Showing 17 results

Authority record
Svíþjóð

Ásgeir Ásgeirsson (1894-1972)

  • S02709
  • Person
  • 13. maí 1894 - 15. sept. 1972

Ásgeir Ásgeirsson fæddist árið 1894 í Kóranesi á Mýrum. Ásgeir lauk stúdentsprófi 1912 og guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1915. Hann stundaði framhaldsnám við háskólana í Kaupmannahöfn og Uppsölum 1916-1917. Kjörinn heiðursdoktor við Manitobaháskóla 1961 og við Edinborgarháskóla 1967. Hann var alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn 1923-1934, utanflokka 1934-1937 og fyrir Alþýðuflokkinn 1937-1952. Forseti Sameinaðs þings 1930-1931 og varaforseti þess 1928-1929. Fjármálaráðherra 1931-1932 er hann varð forsætis- og fjármálaráðherra og gegndi hann því starfi til 1934. Ásgeir var biskupsritari 1915-1916, bankaritari við Landsbankann í Reykjavík 1917-1918 og kennari við Kennaraskólann 1918-1927. Fræðslumálastjóri 1926-1931 og 1934-1938. Bankastjóri Útvegsbankans í Reykjavík. Kjörinn forseti Íslands 29. júní 1952 og endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 1956, 1960 og 1964 og lét af embætti 1968. Maki: Dóra Þórhallsdóttir, f. 23.02.1893. Þau eignuðust þrjú börn.

Bjarni G. Bachmann (1919-2010)

  • S03079
  • Person
  • 27. apríl 1919 - 13. jan. 2010

Fæddur og uppalinn í Borgarnesi. Eiginkona Bjarna var Anna Þórðardóttir hárgreiðslukona frá Ísafirði, þau eignuðust fjögur börn. ,,Eftir að skólagöngu lauk þar fór hann í Héraðsskólann í Reykholti 1935-1937, síðan í Íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal og fyrir hans tilstuðlan fór hann í Íþróttakennaraskóla Björns Jakobssonar á Laugarvatni. Hann sótti einnig íþróttanámskeið í Svíþjóð. Bjarni kenndi á vegum UMFÍ og ÍSÍ á Vestfjörðum og hjá Héraðssambandi Skarphéðins. Frá 1947 til 1961 kenndi hann við Gagnfræðaskóla Ísafjarðar, bæði íþróttir og bóklegar greinar. Frá 1961 til 1979 kenndi hann einnig íþróttir og bóklegar greinar við barna- og miðskóla Borgarness. Þegar Bjarni starfaði á Ísafirði þjálfaði hann í mörgum greinum íþrótta, m.a. þjálfaði hann fimleikaflokk sem ferðaðist víða um land með sýningar. Í Borgarnesi þjálfaði hann meðal annars unglingalið Skallagríms í körfubolta og gerði annan og þriðja flokk karla að Íslandsmeisturum. Á sumrin vann hann ýmsa sumarvinnu eins og t.d. vegavinnu og byggingarvinnu. Bjarni var formaður sóknarnefndar Borgarneskirkju um árabil. Árið 1969 var hann ráðinn forstöðumaður í Safnahúsi Borgarfjarðar. Þar vann hann til 1994 er hann lét af starfi vegna aldurs. Bjarni hafði mikinn áhuga á ættfræði og sögu Borgarness, og skráði mikið á því sviði. Eftir að hann lét af störfum hóf hann skráningu húsa sem reist höfðu verið í Borgarnesi frá upphafi byggðar til ársins 1930 og hverjir höfðu verið ábúendur þar, hann myndaði einnig húsin sem enn voru til á þeim tíma sem hann vann að þessu hugðarefni sínu. Bjarni var félagi í Oddfellowstúkunni Gesti á Ísafirði og síðar Agli á Akranesi. Þá var hann félagi í Rotaryklúbbi Borgarness."

Einar Eylert Gíslason (1933-2019)

  • S03110
  • Person
  • 5. apríl 1933 - 5. sept. 2019

For­eldr­ar hans voru Gísli Eylert Eðvalds­son hár­skera­meist­ari og Hulda Ein­ars­dótt­ir. ,,Ein­ar lauk bú­fræðiprófi frá Hvann­eyri vorið 1951, var í verk­legu bú­fræðinámi í Dan­mörku og Svíþjóð næstu tvö árin og út­skrifaðist bú­fræðikandí­dat frá Hvann­eyri 1955. Ráðunaut­ur í naut­griparækt fyr­ir Naut­griparækt­ar­sam­band Borg­ar­fjarðar 1955-58, bóndi á Stóra-Hrauni í Kol­beinsstaðahreppi 1958-60, bú­stjóri og til­rauna­stjóri fjár­rækt­ar­bús­ins á Hesti í Borg­ar­f­irði 1960-74, héraðsráðunaut­ur hjá Búnaðarsam­bandi Skag­f­irðinga 1974-84 og bóndi á Syðra-Skörðugili 1974-2000 og stundaði sauðfjár­rækt, hross­a­rækt og loðdýra­rækt. Ein­ar var mik­ill frum­kvöðull í fé­lags­starfi bænda. Hann sat í stjórn Fé­lags hrossa­bænda frá stofn­un 1975, var formaður þess 1984-93, sat í stjórn Sam­bands ís­lenskra loðdýra­rækt­enda í 13 ár og var formaður þess 1984-93. Hann var fram­kvæmda­stjóri Hross­a­rækt­ar­sam­bands Skag­f­irðinga 1974-84 og síðan formaður til 1993, vann að stofn­un Loðdýra­rækt­ar­fé­lags Skag­f­irðinga og var formaður þess fyrstu níu árin. Var stofn­andi og formaður Fé­lags hrossa­bænda í Skagaf­irði 1975-94, aðal­hvatamaður að stofn­un fóður­stöðvar­inn­ar Mel­rakka hf. á Sauðár­króki og stjórn­ar­formaður henn­ar fyrstu fimm árin, vann að stofn­un Fé­lags sauðfjár­bænda í Skagaf­irði og sat í stjórn fyrstu sex árin. Ein­ar var jafn­framt aðal­hvatamaður að stofn­un Lands­sam­taka sauðfjár­bænda og sat í stjórn fyrstu árin."
Maki: Ásdís Sigurjónsdóttir (1949-, þau eignuðust fjóra syni. Fyrir átti Einar kjördóttur.

Eiríkur Hreinn Finnbogason (1922-2006)

  • S02181
  • Person
  • 13. mars 1922 - 3. maí 2006

Eiríkur Hreinn Finnbogason fæddist á Merkigili í Austurdal í Skagafirði 13. mars 1922. Foreldrar hans voru Skúli Finnbogi Bjarnason frá Þorsteinsstöðum og Sigrún Eiríksdóttir frá Sölvanesi, þau fluttu frá Merkigili að Sveinsstöðum í Tungusveit árið 1923 og voru þar í tvö ár, bjuggu á Mið-Grund í Blönduhlíð 1925-1935, á Hrauni í Öxnadal árið 1935, voru þar í eitt ár, á Stokkahlöðum í Hrafnagilshreppi 1938-1940, á Kroppi í sömu sveit 1940-1942 og fóru þaðan til Akureyrar. ,,Eiríkur Hreinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1942. Hann lagði stund á íslensk fræði við Háskóla Íslands og lauk cand. mag.-prófi 1949. Hann var kennari við Gagnfræðaskólann við Hringbraut (nú Hagaskóla) frá stofnun 1949 til 1962, og forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur 1959-60. Hann kenndi við Menntaskólann í Reykjavík 1962-63 og var fulltrúi í bókmenntaráði Almenna bókafélagsins 1957-63. 1963 varð hann lektor við háskólana í Gautaborg og Lundi og starfaði þar til 1966 þegar hann tók við starfi borgarbókavarðar og gegndi því starfi til 1975. Eiríkur Hreinn var prófessor í afleysingum við Háskóla Íslands á vormisseri 1968 og síðar stundakennari þar um árabil. Hann kenndi einnig við MR og Verslunarskólann eftir að hann kom heim frá Svíþjóð. Hann var útgáfustjóri Almenna bókafélagsins frá 1975 til ársins 1994 þegar hann lét af störfum. Eiríkur Hreinn var upphafsmaður þáttarins Daglegs máls í Ríkisútvarpi 1953 og stjórnaði honum þá og 1955 og 1956. Eftir Eirík Hrein liggja ýmsar ritgerðir og greinar í blöðum og tímaritum auk formála eða eftirmála að flestum útgáfum sem hann annaðist. Hann þýddi verk eftir Graham Greene, Bertil Almgren og Per Olof Sundman. Hann var ritstjóri Félagsbréfa AB 1957-63 (ásamt öðrum) og ritstýrði ásamt öðrum íslensku útgáfunni af Sögu mannkyns, ritröð AB. Hann gaf út Dagbók í Höfn og ljóðmæli Gísla Brynjúlfssonar. Einnig endurbætti hann og gaf út Íslenska málfræði Björns Guðfinnssonar. Hann annaðist útgáfu á verkum eftir m.a. Guðmund G. Hagalín, Sigurð Breiðfjörð, Tómas Guðmundsson, Matthías Johannessen og Jakob Thorarensen." Eiríkur Hreinn kvæntist 4. júní 1949 Jóhönnu Pétursdóttur frá Hjalteyri, þau eignuðust þrjú börn.

Finnur Árnason (1958-

  • S02836
  • Person
  • 27. maí 1958-

Foreldrar: Árni Hafstað og Arngunnur Ársælsdóttir. Maki: María Maack. Þau eignuðust þrjú börn. Finnur lauk Bs prófi í efnafræði frá Háskóla Íslands og cand. fil. prófi í rekstrarhagfræði frá háskólanum í Gautaborg í Svíþjóð. Starfaði sem háseti á Má frá Ólafsvík, framleiðslustjóri hjá Slippfélaginu, framkvæmdastjóri Loðskinns á Sauðárkróki og Aldin á Húsavík. Var um langt skeið stjórnarformaður Sjávarleðurs á Sauðárkróki. Vann hjá Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og við ráðgjafafyrirtækið Taktar. Framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum frá 2013.

Haukur Jósef Jósefsson (1915-1999)

  • S01500
  • Person
  • 11. nóv. 1915 - 3. sept. 1999

Haukur Jósefsson fæddist 11. nóvember 1915 á Vatnsleysu í Viðvíkurhreppi í Skagafirði. Hann var alinn upp á Vatnsleysu og á Hólum í Hjaltadal. Foreldrar hans voru Jósef Jón Björnsson skólastjóri og bóndi og 3.k.h. Hildur Björnsdóttir. ,,Haukur varð búfræðingur frá Búnaðarskólanum á Hólum árið 1932. Stundaði nám við Héraðsskólann í Reykholti 1933-­34. Sat í Samvinnuskólanum 1936-­38. Sótti námskeið í hagfræði og viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Var við nám og störf í Svíþjóð á vegum Samvinnuhreyfingarinnar frá 1945 til 1946. Haukur hóf störf hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga 1.10. 1939. Hann var deildarstjóri byggingarvörudeildar Sambandsins frá 1947 þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Samvinnuhugsjónin var Hauki alla tíð hjartfólgin og tók hann virkan þátt í störfum starfsmannafélags SÍS, var m.a. formaður, stóð að stofnun Sambands starfsmannafélaga samvinnumanna og vildi í hvívetna auka veg samvinnuhreyfingarinnar. Rætur Hauks voru alla tíð í Skagafirðinum og því ekki að undra að meðal áhugamála hans voru hestamennska og kórsöngur." Haukur kvæntist 24.5. 1947 Svövu Jensen Brand, þau eignuðust þrjú börn.

Hrefna Róbertsdóttir (1961-

  • S02339
  • Person
  • 6. sept. 1961-

Hrefna er með doktorspróf í sagnfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hún var formaður sagnfræðistofnunar 1994-1996. Hrefna var skipuð þjóðskjalavörður árið 2019.

Ingibjörg Alda Bjarnadóttir (1929-2009)

  • S01807
  • Person
  • 2. maí 1929 - 1. ágúst 2009

Ingibjörg Alda Bjarnadóttir fæddist á Sauðárkróki 2. maí 1929. Hún var dóttir hjónanna Helgu Pétursdóttur saumakonu og Bjarna Antons Sigurðssonar sjómanns. ,,Eftir að Alda missti föður sinn ung að árum, fluttist móðir hennar frá Sauðárkróki til Akureyrar. Alda þurfti að hætta skólagöngu í Menntaskólanum á Akureyri sökum þess að hún fékk berkla. Árið 1954 fór hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og kláraði próf þaðan árið 1955. Árið 1952 giftist Alda Stefáni Skaftasyni lækni frá Siglufirði, þau skildu, þau eignuðust eina dóttur. Alda og Stefán bjuggu bæði í Þýskalandi og Svíþjóð en eftir að þau skildu fluttist hún aftur til Akureyrar. Á Akureyri kynntist hún síðari manni sínum, Magnúsi, þar sem hann starfaði sem bæjarstjóri, þau eignuðust tvær dætur. Bjuggu þau hjónin á Akureyri til ársins 1967 en fluttu þá suður. Alda og Magnús fluttu í Kópavoginn og bjuggu þar allt fram á dánardag Magnúsar. Síðast búsett í Keflavík.

Jón F. Hjartar (1916-1996)

  • S03077
  • Person
  • 15. ágúst 1916 - 31. maí 1996

Jón F. Hjartar var fæddur 15. ágúst 1916 á Suðureyri við Súgandafjörð. Foreldrar hans voru hjónin Friðrik Hjartar skólastjóri og Þóra Jónsdóttir Hjartar. Hinn 3. júlí 1947 kvæntist Jón Rögnu Hjartardóttur frá Flateyri, þau eignuðust þrjá syni. ,, Jón lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar, íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni 1937 og framhaldsnámi í íþróttum frá Idræts højskolen Gerlev í Danmörku 1939. Hann sótti síðan íþróttanámskeið í Svíþjóð. Jón var íþróttakennari við barna- og gagnfræðaskólana á Siglufirði, Flateyri og víðar. Hann vann við skrifstofustörf og almenna kennslu á Flateyri ásamt ýmsum öðrum störfum. Hann var fulltrúi sveitarstjóra í Borgarnesi og seinna deildarstjóri á bæjarskrifstofu Kópavogs. Jón starfaði innan íþróttahreyfingarinnar í fjölda ára og var sæmdur margvíslegum heiðursmerkjum fyrir störf sín og árangur. Hann tók þátt í starfi Góðtemplarareglunnar frá unga aldri og var heiðursfélagi þar. Hann var félagi í Rotary og einnig í Oddfellow-reglunni. Jón var virkur í kór og safnaðarstarfi bæði í Borgarnesi og við Áskirkju í Reykjavík."

Jón Norðmann Jónasson (1898-1976)

  • S02493
  • Person
  • 7. ágúst 1898 - 24. sept. 1976

Foreldrar Jóns voru Jónas Jónsson bóndi í Hróarsdal í Hegranesi í Skagafirði og seinni eiginkona hans Lilja Jónsdóttir. Jón var búfræðingur frá Hólum í Hjaltadal 1923 og tók kennarapróf árið 1929. Hann kenndi við Austurbæjarskóla og í forföllum við Barnaskóla Reykjavíkur. Jón fór í námsferð til Danmerkur og Svíþjóðar árið 1935 og og dvaldi við nám á Norðurlöndum 1955-1956. Einnig var honum boðið að halda fyrirlestra í Harvardháskóla þar sem hann fjallaði um galdur, seið, skýringar á Hávamálum og þjóðleg íslensk fræði, en Jón var fræðimaður að eðlisfari og var vel að sér þar. Einnig var hann fróður um jurtir og og grös. Jón var bóndi á Selnesi á Skaga frá 1957 og var í stjórn Ungmennafélagsins Hegra um skeið. Jón skrifaði fjölda greina í blöð, m.a. um ræktun á sykurrófum, en hann var fyrstur manna á Íslandi til að rækta sykurrófur. Önnur ritverk Jóns eru: Vegamót, barnasögur 1935 , í Framsókn 1957 og um rjúpuna í Dýraverndaranum 1950. Hann þýddi bókina Foreldrar og uppeldi e. Th. Bögelund, 1938. Jón var einkar barngóður, sem kom vel fram á kennaraárum hans, einnig reyndist hann sumardrengjum sínum vel.
Hann var ókvæntur og barnlaus.

Nanna Hermannsson (1942-

  • S02468
  • Person
  • 1942-

Foreldrar: Margrét Þórunn Sigurðardóttir og Olle Hermannsson. Nanna var fædd og uppalinn í Svíþjóð. Hún fornleifafræðingur að mennt, var lengi safnstjóri í Árbæjarsafni. Nú búsett í Svíþjóð. Minjasafnsstjóri Stokkhólmi.

Oscar Gustaf Adolf (1858-1950)

  • S01887
  • Person
  • 16.06.1858-29.10.1950

Oscar Gustaf Adolf var konungur Svíþjóðar frá 8. desember 1907 til dauðadags. Hann var af Bernadotte-ætt, sonur Óskars 2. Svíakonungs og Soffíu af Nassau. Hann var 92 ára þegar hann lést og er sá konungur Svíþjóðar sem langlífastur hefur orðið og ríkti þriðja lengst. Faðir hans tók við ríkjum árið 1872 og varð Gústaf þá krónprins Svíþjóðar og Noregs en Noregur fékk sjálfstæði tveimur árum áður en hann tók við krúnunni og varð hann því aldrei Noregskonungur. Hann var íhaldssamur í skoðunum og vildi halda fast í völd krúnunnar. Árið 1914 þvingaði hann ríkisstjórn Frjálslynda flokksins til að segja af sér og skipaði sjálfur menn í utanþingsstjórn en eftir kosningarnar 1917 neyddist hann til að fela formanni Frjálslynda flokksins stjórnarmyndun og láta af tilraunum til að hafa áhrif á stjórnun ríkisins. Hann var talinn hallur undir nasista og Þýskaland á fjórða áratugnum en reyndi að fá Hitler til að draga úr Gyðingaofsóknum. Gústaf giftist þann 20. september 1881 Viktoríu prinsessu af Baden, dóttur Friðriks 1. stórhertoga. Hún var afkomandi Gústafs 4. Adólfs Svíakonungs og með hjónabandi þeirra sameinuðust gamla Vasaættin og hin nýja konungsætt, Bernadotte. Hjónaband þeirra mun ekki hafa verið sérlega hamingjusamt, enda er Gústaf talinn hafa verið sam- eða tvíkynhneigður. Þau eignuðust þrjá syni; Gústaf 6. Adólf (1882-1973), Vilhelm prins, hertogi af Södermanland (1884-1965), Eiríkur prins (1889-1918).

Páll Valsson (1960-

  • S02370
  • Person
  • 31. okt. 1960-

Páll er fæddur 31. október 1960. Hann er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1980 og BA-próf í íslensku og almennri bókmenntafræði frá Heimspekideild HÍ 1984 og cand. mag. próf í íslenskum bókmenntum frá HÍ. Páll fékkst við stundakennslu um tíma, eða á árunum 1988 til 1992 - vann við útgáfustörf fyrir bókaforlagið Svart á hvítu 1987 - 1988. Lektor í íslensku við Uppsalaháskóla í Svíþjóð 1992 - 1997. Var um árabil ritstjóri og útgáfustjóri hjá Máli og menningu. Hann hlaut Íslensku bókmennaverðlaunin 1999 í flokki fræðirita fyrir bók sína, Jónas Hallgrímsson, ævisaga. Páll skrifaði einnig ævisögu Vigdísar Finnbogadóttur.

Sigurður Nordal (1886-1974)

  • S02517
  • Person
  • 14. sept. 1886 - 21. sept. 1974

Sigurður var fæddur á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal. Foreldrar hans voru Björg Sigurðardóttir húsfreyja og Jóhannes Nordal íshússtjóri. Sigurður ólst upp hjá föðurbróður sínum Jónasi Guðmundssyni og Steinunni Steinsdóttur konu hans. Hann varð stúdent frá MR árið 1906 og lauk meistaraprófi frá Hafnarháskóla í norrænum fræðum 1912 og Dr. phil.-prófi 1914 frá sama skóla. Einnig stundaði hann heimspekinám í Berlín og Oxford 1917 - 1918. Sigurður var prófessor í íslenskum fræðum og íslenskum skáldskap og menningarsögu. Hann var sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn frá 1951 til 1957. Eftir Sigurð liggur fjöldi merkra ritverka, einnig greinar, ljóð og leikrit.
,,Sigurður Nordal var útgáfustjóri Íslenskra fornrita 1933-1951, ritstjóri Studia Islandica 1937-1953 og Monumenta typographica 1-5, en meðritstjóri Nelson's Icelandic Texts og meðútgefandi tímaritsins Vöku 1927-1929. Hann var þjóðernishyggjumaður og lagði rækt við íslenskt mál og íslenska hugsun. Þótt íslensk fræði hafi verið stunduð hér á landi á undan Sigurði Nordal af mönnum eins og Sveinbirni Egilssyni og Birni M. Ólsen var það fyrst með honum að verulega fór að kveða að rannsóknum í íslenskum fræðum við æðri menntastofnanir og áhrifa þeirra að gæta út fyrir landsteinana. Ritskýringar hans og lýsing á þróun íslenskra bókmennta voru um eitt skeið viðteknar þar sem þessi fræði eru stunduð.
Sigurður aðhylltist svokallaða bókfestukenningu um uppruna Íslendinga sagna. Sigurður setti saman Íslenska lestrarbók 1400 - 1900 árið 1924. Þar birti hann ritgerð sína um samhengið í íslenskum bókmenntum sem er stórsaga íslenskra bókmennta um aldir. Þetta bókmenntasöguyfirlit hafði mikil áhrif og ekki síður val hans á bókmenntaverkum til lestrar því bókin var notuð í skólum í áratugi." Fyrri kona Sigurðar var Nanna Henriksson. Seinni konan hans var Ólöf Nordal, þau eignuðust tvo syni.

Stefán Skaftason (1928-2015)

  • S02518
  • Person
  • 18. feb. 1928 - 9. apríl 2015

Stefán fæddist á Siglufirði og ólst þar upp. Hann var sonur hjónanna Skafta Stefánssonar útgerðarmanns, skipstjóra og síldarsaltanda á Siglufirði og Helgu S. Jónsdóttur húsfreyju.
,,Stefán varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1948. Hann útskrifaðist frá læknadeild HÍ 1956 og stundaði framhaldsnám í háls-, nef- og eyrnalækningum í Þýskalandi, Svíþjóð og Danmörku. Stefán starfaði sem læknir í Þýskalandi, Svíþjóð og Danmörku á árunum 1956 til 1969, er hann tók við nýstofnaðri háls-, nef- og eyrnadeild á Borgarspítalanum sem yfirlæknir og starfaði þar til loka starfsferils síns árið 1996. Samhliða starfrækti Stefán ásamt konu sinni, Maj, lækningastofu og heyrnarrannsóknarstöð í Kópavogi. Þá tók hann þátt í stofnun Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Stefán stundaði kennslu í háls-, nef- og eyrnalækningum í Kalmar í Svíþjóð á árunum 1963-1967 og við Háskóla Íslands 1976-1997. Árið 1993 var hann skipaður prófessor við læknadeild. Doktorsritgerð hans fjallaði um 1.001 eyrnaaðgerð (skurðaðgerðir í smásjá) sem hann framkvæmdi á árunum 1970 til 1980 og varði ritgerðina við Háskóla Íslands 1987. Hann gegndi fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum fyrir lækna og Lions á Íslandi, var m.a. formaður í norrænum samtökum háls-, nef- og eyrnalækna og fékk æðstu viðurkenningu Lionshreyfingarinnar. Eftir Stefán liggur fjöldi greina í erlendum og innlendum læknaritum, ásamt blaðagreinum, um málefni heyrnarskertra." Fyrri kona Stefáns var Ingibjörg Alda Bjarnadóttir, þau skildu, þau eignuðust eina dóttur. 1961 kvæntist Stefán Maj Vivi-Anne Skaftason skurðhjúkrunarfræðingi, þau eignuðust tvö börn.

Þór Eyfeld Magnússon (1937-

  • S02353
  • Person
  • 18. nóv. 1937-

,,Fornleifafræðingur og var þjóðminjavörður 1968-2000. Þór lauk stúdentsprófi frá MR 1958 og fil.kand.-prófi í fornleifa- og þjóðháttafræði frá Uppsalaháskóla 1963. Hann gerðist síðan safnvörður við Þjóðminjasafn Íslands árið 1964 og gegndi því starfi til 1968 en tók þá við embætti þjóðminjavarðar. Því embætti gegndi hann þar til hann lét af störfum árið 2000. Þór gegndi einnig fjölda trúnaðarstarfa, var meðal annars formaður húsafriðunarnefndar um 20 ára skeið, var í stjórn Hins íslenska fornleifafélags frá 1967 og formaður þess frá 1993, í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar um skeið og formaður Íslandsdeildar Sambannds norrænna safnmanna 1968-2000."

Þórarinn Magnússon (1913-1965)

  • S02825
  • Person
  • 15. ágúst 1913 - 12. okt. 1965

Þórarinn Magnússon, f. 15.08.1913 að Hrútsholti í Eyjahreppi. Maki: Herta Haag frá Svíþjóð. Sem ungur maður fór hann í Bændaskólann á Hvanneyri. Þaðan fór hann í lýðsháskóla í Edslöv og síðan í Svalö, landbúnaðarháskóla í Svíþjóð. Var hann 7 ár í Svíþjóð og stundaði þar störf á sviði landbúnaðar. Kom til Vestamannaeyja árið 1946 og fór svo víða um land, m.a. í Stykkishólm. Stundaði trúboð til æviloka, en hann varð bráðkvaddur á Grænlandi eftir fjögurra ára veru við trúboðsstörf þar.