Showing 6399 results

Authority record

Helgi Skúlason (1892-1983)

  • S02992
  • Person
  • 22. júní 1892 - 7. nóv. 1983

Fæddur í Odda á Rangárvöllum. Foreldrar: Skúli Skúlason, stjórnarráðsritari og Sigríður Helgadóttir. Helgi var stúdent árið 1910 og lagði síðan stund á læknisfræði og lauk prófi árið 1915. Árið 1923 varð Helgi sérfræðingur í augnsjúkdómum, en þá hafði hann um hríð starfað að þeirri sérgrein. Hann varð héraðslæknir í Síðuhéraði frá 1. ágúst árið 1915, en því starfi gegndi hann til ársins 1919. Hann sinnti læknisstörfum í Reykjavík frá árinu 1921 til ársins 1927, en síðan á Akureyri. Hann var aukakennari í augnsjúkdómafræði við læknadeild Háskóla íslands á tímabilinu 1923 til 1927. Maki: Kara Sigurðardóttir Briem (1900-1982)

Baldvin Jóhannsson (1857-1928)

  • S02991
  • Person
  • 27. júní 1857 - 1928

Fæddist í Stærra-Árskógi. Foreldrar: Guðrún Halldórsdóttir, þá vinnukona í Stærra-Árskógi og Jóhann Guðmundsson, sem var þá giftur bóndi á Ytri-Reistará en síðar á Höfða á Höfðaströnd. Baldvin fluttist með föður sínum og fósturmóður frá Kvíabekk í Ólafsfirði að Höfða árið 1877. Þaðan fór hann að Lágubúð á Bæjarklettum 1886, að Nöf við Hofsós 1888. Var á Þönglaskála 1890-1894, en flytur þá að nýbýlinu Þönglabakka og átti þar heima til æviloka. Þönglaskála hafði hann í ábúð 1913-1927. Baldvin stundaði sjó með búskapnum, átti hlut að mótorbátaútgerð og var formaður á árabátum sínum, eftir að hann fluttist að Þönglaskála og Þönglabakka.
Kona: Anna Sigurlína Jónsdóttir (1863-1939). Þau eignuðust tvö börn.

Hulda Snæland Sigtryggsdóttir (1906-1978)

  • S02990
  • Person
  • 12. ágúst 1906 - 9. des. 1978

Foreldrar: Margrét Pálsdóttir (alin upp á Merkigili) og Sigtryggur Friðfinnsson b. á Giljum. Þau voru ekki í sambúð. Hulda stundaði verslunarstörf í Reykjavík.

Margrét Pálsdóttir (1874-1937)

  • S02989
  • Person
  • 31. des. 1874 - 13. des. 1937

Foreldrar: Páll Andrésson og Anna Jónsdóttir bændur á Egilsá, Breið, Bústöðum og víðar. Margrét ólst að mestu leyti upp á Merkigili hjá þeim Agli og Sigurbjörgu. Var um tíma starfsstúlka hjá baróninum á Hvítárvöllum. Stundaði barnakennslu lengi, fyrst á Sauðárkróki og síðan á Akureyri. Kennari í Reykjavík 1930. Margrét kvæntist ekki en eignaðist dóttur með Sigtryggi Friðfinnssyni á Giljum.

Guðmundur Ernir Sigvaldason (1932-2004)

  • S02988
  • Person
  • 24. júlí 1932 - 15. des. 2004

Guðmundur Ernir Sigvaldason fæddist í Reykjavík 24. júlí 1932. Guðmundur var sonur Birgittu Guðmundsdóttur, verkakonu og Sigvalda Jónassonar, bónda. Guðmundur var þrígiftur og átti sjö börn. ,,Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1952 og doktorsprófi í bergfræði og jarðfræði frá Georg-August Universität í Göttingen í Þýskalandi árið 1959. Hann hlaut styrk til rannsókna við US Geological Survey í Washington í Bandaríkjunum og Melno Park 1959–1961. Guðmundur starfaði sem sérfræðingur við iðnaðardeild atvinnudeildar Háskóla Íslands 1961–1967 og var sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og kenndi við jarðfræðiskor 1968–1972. Hann vann tvívegis að jarðhitaverkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna í Rómönsku Ameríku, fyrst í El Salvador 1967–1968 og síðan í Níkaragva 1972–1973. Guðmundur var forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar frá stofnun hennar árið 1973 og til 1998. Guðmundur sat í úthlutunarnefnd Vísindasjóðs 1968–1982 og varð formaður nefndarinnar 1999–2001. Hann var fulltrúi Íslands í vísindasiðanefnd NATO 1970–1982, formaður Alþjóðasambands eldfjallastöðva 1981–1991 og sat í stjórn European Laboratory Volcanos Project 1986–1996. Guðmundur var í stjórnum og starfaði sem aðalráðgjafi í fjölmörgum alþjóðlegum vísinda- og fræðiverkefnum, m.a. á vegum Evrópubandalagsins og einstakra Evrópuríkja. Guðmundur hefur ritað fjöldann allan af fræðigreinum í blöð og fagtímarit, gert sjónvarpsþætti fyrir almenning og hlotið viðurkenningar fyrir vísindastörf sín. Hann varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 2000."

Agnar Jónsson (1909-1984)

  • S02987
  • Person
  • 13. okt. 1909 - 14. feb. 1984

Foreldrar: Klemens Jónsson landritari og síðari kona hans, Anna María Schiöth. Agnar varð ritari í danska utanríkisráðuneytinu 1. febrúar 1934, síðar attaché við danska sendiráðið í Washington og vararæðismaður á dönsku aðalræðismannsskrifstofunni í New York. Hann fékk lausn að eigin ósk úr dönsku utanríkisþjónustunni 1. júní 1940 og gekk í hina nýstofnuðu íslensku utanríkisþjónustu, fyrst ræðismaður í New York en síðar varð hann deildarstjóri og skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti íslands. Hann var skipaður sendiherra í Bretlandi og Hollandi 1951. Fimm árum siðar var hann skipaður ambassador í Frakklandi, sendiherra á Spáni, Portúgal, ítalíu og Belgíu; ambassador í Grikklandi 4. desember 1958. Hann var skipaður ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu 1. janúar 1961 en fékk lausn 1. september 1969 og var sama dag skipaður ambassador í Noregi; hann var skipaður ambassador í Israel, ítalíu, Póllandi og Tékkóslóvakíu 27. janúar 1970. Agnar Klemens var ritari utanríkismálanefndar 1943—51 og 1961—69. Hann sat í fjölmörgum nefndum fyrir hönd rikisins og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, átti m.a. sæti í sendinefnd íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í tvö ár. Hann var sæmdur heiðursmerkjum margra þjóða. Ýmis rit liggja eftir Agnar Klemenz Jónsson, m.a. Lögfræðingatal og Stjórnarráð Islands 1904—1964, margvísleg rit um utanríkismál og lögfræði. Maki: Ólöf Bjarnadóttir. Þau eignuðust fjögur börn.

Þórunn Bjarnadóttir (1855-1936)

  • S02986
  • Person
  • 15. júní 1855 - 22. maí 1936

Foreldrar: Bjarni Brynjólfsson bóndi, skipasmiður, hreppstjóri og dannebrogsmaður á Kjaransstöðum og Helga Ólafsdóttir húsfreyja, fædd Stephensen.
Maki: Sigurður Stefánsson (1854-1924) prestur í Vigur. Þau eignuðust fjögur börn.

Páll Stephensen (1862-1935)

  • S02985
  • Person
  • 9. maí 1862 - 6. nóv. 1935

Fæddur í Holti í Önundarfirði. Foreldrar: Stefán Pétursson Stephensen (1829-1900) og Guðrún Pálsdóttir Stephensen (1825-1896). Stúdent frá Lærða skólanum 1884, cand. theol. frá prestaskólanum 1886. Veitt Kirkjubólsþing og Staður á Snæfjallaströnd 1886. Bjó á Melgraseyri. Veitt Holt í Önundarfirði 1908 og sat þar til 1929. Fluttist til Reykjavíkur en fór til þjónustu í Holtsprestakalli undir Eyjafjölum 1930-1932, var í Nesprestakalli í Norðfirði 1934-1935.
Maki: Helga Þorvaldsdóttir Stephensen (1832-1912). Þau eignuðust 5 börn.

Una Benjamínsdóttir (1896-1977)

  • S02984
  • Person
  • 29. apríl 1896 - 25. nóv. 1977

Foreldrar: Benjamín Friðfinnsson (1848-1921) bóndi á Ingveldarstöðum í Hjaltadal og kona hans Elín Guðmundsdóttir (1852-1935). Fjölskyldan bjó á Ingveldarstöðum frá 1876. Húsfreyja í Reykjavík. Maki: Sigurður Árnason (1870-1956). Þau eignuðust 3 börn, Sigurður átti átta börn fyrir.

Sigríður Jenný Gunnarsdóttir (1900-1991)

  • S02983
  • Person
  • 21. jan. 1900 - 19. feb. 1991

Fædd á Sævarlandi á Skaga. Foreldrar: Gunnar Eggertsson (1870-1942), bóndi á Selnesi á Skaga og kona hans Ástríður Jónsdóttir ljósmóðir (1862-1944). Er Sigríður Jenný var tveggja ára fluttust þau að Selnesi á Skaga. Þegar Sigríður Jenný var 18 ára fluttist hún úr foreldrahúsum til Reykjavíkur. Stundaði hún meðal annars hjúkrun þeirra sem glímdu við Spænsku veikina. Og gekk í hússtjórnarskóla hjá frú Ísafold Hakensen. Vann fjögur ár í Ritfangaverslun Björns Kristjánssonar. Maki: Jón Skagan (1897-1989) prestur á Bergþórshvoli í Rangárvallasýslu. Þau eignuðust tvær dætur. Einnig eignuðust þau kjördóttur, Sigríði Lister. Árið sem þau giftu sig, 1924, fluttu þau að Bergþórshvoli og bjuggu þar í 20 ár. Starfaði mikið að félagsmálum og var stofnandi Kvenfélagsins Bergþóru í Vestur-Landeyjum og formaður þess um margra ára skeið. Árið 1944 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur.

Ástríður Jónsdóttir (1863-1944)

  • S02982
  • Person
  • 2. feb. 1863 - 27. jan. 1944

Foreldrar: Jón Ólafsson bóndi á Völlum á Kjalarnesi og kona hans Ása Þorláksdóttir. Maki: Gunnar Eggertsson (1870-1942) bóndi á Selnesi. Þau eignuðust 2 dætur.
Bjuggu á Sævarlandi á Skaga 1895-1903 og næstu tvö árin á eftir rak Gunnar útgerð þar. Bjuggu á Selnesi 1905-1942. Gunnar brá búi öðru hverju hin síðari ár og leigði þá mest af jörðinni en var þar með fénað sinn og taldist þá húsmaður. Byggði hann bæ nær og kallaði Grund. Ástríður var lærð ljósmóðir og gegndi lengi ljósmóðurstörfum í Hvammsprestakalli. Eftir andlát Gunnars fór hún til dóttur sinnar á Bergþórshvoli og bjó þar til dánardags.

Elísabet Elín Arnórsdóttir (1892-1980)

  • S02981
  • Person
  • 23. jan. 1892 - 19. maí 1980

Fædd á Felli í Kollafirði í Strandasýslu. Foreldrar: Arnór Árnason prestur í Hvammi í Laxárdal (1860-1938) og fyrri kona hans, Stefanía Sigríður (1857-1893). Maki: Martin Bartels bankafulltrúi í Kaupmannahöfn. Þau eignuðust eina dóttur. Hún ólst upp í Bæ í Króksfirði hjá þeim Ólafi Sigvaldasyni, héraðslækni þar, og konu hans, Elísabetu Jónsdóttur. Elísabet Arnórsdóttir fluttist eftir lát Ólafs læknis með fósturmóður sinni til Reykjavíkur og bjuggu þær á Bókhlöðustíg 7. Hún fluttist síðar til Kaupmannahafnar.

Eggrún Arnórsdóttir (1895-1975)

  • S02980
  • Person
  • 22. apríl 1895 - 10. apríl 1975

Foreldrar: Arnór Árnason (1860-1938) prestur í Hvammi í Laxárdal og seinni kona hans, Ragnheiður Eggertsdóttir (1862-1937). Maki: Steingrímur Guðmundsson frá Gufudal í A-Barð, prentsmiðjustjóri hjá Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg. Þau eignuðust tvær dætur. Bjuggu m.a. í Kaupmannahöfn og síðar á Grettisgötu 46 í Reykjavík.

Stefán Jóhann Stefánsson (1863-1921)

  • S02979
  • Person
  • 1. ágúst 1863 - 20. jan. 1921

Fæddur á Heiði í Gönguskörðum. Foreldrar: Stefán Stefánsson (1828-1910) og Guðrún Sigurðardóttir (1831-1903). Maki: Steinunn Frímannsdóttir (1863-1947). Þau eignuðust 2 börn.
Stefán tók stúdentspróf frá Lærða skólanum 1884 og nam náttúrufræði við Hafnarháskóla með grasafræði sem sérgrein en lauk ekki prófi. Kennari við Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum, síðar á Akureyri 1887–1908, skólameistari frá 1908 til æviloka. Átti heima í Stórubrekku 1889–1891. Bóndi á Möðruvöllum 1891–1910, en fluttist með skólanum til Akureyrar 1902. Oddviti Arnarneshrepps um skeið. Í amtsráði 1894–1905, er amtsráðin voru lögð niður. Ferðaðist um landið til jurtarannsókna með styrk úr landssjóði flest sumur á árunum 1883–1900. Frumkvöðull að stofnun Náttúrufræðifélags Íslands 1889 og að stofnun Náttúrugripasafnsins. Átti sæti í millilandanefndinni 1907. Í bankaráði Íslandsbanka 1913–1919. Alþingismaður Skagfirðinga 1900–1908, konungkjörinn alþingismaður 1908–1915 (Framfaraflokkurinn, Framsóknarflokkurinn eldri, Þjóðræðisflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn eldri, utan flokka, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn). Samdi rit og greinar um grasafræði, skólamál og sjálfstæðismál Íslands.

Stefanía Sigríður Stefánsdóttir (1857-1893)

  • S02978
  • Person
  • 10. des. 1857 - 7. júní 1893

Foreldrar: Stefán Ólafsson bóndi og hreppstjóri í Hvammkoti í Kópavogi og Guðríður Jónsdóttir. Stefanía hélt skóla fyrir ungar stúlkur á heimili sínu og kenndi þeim hannyrðir og fleira.
Maki: Arnór Árnason prestur. Þau bjuggu í Hvammi í Laxárdal. Þau eignuðust fjórar dætur.

Árni Sigurðsson (1835-1886)

  • S02977
  • Person
  • 7. mars 1835 - 17. júlí 1886

Foreldrar: Sigurður Árnason bóndi og hreppstjóri í Höfnum á Skaga og s.k.h., Sigurlaug Jónasdóttir frá Gili. Árni naut heimakennslu í æsku. Hann var bóndi í Eyjarkoti 1857-1859 en síðan í Höfnum til æviloka. Hreppstjóri um hríð og fyrstur oddviti í Vindhælishreppi 1874-1877. Sýslunefndarmaður frá 1880 til æviloka.
Maki 1: Margrét Guðmundsdóttir frá Skyttudal. Þau eignuðust 3 börn.
Maki 2: Jóninna Þórey Jónsdóttir frá Espihóli. Þau eignuðust 2 börn.

Össur Kristjánsson (1869-1921)

  • S02977
  • Person
  • 26.08.1869-28.10.1921

Össur Björn Kristjánsson, f. 26.08.1869, d. 28.10.1921. Móðir: Ragnheiður Pétursdóttir. Össur stundaði lengst af jarðabótavinnu og túngirðingar. Hann var einna fyrstur til að vinna að útrýmingu bráðadauða í sauðfé með bólusetningu í Ísafjarðarsýslum. Hafði hann það starf á hendi í 25 ár.

Þorsteinn Þorsteinsson (1884-1961)

  • S02976
  • Person
  • 23. des. 1884 - 15. feb. 1961

Fæddur á Arnbjargarlæk í Þverárhlíð. Foreldrar: Þorsteinn Davíðsson (1843-1932) bóndi þar og kona hans Guðrún Guðmundsdóttir (1840-1914).
Maki: Áslaug Lárusdóttir (1890-1956) húsmóðir.
,,Stúdentspróf MR 1910. Lögfræðipróf HÍ 1914. Yfirréttarmálaflutningsmaður 1914. Fékkst við ýmis lögfræðistörf ásamt sveitavinnu 1914–1917. Settur um stund 1914 sýslumaður í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Aðstoðarmaður í fjármálaráðuneytinu 1917–1920. Settur 1918 sýslumaður í Norður-Múlasýslu og bæjarfógeti á Seyðisfirði. Settur 1919 sýslumaður í Árnessýslu. Sýslumaður í Dalasýslu 1920–1954, sat í Búðardal. Átti heima í Reykjavík síðustu ár sín. Rak búskap á Staðarfelli, í Sælingsdalstungu og á Fjósum um skeið.
Eftirlitsmaður opinberra sjóða frá 1940 til æviloka. Sat í bankaráði Búnaðarbankans 1941–1957, í úthlutunarnefnd skáldastyrks og listamanna 1946–1959. Alþingismaður Dalamanna 1933–1937 og 1942–1949, landskjörinn alþingismaður (Mýramanna) 1937–1942 og (Dalamanna) 1949–1953 (Sjálfstæðisflokkur).
Ritaði meðal annars lýsingu Dalasýslu í Árbók Ferðafélags Íslands 1947 og Mýrasýslu 1953."

Theódóra Thoroddsen (1863-1954)

  • S02974
  • Person
  • 1. júlí 1863 - 23. feb. 1954

Theodóra Guðmundsdóttir, síðar Thoroddsen, f. á Kvennabrekku í Dölum. Árið 1884 giftist hún Skúla Thoroddsen, sýslumanni og alþingismanni. Þau bjuggu fyrst á Ísafirði en síðan í nokkur ár á Bessastöðum á Álftanesi, þar til þau fluttust til Reykjavíkur árið 1908, en þar átti Theodóra heima upp frá því. Þau Theodóra og Skúli eignuðust þrettán börn. Af þeim náðu tólf fullorðins aldri. Skúli lést árið 1916 og nokkrum árum síðar tveir synir þeirra með stuttu millibili. Theodóra Thoroddsen var virk í bókmennta- og menningarlífi Reykjavíkur og hafði mikinn áhuga á þjóðmálum, einkum þeim sem lutu að kvenréttindum. Hún var í Lestrarfélagi kvenna Reykjavíkur og las upp ljóð og frásagnir eftir sig á fundum. Fyrstu verk hennar birtust í Mánaðarritinu, sem var handritað og gekk á milli félagskvenna. Hún samdi merka vísnaþætti um hlut kvenna í íslenskum bókmenntum og birtist sá fyrsti í Skírni árið 1913. Þar fjallaði hún m.a. um aðstöðu kvenna til ritstarfa. Sjálf fór Theodóra ekki að sinna ritstörfum að marki fyrr en um miðjan aldur. Hún var vel menntuð á sviði þjóðfræða, skrásetti þjóðsögur og safnaði lausavísum, samdi ritgerð um íslenska þjóðtrú og þýddi á íslensku norskar og færeyskar þjóðsögur. Hún skrifaði smásögur og sagnaþætti, orti kvæði og stökur, en þekktust er hún fyrir þulur sínar. Þær fyrstu birtust í Skírni árið 1914 ásamt formála eftir Theodóru um þulur sem skáldskapartegund. Þulur komu út árið 1916 og í annarri útgáfu með viðbótum árið 1938. Sú útgáfa hefur verið endurprentuð nokkrum sinnum. Ritsafn Theodóru kom út árið 1960 í útgáfu Sigurðar Nordals.

Þorsteinn Jósepsson (1907-1967)

  • S02974
  • Person
  • 18. júlí 1907 - 29. jan. 1967

Fæddur á Signýjarstöðum í Borgarfirði. Foreldrar: Jósep G. Einarson bóndi þar og Ástríður Þorsteinsdóttir. Æskuárin dvaldist hann í foreldrahúsum en hleypti heimdraganum skömmu eftir tvítugsaldur. Fór fyrst til Reykjavíkur en síðan erlendis, þar sem hann ferðaðist víða um Evrópu og dvaldist m.a. í Þýskalandi og Sviss. Árið 1939 réðst hann blaðamaður að Vísi og starfaði þar óslitið til æviloka. Maki: Jósefína Gísladóttir. Þau eignuðust eina dóttur. Maki 2: Edith Wischatta frá Austurríki.
Þorsteinn gaf út bækurnar Ævintýri förusveins (1934), Undir suðrænni sól (1937), Tindar (1934), Týrur (1946), Í djörfum leik (1946). Einnig hið mikla staðfræðilrit, Landið þitt Ísland, sem kom út 1966. Var mikilvirkur bókasafnari og átti eitt stærsta og glæsilegasta bókasafn landsins í einkaeigu.

Sveinn Ögmundsson (1897 -1979)

  • S02973
  • Person
  • 20. maí 1897 - 1. okt. 1979

Fæddur í Hafnarfirði. Foreldrar: Ögmundur Sigurðsson og fyrri kona hans Guðrún Sveinsdóttir en hún lést þegar Sveinn var á öðru ári. Giftist Ögmundur þá Guðbjörgu Kristjánsdóttur sem gekk Sveini í móðurstað. Sveinn varð gagnfræðingur aðeins fjórtán ára og stúdent fjórum árum síðar. Lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1920. Kenndi veturinn eftir við gagnfræðaskólann í Flensborg. Vígðist til Kálfholts í Holtum haustið 1921 og bjó þar í áratug en fluttist þá niður í Þykkvabæ. Bjó þar á nokkrum stöðum uns byggt var prestsetrið Kirkjuhvoll 1943. Þar bjó hann til haustsins 1969 er hann fluttist til Reykjavíkur og bjó þar til æviloka. Meðfram preststarfinu sinnti hann kennslu.
Maki 1: Helga Sigfúsdóttir frá Mælifelli. Eignuðust þau 4 börn.
Maki 2: Dagbjört Gísladóttir frá Suður-Nýjabæ í Þykkvabæ. Þau eignuðust 3 dætur.

Sveinn Gunnarsson (1858-1937)

  • S02972
  • Person
  • 27. júlí 1858 - 4. ágúst 1937

Foreldrar: Gunnar Gunnarsson bóndi í Syðra-Vallholti og k.h. Ingunn Ólafsdóttir. Ólst upp með þeim fyrst í stað en fór svo í vinnumennsku. Sveinn var bóndi í Borgarey 1878-1885, Syðra-Vallholti 1885-1888, Bakka í Hólmi 1888-1893 og á Mælifellsá 1893-1909. Dvaldi í Dölum og í Borgarfirði 1909-1917, lengst af í lausamennsku. Kaupmaður í Reykjavík 1917-1924 og á Sauðárkróki 1924 til æviloka. Skrifaði tvær bækur, Veraldarsögu 1921 og Ævisögu Karls Magnússonar 1905.
Maki: Margrét Þórunn Árnadóttir (1855-1928). Þau eignuðust 13 börn og dóu tvö þeirra ung.

Sveinn Björnsson (1881-1952)

  • S02971
  • Person
  • 27. feb. 1881 - 25. jan. 1952

Fæddur í Kaupmannahöfn. Foreldrar: Björn Jónsson (1846-1912) ritstjóri, alþingismaður og ráðherra og kona hans Elísabet Guðný Sveinsdóttir (1839-1922). Sveinn giftist Georgiu Björnsson, fædd Hansen (1884-1957), þau eignuðust 6 börn.
,,Stúdentspróf Lsk. 1900. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1907. Yfirréttarmálaflutningsmaður 1907. Hrl. 1920. Rak málaflutningsskrifstofu í Reykjavík 1907–1920 og 1924–1926. Settur 29. september 1919 málaflutningsmaður við landsyfirréttinn til 31. desember. Skipaður 1920 sendiherra í Danmörku, lausn 1924. Skipaður 1926 að nýju sendiherra í Danmörku, lausn 1941. Ráðunautur ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum 1940–1941. Kjörinn af Alþingi ríkisstjóri Íslands 17. júní 1941 til jafnlengdar 1942, endurkjörinn 9. maí 1942 og 17. apríl 1943. Kjörinn af Alþingi fyrsti forseti Íslands að Lögbergi á Þingvöllum 17. júní 1944. Þjóðkjörinn án atkvæðagreiðslu frá 1945 og aftur frá 1949. Sat á Bessastöðum.
Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1912–1920, forseti bæjarstjórnar 1918–1920. Einn af stofnendum Eimskipafélags Íslands 1914 og formaður þess 1914–1920 og 1924–1926. Stofnandi Brunabótafélags Íslands og forstjóri þess frá stofnun 1916–1920. Einn af stofnendum Sjóvátryggingarfélags Íslands haustið 1918, formaður þess 1918–1920 og 1924–1926. Einn af stofnendum Rauða kross Íslands 10. desember 1924 og fyrsti formaður hans til 1926. Einn af stofnendum Málflutningsmannafélags Íslands 1911 og formaður þess 1918–1920. Skipaður 1910 í peningamálanefnd. Var á vegum ríkisstjórnarinnar í nefnd til vörukaupa í Bandaríkjunum í júlí–október 1914. Kosinn í velferðarnefnd 1914 og 1915 og 1925 í milliþinganefnd í bankamálum. Fulltrúi Íslands á ráðstefnu í Genúa 1922, á alþjóðaráðstefnu í Haag 1930 um lögskipan (codification) á þjóðarétti, á ráðstefnu í Genf 1930–1931 til athugunar á stofnun Evrópubandalags, á fjármálaráðstefnu í London 1933, á ráðstefnu í London 1937 til að ákveða reglur um möskvastærð og fiskstærð með tilliti til veiða. Formaður viðskiptasamninganefnda er gert hafa tolla- og verslunarsamninga við Norðurlöndin, Bretland, Þýskaland og Miðjarðarhafslöndin. Alþingismaður Reykvíkinga 1914–1915 (Sjálfstæðisflokkurinn eldri) og 1919–1920 (utan flokka, (Heimastjórnarflokkurinn), Utanflokkabandalagið)."
Skrifaði Endurminningar, gefnar út 1957. Um hann samdi Gylfi Gröndal bókina: Sveinn Björnsson — ævisaga.

Steindór Steindórsson (1902-1997)

  • S02970
  • Person
  • 12.08.1902-26.04.1997

Steindór Jónas Steindórsson, f. á Möðruvöllum í Hörgárdal 12.08.1902, d. 26.04.1997. Foreldrar: Jónas Steindór Jónasson (1872-1902) verslunarmaður í Þrastarhóli og Kristjón Jónsdóttir (1866- 1956) ráðskona á Möðruvöllum.
Maki: Kristbjörg Dúadóttir (1899-1974) sonur Kristbjargar og kjörsonur Steindórs: Gunnar, fæddur 1923.
Steindór lauk stúdentsprófi frá MR 1925 og nam náttúrufræði við Hafnarháskóla 1925-1930, utan eins árs sem hann var frá námi vegna veikinda. Lauk fyrri hluta meistaraprófs í grasafræði 1930. Stundaði framhaldsnám og rannsóknir við háskólann í Osló 1951. Var heiðursdoktor við HÍ 1981.
Steindór var kennari við MA 1930-1966 og skólameistari 1966-1972. Vann að gróðurrannsóknum á sumrum frá 1930-1976.
Fulltrúi Íslands á þingi norrænna náttúrufræðinga í Helsingfors 1936. Formaður Norræna félagsins á Akureyri 1939–1941 og 1956–1973. Bæjarfulltrúi á Akureyri 1946–1958. Formaður Ræktunarfélags Norðurlands 1952–1971. Ráðunautur Rannsóknastofnunar landbúnaðarins 1955–1967. Dvaldist þrjá mánuði í Bandaríkjunum 1956 í boði Bandaríkjastjórnar og flutti fyrirlestra við háskóla þar. Héraðssáttasemjari 1957–1971. Vann vestan hafs sumarið 1958 að söfnun heimilda að æviskrám Vestur-Íslendinga. Formaður Alþýðuflokksfélags Akureyrar 1962–1964. Sat ráðstefnu í Sviss 1962 á vegum OECD um endurbætur á líffræðikennslu í menntaskólum. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1965. Í endurskoðunarnefnd menntaskólalaga 1967–1969. Í samstarfsnefnd menntaskólanna 1969–1972. Grasafræðiráðunautur við gróðurkortagerð Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á Grænlandi 1977–1981.
Landskjörinn alþingismaður (Ísafjarðar) 1959 (Alþýðuflokkur). Landskjörinn varaþingmaður (Akureyrar) maí 1947. Annar varaforseti neðri deildar 1959.
Höfundur margra fræðirita og ritgerða, einkum um náttúru Íslands og þætti úr sögu lands og þjóðar. Mikilvirkur þýðandi, einkum ferðabóka um Ísland. Sjálfsævisaga í tveim bindum: Sól ég sá, kom út 1982–1983. Ritstjóri: Ferðir (1940–1941). Heima er best (1956–1988). Flóra (1963–1968). Alþýðumaðurinn (1964–1965). Reykjalundur (1966).

Stefán Sigurðsson (1893-1969) sýslumaður

  • S02969
  • Person
  • 22.08.1893-22.09.1969

Stefán Sigurðsson, f. í Vigur á Ísafjarðardjúpi, d. 22.08.1893, d. 22.09.1969. Foreldrar: Þórunn Bjarnadóttir og Sigurður Stefánsson prestur í Vigur. Stefán lauk gagnfræðaprófi frá Akureyri vorið 1911 og fór síðar í Verzlunarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi. Vann síðan skrifstofu- og verslunarstörf á Ísafirði og stundaði einnig loðdýrarækt. Sat einnig í bæjarstjórn Ísafjarðar fyrir sjálfstæðisflokkinn árin 1925-1928.

Stefán Bjarman (1894-1974)

  • S02968
  • Person
  • 10. jan. 1894 - 28. des. 1974

Fæddur að Nautabúi í Lýtingsstaðahreppi. Foreldrar: Árni Eiríksson frá Skatastöðum og Steinunn Jónsdóttir frá Mælifelli. Stefán flutti ungur með foreldrum sínum að Reykjum í Tungusveit og ólst þar upp. Um fermingaraldur fluttist Stefán með foreldrum sínum til Akureyrar og lauk þar gagnfræðaprófi 1911. Lá leiðin síðan til Reykjavíkur þar sem hann gekk í Menntaskólann. Þar bjó hann um skeið í Unuhúsi. Þýddi m.a. bækurnar Þrúgur reiðinnar eftir Steinbeck og bækur eftir Hemningway og Hamsun. Dvaldi um tíma í Bandaríkjunum og síðar í Danmörku. Um 1925 fór hann til Ameríku og dvaldist þar um árabil. Heimkominn gegndi hann m.a. kennarastörfum og veitti forstöðu vinnumiðlunarskrifstofunni á Akureyri. Stefán Bjarman var kunnur sem einn allra snjallasti bókmenntaþýðandi hérlendis, og þýddi m.a. Steinbeck, Hemingway og Hamsun.
Maki 1: Ágústa Kolbeinsdóttir, saumakona. Þau eignuðust ekki börn.
Maki 2: Þóra Eiðsdóttir Bjarman, iðnverkakona. Þau eignuðust ekki börn.

Stefanía Sigríður Arnórsdóttir (1893-1976)

  • S02967
  • Person
  • 29. maí 1893 - 14. feb. 1976

Foreldrar: Arnór Árnason (1860-1938), prestur að Hvammi í Laxársdal og Stefanía Sigríður Stefánsdóttir (1857-1893).
Maki 1: Einar Jónsson, verslunarmaður á Seyðisfirði.
Maki 2: Guðmundur Bjarnason, bóndi á Hæli í Flókadal í Borgarfirði.

Bergur Óskar Haraldsson (1926-2006)

  • S02966
  • Person
  • 8. nóv. 1926 - 17. ágúst 2006

Bergur Óskar Haraldsson fæddist í Sólheimum í Blönduhlíð í Skagafirði hinn 8. nóvember 1926. Hann var sonur hjónanna Haraldar Jóhannessonar, bónda á Bakka í Viðvíkursveit og konu hans Önnu Margrétar Bergsdóttur húsfreyju. ,,Bergur ólst upp hjá foreldrum sínum á Frostastöðum í Blönduhlíð í Skagafirði. Hann lauk barnaskólaprófi frá Flugumýrarskóla í Blönduhlíð og búfræðiprófi 1945 frá Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal. Árið 1950 lauk Bergur sveinsprófi í pípulögnum frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann öðlaðist meistararéttindi í greininni 1953 og stundaði síðan framhaldsnám 1953-1954 við National Foreman Institute í Bandaríkjunum. Bergur starfaði hjá Gísla Halldórssyni pípulagningameistara á árunum 1945-51. Var hjá Sameinuðum verktökum og Íslenskum aðalverktökum 1951-64. Starfaði við fasteignasölu 1964-66 en hóf síðan störf hjá Félagi vatnsvirkja 1967 og vann þar uns hann lét af störfum sökum aldurs 1996. Þar var hann verklegur framkvæmdastjóri 1969-71 og þá framkvæmdastjóri til 1996. Bergur sat í stjórn Félags vatnsvirkja frá 1969-96, sat í stjórn Sameinaðra verktaka í 23 ár, þar af varaformaður og formaður í þrjú ár. Hann sat í stjórn Vatnsvirkjans hf. um árabil sem fulltrúi Félags vatnsvirkja. Bergur sat í stjórn Hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi og var formaður þess félags í tvö ár. Sat hann fjölmörg ársþing Landssambands hestamanna sem fulltrúi Gusts.
Bergur kvæntist Kristínu Láru Valdemarsdóttur sjúkraliða. Þau hófu sinn búskap í Reykjavík árið 1948 en fluttu í Kópavog árið 1956 og bjuggu þar síðan, þau eignuðust þrjú börn."

Snorri Jóhannsson (1870-1941)

  • S02965
  • Person
  • 09.01.1870-09.06.1941

Snorri Lúðvík Guðmundur Jóhannsson, f. 09.01.1870 að Merkigili í Skagafirði, d. í Reykjavík 09.06.1941. Foreldrar: Jóhann Jónsson óðalsbóndi á Merkigili og kona hans Sigurbjörg Jónatansdóttir. Höfðu forfeður Snorra búið mann fram af manni á Merkigili. Snorri missti föður sinn ungur en móðir hans giftist Agli Steingrímssyni. Snorri gekk ungur á Möðruvallaskólann og lauk þar prófi. Fór síðan í Búnaðarskólann á Hólum og lauk einnig prófi þar. Var svo um tíma heima á Merkigili en sigldi um tíma til Kaupmannahafnar, dvaldi þar um skeið og nam verslunarfræði. Eftir að hann kom þaðan stundaði hann verslunarstörf um nokkurra ára bil á Norðurlandi, bæði á Sauðárkróki og Akureyri. Nokkru eftir aldamótin 1900 fluttist hann til Reykjavík og gerðist skrifstofumaður hjá klæðaverksmiðjunni Nýju Iðunni. Nokkru síðar gerðist hann starfsmaður í Útvegsbankanum hf. Og gengdi því starfi þar til hann hætti fyrir aldurssakir. Var auk þessa til fjölda ára stefnuvottur Reykjavíkur.
Maki: Guðborg Eggertsdóttir frá Staðarhóli. Þau eignuðust ekki börn saman. Fyrir átti Snorri eina dóttur, Brynhildi (f. 23.11.1890) með Ingibjörgu Erlendsdóttur. Brynhildur ólst upp hjá foreldrum hans og reisti síðar bú á Merkigili. Hún lést ung og lét eftir sig tvær dætur sem Snorri og kona hans ólu upp. Einnig ólu þau upp Snorra Jónasson loftskeytamann og Maríu Thorlacius.

Marteinn Friðriksson (1924-2011)

  • S02964
  • Person
  • 22. júní 1924 - 18. apríl 2011

Marteinn Friðriksson fæddist á Hofsósi 22. júní 1924 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Friðrik Jónsson (1894-1978) útvegsbóndi og Guðrún Sigurðardóttir (1902-1992). Marteinn var kvæntur Ragnheiði Jensínu Bjarman (1927-2007) og eignuðust þau sjö börn. Að loknu námi við Barnaskólann á Hofsósi stundaði Marteinn nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og þar á eftir í Samvinnuskólanum í Reykjavík. Marteinn var mikill frjálsíþróttamaður á yngri árum og keppti í fjölmörgum greinum með ágætum árangri. Marteinn starfaði víða framan af, m.a. hjá Kaupfélagi Árnesinga, hjá KEA á Akureyri, vann á vegum SÍS við eftirlitsstörf og uppgjör kaupfélaga, hjá Útgerðarfélagi KEA og Fisksölusamlagi Eyfirðinga, hjá Kaupfélagi Ólafsfjarðar og rak bókabúð á Akureyri. Fjölskyldan flutti svo til Sauðárkróks árið 1955 og þar starfaði Marteinn sem framkvæmdastjóri Fiskiðju Sauðárkróks hf. frá stofnun hennar 1955 - 1987. Marteinn var bæjarfulltrúi á Sauðárkróki um langt skeið og sat í stjórnum fyrirtækja og félagasamtaka. Einnig vann hann að stofnun Útgerðarfélags Skagfirðinga og var stjórnarformaður þess um árabil. Jafnframt var hann formaður Tónlistarfélags Sauðárkróks í fjölmörg ár og stofnfélagi að Lionsklúbbi Sauðárkróks árið 1964.

Jóhann Guðjón Guðjónsson (1917-1984)

  • S02963
  • Person
  • 17. nóv. 1917 - 30. nóv. 1984

Foreldrar: Guðjón Jóhannsson og Ingibjörg Sveinsdóttir á Nýlendi á Höfðaströnd. Múrarameistari og skólastjóri Iðnskólans á Sauðárkróki, síðast byggingarfulltrúi.
Maki 1: Dagrún Sædal Bjarnadóttir Hagen, þau eignuðust einn son, þau skildu.
Maki 2: Karla Berndsen.

Sigurjón Sigurðsson (1915-2004)

  • S02961
  • Person
  • 16. ágúst 1915 - 6. ágúst 2004

Fæddur í Reykjavík. Foreldrar: Sigurður Björnsson brunamálastjóri (1876-1947) og k.h. Snjólaug Sigurjónsdóttir (1878-1930). Maki: Sigríður Kjaran. Þau eignuðust sex börn.
Sigurjón varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1935 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslandds árið 1941. Hann kynnti sér skipulagningu og framkvæmd lögreglumála á Norðurlöndum og í Bretlandi árið 1948, í Bandaríkjunum árið 1952 og í Þýskalandi 1954. Starfaði um tveggja ára skeið hjá Sjóvártryggingafélagi Íslands en kom svo til starfa hjá lögreglunni í Reykjarvík árið 1944 sem fulltrúi. Settur lögreglustjóri í Reykjavík frá 1. Ágúst 1947 en skipaður í embættið í febrúar 1949 og gegndri stöðunni óslitið til ársloka 1985 er hann hætti fyrir aldurssakir. Hafði yfirumsjón með Bifreiðaeftirliti Ríkisins í rúma þrjá áratugi, var skólastjóri Lögregluskóla ríkisins í tvo áratugi og kenndi við skólann nokkuð fram á áttræðisaldur. Samhliða gengdi hann setudómarastörfum í ýmsum málum. Gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum. Eftir hann liggja rit tengd lögreglustörfum og umferðamálum. Hlaut hann fjölmargar heiðursviðurkenningar, m.a. íslenska fálkaorðu og gullmerki Lögreglufélags Reykjavíkur.

Jóhannes Gísli Sölvason (1931-2007)

  • S02960
  • Person
  • 3. sept. 1931 - 19. feb. 2007

Jóhannes fæddist á Undhóli í Óslandshlíð í Hofshreppi í Skagafirði í september 1931. Foreldrar hans voru Sölvi Meyvant Sigurðsson og Halldóra Guðnadóttir á Undhóli, seinna í Reykjavík. Jóhannes ólst upp að Undhóli og að loknu barnaskólanámi fór hann til Akureyrar og lauk stúdentsprófi frá stærðfræðideild Menntaskólans á Akureyri vorið 1953. Þaðan lá leið hans til Reykjavíkur í Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist 1957. Jóhannesar starfaði í varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins í Reykjavík, var forstöðumaður Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli, fulltrúi í bókhaldsdeild Loftleiða hf. í Reykjavík og forstöðumaður fjármálasviðs International Air Bahama í New York 1970-1980. Eftir það var hann deildarstjóri fjármála- og bókhaldsdeildar Flugleiða hf. í New York og síðar í Columbia, Maryland. Áhugamál Jóhannesar voru margvísleg og sat hann m.a. í stjórn og varastjórn Frjálsíþróttasambands Íslands 1958–1961, var formaður 1960–1961. Jóhannes kvæntist fyrri konu sinni Kristjönu Jakobsdóttur Richter (1936), tónlistarkennara 1954 og eignuðust þau fjögur börn saman. Seinni kona Jóhannesar var Marilyn Hollander (1929-2006).

Ingimundur Ingimundarson (1911-2000)

  • S02959
  • Person
  • 30. mars 1911 - 22. júlí 2000

Ingimundur Ingimundarson fæddist á Svanshóli í Bjarnarfirði í Strandasýslu í mars 1911, foreldrar hans voru Ólöf Ingimundardóttir og Ingimundur Jónsson. Ingimundur var nemandi í Íþróttaskólanum í Haukadal 1930-1931 og búfræðingur frá Hvanneyri árið 1938. Bóndi á Svanshóli ásamt konu sinni 1942-1983. Ingmundur var sundkennari á annan áratug, stofnfélagi sundfélagsins Grettis og í stjórn þess í 40 ár. Hann var stofnfélagi Héraðssambands Strandamanna árið 1944 og formaður um skeið. Hann vann ötullega í ýmsum félögum í heimabyggð sinni og var í hreppsnefnd árin 1942-1974, oddviti í tuttugu ár og sýslunefndarmaður árin 1974-1986. Hann sat í stjórn Búnaðarsambands Strandamanna árin 1946-1985 og Kaupfélags Steingrímsfjarðar 1971-1985. Ingimundur var heiðursfélagi í Búnaðarsambandi Strandamanna og Sundfélaginu Gretti. Hann var sæmdur Hinni íslensku fálkaorðu fyrir félagsmálastörf árið 1987. Eiginkona Ingimundar var Ingibjörg Sigvaldadóttir (1912-2011) frá Sandnesi við Steingrímsfjörð.

Guðbrandur Magnússon (1907-1994)

  • S02958
  • Person
  • 24. ágúst 1907 - 15. okt. 1994

Guðbrandur var fæddur að Hólum í Steingrímsfirði 24. ágúst 1907. Foreldrar hans voru Magnús Steingrímsson og Kristín Árnadóttir. Guðbrandur varð gagnfræðingur frá Akureyri 1928 og lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1935. Hann stundaði enskunám í Pulteney Institute í London 1937-1938. Guðbrandur var víða kennari, meðal annars við bændaskólann á Hvanneyri, Austurbæjarskóla í Reykjavík og gagnfræðiskólann á Siglufirði. Jafnframt var Guðbrandur skólastjóri á Hofsósi, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík og skólastjóri gagnfræðiskólans á Akranesi. Guðbrandur varð aftur kennari við gagnfræðiskólann á Siglufirði 1947 og starfaði við skólann til 1976 er hann lét af störfum. Guðbrandur skrifaði fjölda blaða- og tímaritsgreina, einkum um náttúrufræði og var kjörfélagi Hins íslenska náttúrufræðifélags og sæmdur gullmerki þess. Eiginkona Guðbrandar var Anna Júlía Magnúsdóttir (1920-2011) frá Vestmannaeyjum og eignuðust þau átta börn.

Árni Guðmundsson (1927-2016)

  • S02957
  • Person
  • 12. sept. 1927 - 7. mars 2016

Árni fæddist á Sauðárkróki 12. september 1927. Foreldrar hans voru Dýrleif Árnadóttir og Guðmundur Sveinsson á Sauðárkróki. Árni tók próf frá Héraðsskólanum á Laugarvatni 1945, samvinnuskólapróf frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1947, íþróttakennarapróf frá Íþróttakennaraskóla Íslands 1948, kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1952 og íþróttakennarapróf frá Statens Gymnastikkskole í Ósló 1954, auk þess sem hann nam við íþróttaskóla víðar á Norðurlöndum og sótti fjölmörg námskeið í faginu. Árni var skólastjóri Íþróttakennaraskóla Íslands frá 1956 og gegndi því starfi í 41 ár. Árni giftist Hjördísi Þórðardóttir og eignuðust þau einn son.

Hannes Hannesson (1888–1963)

  • S02956
  • Person
  • 25. mars 1888 - 20. júlí 1963

Hannes Hannesson var fæddur á Hafsteinsstöðum í Staðarhreppi. Foreldrar hans voru Hannes Gottskálksson húsmaður í Kjartansstaðakoti á Langholti og barnsmóðir hans Steinunn Jónsdóttir vinnukona á Hraunum í Fljótum. Hannes fór í fóstur til Guðfinnu Guðlaugsdóttur og Jóns Sigurðssonar hreppsstjóra á Molastöðum, síðar Illugastöðum í Holtshreppi og ólst upp hjá þeim. Hannes lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands vorið 1917 og fékkst við kennslu nánast óslitið næstu fjóra áratugina. Bóndi á Melbreið í Stíflu 1921-1963. Hannes tók fullan þátt í flestum menningar- og hagsældarmálum sveitarinnar, var einn af stofnendum Málfundarfélagsins Vonar í Stíflu og Ungmennafélags Holtshrepps. Jafnframt sat hann í sveitarstjórn Holtshrepps í 30 ár, ásamt því að sitja í skattanefnd, sóknarnefnd og í stjórn Samvinnufélags Fljóta. Hannes ritaði mikið af þjóðlegum fróðleik, skrifaði annála úr Fljótum, safnaði kveðskap, þjóðsögum og margskonar persónufróðleik. Hannes var giftur Sigríði Jónsdóttur (1900-1995) frá Melbreið og eignuðust þau átta börn.

Sigurður Jónsson (1863-1952)

  • S02955
  • Person
  • 19. ágúst 1863 - 16. maí 1952

Sigurður Jónsson, f. í Tungu í Stíflu. Foreldrar: Jóns Steinsson og Guðrún Nikulásdóttir. Sigurður ólst upp hjá foreldrum sínum fyrstu árin en árið 1871 drukknaði faðir hans. Fór þá Sigurður til föðurbróður síns, Bessa Steinssonar, að Kýrholti í Viðvíkursveit og ólst upp hjá honum og konu hans, Guðrúnu Pálmadóttur. Var hann skráður þar til heimilis til 1892. Þá er hann eitt ár vinnumaður að Bakka í Viðvíkursveit. Árin 1893-1895 er hann skráður vinnumaður að Hvalnesi á Skaga. Eftir það flutti hann með konuefni sínu að Bakka í Viðvíkursveit og var þar 1895-1897. Þaðan á Sauðárkrók þar sem þau voru eitt ár og aftur að Bakka 1898-1903. Þá réðust þau til hjónanna að Hvalnesi og taka þar við búi og búa þar 1903-1919, nema hvað þau leigðu jörðina árið 1908-1909 og voru sjálf í húsmennsku. Árið 1919 fóru þau á Sauðárkrók þar sem Sigurður rak verslun næstu þrjú árin. Árið 1922-1923 bjuggu þau að Hringveri í Hjaltadal, þar sem Guðrún lést. Vorið 1929 fluttist Sigurður til Sigurlaugar dóttur sinnar í Brimnesi og var þar til dánardags. Sigurður sat um skeið í sveitarstjórn og gegndi fleiri trúnaðarstörfum fyrir sveit sína. Lengi hafði hann og verslun í Hvalnesi. Maki: Guðrún Símonardóttir (1871-1924), frá Brimnesi. Þau eignuðust tvö börn, en sonur þeirra lést ungur úr mislingum.

Sigríður Daníelsdóttir (1883-1973)

  • S02954
  • Person
  • 22. júlí 1883 - 1. júlí 1973

Sigríður Daníelsdóttir fædd 22. júlí 1883, ólst upp á Steinsstöðum, dóttir Daníels Sigurðssonar b. og pósts á Steinsstöðum og s.k.h. Sigríður Sigurðardóttir. Sigríður var fyrst kvenna til þess að læra sund í Steinsstaðalaug litlu fyrir aldamótin 1900. Hún var við nám í Hvítárbakkaskóla veturinn 1908-1909 og tvo vetur á Reynistað hjá Sigríði Jónsdóttur. Eftir það dvaldi hún um tíma á Hornafirði. Eiginmaður Sigríðar var Kristján I. Sveinsson (1884-1971) frá Stekkjarflötum í Austurdal. Þau bjuggu á Sauðárkróki 1920-1942 en fluttust þá til Siglufjarðar og loks til Reykjavíkur. Á Sauðárkróki og Siglufirði vann Sigríður stundum utan heimilis, fór þá á síldarvertíðir eða í kaupavinnu. Sigríður og Kristján eignuðust þrjár dætur.

Hulda Jónsdóttir (1921-2002)

  • S02953
  • Person
  • 1. sept. 1921 - 8. des. 2002

Hulda Marharð Jónsdóttir fæddist á Svaðastöðum í Viðvíkursveit þann 1. september 1921 og var dóttir Jóns Friðrikssonar (1900-1955) frá Svaðastöðum og Sigurlaugar Guðrúnar Sigurðardóttur (1903-1971) frá Hvalnesi. Eftir að foreldrar Huldu slitu samvistum ólst hún upp hjá föðurforeldrum sínum á Svaðastöðum, þeim Pálma Símonarsyni og Önnu Friðriksdóttur. Hulda útskrifaðist frá Húsmæðraskólanum á Hallormsstað árið 1942 og nam svo ljósmóðurfræði og útskrifaðist sem ljósmóðir árið 1944. Árið 1945 giftist Hulda Rögnvaldi Jónssyni frá Marbæli í Óslandshlíð og bjuggu þau þar til ársins 1972 þegar þau fluttu til Akureyrar, þau eignuðust fimm börn. Samhliða því að sinna bæði búi og heimili á Marbæli starfaði hún um tíma sem ljósmóðir í Hofsósumdæmi.

Sigurður Stefánsson (1854-1924)

  • S02951
  • Person
  • 30. ágúst 1854 - 21. apríl 1924

Sigurður Stefánsson, f. á Ríp í Hegranesi. Foreldrar: Stefán Stefánsson (1828-1910) síðar bóndi á Heiði í Gönguskörðum og kona hans Guðrún Sigurðardóttir (1831-1903) húsmóðir. Maki (6. júní 1884): Þórunn Bjarnadóttir (f.15.06.1855, d. 22.05.1936), þau eignuðust fjögur börn. Sigurður tók stúdentspróf frá Lærða skólanum 1879 og guðfræðipróf frá Prestaskólanum 1881. Var prestur í Ögurþingum frá 1881 til æviloka. Kosinn dómkirkjuprestur í Reykjavík 1889, en baðst undan því. Bjó í Vigur. Sýslunefndarmaður í Norður-Ísafjarðarsýslu 1884–1919. Formaður Búnaðarsambands Vestfjarða 1907–1919. Alþingismaður Ísfirðinga 1886–1900 og 1902, alþingismaður Ísafjarðar 1904–1915, alþingismaður Norður-Ísfirðinga 1917–1923. 2. varaforseti efri deildar 1909, varaforseti sameinaðs þings 1913, 1. varaforseti neðri deildar 1921.

Elín Sigríður Magnúsdóttir Blöndal (1894-1975)

  • S02950
  • Person
  • 29. mars 1894 - 3. jan. 1975

Fædd í Gautsdal í Geiradal. Foreldrar: Magnús Benedikt Benediktsson Blöndal og Ólöf Snæbjörnsdóttir ljósmóðir í Gautsdal. Elín ólst upp hjá móður sinni í Gautsdal, en fluttist ásamt henni árið 1914 að Sævarlandi til Þórðar hálfbróður síns og gerðist bústýra hans, Ólöf var ekki móðir Þórðar. Eftir lát Þórðar árið 1949 fluttist Elín til Reykjavíkur. Þar stundaði hún sauma í nokkur ár en dvaldist lengst af á heimili Sigríðar fósturdóttur sinnar. Þau systkinin Elín og Þórður eignuðust hvorugt barn en ólu upp fósturbörn. Þau voru:
Sigríður Þorvaldsdóttr, f. 22.12.1929. Foreldrar hennar voru Þorvaldur Þorvaldsson og Helga Jóhannesdóttir.
Friðberg Björnsson, f. 11.06.1906. Foreldrar hans voru Björn Benónýsson og Ingibjörg Stefánsdóttir.
Ragnar Magnús Auðunn Magnússon Blöndal, f. 29.06.1918. Ragnar var hálfbróðir þeirra systkina. Þau tóku hann að sér tveggja ára gamlan en komu honum síðar í fóstur í Litlu-Gröf á Langholti og kostuðu uppeldi hans.

Sigurður Bjarnason (1915-2012)

  • S02949
  • Person
  • 18. des. 1915 - 5. jan. 2012

Sigurður Bjarnason, f. í Vigur í Ísafjarðardjúpi. Foreldrar: Bjarni Sigurðsson (1889-1974) hreppstjóri í Vigur og Björg Björnsdóttir (1889-1977) húsfreyja. Sigurður ólst upp hjá foreldrum sínum í Vigur. Maki: Ólöf Pálsdóttir myndhöggvari. Þau eignuðust tvö börn. ,,Sigurður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1936, lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1941 og lauk framhaldsnámi í lögfræði í Cambridge á Englandi 1945. Hann var ritstjóri Vesturlands 1942-59, ritstjóri Stefnis 1950-53, blaðamaður við Morgunblaðið frá 1941, stjórnmálaritstjóri Morgunblaðsins frá 1947 og aðalritstjóri blaðsins 1956-70. Hann var alþm. Norður-Ísafjarðarsýslu fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1942-59, varaþm. 1959-63 og alþm. Vestfjarðakjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1963-70. Hann var forseti neðri deildar Alþingis 1949-56 og 1963-70. Sigurður var skipaður sendiherra Íslands í Danmörku 1970-76 og jafnframt á Írlandi, í Tyrklandi og fyrsti sendiherra Íslands í Kína, var sendiherra í Bretlandi 1976-82 og jafnframt Írlandi, Hollandi og Nígeríu. Hann starfaði í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík 1982-85, var sendiherra á Kýpur frá 1983 og á Indlandi, Kýpur og í Túnis 1983-85. Sigurður vann mikið að heimkomu handritanna til Íslands sem sendiherra Íslands í Danmörku. Sigurður var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands 1938-39, var formaður Stúdentafélags Reykjavíkur 1941- 42, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar 1946-50, formaður Blaðamannafélags Íslands 1957-58, og formaður Norræna blaðamannasambandsins 1957-58, var stjórnarformaður menningarsjóðs blaðamanna 1946-62, sat í Útvarpsráði 1947-70 og var formaður þess 1959, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs 1953-59 og 1963-70, og var einn af forsetum ráðsins 1953-56, 1958- 59 og 1963-70, sat í Þingvallanefnd 1957-70 og var formaður Norræna félagsins 1965-70. Sigurður var formaður utanríkismálanefndar Alþingis um skeið, var skipaður í undirbúningsnefnd löggjafar um þjóðleikhús 1947, sat í endurskoðunarnefnd laga um skipun prestakalla og endurskoðunarnefnd íþróttalaga 1951, var kosinn í milliliðagróðanefnd 1951, í úthlutunarnefnd atvinnuaukningarfjár 1959-60, sat í úthlutunarnefnd listamannalauna 1961-66 og í stjórn Atvinnubótasjóðs, síðar Atvinnujöfnunarsjóðs 1962-70, skipaður í nefnd til að gera tillögur um framtíðarskipan ferðamála á Íslandi 1962 og í endurskoðunarnefnd hafnalaga 1966, í endurskoðunarnefnd laga um þingsköp Alþingis 1966 og skipaður í endurskoðunarnefnd laga um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis 1968. Hann sat á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1960-62. Sigurður skrifaði fjölda tímarits- og blaðagreina ásamt útvarpserindum um þjóðleg og söguleg efni. Hann var sæmdur fjölda orða og heiðursmerkja og sýndur annar sómi í viðurkenningarskyni fyrir margháttuð opinber störf sín."

Sigurður Árnason (1880-1959)

  • S02948
  • Person
  • 2. maí 1880 - 10. júní 1959

Foreldrar: Árni Sigurðsson (1835-1886) og Jóninna Þórey Jónsdóttir. Ólst upp í Höfnum með foreldrum og síðar móður. Gekk tvo vetur í Möðruvallaskóla. Fyrirvinna á búi móður sinnar þar um tíma frá um 1890 fram til 1913, er móðir hans fluttist í Stykkishólm. Óðalsbóndi í Höfnum 1913-1942. Flutti til Reykjavíkur 1942 og var þar síðan. Barnsmóðir: Guðríður Rafnsdóttir. Þau eignuðust soninn Árna. Sigurður giftist ekki en hafði ráðskonur fyrir búi sínu, þeirra á meðal Guðrúnu Stefánsdóttur sem var þar í 14 ár. Þau eignuðust dótturina Sigríði. Hún var síðar búsett í Reykjavík. Dvaldi Sigurður í húsi Guðrúnar frá því hann seldi Hafnir og flutti til Reykjavíkur til dánardags.

Sigrún Árnadóttir (1900-1964)

  • S02947
  • Person
  • 8. jan. 1900 - 15. okt. 1964

Verslunarstjóri á Eskifirði.
Maki 1: Halldór Pálsson byggingaverkfræðingur, f. 1896. Þau eignuðust einn son.
Maki 2: Davíð Jóhannesson póst- og símstjóri. Þau eignuðust einn son. Fyrir átt Davíð tvo syni með fyrri konu sinni, Ingibjörgu, sem var systir Sigrúnar.

Kaupfélag Fellshrepps (1919-1939)

  • S02946
  • Privat company
  • 1919-1939

Hinn 17. nóvember árið 1918 komu flestir bændur í Fellshreppi saman á fund í þinghúsi hreppsins á Skálá til þess að ræða um úvegun á nauðsynjavörum handa hreppsbúum. Var ákveðið að stofna pöntunarfélag og voru stofnendur 20. Þann 24. sama mánaðar voru samþykkt lög fyrir félagið og því gefið nafn. Félagið hóf þó ekki starfsemi fyrr en 1919 og gekk þá í Samband íslenskra samvinnufélaga. Félagssvæðið var upphaflega aðeins Fellshreppur, síðan bættist Hofshreppur við. Fyrsta vörusendingin var sett á land í Haganesvík. Ein sending af vefnaðarvöru og leirtaui kom til Hofsóss, áður en félagið fékk þar húspláss og var varningurinn því fluttur í Mýrnavík sem varð fyrsta bækistöð og afgreiðsla félagsins varí sjóbúð sem hafði verið reist við víkina árið 1914. Árið 1919 keypti félagið verslunarleyfi og fékk lánaðan hjá Kaupfélagið Skagfirðinga skúr í Hofsósi. Var þetta allt mjög örðugt viðfangs þegar svo langt var á milli athafnastaða félagsins. Eftir þetta flutti Kaupfélag Fellshrepps starfsemi sína alfarið í Hofsós og 1922 keypti það verslunarhús Ólafs Jenssonar og Jóns Björnssonar á Sandinum í Hofsósi. Kaupfélag Fellshrepps varð síðan Kaupfélag Austur-Skagfirðinga.

Jónas Jónsson (1885-1968)

  • S02945
  • Person
  • 1. maí 1885 - 19. júlí 1968

Fæddur í Hriflu í Bárðardal. Foreldrar: Jón Kristjánsson bóndi þar og kona hans Rannveig Jónsdóttir. ,,Gagnfræðapróf Akureyri 1905. Nám í lýðháskólanum í Askov á Jótlandi 1906–1907, í kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn 1907–1908. Kynnti sér skólamál í Þýskalandi, Frakklandi og Englandi 1908–1909 með styrk úr landssjóði, dvaldist þá m. a. eitt missiri á Ruskin College í Oxford. Kennari við unglingaskólann á Ljósavatni 1905–1906. Kennari við Kennaraskólann í Reykjavík 1909–1918. Skólastjóri Samvinnuskólans frá stofnun hans haustið 1919–1927 og 1932–1955. Skipaður 28. ágúst 1927 dóms- og kirkjumálaráðherra, lausn 20. apríl 1931, skipaður 20. ágúst 1931 dóms- og kirkjumálaráðherra að nýju, lausn 28. maí 1932, en gegndi störfum til 3. júní. Kosinn 1925 í bankamálanefnd, 1926 í alþingishátíðarnefnd. Í dansk-íslensku ráðgjafarnefndinni 1926–1939. Í Þingvallanefnd 1928–1946. Í menntamálaráði 1934–1946. Tók sæti í bankaráði Landsbankans 1927 og 1936, í orðunefnd 1935–1944. Forseti Þjóðvinafélagsins 1940–1941. Í skipulagsnefnd atvinnumála 1934. Formaður Framsóknarflokksins 1934–1944. Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1938–1942. Í skipulagsnefnd bygginga við Lækjargötu 1943."

,,Landskjörinn alþingismaður 1922–1934, alþingismaður Suður-Þingeyinga 1934–1949 (Framsóknarflokkur).
Dóms- og kirkjumálaráðherra 1927–1931 og 1931–1932.
Milliþingaforseti efri deildar 1932 og 1933."

,,Afkastamikill rithöfundur, skrifaði bækur, bókarkafla og greinar í blöð og tímarit. Samdi kennslubækur, oft endurprentaðar, og skrifaði greinar um menn og málefni: skólamál, samvinnumál, þjóðfélagsmál o. fl. — Jónas Kristjánsson annaðist útgáfu bókarinnar: Jónas Jónsson frá Hriflu. Ævi hans og störf (1965). Indriði G. Þorsteinsson skrifaði: Samtöl við Jónas (1977). Guðjón Friðriksson skrifaði ævisögu Jónasar Jónssonar í þremur bindum: Með sverðið í annarri hendi og plóginn í hinni. Dómsmálaráðherrann. Ljónið öskrar (1991–1993).
Ritstjóri: Skinfaxi (1911–1917). Tímarit íslenskra samvinnufélaga (1917–1925). Samvinnan (1926– 1928 og 1931–1946). Ófeigur (1944–1956). Landvörn (1946). Landvörn (1948–1953)."

Jón Jónsson (1905-1988)

  • S02943
  • Person
  • 25.05.1905- 21.02.1988

Jón Jónsson, f. 25.05.1905, d. 21.02.1988. Foreldrar hans voru Sigtryggur Jónsson bóndi á Ufsaströnd og Guðrún Jóhanna Sigurjónsdóttir. ,,Jón kom ungur að aldri, ásamt móður sinni, til prestshjónanna á Völlum í Svarfaðardal, séra Stefáns B. Kristinssonar og konu hans, Sólveigar Pétursdóttur Eggertz og þar ólst hann upp. Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1930. Kennsla varð hans aðalstarf, en jafnhliða því stundaði hann búskap. Hann hélt unglingaskóla á Dalvík, varð síðan skólastjóri unglingaskólans á Siglufirði og skólastjóri Gagnfræðaskóla Siglufjarðar frá stofnun hans. Kona Jóns var Anna Stefánsdóttir, þau eignuðust níu börn. Jón hóf búskap sinn á Völlum, síðar í Gröf, en árið 1947 flutti hann með fjölskyldu sína að Böggvistöðum við Dalvík. Eftir að hann lét af kennslu á Siglufirði stundaði hann kennslustörf á Dalvík á meðan heilsa hans leyfði."

Arnór Árnason (1860-1938)

  • S02942
  • Person
  • 16. feb. 1860 - 24. apríl 1938

Fæddur í Höfnum á Skaga. Foreldrar: Árni Sigurðsson bóndi í Höfnum og fyrra kona hans Margrét Guðmundsdóttir. Arnór ólst upp með foreldrum sínum í Höfnum. Varð stúdent 1884, cand theol. 1886. Kennari við unglingaskóla á Þingvöllum veturinn 1883-1884. Veitt Tröllatunguprestakall 1886 en sat að felli í Kollafirði. Fékk lausn frá embætti 1904. Bóndi að Ballará á Skarðsströnd 1904-1907. Veittur Hvammur í Laxárdal 1907. Fékk lausn frá embætti 1935. Dvaldist á Fossi á Skaga 1935-1938. Arnór gegndi mörgum trúnaðarstörfum og hafði m.a. afskipti af verslunarsamtökum bænda.
Maki 1: Stefanía Sigríður Stefánsdóttir (10.12.1857-07.06.1893). Þau eignuðust 4 börn.
Maki 2: Ragnheiður Eggertsdóttir (28.09.1862-01.01.1937). Þau eignuðust 5 börn.

Ásgeir Guðmundsson (1887-1976)

  • S02941
  • Person
  • 5. nóv. 1887 - 23. okt. 1976

Fæddur í Æðey. Foreldrar: Guðrún Jónsdóttir frá Arnardal og Guðmundur Rósinkarsson. Ásgeir bjó alla tíð í Æðey. Eftir lát móður sinnar, 1931, bjó hann þar ásamt systkinum sínum, Sigríði og Halldóri. Sinnti dýralækninum við Djúp þrátt fyrir að vera ómenntaður á því sviði. Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína, var m.a. um langt skeið oddviti Snæfjallahrepps, hreppsstjóri og sýslunefndarmaður. Ásgeir var mikill bókmenntaunnandi og fjölfróður. Hann var ógiftur og barnlaus.

Páll Ólafsson (1850-1928)

  • S02940
  • Person
  • 20. júlí 1850 - 11. nóv. 1928

Fæddur í Stafholti. Foreldrar: Ólafur Pálsson (1814-1876) alþingismaður og kona hans Guðrún Ólafsdóttir Stephensen (1820-1899) húsmóðir. Páll lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1869 og guðfræðiprófi frá Prestaskólanum 1871. Árið 1873 var hann vígður aðstoðarprestur hjá föður sínum á Melstað. Prestur í Hestþingum 1875-1876. Gerðist síðan aftur aðstoðarprestur föður síns. Fékk Stað í Hrútafirði 1877, Prestbakka (ásamt Stað) 1880. Prestur í Vatnsfirði 1900-1928. Prófastur í Strandaprófastdæmi 1883-1900. Prófastur í Norður-Ísafjarðarsýslu 1906-1927. Alþingismaður Strandamanna 1886-1892. Maki: Arndís Pétursdóttir Eggertz (1858-1937) húsmóðir. Þau eignuðust 13 börn.

Ludvig Knudsen (1867-1930)

  • S02939
  • Person
  • 9. feb. 1867 - 30. apríl 1930

Foreldrar: Jens A. Knudsen verslunarstjóri í Hólanesi og kona hans Elísabet Sigurðardóttir. Stúdent frá Reykjavíkurskóla 1888. Tók heimspekipróf frá háskólanum í Kaupmannahöfn og lagði stund á guðfræði. Tók próf úr prestaskóla 1892. Fékk Stað í Kinn 1892 en missti prestskap vegna barneignarbrots. Var um hríð bókhaldari á Húsavík. Fékk Bergstaði 1904 og Breiðabólstað í Vesturhópi í V-Húnavatnssýslu árið 1914 og þjónaði þar til æviloka.
Maki: Sigurlaug Björg Árnadóttir frá Höfnum. Eignuðust tvö börn en aðeins annað þeirra komst upp.

Ole Gabrielsen Syre (1878-1951)

  • S02938
  • Person
  • 15. okt. 1878 - 29. apríl 1951

Ole Gabrielsen Syre, frá Noregi. Fluttist ásamt konu sinni og þremur dætrum til Íslands árið 1911 og settust þau að á Ísafirði. Eignuðust þar einn son. Fluttust aftur til Noregs 1918 en komu aftur árið 1925 og fóru þá til Ísafjarðar, Ole var skipstjóri og kaupmaður þar.

Kristmann Tómasson (1867-1941)

  • S02937
  • Person
  • 15. des. 1867 - 20. júlí 1941

Fiskmatsmaður og útvegsbóndi í Kristmannshúsi á Akranesi.

Valdimar Briem (1848-1930)

  • S02936
  • Person
  • 1. feb. 1848 - 3. maí 1930

Fæddur á Grund í Eyjafirði. Foreldrar: Ólafur Briem timburmeistari og Valgerður Dómhildur Þorsteinsdóttir, þau bjuggu á Grund. Valdimar ólst upp frá tíu ára aldri hjá föðurbróður sínum, Jóhanni Briem, prófasti í Hruna og konu hans, Sigríði Stefánsdóttur Briem. Hann lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1869 og embættisprófi í guðfræði frá Prestaskólanum í Reykjavík 1872. Hann var barnakennari í Reykjavík 1872-1873. Prestur á Hrepphólum í Hrunamannahreppi 1873-1880 og á Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi. Fluttist hann þangað 1880 og bjó til æviloka. Prófastur í Árnesprófastdæmi 1897-1918. Vígslubiskup í Skálholtsbiskupsdæmi 1909-1930. Valdimar var eitt helsta sálmaskáld þjóðarinnar fyrr og síðar og afkastamikill þýðandi. Fjölda sálma eftir hann er að finna í sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar og einnig í færeysku sálmabókinni.

Fellshreppur (874-1990)

  • S02935
  • Organization
  • 874-1990

Fellshreppur sameinaðist Hofshreppi og Hofsóshreppi árið 1990 undir nafninu Hofshreppur. Í jarðabók Árna og Páls heitir hreppurinn Sléttuhlíðarhreppur og virðist hafa heitið svo fram á fyrri hluta 19. aldar sbr. dómabækur Skagafjarðarsýslu.

Jakob Óskar Lárusson (1887-1937)

  • S02934
  • Person
  • 7. júlí 1887 - 17. sept. 1937

Var í Reykjavík 1910. Hóf ungur nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Á þeim árum var Ungmennafélag Reykjavíkur stofnað og gerðist hann einn helsti áhrifamaður. Að loknu guðfræðinámi 1910 hélt séra Jakob vestur um haf til að vera prestur meðal landa vestra um stund. Árið 1913 kom hann heim aftur, og varði þá aleigu sinni til að kaupa og flytja heim fyrstu nothæfu bifreiðina, er hingað kom til lands. Gerðist hann nú prestur að Holti undir Eyjafjöllum og kvæntist Sigríði Kjartansdóttur. Varð þeim margra barna auðið. Vafalaust var séra Jakob meðal áhrifaríkustu og vinsælustu presta sinnar tíðar. Þegar Laugarvatnsskólinn tók til starfa haustið 1928, varð séra Jakob skólastjóri þar. Hann stýrði skólanum þó aðeins einn vetur, því að um þetta leyti tók hann að kenna alvarlegs sjúkdóms, er svipti hann starfsgetu skömmu síðar og þjáði hann til æviloka.

Jakob Jóhannesson Smári (1889-1972)

  • S02933
  • Person
  • 9. okt. 1889 - 10. ágúst 1972

Fæddur á Sauðafelli í Dölum. Foreldrar: Jóhannes Lárus Lynge Jóhannsson, prestur á Kvennabrekku, og f.k.h., Steinunn Jakobína Jakobsdóttir. Jakob lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1908, stundaði nám í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan meistaraprófi árið 1914. Jakob var kennari við ýmsa skóla í Reykjavík á árunum 1914-20 og við Menntaskólann í Reykjavík 1920-36 og yfirkennari þar. Hann sat lengi í stjórn Sálarrannsóknafélags Íslands. Jakob sendi frá sér ljóðabækurnar Kaldavermsl, 1920, Handan storms og strauma, 1936, Undir sól að sjá, 1939, og Við djúpar lindir, 1957. Þá samdi hann kennslubækur, s.s. Íslenska setningafræði og Íslenska málfræði og tók saman Íslensk-danska orðabók. Jakob þýddi m.a. sum verka Gunnars Gunnarssonar, leikrit eftir Ibsen og Strindberg og óperettur, að ógleymdri Bókinni um veginn, eftir Lao-Tse, ásamt Yngva Jóhannessyni. Jakob var nýrómantískt skáld. Skáldskapurinn var ljóðrænn og átakalítill, sonnettan var hans aðalljóðform en yrkisefnið gjarnan sótt í kyrrð og fegurð íslenskrar náttúru. Hann var því ekki beint barn síns tíma þegar leið á ferilinn. Samt urðu ýmis ljóða hans vel þekkt og oft sungin.
Maki: Helga Þorkelsdóttir kjólameistari, þau eignuðust tvö börn.

Mjólkurflutningafélag Hegraness (1949-óvíst)

  • S02932
  • Organization
  • 02.04.1949-óvíst

Mjólkurflutningafélag Hegraness, stofnað 02.04.1949. Ekki liggur fyrir hvort eða hvenær félagið var formlega lagt niður. Félagið var stofnað að Hamri í Hegranesi þann 2. apríl 1949 af 16 bændum í Hegranesi. Í fyrstu stjórn voru kjörnir Páll Björnsson Beingarði, Leó Jónasson Svanavatni og Páll Jónasson Hróarsdal. Tilgangur félagsins var að sjá um bifreiðaakstur til vöru- og fólksflutninga í þágu framleiðslunnar og búnaðarins á félagssvæðinu.

Hávarður Friðriksson (1891-1985)

  • S02931
  • Person
  • 7. nóv. 1891 - 31. des. 1985

Bóndi á Hallsstöðum í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp. Síðast búsettur í Reykjavík.

Hákon Bjarnason (1907-1989)

  • S02930
  • Person
  • 13. júlí 1907 - 16. apríl 1989

Foreldrar: Ágúst H. Bjarnason, prófessor í heimspeki við HÍ og Sigríður Jónsdóttir kennari við Kvennaskólann. Hákon lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1926 og hélt að því loknu til náms í skógræktarfræðum við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Þaðan brautskráðist hann 1932 fyrstur Íslendinga í þessum fræðum. Vann einn vetur sem aðstoðarmaður á Plantefysiologisk Laboratorium við sama háskóla. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands frá 1933 til loka 7. áratugarins. Kjörinn heiðursfélagi þess 1977. Hákon var skipaður skógræktarstjóri 1935 og gegndi því starfi í 42 ár, til 1977. Hákon dvaldist erlendis veturinn 1936—37 til þess að kynna sér vinnubrögð við tilraunastarfsemi í jarðannsóknum. Forstöðu Mæðiveikivarna gegndi Hákon til 1941. Beitti sér mjög fyrir innflutningi trjátegunda til Íslands í störfum sínum sem og notkun lúpínu við landgræðslu. Hákon var kjörinn heiðursfélagi Norska skógræktarfélagsins.
Maki 1: Guðrún Magnúsdóttir Þau eignuðust eina dóttur. Þau slitu samvistum.
Maki 2: Guðrún Bjarnason. Þau eignuðust fjögur börn.

Gunnar Þorsteinn Þorsteinsson (1903-1978)

  • S02929
  • Person
  • 28. sept. 1903 - 18. nóv. 1978

Foreldrar: Þorsteinn Þorsteinsson og Guðrún Brynjólfsdóttir. Starfaði sem lögmaður og hæstaréttarlögmaður í Reykjavík og í Kaupmannahöfn, um tíma bæjarfógeti í Vestmannaeyjum.
Maki 1: Jóna Marta Guðmundsdóttir húsfreyja. Þau skildu. Þau eignuðust 2 börn.
Maki 2: Guðrún Ágústa Þórðardóttir húsfreyja. Þau skildu.
Maki 3: Þóra Emilía María Júlíusdóttir Havsteen húsfreyja. Þau skildu.

Gísli Sveinsson (1880-1959)

  • S02928
  • Person
  • 7. des. 1880 - 30. nóv. 1959

Fæddur að Sandfelli í Öræfum. Foreldrar: Sveinn Eiríksson (1844-1907) prestur í Sandfelli og kona hans Guðríður Pálsdóttir (1845-1920). Lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum árið 1903 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1910. Um tíma bæjarfógeti og settur sýslumaður á Akureyri. Varð yfirdómslögmaður í Reykjavík árið 1910. Sýslumaður í Víkurkauptúni í V-Skaftafellssýslu. Skipaður sendiherra í Noregi árið 1947. Alþingismaður 1916-1921, 1933-1942 og 1946-1947 fyrir Vestur-Skaftfellinga. Landskjörinn þingmaður 1942-1946. Gegndi ýmsum nefndarstörfum og ritaði margar greinar um sjálfstæðismál Íslendinga og kirkjumál. Samdi einnig bækling um Kötlugosið 1918 og afleiðingar þess. Maki: Guðrún Pálína Einarsdóttir (1890-1981). Þau eignuðust fjögur börn.

Guðmundur Björnsson (1864-1937)

  • S02927
  • Person
  • 12. okt. 1864 - 7. maí 1937

Guðmundur Björnsson, f. 12.10.1864 í Gröf í Víðidal í V-Hún. Foreldrar: Björn Leví Guðmundsson bóndi í Gröf í Víðidal og kona hans Þorbjörg Helgadóttir húsfreyja. Guðmundur tók stúdentspróf frá Lærða skólanum í júní 1887 með 1. einkunn. Lauk cand. med. prófi frá Hafnarháskóla í janúar 1894 með 1. einkunn. Dvaldi um skeið í Noregi með styrk úr landssjóði til að kynna sér ráðstafanir varðandi holdsveiki. Fór einnig í kynnisferðir um Evrópu á árunum 1905-6 og síðar. Starfaði í Kaupmannahöfn og Reykjavík. Kenndi við Læknaskólann um skeið. Var jafnframt ljósmæðrakennari. Landlæknir og forstöðumaður Læknaskólans frá 1906-1931. Settur prófessor við Háskóla Íslands 1911. Var einnig alþingismaður og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Eftir hann liggur mikið af rituðu máli um heilbrigðismál auk þess sem hann gaf út ljóðabókina Undir ljúfum lögum árið 1918 (undir höfundarnafninu Gestur).
Maki 1: Guðrún Sigurðardóttir, f. 31.12.1864, d. 29.01.1904. Þau eignuðust sjö börn.
Maki 2: Margrét Magnúsdóttir Björnsson, f. Stephensen. F. 05.08.1879, d. 15.08.1946. Þau eignuðust sjö börn.

Sigmundur Andrésson (1854-1926)

  • S02925
  • Family
  • 15. okt. 1854 - 24. apríl 1926

Sigmundur Andrésson, f. í Syðra-Langholti í Árnessýslu. Foreldrar: Andrés Magnússon og Katrín Eyjólfsdóttir í Syðra-Langholti. Sigmundur ólst að miklu leyti upp á Brunnastöðum hjá Katrínu systur sinni og Guðmundi manni hennar. Á unglingsárum sínum naut hann fræðslu einn vetur hjá sr. Magnúsi bróður sínum. Hann stundaði sjómennsku í uppvextinum og komst í mikinn lífsháska 17 ára gamall þegar bátinn steytti á skeri og tveir drukknuðu en þrír björguðust. Einnig fór hann í kaupavinnu á sumrin, m.a. norður í land. Þar kynntist hann konuefni sínu, Moniku Sigurlaugu Indriðadóttur (1862-1939), þau eignuðust tvö börn. Þau bjuggu á Írafelli 1889-1900, á Lýtingsstöðum 1900-1902 og á Vindheimum 1902-1920. Bjó hann þar til dánardags. Um alllangt skeið stundaði hann meðalalækningar og var tíðum leitað til hans í framsveitunum.

Friðrik Þorsteinsson (1873-1957)

  • S02924
  • Person
  • 4. apríl 1873 - 28. jan. 1957

Skrifari í Vestmannaeyjum 1917-1935. Síðar reykhúseigandi í Reykjavík.

Framfærslumálanefnd Ríkisins (1940-

  • S02923
  • Organization
  • 12.02.1940-

,,Þann 12. febrúar árið 1940 voru samþykkt lög um breytingar á framfærslulögunum frá 1935. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði skyldi ríkisstjórnin skipa þriggja
manna nefnd, einn mann úr hverjum stóru flokkanna, sem myndi samkvæmt fyrirmælum ráðherra, sjá um „framkvæmdir og ráðstafanir til framleiðslubóta og atvinnuaukningar.“
Félagsmálaráðherra, Stefán Jóhann Stefánsson, skipaði Framfærslumálanefnd ríkisins þann 13. febrúar 1940. Framkvæmdastjóri nefndarinnar og fulltrúi
Framsóknarflokksins var Jens Hólmgeirsson, Sigurður A. Björnsson framfærslufulltrúi átti þar sæti fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og Kjartan Ólafsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, fyrir hönd Alþýðuflokksins. Félagsmálaráðherra fól nefndinni fjölmörg störf í hendur, meðal annars að leggja fram tillögur um vinnu unglinga, sumardvöl barna, meðalmeðlag barnsfeðra,
skipulag ráðningastofu fyrir landbúnaðinn og fleira. Nefndin átti að koma með tillögur um ráðstöfun á því fé sem nota átti til framleiðslubóta og atvinnuaukningar.
Einnig hve hátt mótframlag bæjar- og sveitarfélaga ætti að vera gegn ríkissjóðsframlagi til framleiðslubóta og aukningar á atvinnumöguleikum í bæjar- eða sveitarfélögum. Féð átti að nota í arðgæfar framkvæmdir til styrktar atvinnulífinu og koma þannig atvinnulausu fólki til starfa í framleiðsluvinnu. Nefndin gerði úttekt á atvinnuskilyrðum og atvinnuástandi í bæjum og kauptúnum og leitaði úrræða til að nýta atvinnutækifæri betur á hverjum stað. Nefndin átti að gæta þess að sveitar- og bæjarstjórnir gerðu allt sem þær gætu til að útvega fólki vinnu í stað þess að hafa það á sinni framfærslu. Hafði nefndin heimild ráðherra til að gera ráðstafanir í þessu skyni, líkt og sveitar- og bæjarfélög höfðu, lögum samkvæmt. Ráðherra myndi aðstoða nefndina við skrifstofustörf og Búnaðarfélag Íslands skyldi hjálpa nefndinni við útvegun atvinnu í sveitum landsins. Eitt veigamesta verkefni framfærslumálanefndarinnar var að rannsaka styrkþegaframfærið í landinu. Nefndin átti að hafa eftirlit með framkvæmd og ráðstöfun framfærslu- og fátækramála hjá bæjar- og sveitarfélögum, í samvinnu við eftirlitsmann sveitarstjórnarmálefna, Jónas Guðmundsson. Þann 11. apríl árið 1940 sendi nefndin út bréf fyrir hönd félagsmálaráðuneytisins til allra oddvita, lögreglustjóra og bæjarstjóra á landinu, þar sem fyrirhuguð rannsókn var útskýrð. Með bréfinu voru send eyðublöð sem framfærslufulltrúar á hverjum stað áttu að fylla út, eitt fyrir hvern styrkþega, þar sem gera átti grein fyrir framfærslu hvers og eins. Tilgangurinn með rannsókninni var að fá nákvæmt og sundurliðað yfirlit yfir fátækraframfærslu í landinu árið 1939, athuga ástæður og orsakir framfærslunnar og hvernig framfærslumálum væri háttað á hverjum stað, til þess að vinna að frekari úrbótum í þessum málaflokki."

Finnbogi Guðmundsson (1924-2011)

  • S02922
  • Person
  • 8. jan. 1924 - 3. apríl 2011

Fæddur í Reykjavík. Foreldrar: Laufey Vilhjálmsdóttir kennari og Guðmundur Finnbogason prófessor og landsbókavörður. Finnbogi kvæntist Kristjönu P. Helgadóttur lækni, þau eignuðust eina dóttur og ólu upp fósturdóttur. Finnbogi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943. Eftir útskrift frá menntaskóla hóf Finnbogi nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Hann lauk cand. mag.-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1949. Hann lauk doktorsprófi frá HÍ 1961. Finnbogi tók við nýstofnuðu embætti í Kanada (Winnipeg), sem Vestur-Íslendingar höfðu stofnað. Þar vann hann mikilvægt brautryðendastarf, bæði við kennslu og kynningastarf meðal Vestur-Íslendinga. Einnig vann hann afrek á sviði fornra fræða. En hann var stórvirkur í fræðum Vestur-Íslandinga. Finnbogi gegndi starfi Landsbókasafnsvarðar í þrjátíu ár. Hann stundaði kennslu um árabil og var m.a. stundakennari við MR, aðstoðarkennari við Manitoba-háskóla og sendikennari við Óslóarháskóla og Björgvinjarháskóla. Hann var einnig dósent við HÍ um tíma. Eftir Finnboga liggur fjöldi ritverka, bæði frumsamins efnis og þýðinga. Hann annaðist einnig útgáfu fjölda bóka, m.a. fornrita og bóka eftir föður sinn. Finnbogi tók mikinn þátt í félagsmálum og var m.a. um tíma í stjórn Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi og var gerður að heiðursfélaga þess, formaður Félags íslenskra fræða og forseti Hins íslenska þjóðvinafélags. Hann var formaður byggingarnefndar Þjóðarbókhlöðunnar frá 1970.

Einhildur Sveinsdóttir (1912-2008)

  • S02921
  • Person
  • 6. ágúst 1912 - 29. júní 2008

Fædd á Eyvindará í Eiðaþinghá í S.- Múl. Foreldrar: Sveinn Árnason bóndi á Eyvindará (1866-1924) og Guðný Einarsdóttir (1877-1924). Systkinahópurinn á Eyvindará varð fyrir þeirri skelfilegu reynslu að foreldrarnir dóu úr lungnabólgu með níu daga millibili í febrúar 1924. Elstu systkinin, Guðný og Björn, þá um tvítugt, ákváðu þó að halda áfram búskap foreldranna og annast og ala upp yngri systkini en Einhildur var þá 11 ára. Einhildur gekk í Alþýðuskólann á Eiðum frá 1931-32. Á næstu árum var hún á vetrum í vist á ýmsum heimilum í Reykjavík en sumrum eyddi hún í átthögunum. Hún stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík 1936-7 og þar með var brautin mörkuð. Til Akureyrar flutti hún 1939 og vann á Akureyrarspítala við matreiðslu og var ráðskona þar í ein 3-4 ár. Síðan varð hún matráðskona við Menntaskólann álíka lengi. Matsölu stundaði hún svo á eigin vegum næstu árin. Við tóku verslunarstörf og hún keypti verslunina Brekku og rak í nokkur ár. Í hjáverkum stofnaði hún ásamt vinkonu sinni Kristínu Ísfeld litla bókaútgáfu, Von, og gáfu þær út nokkrar bækur.
Maki: Marteinn Sigurðsson frá Veturliðastöðum í Fnjóskadal. Þau hjón stofnuðu verslunina Drangey í Brekkugötu og höndluðu með málverk, minjagripi og hannyrðavörur af ýmsu tagi. Saman störfuðu þau Einhildur og Marteinn að verslun sinni, allt til þess að heilsu hans fór að hraka upp úr 1960. Þá hélt hún versluninni áfram í smærri stíl á heimili þeirra.

Rögnvaldur Gíslason (1923-2014)

  • S02920
  • Person
  • 16. des. 1923 - 7. apríl 2014

Foreldrar: Gísli Magnússon og Guðrún Sveinsdóttir í Eyhildarholti. Maki: Sigríður Jónsdóttir frá Djúpadal, þau eignuðust fjögur börn. Rögnvaldur ólst upp í Eyhildarholti og gekk í farskóla í Rípurhreppi en var síðan einn vetur í Gagnfræðaskólanum í Reykjavík, annan í Héraðsskólanum á Laugarvatni og þann þriðja í Bændaskólanum á Hólum. Hann varð búfræðingur 1945. Aðra vetur var hann við bústörf heima í Eyhildarholti, en á sumrin oftast í vega- og brúarvinnu víða um Norður- og Norðausturland. Þegar þau Sigríður giftust hófu þau búskap í Djúpadal og stóð til að þau tækju þar að fullu við búi en snöggur endir var bundinn á þau áform þegar Rögnvaldur fékk lömunarveiki vorið 1956. Hann lamaðist ekki en varð óvinnufær um nokkurra ára skeið og gat ekki unnið erfiðisvinnu eftir það. Um tíma vann Rögnvaldur íhlaupavinnu á skrifstofu Búnaðarsambands Skagafjarðar, en í ársbyrjun 1961 hóf hann störf á sýsluskrifstofunni á Sauðárkróki og vann þar til starfsloka um sjötugt, lengst af sem aðalbókari. Fyrstu árin átti fjölskyldan áfram heimili í Djúpadal ásamt föður og föðurbræðrum Sigríðar, en Rögnvaldur leigði herbergi á Sauðárkróki og kom heim um helgar. Haustið 1967 fluttist fjölskyldan til Sauðárkróks og áttu þau hjón þar heima síðan.

Ólafur Kristjánsson (1884-1958)

  • S02919
  • Person
  • 15. júní 1884 - 15. nóv. 1958

Foreldrar: Kristján Kristjánsson og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir, síðast búsett á Ábæ í Austurdal. Ólafur ólst upp hjá foreldrum sínum á Keldulandi til 1887, í Reykjaseli á Mælifellsdal eitt ár, á Tyrfingsstöðum á Kjálka í fjögur ár og á Ábæ til fullorðinsára. Hann nam trésmíðar á Akureyri um 1906-1908 og síðan voru trésmíðar jafnan hans aðalstarf. Ólafur hóf, ásamt fyrri konu sinni, búskap á Ábæ sumarið 1912 og voru þau þar eitt ár. Fluttust þaðan að Glæsibæ í Staðarhreppi og voru þar um skeið. Árið 1932 hóf hann, ásamt seinni konu sinni, búskap á hluta af jörðinni Sveinsstöðum og bjuggu þau þar til 1945. Þar áttu þau heimili áfram til 1955, þó að eigi dveldu þau þar að staðaldri síðari árin. Árið 1955 fluttist Ólafur til Akureyrar og dvaldist þar síðustu þrjú æviárin, ýmist á Kristneshæli þar sem kona hans starfaði eða hjá dóttur þeirra á Akureyri. Ólafur dvaldi löngum fjarri heimili sínu við smíðar og var yfirsmiður við fjölda bygginga í Lýtingsstaðahreppi. Þ.á.m. kirkjurnar á Ábæ, Mælifelli og Glaumbæ. Auk þessa stundaði hann vegavinnu um skeið. Heilsu hans tók að hnigna á árunum 1952-1955 svo hann gat ekki lengur stundað erfiðisvinnu að staðaldri. Tók hann þá að sér umsjón með heimavistarbarnaskóla Lýtingsstaðahrepps, Steinsstaðaskóla, og kenndi þar jafnframt en kona hans var þá ráðskona við skólann.
Maki 1: Lilja Aðalbjörg Jóhannesdóttir f. 31.07.1886 í Litladal í Eyjafirði d. 20.10.1930 á Sauðárkróki. Hún lést af völdum gigtarsjúkdóma. Þau eignuðust eina dóttur.
Maki 2: Guðlaug Egilsdóttir, f. 07.08.1905 á Sveinsstöðum, d. 03.05.1982 á Akureyri. Þau eignuðust eina dóttur.

Guðrún Bergsdóttir (1867-1956)

  • S02918
  • Person
  • 14. okt. 1867 - 29. feb. 1956

Guðrún Bergsdóttir, f. á Mjóafelli í Stíflu. Foreldrar: Bergur Jónsson bóndi á Þrasastöðum í Stíflu og kona hans Katrín Þorfinnsdóttir húsfreyja. Maki 1: Magnús Gunnlaugsson (1845-1912) frá Garði í Hegranesi. Guðrún var seinni kona hans. Þau eignuðust níu börn sem upp komust. Með Magnúsi bjó Guðrún fyrst að Hamri í Stíflu, árið 1886, en ári síðar fluttu þau að Tungu í Stíflu og bjuggu þar næstu þrjú árin. Þaðan að Saurbæ í Kolbeinsdal og voru þar í ellefu ár. Árið 1901 keyptu þau Ytri-Hofdali. Magnús lést árið 1912 en Guðrún kvæntist aftur árið 1916 Sigtryggi Jóhanni Guðjónssyni sem áður hafði verið ráðsmaður á Hofdölum. Þess er getið að Guðrún hafi gengið í öll störf, svo sem vefnað, vegghleðslu, trésmíði og tóvinnu. Hún átti sæti í hreppsnefnd Viðvíkurhrepps 1910-1914, líklega fyrst kvenna í Skagafirði til að gegna slíku trúnaðarstarfi. Sigtryggur og Guðrún eignuðust ekki börn saman en ólu upp tvo dóttursyni Guðrúnar.

María Björnsdóttir Hansen (1920-2006)

  • S02917
  • Person
  • 5. mars 1920 - 26. jan. 2006

María Björnsdóttir fæddist á Refsstöðum í Laxárdal í Austur-Húnavatnssýslu árið 1920. Foreldrar hennar voru Björn Leví Gestsson og María Guðmundsdóttir. María brautskráðist úr Samvinnuskólanum árið 1940. Hún vann skrifstofustörf hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og var aðalbókari á skrifstofu Ríkisspítalanna í Reykjavík. María gekk í Húsmæðraskóla Reykjavíkur 1944-1945. Árið 1946 giftist hún Kristjáni Friðrikssyni Hansen. Eftir giftingu vann hún á skrifstofu sýslumanns á Sauðárkróki en síðar sem bókhaldari og fleira við flutningafyrirtæki eiginmanns síns "Kristján og Jóhannes". María og Kristján eignuðust einn son en tóku einnig í fóstur systurson Maríu.

Hróbjartur Jónasson (1893-1979)

  • S02916
  • Person
  • 5. maí 1893 - 3. apríl 1979

Hróbjartur var fæddur í Hróarsdal árið 1893, sonur hjónanna Jónasar Jónssonar smáskammtalæknis og Elísabetar Gísladóttur. Hróbjartur var í stórum systkinahóp. Elísabet móðir Hróbjartar lést þegar Hróbjartur var árs gamall, seinni kona föður hans, Lilja Jónsdóttir, gekk honum síðar í móðurstað. Hróbjartur var menntaður múrarameistari og vann við það allt sitt líf, samhliða sveitastörfum. Hann giftist Vilhelmínu Helgadóttur og átti með henni 6 börn. Lengst af bjuggu Hróbjartur og Vilhelmína á Hamri en síðustu æviárunum eyddu þau á Sauðárkróki.

Vilhelmína Helgadóttir (1894-1986)

  • S02915
  • Person
  • 4. okt. 1894 - 3. okt. 1986

Dóttir Helga Péturssonar og Margrétar Önnu Sigurðardóttur, þau bjuggu m.a. á Geirmundarhóli í Hrollleifsdal og á Kappastöðum í Sléttuhlíð. Giftist Hróbjarti Jónassyni múrarameistara frá Hróarsdal í Hegranesi, þau eignuðust sex börn. Þau bjuggu lengst af á Hamri í Hegranesi. Vilhelmína starfaði um árabil með Kvenfélagi Rípurhrepps. Síðast búsett á Sauðárkróki.

Helgi Pétursson (1865-1946)

  • S02914
  • Person
  • 4. mars 1865 - 21. okt. 1946

Helgi Pétursson fæddist árið 1865 á Fjalli í Sléttuhlíð. Foreldrar: Pétur Sigmundsson b. að Fjalli og k.h. Sigríður Helgadóttir. Helgi stundaði sjómennsku framan af en hóf svo búskap ásamt konu sinni, Margréti Sigurðardóttur frá Garðshorni á Höfðaströnd árið 1897. Bjuggu í Garðshorni 1897-1898, á hluta af Hofi á Höfðaströnd 1898-1901, á Spáná í Unadal 1901-1902, á Geirmundarhóli í Hrollleifsdal 1902-1910 og á Kappastöðum í Sléttuhlíð 1910-1915. Eftir það áttu þau heimili hjá Vilhelmínu dóttur sinni á Hamri í Hegranesi. Helgi og Margrét eignuðust átta börn.

Margrét Sigurðardóttir (1871-1932)

  • S02913
  • Person
  • 23. okt. 1871 - 26. jan. 1932

Margrét Anna Sigurðardóttir fæddist árið 1871. Foreldrar: Sigurður Stefánsson og Guðbjörg Pétursdóttir bændur í Garðshorni á Höfðaströnd. Kvæntist Helga Péturssyni frá Fjalli í Sléttuhlíð, þau eignuðust átta börn. Þau bjuggu á Garðshorni 1897-1898, á hluta af Hofi á Höfðaströnd 1898-1901, á Spáná í Unadal 1901-1902, Geirmundarhóli í Hrollleifsdal 1902-1910 og á Kappastöðum í Sléttuhlíð 1910-1915. Eftir það voru þau meira og minna búsett hjá Vilhelmínu dóttur sinni á Hamri í Hegranesi.

Sigmar Hróbjartsson (1919-2014)

  • S02912
  • Person
  • 24. maí 1919 - 5. nóv. 2014

Sigmar Hróbjartsson var sonur hjónanna Hróbjartar Jónassonar og Vilhelmínu Helgadóttur á Hamri í Hegranesi. Sigmar ólst upp með foreldrum sínum, lengst af á Hamri í Hegranesi. Leiðin lá síðan í Héraðsskólann í Reykholti. Hann útskrifaðist frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1944, lærði síðan múraraiðn, tók sveinspróf á Sauðárkróki 1959 og meistarapróf í Reykjavík 1973. Hann bjó á Efri-Harrastöðum á Skagaströnd 1947-1955, fluttist þá til Skagastrandar og vann við múrverk, sjómennsku og fleira. Var kaupfélagsstjóri á Skagaströnd 1965-1968, fluttist þá til Reykjavíkur og starfaði þar við múrverk til 1981. Var vaktmaður hjá SÍS 1981-1989. Eftir það var hann við blaðburð og starfaði einnig mikið með Silfurlínunni sem aðstoðaði eldra fólk. Sigmar kvæntist Jóhönnu Guðbjörgu Gunnlaugsdóttur. Þau skildu. Þau eignuðust tvö börn. Sigmar kvæntist aftur árið 1978, Ingibjörgu Guðmundsdóttur, hún átti sex börn fyrir.

Þorsteinn Ólafsson (1948-

  • S02911
  • Person
  • 29. júní 1948

Foreldrar: Sigurlaug Jakobína Jónasdóttir (1914-2007) og Ólafur Þorsteinn Jónsson (1899-1948).
Bóndi á Kárastöðum í Hegranesi, ásamt systur sinni Lilju og bróður sínum Jóni. Jón lést af slysförum í Hjaltadalsá.

Sveinn Árnason (1945-

  • S02910
  • Person
  • 29.08.1945-

Fæddur á Brúnastöðum í Fljótum. Foreldrar: Sigríður Jóhannesdóttir húsfreyja og Árni Anton Sæmundsson bóndi á Brúnastöðum og síðar bifreiðastjóri á Sauðárkróki.
Sveinn er ókvæntur og barnlaus. Verkamaður á Sauðárkróki.

Stefán Leó Holm (1930-2018)

  • S02909
  • Person
  • 22. nóv. 1930 - 22. júlí 2018

Foreldrar: Fanney Margrét Árnadóttir Holm (1899-1969) og Bogi Thomsen Holm (1873-1948).
Maki 1: Björg Þóra Pálsdóttir, f. 1937. Þau eignuðust 7 börn.
Maki 2: Guðrún Sigurbjörg Stefánsdóttir (1938-2006). Þau eignuðust 1 barn. Þau giftu sig árið 1980 og bjuggu fyrstu árin á Sauðárkróki, svo á Stokkseyri og í Reykjavík en fluttu árið 1985 á Blönduós.

Sigurður Sigurðsson (1950-

  • S02908
  • Person
  • 24.04.1950-

Foreldrar: Sigurður Anton Einarsson bóndi á Fitjum á Neðribyggð (1906-1968) og kona hans Helga Steindórsdóttir (1918-1994). Fyrrum bóndi og bifreiðastjóri í Héraðsdal I í Dalsplássi.
Maki: Auður Sveinsdóttir, f. 1954. Þau eiga þrjú börn.

Sigurður Jón Halldórsson (1947-1997)

  • S02907
  • Person
  • 27. sept. 1947 - 4. nóv. 1997

Foreldrar: Halldór Ingimar Gíslason (1909-1998) og Guðrún Sigurðardóttir (1914-1986) á Halldórsstöðum á Langholti. Sigurður bjó með foreldrum sínum á Halldórsstöðum og stundaði bústörf frá unga aldri. Hann bjó sjálfstæðu búi síðustu árin þar til þeir feðgar fluttu á Sauðárkrók árið 1988. Jafnframt var hann starfsmaður Vegagerðarinnar í áratugi. Hann söng með Karlakórnum Heimi, Rökkurkórnum, Kirkjukór Glaumbæjarsóknar og Kirkjukór Sauðárkróks Maki: Kristín Friðfinna Jóhannsdóttir frá Tyrfingsstöðum á Kjálka. Þau eignuðust ekki börn saman en Kristín átti tvö börn fyrir.

Results 766 to 850 of 6399