Vilhjálmsdóttir (1943-

  • S01523
  • Person
  • 20.12.1943-

Dóttir Vilhjálms Hallgrímssonar trésmíðameistara á Sauðárkróki og k.h. Heiðbjartar Óskarsdóttur. Gagnfræðingur frá Akureyri 1960. Fór eftir það í húsmæðraskóla í Vejle í Danmörku og lauk prófi þaðan vorið 1962. Stundaði síðan skrifstofustörf í Kaupmannahöfn í níu mánuði. Var við símavörslu á Sauðárkróki um tíma en flutti til Akureyrar árið 1964 og vann þar á Landsímastöðinni um tíma. Kvæntist Þórarni Blómkvist Jónssyni.

Jakob Hansson Líndal (1880-1951)

  • S02858
  • Person
  • 18. maí 1880 - 13. mars 1951

Foreldrar: Anna Pétursdóttir og Hans Baldvinsson á Hrólfsstöðum í Blönduhlíð. Jakob ólst upp hjá foreldrum sínum á Hrólfsstöðum. Maki: Jónína Steinvör Líndal. Lauk prófi frá Möðruvallaskóla 1903 og búfræðiprófi frá Hólaskóla 1904. Árin 1906-1907 nam hann við Lýðskólann í Askov í Danmörku. Veturinn eftir var hann í Ási í Noregi. Var framkvæmdastjóri Ræktunarfélags Norðurlands 1910-1917. Það ár hóf hann búskap á Lækjamóti í Víðidal. Jakob gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum í sveit sinni og stundaði mikilvægar jarðvegsrannsóknir.

Jóhann Pétursson (1913-1984)

  • S01364
  • Person
  • 9. feb. 1913 - 26. nóv. 1984

Foreldrar hans voru hjónin Sigurjóna Steinunn Jóhannsdóttir og Pétur Gunnlaugsson á Brekkukoti í Svarfaðardal. Jóhann Svarfdælingur, einnig nefndur Jóhann risi, hét fullu nafni Jóhann Kristinn Pétursson. Hann var stærsti Íslendingur sem sögur fara af og var 2,34 metrar á hæð þegar hann mældist hæstur og vó þá 163 kg. ,,Jóhann flutti frá Íslandi árið 1935, ferðaðist víða um heim og vann meðal annars við að sýna sig í fjölleikahúsum í Norðurlöndunum. Jóhann festist í Kaupmannahöfn þegar seinni heimsstyrjöld dundi yfir og komst að lokum til Íslands árið 1945. Eftir að hafa ferðast um Ísland við að sýna kvikmyndir, flutti Jóhann til Bandaríkjanna árið 1948 og bjó þar til ársins 1982. Jóhann landaði nokkrum kvikmyndahlutverkum í Bandaríkjunum og lék meðal annars í kvikmynd sem skartaði Gary Busey og Jodie Foster. Þá kom hann fram í eigin persónu í heimildarmynd árið 1981 og þar var hann titlaður hæsti maður heims. Þegar Jóhann kom í síðasta sinn til Íslands, settist hann að á Dalvík og bjó þar til dauðadags. Jóhann lést árið 1984, þá 71 árs að aldri."

Jóhannes Björnsson (1907-1966)

  • S02489
  • Person
  • 7. júlí 1907 - 7. sept. 1966

Jóhannes fæddist í Laufási við Eyjafjörð, sonur hjónanna sr. Björns Björnssonar og Ingibjargar Magnúsdóttur. Hann missti föður sinn á unglingsaldri og flutti þá móðir hans ásamt börnum sínum til Reykjavíkur. Jóhannes lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1934. Síðan lá leiðin til Danmerkur til frekara náms. Meðan hann dvaldi þar fékkst hann við sjálfstæðar rannsóknir í fræðigrein sinni, meltingarsjúkdómum. Árið 1940 hélt hann heim til Íslands og starfaði hér á landi æ síðan sem sérfræðingur í meltingarsjúkdómum. Hann var farsæll í starfi. Jóhannes kvæntist Guðrúnu Valdemarsdóttur, þau skildu, en eignuðust þrjú börn. Seinni kona hans var Ásta Árnadóttir.

Jón F. Hjartar (1916-1996)

  • S03077
  • Person
  • 15. ágúst 1916 - 31. maí 1996

Jón F. Hjartar var fæddur 15. ágúst 1916 á Suðureyri við Súgandafjörð. Foreldrar hans voru hjónin Friðrik Hjartar skólastjóri og Þóra Jónsdóttir Hjartar. Hinn 3. júlí 1947 kvæntist Jón Rögnu Hjartardóttur frá Flateyri, þau eignuðust þrjá syni. ,, Jón lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar, íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni 1937 og framhaldsnámi í íþróttum frá Idræts højskolen Gerlev í Danmörku 1939. Hann sótti síðan íþróttanámskeið í Svíþjóð. Jón var íþróttakennari við barna- og gagnfræðaskólana á Siglufirði, Flateyri og víðar. Hann vann við skrifstofustörf og almenna kennslu á Flateyri ásamt ýmsum öðrum störfum. Hann var fulltrúi sveitarstjóra í Borgarnesi og seinna deildarstjóri á bæjarskrifstofu Kópavogs. Jón starfaði innan íþróttahreyfingarinnar í fjölda ára og var sæmdur margvíslegum heiðursmerkjum fyrir störf sín og árangur. Hann tók þátt í starfi Góðtemplarareglunnar frá unga aldri og var heiðursfélagi þar. Hann var félagi í Rotary og einnig í Oddfellow-reglunni. Jón var virkur í kór og safnaðarstarfi bæði í Borgarnesi og við Áskirkju í Reykjavík."

Jón Laxdal (1865-1928)

  • S02446
  • Person
  • 13. okt. 1865 - 7. júlí 1928

Jón Laxdal er fæddur á Akureyri 13. október 1865. Foreldrar hans voru Jón Guðmundsson hafnsögumaður og kona hans Friðbjörg Guðrún Grímsdóttir. ,,Ólst hann upp í foreldrahúsum til 12 ára aldurs, en fór þá til Eggerts Laxdals, móðurbróður síns, og starfaði við verzlun hans á Akureyri til 18 ára aldurs. Árlangt var hann bókhaldari við Höpfnersverzlun á Blönduósi í forföllum annars manns (1883-84). Tvítugur að aldri (1885) gerðist hann bókhaldari við Knudtsonsverzlunina í Keflavík og var þar í sex ár, en fór þá um haustið 1891 utan og dvaldi vetrarlangt í Kaupmannahöfn (1891-92). Vorið eftir kom hann heim og gerðist bókhaldari í Reykjavík við sömu verzlun (Knudtson-verzlunina). Um veturinn 1895 varð hann forstjóri Tangsverzlunar á Ísafirði og gegndi því starfi í 13 ár (1895-1909). Árin 1909-1910 var hann erlendis í þeim erindum að kynna sér bankastörf í Danmörku og Skotlandi. Eftir það settist hann að í Reykjavík og gerðist brátt umsvifamikill kaupsýslumaður. Nokkrum árum fyrir andlát sitt varð hann ræðismaður Tjekkoslóvakíu hér á landi." Jón samdi fjölda sönglaga, má þar nefna „Syngið, syngið, svanir mínir“ og „Vorvísur“. Jón Laxdal var þríkvæntur. Fyrsta konan var Kristín Egilsdóttir, þau voru barnlaus og slitu samvistum. Önnur konan var Elín Matthíasdóttir, þau eignuðust eina dóttur. Þriðja konan var Inger, fædd Leimeier, ættuð frá Jótlandi, þau eignuðust ekki börn.

Jón Norðmann Jónasson (1898-1976)

  • S02493
  • Person
  • 7. ágúst 1898 - 24. sept. 1976

Foreldrar Jóns voru Jónas Jónsson bóndi í Hróarsdal í Hegranesi í Skagafirði og seinni eiginkona hans Lilja Jónsdóttir. Jón var búfræðingur frá Hólum í Hjaltadal 1923 og tók kennarapróf árið 1929. Hann kenndi við Austurbæjarskóla og í forföllum við Barnaskóla Reykjavíkur. Jón fór í námsferð til Danmerkur og Svíþjóðar árið 1935 og og dvaldi við nám á Norðurlöndum 1955-1956. Einnig var honum boðið að halda fyrirlestra í Harvardháskóla þar sem hann fjallaði um galdur, seið, skýringar á Hávamálum og þjóðleg íslensk fræði, en Jón var fræðimaður að eðlisfari og var vel að sér þar. Einnig var hann fróður um jurtir og og grös. Jón var bóndi á Selnesi á Skaga frá 1957 og var í stjórn Ungmennafélagsins Hegra um skeið. Jón skrifaði fjölda greina í blöð, m.a. um ræktun á sykurrófum, en hann var fyrstur manna á Íslandi til að rækta sykurrófur. Önnur ritverk Jóns eru: Vegamót, barnasögur 1935 , í Framsókn 1957 og um rjúpuna í Dýraverndaranum 1950. Hann þýddi bókina Foreldrar og uppeldi e. Th. Bögelund, 1938. Jón var einkar barngóður, sem kom vel fram á kennaraárum hans, einnig reyndist hann sumardrengjum sínum vel.
Hann var ókvæntur og barnlaus.

Jónas Jónsson (1885-1968)

  • S02945
  • Person
  • 1. maí 1885 - 19. júlí 1968

Fæddur í Hriflu í Bárðardal. Foreldrar: Jón Kristjánsson bóndi þar og kona hans Rannveig Jónsdóttir. ,,Gagnfræðapróf Akureyri 1905. Nám í lýðháskólanum í Askov á Jótlandi 1906–1907, í kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn 1907–1908. Kynnti sér skólamál í Þýskalandi, Frakklandi og Englandi 1908–1909 með styrk úr landssjóði, dvaldist þá m. a. eitt missiri á Ruskin College í Oxford. Kennari við unglingaskólann á Ljósavatni 1905–1906. Kennari við Kennaraskólann í Reykjavík 1909–1918. Skólastjóri Samvinnuskólans frá stofnun hans haustið 1919–1927 og 1932–1955. Skipaður 28. ágúst 1927 dóms- og kirkjumálaráðherra, lausn 20. apríl 1931, skipaður 20. ágúst 1931 dóms- og kirkjumálaráðherra að nýju, lausn 28. maí 1932, en gegndi störfum til 3. júní. Kosinn 1925 í bankamálanefnd, 1926 í alþingishátíðarnefnd. Í dansk-íslensku ráðgjafarnefndinni 1926–1939. Í Þingvallanefnd 1928–1946. Í menntamálaráði 1934–1946. Tók sæti í bankaráði Landsbankans 1927 og 1936, í orðunefnd 1935–1944. Forseti Þjóðvinafélagsins 1940–1941. Í skipulagsnefnd atvinnumála 1934. Formaður Framsóknarflokksins 1934–1944. Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1938–1942. Í skipulagsnefnd bygginga við Lækjargötu 1943."

,,Landskjörinn alþingismaður 1922–1934, alþingismaður Suður-Þingeyinga 1934–1949 (Framsóknarflokkur).
Dóms- og kirkjumálaráðherra 1927–1931 og 1931–1932.
Milliþingaforseti efri deildar 1932 og 1933."

,,Afkastamikill rithöfundur, skrifaði bækur, bókarkafla og greinar í blöð og tímarit. Samdi kennslubækur, oft endurprentaðar, og skrifaði greinar um menn og málefni: skólamál, samvinnumál, þjóðfélagsmál o. fl. — Jónas Kristjánsson annaðist útgáfu bókarinnar: Jónas Jónsson frá Hriflu. Ævi hans og störf (1965). Indriði G. Þorsteinsson skrifaði: Samtöl við Jónas (1977). Guðjón Friðriksson skrifaði ævisögu Jónasar Jónssonar í þremur bindum: Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni. Dómsmálaráðherrann. Ljónið öskrar (1991–1993).
Ritstjóri: Skinfaxi (1911–1917). Tímarit íslenskra samvinnufélaga (1917–1925). Samvinnan (1926– 1928 og 1931–1946). Ófeigur (1944–1956). Landvörn (1946). Landvörn (1948–1953)."

Kristín Björnsdóttir (1909-2004)

  • S02193
  • Person
  • 29. des. 1909 - 28. jan. 2004

Foreldrar: Björn Hafliðason b. í Saurbæ í Kolbeinsdal og k.h. Ragnheiður Sigríður Þorláksdóttir. ,,Kristín ólst upp hjá foreldrum sínum í Saurbæ í Kolbeinsdal. Ung stundaði hún nám við unglingaskólann á Hólum í Hjaltadal og síðar við Húsmæðraskólann á Blönduósi. Í Danmörku dvaldi hún við nám og störf í um þrjú ár, lærði fatasaum og vann að saumum fyrir verslunarhúsið Rosenberg í Kaupmannahöfn. Eftir heimkomuna réðst hún til starfa á heimili Kristjáns Siggeirssonar. Kvæntist Georg Lüders af dönskum og austurrískum ættum. Eftir að Kristín gifti sig var hún heimavinnandi framan af en hóf síðan störf við niðursuðuverksmiðjuna ORA í Kópavogi við stofnun hennar, og starfaði þar um árabil. Kristín og Georg voru landnemar í Kópavogi þar sem þau byggðu sér lítið hús á Kársnesbraut 37 árið 1944 en reistu síðan stærra hús er varð Kársnesbraut 101. Árið 1975 flutti Kristín alfarin til Danmerkur." Kristín og Georg eignuðust tvær dætur.

Kristín Ingibjörg Kristinsdóttir (1902-1991)

  • S01116
  • Person
  • 08.01.1902-09.10.1991

Fædd að Neðra-Ási í Hjaltadal, foreldrar hennar voru Sigurlína Gísladóttir og Kristinn Erlendsson. Kristín fór ung til séra Þorsteins Briem og konu hans, Valgerðar Lárusdóttur, sem þá bjuggu í Eyjafirði. Kristín fór í Lýðháskóla í Hasslev í Danmörku 1922 og veturinn eftir dvaldi hún á herragarði á Jótlandi. Vorið 1923 fór Kristín sem ráðskona á Rolsö í Noregi þar sem hún veiktist af lömunarveiki og þurfti að dvelja í tvo mánuði á sjúkrahúsi í Osló. Eftir að hún kom heim til Íslands aftur 1924, starfaði hún sem kennari á Hofsósi og við verslun bæði á Siglufirði og Akureyri. Árið 1926 giftist hún Birni Jónssyni frá Bæ á Höfðaströnd og hófu þau búskap í Bæ. Samhliða heimilis- og bústörfum tók Kristín virkan þátt í félagsmálum í sveitinni, starfaði í ungmennafélaginu Höfðstrendingi og tók þátt í leikstarfsemi. Eins söng hún í kirkjukór Hofskirkju í rúm 50 ár. Kristín og Björn eignuðust átta börn og tóku að sér þrjú fósturbörn.

Kristján Jóhann Karlsson (1908-1968)

  • S01132
  • Person
  • 27. maí 1908 - 26. nóv. 1968

Foreldrar: Karl Kristján Arngrímsson b. í Veisu í Fnjóskadal og k.h. Karítas Sigurðardóttir frá Draflastöðum. Kristján ólst upp hjá foreldrum sínum á Landamóti og síðar í Veisu í Fnjóskadal. Ungur hóf hann nám við héraðsskólann á Laugum og síðan á Hvanneyri og lauk þaðan búffræðipróf vorið 1928. Stundaði verklegt búnaðarnám í Danmörku 1929-1931 og nam við landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan vorið 1933. Það sama vor réðst hann sem ráðunautur til Búnaðarsambands Suðurlands. Vorið 1935 tók hann við starfi skólastjóra og bústjóra á Hólum í Hjaltadal og hélt þeirri stöðu til 1961. Eftir það gerðist hann erindreki hjá Stéttarsambandi bænda og gegndi því starfi til dauðadags. Kristján var kosinn í stjórn Búnaðarsambands Skagfirðinga árið 1936 og átti þar sæti síðan, formaður frá 1948. Sat í Nýbýlanefnd Skagafjarðarsýslu 1947-1961, í Framleiðsluráði landbúnaðarins 1947-1951. Kristján kvæntist Sigrúnu Ingólfsdóttur frá Fjósatungu í Fnjóskadal, þau eignuðust fjögur börn og áttu eina fósturdóttur.

Lovísa Möller (1914-1966)

  • S03121
  • Person
  • 19. ágúst 1914 - 14. mars 1966

Foreldrar hennar voru hjónin Þorbjörg Pálmadóttir Möller og Jóhann Georg Jóhannsson Möller, kaupmaður á Hvammstanga, síðar verslunarstjóri á Sauðárkróki. Lucinda ólst upp hjá Sigrúnu Pálmadóttur móðursystur sinni og Jóni Sigurðssyni á Reynistað. Maki: Sigurður Samúelsson prófessor, þau eignuðust þrjú börn. Síðast búsett í Reykjavík.

Páll Agnar Pálsson (1919-2003)

  • S01182
  • Person
  • 9. maí 1919 - 10. júlí 2003

Páll Agnar Pálsson fæddist að Kletti í Reykholtsdal 9. maí 1919. Foreldrar hans voru hjónin Páll Zóphóníasson skólastjóri á Hólum, síðar alþm. og búnaðarmálastjóri, og Guðrún Hannesdóttir. Þau bjuggu á Hvanneyri, Kletti í Reykholtsdal, Hólum í Hjaltadal og í Reykjavík. ,,Páll Agnar varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1937 og dvaldi eftir það á Austur-Grænlandi árlangt sem aðstoðarmaður í jarðfræðileiðangri Lauge Kock. Páll hélt þaðan til Kaupmannahafnar og lauk kandidatsprófi frá Dýralæknaháskólanum í Kaupmannahöfn 1944.
Hann stundaði dýralæknastörf á Jótlandi 1944-1945 og framhaldsnám í sýkla- og meinafræði húsdýra í Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi á árunum 1945-1948. Páll Agnar var sérfræðingur við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum frá árinu 1948-1998 og var forstöðumaður þeirrar stofnunar á árunum 1959-1967. Á Keldum vann Páll margvísleg rannsóknarstörf, einkum á sviði visnu og mæðiveiki. Páll var yfirdýralæknir frá árinu 1959- 1989 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Páll Agnar gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum, var í stjórn Hafnarstúdenta og Íslendingafélagsins í Kaupmannahöfn í nokkur ár og varaformaður Landssambands hestamannafélaga 1959-63. Þá átti hann sæti í stjórn Tilraunaráðs búfjárræktar 1960-65, í dýraverndarnefnd 1958-78, í stjórn vísindasjóðs 1972-75, formaður fisksjúkdómanefndar 1970-89, í flúormengunarnefnd 1969-84, í lyfjanefnd um árabil og í Dýraverndunarnefnd Evrópuráðsins 1968-94. Páll sat fjölmarga fundi og ráðstefnur um búfjársjúkdóma erlendis og flutti erindi um það efni víða um lönd. Páll var kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga árið 1965 og var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1974. Árið 1976 hlaut hann heiðursverðlaun úr sjóði Ásu Wright. Hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn 1985, við Dýralæknaháskóla Noregs 1985 og við læknadeild Háskóla Íslands 1986. Árið 1992 varð hann heiðursfélagi í Dýralæknasamtökum Finnlands og heiðursfélagi í Íslenska dýralæknafélaginu 1994. Páll Agnar lagði stund á ritstörf og ritaði fjölda greina og ritgerða, einkum um búfjársjúkdóma, sem birst hafa í innlendum og erlendum tímaritum."
Hinn 22. júní 1946 kvæntist Páll Kirsten Henriksen dýralækni, þau eignuðust tvær dætur.

Páll Einarsson (1868-1954)

  • S02194
  • Person
  • 2505.1868-17.12.1954

Páll Einarsson, f. á Hraunum í Fljótum 25.05.1868, d. 17.12.1954. Foreldrar: Einar B. Guðmundsson bóndi á Hraunum í Fljótum og fyrsta kona hans, Kristín Pálsdóttir.
Páll lauk embættisprófi i lögfræði frá Hafnarháskóla 1891. Hann var málflutningsmaður við Landsyfirréttinn, sýslumaður í Barðastrandarsýslu, bæjarfógeti í Hafnarfirði og sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu. Hann var kosinn fyrsti borgarstjórinn í Reykjavík 1908 og gegndi því embætti í eitt kjörtímabil sem var þá sex ár. Hann var síðan bæjarfógeti og sýslumaður á Akureyri og loks hæstaréttardómari.
Maki 1: Sigríður Thorsteinsson. Þau eignuðust tvö börn.
Maki 2: Sigríður Símsen. Þau eignuðust sex börn.

Pétur Sighvatsson (1875-1938)

  • S01274
  • Person
  • 7. nóv. 1875 - 12. ágúst 1938

Foreldrar: Sighvatur Grímsson Borgfirðingur og k.h. Ragnhildur Brynjólfsdóttir. Pétur ólst upp hjá foreldrum sínum í Dýrafirði. Þegar hann var um tvítugt sigldi hann til Kaupmannahafnar og nam þar úrsmíði. Að námi loknu, dvaldist hann þar í nokkur ár og stundaði iðn sína, og um tíma veitti hann forstöðu verkstæði húsbónda síns í fjarveru hans. Alls var Pétur sjö ár í Danmörku og kynntist þar konuefni sínu, Rósu Daníelsdóttur frá Skáldastöðum í Eyjafirði, þau komu heim til Íslands árið 1903 og kvæntust. Fluttust sama ár til Sauðárkróks og setti Pétur þar upp úrsmíðavinnustofu. Hafði einnig dálitla verslun með úr, klukkur o.fl. Verslunarleyfi fékk hann 1904 með Steindóri Jónssyni. Þegar símstöð var sett upp á Sauðárkróki fáum árum síðar, varð Pétur stöðvarstjóri og var það aðalstarf hans upp frá því. Auk þess starfaði hann að iðn sinni og margs konar smíðum og öðru því, sem hagleik þurfti til. Óhætt er að segja að Pétur hafi komið að flestum framfara- og menningarmálum Sauðárkróks á meðan hans naut við. Ári eftir að hann kom til Sauðárkróks var þar stofnað Iðnaðarmannafélag og var Pétur fyrsti gjaldkeri þess og formaður. Árið 1912 beitti hann sér mjög fyrir því að vatnsveita yrði lögð, og ári síðar stofnaði hann ásamt fleirum, Sjúkrasamlag Sauðárkróks. Var kjörinn formaður þess og var það til dauðadags. Hann hafði mikinn áhuga á rafmagnsmálum, var ávallt í rafveitunefnd og hvatti þar til stórra átaka. Mun hann fyrstur manna á Sauðárkróki hafa unnið að raflögnum og viðgerðum á þeim. Hann var stofnandi og einnig í stjórn Framfarafélags Skagfirðinga og átti sæti í hreppsnefnd. Hann var í stjórn Kaupfélags Skagfirðinga og formaður þess í nokkur ár. Jafnframt var hann einlægur bindindismaður og starfaði lengi í Góðtemplarareglunni. Pétur og Rósa eignuðust sex börn.

Ragnhildur Helgadóttir (1937-2014)

  • S01524
  • Person
  • 11. des. 1937 - 14. júní 2014

Foreldrar hennar voru Björn Jónsson og Ingibjörg Pálsdóttir. Kjörforeldrar: sr. Helgi Konráðsson prestur á Sauðárkróki og Jóhanna Þorsteinsdóttir. ,,Ragnhildur ólst upp á Sauðárkróki og lauk þar barnaskóla og síðar landsprófi. Kennaraprófi lauk hún frá Kennaraskóla Íslands 1958. Hún stundaði framhaldsnám um skólasöfn í Danmarks Lærerhøjskole 1969-70 og meistaranámi lauk hún frá KHÍ 1999. Hún sótti fjölda námskeiða, einkum um skólasöfn og safnakennslu og stýrði slíkum námskeiðum ásamt Kristínu Unnsteinsdóttur. Hún var stundakennari við Vesturbæjarskóla 1958-59, bókavörður á Borgarbókasafni 1959-69, skólasafnskennari við Laugarnesskóla 1970-75 og starfaði þá jafnframt við Borgarbókasafnið. Ragnhildur var skólasafnskennari við Valhúsaskóla á fyrstu árum skólans, síðan starfaði hún við Æfingadeild Kennaraháskólans til ársins 2001. Hún gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir skólasafnsverði og kennara og var einn af fjórum stofnendum bókaútgáfunnar Bjöllunnar." Eiginmaður Ragnhildar var Bolli Thoroddsen hagræðingarráðunautur hjá ASÍ, þau eignuðust einn son.

Rósa Stefánsdóttir (1895-1993)

  • S02042
  • Person
  • 10. okt. 1895 - 14. júlí 1993

Rósa fæddist 10. október á Króksstöðum í Kaupvangssveit í Eyjafirði. ,,Sem unglingur var Rósa í vist hjá hinum nafntogaða presti og fræðimanni, sr. Jónasi á Hrafnagili sem þá var kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri. Árið 1930 var hún ráðin aðstoðarkona á Sjúkrahúsi Akureyrar, en skömmu síðar ráðskona við Menntaskólann á Akureyri. Hélt síðan til frekara náms í Danmörku og lauk prófi frá merktum hússtjórnarskóla, Ankerhus í Sorø. Næstu árin stundaði hún kennslu í sinni grein við Kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði og síðar Kvennaskólann og Miðbæjarskólann í Reykjavík. Árið 1940 giftist hún Jóni Þ. Björnssyni skólastjóra á Sauðárkróki sem þá hafði verið ekkjumaður í átta ár, hann hafði átt tíu börn með fyrri konu sinni. Hún sá um þungt heimili þeirra af skörungsskap, en kenndi jafnframt við Barna- og unglingaskóla Sauðárkróks 1942­1952. Auk færni sinnar í öllum húsmóðurstörfum var Rósa mikill matreiðslusnillingur. Í meira en áratug stóð hún fyrir hótelrekstri á Hólum í Hjaltadal á sumrin eða þar til þau hjónin fluttust til Reykjavíkur 1962. Eftir það var Rósa lengi matráðskona við Hagaskólann í Reykjavík."

Sigurbjörg Hólmfríður Friðriksdóttir (1852-óvíst)

  • S01578
  • Person
  • 1852-óvíst

Dóttir Friðriks Andrésar Formars Níelssonar b. og snikkara og f.k.h. Guðrúnar Halldórsdóttur. Sigurbjörg Friðriksdóttir ,,lærði mjólkuriðnað í Danmörku, kom heim og kenndi en sneri aftur. Giftist dönskum manni á Akureyri, skildu, ókunnugt um niðja.“ Var á Hofi, Hólasókn, Skag. 1860. Var á Neðriási, Hólasókn, Skag. 1870.

Sigurður Þorvaldsson (1884-1989)

  • S00656
  • Person
  • 23. jan. 1884 - 21. des. 1989

Sigurður var fæddur í Álftaneshreppi á Mýrum 23. janúar 1884. ,,Sigurður ólst upp hjá foreldrum sínum við nokkra fátækt og hrakhólabúskap en komst snemma á unglingsárum í sumarvinnu við vegagerð og gat þannig safnað saman fé fyrir námsdvöl í Flensborgarskóla. Þaðan tók hann gagnfræðapróf 1904 og kennarapróf 1905. Haustið 1905 réðst hann kennari að Hvítárbakkaskóla í Borgarfirði þar sem hann kenndi í tvo vetur en sigldi svo til Danmerkur vorið 1907 til frekara náms, fyrst við Lýðháskólann í Askov og síðan við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Sneri aftur til Íslands vorið 1910 og kvæntist Guðrúnu Sigurðardóttur frá Víðivöllum í Blönduhlíð. Það sama ár fluttu þau til Ísafjarðar þar sem Sigurður starfaði sem kennari. Vorið 1914 keyptu þau Sleitustaði þar sem þau áttu eftir að búa í rúm 40 ár. Samhliða myndarlegum búskap starfaði Sigurður sem kennari í Óslandshlíð og Hólahreppi, einnig tók hann að sér kennslu í Ísafjarðardjúpi, í Strandasýslu og á Skagaströnd. Sigurður gegndi trúnaðarstörfum fyrir sveit sína um áratugaskeið, var hreppstjóri í rúma fjóra áratugi (1930-1971) og sat í hreppsnefnd um tíma. Var formaður Búnaðarfélags Óslandshlíðar og endurskoðandi Kaupfélags A-Skagfirðinga um langt skeið, umboðsmaður Esso og rak verslun með olíuvörur á Sleitustöðum um langt árabil." Sigurður og Guðrún eignuðust 12 börn, átta þeirra komust á legg.
Sigurður náði 105 ára aldri.

Sigurmon Hartmannsson (1905-1991)

  • S01968
  • Person
  • 17. nóv. 1905 - 1. feb. 1991

Foreldrar: Hartmann Ásgrímsson b. og kaupmaður í Kolkuósi og k.h. Kristín Símonardóttir frá Brimnesi. Sigurmon ólst upp hjá foreldrum sínum á Kolkuósi. Fermingarhaustið fór hann í unglingadeild Hólaskóla og var þar til vors. Vorið 1923 útskrifaðist hann frá gagnfræðaskóla Akureyrar. Vorið 1929 fór hann utan og vann á dönskum búgarði. Fór þaðan til Edinborgar í janúar 1930 og dvaldi þar fram á sumar. Við heimkomuna réði hann sig hjá Bifreiðastöð Steindórs þar sem hann var til haustsins, að hann fór heim í Kolkuós. Kauptíð Kolkuósverslunar mun hafa lokið um 1930. Var þá ekki annað til ráða til öflunar lífsviðurværis en að snúa sér alfarið að hefðbundnum bústörfum. Faðir hans mátti heita auðugur á þeirra tíma mælikvarða og átti nokkrar jarðir, þrjár þeirra, Unastaðir, Langhús og Kolkuós, komu í hlut Sigurmons við erfðaskipti og Saurbær í Kolbeinsdal fylgdi Haflínu konu hans. Miklahól keypti hann af Ásgrími bróður sínum á sjöunda áratugnum og árið 1935 keypti hann 300 hektara lands af Gunnlaugi Björnssyni í Brimnesi. Má því segja að nægt hafi verið landið til stórbúskapar og kom það sér vissulega vel þegar hrossum fjölgaði svo gríðarlega sem raun bar vitni. Sigurmon bjó við blandaðan búskap, kindur, kýr og hross framundir 1950 en hafði fremur fáar kýr og lagði ekki inn mjólk nema yfir sumartímann. Á veturnar var unnið úr mjólkinni heima og smjör selt í nokkrum mæli og hélst svo fram á sjöunda áratuginn. Árið 1949 þurfti hann að skera niður vegna garnaveikinnar og fékk ekki kindur aftur fyrr en tveimur árum seinna. Laust eftir 1940 hafði hann líka þurft að skera niður vegna sömu veiki. Fjárpestirnar urðu til þess að Sigurmon sneri sér í stórauknum mæli að því að fjölga hrossum en þó skipulega með kynbótum. Mun svo hafa verið komið fljótlega uppúr 1960 að hann var orðinn einhver stærsti hrossabóndi landsins með hátt í annað hundrað hrossa. Eingöngu seldi hann lífhross og þá oft í stórum hópum. Hross sín seldi hann fremur ódýrt, setti fast verð á hvern árgang og bauð mönnum svo að velja úr hópnum. Gefur því auga leið að margir högnuðust á þeim viðskiptum, enda varð Sigurmon fljótt landsþekktur og hross hans ekki síður. Mörg reyndust gæðingar og sum jafnvel afburða reiðhross. Samhliða búskapnum reri Sigurmon til fiskjar fyrir heimilið og stundum aflaðist svo mikið að hann varð aflögufær með fiskmeti til annarra. Á síldaráruunum óð síldin oft á tíðum upp á landsteina í Kolkuós og var þá veidd í net með fyrirdrætti, söltuð í tunnur og nytjuð til skepnufóðurs. Tryllubát eignaðist hann upp úr 1950 og notaði hann einnig til heimilisþarfa eingöngu. Félagsmál voru Sigurmoni lengstum hugleikin og starfaði hann mikið að hreppsmálum og fyrir önnur félög sveitar sinnar. Hann var oddviti 1942-1958 og í hreppsnefnd óslitið 1934-1974. Hann var formaður búnaðarfélagins 1935-1947 og formaður í ýmsum öðrum félögum. Sigurmon kvæntist árið 1932 Haflínu Björnsdóttur frá Saurbæ í Kolbeinsdal, þau eignuðust þrjár dætur.

Skúli Þórðarson Thorlacius (1741–1815)

  • S02406
  • Person
  • 10. apríl 1741 - 30. mars 1815

Skúli Þórðarson Thorlacius (1741–1815), fornfræðingur, heimspekingur og rektor. Fæddur að Teigi í Fljótshlíð 10. apríl 1741 sonur Þórðar Thorlacius og Kristínar Sigurðardóttur. Varð stúdent 1758 eftir nám í Skalholti. Hélt til Kaupmannahafnar sama ár, lauk lárviðarprófi í heimspeki 1761 og guðfræðiprófi 1765, hlaut meistaranafnbót í heimspeki 1768. Varð rektor latínuskólans í Kolding 1769 og rektor frúarskóla í Kaupmannahöfn, helsta latínuskóla Danmerkur, 1777. Kvæntist prestdótturinni Agatha Riisbrigh (d. 1825) árið 1770. Lést í Kaupmannahöfn 1815.

Snorri Sigfússon (1884-1978)

  • S02495
  • Person
  • 31. ágúst 1884 - 13. apríl 1978

Snorri var fæddur á Brekku í Svarfaðardal, sonur hjónanna Önnu Sigríðar Björnsdóttur og Sigfúsar Jónssonar. Snorri lauk kennaraprófi frá Storð í Noregi; sótti einnig námskeið í Danmörku og Englandi. Hann var skólastjóri og námstjóri. Síðast búsettur í Reykjavík. Eiginkona hans var Guðrún Jóhannesdóttir.

Soffía Jónsdóttir Claessen (1885-1966)

  • S01279
  • Person
  • 22. júlí 1885 – 20. janúar 1966

Fædd í Hafnarfirði. Lauk kennaraprófi frá Danmörku 1906 og réði sig það sama ár til starfa við Miðbæjarskólann í Reykjavík þar sem hún starfaði samfellt í 18 ár. Árið 1924 kvæntist hún Eggerti Claessen hæstaréttarlögmanni í Reykjavík, þau eignuðust tvær dætur.

Sölvi Helgason (1820-1895)

  • S01403
  • Person
  • 16. ágúst 1820 - 27. nóv. 1895

,,Sölvi Helgason fæddist á bænum Fjalli í Sléttuhlíð við austanverðan Skagafjörð 16. ágúst árið 1820. Foreldrar Sölva voru Helgi Guðmundsson og Ingiríður Gísladóttir. Þegar Sölvi var fjögurra ára missti hann föður sinn. Hann bjó ekki hjá móður sinni frá sex ára aldri heldur var vistaður á hinum og þessum bæjum á svæðinu. Móðir hans dó svo þegar Sölvi var fjórtán ára. Munnmælasögur segja Sölva snemma hafa verið ófyrirleitinn og óþægan en sýnt nokkur merki um gáfur. Einnig eru til sögur um að hann hafi hlotið illa meðferð sem barn og nokkuð harkalegt uppeldi. Björn Þórðarson hreppstjóri á Ysta-Hóli lét ferma Sölva 16 ára gamlan. 18 ára er hann síðan sendur að Möðruvöllum í Hörgárdal til Bjarna Thorarensen skálds og amtmanns. Þar er hann í það minnsta í eitt ár áður en hann fer austur í Þingeyjar- og Múlasýslur. Þaðan fór hann svo að flakka um landið. Í október árið 1843 var Sölvi tekinn fastur í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Reglur um vistarskyldu voru í gildi og því mátti ekki ferðast um nema með leyfi frá sýslumanni; reisupassa eða vegabréf. Sölvi hafði undir höndum falsað vegabréf og var dæmdur 8. mars 1845 fyrir falskan reisupassa og flakk. Refsing hans var milduð í 27 vandarhögg og 8 mánaða gæslu. Í mars 1850 var Sölvi aftur tekinn fastur fyrir stuld á bókum og buxnagarmi. Hann var svo dæmdur til að hljóta 20 vandarhögg fyrir flakk og lausamennsku þar sem ekki tókst að sanna á hann stuldinn. 1854 var Sölvi enn dæmdur, nú til þriggja ára betrunarvistar í Kaupmannahöfn, fyrir að virða ekki vistarband og að hafa sennilega stolið hinu og þessu, aðallega bókum. Árið 1858 kom hann aftur til Íslands og er sendur aftur í sveit sína. Þegar hann ræddi um dvöl sína í Danmörku seinna lét hann eins og hann hefði verið þar sem frjáls maður og hlotið mikinn frama. Sölvi hélt áfram að flakka um landið. Árið 1870 var hann dæmdur til að þola 3x27 vandarhögg fyrir flakk og þjófnað."

,,Sölvi var alltaf að mála myndir og skrifa eitthvað, bæði upp úr sjálfum sér og þýðingar á verkum erlendra meistara. Ljóst þykir af skrifum Sölva að hann var veikur á geði. Hann var t.d. haldinn ofsóknaræði einkum gagnvart veraldlegum höfðingjum. Þá sem höfði komið nálægt því að fá Sölva dæmdan kallaði hann öllum illum nöfnum og málaði jafnvel af þeim skrípamyndir og líkti við djöfulinn. Yfir hundrað myndir hafa varðveist en þær myndir eru oft skreyttir stafir, blómaskraut og sjálfsmyndir. Myndir Sölva eru oft með fagurlega dregnum línum og ótrúlega vönduðum litum miðað við hvaða aðstæður þær hafa verið teiknaðar. Skrif Sölva eru af ýmsu tagi. Má þar nefna spekimál, hugleiðingar, sagnfræði, vísindalegar upplýsingar, frásagnir af því þegar hann reyndi að kristna landið og Frakklandssaga. Hann skrifaði líka um ferðir sínar þegar hann sagðist vera að ferðast um landið til að sinna vísindarannsóknum."

,,Sölvi eignaðist dótturina Stefaníu Kristínu með Júlíönu Sveinbjörnsdóttur. Stefanía fór til Vesturheims 1899."

Sören L. Tuxen (1908-1983)

  • S02466
  • Person
  • 1908-1983

Tuxen var danskur skordýrafræðingur. Hann var á Mælifelli í Skagafirði 1944 við rannsóknir og kom hér oft eftir það og hélt tengslum við Kristmund Bjarnason og fjölskyldu hans til hinsta dags. Tuxen var víðfrægur fyrir störf sín um heim allan m.a. fyrir rit sín. Tuxen var driffjöður ritraðarinnar The Zoology of Iceland.

Stefán Bjarman (1894-1974)

  • S02968
  • Person
  • 10. jan. 1894 - 28. des. 1974

Fæddur að Nautabúi í Lýtingsstaðahreppi. Foreldrar: Árni Eiríksson frá Skatastöðum og Steinunn Jónsdóttir frá Mælifelli. Stefán flutti ungur með foreldrum sínum að Reykjum í Tungusveit og ólst þar upp. Um fermingaraldur fluttist Stefán með foreldrum sínum til Akureyrar og lauk þar gagnfræðaprófi 1911. Lá leiðin síðan til Reykjavíkur þar sem hann gekk í Menntaskólann. Þar bjó hann um skeið í Unuhúsi. Þýddi m.a. bækurnar Þrúgur reiðinnar eftir Steinbeck og bækur eftir Hemningway og Hamsun. Dvaldi um tíma í Bandaríkjunum og síðar í Danmörku. Um 1925 fór hann til Ameríku og dvaldist þar um árabil. Heimkominn gegndi hann m.a. kennarastörfum og veitti forstöðu vinnumiðlunarskrifstofunni á Akureyri. Stefán Bjarman var kunnur sem einn allra snjallasti bókmenntaþýðandi hérlendis, og þýddi m.a. Steinbeck, Hemingway og Hamsun.
Maki 1: Ágústa Kolbeinsdóttir, saumakona. Þau eignuðust ekki börn.
Maki 2: Þóra Eiðsdóttir Bjarman, iðnverkakona. Þau eignuðust ekki börn.

Stefán Skaftason (1928-2015)

  • S02518
  • Person
  • 18. feb. 1928 - 9. apríl 2015

Stefán fæddist á Siglufirði og ólst þar upp. Hann var sonur hjónanna Skafta Stefánssonar útgerðarmanns, skipstjóra og síldarsaltanda á Siglufirði og Helgu S. Jónsdóttur húsfreyju.
,,Stefán varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1948. Hann útskrifaðist frá læknadeild HÍ 1956 og stundaði framhaldsnám í háls-, nef- og eyrnalækningum í Þýskalandi, Svíþjóð og Danmörku. Stefán starfaði sem læknir í Þýskalandi, Svíþjóð og Danmörku á árunum 1956 til 1969, er hann tók við nýstofnaðri háls-, nef- og eyrnadeild á Borgarspítalanum sem yfirlæknir og starfaði þar til loka starfsferils síns árið 1996. Samhliða starfrækti Stefán ásamt konu sinni, Maj, lækningastofu og heyrnarrannsóknarstöð í Kópavogi. Þá tók hann þátt í stofnun Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Stefán stundaði kennslu í háls-, nef- og eyrnalækningum í Kalmar í Svíþjóð á árunum 1963-1967 og við Háskóla Íslands 1976-1997. Árið 1993 var hann skipaður prófessor við læknadeild. Doktorsritgerð hans fjallaði um 1.001 eyrnaaðgerð (skurðaðgerðir í smásjá) sem hann framkvæmdi á árunum 1970 til 1980 og varði ritgerðina við Háskóla Íslands 1987. Hann gegndi fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum fyrir lækna og Lions á Íslandi, var m.a. formaður í norrænum samtökum háls-, nef- og eyrnalækna og fékk æðstu viðurkenningu Lionshreyfingarinnar. Eftir Stefán liggur fjöldi greina í erlendum og innlendum læknaritum, ásamt blaðagreinum, um málefni heyrnarskertra." Fyrri kona Stefáns var Ingibjörg Alda Bjarnadóttir, þau skildu, þau eignuðust eina dóttur. 1961 kvæntist Stefán Maj Vivi-Anne Skaftason skurðhjúkrunarfræðingi, þau eignuðust tvö börn.

Þorsteinn Þorsteinsson (1960-2002)

  • S02396
  • Person
  • 19. júní 1960 - 23. nóv. 2002

Bjó í Árósum. Sonur Þorsteins Árnasonar frá Sjávarborg og Önnu Jóhannsdóttur konu hans.

Torfi Bjarnason (1899-1991)

  • S00383
  • Person
  • 26. des. 1899 - 17. ágúst 1991

,,Torfi var fæddur að Ásgarði í Hvammssveit í Dölum 26. desember 1899. Foreldrar hans voru hjónin Bjarni Jensson, bóndi þar og hreppstjóri, og Salbjörg Ásgeirsdóttir ljósmóðir. Torfi lauk stúdenstprófi 1921. Hann varð cand. med. frá Háskóla Íslands 1927 og var síðan við framhaldsnám í Danmörku í tvö ár. Torfi var starfandi læknir á Ísafirði 1929-1932, héraðslæknir á Hvammstanga 1932-1938, á Sauðárkróki 1938-1955 og síðan á Akranesi til 1969."
Torfi var giftur Sigríði Auðuns.

Zóphónías Pálsson (1915-2011)

  • S01184
  • Person
  • 17. apríl 1915 - 15. maí 2011

Zóphónías Pálsson fæddist á Hvanneyri í Borgarfirði 17. apríl 1915. ,,Hann var næstelstur sex barna hjónanna Guðrúnar Hannesdóttur frá Deildartungu í Borgarfirði og Páls Zóphóníassonar, alþingismanns og búnaðarmálastjóra. Zóphónías ólst upp á Hólum í Hjaltadal frá fjögurra ára aldri, þar sem faðir hans var skólastjóri Bændaskólans, en 1928 fluttist hann með foreldrum sínum til Reykjavíkur. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík stundaði Zóphónías nám í mælingaverkfræði við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn og lauk þaðan prófi árið 1939. Starfaði hann síðan í Danmörku, aðallega hjá Geodætisk Institut, bæði í Óðinsvéum og í Kaupmannahöfn, fram til ársins 1945 er hann fluttist með fjölskyldu sinni heim til Íslands og hóf starf sem verkfræðingur hjá Skipulagi bæja og kauptúna. Var hann síðan yfirverkfræðingur þar árin 1950 til 1954 en þá var hann skipaður skipulagsstjóri ríkisins og gegndi hann því embætti til ársins 1985 er hann lét af störfum vegna aldurs. Zóphónías vann þar áfram um skeið að tilteknum skipulagsmálum og var einnig nokkur ár starfandi hjá varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins. Árin 1945 til 1954 kenndi hann við Iðnskólann í Reykjavík og var prófdómari þar til 1985. Zóphónías var einnig prófdómari við verkfræðideild HÍ frá 1948 til 1985. Hann var félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík Austurbær frá stofnun hans árið 1963."
Hinn 20. desember 1940 kvæntist Zóphónías Lis Nellemann, þau eignuðust fjögur börn.