Showing 18 results

Authority record
Brimnes

Anna Jónsdóttir (1922-2009)

  • S00362
  • Person
  • 06.08.1922 - 14.07.2009

Anna Jónsdóttir fæddist 6. ágúst 1922. Dóttir Sigurlaugar Sigurðardóttur frá Hvalnesi og Jóns Pálmasonar frá Svaðastöðum. Stjúpfaðir Önnu var Gunnlaugur Björnsson frá Brimnesi. Anna ólst upp á Brimnesi hjá móður sinni og stjúpa og byggði svo nýbýlið Laufhól í Viðvíkursveit ásamt Steingrími Vilhjálmssyni manni sínum. Steingrímur og Anna eignuðust tíu börn.

Björn Gunnlaugsson (1926-1990)

  • S03524
  • Person
  • 02.07.1926-24.12.1990

Björn Gunnlaugsson, f. 02.07.1926, d. 24.12.1990. Foreldrar: Sigurlaug Sigurðardóttir og Gunnlaugur Björnsson. Björn ólst upp í foreldrahúsum. Hann naut barnafræðslu og fór síðan í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan. Hann var bóndi í Brimnesi og tók við búinu eftir að faðir hans lést 1962. Meðfram búskapnum kenndi hann við Hólaskóla og ritaði sögu Hólastaðar. Eftir að móðir hans lést var Jóna Gísladóttir bústýra hjá honum. Frá árinu 1982 vann hann hjá Sambandinu og bjó við Laugarteig í Reykjavík.

Einar Jónsson (1865-1940)

  • S00672
  • Person
  • 29.07.1865-01.10.1940

Fæddur í Tungu í Stíflu, sonur Jóns Steinssonar hreppstjóra og b. í Tungu og Guðrúnar Nikulásdóttur. ,,Eftir að faðir hans drukknaði var honum komið í fóstur til Steins Jónssonar og Ólafar Steinsdóttur að Vík í Héðinsfirði, fluttist síðan með fósturmóður sinni að Heiði í Sléttuhlíð. Fór sem vinnumaður að Hólum í Hjaltadal 15 ára gamall, kom í Brimnes fulltíða maður þar sem hann kvæntist Margréti Símonardóttur, þau bjuggu á Brimnesi 1896-1926. Einar var hreppstjóri 1900-1926, sýslunefndarmaður 1904-1926, formaður Búnaðarfélagsins í mörg ár, deildarstjóri Pöntunarfélagsins og Kaupfélags Skagfirðinga. Einar og Margrét fluttust til Reykjavíkur eftir að þau brugðu búi." Einar og Margrét eignuðust þrjár dætur, tvær þeirra komust á legg.

Guðrún Símonardóttir (1871-1924)

  • S01563
  • Person
  • 22. feb. 1871-1924

Foreldrar: Símon Pálmason og Sigurlaug Þorkelsdóttir á Brimnesi. Guðrún kvæntist árið 1894 Sigurði Jónssyni frá Tungu í Stíflu. Þau bjuggu sem vinnuhjú Hvalnesi á Skaga 1893-1895, á Bakka í Viðvíkursveit 1895-1897, eitt ár á Sauðárkróki, aftur á Bakka 1898-1903 en tóku það ár við búskap á Hvalnesi og bjuggu þar til 1919 er þau fluttu til Sauðárkróks þar sem þau dvöldu í þrjú ár. Þaðan fóru þau að Hringveri í Hjaltadal og þar lést Guðrún árið 1924. Guðrún og Sigurður eignuðust tvö börn en sonur þeirra lést aðeins 11 ára gamall.

Hallur Pálsson (1898-1979)

  • S01781
  • Person
  • 18. mars 1898 - 23. ágúst 1979

Foreldrar: Páll Pálsson lengst af b. í Garði í Hegranesi og k.h. Steinunn Hallsdóttir. Hallur fluttist með foreldrum sínum í Framnes vorið 1920 þar sem hann kynntist konuefni sínu, Kristínu Sigtryggsdóttur. Þau hófu búskap á hluta Framness 1922 og bjuggu þar í tvö ár. Þaðan fóru þau í Brimnes þar sem þau virðast hafa dvalið í tvö ár. Árið 1926 festu þau kaup á hluta Garðs í Hegranesi þar sem þau bjuggu til 1937 er þau fluttu til Akureyrar. Á Akureyri starfaði Hallur í Skinnaverksmiðjunni. Vorið 1946 fluttu þau suður til Reykjavíkur þar sem Hallur fékk starf sem fangavörður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Árið 1955 hóf hann störf sem verkstjóri hjá Trésmiðjunni Víði og starfaði þar í tíu ár. Hallur og Kristín eignuðust ekki börn en tóku tvö fósturbörn.

Hólmfríður Björnsdóttir (1860-1894)

  • S00711
  • Person
  • 02.02.1860-22.05.1894

Fædd á Brimnesi, dóttir Björns Pálmasonar og Sigríðar Eldjárnsdóttur. Hún var önnur eiginkona Jósefs Björnssonar skólastjóra á Hólum, þau eignuðust sex börn sem komust á legg, Hólmfríður lést þegar yngsta barnið var aðeins tæpra tveggja ára gamalt. Hún var mikil hannyrðakona og skörungur í allri gerð.

Hólmfríður Jósefína Einarsdóttir (1903-1950)

  • S03468
  • Person
  • 17.06.1903-22.08.1950

Hólmfríður Jósefína Einarsdóttir, f. 17.06.1903, d. 22.08.1950. Foreldrar: Einar Jónsson, bóndi í Brimnesi og kona hans Margrét Símonardóttir. Hólmfríður ólst upp með foreldrum sínum í Brimnesi. Árið 1921 tók móðir hennar sig upp og sigldi með þær systur til Danmerkur til að afla þeim frekari menntunar. Þar voru þær í nokkur ár, gengu í menntaskóla, lýðháskóla og gekk Hólmfríður í teikni- og hannyrðaskóla. Hún lauk þaðan prófi sem handavinnukennari 1924. Þá um sumarið fékk hún lömunarveiki og náði aldrei fullri heilsu aftur. Haustið 1924 hófu þær systur að stunda handavinnukennslu í Reykjavík. Eftir að Sigurlaug giftist og flutti burt hélt Hólmfríður því áfram þar til hún veiktist af krabbameini sem varð banamein hennar.
Hólmfríður var hannyrðakennari. Hún var ógift og barnlaus.

Hulda Jónsdóttir (1921-2002)

  • S02953
  • Person
  • 1. sept. 1921 - 8. des. 2002

Hulda Marharð Jónsdóttir fæddist á Svaðastöðum í Viðvíkursveit þann 1. september 1921 og var dóttir Jóns Friðrikssonar (1900-1955) frá Svaðastöðum og Sigurlaugar Guðrúnar Sigurðardóttur (1903-1971) frá Hvalnesi. Eftir að foreldrar Huldu slitu samvistum ólst hún upp hjá föðurforeldrum sínum á Svaðastöðum, þeim Pálma Símonarsyni og Önnu Friðriksdóttur. Hulda útskrifaðist frá Húsmæðraskólanum á Hallormsstað árið 1942 og nam svo ljósmóðurfræði og útskrifaðist sem ljósmóðir árið 1944. Árið 1945 giftist Hulda Rögnvaldi Jónssyni frá Marbæli í Óslandshlíð og bjuggu þau þar til ársins 1972 þegar þau fluttu til Akureyrar, þau eignuðust fimm börn. Samhliða því að sinna bæði búi og heimili á Marbæli starfaði hún um tíma sem ljósmóðir í Hofsósumdæmi.

Ingibjörg Jósefsdóttir (1889-1979)

  • S00715
  • Person
  • 17.05.1889-09.11.1979

Dóttir Jósefs Björnssonar skólastjóra á Hólum og Hólmfríðar Björnsdóttur frá Brimnesi. Móðir Ingibjargar lést þegar hún var fimm ára gömul og þá fór hún ásamt Kristrúnu systur sinni í fóstur til Margrétar Símonardóttur og Einars Jónssonar á Brimnesi. 13 ára gömul flutti hún í Kolkuós með Kristínu Símonardóttur. 18 ára gömul sigldi hún til Danmerkur þar sem hún stundaði nám og störf næstu tvö árin, m.a. í húsmæðraskóla í Kaupmannahöfn, í Lýðháskóla í Uberup og í hjúkrunarskóla í Vallekilde. Árið 1914 kvæntist Kristín Halldóri Gunnlaugssyni frá Stafshóli, þau bjuggu í Garðakoti 1916-1931 en þá fluttust þau norður að Kristnesi. Þau skildu í kringum 1933. Ingibjörg starfaði sem hjúkrunarkona á Kristnesi frá 1931-1948 en flutti þá suður og starfaði á dvalarheimilinu Grund í 18 ár, síðustu starfsár sín vann hún á sjúkrahúsinu Sólheimum. Ingibjörg og Halldór eignuðust sex börn.

Jóhann Guðmundsson (1876-1940)

  • S02763
  • Person
  • 24. okt. 1876 - 31. júlí 1940

Jóhann Guðmundsson, f. 24.10.1876 á Hagakoti í Hjaltadal. Foreldrar: Guðmundur Þorleifsson bóndi á Hrafnhóli í Hjaltadal og kona hans Guðrún Júlíana Þorleifsdóttir. Jóhann ólst upp í foreldrahúsum og dvaldi þar fram yfir tvítugt. Árið 1902 fór hann í vinnumennsku í Brimnesi og var þar að mestu næstu sjö árin. Þaðan kom hann að Hofi í Hjaltadal árið 1909. Kynntist konu sinni þar og þau byrjuðu búskap á hluta Hofs en fluttust vorið 1913 að Brekkukoti (nú Laufskálar) og bjuggu þar í 25 ár. Tvö síðustu búskaparárin voru þau í Hlíð. Jóhann sat eitt kjörtímabil í hreppsnefnd Hólahrepps. Maki: Birgitta Guðmundsdóttir, f. 28.04.1915. Hún átti tvö börn fyrir hjónaband og saman eignuðust þau 6 börn, 5 þeirra komumst til fullorðinsára.

Jón Jónsson (1853-1928)

  • S02815
  • Person
  • 16. nóv. 1853-21.10.1928

Jón Jónsson, f. 16.11.1853 á Marbæli í Óslandshlíð. Foreldrar: Jón Gíslason, þáverandi bóndi á Marbæli og fyrri kona hans Ingibjörg Jónsdóttir. Jón var 6 ára er hann missti móður sína. Ólst hann eftir það upp hjá föður sínum og stjúpmóður. Nokkru eftir fermingu reri hann með föður sínum nokkrar Drangeyjarvertíðir. Skömmu eftir tvítugt fór hann í vinnumennsku að Brimnesi í Viðvíkursveit til Sigurlaugar Þorkelsdóttur frá Svaðastöðum og var þar í 6 ár. Flest vorin þar fór hann á vertíðir við Drangey. Eitt ár var hann vinnumaður í Djúpadal og einnig var hann sauðamaður á Sólheimum í Blönduhlíð. Fór um 1887 til föður síns að Þorleifsstöðum en 1889 vinnumaður til Stefáns Eiríkssonar bónda á Höskuldsstöðum. Kvæntist þar og átti þar heimili til æviloka. Maki: Jóhanns Eiríksdóttir, f. 22.03.1864, frá Bólu. Þau eignuðust tvo syni.

Kristín Símonardóttir (1866-1956)

  • S03065
  • Person
  • 16. okt. 1866 - 21. apríl 1956

Foreldrar: Símon Pálmason og Sigurlaug Þorkelsdóttir á Brimnesi. Kristín kvæntist árið 1901 Hartmanni Ásgrímssyni en hann ólst að miklu leyti upp á Brimnesi þar sem faðir hans var ráðsmaður. Kristín og Hartmann bjuggu alla sína búskapartíð í Kolkuósi og höfðu þar mikil umsvif en þar var bæði verslun og sláturhús. Þau eignuðust þrjá syni.

Kristinn Gunnlaugsson (1897-1984)

  • S03600
  • Person
  • 27.05.1897-22.02.1984

Kristinn Gunnlaugsson, f. á Gröf á Höfðaströnd 27.05.21897, d. í Kópavogi 22.02.1984. Foreldrar: Gunnlaugur Guðmundsson bóndi á Stafshóli í Deildardal og kona hans Sigurlaug Margrét Hólmfríður Jónsdóttir. Kristinn ólst upp hjá foreldrum sínum og naut þeirrar skólagöngu sem þá tíðkaðist. Fjórtán ára fór hann í vinnumennsku að Kolkuósi og var þar næstu tvö árin. Þar slasaðist hann og náði sér aldrei til fulls eftir það. Hann var eitt ár í Saurbæ í Kolbeinsdal, síðan á Ysta-Mói og loks á Hraunum í Fljótum. Þaðan fór hann til Siglufjarðar vorið 1919 og hóf þar trésmíðanám en lauk því ekki fyrr en löngu síðar. Kristinn hóf búskap vorið 1921 og næsta ár voru þau í húsmennsku í Saurbæ en síðan eitt ár í Brimnesi. Vorið 1924 byrjuðu þau aftur búskap í Saurbæ og voru þá tvö ár. Árið 1926-1927 voru þau í húsmennsku á Skúfstöðum. Næsta ár vann hann við byggingar á hólum og árið eftir á Skagaheiði. Haustið 1928 flutti hann á Sauðárkrók. Veturinn 1929 fór Kristinn í Sandgerði til vinnu. Hann byggði sér íbúðarhús á Króknum upp úr 1930 og frá 1938 var hann eingöngu við vinnu þar. Hann stofnaði Trésmiðjuna Björk ásam Jósep Stefánssyni. Seinna var hann verkstjóri, t.d. í frystihúsi í 5 ár, við síldarssöltun og fleira. Var einnig framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins um tíma, sá um fasteignaviðskipti og fleira. Hann sinnti mikið félagsmálum og var lengi í Alþýðuflokknum. Einnig í hreppsnefnd Sauðárkróks og fyrstu bæjarstjórn. Árið 1954 flutti hann suður og stundaði þar smíðar og verkstjórn.
Maki 1: Gunnhildur Stefanía Sigurðardóttir (1898-1929). Þau eignuðust þrjú börn.
Maki 2: Guðný Jóhannsdóttir (1885-1981). Ekki börn en Guðný átti þrjú börn fyrir.

Margrét Símonardóttir (1869-1963)

  • S00585
  • Person
  • 10. júlí 1869 - 2. maí 1963

Fædd og uppalin á Brimnesi, dóttir Símonar Pálmasonar og Sigurlaugar Þorkelsdóttur. Margrét átti frumkvæðið að stofnun heimilisiðnaðarfélags í Viðvíkursveit, sem starfaði þar í mörg ár, og sat í stjórn þess. Margrét skrifaði um áhugamál sín, t.d. heimilisiðnað og fl. í tímaritið Hlín. Margrét kvæntist Einari Jónssyni frá Tungu í Stíflu, þau bjuggu á Brimnesi frá 1896-1926 en fluttust eftir það til Reykjavíkur, þau eignuðust þrjár dætur, tvær þeirra komust á legg.

Páll Pálsson (1876-1935)

  • S01783
  • Person
  • 27. mars 1876 - 22. apríl 1935

Foreldrar: Páll Pálsson b. að Syðri-Brekkum og síðast á Frostastöðum og k.h. Dýrleif Gísladóttir. Páll nam skósmíðar, óvíst hvar. Hóf búskap í Garði í Hegranesi á móti tengdaföður sínum árið 1897 og bjó þar til 1908, en flutti þá til Sauðárkróks og svo að Sjávarborg. Fór aftur að Garði 1910 og bjó þar á hluta af jörðinni en stundaði einnig aukapóstferðir á milli Sauðárkróks og Hóla í Hjaltadal. Bjó í Garði til 1920 er hann fór með syni sínum að Framnesi og Blönduhlíð, þar sem hann dvaldi til 1924. Var á Brimnesi 1924-1926 en fór þá aftur að Garði þar sem sonur hans tók við búi. Síðast búsettur á Sauðárkróki. Kvæntist Steinunni Hallsdóttur frá Garði, þau eignuðust einn son.

Sigurður Jónsson (1863-1952)

  • S02955
  • Person
  • 19. ágúst 1863 - 16. maí 1952

Sigurður Jónsson, f. í Tungu í Stíflu. Foreldrar: Jóns Steinsson og Guðrún Nikulásdóttir. Sigurður ólst upp hjá foreldrum sínum fyrstu árin en árið 1871 drukknaði faðir hans. Fór þá Sigurður til föðurbróður síns, Bessa Steinssonar, að Kýrholti í Viðvíkursveit og ólst upp hjá honum og konu hans, Guðrúnu Pálmadóttur. Var hann skráður þar til heimilis til 1892. Þá er hann eitt ár vinnumaður að Bakka í Viðvíkursveit. Árin 1893-1895 er hann skráður vinnumaður að Hvalnesi á Skaga. Eftir það flutti hann með konuefni sínu að Bakka í Viðvíkursveit og var þar 1895-1897. Þaðan á Sauðárkrók þar sem þau voru eitt ár og aftur að Bakka 1898-1903. Þá réðust þau til hjónanna að Hvalnesi og taka þar við búi og búa þar 1903-1919, nema hvað þau leigðu jörðina árið 1908-1909 og voru sjálf í húsmennsku. Árið 1919 fóru þau á Sauðárkrók þar sem Sigurður rak verslun næstu þrjú árin. Árið 1922-1923 bjuggu þau að Hringveri í Hjaltadal, þar sem Guðrún lést. Vorið 1929 fluttist Sigurður til Sigurlaugar dóttur sinnar í Brimnesi og var þar til dánardags. Sigurður sat um skeið í sveitarstjórn og gegndi fleiri trúnaðarstörfum fyrir sveit sína. Lengi hafði hann og verslun í Hvalnesi. Maki: Guðrún Símonardóttir (1871-1924), frá Brimnesi. Þau eignuðust tvö börn, en sonur þeirra lést ungur úr mislingum.

Sigurlaug Einarsdóttir (1901-1985)

  • S03467
  • Person
  • 09.07.1901-23.06.1985

Sigurlaug Einarsdóttir, f. 09.07.1901, d. 23.06.1985. Foreldrar: Einar Jónsson bóndi í Brimnesi og koma hans, Margrét Símonardóttir. Sigurlaug ólst upp með foreldrum sínum í Brimnesi. Árið 1921 tók móðir hennar sig upp og sigldi með þær systur til Danmerkur til að afla þeim frekari menntunar. Þar voru þær í nokkur ár, gengu í menntaskóla og lýðháskóla. Árið 1924 hófu þær systur hannyrðakennslu í Reykjavík og stundaði Sigurlaug hana þar til hún giftist. Sigurlaug var húsfreyja í Læknishúsinu á Flatey 1930. Síðast búsett í Hafnarfirði.
Maki: Ólafur Einarsson læknir. Þau einguðust sex börn.

Sigurlaug Guðrún Sigurðardóttir (1903-1971)

  • S03064
  • Person
  • 6. maí 1903 - 23. feb. 1971

Foreldrar: Sigurður Jónsson og Guðrún Símonardóttir á Hvalnesi á Skaga. 16 ára gömul fór hún til Margrétar móðursystur sinnar að Brimnesi í Viðvíkursveit en þar hafði hún oft dvalið tímabundið frá barnsaldri. Veturinn 1920-1921 var hún við nám í Kvennaskóla í Reykjavík. Vorið 1921 flutti hún í Svaðastaði og kvæntist Jóni Pálmasyni. Næstu árin voru þau í húsmennsku á Svaðastöðum. Árið 1923 yfirgaf Jón konu sína og tvær ungar dætur og fór til Ameríku. Þau skildu að lögum stuttu seinna og dvaldist Sigurlaug áfram á Svaðastöðum fyrst um sinn en fór þaðan alfarin til Reykjavíkur árið 1925 þar sem hún gekk að eiga Gunnlaug Björnsson frá Narfastöðum í Viðvíkursveit. Vorið 1929 fluttu Sigurlaug og Gunnlaugur í Brimnes og hófu þar búskap og bjuggu þar síðan. Sigurlaug og Gunnlaugur eignuðust saman einn son en fyrir hafði Sigurlaug eignast tvær dætur með fyrri manni sínum.