Guðjón Ingimundarson (1915-2004)
- S00240
- Person
- 12. janúar 1915 - 15. mars 2004
Guðjón Ingimundarson kennari fæddist á Svanshóli í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu 12. janúar 1915. Foreldrar Guðjóns voru Ingimundur Jónsson og Ólöf Ingimundardóttir bændur á Svanshóli. Guðjón kvæntist 27.5. 1944 Ingibjörgu Kristjánsdóttur frá Nautabúi, f. 11.9. 1922, þau eignuðust sjö börn
,,Guðjón lauk prófi frá Héraðsskólanum í Reykholti 1934, íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni 1937 og smíðakennaraprófi frá Handíðaskólanum í Reykjavík 1944. Hann stundaði nám í teiknikennaradeild seinni hluta vetrar 1948 og sótti ýmis endurmenntunarnámskeið varðandi sund-, handavinnu- og íþróttakennslu. Guðjón var kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni 1937-1941. Hann flutti til Sauðárkróks 1941 og bjó þar til dauðadags. Guðjón var kennari við skólana á Sauðárkróki 1941-1974 og sundkennari á vornámskeiðum í Varmahlíð 1940-1956. Guðjón var forstjóri Sundlaugar Sauðárkróks og sundkennari 1957-1986. Hann hafði umsjón með Námsflokkum Sauðárkróks 1974-1979 og kenndi á ýmsum námskeiðum. Alla sína ævi tók Guðjón mikinn þátt í félagsmálum, m.a. var hann bæjarfulltrúi á Sauðárkróki fyrir Framsóknarflokkinn 1950-1974 og forseti bæjarstjórnar 1966-1970. Hann var formaður íþróttanefndar Sauðárkróks 1946-1978, í skólanefnd um árabil og formaður hennar 1974-1978, í fræðsluráði Norðurlands vestra 1974-1978, í stjórn Fiskivers Sauðárkróks hf. frá stofnun 1957 og Skagfirðings hf. frá 1959 þar til þau félög hættu störfum. Guðjón sat í stjórn Framsóknarfélags Sauðárkróks um langt árabil, var endurskoðandi Kaupfélags Skagfirðinga til fjölda ára, í stjórn Menningarsjóðs KS í mörg ár og formaður fræðuslunefndar þess um skeið. Íþrótta- og ungmennafélagsmál áttu hug hans allan og beitti hann sér mjög fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja og skóla á Sauðárkróki. Hann var í stjórn Ungmennasambands Skagafjarðar 1942-1973 og þar af formaður í 29 ár. Formaður Ungmennafélagsins Tindastóls í fimm ár og í stjórn alls níu ár. Hann var varaformaður Ungmennafélags Íslands 1965-1983 og í sambandsráði Íþróttasambands Íslands um árabil. Guðjón hlaut riddarakross fálkaorðunnar fyrir störf að félagsmálum 1984. Hann var heiðursfélagi Sundfélagsins Grettis á Ströndum, Ungmennasambands Skagafjarðar, Ungmennafélagsins Tindastóls, Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Rotaryklúbbs Sauðárkróks."