Showing 3 results

Authority record
Bókbindari

Frímann Ágúst Jónasson (1901-1988)

  • S03296
  • Person
  • 30.11.1901-16.01.1988

Frímann Ágúst Jónasson, f. 30.11.1901, d. 16.01.1988. Foreldrar: Jónas Jósef Hallgrímsson (1863-1906) bóndi á Fremri-Kotum og kona hans Þorey Magnúsdóttir (1861-1935) húsmóðir. Foreldrar Frímanns voru búandi á Fremri-Kotum þegar hann fæddist en þegar hann var þriggja ára lést faðir hans. Móðir hans bjó þar áfram til 1909 en fluttist þá að Bjarnastöðum og bjó þar á móti Hirti syni sínum til 1912. Frímann nam bókband á Akureyri 1916-1917 og lauk síðar sveinsprófi í þeirri iðn 1947. Hann fór síðar í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1923. Síðan kenndi hann tvo vetur á Melgraseyri við Ísafjarðardjúp og var kennari við barnaskólann á Akranesi í átta ár. Árið 1933 tók hann við heimavistarskóla á Strönd á Rangárvöllum og stýrið honum í sextán ár en árið 1949 gerðist hann skólastjóri við Kópavogsskóla og gengdi því starfi til 1964. Síðustu æviárin fékkst hann við bókband. Auk kennslu sinnti hann ýmsum félagsmálum, sat í stjórnum kennarafélaga og ungmennafélaga þar sem hann var kennari, einnig í stjórn Norræna félagsins í Kópavogi og Rotaryklúbbs Kópavogs.
Lengi starfaði hann í Góðtemplarareglunni, var einn aðalstofnandi stúkunnar á Rangárvöllum og lengi æðstitemplari hennar. Hann var á Akranesárum sínum i stjórn bókasafnsins þar, en á Rangárvöllum sá hann um bækur lestrarfélagsins og í Kópavogi var hann í stjórn bókasafnsins. Hann var lengi í stjórn Sambands íslenskra barnakennara. Frímann skrifaði nokkrar bækur handa börnum og unglingum: Hve glöð er vor æska (1944). Þegar sól vermir jörð (1950). Valdi villist í Reykjavík (1980). Landið okkar, Iesbók um landafræði íslands (1969).
Maki: Málfríður Björnsdóttir (1893-1977 kennari. frá Innstavogi við Akranes. Þau eignuðust þrjú börn.

Jón Guðmundur Jónsson (1879-1957)

  • S03163
  • Person
  • 26.05.1879-12.08.1957

Jón Guðmundur Jónsson, f. í Neðra-Nesi á Skaga 26.05.1879, d. 12.08.1957 á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Lítið er vitað um uppvaxtarár Jóns, Þó mun hann hafa sótt sjó úr Selvík og jafnframt vera síðastur þeirra Skagamanna sem vitað er að stunduðu fuglaveiðar við Drangey. Jón lærði bókband á yngri árum og stundaði þá iðn alltaf nokkuð meðan sjón leyfði. Hann batt m.a. allt sem þurfti fyrir Lestrarfélag Skefilstaðahrepps. Um allnokkur ár var hann í húsmennsku í Selnesi og stundaði þá sjó, ásamt því að eiga nokkrar kindur sem hann fékk að heyja fyrir á bæjum í sveitinni. Eftir að útræði lauk í Selvík tók hann að stunda kaupavinnu hjá bændum um sláttinn. Meðan hann dvaldist á Selnesi bjó hann í litlum kofa sem hann kom sér upp á sjávarbakkanum. Síðustu árin hans þar bjó þar einnig Anna Jónasdóttir, ekkja Jakobs Björnssonar bónda í Kleifargerði. Árið 1933 tók Jón jörðina Lágmúla til ábúðar og fluttist Anna með honum þangað og gerðist bústýra hans. Eftir að hún lést haustið 1951 brá Jón búi og dvaldist einn vetur á Akureyri hjá Elísubetu, dóttur Önnu, og manni hennar. Vorið 1952 fluttist hann að Syðra-Mallandi til Lárusar Björnssonar og Svövu Steinsdóttur. Hjá þeim átti hann heimii þar til hann veiktist og vistaðist á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Seinni hluta ævinnar var hann mjög sjóndapur og nær alblindur er hann lést.
Jón var barnlaus.

Stefán Magnússon (1906-1981)

  • S00619
  • Person
  • 6. mars 1906 - 9. maí 1981

Stefán var fæddur og uppalinn í Torfmýri í Blönduhlíð, sonur Magnúsar Hannessonar og Jakobínu Gísladóttur. Árið 1923 réðst hann sem vinnumaður að Reynistað til Jóns Sigurðssonar, þar sem hann dvaldist til 1937 er hann fluttist til Sauðárkróks. Stefán starfaði mikið fyrir Sögufélag Skagfirðinga og var einn af hvatamönnum að stofnun Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Aðalstarf Stefáns var þó bókband en það vann hann við í rúm 40 ár og talið er að hann hafi árlega bundið 2000-3000 bækur.
Stefán var ókvæntur og barnlaus.