Hjalti Pálsson fæddist á Hólum í Hjaltadal 1. nóvember 1922. Foreldrar hans voru hjónin Páll Zópóníasson skólastjóri á Hólum, síðar alþm. og búnaðarmálastjóri, og Guðrún Hannesdóttir. Þau bjuggu á Hvanneyri, Kletti í Reykholtsdal, Hólum í Hjaltadal og í Reykjavík. ,,Hjalti varð gagnfræðingur í Reykjavík 1938, búfræðingur frá Hólum 1941, stundaði nám í landbúnaðarverkfræði við háskóla í Fargo í Norður-Dakota í Bandaríkjunum árin 1943-1945 og eftir það við háskóla í Ames í Iowa 1945-1947 og lauk þaðan BSc.-prófi. Hjalti hóf störf í véladeild SÍS árið 1948 og varð framkvæmdastjóri Dráttarvéla hf. frá 1949 til 1960. Frá 1952 var hann framkvæmdastjóri véladeidar SÍS og innflutningsdeildar SÍS frá 1967 þar til hann lét af störfum árið 1987 fyrir aldurs sakir. Hjalti sat í framkvæmdastjórn SÍS í nærri fjóra áratugi, var varaformaður stjórnar frá 1977 og um nokkurt skeið stjórnarformaður Dráttarvéla. Hann sat einnig í stjórn Osta- og smjörsölunnar um árabil og var þar endurskoðandi. Hjalti stofnaði fyrir hönd SÍS með öðrum innflytjendum sameignarfélagið Desa til innflutnings á skipum frá A-Þýskalandi, m.a. fyrir ríkisstjórnina. Hann sat í stjórn þess fyrirtækis þar til því var slitið 1975. Hann vann að stofnun Kornhlöðunnar til innflutnings á lausu korni til fóðurblöndunar, var fyrsti stjórnarformaður hennar og sat í stjórn hennar um árabil. Þá var hann um langt skeið í stjórn Jötuns, var formaður byggingarnefndar Holtagarða, í samninganefnd um viðskipti milli Þýskalands og Íslands árið 1954, í samninganefnd milli Íslands og A-Þýskalands 1958-1960 og var skipaður í fleiri nefndir á vegum hins opinbera, m.a. Hólanefnd sem gerði tillögur um uppbyggingu Hólastaðar. Eftir að Hjalti lét af störfum hjá SÍS vann hann ýmis verkefni fyrir Landssamband hestamanna og var gerður að heiðursfélaga. Sat hann um árabil í stjórn landssambandsins og var ævifélagi í Hestamannafélaginu Fáki. Hann var einnig heiðursfélagi Samtaka sykursjúkra sem hann tók þátt í að stofna árið 1971."
Hinn 21. febrúar 1951 kvæntist Hjalti Ingigerði Karlsdóttur flugfreyju, þau eignuðust þrjú börn.