Showing 659 results

Authority record
Ísland

Brynja Björg Bragadóttir (1956-2013)

  • S01763
  • Person
  • 24. des. 1956 - 10. júlí 2013

Brynja Björg Bragadóttir fæddist á Sauðárkróki 24. desember 1956. Foreldrar hennar eru Sigurlaug Sveinsdóttir og Bragi Þ. Sigurðsson, Sauðárkróki. Brynja giftist 1976 Ómari Imsland rafmagnsverkfræðingi. Þau skildu 2005. Þau eignuðust fjóra syni. ,,Brynja ólst upp á Sauðárkróki og gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla, lauk síðan námi frá Eiðaskóla og tók síðar sjúkraliðapróf og vann um skeið sem sjúkraliði á Landakotsspítala. Hún bjó tæpan áratug í Danmörku á meðan Ómar stundaði þar nám og vinnu. Eftir að synir hennar uxu úr grasi varð hún skólaliði í Mýrarhúsaskóla fram á þetta ár. Hún bjó lengst af á Seltjarnarnesi."

Eyþór Kristján Einarsson (1959-

  • S01764
  • Person
  • 31. des. 1959

Sonur Guðrúnar Eyþórsdóttur, dóttur Eyþórs Stefánssonar tónskálds. Frá Ísafirði, bjó á Sauðárkróki í lok 20. aldar, flutti til Reykjavíkur.

Sveinn Styrmir Bragason (1956-

  • S01765
  • Person
  • 5. jan. 1956-

Sonur Braga Sigurðarsonar vélsmiðs á Sauðárkróki og k.h. Sigurlaugar Sveinsdóttur.

Ingólfur Guðmundsson (1953-

  • S01766
  • Person
  • 14. maí 1953-

Sonur Guðmundar Helgasonar frá Tungu í Gönguskörðum og k.h. Ernu Guðbjargar Ingólfsdóttur frá Sauðárkróki.

Jón Ormur Halldórsson (1954-

  • S01768
  • Person
  • 5. mars 1954-

Sonur Halldórs Þormars Jónssonar sýslumanns á Sauðárkróki og k.h. Aðalheiðar Ormsdóttur. Doktor í stjórnmálafræði.

Páll Pálsson (1876-1935)

  • S01783
  • Person
  • 27. mars 1876 - 22. apríl 1935

Foreldrar: Páll Pálsson b. að Syðri-Brekkum og síðast á Frostastöðum og k.h. Dýrleif Gísladóttir. Páll nam skósmíðar, óvíst hvar. Hóf búskap í Garði í Hegranesi á móti tengdaföður sínum árið 1897 og bjó þar til 1908, en flutti þá til Sauðárkróks og svo að Sjávarborg. Fór aftur að Garði 1910 og bjó þar á hluta af jörðinni en stundaði einnig aukapóstferðir á milli Sauðárkróks og Hóla í Hjaltadal. Bjó í Garði til 1920 er hann fór með syni sínum að Framnesi og Blönduhlíð, þar sem hann dvaldi til 1924. Var á Brimnesi 1924-1926 en fór þá aftur að Garði þar sem sonur hans tók við búi. Síðast búsettur á Sauðárkróki. Kvæntist Steinunni Hallsdóttur frá Garði, þau eignuðust einn son.

Jón Oddsson (1876-1966)

  • S01784
  • Person
  • 18. júlí 1876 - 18. des. 1966

Foreldrar: Oddur Jónsson frá Bakka í Landeyjum og k.h. Steinunn Sigurðardóttir frá Pétursey í Mýrdal. Jón ólst upp með foreldrum sínum að Landamóti í Sandgerði. Árið 1895 réðst hann kaupamaður að Hofi í Vesturdal. Þar kynntist hann konuefni sínu Jórunni Guðmundsdóttur. Þau fluttu til Sauðárkróks árið 1902 þar sem Jón hóf smíðanám hjá Ólafi Briem. Árið 1908 réðst hann fastur starfsmaður til Pálma Péturssonar kaupfélagsstjóra og vann að verslunarstörfum hjá honum í 13 ár. Árið 1922 fluttu þau til Hafnarfjarðar og vann þar að smíðum í þrjú ár en sneru þá aftur til Sauðárkróks þar sem þau bjuggu til 1940, á þessum tíma vann Jón aðallega að smíðum. Árið 1940 fluttu þau fyrst að Álfgeirsvöllum og þaðan að Vík í Staðarhreppi. Síðast búsett í Varmahlíð. Þegar Jón bjó á Sauðárkróki starfaði hann nokkuð með Leikfélagi Sauðárkróks. Jón og Jórunn eignuðust ekki börn en ólu upp tvær fósturdætur.

Agnar Baldvinsson (1885-1947)

  • S01785
  • Person
  • 4. sept. 1885 - 2. des. 1947

Foreldrar: Baldvin Bárðdal kennari og k.h. Guðrún Jónatansdóttir. Agnar var fæddur á Svalbarðsströnd. Foreldrar hans slitu samvistum er hann var barn að aldri, fluttist hann þá með móður sinni til Skagafjarðar og ólst þar upp. Dvöldust þau á ýmsum stöðum austan og vestan Vatna. Hann stundaði nám í Hólaskóla einn vetur. Agnar var bóndi á hálfum Vöglum 1910-1912, Litladal 1912-1925, er hann brá búi og fór að Flugmýri, þaðan að Miklabæ og loks í Víkurkot, á öllum stöðum í húsmennsku. Fluttist frá Víkurkoti til Sauðárkróks. Á Sauðárkróki stundaði hann ýmis störf, átti þar nokkrar kindur og var fjallskilastjóri þar í nokkur ár. Einnig kenndi hann krökkum, heima hjá sér, allmarga vetur og var vinsæll við þau störf sem önnur. Kvæntist Árnýju Jónsdóttur frá Borgarlæk, þau eignuðust fjögur börn.

Pétur Jónsson (1867-óvíst)

  • S01800
  • Person
  • 16. okt. 1867-óvíst

Í Sögu Sauðárkróks er Pétur Jónsson titlaður verslunarmaður. Kennari á Ísafirði samkvæmt Íslendingabók. Í manntalinu 1893 er Péturs Vilhelms Jónssonar getið í húsnæði með Classen fjölskyldunni og stétt er assistant. Samkvæmt kirkjubókum þá fer Pétur Jónsson árið 1898 til Borðeyrar sem kemur heim og saman við þær upplýsingar sem koma fram á Íslendingabók.

Jón Árnason Egilsson (1865-1931)

  • S01801
  • Person
  • 7. sept. 1865 - 16. júlí 1931

Var verslunarmaður á Sauðárkróki, Blönduósi og loks í Reykjavík.

Ingibjörg Alda Bjarnadóttir (1929-2009)

  • S01807
  • Person
  • 2. maí 1929 - 1. ágúst 2009

Ingibjörg Alda Bjarnadóttir fæddist á Sauðárkróki 2. maí 1929. Hún var dóttir hjónanna Helgu Pétursdóttur saumakonu og Bjarna Antons Sigurðssonar sjómanns. ,,Eftir að Alda missti föður sinn ung að árum, fluttist móðir hennar frá Sauðárkróki til Akureyrar. Alda þurfti að hætta skólagöngu í Menntaskólanum á Akureyri sökum þess að hún fékk berkla. Árið 1954 fór hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og kláraði próf þaðan árið 1955. Árið 1952 giftist Alda Stefáni Skaftasyni lækni frá Siglufirði, þau skildu, þau eignuðust eina dóttur. Alda og Stefán bjuggu bæði í Þýskalandi og Svíþjóð en eftir að þau skildu fluttist hún aftur til Akureyrar. Á Akureyri kynntist hún síðari manni sínum, Magnúsi, þar sem hann starfaði sem bæjarstjóri, þau eignuðust tvær dætur. Bjuggu þau hjónin á Akureyri til ársins 1967 en fluttu þá suður. Alda og Magnús fluttu í Kópavoginn og bjuggu þar allt fram á dánardag Magnúsar. Síðast búsett í Keflavík.

Ólína Ingibjörg Björnsdóttir (1903-1980)

  • S01813
  • Person
  • 23. maí 1903 - 13. okt. 1980

Foreldrar: Björn Ólafsson b. á Skefilsstöðum og k.h. Guðrún Ingibjörg Björnsdóttir. Ólína ólst upp á heimili foreldra sinna á Skefilsstöðum og dvaldist þar að mestu til 19 ára aldurs, er hún réðst til starfa á heimili Snæbjörns bakara og móður hans á Sauðárkróki og tók þar við búsforráðum er þau Snæbjörn giftust árið 1924. Ólína og Snæbjörn eignuðust sex börn. Snæbjörn lést árið 1932. Seinni maður Ólínu var Guðjón Sigurðsson bakarameistari, þau eignuðust þrjú börn. Ólína starfaði í bakaríinu og starfrækti einnig veitingasölu í eigin nafni í tugi ára. Eins tók hún virkan þátt í starfi Kvenfélags Sauðárkróks og Sambandi skagfirskra kvenfélaga.

Guðrún Ingibjörg Björnsdóttir (1869-1946)

  • S01814
  • Person
  • 26. júní 1869 - 10. ágúst 1946

Foreldrar: Björn Guðmundsson b. á Ytra-Mallandi og k.h. Sigríður Pétursdóttir. Guðrún kvæntist Birni Ólafssyni b. á Skefilsstöðum, þau bjuggu lengst af á Skefilsstöðum, síðast á Sauðárkróki, þau eignuðust fjögur börn.

Sigríður Björnsdóttir (1895-1975)

  • S01817
  • Person
  • 24. feb. 1895 - 26. okt. 1975

Dóttir Björns Ólafssonar á Skefilsstöðum og k.h. Guðrúnar Björnsdóttur. Kvæntist Hannesi Guðvini Benediktssyni árið 1918, þau bjuggu í Hvammkoti á Skaga 1921-1937 og í Hvammi í Laxárdal 1937-1943 þar til þau fluttu til Sauðárkróks árið 1943. Þau skildu. Þau eignuðust sjö börn. Sigríður starfaði mikið í Kvenfélagi Skefilsstaðahrepps og einnig í kvenfélaginu á Sauðárkróki eftir að hún fluttist þangað.

Björn Björnsson (1897-1979)

  • S01818
  • Person
  • 21. mars 1897 - 15. júní 1979

Sonur Björns Ólafssonar b. á Skefilsstöðum og k.h. Guðrúnar Ingibjargar Björnsdóttur. Björn ólst upp á Skefilsstöðum hjá foreldrum sínum. Björn tók við hálflendu jarðarinnar árið 1919 en keypti hana 1921. Aðeins ári síðar seldi hann jörðina og flutti til Sauðárkróks þar sem hann átti heima næstu fjögur árin. Stundaði þar tilfallandi störf á vetrum en var í síld á Siglufirði á sumrin. Árið 1926 flutti hann til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður hjá útgerðarfélaginu Kveldúlfi hf, þar sem hann starfaði í mörg ár. Síðar réðst hann sem baðvörður hjá Sundhöll Reykjavíkur þar sem hann starfaði um hartnær 30 ára skeið. Síðast starfaði hann hjá versluninni Ratsjá á Laugarvegi. Björn var ókvæntur og barnlaus.

Lilja Jónsdóttir (1924-2007)

  • S01819
  • Person
  • 3. apríl 1924 - 1. júlí 2007

Lilja Jónsdóttir fæddist á Syðri Húsabakka 3. apríl 1924. Foreldrar hennar voru Emilía Kristín Sigurðardóttir, f. á Marbæli á Langholti og Jón Kristinn Jónsson, f. í Vallanesi í Vallhólmi. ,,Lilja ólst upp í foreldrahúsum á Syðri Húsabakka við almenn sveitastörf. Hross voru hennar líf og yndi og átti hún góða hesta. Lilja fór í Kvennaskólann á Löngumýri veturinn 1945-1946, og kom þá vel í ljós hve listfeng hún var. Hannyrðir og fatasaumur léku í höndunum á henni og fékk Húsabakkaheimilið að njóta góðs af því. Lilja stefndi að því að verða handavinnukennari, en sökum vanheilsu móður sinnar varð hún kyrr heima og annaðist foreldra sína þar til yfir lauk. Árið 1982 flutti hún ásamt Sigurði bróður sínum til Sauðárkróks og voru búsett þar síðan. Störfuðu bæði lengst af í sútunarverksmiðjunni Loðskinn. Lilja var ókvænt og barnlaus.

Sigurður Árni Jónsson (1921-2012)

  • S01820
  • Person
  • 21. ágúst 1921 - 17. jan. 2012

Sigurður Árni Jónsson fæddist á Syðri-Húsabakka í Skagafirði 21. ágúst 1921. Foreldrar hans voru Emilía Kristín Sigurðardóttir, f. á Marbæli á Langholti og Jón Kristinn Jónsson, f. í Vallanesi í Vallhólmi. Sigurður ólst upp í foreldrahúsum og vann að búinu á Húsabakka með föður sínum en tók svo alfarið við búskap. Á unglingsárum lærði Sigurður að spila á orgel hjá Páli Erlendssyni á Þrastarstöðum. Sigurður var áhugamaður um veiðiskap. Netaveiði í Héraðsvötnum var mikil í þá daga sem og skotveiði í grennd við Vötnin. Færði það heimilinu mikla björg í bú. Barnsmóðir Sigurðar, Guðný, kom að Húsabakka í vinnumennsku. Þau Guðný og Sigurður giftust ekki og voru ekki í sambúð. Þau deildu þó heimili og ólu dóttur sína upp saman. Með þeim bjó einnig Lilja, systir Sigurðar, alla tíð. Upp úr 1980 fóru þau systkinin að sækja vinnu til Sauðárkróks, í Sláturhús Kaupfélags Skagfirðinga. Árið 1982 fluttu Sigurður og Lilja, alfarið til Sauðárkróks og störfuðu þar í Sútunarverksmiðjunni Loðskinn. "

Ingunn Björnsdóttir (1922-2004)

  • S01823
  • Person
  • 18. júlí 1922 - 29. nóv. 2004

Ingunn Björnsdóttir fæddist á Stóru-Ökrum 18. júlí 1922. Foreldrar hennar voru Sigríður Gunnarsdóttir húsfreyja á Stóru-Ökrum og Björn Sigurðsson bóndi og símstöðvarstjóri þar. ,,Maður Ingunnar var Geir Axelsson, þau bjuggu fyrstu árin í Bakkaseli en Björn faðir Ingunnar rak þar greiðasölu. Fluttu þau síðan að Hrólfsstöðum þar sem þau bjuggu í 8 ár, eða þar til þau eignuðust jarðirnar Litladal og Brekkukot en þar bjuggu þau þar til þau fluttu á Sauðárkrók árið 1982.." Ingunn og Geir eignuðust sjö börn.

Marinó Ásvaldur Sigurðsson (1920-2010)

  • S01828
  • Person
  • 3. feb. 1920 - 25. feb. 2010

Marinó Ásvaldur Sigurðsson fæddist á Ísafirði 3. febrúar 1920. Foreldrar hans voru Þórdís Sigríður Jensdóttir og Sigurður Jónasson. ,,Marínó fluttist á fyrsta aldursári frá Ísafirði í Álfgeirsvelli til föður síns og afa síns og ömmu, Jónasar og Maríu, þar sem hann ólst upp. Marinó missti föður sinn af slysförum árið 1933 og lögðust þá ýmsar skyldur varðandi búreksturinn á herðar hans þó ungur væri. Veturinn 1936-37 stundaði Marinó nám við Héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði í yngri deild. Sjálfstæðan búskap hóf hann svo á Álfgeirsvöllum árið 1938 í félagsskap við afa sinn og ömmu. Veturinn 1940-41 lauk hann síðan seinna skólaárinu í Reykholti og minntist hann oft á dvölina þar. Árið 1944 kom ung kona inn í líf Marinós, það var Guðlaug Egilsdóttir frá Bakka í Vallhólmi og hófu þau búskap á Álfgeirsvöllum. Þau giftu sig 2. apríl 1946 og bjuggu á Álfgeirsvöllum til 2006 er þau fluttu til Sauðárkróks. Á fyrstu búskaparárum þeirra vann Marinó töluvert utan búsins. Hann hóf vinnu hjá Ræktunarsambandi Skagafjarðar 1946 og vann á jarðýtum og gröfum í mörg ár. Einnig vann hann við löndun úr togurum á Sauðárkróki þegar gafst og lentu bústörfin því mikið á Laugu. Marinó var greindur maður og víðlesinn og átti mikið safn góðra bóka. Hann þekkti vel til staðhátta víða um land og hafði gaman af að ferðast og kynnast landi og þjóð. Ræktun lands var honum mikið hjartans mál alla tíð. Á Marinó hlóðust mörg trúnaðarstörf og var hann hreppstjóri og oddviti Lýtingsstaðahrepps um árabil, einnig sat hann í sýslunefnd Skagafjarðar og í stjórn margra félaga, svo sem Kaupfélags Skagfirðinga og Fiskiðjunnar."
Marinó og Guðlaug eignuðust sex börn.

Sigfús Steindórsson (1921-2005)

  • S01830
  • Person
  • 7. júní 1921 - 18. nóv. 2005

Sigfús Steindórsson fæddist í Hamarsgerði í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði hinn 7. júní árið 1921. ,,Foreldrar hans voru Margrét Helga Magnúsdóttir frá Gilhaga og Steindór Kristján Sigfússon frá Mælifelli. Sigfús missti föður sinn rúmlega tveggja mánaða og ólst því upp hjá móður sinni og seinni manni hennar, Sigurjóni Helgasyni. Fyrstu árin bjuggu þau í Hamarsgerði en síðan í Árnesi. Árið 1938 fluttu þau í Nautabú, þar sem þau bjuggu síðan. Sigfús lauk farskólaprófi í Lýtingsstaðahreppi árið 1935, prófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni árið 1940, minnimótors vélstjóraprófi árið 1945 og meiraprófi bifreiðastjóra árið 1948. Hann stundaði sjómennsku, m.a. vélstjórn skipa, áætlunarakstur milli landshluta með ýmsan varning, vörubílstjórn á Keflavíkurflugvelli o.fl. Árið 1953 gerðist hann bóndi, fyrst rúm tvö ár á Breið og síðan óslitið í Steintúni til ársins 1980, eða 24 ár. Eftir að Sigfús hætti búskap árið 1980, fluttu þau hjón á Sauðárkrók, og vann hann hjá Kaupfélagi Skagfirðinga í nokkur ár. Síðustu ár starfsævinnar vann hann hjá Loðskinni h.f. Sigfús var góður hagyrðingur og eftir hann liggja margar vísur. Hann gaf út eitt ljóðakver, sem hann kallaði Fýkur í hendingum hjá Fúsa." Sigfús kvæntist Jórunni Margréti Guðmundsdóttur frá Breið, þau eignuðust fjögur börn.

Ingólfur Agnarsson (1915-1990)

  • S01833
  • Person
  • 6. jan. 1915 - 13. apríl 1990

Sonur Agnars Baldvinssonar b. í Litladal og k.h. Árnýjar Jónsdóttur. Var á Sauðárkróki 1930. Síðast bús. á Sauðárkróki. Rak fornbókasölu. Ókvæntur og barnlaus.

Margeir Sveinn Valberg Hallgrímsson (1922-1995)

  • S01834
  • Person
  • 25. des. 1922 - 15. sept. 1995

Foreldrar hans voru Hallgrímur A. Valberg frá Reykjavöllum, bóndi á Mælifellsá og Kálfárdal, bjó síðast á Sauðárkróki, og Indíana Sveinsdóttir frá Mælifellsá. Kaupmaður á Sauðárkróki, síðar búsettur í Reykjavík.

Björg Jórunn Friðriksdóttir Hansen (1928-2017)

  • S01837
  • Person
  • 25. júní 1928 - 6. apríl 2017

Dóttir Friðriks Hansen og Jósefínu Erlendsdóttur. Kennari og bókasafnsfræðingur í Reykjavík. Gegndi margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum.

Hreinn Þorvaldsson (1937-2006)

  • S01845
  • Person
  • 5. júní 1937 - 17. feb. 2006

Hreinn Þorvaldsson fæddist á Sauðárkróki 5. júní 1937. Foreldrar hans voru Þorvaldur Þorvaldsson verslunarmaður og Hulda Jónsdóttir. Bifreiðastjóri á Sauðárkróki. Kvæntist Guðrúnu Þ. Vagnsdóttur, þau eignuðust fimm börn.

Magnús Sigurbjörn Ásgrímsson (1888-1963)

  • S01849
  • Person
  • 10. sept. 1888 - 14. júlí 1963

Foreldrar: Ásgrímur Björnsson b. í Hólakoti í Austur-Fljótum og k.h. María Stefanía Eiríksdóttir. Magnús fór í hákarlalegur strax og aldur leyfði og var samskipa föður sínum á Fljótavíkingi 1904 þegar Ásgrímur féll fyrir borð og drukknaði. Hann var í vinnumennsku í Stóra-Holti í Fljótum um hríð, réðst þaðan til Héðinsfjarðar og var síðan um skeið á Siglufirði. Fluttist árið 1912 í Skagafjörð og kvæntist Elísabetu Evertsdóttur árið 1914. Bóndi í Miklagarði á Langholti 1917-1918, á Rein í Hegranesi 1920-1921 og 1923-1931, í Vatnskoti í Hegranesi 1931-1935. Eftir það á Sauðárkróki til 1952 er þau hjónin fluttust að Kúskerpi í Blönduhlíð til dóttur sinnar og bjuggu þar síðan. Á Sauðárkróki vann Magnús við fiskvinnslu og aðra daglaunavinnu sem til féll. Magnús og Elísabet eignuðust tvö börn.

Elísabet Evertsdóttir (1878-1957)

  • S01850
  • Person
  • 13. nóv. 1878 - 8. nóv. 1957

Foreldrar: Evert Evertsson á Nöf við Hofsós og s.k.h. Guðbjörg Árnadóttir. Elísabet ólst upp með foreldrum sínum til níu ára aldurs, fyrst á Nöf, síðan á Stafshóli í Deildardal og að Minna-Hofi. Eftir það fór hún í fóstur til vandalausra, fyrst í Garðshorn á Höfðaströnd en síðan að Tumabrekku í Óslandshlíð þar sem hún var til tvítugs hjá Goðmundu Sigmundsdóttur og Þorgrími Kristjánssyni. Í fjögur ár var hún vinnukona á Marbæli á Langholti og sex ár á Reynistað þar sem hún kvæntist Magnúsi Ásgrímssyni frá Hólakoti í Austur-Fljótum. Þau bjuggu í Miklagarði á Langholti 1917-1918, á Rein í Hegranesi 1920-1921 og 1923-1931, í Vatnskoti í Hegranesi 1931-1935. Þaðan fóru þau til Sauðárkróks þar sem þau áttu heimili til 1952 en fluttu þá að Kúskerpi í Blönduhlíð til dóttur sinnar og áttu þar heimili síðan. Elísabet og Magnús eignuðust tvö börn.

Sigurfinnur Jónsson (1930-)

  • S01852
  • Person
  • 11. mars 1930

Foreldrar: Jón Jónsson b. á Steini á Reykjaströnd og k.h. Sigfríður Jóhannsdóttir. Finni er fæddur á Daðastöðum á Reykjaströnd þar sem foreldrar hans bjuggu til 1946 er þau fluttu að Steini á Reykjaströnd. Línumaður og síðar verkstjóri hjá Rarik, búsettur á Sauðárkróki. Kvæntist Maríu Jóhannsdóttur frá Daðastöðum.

Jón Sigurður Eiríksson (1929-

  • S01859
  • Person
  • 08.01.1929-

Jón er fæddur á Grófargili á Langholti í Skagafirði 8. janúar 1929. Foreldrar hans voru Eiríkur Sigmundsson og kona hans, Birna Jónsdóttir. Þau bjuggu fyrst á Grófargili og síðar á Reykjaströnd, fyrst á Reykjum og síðan í Hólakoti og á Fagranesi. Jón var bóndi á Fagranesi frá 1949 og stundaði jafnframt fuglveiðar við Drangey og var sigmaður þar í rúm 40 ár. Þá hefur hann einnig lengi siglt með ferðamenn til Drangeyjar frá Reykjum. Búsettur á Sauðárkróki.
Maki 1: Sigríður Viggósdóttir, þau eignuðust fimm börn. Jón og Sigríður slitu samvistir.
Maki 2: Hólmfríður Heiðbjört Agnarsdóttir, f. 6. september 1944, d. 13. október 1997, þau eignuðust fimm börn.

Kristján Hansen (1921-2009)

  • S01862
  • Person
  • 26. júní 1921 - 6. júlí 2009

Kristján Hansen var fæddur á Sauðárkróki 26. júní 1921. Foreldrar Kristjáns voru Friðrik Hansen, skáld og kennari á Sauðárkróki og f.k.h. Jósefína Erlendsdóttir. ,,Kristján ólst upp á Sauðárkróki og gekk í barnaskólann þar en fór síðan í Héraðsskólann á Laugarvatni 1938-1939. Fór í vélstjóraskóla Íslands og tók minna mótorvélstjórapróf á Akureyri 1941. Sat í hitaveitunefnd frá 1966 og var varamaður í bæjarstjórn Sauðárkróks 1966-1970. Hóf akstur vöruflutningabifreiða á milli Sauðárkróks og Reykjavíkur í félagi við bróður sinn Jóhannes Hansen, voru með þann rekstur í áratugi eða þar til þeir hættu starfsemi árið 1986. Var einn af stofnendum Vöruflutningamiðstöðvarinnar h/f og sat þar í stjórn. Var einn af stofnendum Útgerðarfélags Skagfirðinga 1968 og sat í stjórn þess. Síðustu starfsárin vann Kristján sem vaktmaður í togurum Útgerðarfélags Skagfirðinga." Kristján kvæntist Maríu Björnsdóttur 29.6. 1946 frá Refsstöðum í Laxárdal A-Hún, þau áttu einn kjörson og ólu auk þess upp systurson Maríu. Þá átti Kristján tvö börn með Rögnu Láru Ragnarsdóttur.

Verkakvennafélagið Aldan (1930-2001)

  • S01866
  • Organization
  • 1930-

Verkakvennafélagið Aldan var stofnað þann 9. janúar 1930 á Sauðárkróki. Stofnendur voru 21 talsins. Ástríður Stefánsdóttir ljósmóðir átti frumkvæði að stofnun félagsins. Í félagslögum segir m.a.: „Tilgangur félagsins er sá að styðja og efla hag félagskvenna og menningu á þann hátt, sem kostur er, meðal annars með því að ákveða vinnutíma og kaupgjald og stuðla að því, að verkalýðurinn taki sjálfstæðan þátt í stjórnmálum lands og bæjarfélags.“
Fyrstu stjórn skipuðu: Ástríður Stefánsdóttir, formaður, Sigríður A.N. Eiriksen, ritari og Pálína Bergsdóttir.
Varastjórn skipuðu: Sigurrós J. Sigurðardóttir, Helga Jóhannsdóttir og Ingunn Magnúsdóttir.
Tvo meðráðamenn kaus félagið sér til halds og trausts úr Verkamannafélaginu Fram: Friðrik Hansen og Pétur Sigurðsson.
Verkakonur á Sauðárkróki töldu rétt að bindast samtökum um kaup og kjör, en fiskvinna, einkum síldarvinna, var nokkur og fór vaxandi.
Hver sú kona sem var orðin 16 ára að aldri og var fær til algengrar vinnu gat fengið inntöku í félagið. Varð hún að senda formanni skriflega inntökubeiðni en formaður bar umsóknina undir atkvæði á félagsfundi.
Aðalstörf félagsins snérust um að bæta kjör vinnandi kvenna, sérstaklega á meðan mikið atvinnuleysi var í landinu. Árið 1931 voru t.d. konurnar neyddar til að lækka þágildandi taxta félagsins til að hægt væri meðal annars að láta verka saltfisk á Sauðárkróki. En konurnar settu fram nokkur skilyrði gegn lækkun taxtans og meðal þeirra skilyrða var að félagar Öldunnar sætu fyrir vinnu, að konur við fiskþvott hefðu skýli og að þeim yrði lögð til áhöld.
Þeim konum sem mest beittu sér fyrir síldarsöltun á Sauðárkróki sumarið 1934 var neitað um vinnu á staðnum.
Aldan stéttarfélag, varð síðar til við sameiningu Verkalýðsfélagsins Fram og Verkakvennafélagsins Öldunnar. Sameinað félag tók til starfa í ársbyrjun 2001. Stofnfélagar voru um 820 manns, félagið á sér merkilega fortíð í sögu þessara félaga og forvera þeirra.

Lovísa Dagbjört Gísladóttir (1911-1996)

  • S01868
  • Person
  • 14. des. 1911 - 22. apríl 1996

Foreldrar: Gísli Þórarinsson b. í Jaðri á Langholti o.v. og k.h. Ingiríður Hannesdóttir. Síðar umsjónarkona þvottahúss Sjúkrahússins á Sauðárkróki. Kvæntist ekki.

Gísli Felixson (1930-2015)

  • S01873
  • Person
  • 12.06.1930-30.09.2015

Gísli Felixson fæddist á Halldórsstöðum í Skagafirði 12. júní 1930. Foreldrar hans voru Felix Jósafatsson og Efemía Gísladóttir. ,,Gísli ólst upp í Húsey í Vallhólmi, Skagafirði. Hann stundaði nám við Héraðsskólann á Laugarvatni og síðan við Kennaraskólann í Reykjavík og útskrifaðist með kennarapróf 1952. Gísli kvæntist Erlu Einarsdóttur frá Vík í Mýrdal. Erla og Gísli bjuggu tvö fyrstu hjúskaparárin á Dalvík og fluttu þaðan til Sauðárkróks árið 1954 þar sem þau áttu heima til æviloka. Gísli kenndi fyrstu árin á Króknum við Barnaskólann á Sauðárkróki auk þess sem hann vann sumarvinnu sem flokksstjóri í vegavinnu frá 1956 til 1959. Árið 1960 fór hann í fullt starf hjá Vegagerðinni fyrst sem yfirverkstjóri og síðan rekstrarstjóri frá 1963 þar til hann hætti störfum vegna aldurs 1998." Erla og Gísli eignuðust þrjú börn.

Bogi Ingimarson (1948-

  • S01874
  • Person
  • 23.07.1948-

Sonur Engilráðar Sigurðardóttur og Ingimars Þorleifs Bogasonar. Fæddur og uppalinn á Sauðárkróki. Lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1969, stúdentsprófi frá sama skóla 1970. Lærði líffræði við HÍ og lauk BS gráðu 1973 og BSc gráðu 1974. Starfaði á þessum árum m.a. á Hafrannsóknarstofnun og við líffræðikennslu í Lindargötuskóla og síðar við Fjölbrautarskólann við Ármúla sem deildarstjóri, kennslustjóri og um fimm ára skeið sem aðstoðarskólameistari. Kvæntist Birnu Sumarrós Helgadóttur (1950-2017) sjúkraliða.

Magnús Rögnvaldsson (1952-

  • S01876
  • Person
  • 19.08.1952-

Sonur Dóru Ingibjargar Magnúsdóttur og Rögnvaldar Ólafssonar hárskera á Sauðárkróki. Kvæntist Sigríði Valgarðsdóttur, f. 3. mars 1954, þau eiga þrjú börn.

Gísli Ólafsson (1946-

  • S01878
  • Person
  • 24.07.1946-

Fæddur á Akureyri en alinn upp á Sauðárkróki frá tveggja ára aldri. Sonur Guðrúnar Ingibjargar Svanbergsdóttur og Ólafs Gíslasonar bifreiðastjóra. Kvæntist Ingibjörgu Jónasdóttur, þau eiga þrjú börn.

Þórdís Helga Jóhannsdóttir (1895-1926)

  • S01882
  • Person
  • 13. júní 1895 - 13. júní 1926

Þórdís var frá Lágubúð á Bækarklettum, síðar búsett á Sauðárkróki og var m.a. í fimleikahóp Jóns Þ. Björnssonar. Flutti í Steingrímsfjörð og svo á Hólmavík. Kvæntist Steingrími Magnússyni, símstjóra á Hólmavík.

Sigríður Guðvarðsdóttir (1921-1997)

  • S01891
  • Person
  • 1. júlí 1921 - 26. mars 1997

Sigríður Guðvarðsdóttir fæddist í Reykjavík 1. júlí 1921. Hún var dóttir hjónanna Guðvarðs Jakobssonar bifreiðastjóra í Reykjavík og Oddrúnar Sigþrúðar Guðmundsdóttur. ,,Árið 1946 lauk Sigríður prófi í hjúkrun frá Hjúkrunarskóla Íslands. Í kjölfarið stundaði hún hjúkrun á Landspítalanum og um tíma í Stokkhólmi, en vann lengst af við sjúkrahús Skagfirðinga á Sauðárkróki eftir að hún fluttist þangað 1956, ýmist sem hjúkrunarforstjóri eða deildarhjúkrunarfræðingur og einnig við heilsuvernd. Félagsmál voru Sigríði hugleikin. Hún sat um árabil í barnaverndarnefnd og í stjórn sjúkrasamlagsins, starfaði í ýmsum félögum öðrum, einnig var hún fyrsti varaþingmaður Norðurlands vestra af D-lista 1974 og sat á þingi um tíma. Hinn 1. júní 1950 giftist Sigríður Friðriki J. Friðrikssyni fyrrum héraðslækni á Sauðárkróki, þau áttu eina fósturdóttur.

Anton Ingimarsson (1958-2011)

  • S01896
  • Person
  • 11.08.1959-31.08.2011

Anton Ingimarsson fæddist á Sauðárkróki 11. ágúst 1959. Foreldrar hans eru Ingimar Antonsson og Gíslína Kristín Helgadóttir. ,,Anton ólst upp hjá foreldrum sínum og systkinum á Sauðárkróki. Hann nam vélvirkjun og starfaði í því fagi framan af. Lengst af starfsævinni vann hann hjá ÁTVR, fyrst á Sauðárkróki, þá í Reykjavík sem verslunarstjóri í Austurstræti og Kringlunni og loks sem verslunarstjóri á Akureyri og svæðisstjóri vínbúða á Norðurlandi."
Sambýliskona 1: Ólöf Ása Þorbergsdóttir, þau eignuðust eina dóttur, þau slitu samvistum.
Maki 2: Ólöf Pálína Úlfarsdóttir, þau eignuðust einn son, þau skildu.

Ingólfur Arnarson (1959-

  • S01897
  • Person
  • 15.12.1959

Foreldrar: Örn Friðhólm Sigurðsson og Erla Ásgrímsdóttir. Kvæntur Kristínu Jónsdóttir frá Hellulandi.

Halldóra Helgadóttir (1945-

  • S01898
  • Person
  • 25.11.1945-

Foreldrar: Sigríður Björg Ögmundsdóttir og Helgi Einarsson. Halldóra er kvænt Ingimari Pálssyni, þau eiga þrjú börn. Búsett á Sauðárkróki.

Ólafur Sigmar Pálsson (1938-

  • S01899
  • Person
  • 25.05.1938-

Frá Starrastöðum, sonur Guðrúnar Kristjánsdóttur og Páls Gísla Ólafssonar. Kvæntist Hjörtínu Dóru Vagnsdóttur, þau eignuðust tvö börn. Búsettur á Sauðárkróki.

Kristján Skarphéðinsson (1922-1988)

  • S01900
  • Person
  • 1. júlí 1922 - 7. apríl 1988

Fósturbarn á Síðumúlaveggjum í Stafholtstungum í Borgarfirði árið 1930. ,,Kristján lærði ungur bifvélavirkjun og fluttist til Sauðárkróks, þar sem hann starfaði síðan, fyrst sem bifvélavirki og verkstæðisformaður, en gerðist síðar verslunarstjóri og kaupmaður í Matvörubúðinni, og þar starfaði hann síðan í mörg ár. Kristján var mikill félagsmálamaður. Lengi starfaði hann í Leikfélagi Sauðárkróks, og um langt skeið var hann helsti forvígismaður leiklistar á staðnum, og lék iðulega helstu hlutverk í ýmsum meiri háttar leikverkum við mikla hrifningu áhorfenda.Hann rak samkomuhúsið Bifröst um árabil og var þátttakandi í ýmsum klúbbum og félögum á staðnum."
Kristján var tvíkvæntur: Fyrir konu sína, Margréti, missti hann eftir fárra ára sambúð, þau áttu einn kjörson. Seinni kona hans var Erna Jónsdóttir, þau eignuðust einn son.

Arnfríður Arnardóttir (1958-

  • S01901
  • Person
  • 15.04.1958-

Dóttir Arnar Friðhólm Sigurðssonar og G. Erlu Ásgrímsdóttur. Búsett í Lækjarholti fyrir utan Sauðárkrók.

Bragi Skagfjörð Haraldsson (1942-

  • S01902
  • Person
  • 27.04.1942

Sonur Haraldar Bjarna Stefánssonar og k.h. Jóhönnu Gunnarsdóttur í Brautarholti. Trésmiður og húsvörður á Sauðárkróki.

Gunnar Þórir Guðjónsson (1945-2020)

  • S01903
  • Person
  • 7. júlí 1945 - 3. okt. 2020

Sonur Guðjóns Sigurðssonar bakara á Sauðárkróki og k.h. Ólínu Ingibjargar Björnsdóttur. Bakarameistari. Lengi búsettur á Sauðárkróki, síðar í Reykjavík.

Jón Eðvald Friðriksson (1954-

  • S01904
  • Person
  • 23.10.1954-

Sonur Friðriks Jóns Jónssonar (Fía) og Þóru Friðjónsdóttir. Fyrrum framkvæmdarstjóri Fiskiðjunnar á Sauðárkróki. Kvæntur Lindu Haraldsdóttur.

Kjartan Erlendsson (1949-

  • S01905
  • Person
  • 09.09.1949

Frá Bólstaðarhlíð í Au-Hún. Kvæntur Stefaníu Ósk Stefánsdóttur. Búsettur á Sauðárkróki.

Elsa Jónsdóttir (1942-

  • S01906
  • Person
  • 26.03.1942-

Dóttir Jóns Eðvalds Guðmundssonar og 2.k.h. Guðbjargar Magnúsdóttur. Starfaði sem bæjarritari á Sauðárkróki.

Þorsteinn Lárus Vigfússon (1927-1995)

  • S01907
  • Person
  • 31. júlí 1927 - 24. júní 1995

Þorsteinn Lárus Vigfússon fæddist á Sunnuhvoli í Vopnafirði 31. júlí 1927. ,,Þorsteinn byrjaði snemma til sjós og var alla tíð sjómaður, hann stundaði sjómennsku frá Vopnafirði framan af. Einnig fór hann á vertíðir eins og allmargir gerðu á þeim árum. Var hann meðal annars á sjó á Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Þorsteinn keypti síðan bát með bróður sínum og stundaði sjó á þeim bát þar til hann fluttist á Sauðárkrók. Þar stundaði hann ýmsa vinnu í landi s.s. á Verkstæði KS og í Fiskiðjunni." Hann kvæntist Guðrúnu Svavarsdóttur, þau eignuðust fimm börn.

Sigurður Pálsson (1937-

  • S01912
  • Person
  • 26.04.1937-

Sonur Páls Sigurðssonar og Önnu Gunnlaugsdóttur á Hofi í Hjaltadal. Seinna lögreglumaður í Reykjavík. Búsettur á Sauðárkróki.

Páll Þorgrímsson (1893-1965)

  • S01913
  • Person
  • 25. mars 1893 - 5. maí 1965

Foreldrar: Þorgrímur Kristjánsson b. í Enni og Tumabrekku í Óslandshlíð og k.h. Goðmunda Brynhildur Sigmundsdóttir. Páll missti föður sinn þegar hann var átta ára gamall og fylgdi móður sinni eftir það. Þau bjuggu í Grafarósi, í Gröf á Höfðaströnd, Hofsósi og víðar. Páll hóf að stunda sjó um 16 ára aldur og var m.a. á hákarlaskipi sem gert var út frá Siglufirði. Einnig var hann um skeið með sænskum á hvalfangara. Hann reri frá Dalvík þrjú ár og var um tími formaður á fiskibáti þaðan, stundaði einnig um skeið Drangeyjarútgerð á vegum Gránufélagsverslunarinnar. Hann var einn fyrsti vörubílstjóri í héraðinu og keypti fyrsta traktorinn í Skagafirði árið 1929. Búsettur á Sauðárkróki frá 1925 og vann þar ýmis störf. Árin 1948-1960 starfaði hann sem húsvörður við Barnaskóla Sauðárkróks. Páll sat í stjórn Vmf. Fram um skeið og starfaði mikið í ungmennafélaginu Tindastóli og Búnaðarfélagi Sauðárkróks. Páll kvæntist Pálínu Bergsdóttur úr Laxárdal, þau eignuðust fimm börn.

Haukur Skagfjörð Jósefsson (1937-1999)

  • S01915
  • Person
  • 6. jan. 1937 - 21. okt. 1999

Haukur Skagfjörð Jósefsson fæddist á Sauðárkróki 6. janúar 1937. Foreldrar hans voru Elín Aðalbjörg Jóhannesdóttir og Jósef Stefánsson. ,,Haukur lærði húsgagnasmíði hjá Helga Einarssyni í Reykjavík og húsasmíði hjá föður sínum sem rak Trésmiðjuna Björk á Sauðárkróki." Árið 1959 kvæntist Haukur Guðrúnu Stefánsdóttur Hjaltalín, þau eignuðust fjögur börn.

Sigfús Jón Árnason (1938-

  • S01918
  • Person
  • 20.04.1938-

Sigfús fæddist á Sauðárkróki. Sonur hjónanna Árna Gíslasonar og Ástrúnar Sigfúsdóttur. Sigfús lærði til prests og vígðist til Miklabæjar í Skagafirði 1965. Hann þjónaði síðan að Hofi í Hofsárdal í Vopnafirði í aldarfjórðung. Nú búsettur í Grafarvogi í Reykjavík.

Ævar Sigurþór Ingólfsson (1939-2019)

  • S01919
  • Person
  • 27. nóv. 1939 - 21. maí 2019

Sonur Guðrúnar Sigurðardóttur frá Sauðárkróki og Ingólfs Lárussonar frá Hnitbjörgum í Jökulsárhlíð. Guðrún og Ingólfur voru ekki kvænt. Guðrún kvæntist síðar Þórhalli Traustasyni b. á Hofi í Hjaltadal. Árið 1944 missti hún heilsuna og lést svo 1948. Ævar ólst upp á Sauðárkróki frá fimm ára aldri hjá móðurforeldrum sínum Sigurði Jósafatssyni og Þórönnu Magnúsdóttur. Vélvirki, síðast búsettur í Kópavogi.

Stefán Þór Bjarnason (1957-2018)

  • S01921
  • Person
  • 9. ágúst 1957 - 31. des. 2018

Foreldrar: Bjarni Ingibergur Sigfússon frá Syðri-Brekkum og Gunnlaug Margrét Stefánsdóttir frá Gautastöðum í Fljótum. Stefán Þór var bóndi á Neðra-Hóli, Staðarsveit, k.h. Álfheiður Arnardóttir, þau eignuðust þrjú börn.

Sigurberg Hraunar Daníelsson (1942-

  • S01922
  • Person
  • 15.10.1942

Sonur Laufeyjar Magnúsdóttur í Enni í Viðvíkursveit og Daníels Einarssonar. Laufey kvæntist síðar Kristjáni Einarssyni b. í Enni. Verslunarmaður á Sauðárkróki síðar Kópavogi. Kvæntist Oddrúnu Guðmundsdóttur, þau eignuðust fjögur börn.

Guðmann Tóbíasson (1935-2012)

  • S01923
  • Person
  • 29.04.1935-04.06.2012

Guðmann Tobíasson fæddist í Geldingaholti í Seyluhreppi 29. apríl 1935. Foreldrar hans voru Tobías Sigurjónsson bóndi í Geldingaholti og Kristín Gunnlaugsdóttir frá Ytri-Kotum í Norðurárdal. Árið 1958 giftist Guðmann Marsibil Þórðardóttur, þau eignuðust tvær dætur. ,,Guðmann stundaði nám í búfræðum við Hólaskóla árin 1953-1954. Hann kynntist eiginkonu sinni á Löngumýrarskóla, þar sem hún stundaði nám veturinn 1956-1957. Guðmann og Marsibil hófu búskap á Sauðárkróki 1959, Árið 1958 hóf hann störf hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, þar vann hann hin ýmsu störf, þar á meðal í fóðurdeild, mjólkursamlagi og byggingavörudeild. Árið 1968 fluttust þau í Varmahlíð og hóf hann störf sem útibússtjóri í Kaupfélaginu og starfaði hann þar til 1994 þegar þau fluttust á Sauðárkrók þar sem hann vann áfram hjá Byggingavörudeild Kaupfélagsins á Eyrinni til sjötugs. Guðmann var virkur í öllum félagsmálum, sem dæmi var hann í Hreppsnefnd Seyluhrepps frá 1978 til 1994, Lionsklúbbi Sauðárkróks, Framsóknarfélagi Skagafjarðar og Karlakórnum Heimi frá 1970 til 2010."

Marsibil Þórðardóttir (1937-

  • S01924
  • Person
  • 15. ágúst 1937 - 29. ágúst 2013

Marsibil Þórðardóttir fæddist á Akranesi 15. ágúst 1937. ,,Marsibil ólst upp á Akranesi, að loknum grunnskóla fór hún að vinna á Sjúkrahúsinu á Akranesi, um haustið 1956 fór hún í Húsmæðraskólann á Löngumýri og var þar til loka árs 1957. Þar kynntist hún eiginmanni sínum Guðmanni Tobíassyni frá Geldingarholti og fluttu þau suður á Akranes að loknum húsmæðraskólanum, ekki var dvölin þar löng og fluttu þau aftur norður í byrjun árs 1959 og nú á Sauðárkrók, þar vann hún í Efnalaug Sauðárkróks. Árið 1968 fluttust þau í Varmahlíð þar sem hún fór að vinna hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Árið 1994 fluttust þau hjónin til Sauðárkróks þar sem hún vann áfram hjá Kaupfélaginu, en nú í Skagfirðingabúð, þar sem hún vann til 67 ára aldurs. Marsibil var einn af stofnendum Lionsklúbbsins Bjarkar og starfaði þar til æviloka. Þá var hún virkur félagi í Kvenfélagi Seyluhrepps til fjölda ára og starfaði með Leikfélagi Skagfirðinga og kirkjukór Víðimýrarsóknar um árabil." Guðmann og Marsibil eignuðust tvær dætur.

Oddrún Guðmundsdóttir (1936-2001)

  • S01925
  • Person
  • 10. feb. 1936 - 8. ágúst 2001

Oddrún Sigurlaug Guðmundsdóttir fæddist á Giljum í Vesturdal í Skagafirði hinn 10. febrúar 1936. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Jónsson og Ingibjörg Jónsdóttir. Guðmundur og Ingibjörg bjuggu síðar á Hofi í Vesturdal, í Hvammi í Svartárdal og í Stapa í Lýtingsstaðahreppi. Oddrún giftist 8. ágúst 1964 Sigurbergi Hraunari Daníelssyni deildarstjóra, þau eignuðust fjögur börn. ,,Oddrún lauk prófi frá Gagnfræðaskólanum á Sauðárkróki og Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni 1962. Hún vann við verslunarstörf á Sauðárkróki og kenndi síðan um árabil sund í Sundlaug Kópavogs."

Jóhannes Gunnarsson (1943-2008)

  • S01926
  • Person
  • 16. feb. 1943 - 8. feb. 2008

Jóhannes Gunnarsson fæddist á Sauðárkróki 16. febrúar 1943. Foreldrar hans voru Rannveig Ingibjörg Þorvaldsdóttir tryggingafulltrúi og Gunnar Stefánsson skipstjóri. ,,Jóhannes ólst upp og kláraði skólagöngu sína á Sauðárkróki, fór í Samvinnuskólann á Bifröst og útskrifaðist þaðan 1962. Hann vann við verslunarstörf fyrstu árin á Sauðárkróki, Skagaströnd og á Blönduósi. Jóhannes var skrifstofumaður í Reykjavík hjá Járni og gleri, stofnaði Heildverslunina Hraðberg, var fjármálastjóri hjá S. Óskarssyni og síðar framkvæmdastjóri hjá Sverri Þóroddssyni. Frá árinu 1990 vann hann sem tollendurskoðandi hjá Tollstjóranum í Reykjavík. Jóhannes var félagi í Kiwanisklúbbnum Kötlu frá 1978-1981 og frá árinu 2001." Jóhannes kvæntist Guðrúnu Jónu Kristjánsdóttur, þau eignuðust tvo syni.

Ragnhildur Guðrún Lúðvíksdóttir (1938-

  • S01927
  • Person
  • 18. feb. 1938-

Foreldrar hennar voru Lúðvík Hjálmarsson bankastarfsm. á Sauðárkróki og Hulda Björnsdóttir. Ragnhildur kvæntist Ásgrími Helgasyni, þau eignuðust þrjú börn.

Jófríður Tobíasdóttir (1939-

  • S01928
  • Person
  • 4. sept. 1939-

Dóttir Tóbíasar Sigurjónssonar og Kristínar Gunnlaugsdóttur bænda í Geldingaholti. Kvæntist Björgvini Jónssyni frá Ási í Hegranesi, þau eignuðust tvo syni. Búsett á Sauðárkróki.

Rögnvaldur Ólafsson (1919-2007)

  • S01929
  • Person
  • 10. des. 1919 - 25. mars 2007

Rögnvaldur Þorsteinn Guðlaugur Ólafsson, eða Valdi rakari eins og hann var yfirleitt kallaður, fæddist á Siglufirði 10. desember 1919. ,,Rögnvaldur lærði hárskeraiðn á Siglufirði hjá Jónasi rakara. Hann flutti til Sauðárkróks 1946 og þar kynntist hann konu sinni Dóru Ingibjörgu Magnúsdóttur, þau eignuðust fimm börn saman, fyrir átti Rögnvaldur son. Rögnvaldur vann lengst af við rakaraiðn en einnig hjá trésmiðjunni Borg, Kaupfélagi Skagfirðinga og við önnur ýmis störf.

Sigrún Halldórsdóttir (1942-2015)

  • S01930
  • Person
  • 30. maí 1942 - 13. maí 2015

Sigrún Gísla Halldórsdóttir fæddist 30. maí 1942 á Halldórsstöðum í Seyluhreppi. Foreldrar hennar voru hjónin á Halldórsstöðum, Halldór Gíslason og Guðrún Sigurðardóttir. ,,Sigrún ólst upp í foreldrahúsum á Halldórsstöðum við öll almenn sveitastörf. Sem unglingur var hún í barnapössun innan sveitarinnar. Þá vann hún tímabundið við mötuneyti á ýmsum stöðum, svo sem í Skógaskóla og Vestmannaeyjum. Hún vann við símstöðina í Varmahlíð og fleiri störf hjá Lindermann, sem rak þar hótel, bensínsölu ásamt fleiru. Þá vann hún á nokkrum stöðum á Sauðárkróki svo sem í eldhúsinu á sjúkrahúsinu, við afgreiðslustörf í verslun Haraldar Júlíussonar, Matvörubúðinni og í vefnaðarvörudeild Kaupfélags Skagfirðinga. Hún var í nokkur ár verkstjóri í unglingavinnunni á vegum sveitarfélagsins. Þá var hún í allmörg ár starfsmaður Sauðárkrókskirkju sem aðstoðarmaður við athafnir og umsjón á þrifum á kirkju og safnaðarheimili, en hafði svo yfirumsjón með kirkjugarðinum allt til starfsloka í september 2011. Þá hafði hún til margra ára ásamt eiginmanni sínum umsjón með föndri eldri borgara á Sauðárkróki. Sigrún hafði gaman af söng og starfaði með Kirkjukór Glaumbæjarsóknar í mörg ár. Hún var virkur félagi í Sálarrannsóknarfélagi Skagafjarðar. Þá var hún alla sína ævi frístundabóndi og átti bæði kindur og hesta." Þann 17. júní 1967 giftist Sigrún Sverri Sigurðssyni Svavarssyni, frá Sauðárkróki, þau eignuðust tvö börn saman, fyrir átti Sverrir þrjá syni.

Jón Stefánsson (1897-1994)

  • S01931
  • Person
  • 18. mars 1897 - 28. jan. 1994

Sonur Stefáns Bjarnasonar b. á Halldórsstöðum og k.h. Aðalbjargar Magnúsdóttur. Bóndi í Glæsibæ 1930. Síðar bóndi í Geldingaholti. Síðast búsettur á Sauðárkróki. Kvæntist Margréti Jóhannsdóttur.

Jón Kristjánsson (1942-

  • S01932
  • Person
  • 11. júní 1942-

Fæddur í Stóragerði í Óslandshlíð í Skagafirði 11. júní 1942. Foreldrar: Kristján Jónsson bóndi þar og síðar á Óslandi og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir. Maki (25. desember 1964): Margrét Hulda Einarsdóttir bankastarfsmaður. Jón lauk samvinnuskólaprófi 1963. ,,Stundaði verslunarstörf hjá Kaupfélagi Skagfirðinga 1959–1963. Verslunarstjóri hjá Kaupfélagi Héraðsbúa á Egilsstöðum 1963–1978. Félagsmálafulltrúi Kaupfélags Héraðsbúa 1978–1984. Skipaður 14. apríl 2001 heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, lausn 23. maí 2003. Skipaður 23. maí 2003 heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, lausn 7. mars 2006. Skipaður 7. mars 2006 félagsmálaráðherra, lausn 15. júní 2006. Ritstjóri Austra á Egilsstöðum síðan 1974. Í sýslunefnd Suður-Múlasýslu 1974–1987. Formaður stjórnar Héraðsskjalasafns Austfirðinga 1975–1988. Þingkjörinn endurskoðandi Framkvæmdastofnunar ríkisins 1974–1983. Stjórnarformaður Kaupfélags Héraðsbúa 1987–1995. Í miðstjórn Framsóknarflokksins frá 1985. Í Norðurlandaráði 1990–1991. Fulltrúi Íslands í Þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsríkjanna 1985–1987. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1989 og afvopnunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1988. Varaformaður Ferðamálaráðs síðan 1999. Í stjórnarskrárnefnd frá 2005, formaður. Alþingismaður Austurlans 1984–2003, alþingismaður Norðausturkjördæmis 2003–2007 (Framsóknarflokkur). Varaþingmaður Austurlands apríl 1979, apríl 1981, febrúar–mars og nóvember 1982, október–nóvember 1983, apríl, maí, nóvember og desember 1984. Forseti neðri deildar 1987–1988. 2. varaforseti Alþingis 2006–2007." Sat einnig í fjöldamörgum öðrum nefndum og ráðum.

Jón Kristberg Árnason (1942-)

  • S01933
  • Person
  • 25. nóv. 1942-

Sonur Hallfríðar Báru Jónsdóttur frá Hóli í Sæmundarhlíð og Árni Jónsson frá Vatni á Höfðaströnd. Jón er alinn upp á Víðimel við Varmahlíð. Bifreiðastjóri á Sauðárkróki. Kvæntist Sólbrúnu Friðriksdóttur, þau eignuðust þrjú börn.

Anna Ingibjörg Jónsdóttir (1872-1960)

  • S01944
  • Person
  • 6. júlí 1872 - 19. des. 1960

Foreldrar: Jón Gíslason síðast b. á Þorleifsstöðum í Blönduhlíð og s.k.h. Hólmfríður Skúladóttir frá Krossi í Óslandshlíð. Anna lærði karlafatasaum á yngri árum hjá Ingibjörgu Pétursdóttur klæðskera á Sauðárkróki og var eftirsótt til þess starfs fram á efri ár. Einnig var hún vetrartíma hjá frú Sigríði Jónsdóttur á Reynistað við nám. Árið 1902 kvæntist Anna Jónasi Jónassyni (Hofdala-Jónasi), þau bjuggu í Grundarkoti 1903-1907, á Uppsölum 1907-1912, á Vöglum 1912-1918, á Óslandi 1918-1923, að Syðri-Hofdölum 1923-1936 er þau fluttu til Sauðárkróks. Anna og Jónas eignuðust þrjár dætur.

Rannveig Lilja Helgadóttir (1960-

  • S01947
  • Person
  • 06.03.1960-

Dóttir Ingu Valdísar Tómasdóttur og Helga Rafns Traustasonar. Kvænt Viggó Jónssyni. Nuddari og verslunareigandi á Sauðárkróki.

Trausti Jóel Helgason (1958-

  • S01948
  • Person
  • 21.10.1958-

Sonur Ingu Valdísar Tómasdóttur og Helga Rafns Traustasonar. Búsettur á Sauðárkróki.

Ásta Jónsdóttir (1909-1975)

  • S01966
  • Person
  • 10. okt. 1909 - 30. júní 1975

Foreldrar: Jón G. Erlendsson b. á Marbæli og k.h. Anna Rögnvaldsdóttir. Ásta ólst upp hjá foreldrum sínum á Marbæli. Hún var vetrartíma á unglinganámskeiði á Hólum og tvo vetrarparta við hússtörf í Reykjavík hjá Guðrúnu Lárusdóttur. Samkvæmt Íslendingabók var Ásta námsmey á Akureyri árið 1930. Árið 1939 kvæntist hún Ólafi Jónssyni ráðunaut frá Nautabúi á Neðribyggð. Þau bjuggu á Felli í Sléttuhlíð 1938-1941 og í Stóragerði 1945-1949 er Ólafur lést. Þá flutti Ásta til Sauðárkróks með börn þeirra. Árið 1956 fluttist hún til Reykjavíkur til að skapa börnum sínum meiri möguleika til menntunar. Sonurinn Jón hafði fengið heilahimnubólgu barn að aldri, sem varð þess valdandi að hann varð heyrnarlaus. Þar sem ekki voru þá skilyrði fyrir hann til framhaldsnáms eftir Heyrnleysingjaskólann á Íslandi kom hún honum í iðnnám í Noregi, og þar settist hann að. Ásta starfaði sem matráðskona hjá Landsíma Íslands í Reykjavík. Þau Ólafur eignuðust fjögur börn.

Haraldur Hermannsson (1923-2014)

  • S01972
  • Person
  • 22. apríl 1923 - 3. apríl 2014

Haraldur fæddist á Ysta-Mói í Fljótum og ólst þar upp. Faðir: Hermann Jónsson, bóndi og hreppstjóri á Ysta-Mói (1891-1974). Móðir: Elín Lárusdóttir (1890-1980) húsfreyja á Ysta-Mói. Eftir barna- og unglingaskóla í Fljótum hélt Haraldur til náms við Héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði og var þar einn vetur. Haraldur hóf búskap á Ysta-Mói ásamt konu sinni árið 1947 og bjó þar í félagi við foreldra sína. Þau hættu búskap 1973 þegar elsti sonur hans tók við búinu. Haraldur flutti þá í Haganesvík þar sem hann tók við starfi kaupfélagsstjóra Samvinnufélags Fljótamanna ásamt því að sjá um póstafgreiðslu fyrir sveitina. Hann var kaupfélagsstjóri til ársins 1977 en þá var Samvinnufélag Fljótamanna sameinað Kaupfélagi Skagfirðinga og starfsemin flutt að Ketilási. Haraldur vann svo hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, fyrst að Ketilsási og síðan hjá byggingarvörudeild Kaupfélagsins á Sauðárkróki en þangað flutti hann 1979. Haraldur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, var m.a. hreppstjóri Haganeshrepps 1970-82, hreppsnefndarmaður, sýslunefndarmaður, í stjórn Búnaðarsambands Skagafjarðar og formaður jarðanefndar Skagafjarðarsýslu, ásamt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum. Haraldur sinnti auk þess ýmsum félags- og íþróttamálum, t.d. formennsku í Skíðafélagi Fljótamanna um árabil, formennsku fyrir Veiðifélag Flókadalsár, ásamt ýmsum öðrum félagsstörfum. Hann var mikill áhugamaður um skák. Haraldur kvæntist 29.12. 1946 Guðmundu Pálínu Hermannsdóttur, þau eignuðust níu börn.

Hörður Guðmundsson (1928-1987)

  • S01975
  • Person
  • 23. mars 1928 - 22. ágúst 1987

Sonur Hólmfríðar Jónasdóttur, verkakonu og skáldkonu frá Hofdölum, og Guðmundar Jósafatssonar, verkamanns frá Krossanesi. Uppvaxtarár sín dvaldi Hörður að mestu í foreldrahúsum á Sauðárkróki. Sjómaður og vélgæslumaður á Sauðárkróki. Þá vann hann einnig við hin ýmsu störf í landi lengi hjá Kaupfélagi Skagfirðinga sem afgreiðslumaður og síðustu árin sem afgreiðslumaður hjá ÁTVR á Sauðárkróki. Einnig hljóðfæraleikari. Kvæntist Sólborgu Valdimarsdóttur, þau eignuðust tvær dætur.

Jónas Þór Pálsson (1930-2016)

  • S01976
  • Person
  • 15. apríl 1930 - 28. nóv. 2016

Jónas Þór Pálsson málarameistari fæddist í Syðri-Hofdölum í Skagafirði 15. apríl 1930. Foreldrar hans voru Þórdís Jónasdóttir skáld og Páll Þorkelsson verkamaður. Jónas Þór ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, Jónasi Jónassyni frá Hofdölum (Hofdala-Jónasi) og Önnu Ingibjörgu Jónsdóttur. ,,Jónas Þór hleypti heimdraganum ungur og fór í siglingu til Evrópu og skoðaði sig um í nokkrum löndum. Þegar heim kom settist hann á skólabekk í Iðnskólanum í Reykjavík og nam málariðn og síðar fór hann í meistaranám í sömu grein. Hann stofnaði eigið fyrirtæki á Sauðárkróki, sem hét Fyllir, ásamt félaga sínum Hauki Stefánssyni. Þeir áttu farsælt samstarf í tugi ára og sáu um allt viðhald húsa á Króknum. Listagyðjan átti ætíð stóran sess í hjarta Jónasar Þórs. Hann vann í fjölda ára með Leikfélagi Sauðárkróks og Leikfélagi Akureyrar sem leiktjaldahönnuður og smiður, einnig sem sminka. Hann var tónelskur og starfaði í mörgum hljómsveitum, má þar m.a. nefna HG kvartett, Flamingó og hljómsveit Hauks Þorsteinssonar. Hin síðari ár sneri Jónas Þór sér meira að málaralistinni en hann málaði myndir fyrir vini og fjölskyldu og hélt nokkrar málverkasýningar." Jónas Þór kvæntist Erlu Gígju Þorvaldsdóttur frá Sauðárkróki, þau eignuðust tvær dætur, fyrir átti Jónas son.

Þórður Eyjólfsson (1927-

  • S01984
  • Person
  • 22.06.1927-

Bifreiðastjóri, áður búsettur í Stóragerði í Óslandshlíð, nú á Sauðárkróki. Kvæntist Jörgínu Þóreyju Jóhannsdóttur, þau eignuðust fjögur börn.

Kjartan Haraldsson (1928-1975)

  • S01986
  • Person
  • 18. sept. 1928 - 22. okt. 1975

Sonur Haraldar Jóhannessonar síðast b. á Bakka í Viðvíkursveit og k.h. Önnu Bergsdóttur. Kjartan fæddist á Frostastöðum í Blönduhlíð, þegar hann var 15 ára fluttu foreldrar hans að Unastöðum í Kolbeinsdal. Kvæntist Maríu Hermannsdóttur frá Lóni í Viðvíkursveit, þau bjuggu bæði í Gröf á Höfðaströnd og á Miklabæ í Óslandshlíð en síðast á Sauðárkróki þar sem Kjartan starfaði sem bifreiðastjóri. Kjartan og María eignuðust einn son.

Sigfús Jónsson (1866-1937)

  • S02000
  • Person
  • 24. ágúst 1866 - 8. júní 1937

Foreldrar: Jón Árnason b. á Víðimýri og k.h. Ástríður Sigurðardóttir. Sigfús lauk prófi frá prestaskólanum árið 1888 og var næsta vetur við barnakennslu á Sauðákróki. Prestur að Hvammi í Laxárdal 1889-1900 og að Mælifelli 1900-1919, þjónaði jafnframt Goðdalaprestakalli 1904-1919 en það var sameinað Mælifellsprestakalli 1907. Er hann lét af embætti, fluttist hann til Sauðárkórks og varð framkvæmdastjóri Kaupfélags Skagfirðinga og gegndi því starfi til æviloka með miklum myndarbrag. En áður hafði hann verið formaður Pöntunarfélagsins, sem kaupfélagið er risið upp af, um sex ár samhliða preststarfinu og enn fyrr í stjórn þess í 6 ár. Sr. Sigfús rak stórt og myndarlegt bú á Mælifelli. Á opinberum vettvangi gegndi hann ýmsum störfum. Hann var sýslunefndarmaður 1894-1900, hreppsnefndaroddviti 1890-1900 og átti sæti í hreppsnefnd 1904-1916. Alþingismaður Skagfirðinga var hann 1934-1937. Formaður fræðslunefndar um nokkur ár. Endurskoðandi sparisjóðs Sauðárkróks frá 1908. Í stjórn SÍS var hann og í nokkur ár. Kvæntist Petreu Þorsteinsdóttur, þau eignuðust sex börn.

Ingimundur Árnason (1923-2017)

  • S02006
  • Person
  • 9. ágúst 1923 - 27. jan. 2017

Ingimundur Árnason fæddist í Ketu í Hegranesi 9. ágúst 1923. Ingimundur giftist árið 1950 Baldvinu Ásgrímsdóttur frá Syðra-Mallandi á Skaga. Ingimundur og Baldvina hófu búskap í Ketu í Hegranesi árið 1950, þau eignuðust tvö börn. Baldvina lést árið 1960 en Ingimundur bjó áfram í Ketu ásamt börnum sínum til ársins 1974 er hann fluttist til Sauðárkróks. Þar starfaði hann fyrst sem olíubílstjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og við ýmis önnur störf. Vorið 1982 keypti hann jörðina Laufskála í Hjaltadal og flutti þangað með sambýliskonu sinni, Maríu Hermannsdóttur frá Lóni í Viðvíkursveit. María lést árið 1985, þá flutti Ingimundur aftur á Sauðárkrók og bjó þar síðan, starfaði lengst af sem vörubílstjóri.

Sigrún Ásbjörg Fannland (1908-2000)

  • S02012
  • Person
  • 29. maí 1908 - 14. mars 2000

Sigrún Ásbjörg Fannland fæddist á Ingveldarstöðum á Reykjaströnd í Skagafirði 29. maí 1908. Móðir hennar var Anna Guðrún Sveinsdóttir og faðir hennar Hálfdán Kristjánsson. Fósturforeldrar hennar voru Ingibjörg Björnsdóttir og Guðmundur Sigurðsson á Innstalandi á Reykjaströnd. Sigrún giftist Páli Sveinbjörnssyni frá Kjalarlandi í Austur-Húnavatnssýslu 14. apríl 1931. Þau skildu. Þau áttu sex börn. Sigrún flutti til Keflavíkur árið 1961. Hún vann bæði við fiskvinnslu og afgreiðslustörf hjá Kaupfélagi Suðurnesja. Hún gaf út ljóðabókina "Við arininn" árið 1979. Síðustu tvö árin dvaldi hún á Hlévangi, dvalarheimili aldraðra í Keflavík.

Salóme Pálmadóttir (1884-1957)

  • S02013
  • Person
  • 7. nóv. 1884 - 21. apríl 1957

Foreldrar: Pálmi Jónsson b. á Ytri-Löngumýri og Ingibjörg Eggertsdóttir frá Skefilsstöðum á Skaga. Salóme ólst upp hjá foreldrum sínum á Ytri-Löngumýri, stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík um tíma. Hún var afar trúuð og starfaði um tíma með Hvítasunnusöfnuðinum á Sauðárkróki. Kvæntist Þorvaldi Guðmundssyni, þau bjuggu fyrst að Ytri-Löngumýri, síðan að Þverárdal í Laxárdal fremri og í Mörk í sömu sveit. Árin 1915-1920 bjuggu þau á Sauðárkróki en í Brennigerði í Borgarsveit 1920-1930, er þau fluttu aftur til Sauðárkróks og bjuggu þar síðan, þau eignuðust fjögur börn.

Benedikt Jónsson (1863-1938)

  • S02014
  • Person
  • 1. mars 1863 - 4. ágúst 1938

Foreldrar Benedikts voru Jón Benediktsson bóndi á Hólum og Sigríður Halldórsdóttir prófasts á Sauðanesi í Þingeyjarþingi, Björnssonar. Benedikt ólst upp hjá foreldrum sínum og naut þeirrar menntunar er þá gerðist og veitt var "betri manna börnum". Hafði Benedikt prófastur afi hans, gefið sonarsyni sínum Hóla með Hofi eftir sinn dag, en hann andaðist 28. apríl 1868. Um 1880 var fjárhagur Jóns, föður Benedikts þröngur og var það samkomulag þeirra að bjóða Hólaeignina til sölu. Í þann tíma var áhugi fyrir að stofna búnaðarskóla á Norðurlandi. Varð það úr að Skagafjarðarsýsla keypti Hóla með Hofi á 13. þúsund krónur. Hugðist Benedikt nú leita sér frekara náms en hann hafði áður notið. Varð hann lærlingur hjá sr. Árna Þorsteinssyni presti á Ríp árið 1882 til að nema tungumál. Þótti hann fremur laus í ráði og hafði hann meiri áhuga á konuefni sínu, Þorbjörgu Árnadóttur frá Stokkhólma. Voru þau í húsmennsku á Syðri Brekkum 1883, en töldust þó hafa jarðarhluta á móti Sigtryggi bónda Jónatanssyni. Fluttust svo að Hofi í Hjaltadal og voru þar í sambýli við föður Benedikts 1884-1886. Brugðu þá búi og fluttust til Sauðárkróks. Var fjárhagur þá þröngur og Benedikt lítt vanur kaupstaðavinnu. Lauk verunni þar með hjónaskilnaði. Fór hann með eldri dóttur þeirra 1887 til Vesturheims, en hún réðst í vistir með yngri dótturina. Benedikt var síðar allvíða í Kanada og Norður Dakota og hafði litla staðfestu til langdvalar á sama stað en dvaldist síðast í Riverton, hann drukknaði þar í Íslendingafljóti. Benedikt og Þorbjörg eignuðust tvær dætur.
Seinni kona Benedikts, kvænt í Vesturheimi, var Kristín Baldvinsdóttir frá Skeggjastöðum í N-Múlasýslu, þau eignuðust fjögur börn.

Aðalbjörg Vagnsdóttir (1893-1951)

  • S02015
  • Person
  • 14. feb. 1893 - 16. ágúst 1951

Foreldrar: Vagn Eiríksson b. í Miðhúsum í Blönduhlíð og k.h. Þrúður Jónsdóttir. Faðir hennar lést þegar hún var aðeins fimm ára gömul, móðir hennar bjó áfram í Miðhúsum með börnin í tvö ár en var eftir það í húsmennsku. Kvæntist Kristjáni R. Gíslasyni frá Grundarkoti í Blönduhlíð, þau bjuggu á Minni-Ökrum frá 1914-1927 er þau fóru í húsmennsku að Bjarnastöðum í Blönduhlíð. Voru svo í húsmennsku á Bakka í Vallhólmi og á Hjaltastöðum. Fluttu til Sauðárkróks árið 1930. Eftir að þau hættu búskap á Minni-Ökrum var Aðalbjörg ráðskona í vegavinnu hjá Rögnvaldi Jónssyni frá Kotum. Árið 1945 fluttu þau til Reykjavíkur, þau eignuðust sex börn.

Anna Sveinsdóttir Myrdal (1873-1957)

  • S02020
  • Person
  • 18. feb. 1873 - 15. nóv. 1957

Dóttir Sveins Sigvaldasonar í Árbæ á Sauðárkróki og f.k.h. Ingibjargar Hannesdóttur. Fór til Vesturheims með móður sinni árið 1900, var í Winnipeg til 1912 en síðan í Point Roberts, þar kvæntist hún Sigurjóni Sigurðssyni Myrdal og tók upp eftirnafn hans. Anna átti tvíbura systur sem var alnafna hennar (Anna Sveinsdóttir).

Sigríður Kristjánsdóttir (1903-1990)

  • S02025
  • Person
  • 4. júní 1903 - 24. des. 1990

Dóttir Kristjáns Gíslasonar kaupmanns á Sauðárkróki og k.h. Bjargar Sigríðar Önnu Eiríksdóttur. Bjó í Reykjavík.

Results 256 to 340 of 659