- S02191
- Person
- 3. mars 1894 - 4. sept. 1929
Fæddur og uppalinn á Möðruvöllum í Eyjafirði, sonur Jóhanns Jóhannssonar b. og smiðs þar og k.h. Guðrúnar Skúladóttur. Lauk prófi frá bændaskólanum á Hvanneyri vorið 1915 og var áfram á Hvanneyri fjósamaður 1917-1919. Á árunum 1920-1922 dvaldist hann við nám í Danmörku, lauk leikfimiprófi við íþróttaskólann í Ollerup og tók einnig próf í smíðum og járningum frá búnaðarskólanum í Kaupmannahöfn. Eftir það fór hann til Svíþjóðar og kynnti sér þar leikfimikennslu og járnsmíðar. Kom heim að Hólum árið 1922 og tók við leikfimi- og smíðakennslu við bændaskólann. Tómas vann einnig að verkstjórn fyrir búið og byggingum. Árið 1924 kvæntist Tómas Ástríði G. Magnúsdóttur frá Laxnesi í Mosfellsdal, en þau höfðu kynnst á Hvanneyri, þau eignuðust tvær dætur. Á árunum 1924-1927 hafði Tómas á leigu jörðina Hlíð í Hjaltadal en bjó þó ekki þar nema eitt sumar en hafði húsfólk á jörðinni. Þá var hann ráðsmaður á Hólabúinu hjá Steingrími Steinþórssyni 1928-1929. Tómas lést aðeins 35 ára gamall.