Sýnir 7 niðurstöður

Nafnspjöld
Miðhús í Blönduhlíð

Jón Gíslason (1893-1976)

  • S00590
  • Person
  • 15.10.1893-30.08.1976

Sonur Gísla Þorfinnssonar og Guðrúnar Jónsdóttur. Bóndi í Miðhúsum á árunum 1922-1966. Jón var vinsæll félagsmaður í öllum störfum. Hann var hreppsnefndarmaður Akrahrepps um a.m.k. átta ára skeið og fjallskilastjóri jafnlengi. Mörg sumur var hann varðmaður við Héraðsvötn á vegum sauðfárveikivarna og í fjölda ára fulltrúi á aðalfundum Kaupfélags Skagfirðinga. Jón var ókvæntur og barnlaus. Aðalbjörg systir Jóns var bústýra hjá honum í Miðhúsum, saman tóku þau í fóstur rúmlega ársgamlan systurson sinn og ólu hann upp.

Aðalbjörg Vagnsdóttir (1893-1951)

  • S02015
  • Person
  • 14. feb. 1893 - 16. ágúst 1951

Foreldrar: Vagn Eiríksson b. í Miðhúsum í Blönduhlíð og k.h. Þrúður Jónsdóttir. Faðir hennar lést þegar hún var aðeins fimm ára gömul, móðir hennar bjó áfram í Miðhúsum með börnin í tvö ár en var eftir það í húsmennsku. Kvæntist Kristjáni R. Gíslasyni frá Grundarkoti í Blönduhlíð, þau bjuggu á Minni-Ökrum frá 1914-1927 er þau fóru í húsmennsku að Bjarnastöðum í Blönduhlíð. Voru svo í húsmennsku á Bakka í Vallhólmi og á Hjaltastöðum. Fluttu til Sauðárkróks árið 1930. Eftir að þau hættu búskap á Minni-Ökrum var Aðalbjörg ráðskona í vegavinnu hjá Rögnvaldi Jónssyni frá Kotum. Árið 1945 fluttu þau til Reykjavíkur, þau eignuðust sex börn.

Þrúður Jónsdóttir (1821-1906)

  • S02016
  • Person
  • 16. sept. 1821 - 1906

Þrúður fæddist í Stokkhólma í Vallhólmi, dóttir Jóns ,,sterka" Guðmundssonar b. á Hafgrímsstöðum og k.h. Þrúðar Jónsdóttur. Þrúður ólst upp hjá foreldrum sínum, en missti föður sinn árið 1831. Hún var hjá móður sinni og stjúpa, Gunnari Guðmundssyni, á Hafgrímsstöðum 1831-1839. Vann að búi þeirra í Stapa í Tungusveit 1839-48 en var í vist hjá tengdaforeldrum sínum í Glæsibæ 1848-1849. Kvæntist Jóni Björnssyni frá Glæsibæ í Staðarhreppi, þau bjuggu í Miðhúsum. Eftir lát Jóns brá hún búi og eftirlét Þrúði dóttur sinni jarðnæðið og var hjá henni í Miðhúsum 1885-1900 og hjá Guðrúnu dóttur sinni á s.st. til æviloka. Átti hún Miðhús til dauðadags. Þrúður og Jón eignuðust tólf börn

Sigríður Sigurbjörg Garðarsdóttir (1952-)

  • S01235
  • Person
  • 01.01.1952

Sigríður Sigurbjörg Garðarsdóttir fæddist 1. janúar 1952. Dóttir Svanhildar Steinsdóttur og Garðars Björnssonar í Neðra-Ási.
Hún býr í Miðhúsum II í Akrahreppi í Skagafirði ásamt manni sínum Jóni Stefáni Gíslasyni (1950-).

Eiríkur Gíslason (1872-1952)

  • S03470
  • Person
  • 02.12.1872-20.08.1952

Eiríkur Gíslason, f. á Höskuldsstöðum 02.12.1872, d. 20.08.1952 á Tyrfingsstöðum. Foreldrar: Gísli Þorláksson og María Jónsdóttir. Fyrstu æviár sín var Eiríkur á hrakningi í Blönduhlíð, en lenti í Sólheimum á barnsaldri og var þar að mestu til tvítugs. Hirti um árabil suaði Helga ríka í Fjallhúsum. Hann var í vinnumennsku á ýmsum stöðum á Kjálka og Austurdal. Auk þess eitt ár í Fagranesi á Reykjaströnd. Þangað fluttist hann með Friðfinni Kristjánssyni frá Ábæ. Fluttist hann svo aftur fram til dala. Um 1910 gerðist hann húsmaður á Merkigili og fékk eyðibýlið Miðhús til afnota. Þar var hann með sauðfjárbú og hesta. Árið 1927 fluttist hann að Tyrfingsstöðum til sonar síns og var þar til æviloka í húsmennsku.
Einar giftist ekki en átti barn með Ólöfu Jónsdóttur frá Hóli í Siglufirði.
Ráðskona Eiríks um skeið var Inga Guðrún Guðmundsdóttir.

Rósa Eiríksdóttir (1791 - fyrir 1855)

  • S01691
  • Person
  • 1791 - fyrir 1855

Var á Hólum, Bakkasókn, Eyj. 1801. Vinnhjú á Steinsstöðum, Bakkasókn, Eyj. 1816. Í manntalinu 1835 er Rósa skráð sem vinnukona á Stóru-Ökrum, gift Hallgrími Hallgrímssyni vinnumanni á sama stað. Í manntalinu 1840 og 1845 er hún skráð sem húsfreyja í Miðhúsum í Miklabæjarsókn, Skagafirði og býr þar ásamt fyrrgreindum eiginmanni. Í manntalinu 1850 er hún, ásamt Hallgrími, skráð til heimilis á Minniakragerði. Eftir það er ekki frekari upplýsingar að finna.

Gísli Þorfinnsson (1866-1936)

  • S03266
  • Person
  • 23.09.1866-26.05.1936

Gísli Þorfinnsson, f. að Ási í Hegranesi 23.09.1866, d. 26.05.1936 á Sauðárkróki. Foreldrar: Þorfinnur Hallsson og Guðrún Björnsdóttir ógift vinnuhjú í Ási. Gísli ólst upp á vegum móður sinnar sem var vinnukona á ýmsum stöðum. Er Gísli var á áttunda ári missti hann móður sína og fór um það leyti að Litlu-Brekku á Höfðaströnd. Þar var hann á vegum Arnfríðar ömmu sinnar en fór sem vinnumaður í fram í Blönduhlíð 17 ára gamall. Meðan hann var í Litlu-Brekku tók hann að stunda sjómennsku ungur að árum og reri eina eða tvær Drangeyjarvertíðir og fór einnig á Suðurnes til sjóróðra. Hann var bóndi á Meyjarlandi á Reykjaströnd 1892-1893, Minni-Ökrum 1893-1900, Miðhúsum 1900-1936. Síðustu árin bjó hann á litlum hluta jarðarinnar á móti Jóni syni sínum. Gísli var bæði góð skytta og vefari.
Maki: Guðrún Jónsdóttir (06.07.1863-07.01.1941). Þau eignuðust níu börn en tvö þeirra dóu ung.