Gísli fæddist í Flatey á Breiðafirði 30. maí 1926. ,,Hann stundaði nám í foreldrahúsum, tók stúdentspróf frá MA 1947, lauk guðfræðinámi frá HÍ 1950, stundaði framhaldsnám í guðfræði við Háskólann í Göttingen í Þýskalandi 1959-60, stundaði rannsóknir í kirkjusögu í Lundúnum, Lúxemborg, Bremen og Kaupmannahöfn 1981-82 og var í endurmenntun og guðfræðitengdu rannsóknarnámi í York í níu mánaða leyfi 1981-82. Gísli varð sóknarprestur í Sauðlauksdal 1950. Hann starfaði þar 1950-54 og gegndi aukaþjónustu í Eyraprestakalli og í Vestmannaeyjum. Hann var sóknarprestur á Melstað í Vestur-Húnavatnssýslu 1954-77 og í Stykkishólmi 1977-92. Auk þess gegndi hann aukaþjónustu á Melstað og í Setbergsprestakalli. Eftir að hann lauk skipaðri prestþjónustu sinnti hann prestþjónustu á Kolfreyjustað 1992, á Sauðárkróki, í Bolungarvík, í Staðastaðaprestakalli 1995-96, í Skagastrandarprestakalli 1998, Bólstaðahlíðarprestakalli 1998, í Vestmannaeyjum 1998, á Hrafnistu í Hafnarfirði 1998-99, á Kolfreyjustað 2000-2001, í Hofsóss- og Hólaprestakalli 2001-2003 og í Skagastrandarprestakalli 2004. Gísli starfaði í góðtemplarareglunni um árabil, sat í stjórn Ungmennafélagsins Grettis í Miðfirði, var formaður Ungmennasambands Vestur-Húnavatnssýslu 1956-60, sat í barnaverndarnefnd Ytri-Torfustaðahrepps 1954-76, í stjórn Veiðifélags Miðfjarðarár í 20 ár, í skólanefnd Reykjaskóla, í stjórn Byggðasafnsins á Reykjum í 20 ár, var prófdómari í barnaskólum í Vestur-Húnavatnssýslu í 23 ár, formaður og ritari Lionsklúbbsins Bjarma á Hvammstanga, sat í barnaverndarnefnd Stykkishólms, í stjórn Byggðasafns Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, var ritari Lionsklúbbs Stykkishólms, sat í fulltrúaráði Prestafélags Íslands og var formaður Hallgrímsdeildar Prestafélags Íslands. Gísli þýddi ritið Könnuður í fimm heimsálfum, var ritstjóri ýmissa tímarita og ársrita og samdi Skáld-Rósu og síðan Skáldung, um námsár Nóbelsskáldsins hjá sr. Halldóri, föður Gísla."
Gísli kvæntist Sigríði Ingibjörgu Bjarnadóttur Kolbeins frá Brekkubæ í Nesjum, þau eignuðust fimm börn.