Einar Baldvin Guðmundsson, f. á Hraunum í Fljótum 04.09.1841, d. 28.01.1910 í Haganesvík. Foreldrar: Guðmundur Einarsson (1811-1841) bóndi, hreppstjóri og umboðsmaður á Hraunum og kona hans Helga Gunnlaugsdóttir (1822-1880) frá Neðra-Ási í Hjaltadal. Guðmundur lést rúmum mánuði eftir að Einar fæddist en hann ólst upp á Hraunum með móður sinni og síðari manni hennar, Sveini Sveinssyni frá Haganesi. Hann lærði undir skóla hjá sr. Daníel Halldórsyni í Glæsibæ við Eyjafjörð en sótti ekki um skólavist í latínuskólanum eins og til stóð heldur lagði fyrir sig trésmíði, járnsmíði og skipasmíði. Bóndi á Hraunum 1866-1893 en brá búi er hann missti aðra konu sína. Var þó áfram á Hraunum næstu árin en börn hans tóku við jörðinni. Auk búsins rak Einar útgerð og gerði út á þorsk og hákarl. Einnig stundaði hann skipasmíðar og aðrar smíðar. Hann reisti stórt timburhús á Hraunum 1874-75 sem var annað í röð timburhúsa til íbúðar í sýslunni. Einnig jók hann æðarvarp á jörðinni til muna. Árið 1878 sigldi Einar til Noregs að kynna sér veiðiaðferðir Norðmanna, fiskverkun, bátasmíði og ýmsar tæknilegar nýjungar. Eftir heimkomuna hóf hann tilraunir með síldveiðar ásamt mági sínum, Snorra Pálssyni verslunarstjóra á Siglufirði. Einar stóð fyrir miklum brúarbyggingum í Skagafirði framundir 1890 en einnig fór hann í Borgarfjörð og byggði fyrstu stórbrúna þar, yfir Hvítá á Barnafossi. Hann smíðaði fyrstu dragferjuna hér á landi á Vesturós Héraðsvatna. Nokkru eftir að hann brá búi stofnsetti hann verslun í Haganesvík, um 1898 og rak hana í samlagi við Gránufélagið til æviloka. Einar var hreppstjóri Holtshrepps 1866-1872 og 1890-1898, oddviti 1882-1884 og 1886-1892. Sýslunefndarmaður 1874-1877 og 1889-1895. Alþingismaður Skagfirðinga 1874-1878 er hann sagði af sér þingmennsku og hélt utan til Noregs. Hann var sæmdur heiðursmerki dannebrogsmanna og veitt verðlaun úr sjóði Kristjáns konungs IX.
Eftir Einar liggja ýmsar greinar í blöðum, m.a. grein um bátasmíði sem birtist í Andvara.
Maki 1: Kristín Pálsdóttir (1842-1879) frá Viðvík. Þau eignuðust átta börn sem upp komust.
Maki 2: Jóhanna Jónsdóttir(1839-1893) frá Glaumbæ. Þau eignuðust eitt barn sem dó í æsku.
Maki 3: Dagbjört Magnúsdóttir (1865-1937). Þau eignuðust þrjú börn.