Sýnir 3770 niðurstöður

Nafnspjöld
Person

Gunnhildur Andrésdóttir (1887-1972)

  • S01131
  • Person
  • 22. ágúst 1887 - 11. júní 1972

Foreldrar: Andrés Pétursson b. á Öldubakka á Skaga og v. og k.h. Kristjana Jóhanna Jónsdóttir. Gunnhildur fylgdi foreldrum sínum framan af en var svo í vistum hér og þar; á Þorbjargarstöðum í Laxárdal 1916-1919, á Breiðstöðum í Gönguskörðum 1920-1921, á Veðramóti 1922 þar sem hún kynntist manni sínum Abel Jónssyni. Þau fluttu til Sauðárkróks árið 1923 þar sem þau bjuggu lengst af. Gunnhildur og Abel eignuðust ekki börn en áttu eina fósturdóttur.

Árni Pálsson (1878-1952)

  • S01137
  • Person
  • 13. sept. 1878 - 7. nóv. 1952

Árni var sonur séra Páls Sigurðssonar, síðast í Gaulverjabæ, og konu hans Andreu Þórðardóttur. Hann nam sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla um aldamótin, en settist eftir það að í Reykjavík og lagði fyrir sig kennslustörf. Síðar gerðist hann bókavörður við landsbókasafnið og var þar þangað til hann var skipaður prófessor í sögu við háskólann; en því embætti gegndi hann meðan kraftar leyfðu. Eftir Árna liggja margar ritgerðir, mest sögulegs eða bókmenntalegs efnis, sem birtust upphaflega í tímaritum, en liggja nú flestar fyrir á einum stað í ritgerðasafni Árna „Á víð og dreif“.

Daníel Tómasson (1896-óvíst)

  • S01145
  • Person
  • 5. apríl 1896 - óvíst

Sonur Tómasar Ísleikssonar og Guðrúnar Jóelsdóttur í Kolkuósi (1891-1903), þau fluttu til Winnipeg 1903. Stundaði nám við Wesley College í Winnipeg, starfaði sem blaðamaður.

Nikólína Einarsdóttir (1897-óvíst)

  • S01151
  • Person
  • 23.05.1897-óvíst

Dóttir Einars Baldvins Guðmundssonar (eldri) og Dagbjartar Önnu Magnúsdóttur (1865-1937) á Hraunum í Fljótum, þriðju konu hans. Hún ólst upp hjá móður sinn eftir að faðir hennar lést, fyrst í Haganesi og síðar í Reykjavík.
Maki: Axel Louis Andreasen (1892-1972). Þau bjuggu í Ringkjöbing í Danmörku. Þau eignuðust 2 dætur.

Guðbjörg Konráðsdóttir (1901-óvíst)

  • S01158
  • Person
  • 16.03.1901-óvíst

Dóttir Konráðs Þorsteinssonar og Guðrúnar Á. Jóhannsdóttur á Grímsstöðum í Svartárdal, sem fóru til Vesturheims 1904.

Jóhanna Jónsdóttir (1865-1945)

  • S001165
  • Person
  • 17. des. 1865 - 14. des. 1945

Dóttir Jóns Jónssonar b. í Hátúni og k.h. Guðrúnar Steinsdóttur. Jóhanna kvæntist Pétri Jóhannssyni b. á Húsabakka í Seyluhreppi, þau fluttu til Vesturheims 1899, börn þeirra fædd á Íslandi voru sex.

Guðmundur Scheving Bjarnason (1861-1909)

  • S01166
  • Person
  • 27. júlí 1861 - 24. janúar 1909

Var í foreldrahúsum í Noisomhed, Vestmannaeyjasókn 1870. Læknir í Liverpool, Dvergasteinssókn, N-Múl. 1890. Héraðslæknir á Hólmavík.

Halldór Jónmundsson (1907-1987)

  • S01171
  • Person
  • 20. sept. 1907 - 16. sept. 1987

Sonur sr. Jónmundar J. Halldórssonar og k.h. Guðrúnar Jónsdóttur á Barði í Fljótum. Búfræðingur og barnakennari á Stað í N-Ísafjarðarsýslu 1930. Bóndi á Stað, Grunnavík, síðar yfirlögregluþjónn á Ísafirði.

Vigdís Pálsdóttir (1924-2016)

  • S01185
  • Person
  • 13. jan. 1924 - 7. sept. 2016

Vigdís Pálsdóttir var fædd á Hólum í Hjaltadal 13. janúar 1924. Hún var yngst sex barna hjónanna Guðrúnar Hannesdóttur og Páls Zóphóníassonar, skólastjóra Bændaskólans á Hólum, síðar búnaðarráðunauts, alþingismanns og búnaðarmálastjóra. Stundaði Vigdís nám í Landakotsskóla, Miðbæjarskóla og lauk þremur bekkjum í Menntaskólanum í Reykjavík en hætti þá námi. Vann hún skrifstofustörf í Reykjavík næstu ár, en fór til hússtjórnarnáms á Laugalandi veturinn 1942-1943, starfaði í Útvegsbankanum í nokkur ár en hóf nám í Handíðaskóla Lúðvíks Guðmundssonar og Kurt Zier og var í fyrsta hópi handavinnukennara, sem útskrifaðist úr skólanum vorið 1949. Eftir það starfaði hún við útsaum og kjólaskreytingar á saumastofu Feldsins um skeið, en vann aftur í Útvegsbanka Íslands þar til 1953. Vigdís hóf störf í handavinnudeild Kennaraskóla Íslands 1964 og kenndi þar næstu áratugi uns hún lét af störfum 1989. Vigdís starfaði um áratugaskeið á vettvangi Heimilisiðnaðarfélags Íslands. Vann þar að stofnun tímaritsins Hugur og hönd og réð miklu um efni þess og útlit í nær tvo áratugi. Vigdís giftist Baldvin Halldórssyni, prentara, leikara og leikstjóra, 25. ágúst 1951, þau eignuðust þrjú börn.

Unnur Pálsdóttir (1913-2011)

  • S01186
  • Person
  • 23. maí 1913 - 1. janúar 2011

Unnur Pálsdóttir var fædd á Hvanneyri í Borgarfirði 23. maí 1913. Hún var elst sex barna hjónanna Guðrúnar Hannesdóttur og Páls Zóphóníassonar, skólastjóra Bændaskólans á Hólum, síðar búnaðarráðunauts, alþingismanns og búnaðarmálastjóra. Unnur giftist 16. júlí 1937 Sigtryggi Klemenzsyni, sem lengi var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og síðar seðlabankastjóri, þau eignuðust sex dætur.

Sigurður Pálsson (1901-1987)

  • S01188
  • Person
  • 08.07.1901-13.07.1987

Sigurður Pálsson var fæddur að Haukatungu í Kolbeinsstaðahreppi í Snæfells- og Hnappadalssýslu 8. júlí 1901. Foreldrar hans voru Jóhanna Guðríður Björnsdóttir (1868-1936) og síðari maður hennar Páll bóndi Sigurðsson (1864-1934). Tvíburasystir Sigurðar var Valgerður (1901-1959). Sigurði var komið í fóstur hjá afa sínum Sigurði Brandssyni (1832-1911) hreppstjóra í Tröð. Þar var hann til tíu ára aldurs eða þar til afi hans féll frá. Þá flutti Sigurður aftur til foreldra sinna.
Sigurður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1928 og embættisprófi í guðfræði 1933.
Hann hlaut vígslu 28. maí 1933 og tók við Hraungerðisprestakalli.
Sigurður kvæntist Stefaníu Gissurardóttur 9. janúar 1934. Þau eignuðust sjö börn.
Þau fluttu til Selfoss á sjötta áratugnum. 4. september 1966 var Sigurður vígður til vígslubiskups í Skálholtsbiskupsdæmi. Sjötugur lét hann af prestembætti á Selfossi og tók við prestembætti í Reykhólaprestakalli. Sr. Sigurður var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í guðfræði af guðfræðideild Háskóla íslands árið 1976.

Helga Indriðadóttir (1857-1905)

  • S01190
  • Person
  • 27. júlí 1857 - 20. maí 1905

Foreldrar: Indriði Árnason og k.h. Sigurlaug Ísleifsdóttir á Írafelli. Helga var lærð ljósmóðir og starfaði sem slík í 25 ár við miklar vinsældir. Hún kvæntist Magnúsi Jónssyni, þau bjuggu í Gilhaga, þau eignuðust tíu börn saman, Magnús átti auk þess tvo syni utan hjónabands. Helga drukknaði í Svartá þegar hún var á leiðinni heim frá ljósmóðurstörfum.

Sigurlaug Magnúsdóttir (1886-1960)

  • S01195
  • Person
  • 11. okt. 1886 - 14. jan. 1960

Dóttir Helgu Indriðadóttur ljósmóður og Magnúsar Jónssonar frá Gilhaga. Sigurlaug ólst upp hjá foreldrum sínum í Gilhaga. Kvæntist Steingrími Guðmundssyni árið 1912 þau bjuggu á Írafelli í Svartárdal, Þverá í Hallárdal A-Hún, í Gilhaga í Fremribyggð, í Þorsteinsstaðakoti í Tungusveit, á Akureyri og síðast í Breiðargerði (1947-1960). Lærði karlmannafatasaum og starfaði við sauma þau ár sem hún bjó á Akureyri. Sigurlaug og Steingrímur eignuðust tvö börn og áttu einn fósturson.

Indriði Magnússon (1890-1931)

  • S01194
  • Person
  • 25. feb. 1890 - 14. des. 1931

Sonur Helgu Indriðadóttur ljósmóður og Magnúsar Jónssonar í Gilhaga. Bóndi í Gilhaga 1911-1922 og á Hömrum 1922-1931. Indriði var fyrstur manna í Lýtingstaðahreppi til þess að taka bílpróf og stundaði fólks- og vöruflutninga til og frá Sauðárkróki. Indriði kvæntist Efemíu Kristínu Hjálmarsdóttur frá Breið, þau eignuðust fjögur börn.

Pétur Gunnarsson (1911-1973)

  • S01094
  • Person
  • 21. maí 1911 - 13. apríl 1973

Foreldrar: Gunnar Ólafsson og Sigurlaug Magnúsdóttir í Keflavík. Pétur nam búfræði við háskóla í Danmörku, tilraunastjóri hjá Búnaðarfélagi Íslands. Síðast búsettur í Reykjavík. Kvæntist Þóru Magnúsdóttur.

Hallfríður Sigurðardóttir (1862-1921)

  • S01201
  • Person
  • 10. ágúst 1862 - 23. mars 1921

Foreldrar hennar voru Sigurður Bjarnason og Ingibjörg Sölvadóttir. Hallfríður giftist Sveini Jónssyni b. á Hóli í Sæmundarhlíð 1881. Þau eignuðust átta börn, sex þeirra komust á legg.

Jóhanna Soffía Jónsdóttir (1855-1931)

  • S01211
  • Person
  • 10. apríl 1855 - 2. jan. 1931

Foreldrar Jón Pétursson dómstjóri í Hafnarfirði og f.k.h. Jóhanna Soffía Bogadóttir frá Staðarfelli í Dölum. Kvæntist Zóphoníasi Halldórssyni prófasti í Viðvík, þau eignuðust þrjú börn.

Friðrik Jón Jónsson (1888-1924)

  • S01214
  • Person
  • 16. nóvember 1888 - 30. maí 1924

Sonur Málfríðar Friðgeirsdóttir frá Áshildarholti og Jóns Kaprasíussonar á Gvendarstöðum. Friðrik hrapaði til bana í Drangey.

Jóna Sigurbjörg Rögnvaldsdóttir (1886-1972)

  • S01219
  • Person
  • 18. mars 1886 - 6. feb. 1972

Dóttir Rögnvaldar Jónssonar og Steinunnar Helgu Jónsdóttur sem lengst af bjuggu í Miðhúsum í Óslandshlíð. Kvæntist Kristjáni Möller verslunarmanni á Sauðárkróki. Þau fluttust til Siglufjarðar og voru síðast búsett þar.

Steinunn Helga Jónsdóttir (1861-1942)

  • S01218
  • Person
  • 20. mars 1861 - 1. mars 1942

Foreldrar: Jón Hallsson b. á Þrastarstöðum og víðar og 2.k.h. Sigurbjörg Indriðadóttir. Kvæntist Rögnvaldi Jónssyni, þau bjuggu fyrstu hjúskaparár sín að Þrastarstöðum og á Geirmundarhóli í Fellshreppi en lengst af á Miðhúsum í Óslandshlíð eða 1889-1914. Brugðu þá búi og voru í þrjú ár í húsmennsku. Árið 1917 reistu þau nýbýlið Hlíðarenda úr landi Miklabæjar í Óslandshlíð, Rögnvaldur lést árið 1926 en Steinunn bjó áfram á Hlíðarenda í nokkur ár þar til hún flutti til Siglufjarðar og var síðast búsett þar. Steinunn og Rögnvaldur eignuðust fimm börn, fjögur þeirra komust á legg.

Eggert Ólafur Briem (1867-1936)

  • S00706
  • Person
  • 25.07.1867-07.07.1936

Fæddur á Hjaltastöðum í Blönduhlíð, sonur Eggerts Briem sýslumanns á Reynistað og Ingibjargar Eiríksdóttur. Eggert varð stúdent frá Reykjavíkurskóla 1887 með 1. eink., cand. júris. Kaupmannahöfn 1893 með 1. eink. Sama ár settur málafl.maður við landsyfirréttinn. Settur sýslumaður í Norður-Múlasýslu 1896, fékk Skagafjarðarsýslu 1897 og var sýslumaður þar til 1904. Skrifstofustjóri í Stjórnarráðinu í Reykjavík 1904-1915. Dómari í landsyfirréttinum 1915-1919. Skipaður hæstaréttardómari 1919-1935. Sat í stjórn Búnaðarfélags Íslands 1909-1919 og í landskjörstjórn 1916-1926. Kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur frá Auðkúlu, þau eignuðust tvö börn.

Gunnlaugur Eggertsson Briem (1903-1999)

  • S00709
  • Person
  • 05.02.1903-28.07.1999

Gunnlaugur Eggertsson Briem var fæddur á Sauðárkróki 5. febrúar 1903, sonur Eggerts Briem yngri, þáverandi sýslumanns á Sauðárkróki og Guðrúnar Jónsdóttur frá Auðkúlu. ,,Gunnlaugur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1922 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1927. Gunnlaugur hóf störf í atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu 1927, var skipaður fulltrúi þar 1930 og skrifstofustjóri 1944. 1947 var hann skipaður skrifstofustjóri og síðar ráðuneytisstjóri í atvinnumálaráðuneytinu og síðar landbúnaðarráðuneytinu og veitt lausn frá störfum vegna aldurs 1973. Gunnlaugur var dómari í Félagsdómi frá 1938 til 1974, skrifstofustjóri Útflutningsnefndar 1939 til 1943, sat í viðskiptaráði 1943 til 1945 og allan sinn starfsferil sat hann í fjölda veigamikilla nefnda á sviði innanríkis- og utanríkismála. Árið 1965 var Gunnlaugur kjörinn heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands, hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 1946, stórriddarakross 1952 og stórriddarakross með stjörnu 1963. 1946 hlaut hann frelsisorðu Kristjáns tíunda og kommandörkross sænsku Vasaorðunnar, riddarakross norsku st. Olavsorðunnar 1947, annars stigs kommandörkross Dannebrogsorðunnar 1948 og fyrsta stigs kommandörkross Dannebrogsorðunnar 1956." Hinn 5. júlí 1930 kvæntist Gunnlaugur Þóru Garðarsdóttur, þau eignuðust þrjú börn.

Hólmfríður Björnsdóttir (1860-1894)

  • S00711
  • Person
  • 02.02.1860-22.05.1894

Fædd á Brimnesi, dóttir Björns Pálmasonar og Sigríðar Eldjárnsdóttur. Hún var önnur eiginkona Jósefs Björnssonar skólastjóra á Hólum, þau eignuðust sex börn sem komust á legg, Hólmfríður lést þegar yngsta barnið var aðeins tæpra tveggja ára gamalt. Hún var mikil hannyrðakona og skörungur í allri gerð.

Björn Jósefsson (1885-1963)

  • S00712
  • Person
  • 02.02.1885-25.06.1963

Sonur Jósefs Björnssonar skólastjóra á Hólum og Hólmfríðar Björnsdóttur frá Brimnesi. Var í Reykjavík 1910. Læknir á Húsavík 1930. Lauk læknisprófi 1912. Starfaði víða á næstu árum, m. a. í Árósum og Kaupmannahöfn í Danmörku, Berlín í Þýskalandi, Reykjavík og á Sauðárkróki. Læknir á Kópaskeri 1914-18. Héraðslæknir á Húsavík 1918-50 og starfandi læknir þar til dauðadags. Kvæntist Sigríði Lovísu Sigurðardóttur frá Hofsstöðum.

Helga Jónsdóttir (1845-1923)

  • S00721
  • Person
  • 25.09.1845-02.02.1923

Foreldrar: Jón Guðmundsson b. á Ysta-Hóli, Hofi, Hvammkoti og víðar og k.h. Guðrún Jónsdóttir. Helga kvæntist Stefáni Ásgrímssyni frá Gautastöðum í Stíflu, þau bjuggu lengst af í Efra-Ási í Hjaltadal. Þau eignuðust fjögur börn sem upp komust.

Steinn Stefánsson (1882-1954)

  • S00724
  • Person
  • 30.11.1882-19.05.1954

Sonur Stefáns Ásgrímssonar og Helgu Jónsdóttur í Efra-Ási. Var í námi á Möðruvöllum 1900 og lauk búfræðiprófi frá Hólum 1905. Næstu árin var hann við kennslu á vetrum í austanverðum Skagafirði. En á sumrin ýmist í kaupavinnu ellegar heima í Efra Ási. Hóf búskap í Neðra-Ási 1911-1913, bjó að Stóra-Holti í Fljótum 1913-1915 og flutti svo aftur að Neðra-Ási og var bóndi þar til 1942, fluttist til Sauðárkróks 1952. Mörg haust sá hann um bólusetningu lamba gegn bráðapest í Hólahreppi og víðar. Eftir að Steinn hóf búskap, hætti hann að mestu kennslu. Þó tók hann löngum börn er á einhvern hátt áttu í örðugleikum með námið og leiðbeindi þeim, þótti hann laginn kennari á þeim vettvangi. Félagsmálastörfum gegndi Steinn talsvert, var í hreppsnefnd í 12 ár, þar af oddviti í 6 ár. Þá var hann í sóknarnefnd, skattanefnd og fjallskilastjóri til fjölda ára. Kvæntist Soffíu Jónsdóttur frá Neðra-Ási, þau eignuðust sjö börn.

Svanhildur Guðrún Loftsdóttir (1844-1930)

  • S00726
  • Person
  • 23.04.1844-02.11.1930

Frá Sauðanesi á Upsaströnd. Var mjög vel að sér í hannyrðum og kenndi mörgum konum að koma sér upp íslenska skautbúningnum. Kvæntist Daníel Ólafssyni (1837-1894) söðlasmiði, þau bjuggu m.a. á Hofsósi, í Viðvík, í Efra-Ási, í Reykjavík, á Oddeyri við Eyjafjörð, í Hofstaðaseli og á Framnesi. Svanhildur og Daníel eignuðust fjögur börn sem upp komust.

Jónas Bjarnason (1926-2003)

  • S01804
  • Person
  • 26. mars 1926 - 19. okt. 2003

Jónas Bjarnason fæddist á Uppsölum í Blönduhlíð í Skagafirði 26. mars 1926. Foreldrar hans voru hjónin á Uppsölum, Sigurlaug Jónasdóttir og Bjarni Halldórsson. ,,Jónas ólst upp á Uppsölum við hefðbundin sveitastörf og stundaði vegavinnu á sumrin. Fór síðan til Akureyrar og nam rennismíði í Vélsmiðjunni Atla, lauk sveinsprófi 1949 og hlaut meistararéttindi 1952. Jónas starfaði við rennismíðar allan sinn starfsferil og um rúmlega hálfrar aldar skeið átti hann og rak Járnsmiðjuna Varma á Akureyri, lengst af í félagi við Ívar Ólafsson. Jónas var frá unga aldri stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og á tímabili virkur í starfi flokksins á Akureyri. Þá var hann lengi félagi í Karlakór Akureyrar. Hin síðari ár var hann ötull félagsmaður Oddfellowreglunnar." Jónas kvæntist 25. desember 1954 Rakel Grímsdóttur sjúkraliða, f. í Örlygshöfn við Patreksfjörð, þau eignuðust þrjú börn.

Helga Jónasdóttir (1895-óvíst)

  • S01248
  • Person
  • 23. nóv. 1895 - óvíst

Dóttir Jónasar Jónassonar (1851-1900) og Önnu Elínar Kristjánsdóttur á Tjörn í Borgarsveit. Finnst ekki í Íslendingabók. Fæðingardagur mögulega rangur. Anna móðir Helgu er sögð hafa farið til Vesturheims 1902 og sennilega fór Helga með henni það ár, hvorug mæðgnanna finnst í Vesturfaraskrá.

Guðmundur Júlíus Jónasson (1887-1982)

  • S01250
  • Person
  • 31. júlí 1887 - 1. mars 1982

Sonur Jónasar Jónassonar (1851-1900) ferjumanns á Tjörn í Borgarsveit og Önnur Elínar Kristjánsdóttur. Anna fór líklega til Vesturheims með systkini Guðmundur árið 1902. Guðmundur fór til Vesturheims 1905 frá Sjávarborg. Settist að í Mountain og stundaði landbúnað. Kvæntist Elísabetu Guðnadóttir, f. 20.10.1889.

Hallgrímur Thorlacius (1864-1944)

  • S01256
  • Person
  • 18. júlí 1864 - 31. okt. 1944

Foreldrar: Magnús Hallgrímsson prestur á Fagranesi, síðar prófastur á Reynistað og k.h. Guðrún Jónasdóttir. Hallgrímur ólst upp hjá foreldrum sínum á Fagranesi og Hafsteinsstöðum. Stúdent frá Reykjavík 1886, cand. theol. frá Prestaskólanum 1888. Veitt Rípurprestakall 1888 og vígður sama ár. Veitt Glaumbæjarprestakall 1894, fékk lausn frá embætti 1935. Bóndi á Ríp 1889-1894 og í Glaumbæ 1895-1935. Eftir að hann lét af embætti dvaldi hann lengst af á Marbæli og síðast í Hátúni. Kvæntist Sigríði Þorsteinsdóttur árið 1895 og eignaðist með henni tvær dætur, þau skildu.

Sigríður Stang

  • S01257
  • Person
  • ?

Dóttir Gunnlaugar Friðriku Thorlacius og Carsten Stang. Búsett í Noregi. Barnabarn sr. Hallgríms Thorlacius á Reynistað.

Anna Kristín Linnet (1927-

  • S01260
  • Person
  • 24. júní 1927

Dóttir Kristjáns Linnet sýslumanns í Skagafjarðarsýslu 1918-1924 og k.h. Jóhönnu Eyjólfu Ólafíu Júlíusdóttur Linnet. Kvæntist Sigurði Óskari Jónssyni bakarameistara í Reykjavík.

Elísabet Lilja Linnet (1920-1997)

  • S01265
  • Person
  • 1. nóvember 1920 - 8. september 1997

Dóttir Kristjáns Linnet sýslumanns í Skagafjarðarsýslu 1918-1924 og k.h. Jóhönnu Eyjólfu Ólafíu Júlíusdóttur Linnet. Húsfreyja í Reykjavík.

Henrik Adólf Kristjánsson Linnet (1919-2014)

  • S01264
  • Person
  • 21. júní 1919 - 6. júní 2014

Sonur Kristjáns Linnet sýslumanns Skagafjarðarsýslu 1918-1924 og k.h. Jóhönnu Eyjólfu Ólafíu Júlíusdóttur Linnet. Héraðslæknir í Bolungarvík, síðar læknir í Reykjavík.

Guðmundur Ólafsson (1863-1954)

  • S01267
  • Person
  • 10.06.1863-29.10.1954

Foreldrar: Ólafur Sigurðsson b. og alþingismaður að Ási í Hegranesi og k.h. Sigurlaug Gunnarsdóttir. Bóndi Ási 1891-1938, brá þá búi og flutti til Sauðárkróks og dvaldi að Hlíðarstíg 1. Guðmundur rak stórbú að Ási ásamt því að stunda veiðiskap til sjós og lands. Einnig var hann sigmaður við Drangey og ágæt skytta. Starfaði lengi við fjárgæslu og póstbréfahirðingu. Á yngri árum hans var Ás mikið iðnaðnaðarheimili og stundaði Guðmundur vefnað á vetrum. Hann sat í hreppsnefnd í um 30 ár, var formaður búnaðarfélags um skeið, sáttamaður í mörg ár og safnaðarfulltrúi. Einn af stofnendum að rjómabúsins "Framtíðin" á Gljúfuráreyrum í Viðvíkursveit og starfaði að fleiri félagsmálum. Eins var hann fyrsti orgelleikari við Rípurkirkju og starfaði þar lengi. Guðmundur kvæntist Jóhönnu Guðnýju Einarsdóttur, þau eignuðust átta börn.

Jóhanna Guðný Einarsdóttir (1863-1938)

  • S01268
  • Person
  • 1. apríl 1863 - 26. feb. 1938

Fædd að Grímsnesi á Látraströnd, Eyjaf., foreldrar: Einar Ásgrímsson síðast b. á Mannskaðahóli og f.k.h. Kristbjörg Jónsdóttir. Hún ólst upp hjá foreldum sínum til 16 ára aldurs er hún missti móður sína, fór 18 ára til föðurfrænda síns, sr. Jóns Hallssonar í Glaumbæ þar sem hún dvaldi þangað til hún fór að Ási í Hegranesi til Sigurlaugar Gunnarsdóttur að nema hannyrðir og hússtörf. Það kynntist hún mannsefni sínu, Guðmundi Ólafssyni, syni Sigurlaugar. Þau kvæntust í september 1889 og bjuggu alla sína búskapartíð í Ási, þau eignuðust átta börn.

Jóhanna Gróa Jósafatsdóttir (1877-1960)

  • S01270
  • Person
  • 27. desember 1877 - 11. janúar 1960

Saumakona á Holtastöðum, Holtastaðasókn, Hún. 1901. Húsfreyja í Reykjavík 1910. Húsfreyja á Hverfisgötu 49, Reykjavík 1930.

Daníel Benediktsson Hannesson (1896-1978)

  • S01282
  • Person
  • 4. maí 1896 - 8. júlí 1978

Sonur Benedikts Hannessonar og Sigrúnar Daníelsdóttur. Daníel var aðeins fjögurra ára gamall þegar hann sigldi til Vesturheims með foreldrum sínum. Hermaður í fyrri heimsstyrjöldinni. Kaupmaður í Kanada. Kvæntist Daisy Ethel Tucker.

Þórdís Þorkelsdóttir (1895-2001)

  • S01285
  • Person
  • 26.10.1895 - 09.02.2001

Þórdís Þorkelsdóttir fæddist 26. október 1895 á Unastöðum í Kolbeinsdal. Foreldrar hennar voru Þorkell Dagsson, bóndi síðast á Róðhóli í Sléttuhlíð og Sigríður Guðrún Þorláksdóttir.
Þórdís giftist 1922 Skarphéðni Sigfússyni, þau hófu fyrst búskap í Ásgeirsbrekku í Viðvíkursveit 1917 en fluttu þaðan að Mið-Hóli í Sléttuhlíð 1923, þar bjuggu þau í tvö ár. Á Ysta-Hóli bjuggu þau svo í átta ár en fluttu að Sjöundarstöðum í Fljótum 1933 þar sem þau bjuggu í tuttugu og eitt ár eða til 1954. Þá fluttu þau til dætra sinna í Borgarfirði þar sem Þórdís bjó til 100 ára aldurs, síðast búsett á Akranesi. Þórdís var á 106. aldursári þegar hún lést.
Þórdís og Skarphéðinn eignuðust tvær dætur.

Gunnlaug Charlotta Eggertsdóttir (1905-1990)

  • S01286
  • Person
  • 14. maí 1905 - 6. desember 1990

Dóttir Eggerts Kristjánssonar söðlasmiðs á Sauðárkróki og Sumarrósar Sigurðardóttur. Kvæntist Karli Guðmundssyni lögregluvarðstjóra í Reykjavík. Síðast búsett í Kópavogi.

Aðalbjörg Steindóra Skarphéðinsdóttir (1928-)

  • S01288
  • Person
  • 16.12.1928-

Dóttir Þórdísar Þorkelsdóttur og Skarphéðins Sigfússonar. Aðalbjörg fæddist á Ysta-Hóli 16. desember 1928. Húsfreyja í Brúsholti í Borgarfirði.
Maður hennar: Sigurður Ingiberg Albertsson (1915-2003), bóndi í Brúsholti.

Sólveig Soffía Jesdóttir (1897-1984)

  • S01295
  • Person
  • 12. október 1897 - 6. febrúar 1984

Var í foreldrahúsum á Hóli, Vestmannaeyjasókn 1910. Húsfreyja í Suðurgarði, Vestmannaeyjum 1930. Hjúkrunarkona í Vestmannaeyjum og Reykjavík

Jón Kristbergur Ingólfsson (1925-2018)

  • S01320
  • Person
  • 1. okt. 1925 - 2. jan. 2018

Sonur Ingólfs Daníelssonar og Jónínu Einarsdóttur. Vélamaður og járnsmiður, lengst búsettur á Sauðárkróki. Kvæntist Regínu Margréti Magnúsdóttur.

Héðinn Sveinn Ásgrímsson (1930-1987)

  • S01319
  • Person
  • 24. mars 1930 - 28. júlí 1987

Sonur Ásgríms Árnasonar b. á Syðra-Mallandi og k.h. Sigríðar Árnadóttur. Húsasmiður á Sauðárkróki, kvæntist Hjörtínu Ingibjörgu Steinþórsdóttur (1940-2001) frá Þverá í Blönduhlíð.

Guðjón Jósafat Einarsson (1919-1997)

  • S00974
  • Person
  • 28. maí 1919 - 21. ágúst 1997

Guðjón Jósafat Einarsson fæddist 28. maí 1919 í Ási í Hegranesi. Foreldrar hans voru hjónin Valgerður Jósafatsdóttir frá Syðri-Hofdölum og Einar Guðmundsson, bóndi í Ási, Hegranesi. 1958 kvæntist Guðjón Steinunni Örnu Sigurjónsdóttur, þau eignuðust einn son og voru búsett á Sauðárkróki. ,,Guðjón starfaði lengst af við byggingar og múrverk hjá Byggingarfélaginu Hlyn hf. og síðustu starfsárin hjá Loðskinni hf. á Sauðárkróki."

Guðmundur Ingimar Þorvaldsson (1906-1931)

  • S01333
  • Person
  • 28. júlí 1906 - 21. október 1931

Sonur Þorvaldar Sveinssonar sjómanns á Sauðárkróki og k.h. Rósönnu Baldvinsdóttur. Samkvæmt skagfirskum æviskrám var Guðmundur ókvæntur og barnlaus er hann lést. Finnst ekki í Íslendingabók en legstaður Guðmundar Í Þorvaldssonar sem lést 1931 er skráður í Sauðárkrókskirkjugarði. Jafnframt finnst Guðmundur nokkur Þorvaldsson fæddur 1906 á Sauðárkróki í manntali frá 1910.

Ólafía Sigurðardóttir (1898-1983)

  • S01352
  • Person
  • 30. apríl 1898 - 5. maí 1983

Foreldrar: Sigurður Ólafsson b. og sjómaður á Eyri í Önundarfirði og k.h. Ásgerður Ólafsdóttir. Þegar Ólafía var átta ára gömul missti hún föður sinn og var ein með móður sinni eftir það. Árið 1915 fluttu þær mæðgur norður á Sauðárkrók þar sem Ólafía hóf að starfa á heimili Jóhannesar Hallgrímssonar kaupmanns og k.h. Ingibjargar Erlendsdóttur. Fljótlega kynntist hún mannsefni sínu, Pétri Jónssyni frá Kimbastöðum og kvæntust þau árið 1917, fyrsta ár sitt í búskap bjuggu þau að Bakkakoti í Vesturdal, í Reykjavík 1920-1925, á Sauðárkróki 1925-1950 er þau fluttust til Reykjavíkur. Eftir dauða Péturs 1951 flutti Ólafía fyrst til Njarðvíkur, var síðan nokkur ár á Akranesi en síðast búsett í Reykjavík. Ólafía og Pétur eignuðust þrettán börn, þar af tólf stúlkur.

Gunnar Guðjón Helgason (1929-2007)

  • S01354
  • Person
  • 21. september 1929 - 7. janúar 2007

Gunnar Guðjón Helgason fæddist á Fagranesi á Reykjaströnd 21. september 1929. Foreldrar hans voru Guðbjörg María Guðmundsdóttir og Helgi Ísfjörð Gunnarsson. ,,Gunnar lærði bakaraiðn og vann í Sauðárkróksbakaríi um skeið, vann svo á Bifreiðaverkstæðinu Áka, Keflavíkurflugvelli, Hitaveitu Sauðárkróks og endaði svo starfsferilinn hjá Kaupfélagi Skagfirðinga en þar starfaði hann í 22 ár. Gunnar starfaði einnig mikið að félagsmálum, var m.a. formaður ungra sjálfstæðismanna í Skagafirði, formaður Stangaveiðifélags Sauðárkróks, formaður U.M.F. Tindastóls og formaður Slysavarnadeildarinnar." 17. júní 1956 kvæntist Gunnar Sigurlaugu Jónsdóttur, þau eignuðust sex börn, fyrir átti Sigurlaug einn son.

Snorri Björnsson (1744-1807)

  • S01356
  • Person
  • 07.12.1744 – 22.06.1807

Faðir: Björn jónsson (1710-1763). Bóndi á Hjaltastöðum í Flugumýrarsók, Skag. 1801. Prestur á Ríp í Hegranesi 1770-1786 og á Hjaltastöðum í Hofstaðaþingum, Skag. frá 1786 til dauðadags.

Snæbjörg Snæbjarnardóttir (1932-2017)

  • S01360
  • Person
  • 30. sept. 1932 - 16. feb. 2017

Hún var dóttir hjónanna Ólínu Ingibjargar Björnsdóttur og Snæbjörns Sigurgeirssonar, bakarameistara í Sauðárkróksbakaríi. Fósturfaðir hennar var Guðjón Sigurðsson, bakarameistari í Sauðárkróksbakaríi. Söngkona, söngkennari og kórstjóri. Stofnaði á sínum tíma Skagfirsku söngsveitina ásamt söngsveitinni Drangey. Kenndi söng í yfir 30 ár bæði í Tónlistaskóla Garðabæjar ásamt Söngskólanum í Reykjavík. Snæbjörg giftist Páli Kr. Péturssyni stýrimanni árið 1953, þau eignuðust eina dóttur. Þau slitu samvistum. Seinni eiginmaður Snæbjargar var Kaj A.W. Jörgensen kaupmaður, þau eignuðust tvö börn. Snæbjörg og Kaj ráku til fjölda ára Verslunina Snæbjörgu á Bræðraborgarstíg ásamt veisluþjónustu
og síðar Verslunina Skerjaver.

Haraldur Ingvar Jónsson (1904-1969)

  • S01361
  • Person
  • 21. jan. 1904 - 13. okt. 1969

Foreldrar: Jón Þorsteinsson verkstjóri á Sauðárkróki og k.h. Jóhanna Gísladóttir frá Hvammi í Laxárdal.
Smiður á Akureyri, kvæntist Helgu Magnúsdóttur.

Steingrímur Matthíasson (1876-1948)

  • S01363
  • Person
  • 31.03.1876-27.07.1948

Héraðs- og spítalalæknir á Akureyri, var þar 1930, síðar í Tönder á Jótlandi og Nexsö á Borgundarhólmi.

Maron Sigurðsson (1902-1992)

  • S01365
  • Person
  • 24. september 1902 - 6. nóvember 1992

Foreldrar: Sigurður Sveinsson b. á Mannskaðahóli o.v. og k.h. Guðbjörg Þuríður Sigmundsdóttir. Fór ungur í fóstur til Sveinbjörns föðurbróður síns í Hornbrekku. Maron stundaði sjómennsku á Skagafirði á yngri árum og sótti vertíðir syðra. Hann var einnig kunnur sigmaður í Drangey. Bóndi í Hólakoti á Reykjaströnd 1927-1939 er hann fluttist til Sauðárkróks og gerðist þar vörubílstjóri. Maron var ókvæntur og barnlaus.

Guðmundur Benediktsson (1901-1987)

  • S01374
  • Person
  • 06.04.1901-25.10.1987

Guðmundur Benediktsson, f. 06.04.1901 á Hrafnabjörgum í Svínadal A-Hún., d. 25.10.1987 á Akranesi. Foreldrar: Benedikt Jóhannes Helgason bóndi á Hrafnabjörgum og Guðrún Ólafsdóttir. Guðmundur missti föður sinn aðeins 6 ára gamall og fluttist tveimur árum síðar með móður sinni að Ási í Vatnsdal til móðurbróður síns, Guðmundar Ólafssonar alþingismanns, og átti þar heima til fullorðinsára. Vann hann þar að búi frænda síns og á sumrin á námsárunum og átti þar heima þar til hann gerðist prestur og fluttist að Barði. Hann hóf nám við MA og lauk þar stúdentsprófi vorið 1928. Lauk embættisprófi frá guðfræðideild HÍ 1933 og var settur sóknarprestur í Barðsprestakalli í Fljótum sama ár og þjónaði þar til 1966. Þar hafði hann einnig búskap og byggði upp húsakost á jörðinni. Tók jafnframt að sér aukaþjónustu í Fellsókn 1951-1952 og í Hofsósprestakalli öllu 1962-1963.
Guðmundur var allmörg ár í hreppsnefnd og oddviti hennar frá 1946-1950. Formaður sjúkrasamlags sveitarinnar 1945-1965. Formaður lestrarfélags Haganeshrepps 1934-1966.
Þegar Guðmundur missti konu sína sviplega tók Signý dóttir þeirra við forstöðu heimilisins en hún var skipuð skólastjóri við barnaskólann á Sólgörðum árið 1959. Þá voru þau feðgin ýmist heima á Barði eða í skólanum á Sólgörðum, sem var heimavistarskóli. Kenndi Guðmundur þá í forföllum Signýjar og þegar með þurfti. Guðmundur fluttist til Guðmundar Ólafs sonar síns sem þá bjó í Reykjavík en síðar fluttist hann með honum á Akranes. Maki: Guðrún Sigrún Jónsdóttir, f. 1905 á Kimbastöðum í Borgarsveit. Þau eignuðust fimm börn og lést eitt þeirra fárra vikna. Ólu auk þess upp Guðfinnu Gunnarsdóttur frá 9 ára aldri.

Karlína Friðbjörg Jóhannsdóttir (1901-1987)

  • S01378
  • Person
  • 8. apríl 1901 - 14. apríl 1987

Foreldrar: Jóhann Kr. Árnason b. og kennari í Garðshorni á Höfðaströnd og k.h. Sigríðar Jónsdóttur. Karlína kvæntist Flosa Péturssyni byggingameistara á Akureyri. Síðast búsett á Akureyri.

Árni Jóhannsson (1897-1976)

  • S01379
  • Person
  • 08.10.1897-19.08.1976

Foreldrar: Jóhann Kristinn Árnason b. í Garðshorni á Höfðaströnd og þurrabúðarmaður og kennari í Lágubúð á Bæjarklettum og k.h. Sigríður Jónsdóttir. Árni ólst upp með foreldrum sínum til níu ára aldurs er honum var komið í fóstur til Jóns Konráðssonar hreppstjóra og k.h. Jófríðar Björnsdóttur í Bæ á Höfðaströnd. Verslunarmaður og bókhaldari í Hofsósi 1919-1927. Árið 1928 fluttist hann ásamt fyrri konu sinni Guðrúnu Erlendsdóttur, til Siglufjarðar þar sem hann stundaði ýmis verslunar- og skrifstofustörf fyrst um sinn en var svo ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri Kjötbúðar Siglufjarðar. Þremur árum síðar gerðist hann bókhaldari Kaupfélags Siglfirðinga og var við það starf í áratug eða þar til hann stofnaði eigin bókhaldsstofu, jafnframt því að reka örlitla umboðs- og heildverslun. Haustið 1945 flutti hann ásamt seinni konu sinni, Ingibjörgu Sigfúsdóttur til Sauðárkróks. Þar starfrækti hann ásamt mági sínum verslunar- og byggingarfyrirtæki. Fimm árum síðar flutti fjölskyldan aftur til Siglufjarðar þar sem þau bjuggu til æviloka.
Kona 1: Guðrún Erlendsdóttir (1887-1938) frá Sauðárkróki, þau eignuðust einn son saman.
Kona 2: Ingibjörg Margrét Sigfúsdóttir (1903-1978), þau eignuðust tvö börn saman, fyrir átti Ingibjörg tvo syni.

Sigurður Jóhann Guðmundsson (1906-1989)

  • S01390
  • Person
  • 10.01.1906-31.07.1989

Sonur Guðmundar Sigurðssonar sjómanns á Sauðárkróki og k.h. Sigríðar Ásmundsdóttur. Sigurður ólst upp við mikla fátækt, vistarvera fjölskyldunnar var reykingasalur af gufuskipinu Víkingi, sem strandaði við Sauðárkrók um aldamót. Stóð þetta húsnæði í Skógargötunni og var í daglegu tali nefnt Salurinn og voru fjölskyldumeðlimir gjarnan kenndir við "Salinn". Sigurður hóf ungur að árum útgerð á vélbáti ásamt Helga bróður sínum og varð strax formaður. Þetta varð að mestu ævistarf hans þaðan af og þeir voru ekki margir, sem settu meiri svip á vélbátaútgerð Sauðárkróks en Siggi í Salnum. Einnig vann hann mörg haust á sláturhúsi K.S. við fláningu. Sigurður bjó með foreldrum sínum og systkinum á Sauðárkróki þar til foreldrar hans og bróðir létust með stuttu millibili uppúr 1960. Eftir það bjó Siggi hjá Sigurði frænda sínum og fóstursyni og flutti svo með honum og fjölskyldu hans til Keflavíkur árið 1970 þar sem hann starfaði bæði á Keflavíkurflugvelli og við línubeitingu. Sigurður var ókvæntur og barnlaus en gekk systursyni sínum Sigurði Jónassyni, í föðurstað.

Ingibjörg Lovísa Albertsdóttir (1895-1955)

  • S01396
  • Person
  • 7. jan. 1895 - 22. nóv. 1955

Foreldrar: Albert Kristjánsson b. og oddviti á Páfastöðum og k.h. Guðrún Ólafsdóttir. Ingibjörg kvæntist Sigurði Skagfield óperusöngvara frá Litlu-Seylu, þau eignuðust tvö börn. Þau skildu. Ingibjörg stóð fyrir búi föður síns eftir lát móður sinnar 1931.

Ásta Bjarnadóttir (1922-2007)

  • S01398
  • Person
  • 16.02.1922-23.02.2007

Ásta Bjarnadóttir fæddist á Húsavík 16. febrúar 1922. Foreldrar Ástu voru Bjarni Benediktsson, kaupmaður á Húsavík og Þórdís Ásgeirsdóttir. 1947 giftist Ásta Kjartani Sæmundssyni, kaupfélagsstjóra í Reykjavík. Sambýlismaður Ástu frá 1974 var Atli R. Ólafsson.

Ásmundur Eiríksson (1899-1975)

  • S01406
  • Person
  • 2. nóv. 1899 - 12. nóv. 1975

Skrifstofumaður í Yzta-Mó, Barðssókn, Skag. 1930. Heimili: Reykjarhóll. Forstöðumaður Hvítasunnusafnaðarins í Reykjavík.

Laufey Emilsdóttir Petersen (1899-1957)

  • S01410
  • Person
  • 23. okt. 1899 - 1. júlí 1957

Foreldrar: Emil Petersen og Þuríður Gísladóttir á Akureyri. Móðir Laufeyjar lést þegar hún var níu ára gömul. Lausakona á Sveinsstöðum, Lýtingsstaðahr., Skag. 1920. Húsfreyja á Akureyri 1930. Laufey var alsystir Tryggva Emilssonar verkamanns og rithöfundar. Maki: Svavar Þorsteinsson (1902-1924) frá Víðivöllum.

Bjarni Garðar Skagfjörð Svavarsson (1922-1989)

  • S01412
  • Person
  • 10. júlí 1922 - 4. júlí 1989

Foreldrar: Svavar Þorsteinsson frá Víðivöllum og Laufey Emilsdóttir Petersen. Var á Akureyri 1930. Húsasmiður, síðast bús. í Keflavík.

Margrét Kristinsdóttir (1913-1981)

  • S01425
  • Person
  • 9. jan. 1913 - 9. maí 1981

Foreldrar: Kristinn Björn Erlendsson kennari og smiður á Hofsósi og Sigurlaug Jósafatsdóttir frá Krossanesi. Margrét ólst upp hjá móður sinni á heimili móðurafa síns á Syðri-Hofdölum til tíu ára aldurs en fór þá í fóstur til Soffíu móðursystur sinnar og manns hennar Jóns Skagfirðings. Hún var um tíma við nám í orgelleik hjá Jóni Björnssyni söngstjóra og tónskáldi sem þá bjó í Brekku í Seyluhreppi. Vorið 1929 flutti Margrét til Sauðárkróks og starfaði sem léttastúlka á sjúkrahúsinu. Haustið 1930 fór Margrét í hússtjórnardeild Kvennaskólans í Reykjavík. Árið 1933 kvæntist hún Sveini Sölva Sölvasyni, þau bjuggu alla tíð á Sauðárkróki, þau eignuðust fjögur börn. Margrét starfaði nokkuð að félagsmálum, einkum fyrir slysavarnarfélagið, Kvenfélag Sauðárkróks og verkakvennafélagið Ölduna. Margrét starfaði á saumastofunni Yl, hjá Fiskiðjunni og síðast á saumastofunni Ylrúnu.

Bjarni Eiríksson (1724-1803)

  • S01415
  • Person
  • 1724 - 1803

Bóndi í Djúpadal, Flugumýrarsókn, Skag. 1801. Dánarbú hans var skráð 15.4.1803.

Anna Ólafsdóttir (1951-

  • S01442
  • Person
  • 07.03.1951-

Dóttir Stefáns Ólafs Stefánssonar póst- og símstjóra á Sauðárkróki og k.h. Ölmu Björnsdóttur. Kvæntist Sigurði Helgasyni, þau eignuðust þrjú börn.

Halla Sigríður Rögnvaldsdóttir (1951-)

  • S01440
  • Person
  • 26. apríl 1951-

Foreldrar Dóra Ingibjörg Magnúsdóttir og Rögnvaldur Ólafsson (Valdi rakari). Halla hárgreiðslumeistari, búsett á Sauðárkróki, kvænt Garðari Hauki Steingrímssyni, þau eiga tvær dætur.

Benedikt Sveinsson (1885-1927)

  • S01452
  • Person
  • 8. sept. 1885 - 4. júlí 1927

Sonur Sveins Sigvaldasonar b. á Steini á Reykjaströnd o.v., síðast á Sauðárkróki og f.k.h. Ingibjargar Hannesdóttur. Benedikt ólst upp á Sauðárkróki þar sem foreldrar hans bjuggu lengst af í Árbæ. Verkamaður í Reykjavík, ókvæntur en var heitbundinn Unu Pétursdóttur frá Sauðárkróki þegar hann lést. Átti einn son með austfirskri konu.

Leví William Konráðsson (1940-)

  • S01461
  • Person
  • 24.07.1940

Sonur Konráðs Þorsteinssonar kaupmanns á Sauðárkróki og í R.vík og f.k.h. Kristínar Maríu Sigurðardóttur. Stjúpmóðir hans var Sigríður Helga Skúladóttir.

Sigurður Stefánsson (1895-1988)

  • S01459
  • Person
  • 15. des. 1895 - 22. apríl 1988

Foreldrar: Stefán Sigurðsson b. á Þverá í Blönduhlíð og barnsmóðir hans Sigurlaug Sigurbjörg Baldvinsdóttir. Sigurður ólst upp hjá föður sínum og stjúpmóður, Hjörtínu Hannesdóttur, sem reistu bú á Þverá er Sigurður var á öðru aldursári. Dvaldist Sigurður á heimili þeirra fram á fullorðinsár. Að Þverá vistaðist síðan konuefni Sigurðar, Anna Einarsdóttir, og reistu þau bú árið 1916 á Rein í Hegranesi. Þar bjuggu þau í þrjú ár en fluttust þá að Syðri Hofdölum í húsmennsku þar sem þau voru í þrjú ár en fluttust þá að Hjaltastaðakoti (nú Grænumýri) í eitt ár en síðan í húsmennsku í Merkigarði í Tungusveit 1922-1923, Torfmýri í Blönduhlíð 1923-1924 og Ytri Húsabakka í Seyluhreppi 1924-1926. Þaðan fluttust þau til Sauðárkróks og þar stóð heimili þeirra æ síðan. Þau keyptu jörðina Sauðá árið 1958 og varð síðasti eigandi hennar allt til þess að Sauðárkróksbær yfirtók hana. Sigurður stundaði lengst af verkamannavinnu, eftir að hann fluttist úr sveitinni, og vann um árabil á vegum Kaupfélags Skagfirðinga og var fastur starfsmaður við sláturhúsið. Hann starfaði talsvert með Verkamannafélaginu Fram á fyrstu árum þess og vann ötullega að eflingu þess, sat í stjórn um skeið, var fylgismaður jafnaðarhreyfingarinnar og starfaði um árabil með Alþýðuflokksfélaginu á Sauðárkróki. Kvæntist Önnu Sigríði Einarsdóttur (1891-1973), þau eignuðust fjögur börn.

Sigurlína Jónína Jónsdóttir (1922-1994)

  • S01472
  • Person
  • 31.01.1922 - 01.02.1994

Sigurlína Jónína Jónsdóttir fæddist 31. janúar 1922 á Deplum í Stíflu. Dóttir hjónanna Sigríðar Guðmundsdóttur frá Bakka í Austur-Fljótum og Jóns Sigmundssonar frá Vestara-Hóli, en þau hjón bjuggu lengst af á Molastöðum, síðar að Hraunum og síðast að Lambanes-Reykjum. Kvæntist Björgvini Márussyni (1916-1993) frá Fyrirbarði og hófu þau búskap þar 1946. Bjuggu þar samfleytt til ársins 1990 er þau fluttu til Sauðárkróks, þau eignuðust níu börn, átta þeirra komust á legg.

Björgvin Abel Márusson (1916-1993)

  • S01473
  • Person
  • 05.11.1916 - 13.11.1993

Foreldrar: Márus Ari Símonarson b. á Fyrirbarði, og k.h. Sigurbjörg Jónasdóttir. Hann var bóndi á Stóru-Reykjum í Flókadal 1941-1942, á Barði 1942-1946 og í Fyrirbarði í Fljótum 1946-1990. Sem ungur maður sótti hann sjó á opnum bátum frá Haganesvík, vann ýmis störf tengd síldinni á Siglufirði, var nokkrar vertíðir í Vestmannaeyjum og vann við Efrafellsvirkjun í Soginu. Kvæntist Sigurlínu Jónsdóttur frá Molastöðum, þau eignuðust níu börn, átta þeirra komust á legg.

Bjarni Ingibergur Sigfússon (1916-2001)

  • S01483
  • Person
  • 21. júní 1916 - 29. mars 2001

Bjarni Ingibergur Sigfússon fæddist á Syðri-Brekkum í Blönduhlíð í Skagafirði 21. júní 1916. Foreldrar hans voru Sigfús Hansson og kona hans Anna Jónína Jósafatsdóttir. ,,Árið 1943 kvæntist Bjarni Gunnlaugu Margréti Stefánsdóttur frá Gautastöðum í Fljótum, þau eignuðust tvö börn. Bjarni var bóndi í Gröf frá 1937-1947, er hann flutti til Sauðárkróks, en þar var hann verslunarmaður hjá Sigurði bróður sínum til ársins 1966. Þau hjón fluttu þá til Reykjavíkur þar sem Bjarni starfaði sem verslunarmaður, fyrst í Heimakjöri, en síðast í Breiðholtskjöri."

Þorbergur Skagfjörð Jósefsson (1935-

  • S01485
  • Person
  • 1. des. 1935

Foreldrar hans voru Elín Aðalbjörg Jóhannesdóttir frá Sauðárkróki og Jósef Stefánsson. Húsasmiður og söngvari. Kvæntur Svövu Einarsdóttur Höjgaard.

Niðurstöður 256 to 340 of 3770