Sýnir 3772 niðurstöður

Nafnspjöld
Person

Valdimar Eyberg Ingimarsson (1927-1989)

  • S02795
  • Person
  • 2. des. 1927 - 27. mars 1989

Valdimar Eyberg Ingimarsson, f. 02.12.1927 á Brandaskarði í A-Húnavatnssýslu. Foreldrar: Ingimar Sigvaldason og Valný M. Benediktsdóttir. Valdimar ólst upp á Brandaskarði til fjögurra ára aldurs, eftir það fluttist hann með móður sinni og móðurömmu í Skagafjörð þar sem hann var til 26 ára aldurs. Hann vann þar ýmis landbúnaðarstörf. Þaðan lá leiðin til Reykjavíkur og síðar Hafnafjarðar. Var bústjóri í Vestmannaeyjum og vann við Skipasmíðastöðina Dröfn í Hafnarfirði. Síðustu 20 æviárin vann hann hjá Póststofunni í Hafnarfirði. Síðast búsettur í Hafnarfirði.
Maki 1: Fjóla Hafsteinsdóttir. Þau eignuðust einn son.
Maki 2: Hólmfríður Kristjánsdóttir. Hún lést eftir langvarandi veikindi 1978.

Guðmundur Zóphónías Eiríksson (1903-1988)

  • S02816
  • Person
  • 21.11.1903-07.04.1988

Guðmundur Zóphónías Eiríksson, f. 21.11.1903 að Villinganesi í Tungusveit, d. 07.04.1988 á Sauðárkróki. Foreldrar: Eiríkur Jón Guðnason, bóndi í Villinganesi og fyrsta kona hans Guðrún Þorláksdóttir. Guðmundur missti móður sína árið 1905. Hann ólst upp í Villinganesi hjá föður sínum og annarri konu hans, Margréti Stefaníu Sveinsdóttur til ársins 1912, en það ár andaðist Margrét. Þriðja kona Eiríks, frá 1914, var Petra Einarsdóttir og ólst Guðmundur upp hjá henni og föður sínum við hefðbundin sveitastörf. Hann naut barnafræðslu heima en vorið 1922 fór hann á Búnaðarskólann á Hólum og útskrifaðist þaðan sem búfræðingur vorið 1924. Eftir það sinnti hann barnafræðslu á bæjum í Vesturdal. Einnig vann hann við búskapinn á Villinganesi.
Maki: Ingibjörg Steinvör Hrólfsdóttir (1910-2001). Þau eignuðust sex börn.
Hófu búskap í Bakkakoti vorið 1931. Þaðan fóru þau að Teigakoti 1933-1935, Ytri-Svartárdal 1935-1936, Gilhaga 1936-1939. Fóru að Lýtingsstöðum 1939, keyptu þá jörð 1941 og bjuggu þar til 1980 er þau létu af búskap. Guðmundur var í hreppsnefnd Lýtingstaðahrepps 1950-1954 og í skólanefnd allmörg ár. Einnig var hann um tíma deildarstjóri Lýtingsstaðadeildar Kaupfélags Skagafirðinga.

Pétur Valdimarsson (1896-1973)

  • S02810
  • Person
  • 14. apríl 1896 - 14. júní 1973

Pétur Valdimarsson, f. 14.04.1896 á Merkigili í Austurdal. Foreldrar: Valdimar Bjarnason á Keldulandi á Kjálka og kona hans Ingibjörg Gunnarsdóttir. Pétur ólst að mestu upp hjá foreldrum sínum til tíu ára aldurs en dvaldi tíma og tíma hjá ömmusystur sinni, Ingibjörgu Andrésdóttur og manni hennar, Helga Árnasyni. Vorið 1908 fluttu Ingibjörg og Helgi að Sólheimagerði og fór Pétur þá alfarið til þeirra. Árið 1909 veiktist hann af barnaveiki og þó að hann hjarnaði við beið hann þeirra veikinda aldrei bætur.
Maki: Kristín Hallgrímsdóttir, f. 17.10.1892 í Úlfstaðakoti. Þau eignuðust fjögur börn.
Þau hófu búskap í Úlfstaðakoti (nú Sunnuhvoli) 1915-1920, í Sólheimagerði í Blönduhlíð 1920-1924, á Fremri-Kotum 1924-1935. Þá fluttu þau til Eyjafarðar og bjuggu að Neðri-Rauðalæk á Þelamörk. Átti Pétur þar heimili til æviloka. Síðuastu 10 árin sá Ingólfur sonur þeirra um búskapinn vegna vanheilsu Péturs, sem einbeitti sér að bókbandi. Pétur gaf sig lítt að opinberum málum í Akrahreppi en í Glæsibæjarhreppi var hann í hreppsnefnd og fjallaskilastjórn.

Jakob Benedikt Bjarnason (1896-1984)

  • S02360
  • Person
  • 26. okt. 1896 - 30. okt. 1984

Jakob Benedikt Bjarnason var fæddur 26. október 1896 að Forsælu í Vatnsdal. Foreldrar hans voru Guðrún 1875-1967 og Bjarni 1863-1945. Jakob ólst upp á vegum móður sinnar, sem var ráðskona að Forsælu. Þegar Jakob var á þriðja ári réðst hún sem vinnukona að Geitaskarði og hafði drenginn með sér, en var þar aðeins eitt ár að þessu sinni. Næstu árin var hún á ýmsum stöðum í Engihlíðarhreppi, en kom Jakobi fyrir hjá systur sinni Hólmfríði, sem bjó á Björnólfsstöðum. Jakob varð fljótt afar bókhneigður. Hann var í vinnumennsku hingað og þangað. Hann kvæntist Elínborgu Ósk dóttur þeirra Síðuhjóna Einars Guðmundssonar og Sigurlaugar Þ. Björnsdóttur. Ungu hjónin bjuggu þar og svo kom að þau keyptu alla jörðina. Þau eignuðust eina dóttur, Magdalenu, f. 1930, en sama ár kenndi Jakob sér fyrst þess meins sem fylgdi honum æ síðan, liðagigtar og var hann oft lítt vinnufær. Jakob og Sigurlaug brugðu búi að fullu árið 1971. Jakob var mikill bókaáhugamaður, safnari og fræðimaður.

Jón S. Jakobsson (1918-1991)

  • S02361
  • Person
  • 11. nóv. 1918 - 21. feb. 1991

Frá Efra-Spákonufelli. Skattendurskoðandi í Reykjavík.

Jóhannes Björnsson (1907-1966)

  • S02489
  • Person
  • 7. júlí 1907 - 7. sept. 1966

Jóhannes fæddist í Laufási við Eyjafjörð, sonur hjónanna sr. Björns Björnssonar og Ingibjargar Magnúsdóttur. Hann missti föður sinn á unglingsaldri og flutti þá móðir hans ásamt börnum sínum til Reykjavíkur. Jóhannes lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1934. Síðan lá leiðin til Danmerkur til frekara náms. Meðan hann dvaldi þar fékkst hann við sjálfstæðar rannsóknir í fræðigrein sinni, meltingarsjúkdómum. Árið 1940 hélt hann heim til Íslands og starfaði hér á landi æ síðan sem sérfræðingur í meltingarsjúkdómum. Hann var farsæll í starfi. Jóhannes kvæntist Guðrúnu Valdemarsdóttur, þau skildu, en eignuðust þrjú börn. Seinni kona hans var Ásta Árnadóttir.

Júlíus Kristjánsson (1930-2020)

  • S02365
  • Person
  • 16. sept. 1930 - 17. sept. 2020

,,Júlí­us fædd­ist í Efsta­koti á Upsa­strönd 16. sept­em­ber 1930, son­ur hjón­anna Kristjáns E. Jóns­son­ar og Þóreyj­ar Friðbjörns­dótt­ur. Júlí­us lauk fiski­manna­prófi frá Stýri­manna­skól­an­um í Reykja­vík árið 1954 og var til sjós um nokk­urn tíma auk þess að starfa við neta­gerð hjá Netja­mönn­um á Dal­vík. Árið 1965 stofnaði hann Neta­gerð Dal­vík­ur hf. ásamt fleir­um og hafði með hönd­um fram­kvæmda­stjórn fyr­ir­tæk­is­ins en hann lauk meist­ara­námi í neta­gerð um svipað leyti. Um nokk­urn tíma annaðist Júlí­us sjóvinnu­kennslu sem boðin var sem val­grein við Dal­vík­ur­skóla og þá annaðist hann ým­ist kennslu eða próf­dæm­ingu á skip­stjórn­ar­nám­skeiðum til 30 tonna skip­stjórn­ar­rétt­inda á ýms­um stöðum norðan­lands. Árið 1981 var stofnuð skip­stjórn­ar­braut í fram­halds­deild­um Dal­vík­ur­skóla og var Júlí­us ráðinn sem aðal­kenn­ari braut­ar­inn­ar og starfaði sem slík­ur til nokk­urra ára ásamt því að hafa með hönd­um framkvæmda­stjórn Neta­gerðar­inn­ar.Hann sat í sögu­nefnd Dal­vík­ur sem annaðist út­gáfu á Sögu Dal­vík­ur sem kom út í fjór­um bind­um árin 1978-1985 en Krist­mund­ur Bjarna­son frá Sjáv­ar­borg var höf­und­ur. Hann var frum­kvöðull að stofn­un Héraðsskjala­safns Svarf­dæla og fyrsti formaður stjórn­ar. Þá var hann meðal frum­kvöðla að stofn­un Minja­safns­ins Hvols á Dal­vík. Júlí­us var kjör­inn í veitu­nefnd Dal­vík­ur þegar unnið var að stofn­un Hita­veitu Dal­vík­ur og upp­bygg­ingu dreifi­kerf­is veit­unn­ar á Dal­vík. Þá sat hann sem var­a­full­trúi í bæj­ar­stjórn Dal­vík­ur­kaupstaðar 1978-1982. Júlí­us átti sam­leið með Morg­un­blaðinu í lang­an tíma og var um skeið frétta­rit­ari þess á Dal­vík. Júlíus kvæntist Ragn­heiði Sig­valda­dótt­ur og eignuðust þrjá syni."

Þorsteinn Þorsteinsson (1960-2002)

  • S02396
  • Person
  • 19. júní 1960 - 23. nóv. 2002

Bjó í Árósum. Sonur Þorsteins Árnasonar frá Sjávarborg og Önnu Jóhannsdóttur konu hans.

Nanna Rögnvaldsdóttir (1957-

  • S02395
  • Person
  • 20. mars 1957-

Nanna er dóttir hjónanna Rögnvalds Gíslasonar frá Eyhildarholti og Sigríðar Jónsdóttur frá Djúpadal. Hún ólst upp í Skagafirði, fyrst í Djúpadal en síðan á Sauðárkróki. Stúdent frá M.A. 1977. Stundaði nám í sagnfræði um tíma við H.Í. Frá árinu 1986 hefur Nanna starfað við bóka - og tímaritaútgáfu, lengst af hjá Iðunni og Forlaginu. Hefur einnig gefið út matreiðslubækur.

Jóhann Ólafsson (1891-1972)

  • S02386
  • Person
  • 10. sept. 1891 - 30. sept. 1972

Jóhann fæddist í Grafargerði á Höfðaströnd árið 1891. Foreldrar hans voru Ólafur Kristjánsson bóndi og kona hans Engilráð Kristjánsdóttir. Til tíu ára aldurs ólst Jóhann upp hjá foreldrum sínum, en þá fór hann til föðurbróður síns Jóhanns bónda á Krossi í Óslandshlíð og konu hans Halldóru Þorleifsdóttur. Dvaldi hann hjá þeim til fullorðinsára.
Jóhann naut hefðbundinnar barnaskólafræðslu og haustið 1914 fór hann í Bændaskólann á Hólum og lauk þaðan prófi vorið 1916. Síðar fór hann á námskeið í dýralækningum hjá Sigurði Hlíðar á Akureyri og stundaði töluvert dýralækningar um margra ára skeið. Hann var bóndi í Miðhúsum lengst af (1936-1970). Hann var félagslyndur maður og var kosinn til ýmissa starfa í sveit sinni. Jóhann þótti lipur hagyrðingur og allvíða birtust ljóð eftir hann. Kona Jóhanns var Guðleif Jóhanna Jóhannsdóttir, þau eignuðust tvö börn.

Glen Eric Jakobson

  • S02391
  • Person
  • Óvíst

Glen er fæddur í Kanada, sonur íslenskra hjóna, Borgu og Bjarka Jakobson. En móðuramma hans, Indíana Sveinsdóttir, sem ættuð er úr Skagafirði, fluttist ung til Vesturheims og giftist þar íslenskum manni, Kristjóni.

Helga Pétursdóttir (1932-2015)

  • S02398
  • Person
  • 7. okt. 1932 - 25. feb. 2015

Helga var sjúkraliði að mennt og starfaði við það. Fyrri maður hennar var Bjarni Sigurður Jóhannsson vörubílstjóri, þau eignuðust fimm börn. Seinni maður hennar var Tómas Eyþór Bjarnason frá Grímsstöðum í Svartárdal, verkamaður og húsvörður f. 1926.

Guðrún Antonsdóttir (1930-2016)

  • S02399
  • Person
  • 9. feb. 1930 - 23. okt. 2016

Guðrún Antonsdóttir fæddist á Arnarstöðum í Sléttuhlíð 9. febrúar 1930. Hún var dóttir hjónanna Björns Antons Jónssonar frá Hrauni í Sléttuhlíð og Steinunnar Guðmundsdóttur frá Bræðraá. ,,Guðrún átti fyrst heima á Arnarstöðum, Höfða og í Hólakoti. Þegar hún var 7 ára flutti fjölskyldan alkomin að Höfða á Höfðaströnd. Þar ólst Guðrún síðan upp ásamt systkinum sínum á heimili sem var að jafnaði mannmargt. Guðrún gekk í skóla á Hofsósi. Hún nam við Húsmæðraskólann á Laugalandi veturinn 1948-1949. Guðrún tók virkan þátt í bústörfum úti og inni í uppvextinum. Seinna stundaði hún ýmsa vinnu á veturna en heima á Höfða yfir annatíma sumarsins. Kvæntist Svavari Hjörleifssyni frá Kimbastöðum og hófu þau búskap í Lyngholti árið 1959. Þau ráku bú sitt þar fram á efri ár. Þau eignuðust sex börn."

Sólveig Bjarnadóttir (1925-

  • S02402
  • Person
  • 30. mars 1925-

Sólveig fæddist á Grímsstöðum í Goðdalasókn í Skagafirði 30. mars 1925. Dóttir Bjarna Kristmundssonar og Kristínar Sveinsdóttur. Fyrri maður Sólveigar var Kári Húnfjörð Guðlaugsson, hann lést 1952, þau eignuðust tvö börn. Seinni maður hennar var Karl Jónatansson, hann lést 1997. Þau eignuðust þrjú börn. Sólveig bjó lengst af á Nípá í Köldukinn ásamt eiginmanni og börnum, en býr nú á Akureyri.

Böðvar Jónsson (1925-2009)

  • S02413
  • Person
  • 1. júlí 1925 - 14. nóv. 2009

Böðvar fæddist á Gautlöndum í Mývatnssveit 1. júlí 1925. Sonur hjónanna Jóns Gauta Péturssonar bónda á Gautlöndum og Önnu Jakobsdóttur konu hans. Böðvar kvæntist Hildi Guðnýju Ásvaldsdóttur og eignuðust þau fimm syni. Hann stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni 1941-1942 og var gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri 1946.
Böðvar tók við búinu af föður sínum1947 og var bóndi þar til 1997, er synir hans tóku við. Böðvar var leiðandi og tók virkan þátt í félags - og menningarstarfi í Mývatnssveit. Hann sat til margra ára í stjórn Skútustaðahrepps og í rúm 60 ár vann hann að tryggingamálum og var umboðsmaður Brunabótafélags Íslands og Samvinnutrygginga, síðar Vátryggingafélags Íslands. Hann sat um tíma í stjórn Kaupfélags Þingeyinga. Umhverfis - og landgræðslumál voru Böðvari afar hugfólgin.Hann hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir landgræðslustörf.

Oddur Guðmundsson (1944-

  • S02469
  • Person
  • 14. ágúst 1944-

Oddur ólst upp á Árbakka skammt frá Tyrðilmýri, utarlega á norðurströnd Ísafjarðardjúps. Býr á Patreksfirði.

Jóhann Helgason (1924-2007)

  • S02416
  • Person
  • 20. júní 1924 - 15. apríl 2007

Jóhann fæddist í Leirhöfn á Melrakkasléttu 20. júní 1924. Foreldrar hans voru Andrea Pálína Jónsdóttir húsfreyja og Helgi Kristjánsson bóndi í Leirhöfn. Jóhann var búfræðingur frá Hvanneyri 1944. Hann hóf búskap ungur og var meðal frumkvöðla í sauðfjárrækt og rak stórt fjárbú í Leirhöfn. Jóhann var mjög vakandi fyrir nýjungum í jarðrækt og öðru sem viðkom íslenskum landbúnaði. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, sat m.a. í stjórn KÞ, var í hreppsnefnd Presthólahrepps og einn af frumkvöðlum stofnunar Fjallalambs á Kópaskeri. Jóhann var búnaðarþingsfulltrúi um árabil. Kona hans var Dýrleif Andrésdóttir; þau eignuðust fjögur börn.

Margrét Helga Magnúsdóttir (1896-1986)

  • S03302
  • Person
  • 18.03.1896-19.01.1986

Margrét Helga Magnúsdóttir, 18.03.1896 í Gilhaga á Fremribyggð, d. 19.01.1986 á Sauðárkróki. Foreldrar: Magnús Jónsson bóndi í Gilhaga og kona hans Helga Indriðadóttir ljósmóðir. Margrét ólst upp hjá föður sínum til fullorðinsára. Níu ára gömul missti hún móður sína. Hún naut menntunar hjá heimiliskennurum sem teknir voru í Gilhaga.
Maki 1: Steindór Kristján Sigfússon (12.12.1895-21.08.1921) bóndi í Hamrsgerði á Fremribyggð. Þau giftu sig 12. desember 1916 á Mælifelli. Þau eignuðust tvö börn.
Maki 2: Sigurjón Helgason (1895-1974), Þau eignuðust fjögur börn en eitt þeirra lést á fyrsta ári.
Margrét og Steindós bjuggu á Mælifelli 1918-1919 og í Hamrsgerði 1919-1921. Steindór lést það ár og eftir það bjó Margrét áfram eitt ár í Hamrsgerði en giftist þá Sigurjóni Helgasyni og bjó með honum í Hamarsgerði til 1929. Þá fóru þau að Árnesi og bjuggu þar til 1938 en síðan á Nautabúi frá 1938-1974, er Steindór lést.

Ragnar Fjalar Lárusson (1927-2005)

  • S02993
  • Person
  • 15. júní 1927 - 26. júní 2005

Fæddur á Sólheimum í Blönduhlíð. Foreldrar: Lárus Arnórsson, sóknarprestur á Miklabæ og Jensína Björnsdóttir, þau voru ekki kvænt. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1952 og var veitt Hofsósprestakall sama ár. Ragnar Fjalar var sóknarprestur á Siglufirði frá 1955-1968. Það ár var hann skipaður sóknarprestur í Hallgrímsprestakalli í Reykjavík. Þar þjónaði hann til 1998 er hann lét af störfum vegna aldurs. Hann var prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1994–97. Ragnar Fjalar gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir kirkjuna og átti m.a. sæti í siðanefnd Prestafélags Íslands frá stofnun hennar og til starfsloka. Ragnar Fjalar var mikill safnari og safnaði m.a. spilum og seðlum um dagana. Þekktastur er hann þó fyrir bókasafn sitt sem hefur að geyma margvíslegt fágæti, einkum biblíur og sálmabækur, allt frá upphafi prentverks á Íslandi. Hann stundaði um árabil rannsóknir á vögguprenti og hlaut fyrir það starf sitt riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1998, auk embættisverka sinna. Ragnar Fjalar var einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar á þessu sviði.
Maki: Herdís Helgadóttir, fyrrverandi hjúkrunardeildarstjóri. Þau eignuðust sex börn.

Björn Sigurðsson (1935

  • S02474
  • Person
  • 1935

Bóndi í Úthlíð í Biskupstungum. Kvæntur Ágústu Margréti Ólafsdóttur. Árið 1978 hófu þau hjón ferðaþjónustu. Björn hlaut Landbúnaðarverðlaunin árið 2007 og Riddarakrossinn fyrir félagsmálastörf og uppbyggingu í ferðaþjónustu 2018.

Sigurður Guðmundsson (1833-1874)

  • S02635
  • Person
  • 9. mars 1833 - 7. sept. 1874

Sigurður Guðmundsson (oftast nefndur Sigurður málari) var íslenskur listmálari frá Hellulandi í Skagafirði, sonur Guðmundar Ólafssonar b. á Hellulandi og Steinunnar Pétursdóttur. Hann lærði teikningu og listmálun í Kaupmannahöfn. Sigurður starfaði mikið að leikhúsmálun, hannaði búninga og gerði sviðsmyndir. Hann hafði sterk áhrif á mótun Íslenskrar þjóðarímyndar með hvatningu sinni og störfum að þjoðbúningagerð, forngripasöfnun og leiklist, þar sem áhersla var lögð á innlendar ímyndir frá sögu- og miðöldum. Hann átti drjúgan þátt í stofnun Fornminjasafnsins og vann ósleitilega að fegrun hins íslenska kvenbúnings. Sigurður var forystumaður um stofnun Forngripasafnsins árið 1863, en safnið varð síðar að Þjóðminjasafni Íslands. Sumarið 1874 vann Sigurður við hönnun skreytinga fyrir þjóðhátíð á Þingvöllum. Síðasta veturinn sem Sigurður lifði málaði hann leiktjöld fyrir leikritið Hellismenn eftir Indriða Einarsson. Við vinnuna ofkældist hann og náði aldrei fullri heilsu. Sigurður var ógiftur og barnlaus.

Skafti Magnússon (1902-1982)

  • S03058
  • Person
  • 17. ágúst 1902 - 14. okt. 1982

Foreldrar: Magnús Jónsson b. í Gilhaga og Guðbjörg Guðmundsdóttir, þau voru ekki kvænt. Skafti ólst upp hjá föður sínum og k.h. Helgu Indriðadóttur í Gilhaga.
Leigjandi á Ytri-Mælifellsá 1930. Stundaði síðar eigin atvinnurekstur, hellusteypu, á Sauðárkróki. Seinna bókari í Kópavogi.
Kvæntist Önnu S. Sveinsdóttur frá Mælifellsá, þau eignuðust fjögur börn. Anna lést árið 1953. Sambýliskona Skafta eftir það var Indíana Albertsdóttir frá Neðstabæ í Húnavatnssýslu.

Kristrún Skúladóttir (1902-1979)

  • S02427
  • Person
  • 19. júlí 1902 - 5. ágúst 1979

Foreldrar: Skúli Sveinsson b. á Ytra-Mallandi og k.h. Jónína Rafnsdóttir. Kristrún stóð fyrir búi ásamt föður sínum á Ytra-Mallandi og síðar á hluta Selár í sömu sveit til ársins 1935 er hún flutti með dóttur sína að Meyjarlandi þar sem dóttir hennar var alin upp. Um nokkurra ára skeið var hún húskona á Meyjarlandi og Innstalandi. Dvaldist síðan allnokkur ár í Kálfárdal í Gönguskörðum og flutti svo til Sauðárkróks um miðjan sjöunda áratuginn. Kristrún kvæntist ekki en eignaðist dóttur með Steingrími Jóhannessyni b. á Selá á Skaga.

Sigurður Jónsson (1919-2014)

  • S02430
  • Person
  • 24. des. 1919 - 28. des. 2014

Sigurður var fæddur á Meiðavöllum í Kelduhverfi árið 1919. Foreldrar hans voru Jón Sigurgeirsson og Halldóra Jónsdóttir. Sigurður fór til náms á Hvanneyri og lauk þaðan prófi í búfræði 1944. Hann kvæntist Jóhönnu Ólafsdóttur frá Fjöllum í Kelduhverfi og eignuðust þau fimm börn. Sigurður var og bóndi og veðurathugunarmaður í Garði í Kelduhverfi. Sigurður sinnti ýmsum öðrum störfum meðfram búskap, m.a. var hann jarðvinnslumaður, ásetningarmaður, bókavörður og gjaldkeri Búnaðarfélags Keldhverfinga í 18 ár og formaður í 9 ár. Hann var trúnaðarmaður Dýraverndurnarfélags Íslands í þrjá áratugi. Sigurður var fræðimaður að eðlisfari og eftir hann liggja þó nokkur rit um þjóðleg efni og greinar í Árbók Þingeyinga og fleira. Árið 2000 fluttust þau hjón til Húsavíkur.

Skúli Helgason (1916-2002)

  • S02433
  • Person
  • 6. jan. 1916 - 25. maí 2002

Skúli fæddist 6. janúar 2002 á Svínavatni í Grímsnesi. Foreldrar hans voru Helga Jónsdóttir á Svínavatni og Helgi Guðmundsson bóndi á Apavatni. Skúli var þjóðhagi og fræðimaður. Mörg merk verk liggja eftir hann m.a. á sviði smíða og má þar nefna Árbæjarkirkju í Reykjavík. Skúli skráði einnig stór ritverk á fræðasviði. Hann var höfundur að Byggðasafni Árnessýslu. Skúli var ókvæntur og barnlaus.

Gils Guðmundsson (1914-2005)

  • S02434
  • Person
  • 31. des. 1914 - 29. apríl 2005

Gils var fæddur í Hjarðardal innri í Önundarfirði 31. desember 1914. Sonur hjónanna Guðmundar Gilssonar bónda og Sigríðar Hagalínsdóttur húsmóður. Gils ólst upp við bústörf og sjósókn. Hann lauk kennaraprófi 1938 og kenndi við íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal 1938-1940 og við unglingaskóla í Garði og Sandgerði árin 1941 -1943. Gils var kvæntur Guðnýju Jóhannesdóttur Lynge og eignuðust þau eina dóttur. Gils var afkastamikill rithöfundur og meðal ritverka hans eru Skútuöldin, Öldin okkar, Öldin sem leið, Bára blá, Mánasilfur ofl. Gils var formaður rithöfundasambands Íslands árið 1957 -1958 og forstjóri Menningarsjóðs 1956 - 1975. Hann lét til sín taka í stjórnmálum, var einn af stofnendum Þjóðvarnarflokks Íslands og sat á Alþingi í tvo áratugi, fyrst fyrir Þjóðvarnarflokkinn og síðar fyrir Alþýðubandalagið. Gils sat í Norðurlandaráði 1971-1974 og 1978-1980; var í stjórn Menningarsjóðs Norðurlanda 1974 -1975.

Sæmundur Dúason (1889-1988)

  • S02478
  • Person
  • 10. nóv. 1889 - 4. feb. 1988

Sæmundur fæddist á Langhúsum í Fljótum. Foreldrar hans voru Eugenía Jónsdóttir Norðmann og Dúi Kristján Grímsson. Sæmundur ólst upp við almenn sveitastörf og sjómennsku. Kona hans var Guðrún Valdný Þorláksdóttir og eignuðust þau sex börn og ólu þess auk upp tvö fósturbörn. Sæmundur var fræðimaður að eðlisfari og mikill unnandi íslenskrar tungu. Hann lagði stund á þýsku, frönsku og esparento sér til ánægju. Hann stundaði sjómennsku með búskapnum, en árið 1914 fluttu þau til Reykjavíkur. Hann stundaði nám við Verslunarskóla Reykjavíkur og tæpum tuttugu árum síðar hóf hann nám við Kennaraskóla Íslands og starfaði við kennslu í Fljótum, Grímsey og á Siglufirði. Sæmundur skrifaði ævisögu sína, Einu sinni var.

Karl Ottó Runólfsson (1900-1970)

  • S02632
  • Person
  • 24. okt. 1900 - 29. nóv. 1970

,,Karl Ottó Runólfsson tónskáld fæddist í Reykjavík 24.10. árið 1900. Hann var sonur Runólfs Guðmundssonar, sjómanns og verkamanns í Reykjavík, og k.h., Guðlaugar M. Guðmundsdóttur. Fyrri kona Karls var Margrét Kristjana Sigurðardóttir sem lést kornung, 23 ára, eftir skamma sambúð þeirra hjóna. Seinni kona Karls var Helga Kristjánsdóttir. Karl lærði prentiðn í Gutenberg, lauk sveinprófi 1918 og starfaði við prentverk til 1925. Hann fór þá til Kaupmannahafnar, lærði þar á trompet hjá Lauritz Sörensen, lærði á fiðlu hjá Axel Jörgensen og lærði að útsetja lög fyrir lúðrasveitir hjá Dyring. Þá stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1934-39, lærði þar tónsmíðar hjá Frans Mixa og að útsetja lög fyrir hljómsveitir hjá Victor Urbancic. Karl kenndi og stjórnaði Lúðrasveit Ísafjarðar 1920 og 1922-23, Lúðrasveit Hafnarfjarðar 1924-25 og 1928-29, Lúðrasveit og Hljómsveit Akureyrar 1929-34, var hljómsveitarstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1934-35 og meðlimur Lúðrasveitar Reykjavíkur frá stofnun og stjórnandi hennar 1941-42. Lengst af stjórnaði Karl þó Lúðrasveitinni Svani eða í 21 ár, auk þess sem hann stjórnaði Lúðrasveit barna- og unglingaskóla Reykjavíkur. Þá lék hann með danshljómsveitum, víða um land, á sínum yngri árum. Karl kenndi hljómfræði og trompetleik við Tónlistarskólann í Reykjavík 1939-64, stundaði einkakennslu á fiðlu og trompet og lék sjálfur á trompet í Útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Íslands 1950-55. Karl var stofnandi og síðar formaður Lúðrasveitar Reykjavíkur í mörg ár og formaður Landssambands íslenskra lúðrasveita í tíu ár. Hann var mikilsvirt tónskáld sem samdi flestar tegundir tónsmíða, þ.á m. nokkur ástsæl sönglög og raddsetti mikinn fjölda þjóðlaga."

Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946)

  • S02437
  • Person
  • 13. jan. 1881 - 23. júlí 1946

Sigvaldi Kaldalóns fæddist í Vaktarabænum í Grjótaþorpinu í Reykjavík 13. janúar 1881, sonur Stefáns Egilssonar múrara og k.h., Sesselju Sigvaldadóttur ljósmóður Reykjavíkur um árabil. ,, Sigvaldi lauk stúdentsprófum frá Lærða skólanum 1902, embættisprófi í læknisfræði frá Læknaskólanum í Reykjavík 1908 og hélt að því loknu í framhaldsnám til Kaupmannahafnar. Þar kynnti hann sér danska og erlenda tónlist. Í Kaupmannahöfn kynntist hann einnig verðandi eiginkonu sinni, Karen Margrethe Mengel Thomsen. Þegar heim kom starfaði hann vetrarlangt sem læknir á Hólmavík en fékk síðan veitingu fyrir læknishéraði við Inn-Djúpið og bústað á Ármúla í Nauteyrarhreppi nálægt Kaldalóni vorið 1911. Hann hreifst mjög af náttúrunni þar í kring og tók síðar upp ættarnafnið Kaldalóns árið 1916. Frostaveturinn mikla 1917-18 veiktist Sigvaldi af taugaveiki og náði sér aldrei fyllilega eftir það. Hann fluttist frá Ármúla 1921. Hann dvaldist á Vífilstaðahæli og fór síðan utan til Kaupmannahafnar á heilsuhæli. Þegar honum hafði batnað sótti hann um Flateyjarhérað árið 1926 og var veitt það. Þar samdi hann lagið við ljóð Eggerts Ólafssonar, Ísland ögrum skorið og þar söng Eggert Stefánsson óperusöngvari, bróðir hans það fyrst opinberlega. Í Flatey var hann þar til hann fluttist í Keflavíkurhéraðið. Sigvaldi var læknir við héraðslæknisembættið í Keflavík árin 1929-45, búsettur í Grindavík. Dvöl hans þar hefur verið líkt við "menningarlega vígslu" í héraðinu. Þar dvöldu löngum hjá honum eða í návist hans þjóðkunnir listamenn eins og Gunnlaugur Scheving, Halldór Laxness, Ríkharður Jónsson, Steinn Steinarr o.fl." Sigvaldi Kaldalóns var yfirleitt mjög hógvær í garð laga sinna en um Ísland ögrum skorið, sem er eitt þekktasta lag hans, sagði hann þó að það ætti e.t.v. eftir að verða þjóðsöngur Íslands. Meðal þekktustu laga hans má nefna: Ave maria, Erla góða Erla, Draumur hjarðsveinsins, Þú eina hjartans yndið mitt, Ég lít í anda liðna tíð, Fjallið eina, Hamraborgin, Kirkjan ómar öll, Nóttin var sú ágæt ein, Á Sprengisandi, Suðurnesjamenn, Svanasöngur á heiði."

Loftur Guðmundsson (1906-1978)

  • S02442
  • Person
  • 6. júní 1906 - 29. ágúst 1978

,,Loftur Guðmundsson fæddist 6. júní 1906 að Þúfukoti í Kjós. Kona Lofts var Tala Klemenzdóttir úr Mýrdal og áttu þau þrjá syni. Loftur dvaldist um 12 ára skeið við kennslustörf í Eyjum, kenndi við Barnaskólann frá 1933 til 1945. Af bókum eftir Loft má nefna Jónsmessunæturmartröð á fjallinu helga sem kom út 1957 og kvikmyndasöguna Síðasti bærinn í dalnum sem kom út 1950. Hann þýddi meðal annars bækur Hergé um Tinna (Tintin) og gerði texta við mörg sönglög Oddgeirs Kristjánssonar. Loftur stundaði einnig önnur ritstörf og samdi meðal annars leikritið Brimhljóð, kvikmyndasöguna Síðasti bærinn í dalnum eftir samnefndri kvikmynd og nokkrar barnabækur. Eins var Loftur leikhúsgagnrýnandi dagblaðsins Vísis um tíma."

Hallgrímur Helgason (1959-

  • S02631
  • Person
  • 18. feb. 1959-

Hallgrímur Helgason er íslenskur rithöfundur, málari, þýðandi, skopteiknari og greinahöfundur. Hann nam við Myndlista- og Handíðaskólann veturinn 1979-1980 og Listaakademíuna í München 1981-1982. Hallgrímur hefur starfað sjálfstætt sem myndlistarmaður og rithöfundur frá árinu 1982. Tónskáld.

Guðrún Sveinbjarnardóttir (1947-

  • S02451
  • Person
  • 1947-

Guðrún er ættuð frá Hurðarbaki í Reykholtsdal. Hún er fornleifafræðingur. Verkefnastjóri fornleifarannsókna í Reykholti.

Gísli Már Gíslason (1947-

  • S02452
  • Person
  • 8. jan. 1947-

Fæddur á Þórshöfn á Langanesi. Setti á stofn bókaútgáfuna Ormstungu ásamt Sigurjóni Magnússyni rithöfundi.

Þorgils Jónasson (1948-

  • S02457
  • Person
  • 10. okt. 1948-

Þorgils er sagnfræðingur. Eiginkona hans er Vilborg Bjarnadóttir.

Aðalsteinn Sigurðsson (1921-2015)

  • S02410
  • Person
  • 18. ágúst 1921 - 8. feb. 2015

Aðalsteinn fæddist á Akureyri, sonur hjónanna Elínborgar Jónsdóttur húsmóður og Sigurðar Sölvasonar húsasmíðameistara. Aðalsteinn varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1941. Hann útskrifaðist með BA-próf í sagnfræði frá Bandaríkjunum árið 1944. Kenndi við MA 1944 -1985. Aðalsteinn vann mörg sumur sem afleysingamaður í banka. Hann annaðist tekjubókhald fyrir Flugfélag Norðurlands og síðar Flugfélag Íslands. Eiginkona Aðalsteins var Alise Julia Soll Sigurðsson, grafískur hönnuður, þau eignuðust einn son.

Ari Trausti Guðmundsson (1948-

  • S02471
  • Person
  • 3. des. 1948-

Ari Trausti er fæddur í Reykjavík. Hann er jarðfræðingur og hefur skrifað fjölda rita um jarðfræði og náttúru Íslands.

Anna Ólafsdóttir (1955-

  • S02473
  • Person
  • 25. júlí 1955-

Anna er fædd í Reykjavík árið 1955, dóttir hjónanna Jónínu Tryggvadóttur Kvaran og Ólafs Kristjánssonar. Hún er tónlistarkennari. Gift Pálma Gunnarssyni tónlistarmanni. Þau eiga tvær dætur.

Guðmundur Friðfinnsson (1905-2004)

  • S02435
  • Person
  • 9. des. 1905 - 4. des. 2004

Guðmundur fæddist á Egilsá, sonur hjónanna Friðfinns Jóhannssonar og Kristínar Guðmundsdóttur. Guðmundur stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og búfræði á Hólum í Hjaltadal. Hann bjó alla sína tíð á Egilsá og stundaði ritstörf meðfram búskap. Alls komu út sextán bækur eftir hann, auk fjölda greina í blöð og tímarit. Guðmundur var mikill áhugamaður um skógrækt og var einn af stofnendum Norðurlandsskóga. Eiginkona hans var Anna Sigurbjörg Gunnarsdóttir frá Keflavík, þau eignuðust þrjár dætur.

Hálfdan Örlygsson (1956

  • S02337
  • Person
  • 1956

Sonur Örlygs Hálfdanarsonar og Þóru Þorgeirsdóttur. Starfar við bókaútgáfu. Leiðsögumaður.

Pétur Pétursson (1918-2007)

  • S02477
  • Person
  • 16. okt. 1918 - 23. apríl 2007

Pétur var fæddur á Eyrarbakka, sonur hjónanna Elísabetar Jónsdóttur og Péturs Guðmundssonar. Pétur fluttist til Reykjavíkur ásamt móður sinni og systkinum árið 1923. Hann gekk í barnaskóla Reykjavíkur og Landakotsskóla. Ungur að aldri gerðist hann sendisveinn hjá Útvegsbanka Íslands og síðar bankamaður þar. Pétur stundaði nám við lýðháskóla í Svíþjóð og Pitman´s College í Bretlandi. Árið 1941 var Pétur ráðinn þulur við Ríkisútvarpið og starfaði þar til 1955. Þá fékkst hann við verslunarrekstur um tíma, en hóf aftur störf við Ríkisútvarpið árið 1970 og lauk þar starfsævi sinni. Hann var afar farsæll útvarpsmaður. Pétur skrifaði fjölmargar greinar í blöð, m.a. um sögulegt efni. Hann gerði fjölda útvarpsþátta, einkum viðtalsþætti. Pétur var verkalýðssinni og sjálfmenntaður fræðimaður sem naut virðingar m.a. sagnfræðinga. Pétur kvæntist Birnu Jónsdóttur og eignuðust þau eina dóttur.

Sigurður Lárusson (1918-2011)

  • S02491
  • Person
  • 11. apríl 1918 - 12. jan. 2011

Sigurður fæddist í Neskaupstað, sonur hjónanna Lárusar Ásmundssonar og Dagbjartar Sigurðardóttur. Hann ólst upp við sjómennsku og varð síðar skipstjóri hjá bróður sínum Óskari. Sjálfur gerði Sigurður út skipið Hrönn frá Fáskrúðsfirði og Sigurfara hinn fyrri og síðar hinn seinni. Síðast vann Sigurður hjá fiskiðju kaupfélagsins á Höfn. Hann var kvæntur Katrínu Ásgeirsdóttur, þau eignuðust átta börn.

Örlygur Steinn Sigurjónsson (1970

  • S02482
  • Person
  • 1970

Örlygur fæddist í Reykjavík 1970. Hann er með BA -próf í íslensku og heimspeki og próf í hagnýtri fjölmiðlun.

Guðni Halldórsson (1954-

  • S02486
  • Person
  • 8. feb. 1954-

Guðni fæddist á Húsavík. Var ráðinn forstöðumaður Safnahússins á Húsavík árið 1992, hann sinnti því starfi til 2008. Hann er með Ba-próf í sagnfræði og bókmenntum.

Helga Jónsdóttir

  • S02488
  • Person
  • Ekki vitað

Ekki vitað. Bréf fjallar um sleðanotkun á Meðallandi og Síðu.

Sigurjón Sigtryggsson (1916-1993)

  • S02512
  • Person
  • 2. júlí 1916 - 10. maí 1993

Sigurjón var fæddur á Hæringsstöðum í Svarfaðardal. Foreldrar hans voru Sigtryggur Davíðsson sjómaður og kona hans Sigríður Jóhannesdóttir húsfreyja. Sigurjón flutti til Siglufjarðar árið 1945 og bjó þar alla tíð síðan. Hann var kvæntur Kristbjörgu Ásgeirsdóttur og eignuðust þau þrjú börn. Sigurjón fékkst mikið við fræðistörf á efri árum og skrifaði hann greinar í tímarit og var í ritstjórn Siglfirðingabókar þar sem birtar voru greinar eftir hann. Sjóferðaminningar voru gefnar út 1981 og síðar kom út þriggja binda verk, Frá Hvanndölum til Úlfsdala.

Sigurður Gunnarsson (1912-1996)

  • S02496
  • Person
  • 10. okt. 1912 - 23. apríl 1996

Sigurður fæddist á Skógum í Öxarfirði. Foreldrar hans voru Kristveig Björnsdóttir húsfreyja og Gunnar Árnason bóndi. Eftir að Sigurður lauk námi við Kennaraskóla Íslands kenndi hann í Borgarnesi og Seyðisfirði 1936-1938. Hann var skólastjóri barnaskólans á Húsavík 1940 til 1960. Var æfingakennari við Kennaraskólann 1960-1978. Sigurður skrifaði fjölda greina í blöð og tímarit, en einnig kennslubækur ofl. Hann var afkastamikill þýðandi úr dönsku, norsku og ensku. Sigurður kvæntist Guðrúnu Karlsdóttur, þau eignuðust þrjá syni.

Sigurlaug Árnadóttir (1910-2002)

  • S02497
  • Person
  • 6. feb. 1910 - 26. júní 2002

Sigurlaug var fædd á Sauðárkróki, foreldrar hennar voru hjónin sr. Árni Björnsson prestur á Sauðárkróki 1887-1913 og k.h. Líney Sigurjónsdóttir. ,,Eftir að Sigurlaug lauk námi frá Kvennaskólanum í Reykjavík hóf hún nám við Hjúkrunarskóla Íslands og útskrifaðist árið 1933. Fór síðan í frekara nám í Belgíu og Englandi í eitt ár. Sigurlaug vann á Hvítabandinu og Röntgendeild Landsspítala 1934 -1937. Sigurlaug giftist 8.8. 1937 Skafta Benediktssyni frá Hlíð í Lóni, þau keyptu jörðina Hraunkot í Lóni og bjuggu þar frá hausti 1937. Hún var organisti í Stafafellskirkju í hartnær 60 ár. Sigurlaug starfaði mikið að félags - og menningarmálum. Hún sat lengi í hreppsnefnd Bæjarhrepps og var með fyrstu konum á Íslandi til að gegna því starfi. Hún sat lengi í formannaráði Kvenfélagasambands Íslands og sat landsþing þess. Hún sat einnig fulltrúaráðsfundi og landsfundi Kvenréttindafélags Íslands, og á vettvangi þess bar hún árið 1952 upp tillögu um að í hverri sveitarstjórn, nefnd og ráði á Íslandi skyldi sitja að minnsta kosti ein kona. Sigurlaug átti lengi sæti í hreppsnefnd Bæjarhrepps og var ein fyrsta kona á Íslandi til að gegna því starfi. Hún sat í Byggðasafnsnefnd og Þjóðhátíðarnefnd Austur-Skaftafellssýslu 1975. Sigurlaug sá um útgáfu á bókum Guðlaugar mágkonu sinnar og las sögur hennar upp í útvarpi ásamt frumsömdum erindum sínum. Hún þýddi einnig allmargar bækur og sá um útgáfu þeirra. Fyrir störf sín að félags- og menningarmálum fékk hún riddarakross Fálkaorðunnar árið 1975. Sigurlaug var frumkvöðull í garðrækt. Þau Skafti komu upp skrúðgarði þar sem hún kom upp af fræjum ýmsum skrautjurtum frá fjarlægum heimshlutum. Hún fékk fyrir þau störf viðurkenningar víða að, þar á meðal frá Garðyrkjufélagi Íslands árið 1985. Auk allra annarra starfa gegndi Sigurlaug mikilvægu uppeldisstarfi. Hún fóstraði mikinn fjölda sumarbarna." Sigurlaug og Skafti áttu einn fósturson.

Jón Sigurðsson (1912-1996)

  • S02498
  • Person
  • 26.05.1912-06.11.1996

Sagður vera frá Minnaholti í Fljótum, samkvæmt spjaldskrá.

Sigríður Thorlacius (1913-2009)

  • S02523
  • Person
  • 13. nóv. 1913 - 29. júní 2009

Sigríður var fædd að Völlum í Svarfaðardal árið 1913 og þar ólst hún upp, en flutti svo til Reykjavíkur. Foreldrar hennar voru hjónin Sólveig Pétursdóttir Eggertz og sr. Stefán Baldvin Kristinsson. Sigríður lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1932 og starfaði við verslunarstörf 1933- 1937. Einnig vann hún hjá Tryggingastofnun ríkisins frá 1937-1942. Sigríður var þingritari og starfaði á skrifstofu Alþingis. Hún vann að þýðingum og og gerð útvarpsþátta. Hún skrifaði, ásamt eiginmanni sínum, Ferðabók sem kom út 1962. Sigríður starfaði fyrir Framsóknarflokkinn, var m.a. varamaður í borgarstjórn, átti sæti í fræðslu - og félagsmálaráði, svo eitthvað sé nefnt. Hún varð heiðursfélagi Kvenfélagasambands Íslands 1980 og heiðursfélagi hjá Styrktarfélagi vangefinna 1993. Hún var gift Birgi Torlaciusi frá Búlandsnesi í Suður-Múlasýslu.

Steinunn Sveinbjörnsdóttir (1917-2005)

  • S02522
  • Person
  • 12. maí 1917 - 17. jan. 2005

Steinunn fæddist á Sólgörðum á Dalvík, dóttir hjónanna Ingibjargar Antonsdóttur og Sveinbjörns Tryggva Jóhannssonar útgerðarmanns. Steinunn giftist Steingrími Þorsteinssyni kennara á Dalvík, þau eignuðust þrjú börn. Steinunn stundaði nám við gagnfræðadeild Menntaskólans á Akureyri og síðan nám við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði, 1940-1941. Steinunn vann um hríð skrifstofustörf hjá Kaupfélagi Svarfdæla á Dalvík, en síðar hjá Héraðsskjalasafni Svarfdæla. Hún var mjög virk í starfsemi Slysavarnarfélagsins á Dalvík.

Sigrún Einarsdóttir (1947-

  • S02524
  • Person
  • 1947-

Sigrún er kennari að mennt og býr í Reykjavík. Hún kvæntist Kristni Bjarna Jóhannssyni lækni. Þau eiga þrjú uppkomin börn.

Sigríður Guðbjörg Jóhannsdóttir (1894-1962)

  • S03170
  • Person
  • 19.11.1894-19.02.1962

Sigríður Guðbjörg Jóhannsdóttir, f. 19.11.1894, d. 19.02.1962. Foreldrar: Jóhann Oddsson (07.07.1864-14.04.1949), búsettur á Siglunesi og víðar, og kona hans Jóhanna Friðbjarnardóttir (26.08.1863-10.09.1897). Ólst upp á Siglunesi og víðar. Fylgdi föður sínum eftir að móðir hennar dó.
Gift Jóhanni Friðgeiri Steinssyni smið á Akureyri. Skráð húsfreyja þar árið 1930. Skráð leigjandi í Hafnarstræti 63 á Akureyri í manntali árið 1920, þá ógift. Sigríður og Jóhann eignuðust sex dætur.
Sigríður kom að uppbyggingu drengjaheimilisins að Ástjörn og stofnaði sjóð til styrktar heimilinu.
Sigríður var móðuramma Jóhanns Friðgeirs Valdimarssonar söngvara.

Jón Rögnvaldsson (1807-1886)

  • S03463
  • Person
  • 1807-1886

Jón Rögnvaldsson, f. á Kleif á Skaga1807, d. 1886 í Vesturheimi. Foreldrar: Rögnvaldur Jónsson bóndi á Kleif og kona hans Margrét Pétursdóttir. Jón ólst upp með foreldrum sínum og varð snemma hinn gjörvilegasti maður. Hamm hóf búskap á hluta Hvamms í Laxárdal og bjó þar 1837-1838. Á Gauksstöðum 1838-1843 og Hóli 1843-1874. Þá brá hann búi og flutti til Vesturheims. Jón var hreppstjóri Skefilsstaðahrepps 1862-1865 en sagði þá starfinu af sér. Hann smíðaði fjölda skipa. Vestra fékkst hann við skriftir um landsnám Íslendinga í Kanada og fleira. Synir Jóns í Vesturheimi tóku upp nafnið Hillmann.
Maki 1. Guðrún Jónsdóttir (1809-1846). Þau eignðust þrjú börn sem upp komust.
Maki 2: Una Guðbrandsdóttir (1814-1872). Þau eignuðust fjögur börn sem upp komust.

Álfur Ketilsson (1939-2020)

  • S03564
  • Person
  • 07.10.1939-20.04.2020

Álfur Ketilsson, f. á Ytra-Fjalli í Aðaldal 07.10.1939, d. 20.04.2020. Foreldrar: Jóhanna Hólmfríður Björnsdóttir og Ketill Indriðason. Eftir barnaskólanám fór Álfur í Héraðsskólann á Laugum og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Síðan fór hann í Samvinnuskólann á Bifröst og síðan í starfsþjálfun hjá SÍS. Vann hann við kaupfélög á Akureyri, Ólafsvík, Hellissandi, Tálknafirði og Sauðárkróki. Hjá Kaupfélagi Skagfirðinga vann hann svo til starfsloka, lengst af sem skrifstofustjóri. Hann og Margrét voru búsett í Brennigerði og stunduðu skógrækt þar á síðari árum.
Maki: Margrét Stefánsdóttir (f. 1942). Þau eignuðust tvö börn.

Ólafur Jóhann Gunnlaugsson Briem (1884-1944)

  • S00457
  • Person
  • 14. júlí 1884 - 19. nóv. 1944

Ólafur Jóhann var sonur Gunnlaugs Briem, alþm. og verslunarstjóra í Hafnarfirði og Frederike C.J. Claessen. Ólafur Jóhann var framkvæmdastjóri í Reykjavík. Hann kvæntist Önnu Valgerðu Claessen Briem en þau voru systkinabörn þar sem Jean Valgard faðir Önnu var bróðir Frederike móður Ólafs. Anna og Ólafur eignuðust fimm börn.

Anna Jóhannsdóttir (1930-1998)

  • S02650
  • Person
  • 3. okt. 1930 - 13. mars 1998

Anna fæddist í Neskaupstað. Foreldrar: Jóhann Sveinsson og Klara Hjelm. Maki: Þorsteinn Árnason læknir frá Sjávarborg í Skagafirði, þau eignuðust fjögur börn. Anna og Þorsteinn bjuggu á Neskaupsstað 1953-1964, síðan á Sjávarborg um tíma.

Anna Karólína Nordal (1902- 1998)

  • Person
  • 1902-1998

Anna fæddist í Kanada og kom aldrei til Íslands. Foreldrar: Rósa Davíðsdóttir Nordal og Lárus Bjarni Rafnsson Nordal.

Anna Snorradóttir

  • S0
  • Person

Anna Snorradóttir( Sigfússonar frá Dalvík), Reykjavík. Faðir hennar var ættaður frá Brekku í Svarfaðardal. Hann var námstjóri á Akureyri.

Auður Þorbjörnsdóttir (1926-2001)

  • Person
  • 1926-2001

Auðbjörg stundaði nám við Alþýðuskólann á Hvítárbakka árið 1930.
Hún var húsfreyja á Hafurstöðum í Húnavatnssýslu. Bjó síðast á Blönduósi.

Árni Finnbjörnsson ( 1921-2005)

  • Person
  • 1921-2005

Árni var fæddur á Hesteyri við Norður Ísafjarðardjúp. Árni ólst upp á Ísafirði. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Að námi loknu vann Árni viðtryggingastörf og varð framkvæmdastjóri Íslenska vöruskiptafélagsins 1953-1956, sölustjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna á meginlandi Evrópu með aðsetur í Berlín. Var Ræðismaður í Prag. Bjó síðast í Reykjavík. Framkvæmdastjóri í Reykjavík.

Árni Kristjánsson (1915-1974)

  • S03297
  • Person
  • 12.07.1915-04.07.1974

Árni Kristjánsson, f. á Finnastöðum í LJósavatnshreppi í Suður-Þingeyjasýslu 12.07.1915, d. 04.07.1974. Foreldrar: Kristján Árnason og Halldóra Sigurbjarnardóttir. Árni varð gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri 1934 og stúdent þaðan utanskóla 1937. Hann lauk kennaraprófi 1938 og cand mag. prófi í íslensku fræðum frá HÍ 1943. Hann var stundakennari við Samvinnuskólann 1937-1942 og 1943-1952, og við Kvennaskólann f Reykjavík1944-1945. Árni var starfsmaður Orðabókarháskólans 1944-1952 og kennari
við Menntaskólann á Akureyri 1952-1972, er hann tók við forstöðu Amtsbókasafnsins á Akureyri og grundvallaði héraðsskjalasafnið. Sumarið Sumarið áður en hann lést lét hann af stöðu amtsbókavarðar og hóf aftur kennslu við M.A. að hausti, en vanheilsa lamaði þá fljótt starfsgetu hans.
Maki: Hólmfríður Jónsdóttir frá Ystafelli. Þau eignuðust fimm börn.

Ásdís Steingrímsdóttir (1931-2018)

  • Person
  • (1931-2018)

Ásdís fæddist í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Steingrímur Gunnarsson og Þuríður Guðjónsdóttir. Ásdís starfaði lengi sem skrifstofumaður. Hún var sjúkraliði að mennt og starfaði við það þar til hún lauk starfsæfi sinni. Hún var gift Guðjóni Jónssyni bifreiðastjóra.Þau eignuðust þrjú börn: Sigurður 1952, Sigrún 1953, Steingrímur 1956.
Sigurður er eiginmaður Guðrúnar dóttur Kristmundar.

Sigurður Sigurðsson (1879-1939)

  • S03292
  • Person
  • 15.09.1879-04.08.1939

Sigurður Sigurðsson, f. í Kaupmannahöfn 15.09.1879, d. 04.08.1939. Faðir hans var við nám í Danmörku en móðir hans var dönsk. Sigurður fór til Íslands á vegum föður síns sem drukknaði þegar hann var fimm ára gamall. Eftir það ólst Sigurður upp hjá Birni M. Ólsen rektor Lærða skólans. Þar lærði Sigurður en hætti námi í 6. bekk. Sigurður lagði síðar stund á lyfjafræði bæði á Íslandi og erlendis. Sigurður var lyfsali í Vestmannaeyjum frá 1913-1931 en fluttist þá til Reykjavíkur og bjó þar til dauðadags. Hann var fyrsti lyfsali í Vestmannaeyjum og bjó hann að Arnarholti við Vestmannabraut. Hann nefndi húsið Arnarholt en áður hét það Stakkahlíð. Sigurður var einn af helstu hvatamönnum þess að Björgunarfélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1918. Sigurður var einn af máttarstólpum Björgunarfélagsins fyrstu ár þess og tók virkan þátt í starfi þess frá byrjun. Það var hann sem fór og keypti björgunarskip fyrir hönd félagsins og var skipið Þór fyrsta björgunar- og varðskip Íslendinga. Ljóð sín gaf Sigurður fyrst út í bók sem hét Tvístirnið. Eftir það hafa komið út fjórar útgáfur af ljóðum hans. Sigurður hafði einnig viðurnefnið slembir og skáld.
Maki: Anna Guðrún Pálsdóttir (1882-1959). Þau eignuðust eina dóttur.

Baldvin Ringsted (1914 - 1988)

  • S0
  • Person
  • (1914-1988)

Baldvin var fæddur á Kljáströnd í Grýtubakkahreppi árið 1914. Hann var tannlæknir á Akureyri

Jón Gunnlaugsson (1915-1984)

  • S03341
  • Person
  • 15.11.1915-12.04.1984

Jón Gunnlaugsson, f. á Ytri-Kotum í Norðurárdal 15.11.1915, d. 12.04.1984 á Akranesi. Foreldrar: Gunnlaugur Guðmundsson bóndi á Bakka í Vallhólmi og kona hans Friðbjörg Halldórsdóttir. Jón ólst upp hjá foreldrum sínum á Ytri-Kotum til níu ára aldurs, síðan eitt ár á Uppsölum og annað á Sólheimagerði. Á Grófargili í tvö ár, Ípishóli í fimm ár og var síðan búsettur á Bakka frá 1933 og bóndi þar á hluta af jörðinni 1938-1941. Haustið 1933 fór hann í Bóndaskólann á Hólum og var þar til vors 1934. Kom aftur seinni hluta vetrar 1935 en var þá við smíðanám. Árið 1936 kvæntist hann fyrri konu sinni. Það ár keypti hann vörubifreið og fór að stunda margskonar flutninga. Vorið 1941 fór fjölskyldan að Víðimýri og var þar í eitt ár. Þau Soffía skildu og Jón fór til Siglufjarðar 1942, með seinni konu sinni. Þar vann hann við bifreiðaakstur en stundaði jafnframt ökukennslu. Einnig lærði hann að gera tundurdufl óvirk og fékkst við það. Árið 1952 fluttist Jón til Akraness og stundaði þar bifreiðaakstur. Jón hafði góða söngrödd og söng með Karlakórnum Vísi á Siglufirði og Karlakórnum Svönum á Akranesi.
Maki 1: Soffía Jónsdóttir (1910-2006). Þau eignuðust tvö syni.
Maki 2: María Nálsdóttir (1917-2003). Þau eignuðust einn son.

Bjarni Á. Jóhannnsson (1926-2002)

  • S0
  • Person
  • 1926-2002

Bjarni var fæddur í Grafargerði á Höfðaströnd í Skagafirði. Foreldrar hans voru Jóhann Ólafsson og Guðleif Jóhannsdóttir Miðhúsum Skagafirði. Bjarni reisti nýbýli úr landi Mannskaðahóls á Höfðaströnd. Hann var kennari í Hofsósi.

Sigurbjörg Jónsdóttir (1849-1918)

  • S03142
  • Person
  • 16. júní 1849 - 13. okt. 1918

Foreldrar: Guðrún Jónsdóttir og Jón Guðmundsson síðast b. á Gautastöðum í Stíflu. Áður en Sigríður kvæntist var hún alllengi þjónustustúlka hjá V. Claessen á Sauðárkróki. Sigurbjörg kvæntist Þorsteini Sigurðssyni trésmíðameistara á Sauðárkróki, þau eignuðust einn son. Þau bjuggu á Sauðárkróki til ársins 1907 er Þorsteinn og sonur þeirra fóru til Vesturheims. Talið er að Sigurbjörg hafi búið hjá Claessen fjölskyldunni í Reykjavík þar til hún fór einnig til Vesturheims árið 1912.

Steinn Marínó Snorrason (1891-óvíst)

  • S02769
  • Person
  • 13. maí 1891-óvíst

Steinn Marinó Snorrason, f. 13.05.1891. Ekki er vitað hvenær Steinar lést, en hann mun hafa verið ungur. Foreldrar: Snorri Bessason, f. 1862 og Anna Björnsdóttir, f. 1867, þá búsett í Stóragerði í Óslandshlíð. Maki: Steinunn Ísaksdóttir, f. 02.12.1890, d. 17.12.1962. Steinunn er skráð á Lambanes-Reykjum 1901 en var hjúkrunarkona á Siglufirði um 1930. Þau eignuðust eina dóttur.

Benedikt Halldórsson (1868-1951)

  • S03168
  • Person
  • 21.07.1870-26.10.1951

Benedikt Dagbjartur Halldórsson, f. að Miðhúsum í Álftaneshreppi í Mýrasýslu 21.07.1870, d. 16.101.1951 á Sauðárkróki.
Foreldrar: Halldór Björnsson smiður og kona hans Margrét Sölvadóttir frá Steini á Reykjaströnd.
Benedikt ólst upp hjá foreldrum sínum og missti móður sína 17 ára gamall. Fór hann þá með föður sínum til Reykjavíkur og stundaði smíðar og sjósókn á vertíðum á Suðurnesjum. Kom svo til Skagafjarðar og vann að byggingum. Byrjaði búskap á hálfri jörðinni Keldudal 1901 á móti tengdaföður sínum og bjó þar til 1922. Varð hann þá ráðsmaður hjá systur konu sinnar Sigurlaugu í Keldudal. Þau fluttu til Sauðárkróks 1931 og keypti hann þar húsið við Skagfirðingabraut 10. Benedikt tók þátt í ýmsum félagsstörfum og sat lengi í hreppsnefnd.
Maki gift 18.05.1900): Ragnheiður Sigurðardóttir (06.12.1877-03.08.1904).
Launbarn Benedikts með bústýru sinni, Sigurlaugu Sigurðurdóttur, alsystur Ragnheiðar, var Sigurður Benediktsson, f. 03.08.1905.

Elín Vigfúsdóttir (1841-1916)

  • S02720
  • Person
  • 24. des. 1841 - 15. apríl 1914

Foreldrar: Vigfús Vigfússon, f. 1814, bóndi á Geirmundarstöðum og fyrri kona hans, María Jónsdóttir, f. um 1804. Maki: Stefán Sölvason bóndi á Daðastöðum á Reykjaströnd, f. um 1841. Þau eignuðust tvö börn. Eftir lát Stefáns bjó Elín áfram á Daðastöðum til 1902 en brá þá búi og flutti með dóttur sinni að Hólakoti á Reykjaströnd og dvaldi hjá henni til æviloka.

Verónika Franzdóttir (1896-1988)

  • S02588
  • Person
  • 14. mars 1896 - 14. maí 1988

Foreldrar: Franz Jónatansson b. og kennari í Málmey og k.h. Jóhanna Gunnarsdóttir. Verónika ólst upp hjá foreldrum sínum, fyrst á Höfðaströnd og síðan í Málmey. Árið 1914 fóru þau að Skálá og varð það heimili hennar næstu fjóra áratugina. Einn vetur var hún í skóla á Sauðárkróki og veturinn 1916 á húsmæðraskóla í Reykjavík. Hún kunni bæði söngstjórn og orgelleik. Kvæntist árið 1918 Eiði Sigurjónssyni frá Óslandi og tóku þau við búsforráðum á Skálá af foreldrum hennar það sama ár og bjuggu til 1954 er þau fluttu til Reykjavíkur. Í Reykjavík starfaði Verónika á Elliheimilinu Grund. Verónika og Eiður eignuðust fjögur börn.

Niðurstöður 766 to 850 of 3772