Showing 1 results

Authority record
Kennari Hólar í Hjaltadal

Björn Símonarson (1892-1952)

  • S03267
  • Person
  • 19.12.1892-09.05.1952

Björn Símonarson, f. á Hofstöðum í Viðvíkursveit 19.12.1892, d. 09.05.1952 í Reykjavík. Foreldrar: Símon Björnsson bóndi í Hofstaðaseli og kona hans, Anna Björnsdóttir. Foreldrar hans slitu samvistir árið 1914 og Símon gerðist lausamaður og fjármaður á Hólum en Anna giftist aftur Þórði Gunnarssyni á Lóni í Viðvíkursveit.
Björn ólst að mestu upp á Hofstöðum til 8 ára aldurs, en síðan hjá foreldrum sínum í Hofstaðaseli. Hann settist í búnaðarskólann á Hólum haustið 1917 og lauk þaðan brottfararprófi vorið 1919. Eftir það vann hann ýmis störf þar til hann hélt til Noregs haustið 1920 og vann þar á búgarði í sex mánuði og kynnti sér landbúnaðarstörf. Eftir það fór hann til verklegs náms í landbúnaðarháskólann í Ási og nam þar til haustsins 1921. Þaðan fór hann til Danmerkur og vann á búgarði til vorsins 1922 er hann fór um nokkurra mánaða skeið í landbúnaðarskólann í Korinth á Fjóni og síðan um haustið í Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hann prófi sumarið 1925.
Vorið 1925 réðist Björn til Ræktunarfélags Norðurlands og sem trúnaðarmaður fyrir Búnaðarfélag Íslands og starfaði nær eingöngu fyrir þessi félög til ársins 1931. Þá réiðist hann til Sambands nautgriparæktarfélaga Eyjafjarðar og gerðist árið 1932 jafnframt ráðunautur Búnaðarsambands Eyjafjarðar.. Haustið 1934 var hann settur kennari við Bændaskólann á Hólum og jafnframt skólastjóri 1934-1935 í afleysingum. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum um ævina, var m.a. hreppsnefndaroddviti Viðvíkurhrepps. Var í stjórn Búnaðarfélags Hólahrepps og annar aðalendurskoðandi Kaupfélags Skagfirðinga í mörg ár. Árið 1940 var hann skipaður í fyrsta tilraunaráð búfjárræktar. Björn var kennari á Hólum í 18 ár. Hann las sér mikið til um dýralækningar og stundaði þær nokkuð. Björn hóf búskap í Kýrholti og var síðar eitt ár á eignarjörð sinni Enni. Meðan hann bjó á Akureyri og samhliða kennslunni á Hólum ræktaði hann jafnan hross í Enni. Heima á Hólum bjó hann líka með nokkurn bústofn.
Maki: Lilja Gísladóttir frá Kýrholti (25.03.1898-07.02.1970). Þau eignuðust þrjú börn.