Showing 213 results

Authority record
Akureyri

Kaupfélag Eyfirðinga (1886-)

  • S02800
  • Organization
  • 1886-

Kaupfélag Eyfirðinga var stofnað á Grund í Eyjafirði 19. júní 1886 af nokkrum bændum úr innsveitum Eyjafjarðar. Upphaflega hét félagið Pöntunarfélag Eyfirðinga en 1887 var það nefnt Kaupfélag, síðan aftur Pöntunarfélag frá 1894 uns nafnið Kaupfélag Eyfirðinga var skráð 1906 og hefur það haldist síðan. Fyrirmynd félagsins var sótt í Þingeyjarsýslur því
Kaupfélag Þingeyinga hafði starfað í 4 ár og bændur þar skorað á Eyfirðinga að gjöra slíkt hið sama sem þeir og gerðu sumarið 1886. Í fyrstu var KEA smátt í sniðum, enda stofnað til að ákvarða stefnu varðandi verslun og vörupantanir, sérstaklega hvað snerti sölu á sauðum í fremstu hreppum Eyjafjarðar. Árið 1906 var fyrsta sölubúð KEA opnuð á Akureyri og markaði sá atburður tímamót í sögu félagsins og raunar samvinnuhreyfingarinnar allrar. Með lögum félagsins sem samþykkt voru á aðalfundi þetta ár var félaginu breytt úr pöntunarfélagi í sölufélag. Fyrsta hús KEA var reist á sunnanverðu Torfunefi 1898 og í framkvæmdastjóratíð Hallgríms Kristinssonar, 1902-1918, keypti félagið lóðina austan við verslunarhús sitt allt til sjávar, auk þess sem það festi kaup á mestöllum sérdeildum, lyfjabúð, byggingavörudeild og raflagnadeild. Félagið átti mjólkurvinnslustöð, sláturhús og kjötiðnaðarstöð. Sjávarútvegur var einnig býsna snar þáttur í starfsemi félagsins, sérstaklega á Dalvík og í Hrísey. KEA var hluthafi í mörgum stórum atvinnufyrirtækjum og má í því sambandi nefna Vélsmiðjuna Odda, Þórshamar, Slippstöðina, ÚA og ístess. í samvinnu við SÍS rak félagið Kaffibrennslu Akureyrar, Efnaverksmiðjuna Sjöfn og Plasteinangrun hf. Af eigin iðnfyrirtækjum má nefna Brauðgerð KEA, Smjörlíkisgerð KEA og Efnagerðina Flóru.

Karl Ottó Runólfsson (1900-1970)

  • S02632
  • Person
  • 24. okt. 1900 - 29. nóv. 1970

,,Karl Ottó Runólfsson tónskáld fæddist í Reykjavík 24.10. árið 1900. Hann var sonur Runólfs Guðmundssonar, sjómanns og verkamanns í Reykjavík, og k.h., Guðlaugar M. Guðmundsdóttur. Fyrri kona Karls var Margrét Kristjana Sigurðardóttir sem lést kornung, 23 ára, eftir skamma sambúð þeirra hjóna. Seinni kona Karls var Helga Kristjánsdóttir. Karl lærði prentiðn í Gutenberg, lauk sveinprófi 1918 og starfaði við prentverk til 1925. Hann fór þá til Kaupmannahafnar, lærði þar á trompet hjá Lauritz Sörensen, lærði á fiðlu hjá Axel Jörgensen og lærði að útsetja lög fyrir lúðrasveitir hjá Dyring. Þá stundaði hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1934-39, lærði þar tónsmíðar hjá Frans Mixa og að útsetja lög fyrir hljómsveitir hjá Victor Urbancic. Karl kenndi og stjórnaði Lúðrasveit Ísafjarðar 1920 og 1922-23, Lúðrasveit Hafnarfjarðar 1924-25 og 1928-29, Lúðrasveit og Hljómsveit Akureyrar 1929-34, var hljómsveitarstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1934-35 og meðlimur Lúðrasveitar Reykjavíkur frá stofnun og stjórnandi hennar 1941-42. Lengst af stjórnaði Karl þó Lúðrasveitinni Svani eða í 21 ár, auk þess sem hann stjórnaði Lúðrasveit barna- og unglingaskóla Reykjavíkur. Þá lék hann með danshljómsveitum, víða um land, á sínum yngri árum. Karl kenndi hljómfræði og trompetleik við Tónlistarskólann í Reykjavík 1939-64, stundaði einkakennslu á fiðlu og trompet og lék sjálfur á trompet í Útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Íslands 1950-55. Karl var stofnandi og síðar formaður Lúðrasveitar Reykjavíkur í mörg ár og formaður Landssambands íslenskra lúðrasveita í tíu ár. Hann var mikilsvirt tónskáld sem samdi flestar tegundir tónsmíða, þ.á m. nokkur ástsæl sönglög og raddsetti mikinn fjölda þjóðlaga."

Karl Ingjaldsson (1900-1935)

  • S03445
  • Person
  • 29.05.1900-12.11.1935

Karl Ingjaldsson, f. að Öxará í Þingeyjarsýslu 29.05.1900, d. 12.11.1935. Foreldrar: Elín Kristjánsdóttir (1862-1941) og Ingjaldur Jónsson.
Karl fluttist til Akureyrar árið 1925 og réðist til Kaupfélags Eyfirðinga. Var deildarstjóri þar. Einnig vann hann um tíma við verslunina París á Akureyri.
Maki: Hallfríður Gísladóttir (1911-1990). Þau eignuðust eina dóttur.

Jórunn Jónsdóttir (1901-1976)

  • S01885
  • Person
  • 8. júní 1901 - 10. apríl 1976

Frá Nautabúi, dóttir Jóns Péturssonar og k.h. Sólveigar Eggertsdóttur. Ráðskona á Akureyri 1930. Seinna matráðskona á Vífilsstöðum. Kvæntist ekki en eignaðist einn son.

Jórunn Einarsdóttir Norðmann (1871-1961)

  • S01297
  • Person
  • 16.05.1871-11.09.1961

Foreldrar: Einar Guðmundsson hreppstjóri og alþingismaður að Hraunum í Fljótum og 1.k.h. Kristín Pálsdóttir frá Viðvík. Hún missti móður sína átta ára gömul en þremur árum síðar gifist faðir hennar Jóhönnu Jónsdóttur sem annaðist uppeldi barnanna síðan.
Maki: Jón Norðmann Jónsson frá Barði í Fljótum.
Árið 1908 missti hún eiginmann sinn og áttu þau þá sjö ung börn. Vorið 1909 flutti hún með barnahópinn sinn til Reykjavíkur. Tvö barnanna létust ung, en þó komin á fullorðinsaldur. Eftir að börnin stofnuðu heimili var hún hjá þeim til skiptis. Síðustu árin var hún mest hjá Katrínu dóttur sinni og Jóni Sigurðssyni, eiginmanni hennar. Jórunn var söngelsk mjög og mikil tónlist á heimili hennar.

Jónas Sveinsson (1873-1954)

  • S01630
  • Person
  • 4. des. 1873 - 29. mars 1954

Foreldrar: Sveinn Kristjánsson b. í Litladal og k.h. Hallgerður Magnúsdóttir. Jónas ólst upp í Litladal með foreldrum sínum fram til tólf ára aldurs en þá voru þau bæði látin. Var í vist að Eyjólfsstöðum í Vatnsdal, á Grenjaðarstað, að Öndólfsstöðum í Reykjadal og Múla í Aðaldal. Lauk námi frá Möðruvallaskóla árið 1893. Veturinn 1894-1895 var hann í Höfnum á Skaga og kynntist þar konuefni sínu. Ári síðar kvæntist hann fyrri konu sinni, Björg Björnsdóttir frá Harrastaðakoti á Skagaströnd, fyrsta hjúskaparár sitt bjuggu þau þar. 1897-1898 bjuggu þau í Háagerði á Skagaströnd. Sumarið 1898 fluttu þau til Sauðárkróks þar sem þau bjuggu til 1911. Þegar þau bjuggu á Sauðárkróki sat Jónas í hreppsnefnd Sauðárhrepps frá 1904-1911, þar af oddviti 1904-1907. Jónas var einnig deildarstjóri í Sauðárkróksdeild kaupfélagsins og fékk umsjón með uppskipun og útskipun á vörum kaupfélagsins. Árið 1911 fluttu þau vestur í Þverárdal í Laxárdal þar sem þau bjuggu í eitt ár. Árið 1912 fluttu þau að Uppsölum í Blönduhlíð þar sem þau bjuggu til 1919 er þau fluttu til Akureyrar. Á Akureyri stundaði Jónas ýmsa vinnu, starfaði hjá klæðaverksmiðjunni Gefjunni, seldi bækur og fór í hrossasöluferðir. 1920-1925 var hann bókavörður við Amtbókasafnið á Akureyri. Jónas og Björg Björnsdóttir fyrri kona hans eignuðust eina dóttur og tóku tvö fósturbörn. Björg lést árið 1934. Seinni kona Jónasar var Ingibjörg Valgerður Hallgrímsdóttir frá Úlfsstaðakoti, þau eignuðust fjögur börn saman.

Jónas Jónsson (1930-2007)

  • S02343
  • Person
  • 9. mars 1930 - 24. júlí 2007

Jónas var fæddur að Ystafelli í Köldukinn, sonur hjónanna Jóns Sigurðssonar bónda og rithöfundar og Sigríðar Helgu Friðgeirsdóttur húsfreyju. Hann lauk stúdentsprófi frá M.A. árið 1952 og búfræðinámi frá Hólum 1953. Jónas lauk meistaranámi frá landbúnaðarháskólanum að Ási í Noregi1957 og stundaði framhaldsnám í jurtakynbótum og frærækt í Wales á árunum 1961 - 1962. Hann kenndi við Bændaskólann á Hvanneyri 1957-1963 og starfaði sem sérfræðingur við Rannsóknarstofnun landbúnaðarins í Reykjavík 1963-1966 og var jarðræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands 1974 - 1980 og aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra 1971-1974. Jónas var búnaðarmálastjóri 1980-1995. Eftir það vann hann að sérverkefnum fyrir Bændasamtök Íslands og stundaði einnig ritstörf. Umhverfismál og náttúruvernd voru Jónasi ætíð hugleikin og m.a. var hann formaður Skógræktarfélags Íslands 1972-1981. Hann sat á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn 1973-1974 og var varaþingmaður frá 1969. Jónas kvæntist Sigurveigu Erlingsdóttur, þau eignuðust fjögur börn.

Jónas Jónsson (1885-1968)

  • S02945
  • Person
  • 1. maí 1885 - 19. júlí 1968

Fæddur í Hriflu í Bárðardal. Foreldrar: Jón Kristjánsson bóndi þar og kona hans Rannveig Jónsdóttir. ,,Gagnfræðapróf Akureyri 1905. Nám í lýðháskólanum í Askov á Jótlandi 1906–1907, í kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn 1907–1908. Kynnti sér skólamál í Þýskalandi, Frakklandi og Englandi 1908–1909 með styrk úr landssjóði, dvaldist þá m. a. eitt missiri á Ruskin College í Oxford. Kennari við unglingaskólann á Ljósavatni 1905–1906. Kennari við Kennaraskólann í Reykjavík 1909–1918. Skólastjóri Samvinnuskólans frá stofnun hans haustið 1919–1927 og 1932–1955. Skipaður 28. ágúst 1927 dóms- og kirkjumálaráðherra, lausn 20. apríl 1931, skipaður 20. ágúst 1931 dóms- og kirkjumálaráðherra að nýju, lausn 28. maí 1932, en gegndi störfum til 3. júní. Kosinn 1925 í bankamálanefnd, 1926 í alþingishátíðarnefnd. Í dansk-íslensku ráðgjafarnefndinni 1926–1939. Í Þingvallanefnd 1928–1946. Í menntamálaráði 1934–1946. Tók sæti í bankaráði Landsbankans 1927 og 1936, í orðunefnd 1935–1944. Forseti Þjóðvinafélagsins 1940–1941. Í skipulagsnefnd atvinnumála 1934. Formaður Framsóknarflokksins 1934–1944. Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1938–1942. Í skipulagsnefnd bygginga við Lækjargötu 1943."

,,Landskjörinn alþingismaður 1922–1934, alþingismaður Suður-Þingeyinga 1934–1949 (Framsóknarflokkur).
Dóms- og kirkjumálaráðherra 1927–1931 og 1931–1932.
Milliþingaforseti efri deildar 1932 og 1933."

,,Afkastamikill rithöfundur, skrifaði bækur, bókarkafla og greinar í blöð og tímarit. Samdi kennslubækur, oft endurprentaðar, og skrifaði greinar um menn og málefni: skólamál, samvinnumál, þjóðfélagsmál o. fl. — Jónas Kristjánsson annaðist útgáfu bókarinnar: Jónas Jónsson frá Hriflu. Ævi hans og störf (1965). Indriði G. Þorsteinsson skrifaði: Samtöl við Jónas (1977). Guðjón Friðriksson skrifaði ævisögu Jónasar Jónssonar í þremur bindum: Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni. Dómsmálaráðherrann. Ljónið öskrar (1991–1993).
Ritstjóri: Skinfaxi (1911–1917). Tímarit íslenskra samvinnufélaga (1917–1925). Samvinnan (1926– 1928 og 1931–1946). Ófeigur (1944–1956). Landvörn (1946). Landvörn (1948–1953)."

Jónas Jón Snæbjörnsson (1890-1966)

  • S03443
  • Person
  • 21.03.1890-18.07.1966

Jónas Jón Snæbjörnsson, f. í Svefneyjum á Breiðafirði 21.03.1890, d. 18.07.1966. Foreldrar: Snæbjörn í Hergilsey og kona hans, Guðrún Hafliðadóttir úr Svefneyjum. Jónas lærði trémíðar og sigldi síðan til Kaupmannahafnar og lagði þar stund á teikninám. Árið 1914 gerðist hann smíða- og teiknikennari við Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hann lét af því starfi 1960. Á sumrum vann hann við ýmis konar smíðar, m.a. brúarsmíðar.
Maki: Herdís Símonardóttir. Þau eignuðust þrjú börn.

Jónas Hallgrímsson (1915-1977)

  • S03130
  • Person
  • 28. mars 1915 - 15. jan. 1977

Fæddist á Akureyri 28. mars 1915. Faðir: Hallgrímur Einarsson (1878-1948) ljósmyndari á Akureyri. Móðir: Guðný Marteinsdóttir (1886-1928) húsfreyja á Akureyri. Jónas nam hjá föður sínum eftir 1935. "Var með sjálfstæðan ljósmyndarekstur á Akureyri frá því fyrir 1939. Starfaði á ljósmyndastofu Jóns og Vigfúsar. Tók við plötu- og filmusöfnum föður síns og Kristjáns bróður síns eftir lát Kristjáns 1963. Rak Myndver á Akureyri 1968-1974 ásamt Matthíasi Gestssyni." Safn hans varðveitt á Minjasafninu á Akureyri.

Jónas Bjarnason (1926-2003)

  • S01804
  • Person
  • 26. mars 1926 - 19. okt. 2003

Jónas Bjarnason fæddist á Uppsölum í Blönduhlíð í Skagafirði 26. mars 1926. Foreldrar hans voru hjónin á Uppsölum, Sigurlaug Jónasdóttir og Bjarni Halldórsson. ,,Jónas ólst upp á Uppsölum við hefðbundin sveitastörf og stundaði vegavinnu á sumrin. Fór síðan til Akureyrar og nam rennismíði í Vélsmiðjunni Atla, lauk sveinsprófi 1949 og hlaut meistararéttindi 1952. Jónas starfaði við rennismíðar allan sinn starfsferil og um rúmlega hálfrar aldar skeið átti hann og rak Járnsmiðjuna Varma á Akureyri, lengst af í félagi við Ívar Ólafsson. Jónas var frá unga aldri stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og á tímabili virkur í starfi flokksins á Akureyri. Þá var hann lengi félagi í Karlakór Akureyrar. Hin síðari ár var hann ötull félagsmaður Oddfellowreglunnar." Jónas kvæntist 25. desember 1954 Rakel Grímsdóttur sjúkraliða, f. í Örlygshöfn við Patreksfjörð, þau eignuðust þrjú börn.

Jóna Kristín Guðmundsdóttir (1899-2003)

  • S01507
  • Person
  • 29. des. 1899 - 19. des. 2003

Jóna Kristín Guðmundsdóttir fæddist í Minni-Brekku í Fljótum, dóttir Guðmundar Stefánssonar b. og skálds í Minni-Brekku og k.h. Ólafar Pétursdóttur. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum á Minni-Brekku og vann á búi þeirra til fullorðinsára. Hún lærði fatasaum á Sauðárkróki. Maður hennar var Guðmundur Benediktsson (1893-1970) bóndi og sjómaður, þau bjuggu lengst af á Berghyl í Fljótum (frá 1927). Hún var hagleikskona, saumaði í dúka og vann ýmsa handavinnu. Hún var hagorð og hafði yndi af skáldskap. Er Guðmundur lést árið 1970, bjó Jóna áfram á Berghyl með nokkrar kindur. Árið 1979 fluttist hún Akureyrar til Guðrúnar dóttur sinnar. Hún var hjá henni á veturna en á Berghyl á sumrin. Árið 1990 flutti hún á öldrunarheimilið á Sauðárkróki og bjó þar til æviloka. Jóna náði 104 ára aldri. Jóna og Guðmundur eignuðust þrjú börn og tóku einn fósturson.

Jón Þorsteinsson (1924-1994)

  • S01550
  • Person
  • 21. feb. 1924 - 18. sept. 1994

Var á Akureyri 1930. Lögfræðingur og alþingismaður, síðast búsettur á Seltjarnarnesi.

Jón Þórarinsson (1917-2012)

  • S02443
  • Person
  • 13. sept. 1917 - 12. feb. 2012

Jón Þórarinsson fæddist í Gilsárteigi í Eiðaþinghá, S-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Þórarinn Benediktsson, hreppstjóri og alþingismaður, f. í Keldhólum á Völlum og k.h. Anna María Jónsdóttir. Árið 1920 flutti fjölskyldan til Seyðisfjarðar. ,,Jón varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1937 og stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann lauk Mus.B-prófi í tónfræði 1946 og Mus.M-prófi í tónsmíði 1947 við Yale-háskólann í Bandaríkjunum. Sumarið 1945 stundaði hann nám við Juilliard-tónlistarháskólann í New York og fór til námsdvalar í Austurríki og Þýskalandi 1954-1955. Jón var yfirkennari í tónfræði og tónsmíði við Tónlistarskólann í Reykjavík 1947-1968, stundakennari við sama skóla frá 1979 og kennari við Söngskólann í Reykjavík 1983-1987. Hann starfaði við Ríkisútvarpið að mestu óslitið 1938-1956, var dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Ríkissjónvarpsins 1968-1979 og sat í Útvarpsráði 1983-1987. Hann var einn af stofnendum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fyrsti stjórnarformaður 1950-1953 og framkvæmdastjóri hennar 1956-1961. Þá sat hann aftur í stjórn hljómsveitarinnar frá 1988-2002. Jón var söngstjóri Fóstbræðra 1950-1954, Gamalla Fóstbræðra frá stofnun 1959-1997 og Stúdentakórsins 1964-1967. Hann var forseti Bandalags íslenskra listamanna 1951-1952 og 1963-1966, var formaður úthlutunarnefndar Kvikmyndasjóðs 1985-1986 og framkvæmdastjóri Listahátíðar 1988. Jón sat í undirbúningsnefnd Samtaka um byggingu tónlistarhúss (1987) og í stjórn samtakanna um skeið. Auk þess að gegna ýmsum öðrum stjórnar- og trúnaðarstörfum hjá samtökum listamanna. Jón var meðlimur í Rótarýklúbbi Reykjavíkur frá 1975 til dauðadags. Eftir Jón liggur fjöldi tónverka. Meðal þekktra sönglaga Jóns eru Fuglinn í fjörunni, Íslenskt vögguljóð á Hörpu og Sex gamlir húsgangar. Jón samdi auk þess tónlist við mörg leikrit og kvikmyndir og gerði fjölda útsetninga á verkum annarra höfunda, meðal annars hljómsveitarútsetningu þjóðsöngsins. Megnið af frumsaminni tónlist Jóns kom út á geisladiskasafninu Fuglinn í fjörunni 1998. Meðal ritverka Jóns eru Stafróf tónfræðinnar (1962) Páll Ísólfsson (1963) Sveinbjörn Sveinbjörnsson ævisaga (1969) og óútgefin Tónlistarsaga Íslands frá landnámsöld til miðbiks tuttugustu aldar sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni. Hann skrifaði tónlistargagnrýni og um tónlist og tónlistarmenn í Alþýðublaðið (1948-1950), Morgunblaðið (1962-1968) og Vísi á árum áður. Eftir Jón liggur auk þess mikill fjöldi greina um tónlist og tónlistarmálefni frá ýmsum tímum. Jón var riddari íslensku fálkaorðunnar frá 1978 og stórriddari hennar frá 1999." Fyrri kona Jóns var Þórdís Edda Kvaran, þau eignuðust þrjá syni. Þau skildu. Seinni kona Jóns var Sigurjóna Jakobsdóttir, þau eignuðust fjögur börn.

Jón Þ. Þór (1944-

  • S02342
  • Person
  • 14. ágúst 1944-

Sagnfræðingur. Fæddur 1944 og ólst upp á Akureyri. Skrifaði m.a. Sögu Grindavíkur og Sögu Ísafjarðarkaupstaðar og Eyrarhrepps hins forna. Hefur einnig fengist við kennslu.

Jón Sveinsson (1889-1957)

  • S02998
  • Person
  • 25. nóv. 1889 - 18. júlí 1957

Fæddur á Árnastöðum í Loðmundarfirði. Foreldrar: Sveinn Bjarnason bóndi og kona hans Sigríður Árnadóttir. Er Jón var á barnsaldri fluttist fjölskyldan til Borgarfjarðar eystri og bjó þar, síðan lengst af í Húsavík. Um fermingu réðst hann sem fjármaður til Einars Þórðarsonar að Desjamýri. Hann varð stúdent frá Menntaskóla Reykjavíkur vorið 1914 og innritaðist um haustið í lagadeild Háskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist hann vorið 1919. Að loknu lagaprófi varð hann bæjarstjóri á Akureyri og gegndi því starfi til ársins 1934. Eftir það gegndi hann ýmsum opinberum störfum, var m.a. rannsóknardómari í skattamálum, auk málflutningsstarfa. Gegndi auk þess fjölda trúnaðarstarfa.

Maki: Fanney Guðmundsdóttir frá Ísafirði. Þau eignuðust 3 börn. Fyrir átti Jón einn son.

Jón Sigurgeirsson (1909-2000)

  • S02369
  • Person
  • 14. apríl 1909 - 11. sept. 2000

Jón var fæddur 14. apríl 1909 á Helluvaði í Mývatnssveit og ólst þar upp. Sonur hjónanna Sigurgeirs Jónssonar bónda og konu hans Sólveigar Sigurðardóttur. Hann var kvæntur Ragnhildi Jónsdóttur frá Gautlöndum í Mývatnssveit og eignuðust þau fjögur börn. ,,Framan af ævi stundaði Jón ýmis störf í Mývatnssveit, einkum þó húsasmíðar. Árið 1940 fluttist hann til Akureyrar og starfaði þar sem lögregluþjónn næstu 13 árin. Árið 1954 gerðist Jón umsjónarmaður á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þegar það flutti í nýja byggingu á Eyrarlandsholtinu. Því starfi gegndi hann þar til hann fór á eftirlaun. Jón var ætíð mikill áhugamaður um ferðalög og var í hópi frumkvöðla í könnun óbyggða Íslands á öðrum fjórðungi 20. aldar. Hann lagði víða hönd á plóg við að gera fólki hálendið aðgengilegt og áhugavert, m.a. með þátttöku í skálabyggingum og vegabótum auk þess að hafa frumkvæði að könnun nýrra leiða og brúarsmíði. Vegna víðtækrar þekkingar sinnar á hálendi Norðurlands tók Jón þátt í fjölmörgum björgunarleiðöngrum. Ferðafélag Akureyrar gerði hann að heiðursfélaga sínum á 85 ára afmæli hans. Þá söng Jón í fjölmörgum kórum frá unga aldri, lék með Lúðrasveit Akureyrar og var um margra ára skeið organisti í Hríseyjarkirkju. Í hjáverkum lagði Jón stund á bókband og ýmiss konar smíðar. Eftir að Jón var sestur í helgan stein sneri hann sér æ meir að fræða- og ritstörfum. Um áttrætt eignaðist hann tölvu og eftir það dvaldi hann löngum fyrir framan skjáinn og sló inn fjölmargt er á daga hans hafði drifið og margan fróðleik um náttúrufar og mannlíf í Þingeyjarsýslu. Sumt af þessu efni hefur birst í norðlenskum og austfirskum tímaritum."

Jón Pétursson (1867-1946)

  • S02820
  • Person
  • 3. júlí 1867 - 7. feb. 1946

Jón Pétursson, f. í Valadal 03.07.1867. Foreldrar: Pétur Pálmason bóndi í Valadal og síðar á Álfgeirsvöllum og kona hans Jórunn Hannesdóttir frá Hömrum. Jón var bóndi í Sölvanesi 1889-1890, á Löngumýri 1890-1891, í Valadal 1891-1897, á Nautabúi 1897-1912, í Eyhildarholti 1912-1923, Neðri Haganesvík og Dæli í Fljótum 1926-1930 en fluttist þá til Akureyrar.
Jón var landskunnur hagyrðingur og einn af þekktustu hestamönnum í Skagafirði á sínum tíma.
Maki: Sólveig Eggertsdóttir (1869-19446). Þau eignuðustu 13 börn.

Jón Pálmi Jónsson (1888-1962)

  • S00011
  • Person
  • 27.01.1888-06.08.1962

Jón Pálmi Jónsson er fæddur í Sauðanesi, Torfalækjarhreppi, A.-Hún. árið 1888. Faðir hans var Jón Hróbjartsson (1849-1928), bóndi á Gunnfríðarstöðum, A.-Hún. Móðir hans var Anna Einarsdóttir (1850-1910), húsfreyja á Gunnfríðarstöðum, frá Hring í Blönduhlíð. Jón Pálmi stundaði nám við Gagnfræðiskólann á Akureyri 1906-1907. Lærði ljósmyndun hjá Hallgrími Einarssyni á Akureyri 1909-1911. Var íþróttakennari á Blönduósi 1907-1908 og barnakennari í Svínavatnshreppi 1907-1909. Mun hafa unnið hjá Þórarni Stefánssyni ljósmyndara á Húsavík á tímabilinu 1910-1912. Rak ljósmyndastofu á Sauðárkróki 1912 til vors 1915, seldi Pétri Hannessyni stofuna í desember 1914. Bendlaður við peningafölsunarmál og flúði land. Var starfsmaður á ljósmyndastofu í Noregi 1915-1916. Fluttist til Bandaríkjanna 1916 og rak þar ljósmyndastofu með hléum frá 1919 til 1962.

Jón Laxdal (1865-1928)

  • S02446
  • Person
  • 13. okt. 1865 - 7. júlí 1928

Jón Laxdal er fæddur á Akureyri 13. október 1865. Foreldrar hans voru Jón Guðmundsson hafnsögumaður og kona hans Friðbjörg Guðrún Grímsdóttir. ,,Ólst hann upp í foreldrahúsum til 12 ára aldurs, en fór þá til Eggerts Laxdals, móðurbróður síns, og starfaði við verzlun hans á Akureyri til 18 ára aldurs. Árlangt var hann bókhaldari við Höpfnersverzlun á Blönduósi í forföllum annars manns (1883-84). Tvítugur að aldri (1885) gerðist hann bókhaldari við Knudtsonsverzlunina í Keflavík og var þar í sex ár, en fór þá um haustið 1891 utan og dvaldi vetrarlangt í Kaupmannahöfn (1891-92). Vorið eftir kom hann heim og gerðist bókhaldari í Reykjavík við sömu verzlun (Knudtson-verzlunina). Um veturinn 1895 varð hann forstjóri Tangsverzlunar á Ísafirði og gegndi því starfi í 13 ár (1895-1909). Árin 1909-1910 var hann erlendis í þeim erindum að kynna sér bankastörf í Danmörku og Skotlandi. Eftir það settist hann að í Reykjavík og gerðist brátt umsvifamikill kaupsýslumaður. Nokkrum árum fyrir andlát sitt varð hann ræðismaður Tjekkoslóvakíu hér á landi." Jón samdi fjölda sönglaga, má þar nefna „Syngið, syngið, svanir mínir“ og „Vorvísur“. Jón Laxdal var þríkvæntur. Fyrsta konan var Kristín Egilsdóttir, þau voru barnlaus og slitu samvistum. Önnur konan var Elín Matthíasdóttir, þau eignuðust eina dóttur. Þriðja konan var Inger, fædd Leimeier, ættuð frá Jótlandi, þau eignuðust ekki börn.

Jón Kristján Andrésson (1897-1967)

  • S03116
  • Person
  • 1. sept. 1897 - 26. jan. 1967

Frá Öldubakka á Skaga. Sonur Andrésar Péturssonar b. á Öldubakka o.v. og k.h. Kristjönu Jónsdóttur. Sjómaður á Sauðárkróki, seinna búsettur á Akureyri. Kvæntist Guðlaugu Konráðsdóttur frá Brekkukoti í Blönduhlíð, þau eignuðust fjögur börn.

Jón Jónsson (1905-1988)

  • S02943
  • Person
  • 25.05.1905- 21.02.1988

Jón Jónsson, f. 25.05.1905, d. 21.02.1988. Foreldrar hans voru Sigtryggur Jónsson bóndi á Ufsaströnd og Guðrún Jóhanna Sigurjónsdóttir. ,,Jón kom ungur að aldri, ásamt móður sinni, til prestshjónanna á Völlum í Svarfaðardal, séra Stefáns B. Kristinssonar og konu hans, Sólveigar Pétursdóttur Eggertz og þar ólst hann upp. Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1930. Kennsla varð hans aðalstarf, en jafnhliða því stundaði hann búskap. Hann hélt unglingaskóla á Dalvík, varð síðan skólastjóri unglingaskólans á Siglufirði og skólastjóri Gagnfræðaskóla Siglufjarðar frá stofnun hans. Kona Jóns var Anna Stefánsdóttir, þau eignuðust níu börn. Jón hóf búskap sinn á Völlum, síðar í Gröf, en árið 1947 flutti hann með fjölskyldu sína að Böggvistöðum við Dalvík. Eftir að hann lét af kennslu á Siglufirði stundaði hann kennslustörf á Dalvík á meðan heilsa hans leyfði."

Jón Jónsson (1861-1931)

  • S02823
  • Person
  • 29. sept. 1861 - 5. des. 1931

Foreldrar: Jón Þorkelsson bóndi á Hreppsendaá í Ólafsfirði og kona hans Anna Símonardóttir. Jón fæddist í Skarðsdal og ólst þar upp til átta ára aldurs en þá flutti fjölskyldan að Reykjarhóli í Austur-Fljótum og bjó þar til ársins 1871 en þá drukknaði faðir hans af hákarlaskipi frá Hraunum. Varð þá ekkjan að láta frá sér börnin nema það yngsta, Rögnvald. Jón fór því snemma að vinna fyrir sér og var á ýmsum stöðum í Fljótum til fullorðinsára. Þá fluttist hann inn í Hofshrepp og kvæntist þar. Maki: Anna Kristín Jóhannsdóttir, f. 25.03.1865 á Gröf á Höfðaströnd. Þau eignuðust sjö börn. Var bóndi á Torfhóli í Óslandshlíð 1887-1897, Stóragerði 1897-1906, Brekkukoti 1906-1909. Brá þá búi en reisti aftur bú á Torfhóli 1911. Var þar til 1918 en brá þá búi og fluttist til Hofsóss. Fluttust þau hjón þaðan til Siglufjarðar til Halldóru dóttur sinnar. Þar lést Anna Kristín og fór Jón þá til Akureyrar til Guðbjargar dóttur sinnar og bjó þar til dauðadags.

Jón Jóhannesson (1860-1932)

  • S03056
  • Person
  • 27. júlí 1860 - 15. júlí 1932

Foreldrar: Jóhannes Jónsson, lengst af bóndi í Árnesi í Lýtingsstaðahreppi og f.k.h. Anna Bjarnadóttir frá Sjávarborg. Jón var bóndi í Árnesi 1891-1929. Flutti þá að Fagranesi í Öxnadal og þaðan til Akureyrar. Jón átti sæti í hreppsnefnd um nokkurt árabil og sat einnig í stjórn búnaðarfélags hreppsins. Jón kvæntist árið 1894 Gróu Sveinsdóttur frá Litladal í Svínavatnshreppi, þau eignuðust saman tvær dætur, fyrir átti Jón son með Ólínu Ingibjörgu Ólafsdóttur.

Jón Jakobsson Bergdal (1893-1953

  • S03441
  • Person
  • 29.12.1893-13.08.1953

Kom 1894 frá Eyvindarstöðum að Kaupangi í Kaupangssókn. Vinnumaður í Fjósakoti, Saurbæjarhreppi, Eyj. 1920. Húsmaður á Sandhólum í Saurbæjarhreppi 1923. Bókbindari á Akureyri. Verkamaður á Akureyri 1930.

Jón Hafsteinn Jónsson (1928-2018)

  • S01639
  • Person
  • 22. mars 1928 - 17. okt. 2018

Dóttir Jóns Jónssonar b. á Gýgjarhóli og k.h. Sigurbjargar Jónsdóttur. Menntaskólakennari á Akureyri 1953-1986, eftir það búsettur í Reykjavík. Stúdent frá MA 1948. Cand. mag. frá Kaupmannahafnarháskóla 1953 með stærðfræði sem aðalnámsgrein. Hann hlaut sérstaka viðurkenningu frá Hafnarháskóla fyrir prófritgerð sína. Kvæntist Soffíu Emilíu Guðmundsdóttir tónlistarkennara.

Jóhannes Gísli Sölvason (1931-2007)

  • S02960
  • Person
  • 3. sept. 1931 - 19. feb. 2007

Jóhannes fæddist á Undhóli í Óslandshlíð í Hofshreppi í Skagafirði í september 1931. Foreldrar hans voru Sölvi Meyvant Sigurðsson og Halldóra Guðnadóttir á Undhóli, seinna í Reykjavík. Jóhannes ólst upp að Undhóli og að loknu barnaskólanámi fór hann til Akureyrar og lauk stúdentsprófi frá stærðfræðideild Menntaskólans á Akureyri vorið 1953. Þaðan lá leið hans til Reykjavíkur í Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist 1957. Jóhannesar starfaði í varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins í Reykjavík, var forstöðumaður Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli, fulltrúi í bókhaldsdeild Loftleiða hf. í Reykjavík og forstöðumaður fjármálasviðs International Air Bahama í New York 1970-1980. Eftir það var hann deildarstjóri fjármála- og bókhaldsdeildar Flugleiða hf. í New York og síðar í Columbia, Maryland. Áhugamál Jóhannesar voru margvísleg og sat hann m.a. í stjórn og varastjórn Frjálsíþróttasambands Íslands 1958–1961, var formaður 1960–1961. Jóhannes kvæntist fyrri konu sinni Kristjönu Jakobsdóttur Richter (1936), tónlistarkennara 1954 og eignuðust þau fjögur börn saman. Seinni kona Jóhannesar var Marilyn Hollander (1929-2006).

Jóhanna Sigríður Jónína Helgadóttir (1906-1999)

  • S02033
  • Person
  • 19.07.1906-19.04.1999

Foreldrar hennar voru Helgi Björnsson og Margrét Sigurðardóttir á Ánastöðum. Sigríður var næstyngst níu systkina og dvaldist hjá foreldrum sínum á Ánastöðum fyrst, fylgdi þeim er þau fluttu að Mælifellsá, Kolgröf og síðast að Reykjum í Tungusveit. Hún naut tilsagnar heimiliskennara í æsku, og er hún hafði aldur til, fór hún til náms í fatasaumi, fyrst hjá Hólmfríði systur sinni á Sauðárkróki. Þaðan lá leiðin til Reykjavíkur síðla vetrar árið 1927 til framhaldsmenntunar. Þar var hún til heimilis hjá Ísfold systur sinni, sem þá var orðin húsmóðir þar. Hún komst í nám hjá Herdísi Maríu Brynjólfsdóttur saumakonu, en fór síðan að stunda fiskvinnslu sér til framfærslu. Sumarið 1930 kom Sigríður aftur heim í Skagafjörð og kvæntist Svavari Péturssyni. Þau hófu búskap á Reykjum 1931, en fluttust síðan að Hvammkoti, þaðan að Ytrikotum í Norðurárdal og síðan að Silfrastöðum og bjuggu þar í sex ár, þá byggðu þau nýbýli úr landi Reykjaborgar sem þau nefndu Laugarbakka. Þar stunduðu þau búskap til ársins 1963 er þau fluttu til Akureyrar þar sem þau bjuggu til æviloka. Sigríður og Svavar eignuðust fjögur börn.

Jóhanna Freyja Jónsdóttir (1922-2016)

  • S01769
  • Person
  • 26. júní 1922 - 30. sept. 2016

Jóhanna Freyja Jónsdóttir fæddist 26. júní 1922 í Réttarholti, Skagafirði. Foreldrar hennar voru Sigríður Rögnvaldsdóttir og Jón Sigurðsson. ,,Jóhanna lauk barna- og gagnfræðaskólanámi í Skagafirði og stundaði nám við Húsmæðraskólann að Staðarfelli veturinn 1941 til 1942. Jóhanna var húsmóðir í Réttarholti og stundaði þar bústörf með fjölskyldu sinni. Seinna starfaði hún í nokkra vetur í mötuneyti Þelamerkurskóla. Árið 2006 fluttist hún til Akureyrar og var síðast búsett þar." Jóhanna giftist Gísla Sigurjóni Kristjánssyni, þau eignuðust þrjú börn.

Jóhanna Birna Helgadóttir (1911-1990)

  • S00888
  • Person
  • 6. júlí 1911 - 21. desember 1990

Jóhanna Birna Helgadóttir, f. að Kirkjuhóli í Seyluhreppi 06.07.1911, d. 21.12.1990. Foreldrar: Helgi Júlíus Guðnason (1865-1932) og fyrri kona hans, Sigurbjörg Jónsdóttir (1871-1914). Þau bjuggu á Kirkjuhóli árið sem Birna fæddist en fluttust ári síðar að Kolgröf og bjuggu á parti þar, síðan á Þröm 1916-1925 og á Miðsitju 1926-1931. Þá brá hann búi og fór að Miklabæ í Blönduhlíð. Birna missti móður sína þegar hún var þriggja ára gömul en Helgi tók sér bústýru, Maríu Guðmundsdóttur, og eignaðist með henni börn. Hún gekk börnum hans einnig í móðurstað. Fjórtán ára gömul fluttist Birna til Akureyrar og dvaldi í vistum hjá skyldfólki sínu. Það ár missti hún föður sinn. Árið 1935 réðist hún í kaupavinnu að Fremstagili í Langadal. Þar bjó Hilmar, sem síðar varð eiginmaður hennar.
Maki: Hilmar Arngrímur Frímannsson. Þau eignuðust fimm börn. Þau bjuggu allan sinn búskap á Fremstagili.
Birna var hgmælit og félagslind og tók þátt í starfi kvenfélagsins í sveitinni.

Jóhanna Álfheiður Bergsdóttir (1883-1963)

  • S01757
  • Person
  • 10. okt. 1883 - 7. júlí 1967

Foreldrar: Bergur Hallsson b. á Skálafelli í Suðursveit og k.h. Sigríðar Jónsdóttur. Kvæntist Haraldi Sigurðssyni ættuðum úr Öxnadal, þau hófu búskap á Bessahlöðum í Öxnadal en fluttu að Tyrfingsstöðum á Kjálka 1911. Jóhanna var vinnukona á Silfrastöðum 1912-1913, sennilega með manni sínum í vinnumennsku í Flatatungu á Kjálka 1913-1922, bjó á Fossi í Blönduhlíð 1922-1923, vinnukona á Vöglum í Blönduhlíð 1924-1925 og húskona í Flatatungu 1925-1926. Líklega í Flatatungu 1926-1930, í Gloppu í Öxnadal 1931-1935. Fóru þaðan að Fagranesi í Öxnadal til 1939 er þau fluttu til Akureyrar þar sem þau bjuggu til 1943. Það sama ár fluttu þau til Sauðárkróks og bjuggu þar síðan. Á efri árum sínum á Sauðárkróki hafði hún þann starfa að gæta kúa bæjarbúa. Jóhanna var römm að afli, verkhög, nærfærin við sjúka og lagin við að taka á móti börnum. Jóhanna og Haraldur eignuðust fjögur börn saman, fyrir átti Jóhanna dóttur.

Jóhann Ólafsson (1891-1972)

  • S02386
  • Person
  • 10. sept. 1891 - 30. sept. 1972

Jóhann fæddist í Grafargerði á Höfðaströnd árið 1891. Foreldrar hans voru Ólafur Kristjánsson bóndi og kona hans Engilráð Kristjánsdóttir. Til tíu ára aldurs ólst Jóhann upp hjá foreldrum sínum, en þá fór hann til föðurbróður síns Jóhanns bónda á Krossi í Óslandshlíð og konu hans Halldóru Þorleifsdóttur. Dvaldi hann hjá þeim til fullorðinsára.
Jóhann naut hefðbundinnar barnaskólafræðslu og haustið 1914 fór hann í Bændaskólann á Hólum og lauk þaðan prófi vorið 1916. Síðar fór hann á námskeið í dýralækningum hjá Sigurði Hlíðar á Akureyri og stundaði töluvert dýralækningar um margra ára skeið. Hann var bóndi í Miðhúsum lengst af (1936-1970). Hann var félagslyndur maður og var kosinn til ýmissa starfa í sveit sinni. Jóhann þótti lipur hagyrðingur og allvíða birtust ljóð eftir hann. Kona Jóhanns var Guðleif Jóhanna Jóhannsdóttir, þau eignuðust tvö börn.

Jakob Valdemar Havsteen (1844-1920)

  • S03057
  • Person
  • 6. ágúst 1844 - 19. júní 1920

Kaupmaður og etasráð á Akureyri, einnig kaupmaður á Hofsósi. Maki: Thora Emilie Marie Havsteen.

Ingólfur Kristjánsson (1940-2001)

  • S01911
  • Person
  • 13. mars 1940 - 28. nóv. 2001

Ingólfur Kristjánsson fæddist á Hólum í Hjaltadal 13. mars 1940. Foreldrar hans voru hjónin Kristján Karlsson, skólastjóri Bændaskólans á Hólum, síðar erindreki hjá Stéttarsambandi bænda, og Sigrún Ingólfsdóttir, vefnaðarkennari. ,,Ingólfur lauk landsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1957 og stundaði nám við Bændaskólann á Hólum 1958-1959. Hann útskrifaðist sem búfræðingur þaðan vorið 1959 og hélt það sama haust til Bandaríkjanna. Þar var hann til 1963 við nám í landbúnaðarvélaverkfræði við háskólann í Fargo í Norður-Dakota. Að námi loknu vann Ingólfur hjá Flugmálastjórn Íslands 1963-1964, var verslunarstjóri í varahlutaverslun Heklu hf. 1964-1979 og hjá Blossa hf. 1980-1982. Frá 1982 rak Ingólfur eigið innflutningsfyrirtæki, Spyrnuna sf., og starfaði við það til dauðadags." Ingólfur kvæntist 20. apríl 1968 Hildi Eyjólfsdóttur frá Krossnesi í Norðurfirði í Strandasýslu, þau eignuðust tvö börn.

Ingibjörg Sveinsdóttir (1910-2006)

  • S02023
  • Person
  • 27. júlí 1910 - 16. nóv. 2006

Marja Ingibjörg Sveinsdóttir var fædd á Skarði í Skarðshreppi á Reykjaströnd í Skagafirði 27. júlí 1910. Foreldrar hennar voru Sveinn Lárusson og Lilja Kristín Sveinsdóttir. ,,Ingibjörg fluttist á fyrsta aldursári með foreldrum sínum að Steini á Reykjaströnd þar sem hún bjó til 16 ára aldurs, en þá fluttist fjölskylda hennar að Ingveldarstöðum á Reykjaströnd þar sem hún átti heima til 25 ára aldurs. Þaðan flutti hún til Akureyrar og var þar einn vetur. Síðan flutti hún til Siglufjarðar og vann þar við heimilisstörf til 1938, er hún réðst sem ráðskona til Páls Ásgrímssonar að Mjóstræti 2. Ingibjörg tók þar við heimilishaldi, en kona Páls hafði látist frá þremur ungum drengjum nokkrum árum áður. Ingibjörg vann við síldarsöltun meðan síld kom til Siglufjarðar og eftir það við fiskvinnslu. Hún starfaði í verkakvennafélaginu Vöku og í kvennadeild slysavarnafélagsins Vörn. Einnig tók hún virkan þátt í félagsstarfi aldraðra. Ingibjörg bjó alla sína búskapartíð í Mjóstræti 2 en veturinn 1990 flutti hún í Skálarhlíð, dvalarheimili aldraðra á Siglufirði." Hinn 15.apríl 1939 giftist Ingibjörg Páli Ásgrímssyni, þau eignuðust þrjú börn saman, fyrir átti Páll þrjá syni.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir (1899-1989)

  • S01881
  • Person
  • 17. nóv. 1899 - 13. maí 1989

Foreldrar: Sigurjón Jónsson b. á Hellu í Blönduhlíð og k.h. Ólöf Jónsdóttir. Ung var Ingibjörg tekin í fóstur að Víðivöllum í Blönduhlíð, en þá bjuggu þar hjónin Sigurður Sigurðsson og Guðrún Pétursdóttir. Þar ólst hún upp, en réðst kaupkona að Flatatungu 1919. Kvæntist árið 1923 Þorsteini A. Einarssyni frá Flatatungu. Ingibjörg og Þorsteinn hófu búskap í Flatatungu árið 1925, fóru búferlum að Tungukoti á Kjálka 1930 og bjuggu þar til ársins 1974 er þau fluttust til Akureyrar. Ingibjörg og Þorsteinn eignuðust þrjú börn en auk þess dvöldu mörg börn hjá þeim, skyld og vandalaus og undu hag sínum vel.

Ingibjörg Jónsdóttir (1908-2001)

  • S01489
  • Person
  • 5. apríl 1908 - 11. ágúst 2001

Ingibjörg er fædd á Bólu í Blönduhlíð, dóttir Jóns Ingimars Jónassonar og k.h. Oddnýjar Stefánsdóttur. Ingibjörg ólst upp í Bólu en fór til Akureyrar 1922 þar sem hún var m.a. í vistum. Hún fór í Kvennaskólann í R.vík og lauk þar námi. Árið 1930 flutti hún til Siglufjarðar þar sem hún setti upp matsölu og rak hana að sumrinu. Þá rak hún einnig saumastofu á Siglufirði og saumaði skinnhúfur, skinnhanska, lúffur og vinnuvettlinga. Þessa framleiðslu seldi hún víða um land. Ingibjörg tók mikinn þátt í félagslífi á Siglufirði. Auk þess að syngja með Kirkjukór Siglufjarðar starfaði hún með kvenfélaginu þar og eitthvað með leikfélagi Siglufjarðar. Árið 1945 flutti hún ásamt manni sínum, Pétri Helgasyni, til Sauðárkróks, þar sem þau tóku fyrst við rekstri Hótel Tindastóls og síðar Villa Nova. Eftir að þau hættu rekstri Hótel Tindastóls, setti Ingibjörg þar upp hannyrðaverslun í félagi við Sigríði Önnu Stefánsdóttur og ráku þær hana þar til 1970, að Ingibjörg opnaði verslun að Hólavegi 16 sem hún rak meðan heilsa leyfði. Vefnaðarvöruverslun hennar var vinsæl og þekkt fyrir góða og vandaða vöru. Hún gekk til liðs við Kirkjukór Sauðárkróks og söng þar meðan heilsa leyfði. Einnig var hún virk í starfi Kvenfélags Sauðárkróks og var gerð að heiðursfélaga á 90 ára afmæli félagsins árið 1985.
Ingibjörg og Pétur eignuðust einn son saman og tóku einn fósturson, fyrir hjónaband hafði Pétur eignast dóttur.

Ingibjörg Björnsdóttir (1896-1997)

  • S01701
  • Person
  • 21. okt. 1896 - 2. sept. 1997

Foreldrar: Björn Benónýsson b. á Illugastöðum í Laxárdal og k.h. Ingibjörg Stefánsdóttir. Tveggja ára gömul fór Ingibjörg í fóstur til Sigríðar föðursystur sinnar og manns hennar Magnúsar Hjálmarssonar að Bjarnastöðum í Blönduhlíð. Árið 1907 fluttust þau hjón með Ingibjörgu að Illugastöðum í Laxárdal til Björns föður hennar. Þar voru þau eitt ár, en fluttust síðan til árs búskapar að Ingveldarstöðum ytri á Reykjaströnd og árið 1909 fóru þau til Sauðárkróks og settust að í húsinu Brimgarði. Ingibjörg fermdist árið 1911, og sama árið fór hún vinnukona að Hólkoti á Reykjaströnd. Árið 1912 fór hún frá Hólkoti að Bakka í Vallhólmi, þar sem kynntist mannsefni sínu, Agli Gottskálkssyni. Þau bjuggu á Hvammkoti á Skaga 1917-1921, á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd 1921-1926, í Hjaltastaðakoti 1926-1935, á Mið-Grund 1935-1968. Síðast búsett á Akureyri. Ingibjörg lést 101 árs gömul.
Ingibjörg og Egill eignuðust átta börn.

Ingibjörg Árnadóttir (1883-1979)

  • S02703
  • Person
  • 17. sept. 1883 - 1. ágúst 1979

Foreldrar: Guðrún Þorvaldsdóttir frá Framnesi og Árni Jónsson b. og snikkari í Borgarey í Vallhólmi. Árni lést þegar Ingibjörg var aðeins fimm ára gömul. Móðir hennar kvæntist aftur, Pétri Gunnarssyni á Stóra-Vatnsskarði. Um tvítugsaldur settist Ingibjörg í kvennaskóla á Akureyri og lauk þar námi. Eftir það stóð hún fyrir búi hjá Árna bróður sínum á Stóra-Vatnsskarði þar til hann kvæntist. Hún tók í fóstur frænku sína, Guðrúnu Þorvaldsdóttur, þær fluttu til Reykjavíkur árið 1945 og bjó Ingibjörg þar til æviloka.

Ingibjörg Alda Bjarnadóttir (1929-2009)

  • S01807
  • Person
  • 2. maí 1929 - 1. ágúst 2009

Ingibjörg Alda Bjarnadóttir fæddist á Sauðárkróki 2. maí 1929. Hún var dóttir hjónanna Helgu Pétursdóttur saumakonu og Bjarna Antons Sigurðssonar sjómanns. ,,Eftir að Alda missti föður sinn ung að árum, fluttist móðir hennar frá Sauðárkróki til Akureyrar. Alda þurfti að hætta skólagöngu í Menntaskólanum á Akureyri sökum þess að hún fékk berkla. Árið 1954 fór hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og kláraði próf þaðan árið 1955. Árið 1952 giftist Alda Stefáni Skaftasyni lækni frá Siglufirði, þau skildu, þau eignuðust eina dóttur. Alda og Stefán bjuggu bæði í Þýskalandi og Svíþjóð en eftir að þau skildu fluttist hún aftur til Akureyrar. Á Akureyri kynntist hún síðari manni sínum, Magnúsi, þar sem hann starfaði sem bæjarstjóri, þau eignuðust tvær dætur. Bjuggu þau hjónin á Akureyri til ársins 1967 en fluttu þá suður. Alda og Magnús fluttu í Kópavoginn og bjuggu þar allt fram á dánardag Magnúsar. Síðast búsett í Keflavík.

Hulda Vilhjálmsdóttir (1943-

  • S01523
  • Person
  • 20.12.1943-

Dóttir Vilhjálms Hallgrímssonar trésmíðameistara á Sauðárkróki og k.h. Heiðbjartar Óskarsdóttur. Gagnfræðingur frá Akureyri 1960. Fór eftir það í húsmæðraskóla í Vejle í Danmörku og lauk prófi þaðan vorið 1962. Stundaði síðan skrifstofustörf í Kaupmannahöfn í níu mánuði. Var við símavörslu á Sauðárkróki um tíma en flutti til Akureyrar árið 1964 og vann þar á Landsímastöðinni um tíma. Kvæntist Þórarni Blómkvist Jónssyni.

Hulda Jónsdóttir (1921-2002)

  • S02953
  • Person
  • 1. sept. 1921 - 8. des. 2002

Hulda Marharð Jónsdóttir fæddist á Svaðastöðum í Viðvíkursveit þann 1. september 1921 og var dóttir Jóns Friðrikssonar (1900-1955) frá Svaðastöðum og Sigurlaugar Guðrúnar Sigurðardóttur (1903-1971) frá Hvalnesi. Eftir að foreldrar Huldu slitu samvistum ólst hún upp hjá föðurforeldrum sínum á Svaðastöðum, þeim Pálma Símonarsyni og Önnu Friðriksdóttur. Hulda útskrifaðist frá Húsmæðraskólanum á Hallormsstað árið 1942 og nam svo ljósmóðurfræði og útskrifaðist sem ljósmóðir árið 1944. Árið 1945 giftist Hulda Rögnvaldi Jónssyni frá Marbæli í Óslandshlíð og bjuggu þau þar til ársins 1972 þegar þau fluttu til Akureyrar, þau eignuðust fimm börn. Samhliða því að sinna bæði búi og heimili á Marbæli starfaði hún um tíma sem ljósmóðir í Hofsósumdæmi.

Hrossaræktarsamband Norðurlands

  • S03745
  • Public party
  • 1958 - 1969

Fimmtudaginn 15. maí 1958 komu stjórnir hestamannafélaganna í Skagafirði, Akureyri og Blönduósi saman til fundar í Varmahlíð. Egill Bjarnason, ráðunautur setti fundinn og fól Haraldi Árnasyni ráðunaut fundarstjórn en Magnúsi á Frostastöðum að rita fundargjörð. Tilefni fundarins var að ræða um stofnun hrossaræktarsambands fyrir Norðlendinga - fjórðung. Forsaga málsins er sú að hinn 8. maí s.l. kvaddi stjórn B.S.S. stjórnar hestamannafélaganna í Skagafirði á fund í Varmahlíð og skýrði þeim frá því, að ef af stofnun áminnsts hrossaræktarsambands yrði, þá myndi hún leggja til við næsta aðalfund Búnaðarsambandssins að það afhendi hinu væntanlega hrossaræktarsambandi endurgjaldslaust þá 3. stóðhesta er það nú á, svo og þann sjóð er það hefur undir höndum til styrktar. hrossaræktarstarfseminni.
Aðalfundur Hrossaræktarsambands Norðurlands haldinn á Hótel KEA Akureyri 14.09.1969 samþykkir að leysa sambandið uoo með það fyrir augum að stofnuð verði þrjú sjálfstæð sambönd á núverandi sambandssvæði. Sú tillaga var felld með 15 atkvæðum gegn 8. Þá kom fram tillaga frá hestamannafélaginu Stíganda, flutningsmaður Sveinn Jóhannsson, að aðalfundurinn leggur til að Hrossaræktarsambandið Norðurlands verði skipt í þrjár deildir með undirstjórnum og ein yfirstjórn. 1. Eyjafjarðarsýsla og Þingeyjarsýsla. 2. Skagafjarðarsýsla. 3. Húnavatnssýslur. ( tekið frá fundagerðabók).

Hörður Geirsson (1960-

  • S02487
  • Person
  • 9. maí 1960-

Rafvirkjameistari að mennt. Nam einnig ljósmyndafræði í Kalifornínu. Ljósmyndari á Akureyri. Ráðinn safnvörður ljósmyndadeildar Minjasafnsins á Akureyri 1987.

Hólmfríður Jónsdóttir (1892-1973)

  • S02049
  • Person
  • 9. nóv. 1892 - 13. jan. 1973

Foreldrar: Jón Jónsson b. á Fornastöðum og k.h. Kristín Sigurðardóttir. Fór að Hólum í Hjaltadal í kringum árið 1903 til Þóru móðursystur sinnar og Sigurðar Sigurðssonar skólastjóra. Kvæntist Jóni Ferdinandssyni frá Þorleifsstöðum í Svarfaðardal árið 1914. Þau bjuggu í Smiðsgerði í Kolbeinsdal 1916-1919, síðan á bæjum í Þingeyjarsýslu. Hólmfríður var síðast búsett í Akureyri.

Hjörtur Þórarinsson (1920-1996)

  • S02538
  • Person
  • 24. feb. 1920 - 1. apríl 1996

Hjörtur fæddist á Tjörn í Svarfaðardal. Foreldrar hans voru Sigrún Sigurhjartardóttir húsfreyja og Þórarinn Kristján Eldjárn, hreppstjóri og bóndi. Hjörtur varð stúdent frá MA 1940, búfræðikandídat frá Edinborgarháskóla 1944. Hann starfaði sem ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands og Sambandi nautgriparæktenda í Eyjafirði árin 1946-1949 og var kennari við MA 1948 og 1949. Hjörtur var bóndi á Tjörn í Svarfaðardal frá árinu 1950. Hann var kennari, oddviti og hreppstjóri í Svarfaðardalshreppi, varamaður á Alþingi 1963-67, sat í stjórn Búnaðarfélags Íslands frá 1971, og var fulltrúi á Búnaðarþingi og formaður Búnaðarfélags Íslands og heiðursfélagi þess. Þá sat Hjörtur í Náttúruverndarráði 1972-79 og var formaður í stjórn KEA 1972-1988. Hjörtur ritaði greinar í Árbók Ferðafélags Íslands, svo og í afmælisrit Sparisjóðs Svarfdæla og var útgefandi og ritstjóri mánaðarritsins Norðurslóðar sem hefur komið út frá 1977. Hann ritaði afmælisrit Kaupfélags Eyfirðinga og sögu sýslunefnda Eyjafjarðarsýslu sem kom út í tveimur bindum. Hjörtur hlaut Fálkaorðuna fyrir störf að félags- og samvinnumálum. Hjörtur var kvæntur Sigríði Árnadóttur Hafstað frá Vík í Staðarhreppi, þau eignuðust sjö börn.

Hjálmar Sveinsson (1913-2004)

  • S02554
  • Person
  • 14. jan. 1913 - 28. sept. 2004

Hjálmar var fæddur á Giljum í Vesturdal í Skagafirði. Foreldrar hans voru Sveinn Sigurðsson og kona hans Guðrún Jónsdóttir frá Bakkakoti. ,,Hjálmar var á ýmsum stöðum í Skagafirði eftir að foreldrar hans skildu. Skömmu eftir fermingu flutti hann til föður síns á Giljum í Vesturdal og hinn 17. júní 1944 flutti Hjálmar ásamt föður sínum í Syðra-Vatn í Efri-byggð í Skagafirði. Þar bjó Hjálmar til ársins 1979 er hann brá búi og flutti til Akureyrar. Á Akureyri var Hjálmar næturvörður hjá Slippstöðinni þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir." Hjálmar varð ekki mikillar skólagöngu aðnjótandi, en hann var bókhneigður og fróður maður og hafði góða þekkingu á sögu lands og þjóðar. Hann giftist Soffíu Sigurbjörgu Jóhannsdóttur; þau eignuðust sex börn.

Hjálmar Sigurður Helgason (1909-2005)

  • S02036
  • Person
  • 29.08.1909-21.04.2005

Hjálmar Sigurður Helgason fv. bifreiðarstjóri, Holtagerði 84 í Kópavogi fæddist á Ánastöðum í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði 29. ágúst 1909. Foreldrar hans voru Margrét Sigurðardóttir frá Ásmúla í Holtum og Helgi Björnsson bóndi. Hjálmar kvæntist 6. maí 1943 konu sinni Kristbjörgu Pétursdóttur kennara frá Hranastöðum í Eyjafirði, f. 25. júlí 1916. Þau bjuggu fyrst eitt ár á Sauðárkróki, síðan á Akureyri frá 1944 - 1967. Þá fluttust þau til Kópavogs og bjuggu þar upp frá því.

Helgi Skúlason (1892-1983)

  • S02992
  • Person
  • 22. júní 1892 - 7. nóv. 1983

Fæddur í Odda á Rangárvöllum. Foreldrar: Skúli Skúlason, stjórnarráðsritari og Sigríður Helgadóttir. Helgi var stúdent árið 1910 og lagði síðan stund á læknisfræði og lauk prófi árið 1915. Árið 1923 varð Helgi sérfræðingur í augnsjúkdómum, en þá hafði hann um hríð starfað að þeirri sérgrein. Hann varð héraðslæknir í Síðuhéraði frá 1. ágúst árið 1915, en því starfi gegndi hann til ársins 1919. Hann sinnti læknisstörfum í Reykjavík frá árinu 1921 til ársins 1927, en síðan á Akureyri. Hann var aukakennari í augnsjúkdómafræði við læknadeild Háskóla íslands á tímabilinu 1923 til 1927. Maki: Kara Sigurðardóttir Briem (1900-1982)

Helgi Rafn Traustason (1937-1981)

  • S01655
  • Person
  • 18. apríl 1937 - 21. des. 1981

Helgi Rafn Traustason fæddist á Patreksfirði 18. apríl 1937. Foreldrar hans voru Trausti Jóelsson og kona hans Rannveig Jónsdóttir.
Helgi Rafn stundaði nám í gagnfræðaskólanum í Reykjavík, á Laugarvatni og Akureyri. Hann lauk gagnfræðaprófi með ágætum frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Veturinn 1954-1955 nam hann við Samvinnuskólann í Reykjavík og lauk hann prófi úr þeim skóla árið 1955. Sama ár flutti skólinn að Bifröst í Borgarfirði. Hann vann við hreingerningar í Samvinnuskólanum er hann var við nám þar og hóf störf hjá Samvinnutryggingum mánuði áður en hann lauk þar námi. Þá vann hann nokkur sumur hjá Kaupfélagi Patreksfjarðar og í fjármáladeild Sambandsins sumarið 1954. Hann var aðalbókari hjá Samvinnutryggingum 1955-1960, kaupfélagsstjóri Samvinnufélags Fljótamanna 1960-1963, fulltrúi kaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga 1963-1972 og kaupfélagsstjóri KS 1972-1981. Helgi Rafn var frumkvöðull körfuboltans á Sauðárkróki.
Kona hans: Inga Valdís Tómasdóttir (1937-). Þau kvæntust árið 1957.

Helgi Hallgrímsson (1935-

  • S02472
  • Person
  • 11. júní 1935-

Helgi er fæddur í Holti í Fellum, en ólst upp á Arnheiðarstöðum og Droplaugarstöðum í Fljótsdal. Hann lauk stúdentsprófi frá M.A. 1955. Helgi nam líffræði og grasafræði við háskóla í Göttingen og Hamborg 1955-1963. Hann kenndi við Eiðaskóla og M.A. 1957-1969. Helgi var forstöðumaður við Náttúrugripasafnið á Akureyri 1964-1987 og rannsóknarstöðina Kötlu á Arsskógsströnd 1970-1976. Helgi hefur fengist við margskonar rannsóknir á íslenskri náttúru, einkum vatnalífi og sveppaflóru landsins og skrifað kver um þau efni, Sveppakverið og Veröldin í vatninu; hefur einnig ritað fjölda greina í blöð og tímarit. Hann stofnaði og stýrði Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi 1969-1980 og Vísindafélagi Norðlendinga 1971-1987. Helgi stofnaði og ritstýrði tímaritinu Týli, tímarit um náttúruvernd og var í ritstjórn Glettings, tímarit um austfirsk málefni.Árið 2005 gaf hann út veglega bók um Lagarfljót.
Hann hefur beitt sér fyrir verndun náttúrunnar á ýmsum vettvangi. Hefur verið búsettur á Egilsstöðum frá 1987.

Helga Brynjólfsdóttir (1937-2019)

  • S02625
  • Person
  • 30. jan. 1937 - 22. júlí 2019

Fædd á Akureyri. Dóttir Brynjólfs Sveinssonar menntaskólakennara og Þórdísar Haraldsóttur. Helga lauk stúd­ents­prófi frá MA vorið 1957 og mest­all­an hluta starfsæv­inn­ar vann hún við banka­störf.

Haukur Snorrason (1916-1958)

  • S03080
  • Person
  • 1. júlí 1916 - 10. maí 1958

Fæddur á Flateyri. Búsettur á Akureyri 1930-1956, síðustu tvö árin í Reykjavík. Lauk gagnfræðaprófi á Akureyri og fór síðan til náms í Englandi. Starfaði sem gjaldkeri hjá Kaupfélagi Eyfirðinga um tíma og var einnig fræðslufulltrúi þess. Tók við ritstjórn blaðsins Dags á Akureyri árið 1944 og hélt því starfi til 1956. Þá varð hann annar af tveimur ritstjórum Tímans í Reykjavík. Á árunum 1947-1950 var hann einnig ritstjóri Samvinnunnar.
Maki: Else Friðfinnsson, þau eignuðust þrjú börn.

Haukur Kristjánsson (1928-1994)

  • S03092
  • Person
  • 13. júlí 1928 - 15. júlí 1994

Foreldrar: Kristján Árnason b. á Krithóli o.v. og k.h. Ingibjörg Jóhannsdóttir. Bifvélavirki, verkstjóri í mjólkurstöð KEA á Akureyri. Haukur kvæntist Önnu Steindórsdóttur frá Akureyri 26. janúar 1952, þau eignuðust tvö börn.

Haraldur Ingvar Jónsson (1904-1969)

  • S01361
  • Person
  • 21. jan. 1904 - 13. okt. 1969

Foreldrar: Jón Þorsteinsson verkstjóri á Sauðárkróki og k.h. Jóhanna Gísladóttir frá Hvammi í Laxárdal.
Smiður á Akureyri, kvæntist Helgu Magnúsdóttur.

Haraldur Bessason (1931-2009)

  • S02546
  • Person
  • 14. apríl 1931 - 8. apríl 2009

Haraldur var fæddur í Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði. Foreldrar hans voru Elínborg Björnsdóttir kennari og Bessi Gíslason b. og hreppsstjóri í Kýrholti. ,,Haraldur varð stúdent frá MA 1951 og cand. mag. frá HÍ 1956. Hann var prófessor og deildarformaður íslenskudeildar Manitobaháskóla 1956-1987, forstöðumaður og síðan fyrsti rektor Háskólans á Akureyri 1988-1994; fluttist 2003 til Toronto og stundaði kennslu og ritstörf uns yfir lauk. Haraldur gegndi ótal trúnaðarstörfum í þágu Vestur-Íslendinga, kom að ritstjórn fjölda tímarita (The Icelandic Canadian Magazine 1958-1976; Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi 1959-1969; Scandinavian Studies 1967-1981; Mosaic 1971-1974; Lögberg-Heimskringla 1979-1981) og var upphafsmaður að The University of Manitoba Icelandic Studies Series árið 1972, þar sem birtust m.a. þýðingar á Grágás og Landnámu og greinasafn um eddukvæði. Hann gegndi formennsku í félögum málfræðinga vestra og hélt fjölda fyrirlestra á fræðasviði sínu. Haraldur vann að og stóð fyrir grunnrannsóknum á máli og menningu Vestur-Íslendinga, skrifaði greinar og bókarkafla, m.a. um verk Halldórs Laxness í European Writers. The Twentieth Century (1990), þýddi A History of the Old Icelandic Commonwealth (1974) eftir Jón Jóhannesson, og ritstýrði (ásamt Baldri Hafstað) geinasöfnunum Heiðin minni (1999), og Úr manna minnum (2002). Sagnalist Haralds birtist í Bréfum til Brands (1999), og Dagstund á Fort Garry (2007). Væntanlegt er safn greina eftir Harald sem félagar við HA standa fyrir. Haraldur Bessason hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu og varð heiðursfélagi Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi 1972; heiðursfélagi Íslendingadagsnefndar í Manitoba og heiðursborgari Winnipeg 1987; heiðursdoktor við Manitobaháskóla 1990 og við HA 1999." Fyrri kona Haralds var Ásgerður, þau skildu, þau eignuðust þrjár dætur. Seinni kona Haralds er Margrét Björgvinsdóttir kennari, þau eignuðust eina dóttur.

Hannes Jónasson (1877-1957)

  • S02112
  • Person
  • 10. apríl 1877 - 2. maí 1957

Húsmaður í Saurbæ í Siglufirði 1910. Bóksali á Siglufirði 1930. Bóksali og ritstjóri á Akureyri og á Siglufirði.

Hallur Pálsson (1898-1979)

  • S01781
  • Person
  • 18. mars 1898 - 23. ágúst 1979

Foreldrar: Páll Pálsson lengst af b. í Garði í Hegranesi og k.h. Steinunn Hallsdóttir. Hallur fluttist með foreldrum sínum í Framnes vorið 1920 þar sem hann kynntist konuefni sínu, Kristínu Sigtryggsdóttur. Þau hófu búskap á hluta Framness 1922 og bjuggu þar í tvö ár. Þaðan fóru þau í Brimnes þar sem þau virðast hafa dvalið í tvö ár. Árið 1926 festu þau kaup á hluta Garðs í Hegranesi þar sem þau bjuggu til 1937 er þau fluttu til Akureyrar. Á Akureyri starfaði Hallur í Skinnaverksmiðjunni. Vorið 1946 fluttu þau suður til Reykjavíkur þar sem Hallur fékk starf sem fangavörður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Árið 1955 hóf hann störf sem verkstjóri hjá Trésmiðjunni Víði og starfaði þar í tíu ár. Hallur og Kristín eignuðust ekki börn en tóku tvö fósturbörn.

Halldóra Helgadóttir (1932-2005)

  • S01706
  • Person
  • 15. apríl 1932 - 7. feb. 2005

Halldóra Helgadóttir fæddist á Akureyri 15. apríl 1932, dóttir Helga Ólafssonar kennara á Sauðárkróki og Akureyri og k.h. Valýar Þorbjargar Ágústsdóttur. ,,Halldóra var gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri, hjúkrunarnemi, síðar sjúkraliði á Landakoti um árabil." Halldóra giftist Friðrik Sigurbjörnssyni lögfræðingi, þau eignuðust þrjú börn.

Halldór Gottskálk Jóhannsson (1871-1942)

  • S03037
  • Person
  • 25. nóv. 1871 - 9. júní 1942

Fæddur að Rein í Hegranesi. Foreldrar: Jóhann Þorvaldsson, bóndi að Rein og víðar og kona hans Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Finnstungu. Þau slitu samvistir þegar hann var ársgamall.
Halldór var um árabil vinnumaður hjá Agli bónda á Merkigili. Hann var bóndi á hluta Gilsbakka 1896-1897, Egilsá 1899-1901, Löngumýri 1901-1904, Vöglum 1904-1912 (eignaðist þá jörð), Vaglagerði 1912-1920. Þaðan fluttist hann að Bakkaseli í Öxnadal og bjó þar í 6 ár. Þar stunduðu þau hjónin m.a. greiðasölu. Þá hættu þau hjónin búskap og dvöldust eftir það á Akureyri í skjóli barna sinna til æviloka. Maki: Jónína Jónsdóttir (1880-1958) frá Króksstöðum. Þau eignðust níu börn. Fyrir hafði Halldór eignast son með Björgu Steinsdóttir, þá vinnukonu á Stóru-Seylu.

Halldór Ásgeirsson (1893-1976)

  • S02786
  • Person
  • 5. ágúst 1893 - 17. júní 1976

Halldór Ásgeirsson, f. 05.08.1893 í Dagverðartungu í Hörgárdal. Foreldrar: Kristjana Halldórsdóttir og Ásgeir Bjarnason. Var árum saman í fóstri hjá móðursystur sinni, Önnu Halldórsdóttur og Jóhannesi Guðmundssyni í Miðhúsum í Hrafnagilshreppi. Síðar var hann með móður sinni á Akureyri. Halldór gerðist starfsmaður Kaupfélags Eyfirðinga tæplega tvítugur að aldri en hafði áður stundað verslunarstörf í útibúi Edinborgarverzlunar á Akureyri. Vann lengi í kjötbúð félagsins, stýrði henni síðar og var einnig verkstjóri í sláturhúsinu. Einnig starfaði hann sem opinber kjötmatsmaður og ferðaðist þá á milli sláturhúsa á Norðurlandi í þeim erindum. Árið 1935 gerðist hann sölustjóri Sambandsverksmiðjanna svokölluðu. Einnig fékkst hann við ýmis tilfallandi störf tengd hátíðahöldum og slíku. Hann var virkur í Framsóknarfélagi Akureyrar og var einn af stofnendum Ungmennafélagsins á Akureyri.
Maki: Soffía Thorarensen, f. 07.12.1893. Þau eignuðust fjögur börn.

Hálfdan Helgason (1937-

  • S01709
  • Person
  • 24. nóv. 1937

Foreldrar Hálfdánar voru Helgi Ólafsson kennari á Sauðárkróki og Akureyri, síðar búsettur í Reykjavík, og k.h. Valý Þ.Á. Ágústsdóttir. Kennari, búsettur í Reykjavík, kvæntist Hjördísi Magnúsdóttur kennara.

Hafþór Guðmundsson (1918-2006)

  • S02560
  • Person
  • 6. jan. 1918 - 8. júní 2006

Hafþór fæddist á Hrafnhóli í Hjaltadal í Skagafirði. Foreldrar hans voru Guðmundur Benjamínsson, bóndi í Smiðsgerði og Sviðningi í Kolbeinsdal í Skagafirði og kona hans Anna Jónsdóttir. ,,Hafþór ólst upp í Smiðsgerði í Kolbeinsdal í Skagafirði. Hann var stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1941, cand. juris frá Háskóla Íslands 1946, fór haustið 1946 til framhaldsnáms í stjórnarfarsrétti og þjóðarétti, fyrst til Danmerkur, 1946-1947, og síðan til Frakklands, 1947-1949. Hann lauk prófi í þjóðarétti frá Lögfræðideild Parísarháskóla og varði þar doktorsritgerð 1. desember 1951, var tímabundið bæjarfógeti í Neskaupstað og á Siglufirði, hæstaréttarlögmaður 5. febrúar 1952. Ásamt því að reka innflutningsfyrirtæki í Reykjavík rak hann lögfræðiskrifstofu í Reykjavík frá 1952 til 1973, er hann gerðist fulltrúi borgarfógetaembættisins til starfsloka." Hafþór kvæntist Sólveigu Kolbeinsdóttur frá Skriðulandi í Kolbeinsdal og eignuðust þau þrjú börn.

Gunnsteinn Sigurður Steinsson (1915-2000)

  • S01673
  • Person
  • 10. jan. 1915 - 19. des. 2000

Gunnsteinn Sigurður Steinsson fæddist á Hrauni á Skaga 10. janúar 1915. Foreldrar hans voru hjónin Steinn Leó Sveinsson bóndi og hreppstjóri á Hrauni á Skaga k.h. og Guðrún Sigríður Kristmundsdóttir. ,,Gunnsteinn lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1936. Hann var búsettur á Hrauni til 1953 og stundaði á þeim tíma aðallega sjómennsku og smíðar. Gunnsteinn var bóndi í Ketu á Skaga 1953-1974 en fluttist þá ásamt konu sinni til Sauðárkróks. Stundaði hann þar störf í skinnaverkuninni Loðskinni hf. auk þess sem hann var um árabil umboðsmaður skattstjóra á Sauðárkróki. Gunnsteinn starfaði mikið að félagsmálum og var m.a. hreppstjóri og sýslunefndarmaður fyrir Skefilsstaðahrepp um árabil auk þess að gegna fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína." Gunnsteinn kvæntist árið 1945 Guðbjörgu Hólmfríði Guðmundsdóttur, þau eignuðust tvær dætur.

Guðrún Þorbjörg Sigurðardóttir (1907-1963

  • S02778
  • Person
  • 19. júní 1907 - 25. feb. 1963

Guðrún Þorbjörg Sigurðardóttir, f. 19.06.1907. Foreldrar: Sigurður Lárusson sjómaður á Sauðárkróki, f. 1880 og Ingibjörg Sigríður Sigurðardóttir, f. 1886. Var verkakona á Akureyri. Guðrún var ógift og barnlaus.

Guðrún Stefánsdóttir (1917-1995)

  • S01525
  • Person
  • 14. des. 1917 - 28. ágúst 1995

Foreldrar hennar voru Sigrún Haraldsdóttir húsmóðir frá Hjalteyri og Stefán Stefánsson frá Sauðárkróki, kaupmaður á Akureyri. Guðrún lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri, og var einnig við nám í dönskum kvennaskóla. Kvæntist Jörundi Pálssyni arkitekt frá Hrísey, þau eignuðust tvö börn.

Guðrún Ólöf Guðmundsdóttir (1926-2015)

  • S01504
  • Person
  • 28. sept. 1926 - 6. jan. 2015

Foreldrar Guðrúnar voru Jóna Kristín Guðmundsdóttir og Guðmundur Benediktsson. Eiginmaður Guðrúnar var Kristinn Jónasson, þau eignuðust tvö börn. Guðrún og Kristinn bjuggu í Tungu og á Knappsstöðum í Stíflu til ársins 1974 að þau fluttu til Akureyrar, þar unnu bæði í verksmiðjum Sambandsins á Gleráreyrum.

Guðmundur Stefánsson (1919-2005)

  • S01727
  • Person
  • 16. mars 1919 - 31. okt. 2005

Foreldrar: Stefán Guðmundsson, bóndi á Hrafnhóli í Hjaltadal og Sigurlína Þórðardóttir húsmóðir á Hrafnhóli. ,,Guðmundur fæddist í Hjaltadal og ólst upp á Hrafnhóli. Hann tók við búi foreldra sinna. Auk bústarfa gegndi hann fjölmörgum störfum, var m.a. oddviti Hólahrepps, meðhjálpari í Hóladómkirkju, sláturhússtjóri á Sauðárkróki. Eftir að hann hætti búskap og flutti til Akureyrar starfaði hann m.a. sem verkstjóri og gjaldkeri fyrir Félag eldriborgara, auk margra annarra nefnda- og trúnaðarstarfa. Hann starfaði mikið fyrir Lionshreyfinguna og Sjálfstæðisflokkinn. Á yngri árum keppti Guðmundur í mörgum íþróttagreinum og vann til margra verðlauna. Talsvert hefur verið birt af ljóðum og vísum eftir hann í blöðum og tímaritum. Kvæntist Fjólu Ísfeld Kristjánsdóttur, þau eignuðust sex börn.

Guðmundur Ólafsson (1885-1958)

  • S03076
  • Person
  • 11. feb. 1885 - 16. maí 1958

Fæddur að Fjósatungu í Fnjóskadal. Lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar árið 1904. Stundaði barnakennslu á Ljósavatni, Skútustöðum, Djúpavogi og víðar 1904-1909. Lauk prófi frá Kennaraskólanum vorið 1910. Kennari við alþýðuskólann á Hvítárbakka 1910-1912 og farkennari í Fnjóskadal 1912-1920, stundaði búskap samhliða. Kennari við barnaskólann á Akranesi 1920-1928 og við héraðsskólann á Laugarvatni 1928-1955. Var við nám í Englandi 1921 og í Noregi 1939.
Maki: Ólöf Sigurðardóttir frá Dyrhólum í Mýrdal, þau eignuðust átta börn.

Guðmundur Ingvi Sigurðsson (1922-2011)

  • S02432
  • Person
  • 16. júní 1922 - 21. feb. 2011

Guðmundur fæddist á Akureyri og ólst þar upp. Sonur hjónanna Halldóru Ólafsdóttur húsmóður og Sigurðar Guðmundssonar skólameistara Menntaskólans á Akureyri.
Guðmundur lauk stúdentsprófi 1941 og cand. mag.juris frá HÍ. Árið 1947 -1948 var Guðmundur við nám í afbrotafræðum í Kaupmannahöfn, en hann nam einnig sömu fræði í Bandaríkjunum 1954 -1955. Hann var sakadómarafulltrúi 1947 - 1959. Guðmundur stofnaði lögfræðistofuna LEX ásamt Sveini Snorrasyni 1959 og stundað lögmannsstörf til ársins 2001. Hann kenndi við Fósturskóla Sumargjafar, var prófdómari við lagadeild HÍ og í stjórn Lögfæðingafélags Íslands 1958 - 1963. Guðmundur sat í stjórn Íslandsdeildar norrænu lögfræðingaþinganna 1972 - 1984 og var formaður Námssjóðs Lögmannafélagsins 1974- 1984.

Guðlaugur Helgason (1934-

  • S01707
  • Person
  • 24.01.1934-

Foreldrar: Helgi Ólafsson kennari á Sauðárkróki og Akureyri, síðar búsettur í Reykjavík, og k.h. Valý Þ.Á. Ágústsdóttir. Flugstjóri. Kvæntist Ernu Kristinsdóttur sjúkraliða.

Guðbrandur Magnússon (1907-1994)

  • S02958
  • Person
  • 24. ágúst 1907 - 15. okt. 1994

Guðbrandur var fæddur að Hólum í Steingrímsfirði 24. ágúst 1907. Foreldrar hans voru Magnús Steingrímsson og Kristín Árnadóttir. Guðbrandur varð gagnfræðingur frá Akureyri 1928 og lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1935. Hann stundaði enskunám í Pulteney Institute í London 1937-1938. Guðbrandur var víða kennari, meðal annars við bændaskólann á Hvanneyri, Austurbæjarskóla í Reykjavík og gagnfræðiskólann á Siglufirði. Jafnframt var Guðbrandur skólastjóri á Hofsósi, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík og skólastjóri gagnfræðiskólans á Akranesi. Guðbrandur varð aftur kennari við gagnfræðiskólann á Siglufirði 1947 og starfaði við skólann til 1976 er hann lét af störfum. Guðbrandur skrifaði fjölda blaða- og tímaritsgreina, einkum um náttúrufræði og var kjörfélagi Hins íslenska náttúrufræðifélags og sæmdur gullmerki þess. Eiginkona Guðbrandar var Anna Júlía Magnúsdóttir (1920-2011) frá Vestmannaeyjum og eignuðust þau átta börn.

Guðborg Brynjólfsdóttir (1918-1993)

  • S02129
  • Person
  • 11. júlí 1918 - 30. ágúst 1993

Dóttir Brynjólfs Eiríkssonar b. á Gilsbakka í Austurdal og k.h. Guðrúnar Guðnadóttur frá Villinganesi. Þegar Guðborg var 13 ára gömul fluttust foreldrar hennar frá Gilsbakka til Akureyrar og var hún búsett þar til 1958 er hún fluttist til í Hveragerðis. Þar var hún í 30 ár starfsmaður hjá Náttúrulækningafélagi Íslands í Hveragerði og skrifstofustjóri þar mörg síðustu árin. Kvæntist Alberti Sigurðssyni rafvirkja frá Ísafirði, þau skildu.

Gróa Sveinsdóttir (1869-1949)

  • S03055
  • Person
  • 17. feb. 1869 - 23. júlí 1949

Fædd og uppalin í Litladal í Svínavatnshreppi. Kvæntist Jóni Jóhannessyni b. í Árnesi árið 1894, þau bjuggu þar til 1929 er þau fluttu að Fagranesi í Öxnadal og þaðan til Akureyrar. Gróa var síðast búsett í Reykjavík. Gróa og Jón eignuðust tvær dætur saman, fyrir átti Jón son sem Gróa gekk í móðurstað.

Gissur Ísleifur Helgason (1942-

  • S01710
  • Person
  • 23. mars 1942

Foreldrar Ólafs Hauks voru Helgi Ólafsson kennari á Sauðárkróki og Akureyri, síðar búsettur í Reykjavík, og k.h. Valý Þ.Á. Ágústsdóttir. Framkvæmdastjóri í Kaupmannahöfn, kvæntur Benediktu Atterdag Helgason.

Gísli Sveinsson (1880-1959)

  • S02928
  • Person
  • 7. des. 1880 - 30. nóv. 1959

Fæddur að Sandfelli í Öræfum. Foreldrar: Sveinn Eiríksson (1844-1907) prestur í Sandfelli og kona hans Guðríður Pálsdóttir (1845-1920). Lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum árið 1903 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1910. Um tíma bæjarfógeti og settur sýslumaður á Akureyri. Varð yfirdómslögmaður í Reykjavík árið 1910. Sýslumaður í Víkurkauptúni í V-Skaftafellssýslu. Skipaður sendiherra í Noregi árið 1947. Alþingismaður 1916-1921, 1933-1942 og 1946-1947 fyrir Vestur-Skaftfellinga. Landskjörinn þingmaður 1942-1946. Gegndi ýmsum nefndarstörfum og ritaði margar greinar um sjálfstæðismál Íslendinga og kirkjumál. Samdi einnig bækling um Kötlugosið 1918 og afleiðingar þess. Maki: Guðrún Pálína Einarsdóttir (1890-1981). Þau eignuðust fjögur börn.

Gísli Ólafsson (1946-

  • S01878
  • Person
  • 24.07.1946-

Fæddur á Akureyri en alinn upp á Sauðárkróki frá tveggja ára aldri. Sonur Guðrúnar Ingibjargar Svanbergsdóttur og Ólafs Gíslasonar bifreiðastjóra. Kvæntist Ingibjörgu Jónasdóttur, þau eiga þrjú börn.

Gísli Halldórsson Kolbeins (1926-2017)

  • S01526
  • Person
  • 30. maí 1926 - 10. júní 2017

Gísli fæddist í Flatey á Breiðafirði 30. maí 1926. ,,Hann stundaði nám í foreldrahúsum, tók stúdentspróf frá MA 1947, lauk guðfræðinámi frá HÍ 1950, stundaði framhaldsnám í guðfræði við Háskólann í Göttingen í Þýskalandi 1959-60, stundaði rannsóknir í kirkjusögu í Lundúnum, Lúxemborg, Bremen og Kaupmannahöfn 1981-82 og var í endurmenntun og guðfræðitengdu rannsóknarnámi í York í níu mánaða leyfi 1981-82. Gísli varð sóknarprestur í Sauðlauksdal 1950. Hann starfaði þar 1950-54 og gegndi aukaþjónustu í Eyraprestakalli og í Vestmannaeyjum. Hann var sóknarprestur á Melstað í Vestur-Húnavatnssýslu 1954-77 og í Stykkishólmi 1977-92. Auk þess gegndi hann aukaþjónustu á Melstað og í Setbergsprestakalli. Eftir að hann lauk skipaðri prestþjónustu sinnti hann prestþjónustu á Kolfreyjustað 1992, á Sauðárkróki, í Bolungarvík, í Staðastaðaprestakalli 1995-96, í Skagastrandarprestakalli 1998, Bólstaðahlíðarprestakalli 1998, í Vestmannaeyjum 1998, á Hrafnistu í Hafnarfirði 1998-99, á Kolfreyjustað 2000-2001, í Hofsóss- og Hólaprestakalli 2001-2003 og í Skagastrandarprestakalli 2004. Gísli starfaði í góðtemplarareglunni um árabil, sat í stjórn Ungmennafélagsins Grettis í Miðfirði, var formaður Ungmennasambands Vestur-Húnavatnssýslu 1956-60, sat í barnaverndarnefnd Ytri-Torfustaðahrepps 1954-76, í stjórn Veiðifélags Miðfjarðarár í 20 ár, í skólanefnd Reykjaskóla, í stjórn Byggðasafnsins á Reykjum í 20 ár, var prófdómari í barnaskólum í Vestur-Húnavatnssýslu í 23 ár, formaður og ritari Lionsklúbbsins Bjarma á Hvammstanga, sat í barnaverndarnefnd Stykkishólms, í stjórn Byggðasafns Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, var ritari Lionsklúbbs Stykkishólms, sat í fulltrúaráði Prestafélags Íslands og var formaður Hallgrímsdeildar Prestafélags Íslands. Gísli þýddi ritið Könnuður í fimm heimsálfum, var ritstjóri ýmissa tímarita og ársrita og samdi Skáld-Rósu og síðan Skáldung, um námsár Nóbelsskáldsins hjá sr. Halldóri, föður Gísla."
Gísli kvæntist Sigríði Ingibjörgu Bjarnadóttur Kolbeins frá Brekkubæ í Nesjum, þau eignuðust fimm börn.

Garðar Skagfjörð Jónsson (1913-2009)

  • S01936
  • Person
  • 24. des. 1913 - 16. sept. 2009

Garðar Skagfjörð Jónsson fæddist á Mannskaðahóli í Skagafirði 24. desember 1913. Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi og Sigríður Halldórsdóttir. Þegar Garðar var um þriggja ára gamall fór hann í fóstur til móðursystur sinnar Efemíu og Sigurjóns Gíslasonar að Syðstu-Grund í Blönduhlíð. ,,Garðar varð gagnfræðingur frá MA árið 1932, hann lauk kennaraprófi frá KÍ 1935, var farkennari á Höfðaströnd 1935-1939, þá varð hann skólastjóri við barnaskóla Hofsóss til ársins 1978. Garðar vann ýmis trúnaðarstörf á Hofsósi. Hann var hreppstjóri Hofsósshrepps árið 1952-1972, formaður áfengisvarnarnefndar Skagafjarðar, í stjórn lestrarfélags Hofsóss, bókavörður í nokkur ár, í stjórn kennarafélags Skagafjarðar í nokkur ár og gæslumaður barnastúkunnar á Hofsósi. Árið 1978 flutti hann til Akureyrar ásamt konu sinni." Garðar kvæntist 5.5. 1946 Guðrúnu Sigfúsdóttir frá Gröf á Höfðaströnd, þau eignuðust eina dóttur, fyrir átti Guðrún dóttur.

Fríða Emma Eðvarðsdóttir (1927-2009)

  • S02852
  • Person
  • 31. maí 1927 - 30. maí 2009

Fríða Emma Eðvarðsdóttir, f. 31.05.1927 í Lossa í Mið-Þýskalandi. Foreldrar: Berta Emma Karlsdóttir og Edmund Ulrich. Fríða flutti frá Þýskalandi með foreldrum sínum til Íslands þriggja ára gömul. Hún gekk í barnaskóla á Akureyri, en byrjaði ung að vinna fyrir sér. Í janúar 1949 fór hún að Þorsteinsstöðum í Tungusveit. Þar bjó Finnbogi Stefánsson sem varð síðar eiginmaður hennar, þau eignuðust fjögur börn en fyrir átti Fríða eina dóttur. Fríða bjó á Þorsteinsstöðum til ársins 1994, en flutti þá á Sauðárkrók.

Frederik Ludvig Popp (1831-1893)

  • S01161
  • Person
  • 28. feb. 1831 - 10. mars 1893

Fæddur í Kaupmannahöfn. Mun fyrst hafa komið hingað sem verslunarþjónn og verið við verslanir á Vestdalseyri við Seyðisfjörð og á Eskifirði á árunum 1858-1859. Árið 1866 hóf hann eigin verslun á Akureyri. Fljótlega hóf hann sumarverslun við Skagafjörð, fyrst á Hofsósi og einkum með hesta. Árið 1874 keypti hann verslunarhús Halls Ásgrímssonar Grænlandsfara á Sauðárkróki og hóf verslun þar en bjó þó í Kaupmannahöfn. Hann hafði verslunarstjóra á Sauðárkróki uns hann flutti þangað sjálfur með fjölskylduna árið 1885 og tók við verslunarstjórn. Varð verslun hans brátt önnur stærsta verslunin við Skagafjörð næst Gránufélagsversluninni og voru útibú á Hofsósi og Kolkuósi. Heimili þeirra hjóna á Sauðárkróki varð fljótlega helsta miðstöð alls menningarlífs á Sauðárkróki. Popp var mjög listelskur maður og lagði nokkra stunda á málarlist og málaði t.d. leiktjöld fyrir leiksýningar og studdi ásamt konu sinni mjög að allri leikstarfsemi á Sauðárkróki. Eitt helsta áhugamál hans var bygging Sauðárkrókskirkju en hann gaf 200 kr. til byggingarinnar og tvær töflur fyrir sálmanúmer, er hann útbjó sjálfur að nokkru. Eftir lát hans gaf ekkjan fagra altaristöflu til kirkjunnar í minningu hans.
Kvæntist Emilie Antonette Popp, þau eignuðust þrjú börn.

Franz Jón Þorsteinsson (1899-1958)

  • S01959
  • Person
  • 16. okt. 1899 - 15. ágúst 1958

Sonur Þorsteins Þorsteinssonar b. á Þrastarstöðum á Höfðaströnd og sambýliskonu hans Sigurlínu Ólafsdóttur. Sjómaður og matsveinn á Dalvík og Akureyri. Kvæntist Guðlaugu Sigurjónsdóttur.

Results 86 to 170 of 213