Showing 12 results

Authority record
Prestur

Árni Björnsson (1863-1932)

 • S00812
 • Person
 • 1. ágúst 1863 - 26. mars 1932

Fæddur og uppalinn á Höfnum á Skagaströnd. Stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1885, cand. theol. frá Prestaskólanum í Reykjavík 1887 og vígðist Reynistaðarklaustursprestakalls það sama ár. Gegndi hann því prestakalli um 26 ára skeið. Hann hóf búskap á prestssetrinu Fagranesi árið 1889 og nytjaði það að meira eða minna leyti flest prestskaparár sín, en flutti til Sauðárkróks árið 1894, enda hafði prestsetrið verið flutt þangað með lögum frá 1891og kirkja reist þar 1892. Hann var prófastur Skagfirðinga 1908-1913, sýslunefndarmaður í Skagafjarðarsýslu fyrir Sauðárkrók 1906-1913. Tók einnig mikinn þátt í starfi Góðtemplarareglunnar. Sumarið 1913 fékk hann Garða á Álftanesi, þar þjónaði hann í 19 ár. Var einnig prófastur Kjalarnessprófastsdæmis frá 1916 til dauðadags og sýslunefndarmaður í Gullbringusýslu. Bjó síðustu þrjú árin í Hafnarfirði.
Maki: Líney Sigurjónsdóttir frá Laxamýri í Aðaldal, þau eignuðust 12 börn.

Árni Sigurðsson (1927-2020)

 • S00242
 • Person
 • 13. nóv. 1927 - 26. okt. 2020

Árni fæddist á Sauðárkróki árið 1927. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson sýslumaður Skagfirðinga og Stefanía Arnórsdóttir kona hans. Árni lærði til prests, var á Neskaupstað og síðast sóknarprestur á Blönduósi. Eginkona hans var Eyrún Gísladóttir. Þau eignuðust tvö börn, Arnór og Hildi.

Árni Þorsteinsson (1851-1919)

 • S003622
 • Person
 • 1851-1919

Árni Þorsteinsson, f. í Úthlíð í Biskupstungum 17.03.1851, d. 14.08.1919 á Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi. (f. 17.02.1851, skv. kirkjubók). Foreldrar: Þorsteinn Þorsteinsson garðyrkjumaður og bóndi og Sesselja Árnadóttir.
Stúdent frá Lærða skólanum 1878, Cand theol. frá Prestaskólanum 18. ágúst 1880. Aðstoðarprestur í Saurbæ í Eyjafirði 1880. Prestur í Ríp í Hegranesi 1881, á Miklabæ í Óslandshlíð 1884 og Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd 1886. Þjónaði þar til æviloka. Sýslunefndarmaður í Gullbringusýslu 1908-1918.
Maki: Ingibjörg Valgerður Sigurðardóttir (1848-1925). Þau eignuðust átta börn.

Finnbogi Kristján Kristjánsson (1908-1989)

 • S01373
 • Person
 • 10.07.1908-12.11.1989

Foreldrar: Axel Christian Theodor Lassen Jóhannsson veggfóðrari í Reykjavík og Margrét Finnbogadóttir. Finnbogi lauk gagnfræðaprófi vorið 1926 og stúdentsprófi 1930. Lauk háskólaprófi í guðfræði 1936 og kennaraprófi 1938. Sumarið 1941 dvaldist Finnbogi við predikunarstarf í Hvammsprestakalli og fékk svo veitingu fyrir Stað í Aðalvík sama ár þar sem hann dvaldist í fjögur ár. Prestur í Hvammi í Laxárdal 1946-1975. Síðustu æviárin var Finnbogi búsettur á Sauðárkróki. Ókvæntur og barnlaus.

Halldór Kristján Kolbeins Eyjólfsson (1893-1965)

 • S03349
 • Person
 • 16.02.1893-29.11.1964

Halldór Kristján Kolbeins Eyjólfsson, f. 16.02.1893, d. 29.11.1964.
Prestur í Flatey á Breiðafirði, á Stað í Súgandafirði, Vestmannaeyjum og víðar.

Hallgrímur Thorlacius (1864-1944)

 • S01256
 • Person
 • 18. júlí 1864 - 31. okt. 1944

Foreldrar: Magnús Hallgrímsson prestur á Fagranesi, síðar prófastur á Reynistað og k.h. Guðrún Jónasdóttir. Hallgrímur ólst upp hjá foreldrum sínum á Fagranesi og Hafsteinsstöðum. Stúdent frá Reykjavík 1886, cand. theol. frá Prestaskólanum 1888. Veitt Rípurprestakall 1888 og vígður sama ár. Veitt Glaumbæjarprestakall 1894, fékk lausn frá embætti 1935. Bóndi á Ríp 1889-1894 og í Glaumbæ 1895-1935. Eftir að hann lét af embætti dvaldi hann lengst af á Marbæli og síðast í Hátúni. Kvæntist Sigríði Þorsteinsdóttur árið 1895 og eignaðist með henni tvær dætur, þau skildu.

Jónmundur Júlíus Halldórsson (1874-1954)

 • S02336
 • Person
 • 4. júlí 1874 - 9. júlí 1954

Jónmundur fæddist 4. júlí 1874 á Viggbelgsstöðum í Innra-Akraneshreppi. Foreldrar hans voru Halldór, síðar múrari í Reykjavík og kona hans Sesselja Gísladóttir frá Bæ í Miðdölum. Jónmundur var stúdent 1896, cand. theol. 1900. Hann var settur aðstoðarprestur séra Helga Árnasonar í Ólafsvík 1900, veitt Barð í Fljótum árið 1902 og Mjóafjarðarprestakall 1915. Jónmundur var settur sóknarprestur í Grunnavík árið 1918. Hann var að auki við þjónustu í Kvíabekkjarprestalakki 1906-1908, Staðarprestakalli í Aðalvík 1938-1941 og Unaðsdalssókn frá 1918 um nokkurt skeið. Hann var sýslunefndarmaður í Skagafjarðarsýslu 1908-1915 og í Norður-Ísafjarðarsýslu frá 1921. Sr. Jónmundur var einn af merkustu prestum þessa lands og sérstæður persónuleiki. Kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur frá Eyrar-Uppkoti í Kjós, þau eignuðust sjö börn.

Pálmi Þóroddsson (1862-1955)

 • S00069
 • Person
 • 09.11.1862-02.07.1955

Séra Pálmi Þóroddsson, prestur Hofsósi. Fæddur á Hvassahrauni í Gullbringusýslu 09.11.1862. Faðir: Þóroddur Magnússon (1832-1879). Móðir: Anna Guðbrandsdóttir (1827-1894). Foreldrar Pálma voru fátækir og fóru í mörg ár í kaupavinnu norður í Skagafjörð til Björn Pálmasonar í Ásgeirsbrekku. Séra Sigurður Sivertsen styrkti Pálma til náms í Latínuskólanum. Pálmi varð stúdent 1883 og útskrifaðist úr Prestaskólanum 1885. Þjónaði sem prestur við Fell í Sléttuhlíð 1885-1891 og á Höfða frá 1891-1908 en síðan í Hofsós. Fékk lausn frá embætti árið 1934. Séra Pálmi gegndi ýmsum trúnaðarstörfum; hann átti sæti í hreppsnefnd Hofshrepps, sat í stjórn búnaðarfélagsins, var sýslunefndarmaður fyrir Hofshrepp frá 1900-1928 og sat í skóla- og fræðslunefnd í áratugi.
Pálmi kvæntist Önnu Hólmfríði Jónsdóttur(1855-1946) árið 1884. Saman áttu þau 12 börn.

Stanley Guðmundsson Melax (1893-1969)

 • S03171
 • Person
 • 07.12.1893-11.12.1969

Stanley Guðmundsson, síðar Melax, f. að Laugalandi á Þelamörk 07.12.1893 (að eigin sögn, 11.12. skv. kirkjubók), d. 20.06.1969 í Reykjavík. Foreldrar: Guðmundur Jónsson á Laugalandi og unnusta hans Guðný Oddný Guðjónsdóttir. Er Stanley var á þriðja ári andaðist faðir hans snögglega áður en þau móðir hans hugðust ganga í hjónaband. Hann ólst upp hjá móður sinni, á Akureyri og þar í grennd. Hún fylgdi honum og hélt heimili fyrir hann á námsárunum í Reykjavík. Hann gekk í Gagnfræðaskólann á Akureyri og var við barnakennslu á Akureyri næstu vetur. Haustið 1913 fór hann í fjórða bekk Menntaskólans í Reykjavík og lauk stúdentsprófi þaðan vorið 1916. Þá um haustið fór hann í guðfræðideild Háskólans og lauk þaðan prófi 1920. Skömmu síðar tók hann upp ættarnefnið Melax fyrir sig og fjölskyldu sína. Var vígður til Barðsprestakalls 1920 og skipaður í embætti vorið eftir. Var þar prestur í ellefu ár eða til vors 1931 er honum var veittur Breiðabólsstaður í Vesturhópi og þjónaði hann þar til 1960, er hann fluttist til Reykjavíkur eftir hartnær 40 ára prestsskap. Fyrstu árin var móðir hans ráðskona hjá honum. Stanley var í hreppsnefnd Haganeshrepps og oddviti hennar 1928-1931, sóknarnefndarformaður í 36 ár, stöðvarstjóri og bréfhirðingarmaður á Breiðabólsstað 1931-1960. Prófdómari í nálægum skólahverfum mestalla sína prestskapartíð.
Maki (g. 18.11.1928): Guðrún Ólafsdóttir Melax (15.09.1904-26.07.1999) frá Haganesi í Fljótum. Þau eignuðust fimm börn. Einnig tóku þau tvö börn í fóstur eftir að faðir þeirra, Björn Jónsson, drukknaði af þilskipinu Maríönnu í maí 1922. Þau voru Jónína Guðrún Björnsdóttir(1916-1966) og Sigurbjörn Halldór Björnsson (1919-1986). Móðir þeirra var Rósa Jóakimsdóttir.

Tryggvi Guttormur Hjörleifsson Kvaran (1892-1940)

 • S00535
 • Person
 • 31.05.1892-05.08.1940

Tryggvi Guttormur Hjörleifsson Kvaran, fæddur á Undirfelli í Vatnsdal 31. maí 1892, d. 05.08.1940. Foreldrar: Sr. Hjörleifur Einarsson prestur á Undirfelli í Vatnsdal og Björg Einarsdóttir, seinni kona hans. Tryggvi var unglingur þegar hann missti föður sinn, árið 1910, en móðir hans lifði til 1946 og bjó síðustu árin á Mælifelli hjá Tryggva og fjölskyldu hans. Hann lauk stúdentsprófi 1913 og hóf þá nám í læknisfræði en í febrúar 1918 lauk hann kandidatsprófi í guðfræði. Sótti hann um Odda á Ragnárvöllum en fékk ekki. Gerðist hann aðstoðarprestur séra Sigfúsar Jónssonar á Mælifelli og var vígður þangað 1918. Haustið 1921 brann bærinn á Mælifelli en var byggður aftur upp sumarið eftir. Tryggva var veittur Glaumbær 1937 en ekki flutti hann búferlum þangað heldur þjónaði Glaumbæ, Mælifelli og Víðimýri og sat áfram á Mælifelli.
Maki (g. 29.06.1919): Anna Grímsdóttir Thorarensen (06.09.1890-7.11.1944). Þau eignuðust tvær dætur og ólu upp fóstursoninn Kristmund Bjarnason. Tryggvi kvæntist Önnu Grímsdóttur Thorarensen. Þau eignuðust tvær dætur. Uppeldissonur þeirra var Kristmundur Bjarnason.

Zóphónías Halldórsson (1845-1908)

 • S02137
 • Person
 • 11.06.1845-03.01.1908

Zóphónías Halldórsson, f. í Brekku í Svarfaðardal. Foreldrar: Halldór Rögnvaldsson (1816-1881) bóndi í Brekku og kona hans Guðrún Björnsdóttir (1800-1857). Zóphónías lærði undir skóla hjá sr. Páli Jónssyni sálmaskáldi á Völlum í Svarfaðardal. Hann varð stúdent í Reykjavík 1873 og cand theol. 1876. Honum voru veittir Goðdalir 1876 og Viðvík 1886. Settur prófastur í Skagafjarðarprófastdæmi 1889 og skipaður ári síðar. Var prestur í Viðvík og prófastur til æviloka. Ásamt Hjörleifi Einarssyni beitti hann sér fyrir stofnun Prestafélags hins forna Hólastiftis 1898 og var formaður þess frá stofnun til æviloka. Var formaður Kaupfélags Skagfirðinga frá 1889-1890. Stofnaði ýmis félög í heimasveit sinni og héraðinu, m.a. Lestrarfélag presta í Skagafjarðarsýslu, Lestrarfélag Viðvíkurhrepps, Búnaðarfélag Viðvíkurhreppps. Einnig stofnaði hann kristilegt ungmennafélag í prestakalli sínu. Var hreppsnefndaroddviti frá 1894-1904, sýslunefndarmaður frá 1898-1904. Var kennari við Hólaskóla nokkur síðustu árin og einnig fyrirlesari. Stundaði smáskammtalækningar og starfaði mikið að bindindismálum. Hlaut Riddarakross Dannebrogs 1905. Ritaði í Tíðindi prestafélags Hólastiftis og greinar í Kirkjublaðið, Nýja kirkjublaðið og Bjarma.
Maki: Jóhanna Soffía Jónsdóttir (1855-1931) frá Hafnarfirði. Þau eignuðust þrjá syni.