Bóla

Taxonomy

Code

Scope note(s)

Source note(s)

Display note(s)

Hierarchical terms

Bóla

Equivalent terms

Bóla

Associated terms

Bóla

8 Authority record results for Bóla

8 results directly related Exclude narrower terms

Arnbjörg Guðmundsdóttir (1880-1938)

  • S02847
  • Person
  • 3. des. 1880 - 19. nóv. 1938

Foreldrar: Guðmundur Sigfússon bóndi í Grjótgarði á Þelamörk og kona hans Steinunn Anna Sigurðardóttir. Maki: Valdemar Helgi Guðmundsson. Þau eignuðust tvo syni og ólu auk þess upp fósturdóttur. Þau hófu búskap á Bessahlöðum í Öxnadal en fluttust svo að Efri-Rauðalæk á Þelamörk 1905. Þaðan fluttust þau að Fremri-Kotum 1910 og bjuggu þar til 1924. Þá keyptu þau jörðina Bólu í Blönduhlíð og var Arnbjörg búsett þar til dánardags.

Guðmundur Valdimarsson (1911-1976)

  • S02785
  • Person
  • 7. nóv. 1911 - 17. okt. 1976

Foreldrar: Valdemar Helgi Guðmundsson bóndi á Fremri-Kotum og síðar Bólu og kona hans Arnbjörg Guðmundsdóttir. Guðmundur ólst upp hjá foreldrum sínum á Fremri-Kotum og fór með þeim að Bólu 1924. Eftir að móðir hans lést í nóvember 1938 bjuggu þeir feðgar áfram í Bólu. Valdemar lést í nóvember 1966 en Guðmundur bjó í Bólu til æviloka, oftast einn. Nokkur síðustu árin var hjá honum piltur, Gunnar Sigurðsson að nafni, er kom til hans ellefu eða tólf ára. Guðmundur var lengi formaður sóknarnefndar Silfrastaðakirkju og vann mikið að málefnum hennar. Guðmundur var ókvæntur og barnlaus.

Gunnar Valdimarsson (1907-1975)

  • S02652
  • Person
  • 21. feb. 1907 - 30. júlí 1975

Gunnar Valdimarsson, f. að Rauðalæk efra á Þelamörk. Foreldrar: Valdemar Guðmundsson og Arnbjörg Guðmundsdóttir. Ólst upp á Rauðalæk fyrstu þrjú árin en síðan á Fremri-Kotum í Norðurárdal og í Bólu í Blönduhlíð. Stundaði akstur vörubíla og mjólkurbíla. Maki: Sigurlaug Stefánsdóttir fædd á Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð. Þau eignuðust fimm börn. Reistu bú að Fremri-Kotum 1937. Þann 6. júlí 1954 hljóp mikil skriða á bæinn og olli gríðarlegu tjóni á húsakosti og jörð en allt var byggt upp aftur með góðum fjárstyrk og eljusemi ábúenda. Gunnar hafði einnig umboð fyrir eldsneyti á vegum Shell heima á Fremri-Kotum og stundaði margvíslega flutninga. Hann þótti handlaginn og sinnti viðgerðum fyrir sjálfan sig og aðra.

Hjálmar Jónsson (1796-1875)

  • S03424
  • Person
  • 29.09.1796-25.07.1875

Hjálmar Jónsson skáld betur þekktur sem Bólu-Hjálmar fæddist á Hallandi í Eyjafirði 1796. Hann lést 25. júlí 1875 í Brekkuhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði. Hjálmar var bóndi og ljóskáld og bjó lengst af í Skagafirði. Foreldrar hans voru Marsibil Semingsdóttir fædd 1769 og Jón Benediktsson fæddur 1763. Heimildum ber ekki saman um það að Jón Benediktsson hafi raunverulega verið faðir Hjálmars. Snemma var grunur um að séra Sigfús Jónsson prófastur á Höfða í Höfðahverfi hafi verið faðir hans. Hjálmar daðraði við þá hugmynd sjálfur.

Í ævisögum um Hjálmar er sagan um fæðingu hans sögð þannig að móðir hans hafi verið gestkomandi að Hallandi er hún ól son sinn. Þegar hann var einungis næturgamall lagði vinnukona á Hallandi af stað með hann til Hreppsstjórans í poka til þess að hægt væri að ráðstafa drengnum. Á leið sinni sóttist hún eftir næturgistingu hjá Sigríði á Dálksstöðum. Morgunin eftir var illviðri og þvertók Sigríður fyrir að lengra væri farið með barnið og sagðist fara með hann sjálf þegar veðrið batnaði. Af því varð aldrei, heldur tók hún hann til fósturs og gekk honum í móðurstað fyrstu árin. Á sjötta aldursári dvaldi hann einn vetur (1800-1801) hjá Oddi Gunnarssyni bónda á Dagverðareyri. Hjálmar ólst upp við algeng sveitastörf og reyndist þar liðtækur. Hann fór að stunda sjóróðra og segir hann sjálfur frá að hafa róið út frá Dagverðareyri. Þegar Hjálmar var 14 ára lést fósturmóðir hans. Talið er að Jóhann sonur Sigríðar á Dálksstöðum hafi kennt Hjálmari að lesa en fátt er vitað um menntun hans í æsku. Hann gekk ekki í skóla en af kveðskap sem er til eftir hann frá þessum árum má sjá að hann hafi snemma verið lesgjarn og fróðleiksfús. Í nokkrum vitnisburðum séra Jóns Þorvarðarsonar kemur meðal annars fram að Hjálmar er efnilegur og vel skarpur í gáfum. Eftir lát fósturmóður sinnar fór hann að Blómsturvöllum þar sem Jón faðir hans og Valgerður dóttir Sigríðar voru farin að búa.

Vorið 1820 fór Hjálmar vestur í Blönduhlíð í Skagafirði og gerðist vinnumaður á Silfrastöðum til vorsins 1821. Á næsta bæ bjó móðursystir hans, Guðbjörg Semingsdóttir fjölskylda hennar. Dóttir hennar Guðný og Hjálmar fóru að vera saman og eignuðust barn sumarið 1821 sem lést mánuði síðar. Ári síðar giftu þau sig. Þau bjuggu á ýmsum bæjum í Skagafirði næstu árin og var mjög þröngt í búi. Þau áttu sjö börn, fimm af þeim komust á fullorðins aldur.
Hann var kenndur við Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð þar sem hann bjó í rúm 15 ár. Hjálmar átti í deilum við sveitunga sína og kvað gjarnan vísur um þá og ávirðingar þeirra. Hann varð einangraður frá öðrum, menn hræddust hann og var illa við hann. 1838 var hann sakaður um sauðaþjófnað en var sýknaður af þeim ákærum. Hann hraktist frá Bólu ári seinna. Þaðan fór hann að Minni-Ökrum. Þar missti hann konu sína sem dó 24. júní 1845. Hann var á Minni-Ökrum í 28 ár. Með árunum varð hann nær ófær til allra verka en gat áfram skrifað. Hann háði ævilanga baráttu við fátækt og strit. Frá Minni-Ökrum fór hann að Grundargerði í Akrahreppi og þaðan að Starrastöðum í Tungusveit og var þar í 2 ár í húsamennsku með Guðrúnu, yngstu dóttur sinni. Þaðan fóru þau að Brekku nálægt Víðimýri. Eftir 5 vikna dvöl þar í beitarhúsum dó hann 5. ágúst 1875, á 80. aldursári.

Í kveðskap Hjálmars fjallar hann gjarnan um slæm kjör og samferðamenn sína. Hjálmar þótti óvæginn og illskeyttur. Þrátt fyrir að eiga sér marga óvildarmenn átti hann líka marga vini og var hann fenginn til að skemmta í veislum. Honum var margt til lista lagt. Hann var þjóðfræðisafnari, listaskrifari, góður kvæðamaður og þótti hafa merkilega frásagnargáfu og var því eftirsóttur til ræðuhalda á mannamótum.
Kveðskapur eftir Hjálmar Jónsson er mikill að vöxtum, rímur, ljóð og lausavísur. Eftir hann hafa einnig varðveist fagurlega útskornir gripir.

Ingibjörg Jónsdóttir (1908-2001)

  • S01489
  • Person
  • 5. apríl 1908 - 11. ágúst 2001

Ingibjörg er fædd á Bólu í Blönduhlíð, dóttir Jóns Ingimars Jónassonar og k.h. Oddnýjar Stefánsdóttur. Ingibjörg ólst upp í Bólu en fór til Akureyrar 1922 þar sem hún var m.a. í vistum. Hún fór í Kvennaskólann í R.vík og lauk þar námi. Árið 1930 flutti hún til Siglufjarðar þar sem hún setti upp matsölu og rak hana að sumrinu. Þá rak hún einnig saumastofu á Siglufirði og saumaði skinnhúfur, skinnhanska, lúffur og vinnuvettlinga. Þessa framleiðslu seldi hún víða um land. Ingibjörg tók mikinn þátt í félagslífi á Siglufirði. Auk þess að syngja með Kirkjukór Siglufjarðar starfaði hún með kvenfélaginu þar og eitthvað með leikfélagi Siglufjarðar. Árið 1945 flutti hún ásamt manni sínum, Pétri Helgasyni, til Sauðárkróks, þar sem þau tóku fyrst við rekstri Hótel Tindastóls og síðar Villa Nova. Eftir að þau hættu rekstri Hótel Tindastóls, setti Ingibjörg þar upp hannyrðaverslun í félagi við Sigríði Önnu Stefánsdóttur og ráku þær hana þar til 1970, að Ingibjörg opnaði verslun að Hólavegi 16 sem hún rak meðan heilsa leyfði. Vefnaðarvöruverslun hennar var vinsæl og þekkt fyrir góða og vandaða vöru. Hún gekk til liðs við Kirkjukór Sauðárkróks og söng þar meðan heilsa leyfði. Einnig var hún virk í starfi Kvenfélags Sauðárkróks og var gerð að heiðursfélaga á 90 ára afmæli félagsins árið 1985.
Ingibjörg og Pétur eignuðust einn son saman og tóku einn fósturson, fyrir hjónaband hafði Pétur eignast dóttur.

Jóhanna Eiríksdóttir (1864-1953)

  • S01942
  • Person
  • 22. mars 1864-1953

Foreldrar: Eiríkur Eiríksson og Guðrún Klemensdóttir í Bólu. Alin upp hjá Stefáni Eiríkssyni föðurbróður sínum og k.h. Guðrúnu Andrésdóttur á Höskuldsstöðum. Kvæntist Jóni Jónssyni (1853-1928), þau bjuggu á Höskuldsstöðum og eignuðust tvo syni.

Jón Jónsson (1883-1950)

  • S03029
  • Person
  • 6. okt. 1883 - 2. okt. 1950

Foreldrar: Jón Sigurðsson bóndi og oddviti á Skúfsstöðum í Hjaltadal og barnsmóðir hans Sigurbjörg Guðmundsdóttir, þá ógift vinnukona í Hofstaðaseli. Jón ólst upp hjá föður sínum á Skúfsstöðum og naut barnafræðslu í heimahúsi. Snemma fór hann að heiman í vinnumennsku á ýmsum bæjum. 1908-1909 bjó Jón í Viðvík með unnustu sinni, Fanneyju Sigfúsdóttur. Þaðan fluttu þau í Ásgeirsbrekku í Viðvíkursveit til foreldra hennar. Þar var Jón eitt ár en þá skildu leiðir. Jón fór í vinnumennsku, fyrst í Skúfsstaði, síðan í Ingveldarstaði í Hjaltadal og árið 1913 í sjálfsmennsku að Keldulandi á Kjálka. Áður hafði Fanney dáið frá tveimur ungum börnum þeirra og var sonur þeirra komin til fósturs í Kelduland en dóttir þeirra ólst að mestu upp hjá móðursystur sinni á Bjarnastöðum í Bönduhlíð. Næstu árin var Jón á Keldulandi, ýmist í sjálfsmennsku eða vinnumennsku. Jón var svo vinnumaður í Tungukoti 1917-1918. Um nokkurra ára skeið var ráðskona hans Anna Einarsdóttir. Þau eignuðust saman son. Bóndi í Bólu í Blönduhlíð 1922-1923, á Fossi í sömu sveit 1923-1924, á Kúskerpi 1924-1925. Árið 1926 kvæntist hann Jónínu Ólafsdóttur og voru þau eitt ár á Miklabæ og annað í Axlarhaga, sem vinnujú. Bjuggu á Ystu-Grund 1929-1932, í Grundarkoti 1933-1947 og í Litladal í Blönduhlíð 1947-1950. Jón og Jónína eignuðust þrjú börn.

Valdimar Helgi Guðmundsson (1878-1966)

  • S02779
  • Person
  • 20. mars 1878 - 25. nóv. 1966

Valdimar Helgi Guðmundsson, f. 25.03.1877 á Myrká í Hörgárdal. Foreldrar: Guðmundur Jónsson, bóndi á Bási í Hörgárdal og víðar og kona hans Lilja Gunnlaugsdóttir. Valdimar fór ungur úr foreldrahúsum til móðurbróður síns, Jóhanns í Flöguseli og var þar fram yfir fermingu. Stundaði svo vinnumennsku í nokkur ár. Hóf búskap á Bessahlöðum í Öxnadal. Fluttist að Efra-Rauðalæk á Þelamörk 1905. Á yngri árum fékkst Valdimar við nautgripakaup fyrir Kaupfélag Eyfirðinga og eitt vorið rak hann í einni ferð um 30 naut, mörg fullorðin og mannýg, í einni ferð niður yfir heiði til Akureyrar. Með honum í för var aðeins Guðmundur sonur hans, þá innan við fermingu. Árið 1910 fluttist hann ásamt konu sinni, Arnbjörgu Guðmundsdóttur, að Fremri-Kotum og bjuggu þau þar til 1924. Keyptu þá jörðina Bólu og fluttu þangað og bjó Valdimar þar lengst af síðan, síðast hjá Guðmundi syni sínum. Valdimar og Arnbjörg eignuðust tvo syni og eins fósturdóttur.