Sauðárkrókur

Taxonomy

Code

Scope note(s)

  • Sauðárkrókur er innst við botn Skagafjarðar að vestanverðu, sunnan undir Tindastóli og skammt sunnan við ós Gönguskarðsár. Byggðin var fyrst öll á fremur mjórri malarspildu undir Nöfunum, bröttum malarkömbum upp af bænum, norðan við ós Sauðár, sem þá rann fram úr Sauðárgili og til norðurs um eyrar undir Nöfunum, þar sem nú er íþróttavöllur, sundlaug og tjaldstæði bæjarins. Byggðin færðist síðar suður fyrir ána og rann hún þá gegnum bæinn en síðar var ánni veitt til suðurs þar sem hún kemur úr Sauðárgili og rennur hún nú fyrir sunnan byggðina. Sauðárkrókur er byggður úr landi jarðarinnar Sauðár. Engin byggð var á eyrinni á fyrri öldum og voru verslunarstaðir héraðsins við austanverðan fjörðinn, á Hofsósi, í Grafarósi og Kolkuósi, en árið 1858 varð Sauðárkrókur löggiltur verslunarstaður. Þá fóru kaupskip að koma þangað. Þar var þó engin föst búseta fyrr en 1871, þegar Árni Árnason járnsmiður kom sér þar upp þurrabúð og settist þar að. Hann seldi bændum sem komu að versla við kaupskipin gistingu og veitingar. Strax árið eftir kom fyrsta fasta verslunin og kaupmenn, iðnaðarmenn og sjómenn settust að á Króknum og síðan ýmsir embættismenn. Sauðárkrókskirkja var reist árið 1892. Fólki fjölgaði hratt á Króknum fyrstu árin og um aldamótin 1900 voru íbúar um 400. Hafnleysi og einhæfir atvinnuhættir komu í veg fyrir að þessi öra fjölgun héldi áfram. Íbúar voru þó orðnir um 1000 þegar bærinn fékk kaupstaðaréttindi 1947. Gönguskarðsárvirkjun var reist á árunum 1947-1949 og hitaveita úr borholu við Áshildarholtsvatn var lögð í bæinn 1953. Hafnaraðstaða var smám saman bætt og er nú töluverð útgerð og fiskvinnsla í bænum.

Display note(s)

Hierarchical terms

Sauðárkrókur

BT Ísland

Equivalent terms

Sauðárkrókur

Associated terms

Sauðárkrókur

2 Authority record results for Sauðárkrókur

2 results directly related Exclude narrower terms

Björn Halldór Kristjánsson (1897-1980)

  • S00739
  • Person
  • 14. nóv. 1897 - 28. jan. 1980

Sonur Kristjáns Gíslasonar kaupmanns á Sauðárkróki og Bjargar Eiríksdóttur. Stórkaupmaður í Hamborg í Þýskalandi og síðar í Reykjavík.

Jean Valgard Claessen (1850-1918)

  • S00808
  • Person
  • 09.10.1850-27.12.1918

Ólst upp með foreldrum sínum í Khöfn. Rak verslun í Hofsósi, kom þangað á vegum Chr. Thaae stórkaupmanns. Hann tók við stjórn Hofsósverslunar 1871, 21 árs gamall. Nokkrum árum síðar tók hann svo við stjórn verslunar í Grafarósi. En 1879 fluttist hann til Sauðárkróks og tók við stjórn verzlunar Lud. Popps. Gegndi hann því starfi uns Popp flutti sjálfur til Sauðárkróks árið 1885. Árið eftir stofnaði Claessen sjálfstæða verslun sem hann rak til haustsins 1904, er hann flutti til Reykjavíkur, nýskipaður landsféhirðir. Gegndi því starfi til vorsins 1918 þá veiktist hann og lést í árslok. Starf hans að félagsmálum á Sauðárkróki var bæði mikið og farsælt. Hann var einn af stofnendum Sparisjóðs Sauðárkróks og formaður hans um skeið. Fyrsti formaður og leiðbeinandi leikfélags Sauðárkróks. Einn af aðal hvatamönnum að byggingu Sauðárkrókskirkju og fyrsti formaður sóknarnefndar þar.
Kvæntist Kristínu Eggertsdóttur Briem 1876 og eignuðust þau saman fjögur börn, Kristín lést aðeins viku eftir að yngsta barnið fæddist. Seinni kona Jean Valgard var Anna Margrét Þuríður Kristjánsdóttir Möller, þau kvæntust árið 1885 og eignuðust fjögur börn saman, tvö þeirra komust á legg, fyrir átti Anna tvo syni.