Showing 7 results

Authority record
Kennari

Eva Mjallhvít Snæbjörnsdóttir (1930-2010)

 • S00642
 • Person
 • 07.08.1930-05.04.2010

,,Foreldrar hennar voru Snæbjörn Sigurgeirsson, bakarameistari á Sauðárkróki og Ólína Björnsdóttir. Guðjón Sigurðsson seinni maður Ólínu, gekk Evu í föðurstað eftir fráfall Snæbjörns. Eiginmaður Evu var Kári Jónsson, stöðvarstjóri Pósts og síma á Sauðárkróki. Þau gengu í hjónaband 28. apríl 1960 og eignuðust tvo syni. Eva ólst upp á Sauðárkróki en lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar 1948. Hún hélt þá til Reykjavíkur í tónlistarnám. Hún lagði stund á píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Hermínu Björnsdóttur og síðar Rögnvaldar Sigurjónssonar. Hún lauk burtfararprófi frá skólanum árið 1953. Á árunum 1953-1956 stundaði Eva framhaldsnám í píanóleik í New York í Bandaríkjunum. Eftir að Eva sneri heim settist hún að í heimabæ sínum Sauðárkróki og stundaði einkakennslu á píanó frá árinu 1957. Við stofnun Tónlistarskólans á Sauðárkróki var Eva fastráðinn kennari árið 1965 og árið 1974 tók hún við skólastjórn af Eyþóri Stefánssyni tónskáldi. Uppbygging og viðgangur tónlistarskólans var hugðarefni Evu en hún lét af störfum árið 1999 eftir 34 ára starf við skólann. Fyrstu árin eftir starfslok hélt Eva þó áfram að stunda kennslu í hlutastarfi. Eva tók á árum áður virkan þátt í starfi Leikfélags Sauðárkróks ásamt Kára eiginmanni sínum. Síðasta hlutverk Evu var Kate, eiginkonan í Allir synir mínir eftir Arthur Miller, sem Leikfélagið frumsýndi í febrúar 1972 í leikstjórn Kára. Áður hafði Eva meðal annars farið með hlutverk Höllu í Fjalla-Eyvindi eftir Jóhann Sigurjónsson árið 1963 og með eitt aðalhlutverka í Skálholti eftir Guð- mund Kamban. Síðustu æviárin bjó Eva á Seltjarnarnesi."

Guðjón Ingimundarson (1915-2004)

 • S00240
 • Person
 • 12. janúar 1915 - 15. mars 2004

Guðjón Ingimundarson kennari fæddist á Svanshóli í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu 12. janúar 1915. Foreldrar Guðjóns voru Ingimundur Jónsson og Ólöf Ingimundardóttir bændur á Svanshóli. Guðjón kvæntist 27.5. 1944 Ingibjörgu Kristjánsdóttur frá Nautabúi, f. 11.9. 1922, þau eignuðust sjö börn
,,Guðjón lauk prófi frá Héraðsskólanum í Reykholti 1934, íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni 1937 og smíðakennaraprófi frá Handíðaskólanum í Reykjavík 1944. Hann stundaði nám í teiknikennaradeild seinni hluta vetrar 1948 og sótti ýmis endurmenntunarnámskeið varðandi sund-, handavinnu- og íþróttakennslu. Guðjón var kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni 1937-1941. Hann flutti til Sauðárkróks 1941 og bjó þar til dauðadags. Guðjón var kennari við skólana á Sauðárkróki 1941-1974 og sundkennari á vornámskeiðum í Varmahlíð 1940-1956. Guðjón var forstjóri Sundlaugar Sauðárkróks og sundkennari 1957-1986. Hann hafði umsjón með Námsflokkum Sauðárkróks 1974-1979 og kenndi á ýmsum námskeiðum. Alla sína ævi tók Guðjón mikinn þátt í félagsmálum, m.a. var hann bæjarfulltrúi á Sauðárkróki fyrir Framsóknarflokkinn 1950-1974 og forseti bæjarstjórnar 1966-1970. Hann var formaður íþróttanefndar Sauðárkróks 1946-1978, í skólanefnd um árabil og formaður hennar 1974-1978, í fræðsluráði Norðurlands vestra 1974-1978, í stjórn Fiskivers Sauðárkróks hf. frá stofnun 1957 og Skagfirðings hf. frá 1959 þar til þau félög hættu störfum. Guðjón sat í stjórn Framsóknarfélags Sauðárkróks um langt árabil, var endurskoðandi Kaupfélags Skagfirðinga til fjölda ára, í stjórn Menningarsjóðs KS í mörg ár og formaður fræðuslunefndar þess um skeið. Íþrótta- og ungmennafélagsmál áttu hug hans allan og beitti hann sér mjög fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja og skóla á Sauðárkróki. Hann var í stjórn Ungmennasambands Skagafjarðar 1942-1973 og þar af formaður í 29 ár. Formaður Ungmennafélagsins Tindastóls í fimm ár og í stjórn alls níu ár. Hann var varaformaður Ungmennafélags Íslands 1965-1983 og í sambandsráði Íþróttasambands Íslands um árabil. Guðjón hlaut riddarakross fálkaorðunnar fyrir störf að félagsmálum 1984. Hann var heiðursfélagi Sundfélagsins Grettis á Ströndum, Ungmennasambands Skagafjarðar, Ungmennafélagsins Tindastóls, Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Rotaryklúbbs Sauðárkróks."

Magnús Bjarnason (1899-1975)

 • S00148
 • Person
 • 13.03.1899-13.11.1975

Fæddur í Stóru-Gröf á Langholti. Foreldrar hans voru Bjarni Magnússon járnsmiður á Sauðárkróki og Kristín Jónsdóttir. Systir Magnúsar var Guðrún Bjarnadóttir, móðir Bjarna Haraldssonar (Bjarna Har). Magnús lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1924 og starfaði sem barnakennari í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum næstu níu ár. 1934-1961 starfaði hann sem fastur kennari við Barnaskólann á Sauðárkróki. 1936-1946 starfaði hann einnig við unglingaskólann á Sauðárkróki. Magnús sat bæði í hreppsnefnd Sauðárkrókshrepps um tíma og í bæjarstjórn. Eins starfaði Magnús mikið fyrir Verkamannafélagið Fram á Sauðárkróki, starfaði fyrir Alþýðuflokkinn og sat í stjórn Kaupfélags Skagfirðinga 1946-1961. Magnús var ókvæntur og barnlaus.

Pála Pálsdóttir (1912-1993)

 • S00419
 • Person
 • 25.10.1912 - 29.05.1993

Pála Pálsdóttir fæddist á Hofsósi 25. október 1912. Foreldrar hennar voru Páll Árnason og Halldóra Jóhannsdóttir í Ártúni á Höfðaströnd. Pála útskrifaðist frá Kennaraskóla Íslands 1933. Að námi loknu varð hún kennari, og skólastjóri um tíma, við Barnaskóla Súðavíkur. Þar kenndi hún til vors 1939, að undanskildu árinu 1935, en þá sótti hún kennaranámskeið við lýðháskólann í Askov í Danmörku og í Vadstena í Svíþjóð. Vorið 1939 var hún skipuð kennari við barnaskólann á Hofsósi og gegndi því starfi til 1975, síðar stundakennari til 1977. 11 ára gömul byrjaði hún að læra á orgel og var organisti við Hofskirkju og síðar Fellskirkju frá 1939-1960, einnig í Hofsóskirkju 1960-1972. Hún var frumkvöðull að stofnun Kvenfélagsins Öldunnar í Hofsósi árið 1951 og formaður þess til 1965 og síðan aftur frá 1975. Hún vann einnig töluvert fyrir Samband skagfirskra kvenna.
Hún sæmd hinni íslensku fálkaorðu árið 1983, sérstaklega fyrir framlag sitt til tónlistar og söngmenntunar.
Maður hennar var Þorsteinn Hjálmarsson (1913-1993) póst- og símstöðvarstjóri á Hofsósi, þau eignuðust níu börn.

Sigríður Eggertsdóttir Briem Thorsteinsson (1901-1998)

 • S00708
 • Person
 • 9. júlí 1901 - 2. júlí 1998

Sigríður Briem Thorsteinsson fæddist á Sauðárkróki 9. júlí 1901, dóttir Eggerts Briem þáverandi sýslumanns á Sauðárkróki og Guðrúnar Jónsdóttur frá Auðkúlu. ,,Sigríður stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík 1915-1918. Þá stundaði hún teikninám og handavinnunám í Kaupmannahöfn 1922, enskunám í London 1927 og nam við snið- og handavinnuskóla í Frankfurt am Main 1933. Hún var handavinnukennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1919­-1953. Sigríður sat í stjórn Hjúkrunarfélagsins Líknar og Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur 1943­-1955, var í nefnd til að gera tillögu um handavinnunám í skólum árið 1947, sat í skólanefnd Húsmæðraskóla Reykjavíkur frá 1950 og var formaður skólanefndar Kvennaskólans í Reykjavík 1955­-1983. Sigríður gerðist félagi í Hringnum árið 1921 og í Oddfellowreglunni árið 1939 og starfaði í Rb. stúkunni nr. 1, Bergþóru, meðan heilsan leyfði. Sigríður var sæmd fálkaorðunni fyrir störf sín að líknar- og menningarmálum." Sigríður giftist 6. júní 1953, Magnúsi Sch. Thorsteinsson, forstjóra í Reykjavík.

Stefán Vagnsson (1889-1963)

 • S00027
 • Person
 • 26.05.1889-01.11.1963

Stefán Vagnsson var fæddur í Miðhúsum í Akrahreppi, Skagafirði þann 26. maí 1889. Hann var bóndi, skáld og kennari á Flugumýri, Sólheimum og Hjaltastöðum í Akrahreppi. Hann var síðast búsettur á Sauðárkróki og starfaði þar sem skrifstofumaður. Kona hans var Helga Jónsdóttir (1895-1988). Hann lést á Sauðárkróki 1. nóvember 1963.

Svanhildur Steinsdóttir (1918-2002)

 • S00909
 • Person
 • 17. október 1918 - 26. ágúst 2002

Svanhildur Steinsdóttir fæddist í Neðra-Ási í Hjaltadal 17. okt. 1918. Foreldrar hennar voru hjónin Steinn Stefánsson og Soffía Jónsdóttir. Svanhildur giftist árið 1948 Garðari Björnssyni frá Viðvík og bjuggu þá í Neðra-Ási, þau eignuðust sjö börn og áttu einn fósturson. Svanhildur var kennari í Hólahreppi frá 1940 fram til 1989 með litlum hléum, og lengst af skólastjóri við Grunnskóla Hólahrepps.