Showing 5 results

Authority record
Bóndi Skagafjörður

Guðlaug Arngrímsdóttir (1929-2017)

  • S03319
  • Person
  • 14.01.1929-31.03.2017

Guðlaug Arngrímsdóttir fæddist í Litlu-Gröf, Skagafirði 14. Janúar 1929. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Sauðárkróki 31. mars, 2017.
Foreldrar hennar voru Arngrímur Sigurðsson (f. 31. desember 1890 og d. 5 desember 1968) og Sigríður Benediktsdóttir (f. 9 júní 1886 og d. 4 ágúst 1948). Bróðir Guðlaugar var Þórir Angantýr (f. 2 janúar 1923 og d. 30 desember 2000). Uppeldisbróðir Guðlaugar var Ragnar Magnús Auðunn Blöndal (f. 29 júní 1918 og d. 15 september 2010).
Guðlaug gekk í barnaskóla í Hátúni einn vetur og í Varmahlíð svo fór hún í gagnfræðaskólann á Sauðárkróki. Hún vann á Akureyri um tíma í verslun en snéri aftur í Skagafjörð þegar móðir hennar lést. Síðar fór hún í Húsmæðraskólann í Reykjavík. Guðlaug var bóndi og húsmóðir í Litlu-Gröf en starfaði einnig utan heimilis. Meðal annars í félagsheimilinu Miðgarði frá því að það var opnað 1967, á haustin í sláturhúsinum, hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, í Kjöthöllinni og sem leiðbeinandi hjá dagvistun aldraðra. Guðlaug tók til sín börn í sumardvöl í sveit. Hún bjó með föður sínum Arngrími og Þóri Angantýr bróður sínum. Guðlaug var ógift og barnlaus.

Hjálmar Jónsson (1796-1875)

  • S03424
  • Person
  • 29.09.1796-25.07.1875

Hjálmar Jónsson skáld betur þekktur sem Bólu-Hjálmar fæddist á Hallandi í Eyjafirði 1796. Hann lést 25. júlí 1875 í Brekkuhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði. Hjálmar var bóndi og ljóskáld og bjó lengst af í Skagafirði. Foreldrar hans voru Marsibil Semingsdóttir fædd 1769 og Jón Benediktsson fæddur 1763. Heimildum ber ekki saman um það að Jón Benediktsson hafi raunverulega verið faðir Hjálmars. Snemma var grunur um að séra Sigfús Jónsson prófastur á Höfða í Höfðahverfi hafi verið faðir hans. Hjálmar daðraði við þá hugmynd sjálfur.

Í ævisögum um Hjálmar er sagan um fæðingu hans sögð þannig að móðir hans hafi verið gestkomandi að Hallandi er hún ól son sinn. Þegar hann var einungis næturgamall lagði vinnukona á Hallandi af stað með hann til Hreppsstjórans í poka til þess að hægt væri að ráðstafa drengnum. Á leið sinni sóttist hún eftir næturgistingu hjá Sigríði á Dálksstöðum. Morgunin eftir var illviðri og þvertók Sigríður fyrir að lengra væri farið með barnið og sagðist fara með hann sjálf þegar veðrið batnaði. Af því varð aldrei, heldur tók hún hann til fósturs og gekk honum í móðurstað fyrstu árin. Á sjötta aldursári dvaldi hann einn vetur (1800-1801) hjá Oddi Gunnarssyni bónda á Dagverðareyri. Hjálmar ólst upp við algeng sveitastörf og reyndist þar liðtækur. Hann fór að stunda sjóróðra og segir hann sjálfur frá að hafa róið út frá Dagverðareyri. Þegar Hjálmar var 14 ára lést fósturmóðir hans. Talið er að Jóhann sonur Sigríðar á Dálksstöðum hafi kennt Hjálmari að lesa en fátt er vitað um menntun hans í æsku. Hann gekk ekki í skóla en af kveðskap sem er til eftir hann frá þessum árum má sjá að hann hafi snemma verið lesgjarn og fróðleiksfús. Í nokkrum vitnisburðum séra Jóns Þorvarðarsonar kemur meðal annars fram að Hjálmar er efnilegur og vel skarpur í gáfum. Eftir lát fósturmóður sinnar fór hann að Blómsturvöllum þar sem Jón faðir hans og Valgerður dóttir Sigríðar voru farin að búa.

Vorið 1820 fór Hjálmar vestur í Blönduhlíð í Skagafirði og gerðist vinnumaður á Silfrastöðum til vorsins 1821. Á næsta bæ bjó móðursystir hans, Guðbjörg Semingsdóttir fjölskylda hennar. Dóttir hennar Guðný og Hjálmar fóru að vera saman og eignuðust barn sumarið 1821 sem lést mánuði síðar. Ári síðar giftu þau sig. Þau bjuggu á ýmsum bæjum í Skagafirði næstu árin og var mjög þröngt í búi. Þau áttu sjö börn, fimm af þeim komust á fullorðins aldur.
Hann var kenndur við Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð þar sem hann bjó í rúm 15 ár. Hjálmar átti í deilum við sveitunga sína og kvað gjarnan vísur um þá og ávirðingar þeirra. Hann varð einangraður frá öðrum, menn hræddust hann og var illa við hann. 1838 var hann sakaður um sauðaþjófnað en var sýknaður af þeim ákærum. Hann hraktist frá Bólu ári seinna. Þaðan fór hann að Minni-Ökrum. Þar missti hann konu sína sem dó 24. júní 1845. Hann var á Minni-Ökrum í 28 ár. Með árunum varð hann nær ófær til allra verka en gat áfram skrifað. Hann háði ævilanga baráttu við fátækt og strit. Frá Minni-Ökrum fór hann að Grundargerði í Akrahreppi og þaðan að Starrastöðum í Tungusveit og var þar í 2 ár í húsamennsku með Guðrúnu, yngstu dóttur sinni. Þaðan fóru þau að Brekku nálægt Víðimýri. Eftir 5 vikna dvöl þar í beitarhúsum dó hann 5. ágúst 1875, á 80. aldursári.

Í kveðskap Hjálmars fjallar hann gjarnan um slæm kjör og samferðamenn sína. Hjálmar þótti óvæginn og illskeyttur. Þrátt fyrir að eiga sér marga óvildarmenn átti hann líka marga vini og var hann fenginn til að skemmta í veislum. Honum var margt til lista lagt. Hann var þjóðfræðisafnari, listaskrifari, góður kvæðamaður og þótti hafa merkilega frásagnargáfu og var því eftirsóttur til ræðuhalda á mannamótum.
Kveðskapur eftir Hjálmar Jónsson er mikill að vöxtum, rímur, ljóð og lausavísur. Eftir hann hafa einnig varðveist fagurlega útskornir gripir.

Stefán Jón Sigurjónsson (1874-1970)

  • S03153
  • Person
  • 04.11.1874 - 06.08.1970

Stefán Jón Sigurjónsson var fæddur 4. nóv. 1874 í Grafargerði, Hofshreppi í Skagafjarðarsýslu. Stefán var bóndi á Teigi og Skuggabjörgum í Hofshreppi og síðar bóndi á Skuggabjörgum. Fyrri kona Stefáns hét Bóthildur Þorleifsdóttir og eignuðust þau tvær stúlkur sem báðar létust skömmu eftir fæðingu. Bóthildur lést árið 1906.
Árið 1908 tók Stefán saman við Arnfríði Guðrúnu Sveinsdóttur og eignaðist með henni 6 börn sem öll urðu mjög langlíf.
Samhliða bústörfum á Skuggabjörgum stundaði Stefán sjóinn og var eftirsóttur háseti. Stefán hætti bústörfum árið 1950 en þá tóku synir hans við búinu, hann bjó þar áfram í húsmennsku allt þar til kona hans deyr, en þá var hann ýmist á Skuggabjörgum á á Gili í Borgarsveit hjá Elísabetu dóttur sinni og tengdasyni , en þar naut hann síðustu æviára sinna.

Þórir Arngrímsson (1923-2000)

  • S03481
  • Person
  • 02.01.1923 - 30.12.2000

Þórir Angantýr Arngrímssonr fæddist í Litlu-Gröf, Skagafirði. Foreldrar hans voru Arngrímur Sigurðsson (f. 31. desember 1890 og d. 5 desember 1968) og Sigríður Benediktsdóttir (f. 9 júní 1886 og d. 4 ágúst 1948). Systir Þóris var Guðlaug Seselía Arngrímsdóttir (f. 14.janúar 1929 - d. 31. mars 2017). Uppeldisbróðir þeirra var Ragnar Magnús Auðunn Blöndal (f. 29 júní 1918 og d. 15 september 2010). Þórir var bóndi í Litlu-Gröf, ógiftur og barnlaus.

Þorvaldur Ari Arason (1849-1926)

  • S03414
  • Person
  • 23.09.1849-03.03.1926

Þorvaldur Ari Arason, f. 23.09.1849, d. 04.03.1926. Foreldrar: Ari Arason bóndi og kanselliráð á Flugumýri og kona hans Helga Þorvaldsdóttir. Þorvaldur ólst upp á Flugumýri. Hann var við nám í Lærða skólanum í Reykjavík en hætti þar og gjörðist bóndi á Flugumýri 1882-1896. Hann var bóndi á Víðimýri 1896-1921 en brá þá búi og var eftir það hjá sonum sínum til æviloka. Hann var póstafgreiðslumaður meðan hann bjó á Víðimýri.
Maki: Anna Vigdís Steingrímsdóttir (1854-1939). Þau eignuðust sex börn sem náðu fullorðinsaldri.